20. kafli – Sparisjóður Mýrasýslu

20. Sparisjóður Mýrasýslu

Sparisjóður Mýrasýslu var stofnaður árið 1913 og hóf starfsemi 1. október það ár. Sparisjóðurinn var stofnaður fyrir atbeina sýslunefndar Mýrasýslu, en að frumkvæði Jóhanns Magnússonar bónda á Hamri í Borgarhreppi. Sýslunefndin var frá upphafi ábyrgðaraðili sparisjóðsins og kaus stjórn. Sú tilhögun var ekki algeng því að víðast stóðu ábyrgðarmannahópar að sparisjóðum hérlendis. Þegar sýslufélög voru lögð niður mynduðu sveitarfélögin sem áður stóðu að sýslunefnd Mýrasýslu byggðasamlag um málefni sparisjóðsins, og tók það til starfa árið 1990. Byggðasamlagið kaus þá stjórn sparisjóðsins á árlegum aðalfundi hans.1

Á aðalfundi 3. apríl 1996 var sparisjóðnum breytt úr ábyrgðarmannasjóði í stofnfjársjóð í eigu sveitarfélaga í Mýrasýslu sem þá voru fimm talsins. Borgarhreppur, Álftaneshreppur og Þverárhlíðarhreppur sameinuðust Borgarbyggð árið 1998, en eftir þá sameiningu átti Borgarbyggð 97% stofnfjár í sparisjóðnum og Hvítársíðuhreppur 3%. Árið 2006 tók gildi sameining Hvítársíðuhrepps og Borgarbyggðar, og eftir það var sparisjóðurinn að fullu í eigu Borgarbyggðar. Samkvæmt samþykktum sparisjóðsins kusu viðkomandi sveitarstjórnir tuttugu fulltrúa, eða sparisjóðsaðila, til fjögurra ára setu í senn á aðalfundi sparisjóðsins.2 Þetta fulltrúaráð kaus stjórn sparisjóðsins árlega.

Sparisjóðsstjóri frá 1999 var Gísli Kjartansson. Hann lét af störfum 1. september 2008 og við tók Bernhard Þór Bernhardsson sem gegndi starfinu þar til Sparisjóður Mýrasýslu varð hluti af Nýja Kaupþingi banka hf. (síðar Arion banka hf.) í apríl 2009. Sigurður Már Einarsson var lengst af formaður stjórnar sparisjóðsins, það er tímabilið 2003–2008.

Sparisjóðurinn var alla tíð til húsa í Borgarnesi. Fyrstu árin var hann í leiguhúsnæði en árið 1962 fluttist hann í eigið húsnæði við Borgarbraut.3 Í júní 2005 fluttist sparisjóðurinn svo í nýtt 1.200 fermetra húsnæði við Brúartorg í Borgarnesi. Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. byggði húsið og gerði leigusamning við sparisjóðinn til 30 ára. Borgarbyggð keypti þá gamla sparisjóðshúsið, og fluttist skrifstofa bæjarins þangað. Viðskiptasvæði sparisjóðsins var í fyrstu bundið við Mýrasýslu, en náði fljótt til Borgarfjarðarsýslu innan Skarðsheiðar og síðar um sunnanvert Snæfellsnes. Í marsmánuði 2005 opnaði Sparisjóður Mýrasýslu skrifstofu í Reykjavík og í febrúar 2006 útibú á Akranesi.

Árið 2001 tók Sparisjóður Mýrasýslu þátt í stofnfjáraukningu Sparisjóðs Siglufjarðar sem jók stofnfé sitt vegna erfiðleika í rekstri. Sparisjóður Mýrasýslu eignaðist við aukninguna 41,2% stofnfjár í Sparisjóði Siglufjarðar, og um tveimur árum síðar eignaðist hann allt stofnfé í sparisjóðnum. Í febrúar 2005 eignaðist Sparisjóður Mýrasýslu svo allt stofnfé í Sparisjóði Ólafsfjarðar. Hugmyndin var upphaflega að sameina þessa tvo sjóði og jafnvel að sameina þá Sparisjóði Mýrasýslu. Þeir störfuðu þó áfram undir eigin merkjum og voru þannig dótturfélög Sparisjóðs Mýrasýslu sem var fjórði stærsti sparisjóður landsins í árslok 2006.4

Snemma árs 2008 var ljóst að Sparisjóður Mýrasýslu átti í miklum rekstrar- og eiginfjárvanda, og var uppgefið eiginfjárhlutfall á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins neikvætt í júní 2008. Þá hófust viðræður við helstu lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Áætlun um samruna við Kaupþing banka hf. var komin vel á veg þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans í byrjun október 2008. Eftir fall bankanna sýndi Nýi Kaupþing banki hf. áhuga á að kaupa eða yfirtaka sparisjóðinn. Hinn 3. apríl 2009 tók Fjármálaeftirlitið svo yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Mýrasýslu, og daginn eftir var gerður samningur um kaup Nýja Kaupþings banka hf. á öllum eignum sparisjóðsins. Í kjölfarið voru réttindi og eignir sem tilgreind voru í kaupsamningnum flutt yfir til bankans, þar með talin öll útlán og innlán. Samhliða þessum aðgerðum eignaðist Nýi Kaupþing banki hf. allt stofnfé í Sparisjóði Mýrasýslu. Jafnframt færðist eignarhald á dótturfélögum sparisjóðsins til Nýja Kaupþings banka hf.5 Höfuðstöðvar sparisjóðsins og útibú Nýja Kaupþings banka hf. í Borgarnesi voru sameinuð 27. apríl 2009.

20.1 Ársreikningar 2001–2008

Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Mýrasýslu, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum 2001–2008. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.6 Sparisjóður Mýrasýslu gerði samstæðureikningsskil frá og með árinu 2000. Reikningar samstæðunnar eru hér til umfjöllunar, en jafnframt verður litið til móðurfélagsins, það er Sparisjóðs Mýrasýslu á sínu heimasvæði, þar sem undanskilin eru áhrifin af Sparisjóði Ólafsfjarðar og Sparisjóði Siglufjarðar. Um Sparisjóð Ólafsfjarðar og Sparisjóð Siglufjarðar er fjallað í viðeigandi köflum. Annarra dótturfélaga er getið hér aftar eftir því sem við á, einkum í kaflanum um fjárfestingar sparisjóðsins.

Sparisjóðurinn tók upp reikningsskil samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum (IFRS) árið 2007. Það kallaði á nokkrar tilfærslur í framsetningu hér til þess að reikningar yrðu samanburðarhæfir milli ára. Upptaka reglnanna leiddi til hækkunar á eigin fé sparisjóðsins í ársbyrjun 2007 um rúma 1,7 milljarða króna. Innleiðingin hafði ekki viðlíka breytingu í för með sér hjá nokkrum öðrum sparisjóði.

Breyting frá fyrri reikningsskilaaðferðum hafði veruleg áhrif á samanburðartölurnar frá fyrra ári, þar sem hagnaður ársins 2006 hefði orðið 821 milljón krónum hærri og hefði numið 2,3 milljörðum króna ef gert hefði verið upp samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum. Munurinn lá fyrst og fremst í matshækkun á fjáreignum sem var tekjufærð í rekstrarreikningi, og jafnframt var eignarhlutur sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum, sem færður hafði verið sem hlutdeildarfélag, nú færður á gangvirði. Í ársreikningum voru móðurfélagsreikningar fyrir árin 2007 og 2008 sýndir í viðauka aftan við samstæðureikninginn án skýringa.

Ekki var samið uppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2009, enda var ársreikningur fyrir árið 2008 ekki undirritaður fyrr en 5. maí það ár og sparisjóðurinn þá kominn í eigu Nýja Kaupþings banka hf. Sparisjóður Mýrasýslu skilaði ársreikningi móðurfélags fyrir árið 2009, og áritaði endurskoðandi sparisjóðsins hann með þeim fyrirvara að hann gæfi aðeins glögga mynd af stöðu eigna og skulda í árslok, en rekstrarreikning sparisjóðsins hefði ekki verið unnt að staðfesta með viðunandi hætti. Sá reikningur verður ekki til umræðu hér, enda var sparisjóðurinn þá kominn í eigu Nýja Kaupþings banka hf. frá því í byrjun apríl.

20.1.1 Rekstrarreikningur

Sparisjóður Mýrasýslu var rekinn með hagnaði frá 2001 til 2007. Hagnaður jókst nokkuð stöðugt fram til 2005 þegar hann nær þrefaldaðist. Árið 2006 varð önnur eins aukning þegar hagnaður meira en tvöfaldaðist. Bæði þessi ár var hagnaðurinn borinn uppi af fjárfestingartekjum eða arðs- og hlutdeildartekjum, en þó einkum gengishagnaði af öðrum fjáreignum. Hagnaður ársins 2007 var ekki nema tæplega helmingur á við það sem hann hafði verið árið áður vegna aukins almenns rekstrarkostnaðar og framlags í afskriftareikning útlána. Þá var einnig byrjað að færa flestar fjáreignir sparisjóðsins á gangvirði sem leiddi til samdráttar í hlutdeildartekjum.

Uppgjör samstæðunnar fyrir fyrsta ársfjórðung 2008 sýndi 1,6 milljarða króna tap, hálfsársuppgjörið sýndi tap upp á rúmlega 4,6 milljarða króna, og loks var árið í heild gert upp með 21,2 milljarða króna tapi. Nær allir tekjuliðir drógust saman, einkum afkoma af fjáreignum sem var neikvæð um 5,4 milljarða króna. Framlag í afskriftareikning margfaldaðist einnig og nam 15,7 milljörðum króna samanborið við 579 milljónir króna árið áður. Miðað við fast verðlag nam tapið liðlega fimmfalt hærri fjárhæð en samanlagður hagnaður sparisjóðsins undanfarin tíu ár.

Þar sem rekstrarreikningarnir í töflu 2 eru samstæðureikningar er rekstur Sparisjóðs Siglufjarðar (Afls sparisjóðs árið 2008) frá og með árinu 2003 innifalinn í þeim, sem og rekstur Sparisjóðs Ólafsfjarðar frá 1. apríl 2005. Til að greina áhrif þeirra á samstæðuna þarf að líta til móðurfélagsreikninga Sparisjóðs Mýrasýslu þar sem hlutdeild móðurfélagsins í afkomu dótturfélaga er tilgreind. Þáttur þeirra skipti litlu fyrir afkomu samstæðunnar og eru helstu áhrifin merkjanleg árið 2004 þegar hlutdeild í afkomu Sparisjóðs Siglufjarðar nam tæplega þriðjungi af afkomu samstæðunnar og árið 2007 þegar dóttursparisjóðirnir skiluðu nær fjórðungi af hagnaðinum. Þáttur dóttursparisjóðanna var hins vegar lítill í tapi ársins 2008.

Mynd 1 sýnir glöggt hve tekjur af fjáreignum höfðu mikil áhrif á hreinar rekstrartekjur á árunum 2005–2008. Gengisbreytingar á fjáreignum höfðu mest áhrif, en töluverðra áhrifa gætti af arðs- og hlutdeildartekjum árin 2005 og 2006. Af myndinni sést einnig að hreinar vaxta- og þjónustutekjur breyttust ekki í sama mæli og fjáreignatekjurnar þó hreinar vaxtatekjur hefðu dregist mjög saman árið 2008. Fjárfestingarstarfsemi var þannig orðin miklu umfangsmeiri en kjarnastarfsemi sparisjóðsins í reikningum hans.

Hreinar vaxtatekjur voru stærsti tekjuliður sparisjóðsins frá upphafi tímabilsins og allt til ársins 2006 þegar gengishagnaður af fjáreignum fór langt fram úr þeim. Þetta gilti bæði um samstæðuna og móðurfélagið.

Taflan sýnir nær stöðugan vöxt hreinna vaxtatekna uns þær lækkuðu verulega árið 2008 þegar vaxtagjöld hækkuðu mun meira en vaxtatekjur. Þetta varð með nokkuð öðrum hætti hjá móðurfélaginu því að hreinar vaxtatekjur þess fóru lækkandi eftir 2005 þar sem hlutfall vaxtagjalda móðurfélagsins af vaxtagjöldum samstæðunnar var jafnan hærra en vaxtatekjur móðurfélagsins á móti vaxtatekjum samstæðunnar. Í töflu 5 er sýnd hlutdeild móðurfélagsins í helstu vaxtatekju- og vaxtagjaldaliðum samstæðunnar. Þar má til dæmis sjá að nær öll vaxtagjöld vegna lántöku voru á vegum móðurfélagsins. Bent skal á að þegar hlutföll fara upp fyrir 100%, hefur verið um að ræða milliviðskipti af einhverju tagi innan samstæðunnar.

Vaxtamunur fór lækkandi hjá Sparisjóði Mýrasýslu þessi sex ár eins og hjá sparisjóðunum í heild. Vaxtamunurinn var afgerandi minni hjá móðurfélaginu en samstæðunni, nema á árinu 2008 þegar hann tók kipp upp á við hjá móðurfélaginu. Meðalvextir útlána og meðalvextir innlána hækkuðu samfellt eftir 2003, innlánavextir þó sýnu meira. Þessi litli og minnkandi vaxtamunur hélst í hendur við rýra og yfirleitt neikvæða afkomu af kjarnarekstri sparisjóðsins og skýrir hana á vissan hátt.

Hreinar þjónustutekjur samstæðunnar voru allt tímabilið að mestu upprunnar hjá Sparisjóði Siglufjarðar sem sinnti allt frá árinu 2000 fjarvinnslu fyrir Kaupþing banka. Á árunum 2007 og 2008 voru aðrar rekstrartekjur margfalt hærri en árin á undan. Að hálfu leyti var þar um að ræða innheimtuþóknanir eins af dótturfélögum samstæðunnar, Veitu fjármálaþjónustu hf., sem annars var rekið með tapi bæði árin, 5 milljóna króna tapi árið 2007 og 84 milljóna króna tapi árið 2008.

Arðs- og hlutdeildartekjur meira en tvöfölduðust árið 2006, að langmestu leyti vegna 495 milljóna króna hlutdeildar í afkomu Sparisjóðabankans. Slíkar tekjur urðu óverulegar árið eftir því að við upptöku alþjóðlegra reikningsskilareglna (IFRS) var tekið að færa eignarhlutinn í bankanum sem veltufjáreign á gangvirði. Á árinu 2008 var 222 milljóna króna tap á þessum lið í ársreikningi samstæðunnar; það skýrðist af hlutdeild í tapi tveggja eignarhaldsfélaga sem sparisjóðurinn átti að tæplega helmingi, þ.e. Borgarlands ehf. og Vesturlands ehf. Hið síðarnefnda átti í ársbyrjun 1,2 milljarða króna í verðbréfum, mest óskráðum hlutabréfum, sem féllu um þrjá fjórðu í verði á árinu. Mikið tap varð undir þessum sama lið hjá móðurfélaginu á árinu 2008 eða rúmlega 1,5 milljarðar króna því að þar var tilgreind hlutdeild þess í tapi dótturfélaganna.

Afkoma af fjáreignum var óveruleg fyrr en á árinu 2005, en þá nam hagnaður af þeim ríflega hálfum milljarði króna, og næstu tvö ár voru tekjur af fjáreignum vel á annan milljarð króna hvort ár. Þessar tekjur tilheyrðu móðurfélaginu að langmestu leyti. Sama gilti um gríðarlegt tap sem varð undir þessum lið á árinu 2008 og nam nærri 5,5 milljörðum króna. Árin 2005 og 2006 stafaði gengishagnaðurinn aðallega af verðhækkun skráðra hlutabréfa í veltubók og hlutdeild í afkomu Sparisjóðabankans. Á árinu 2007, þegar Sparisjóður Mýrasýslu tók upp reikningsskil samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum (IFRS), færði sparisjóðurinn alla hlutabréfaeign sína í veltubók upp á gangvirði, en það leiddi til matsbreytingar við innleiðinguna upp á rúmlega 2,2 milljarða króna. Matsbreytingin var færð til hækkunar á eigin fé í ársreikningi. Þrátt fyrir miklar lækkanir á hlutabréfamarkaði síðari hluta árs 2007 sýndi rekstrarreikningurinn nær sama gengishagnað og árið áður. Hann var borinn uppi af matshækkun á eignarhlut sparisjóðsins í Sparisjóðabanka Íslands/Icebank hf. sem nú var færður sem veltufjáreign í stað hlutdeildarfélags áður. Hlutdeildartekjur urðu á hinn bóginn óverulegar af sömu ástæðu. Árið 2008 varð mikið tap á hlutabréfaeign Sparisjóðs Mýrasýslu og mest vegna eignarhluta í Sparisjóðabankanum, Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. og VBS Fjárfestingarbanka hf., sem urðu verðlitlir í kjölfar falls bankanna. Gengistap vegna þessara þriggja félaga nam samtals 5,3 milljörðum króna.

Rekstrargjöld Sparisjóðs Mýrasýslu fóru vaxandi eftir því sem félögum í samstæðunni fjölgaði. Rekstrargjöld tvöfölduðust árið 2003 þegar Sparisjóður Siglufjarðar bættist í samstæðuna og einnig hækkuðu þau umtalsvert 2005 þegar Sparisjóður Ólafsfjarðar bættist við.

Árið 2008 voru rekstrargjöld óvenjulega há miðað við fyrri ár þegar framlag í afskriftareikning útlána nær þrítugfaldaðist auk þess sem almennur rekstrarkostnaður hækkaði mjög. Framlagið í afskriftareikninginn tilheyrði móðurfélaginu að mestu leyti; að liðlega 93% árið 2008, og það var aðeins árin 2005 og 2006 sem það hlutfall var lægra en 70%. Nánar er fjallað um útlán sparisjóðsins og ástæður þessa háa afskriftaframlags hér aftar. Liðurinn önnur rekstrargjöld hélst lágur allt umrætt tímabil, að undanskildu árinu 2008 þegar hann fór yfir hálfan milljarð króna, en um var að ræða virðisrýrnun óefnislegra eigna sparisjóðsins sem voru færðar niður að fullu.

Almennur rekstrarkostnaður tekur til launakostnaðar og annars rekstrarkostnaðar, meðal annars afskrifta af rekstrarfjármunum. Þessi útgjaldaflokkur breyttist í áþekkum takti hjá móðurfélaginu og samstæðunni. Móðurfélagið var frá 2003 með um það bil 60% af almennum rekstrarkostnaði samstæðunnar. Þótt þessi kostnaður yxi mjög á þessum árum hélst hlutfall rekstrarkostnaðar af meðalstöðu heildareigna lítt breytt og var reyndar lægra en hjá sparisjóðunum í heild þar til árið 2008 þegar það hækkaði verulega, einkum vegna niðurfærslu á fullnustueignum sparisjóðsins.7

Árið 2008 var færð 180,7 milljóna króna lækkun á lífeyrisskuldbindingu í ársreikningi í tengslum við starfslok sparisjóðsstjóra. Sýnist launakostnaður því vera lægri en ella. Mikil hækkun á launum og þóknunum til yfirstjórnar þetta sama ár skýrist einnig af starfslokum sparisjóðsstjórans. Með yfirstjórn er átt við sparisjóðsstjóra og stjórnarmenn. Í skýringu 13 í ársreikningi samstæðunnar 2008 segir:

Í tengslum við starfslok Gísla Kjartanssonar sparisjóðsstjóra á árinu 2008 var gert samkomulag um lífeyrisskuldbindingu hans sem nam að uppreiknaðri fjárhæð 180,7 millj. kr. Greiðslur námu kr. 76,2 millj. kr. vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindingar og kr. 44,8 millj. kr. vegna launa. Samtals kr. 121,0 millj. kr.

Breyting var gerð á eftirlaunasamningi Gísla 8. nóvember 2006. Uppgjörið sem tilgreint er í framangreindri skýringu var á grundvelli þeirrar breytingar sem gerð var á eldri samningi. Ákvæði um eftirlaun til maka kæmi til fráfalls Gísla var fellt út, en í staðinn hækkaði lífeyrisskuldbindingin verulega, og skýrir að hluta mikla hækkun launakostnaðar 2006.

Launakostnaður á hvert stöðugildi var talsvert hærri hjá Sparisjóði Mýrasýslu allt þetta tímabil en hjá sparisjóðunum í heild. Þróun þessa meðaltals er sýnd á mynd 4 og almenn launavísitala til samanburðar. Meðaltalið var töluvert hærra hjá móðurfélaginu en samstæðunni í heild. Árið 2008 er illa marktækt í þessum samanburði, einkum hjá móðurfélaginu, vegna uppgjörs á starfslokum sparisjóðsstjóra.

Sérstakt kaupauka- og hvatakerfi tíðkaðist ekki hjá Sparisjóði Mýrasýslu að öðru leyti en því að móðurfélagið greiddi starfsfólki sínu launauppbót árin 2005, 2006 og 2007 fyrir undangengið starfsár. Um var að ræða jafna eingreiðslu, 125, 175 og 200 þúsund krónur fyrir hvert þessara ára til starfsmanna í fullu starfi, en hlutfall af henni ef um hlutastarf var að ræða. Ekki var um að ræða nein sérstök fríðindi til starfsmanna önnur en þau að sparisjóðsstjóri hafði til fullra umráða bifreið í eigu sparisjóðsins.

Stjórn sparisjóðsins samdi við Gísla Kjartansson sparisjóðsstjóra um starfslok hans 1. september 2008. Samkvæmt 2. grein starfslokasamningsins féllu allir eldri samningar við hann um launakjör úr gildi, þar með talinn fyrrnefndur samningur um eftirlaun frá 8. nóvember 2006. Í stað þeirra komu greiðslur samkvæmt þessum nýja samningi. Í 4. grein samningsins var fjallað um greiðslur vegna starfsloka sparisjóðsstjórans, en samkvæmt samningnum fékk sparisjóðsstjórinn afhenta bifreið sem hann hafði haft til afnota og launagreiðslur í 12 mánuði frá 1. október 2008. Auk þessa fékk sparisjóðsstjórinn 60 milljóna króna eingreiðslu við starfslok.8

Kjarnarekstur

Í töflu 9 gefur að líta afkomu af kjarnarekstri samstæðunnar á tímabilinu. Niðurstöðutölur móðurfélagsins eru einnig sýndar til samanburðar. Árin 2001–2005 var afkoma af kjarnarekstri jákvæð ef árið 2003 er undanskilið. Framlag í afskriftareikning réð úrslitum um það hvort kjarnareksturinn væri jákvæður eða ekki, en Sparisjóður Mýrasýslu var einn fárra sparisjóða með jákvæða afkomu af kjarnarekstri þessi ár. Frá og með 2006 hækkaði almennur rekstrarkostnaður hins vegar langt umfram hækkun hreinna vaxtatekna og þjónustutekna, og fyrir vikið varð afkoma af kjarnarekstri neikvæð. Framlag í afskriftareikning útlána meira en tvöfaldaðist árið 2007 og varð óvenjulega hátt síðasta heila starfsár sparisjóðsins, og átti það mestan þátt í slæmum árangri í rekstri það ár.

20.1.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað stuttlega um helstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Mýrasýslu í lok áranna 2001–2008 og þróun þeirra á tímabilinu.9

Eignir

Heildareignir samstæðunnar þrefölduðust á árunum 2005–2007 og námu tæplega 48 milljörðum króna í árslok 2007. Sama gilti um eignir móðurfélagsins sem námu tæplega 40 milljörðum króna á sama tíma. Þessi vöxtur samstæðunnar var borinn uppi af útlánaaukningu og tíföldun á hlutabréfaeign. Heildareignir drógust saman á árinu 2008 vegna verðfalls á hlutabréfum og öðrum verðbréfum. Einnig sættu útlánin þá umtalsverðri niðurfærslu, en samdráttur af þeim sökum varð þó minni en ella vegna gengisfalls krónunnar. Það hækkaði brúttóstöðu útlána verulega. Mynd 5 sýnir þróun eignanna 2001–2008 og hvernig þær voru samsettar.

Hlutfall lána í erlendri mynt af heildarútlánum sjóðsins var hátt og lánasafnið því viðkvæmt fyrir gengisbreytingum. Þetta hlutfall var 28% í árslok 2006, hækkaði í 37% í árslok 2007 og 2008 náði það 52%. Framlag í afskriftareikning útlána í árslok 2008 var sá liður sem mest áhrif hafði á afkomu sparisjóðsins. Móðurfélagið færði útlán sín hlutfallslega mun meira niður en samstæðan í heild eða um 36,7% á móti 28,6%.10 Til samanburðar skal nefnt að niðurfærsluhlutfall útlána hjá sparisjóðunum í heild í árslok 2008 var 14,7%.

Virði fjáreigna Sparisjóðs Mýrasýslu sexfaldaðist frá árslokum 2004 til 2007 hvort sem litið er til samstæðu eða móðurfélags, og á sama tíma tvöfaldaðist hlutfall þeirra af heildareignum. Vægi fjáreigna í efnahagsreikningi var talsvert meira hjá Sparisjóði Mýrasýslu en hjá sparisjóðunum í heild, og voru fjáreignir mun hærra hlutfall af eigin fé sjóðsins en hjá sparisjóðum í heild. Mestur varð vöxtur fjáreigna á árinu 2007. Þá tók sparisjóðurinn sem fyrr sagði upp reikningsskil samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og tók að skrá nær allar fjáreignir og fjárskuldir samstæðunnar á gangvirði. Við það hækkaði eigið fé samstæðunnar um rúmlega 1,7 milljarða króna 1. janúar 2007, en það endurspeglaðist svo í efnahagsreikningi við árslok. Innleiðingin hafði ekki viðlíka breytingu í för með sér hjá neinum öðrum sparisjóði.11

Allt tímabilið vógu hlutabréf þyngst í fjáreignum samstæðunnar, en í efnahagsreikningi móðurfélagsins var eign í hlutdeildar- og dótturfélögum umtalsverður hluti fjáreignanna. Árið 2007 voru hlutabréfin þó langstærsti fjáreignaflokkurinn. Auk matsbreytingar við innleiðingu alþjóðlegu reikningsskilareglnanna hætti sparisjóðurinn að færa eign sína í Sparisjóðabankanum sem hlutdeildarfélag og færði hana þess í stað sem veltufjáreign og þar með á gangvirði. Þetta leiddi til 1,2 milljarða króna hækkunar á óbreyttum eignarhlut. Eign sparisjóðsins í Verðbréfastofunni hf./VBS Fjárfestingarbanka hf., Exista hf. og Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. hækkaði einnig mikið að gangvirði. Þetta voru stærstu fjáreignir Sparisjóðs Mýrasýslu í árslok 2007, bókfærðar á samtals 5,4 milljarða króna. Þær urðu allar nær verðlausar í lok árs 2008.

Hlutir í hlutdeildarfélögum hækkuðu 2005 og 2006, aðallega vegna eignarinnar í Sparisjóðabankanum. Dótturfélög samstæðunnar voru sérgreind í efnahagsreikningi móðurfélagsins. Þar vógu Sparisjóður Siglufjarðar/Afl sparisjóður og Sparisjóður Ólafsfjarðar þyngst. Önnur helstu dótturfélög voru Niðurskógur hf. frá 2002, Veita hf. (áður Premium Group) frá 2006 og NordVest verðbréf hf. sem fjárfest var í á árinu 2008. Þessir eignarhlutir urðu nær verðlausir í árslok 2008, en sparisjóðurinn gat þó selt eignarhlut sinn í síðastnefnda félaginu 2009.

Aðrar eignir samanstanda af rekstrarfjármunum, öðrum eignum og óefnislegum eignum. Bókfært verð rekstrarfjármuna lækkaði um meira en helming á árinu 2007 vegna breyttra reikningsskilareglna, úr rúmlega 700 milljónum króna í 300 milljónir króna. Óefnislegar eignir samstæðunnar í árslok 2007 námu 370 milljónum króna og voru að miklum hluta viðskiptavild sem færð var upp við kaup á eignarhluta í Veitu hf. 2006 og 2007, en einnig vegna kaupa Sparisjóðs Siglufjarðar á útibúi Glitnis á árinu 2006. Óefnislegar eignir voru afskrifaðar að fullu í árslok 2008 vegna virðisrýrnunar. Við sama tímamark var bókfærð reiknuð skatteign upp á einn milljarð króna.

Skuldir

Fjármögnun Sparisjóðs Mýrasýslu, önnur en eigið fé, skar sig nokkuð frá öðrum sparisjóðum, einkum þegar kom fram á síðari hluta þess tímabils sem hér er til skoðunar. Hlutfall milli innlána og útlána fór stöðugt lækkandi öll árin, og hjá móðurfélaginu var það komið niður í 50% í árslok 2004. Eftir það voru útlán að meirihluta fjármögnuð með lántökum.

Mynd 6 sýnir hvernig skuldir samstæðunnar skiptust á umræddu tímabili. Á henni hafa nokkrir ólíkir skuldaliðir í ársreikningi verið sameinaðir undir aðrar skuldir. Það eru meðal annars afleiður gerðar í áhættuvarnarskyni, lífeyrisskuldbindingar, skattskuldbinding og ýmsar lausaskuldir. Lækkunin á árinu 2008 skýrist af því að skattskuldbindingin, sem orðin var tæpur 1 milljarður króna í árslok 2007, jafnaðist út á móti skattinneign vegna tapsins á árinu 2008, auk þess sem engar afleiður í áhættuvarnarskyni voru bókfærðar þá.

Víkjandi skuldir Sparisjóðs Mýrasýslu voru lengst af ekki stór þáttur í fjármögnun hans. Árið 2007 var tekið 8 milljóna evra víkjandi lán hjá erlendum banka (þá jafngildi tæpra 700 milljóna króna en tvöfalt hærra í árslok 2008), og árið 2008 seldi sparisjóðurinn Rekstrarfélagi SPRON hf. 300 milljóna króna víkjandi skuldabréf.

Eigið fé

Sparisjóður Mýrasýslu hafði mikla sérstöðu að því leyti að eigendur stofnfjár í honum voru ekki einstaklingar, heldur sveitarfélögin á Mýrum og í Borgarfirði. Frá 2006 átti Borgarbyggð allt stofnfé í sparisjóðnum. Um miðjan tíunda áratuginn var stofnfé 3 milljónir króna og var ekki aukið, nema sem nam verðbótum og sérstöku endurmati, fyrr en á árinu 2007. Þá var það hækkað um 500 milljónir króna í þeim tilgangi að laga eiginfjárstöðuna. Sparisjóðurinn greiddi arð árin 2006, 2007 og 2008 á grundvelli afkomu næstliðins árs. Hlutfall arðgreiðslu af stofnfé var þessi þrjú ár 34,2%, 69,3% og 53%, og skyldi það ráðast af raunávöxtun eigin fjár. Reyndar fór greiðslan fram úr raunávöxtun tvö síðastnefndu árin. Árið 2008 nam arðgreiðslan 268 milljónum króna.

Af töflu 13 sést að bókfært eigið fé Sparisjóðs Mýrasýslu sem hlutfall af heildareignum var orðið lægra en hjá sparisjóðum almennt frá og með 2003. Hlutfallið hækkaði þó talsvert við stofnfjáraukninguna á árinu 2007. Varasjóðurinn stækkaði hratt á umræddu tímabili, allt til ársins 2008.

Miklar þreifingar fóru í gang sumarið 2008 af hálfu Sparisjóðs Mýrasýslu um að sameina hann öðrum fjármálafyrirtækjum. Undir lok júlí hófust viðræður við Kaupþing banka hf. sem leiddu til þess að í ágúst undirrituðu þessir aðilar samkomulag um að bankinn skráði sig fyrir 1.750 milljóna króna stofnfjárframlagi og tryggði framlag frá öðrum aðilum upp á 250 milljónir króna. Óskað var eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins við þennan gerning, en það yfirtók vald hluthafafundar Kaupþings banka hf. í byrjun október 2008, og því varð ekkert úr stofnfjáraukningunni.

Á árinu 2009 keypti Nýi Kaupþing banki hf. (síðar Arion banki hf.) allt stofnfé í Sparisjóði Mýrasýslu eftir að samkomulag hafði náðst við kröfuhafa sparisjóðsins, og yfirtók bankinn meðal annars öll innlán og útlán hans. Eftir það varð Sparisjóður Mýrasýslu að útibúi bankans í Borgarnesi.

20.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Eignasafn Sparisjóðs Mýrasýslu stækkaði töluvert frá árslokum 2005 til ársloka 2008 eða um 20 milljarða króna. Þar af hækkuðu útlán til viðskiptavina um 19 milljarða króna. Útlán sparisjóðsins voru 81% af heildareignum hans í lok árs 2005 og 87% í lok árs 2008. Hlutfallsleg stærð útlána í eignasafni sparisjóðsins lækkaði á árinu 2007 þótt útlán ykjust, meðal annars vegna þess að virði fjáreigna hækkaði með tilkomu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

Vægi gengisbundinna lána af heildarútlánum óx úr 21,1% í lok fyrsta ársfjórðungs 2005 í 52,7% í lok fyrsta ársfjórðungs 2009, en meirihluti útlána sjóðsins hafði verið gengisbundinn frá lokum þriðja ársfjórðungs 2008.12

Sparisjóðurinn lánaði mest í formi skuldabréfa, en erlend lán voru flokkuð með skuldabréfum í ársreikningum samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu.

Niðurfærsluhlutfall Sparisjóðs Mýrasýslu var lengi vel um 2%. Stórt framlag í afskriftareikning á árinu 2008 breytti því, og nam niðurfærsluhlutfallið í lok þess árs tæpum 29%.

Fjárhagsstaða Sparisjóðs Mýrasýslu var orðin slæm um mitt ár 2008, en fyrirséð var við gerð árshlutauppgjörs 30. júní það ár að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins væri komið undir lögmæt mörk.

20.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila

Innri endurskoðandi Sparisjóðs Mýrasýslu kannaði reglulega ýmsa þætti í útlánasafni sparisjóðsins. Helstu atriði sem könnunin náði til voru helstu viðskiptaaðilar sparisjóðsins, vanskil útlána, aðferðir vegna sérgreindra afskrifta, vaxtakjör skuldabréfa og útlánaheimildir við veitingu útlána, auk þess sem úttektir voru gerðar á tryggingarvíxlum og farið yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og starfsmanna. Innri endurskoðandi gerði ekki alvarlegar athugasemdir við útlán sparisjóðsins árin 2005–2007, en á árinu 2008 fór ekki fram úttekt á útlánum. Innri endurskoðandi fjallaði ítarlega um fyrirgreiðslur til stærstu viðskiptaaðila sparisjóðsins, heildarskuldbindingu, tryggingarstöðu og hvaða upplýsingar sparisjóðurinn hefði um fjárhagsstöðu viðkomandi aðila. Á árinu 2007 gerði innri endurskoðandi athugasemd við það að einn lántaki væri með fyrirgreiðslu umfram 25% hámark af eiginfjárgrunni samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Ytri endurskoðandi sparisjóðsins, KPMG, fór yfir afskriftareikning útlána samkvæmt endurskoðunarskýrslum á árunum 2005–2009. Á hverju ári var sömu athugasemdum komið á framfæri við stjórnendur sparisjóðsins um að vinna bæri skýrslu í tengslum við uppgjör þar sem gerð væri grein fyrir stöðu og þróun afskriftamála og að eftirlit með útlánum, tryggingum og vanskilum þeirra yrði eflt. Í endurskoðunarskýrslu 2008 var bent á að innri endurskoðun hefði ekki verið starfrækt hjá sparisjóðnum á árinu. Ytri endurskoðandi lét því framkvæma sérstaka athugun á stærstu skuldurum og vanskilum hjá sparisjóðnum og kannaði mat stjórnenda á áætlaðri virðisrýrnun útlána. Brýndi hann fyrir stjórnendum að fylgjast með tryggingastöðu viðskiptamanna sem væru með framlög á sérgreindum afskriftareikningi útlána.13

Stuttu síðar vann Fjármálaeftirlitið vettvangsathugun hjá sparisjóðnum á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti sumarið 2008. Markmiðið var að gefa góða yfirsýn yfir útlánasafn Sparisjóðs Mýrasýslu, meta gæði útlána og leggja mat á áhættustýringu og innra eftirlit. Skýrslu um niðurstöður athugunarinnar var skilað 30. júlí 2008, og voru helstu niðurstöður hennar að óvarlegar lánveitingar, bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla og einungis tryggðar með veði í óskráðum hlutabréfum, væru ein af ástæðum þess að eigið fé sparisjóðsins var talsvert undir lögboðnum mörkum.14 Þá hefði sparisjóðurinn ekki í allmörgum tilfellum gætt nægilega að tryggingastöðu áhættuskuldbindinga og það gæti í einhverjum tilvikum leitt til frekari tapshættu.15

Gerð var athugasemd við það að sparisjóðurinn fylgdist ekki nægjanlega vel með gengisbundnum útlánum til aðila sem hefðu ekki tekjur í erlendri mynt, sbr. leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitins nr. 2/2004. Útlán sparisjóðsins með veði í verðbréfum, svo sem hlutabréfum, hefðu aukist verulega sem hlutfall af eigin fé frá haustmánuðum 2007 og fram á mitt ár 2008. Þar vægju þyngst lán vegna kaupa á hlutabréfum í Icebank hf. Aukning óskráðra verðbréfa að handveði hefði aukið áhættu sparisjóðsins til mikilla muna. Samhliða þessari aukningu lána með veði í verðbréfum hefðu gæði þessara lána rýrnað talsvert sökum þess að um tveir þriðju hlutar þeirra væru með tryggingarþekju yfir 100%. Einnig kom í ljós að tryggingarþekja útlána hefði versnað verulega á milli ára, og taldi Fjármálaeftirlitið það vísbendingu um að gerðar væru minni kröfur en áður um tryggingarþekju. Engin álagspróf voru gerð á útlánasafninu, og var gerð athugasemd við að áhættustýring væri ekki virk hjá sparisjóðnum.16

Fjármálaeftirlitið fór sérstaklega yfir stærstu áhættuskuldbindingar Sparisjóðs Mýrasýslu, þ.e. stöðu útlána, trygginga og fjárhagsstöðu viðkomandi viðskiptamanna. Sparisjóðurinn hafði ekki aflað ársreikninga eða fjárhagslegra upplýsinga frá stærstu lánþegum sínum. Var því bent á nauðsyn þess að yfirfara stöðu þeirra með tilliti til þess hvort þörf væri á viðbótartryggingum. Þá var bent á nauðsyn þess að stjórn sparisjóðsins fjallaði um lánveitingar umfram 10% af eiginfjárgrunni. Í svarbréfi sparisjóðsins við drögum að skýrslu Fjármálaeftirlitsins, dagsettu 29. júlí 2008, kom fram að þegar væri hafin vinna við að taka tillit til athugasemda Fjármálaeftirlitsins, og til dæmis væri verið að fara í gegnum útlánaáhættu og stórar áhættuskuldbindingar. Þá kom jafnframt fram í bréfi sparisjóðsins að ákjósanlegt hefði verið að koma á framfæri ítarlegri athugasemdum og svörum við skýrsludrögunum, en þar sem samningaviðræður um hugsanlegan samruna eða yfirtöku væru í fullum gangi yrði sú vinna að hafa forgang.17 Í lokaskýrslu Fjármálaeftirlitsins hafði verið farið fram á að ytri endurskoðandi sjóðsins færi yfir úrbætur og skilaði um það skýrslu til Fjármálaeftirlitsins fyrir 1. september 2008. Þessi frestur var síðan framlengdur til 1. október 2008, en slíkri skýrslu var aldrei skilað. Stjórnarformaður sparisjóðsins sendi Fjármálaeftirlitinu hins vegar athugasemdir við skýrsluna 3. október 2008 þar sem greint var frá breytingum sem hefðu átt sér stað síðan skýrsla Fjármálaeftirlitsins var gerð og myndu eiga sér stað í nánustu framtíð. Bréfið var sextán síður í heild og fjallaði um nýjar útlánareglur, skipun lánanefndar, ný ákvæði um gagnaöflun í tengslum við lánveitingar, útlánaheimildir starfsmanna og lán til starfsmanna og stjórnarmanna. Útlánaferillinn hafði verið skilgreindur nákvæmlega og skipting ábyrgðar eftir honum. Hinn 31. október 2008 fékk Fjármálaeftirlitið greinargerð frá sparisjóðnum um fjárhagslega endurskipulagningu sparissjóðsins, og í kjölfarið var skipaður sérstakur sérfræðingur til að hafa eftirlit með honum af hálfu Fjármálaeftirlitsins.18

Fjármáleftirlitið gerði talsverðar athugasemdir við útlánareglur Sparisjóðs Mýrasýslu og verklag við útlán, útlánaáhættu og áhættustýringu, virkni áhættustýringarnefndar og skýrsluskil til eftirlitsins. Hér á eftir fer umfjöllun um þær útlánareglur sem voru í gildi hjá sparisjóðnum og þær útlánareglur sem settar voru í kjölfar athugasemda Fjármálaeftirlitsins.

20.2.2 Útlánareglur

Stjórn sparisjóðsins samþykkti útlánareglur 31. janúar 1996 á grundvelli þágildandi 39. gr. laga nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði.19 Þær voru endurútgefnar 9. nóvember 2005 með vísan til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum, samþykkta Sparisjóðs Mýrasýslu og starfsreglna um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra frá desember 2003.

Í tengslum við setningu útlánareglna sparisjóðsins í nóvember 2005 voru einnig settar starfsreglur Sparisjóðs Mýrasýslu um útlánareglur starfsmanna í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra. Ekki var þó vísað til umræddra starfsreglna í útlánareglunum, en báðum var ætlað að setja ramma um lánveitingar sparisjóðsins. Ákvæði um viðmið í útlánum var að finna í reglum um áhættustýringu sem einnig voru settar í nóvember 2005. Í þeim reglum kom fram að við veitingu útlána og ábyrgða skyldi þess gætt að samanlagðar skuldbindingar til viðskiptamanna í sömu atvinnugrein færu ekki yfir 30% af heildarútlánum og veittum ábyrgðum sparisjóðsins til þessara aðila, en að öðru leyti var vísað til þágildandi reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar.

Útlánareglur sparisjóðsins frá árinu 2005 höfðu ekki að geyma ítarleg ákvæði um lánveitingar og heimildir. Samkvæmt lánareglunum var markmiðið að hafa þjónustu, öryggi, frumkvæði, hraða og sveigjanleika að leiðarljósi. Veita skyldi góða og faglega þjónustu á samkeppnishæfum kjörum. Í útlánareglunum kom einnig fram að við ákvörðun um verðlagningu þyrfti að horfa til þess að arðsemi væri í eðlilegu samræmi við áhættu. Til að tryggja hagsmuni sparisjóðsins skyldi horfa til greiðslugetu, viðskiptasögu og framboðinna trygginga við ákvörðun um útlán til viðskiptamanns. Stefnt skyldi að dreifingu í útlánum til að stýra áhættu, og miða skyldi við að áhættudreifing væri innan þeirra marka sem kveðið væri á um í reglum Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar. Áður en lán væri veitt skyldi afla nauðsynlegra upplýsinga um fjárhag viðskiptamanns og meta greiðslugetu hans í samræmi við eðli viðskipta. Horfa skyldi til viðskiptasögu og eiginfjárstöðu og að stjórn og framtíðarhorfur teldust góðar þegar um lögaðila væri að ræða. Mat á tryggingaþörf skyldi taka mið af styrk viðskiptamanns og tímalengdar lánveitingar. Ekki voru ákvæði um lágmarks tryggingarþekju mismunandi veðandlaga. Óljóst var í reglunum við hvaða aðstæður mætti beita undanþáguheimild og afgreiða lán án fullnægjandi trygginga. Ekki var heldur skýrt kveðið á um það hvernig eða hvenær skyldi fylgst með verðmæti veða á lánstíma.

Samkvæmt lánareglunum hafði stjórn sparisjóðsins eftirlit með lánamálum hans og bar ábyrgð á þeim gagnvart stofnfjáreigendum. Sparisjóðsstjóri skyldi taka ákvörðun um allar lánveitingar, nema þegar heildarskuldbinding eins eða fjárhagslega tengdra aðila næmi meira en 10% af eigin fé sparisjóðsins, sbr. 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá bæri að leggja fyrir stjórn lán sem væru óvenjuleg, svo sem vegna eðlis þess verkefnis eða trygginga sem um væri að ræða, viðskiptamanns sem í hlut ætti, áhættu sem sparisjóðurinn tæki, eða þegar lánveiting tengdist máli sem væri mjög „umdeilt í þjóðfélaginu“. Þá hafði sparisjóðsstjóri heimild til að veita lán fyrir allt að 20% af eigin fé sparisjóðsins, sbr. 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002, ef lánið hefði áhættuvægið 0,2 en ef lán hefði áhættuvægið 0 var heimild sparisjóðsstjóra einungis takmörkuð við reglur sparisjóðsins um áhættustýringu. Samkvæmt útlánareglum starfsmanna í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra höfðu forstöðumenn fyrirtækja- og einstaklingssviðs sömu útlánaheimildir og sparisjóðsstjóri í „skilgreindum forföllum“ hans, án þess þó að greint væri frá hver þau væru.

Aðrar lánaheimildir voru svo sem sjá má í töflu 18, en í reglunum kom ekki fram hverjir „fyrirframskilgreindir starfsmenn á fyrirtækjasviði“ eða „starfsmenn í framlínu“ væru.

Sparisjóður Mýrasýslu setti sér nýjar reglur um lánveitingar og ábyrgðir 24. september 2008, en þær tóku að einhverju leyti mið af athugasemdum Fjármálaeftirlitsins eftir vettvangsathugun þess þá um sumarið. Reglurnar voru settar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum, samþykkta sparisjóðsins og starfsreglna um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra. Nýju útlánareglurnar lögðu áherslu á skýrari ramma um heimildir starfsmanna til útlána og takmörkun á útlánaheimildum forstöðumanna og sparisjóðsstjóra. Fjárhæðir útlánaheimilda skyldu miðast við „samtölu þeirrar lánsumsóknar, sem fjallað væri um hverju sinni og heildarskuldbindingar viðkomandi lánþega“ sem reiknaðar væru til útlánaígildis í áhættugrunni samkvæmt reglum um eiginfjárgrunn. Í reglunum var að finna ítarleg ákvæði um það hvernig meta bæri heildarskuldbindingar lánþega og skilgreina fjárhagslega tengda aðila.

Þá kváðu nýju reglurnar á um stofnun lánanefndar sem tæki ákvarðanir um öll stærri útlán, en skyldi leita samþykkis stjórnar þegar heildarskuldbinding eins viðskiptaaðila eða fjárhagslega tengdra viðskiptaaðila væri meiri en 10% af eigin fé sparisjóðsins. Þegar lán hafði áhættuvægið 0,2 hækkaði þessi heimild lánanefndar í 20% af eigin fé, en ef lán hafði áhættuvægið 0 var heimildin án frekari takmarkana.20 Sparisjóðsstjóri fór þó áfram með æðsta vald í öllum atriðum sem vörðuðu veitingu og meðferð útlána og ábyrgða. Sparisjóðsstjóri hafði heimild til að veita lán að fjárhæð allt að 20 milljónum króna, færu heildarskuldbindingar lántaka ekki yfir 100 milljónir króna.

Útlánaheimildir starfsmanna voru skýrðar nánar en gert var í eldri reglum og horfið var frá orðalagi eins og „starfsmenn í framlínu“ og „fyrirframskilgreindir starfsmenn á fyrirtækjasviði“, en þess í stað notast við skýrari starfsheiti eins og „fulltrúar á fyrirtækjasviði“ og „þjónustufulltrúar“.

Nýju reglurnar kváðu skýrar á um gagnaöflun vegna útlána og á hvaða gögnum ákvörðun skyldi byggð. Þegar um var að ræða lán til einstaklinga eða fyrirtækja voru hvers konar undanþáguheimildir takmarkaðar og lögð sérstök áhersla á mat á greiðslugetu lántaka við lánveitingu. Reglurnar kváðu einnig á um veðsetningarhlutföll mismunandi tryggingarandlaga og hvaða tryggingar væru leyfilegar. Engin ákvæði voru um hlutabréf sem tryggingar, en lánanefnd hafði heimild til að samþykkja aðrar tryggingar en tilgreindar voru í lánareglunum. Ekki reyndi mikið á þessar nýju lánareglur í framkvæmd þar sem fá lán voru veitt eftir að þær gengu í gildi, en á vettvangi lánanefndarinnar sem sett var á stofn með reglunum var úrlausn skuldamála viðskiptavina sparisjóðsins mikið rædd.

20.2.3 Stærstu lántakendur

Útlán voru stærsta eign sparisjóðsins á árunum 2005–2008. Afskriftir og tap af útlánum á árinu 2008 höfðu talsverð áhrif á rekstrarárangur sparisjóðsins. Rannsóknarnefndin valdi úrtak lántakenda til sérstakrar skoðunar og greiningar til að varpa ljósi á útlánastarfsemi sparisjóðsins, útlánastefnu og ástæður afskrifta. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindinga við sparisjóðinn, auk þess sem skoðuð voru sérstaklega lán þar sem sparisjóðurinn færði háar afskriftir.21

Skýrslum til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.22 Sparisjóður Mýrasýslu var með margar stórar áhættuskuldbindingar í lok árs 2008, en heildarstærð útlánasafnsins var þá um 40 milljarðar króna. Á miðju ári 2008 var orðið ljóst að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins væri komið undir lögmæt mörk og margir lántakendur komnir umfram 25% þak á útlánaskuldbindingu sem hlutfall af eiginfjárgrunni samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Í lok árs 2008 var heildarstærð útlánasafns sparisjóðsins 40 milljarðar króna og eiginfjárgrunnur á sama tíma neikvæður um meira en 15 milljarða króna samkvæmt ársreikningi. Í skýrslu sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar 31. desember 2008 voru 50 lánahópar með lán fyrir samtals 25,7 milljarða króna, eða sem nam 1.716% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins, en samkvæmt skýrslunni var hann 1,5 milljarðar króna. Samtala stórra áhættuskuldbindinga mátti þá ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002.23

Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru lántakendur með stærstu áhættuskuldbindingarnar á ársfjórðungsskýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins 2008. Þá voru í úrtakinu lántakar með sérgreinda afskrift umfram 300 milljónir króna í lok árs 2008. Eins og sést í töflu 17 um hlutfall afskrifta af útlánasafninu voru ekki miklar afskriftir hjá sparisjóðnum fyrr en á árinu 2008, og því var ekki talin ástæða til að fara lengra aftur í tímann til athugunar á stórum afskriftaframlögum.

Fyrirgreiðsla til aðila í úrtaki rannsóknarnefndarinnar nam alls 20,7 milljörðum króna eða 53,1% af heildarútlánum Sparisjóðs Mýrasýslu í lok árs 2008, en á sama tíma námu afskriftir aðila í úrtakinu 72% af öllum sérgreindum afskriftum sparisjóðsins á árinu. Engar sérgreindar afskriftir voru færðar hjá aðilum í úrtakinu á árinu 2007. Í úrtakinu voru 30 lánahópar sem samanstóðu af lögaðilum og tengdum aðilum, auk fjögurra einstaklinga.24

Fjórir einstaklingar voru á skýrslu Sparisjóðs Mýrasýslu um stórar áhættuskuldbindingar í árslok 2008, og nam heildarskuldbinding hvers þeirra á bilinu 307–478 milljóna króna. Heildarskuldbindingar þessara fjögurra einstaklinga námu samanlagt 1.478 milljónum króna. Samtals voru lagðar 808 milljónir króna í sérgreint framlag í afskriftasjóð vegna þessara skuldbindinga.

Einstaklingarnir í úrtakinu voru allir með lán í erlendum myntum hjá Sparisjóði Mýrasýslu sem tvöfölduðust á árinu 2008 vegna veikingar krónunnar. Tveir þeirra voru bændur, og fékk annar lán til kaupa á jörð og hinn vegna framkvæmda og kaupa á mjólkurkvóta. Einn einstaklingur, forstjóri fjárfestingarbanka, fékk eingreiðslulán til að kaupa hlutabréf í bankanum, og voru bréfin sett að veði til tryggingar láninu. Fjórði einstaklingurinn fékk lán til að kaupa fasteign í miðborg Reykjavíkur, og var lánið tryggt með 1. veðrétti í hinni keyptu fasteign auk annarra fasteigna og veðs í leigugreiðslum.

Um það bil helmingur lána í úrtaki rannsóknarnefndarinnar var vegna verkefna utan starfssvæðis samstæðu sparisjóðsins. Í úrtakinu voru mörg byggingar- og fasteignafélög, en einnig önnur félög sem fengust við hótelrekstur, heildverslun, svínarækt, virkjanir, framleiðslu á plastvörum, tölvuþjónustu o.fl. Sparisjóðurinn hafði hug á að auka útlánagetu sína, en um aldamótin var hún slík að sparisjóðurinn átti erfitt með að ráða við stærstu viðskiptavinina á svæðinu. Stjórnendur sparisjóðsins töldu nauðsynlegt að stækka efnahagsreikninginn og auka eigið fé bankans til þess að hann gæti betur sinnt hlutverki sínu. Einn þáttur í þeirri stækkun var að sameinast Sparisjóði Ólafsfjarðar og Sparisjóði Siglufjarðar.25

Það var einkennandi fyrir sparisjóðinn meðal stærri sparisjóða hversu hár hluti lánasafns hans var til landbúnaðar, en sparisjóðurinn lánaði fyrirtækjum í greininni á sínu starfssvæði og aðstoðaði þau fjárhagslega. Skýrslur rannsóknarnefndarinnar af stjórnendum sparisjóðsins sem og önnur gögn sem hún hefur haft til athugunar sýna að sparisjóðurinn hafi sýnt framleiðslufyrirtækjum í Borgarfirði og á Mýrum mikla þolinmæði og ef til vill ekki haft eingöngu fjárhagslegan ávinning sinn að leiðarljósi við lánveitingar. Þannig fékk Grísagarður ehf., svínabú, lán hjá sparisjóðnum þótt félagið væri ógreiðslufært. Grísagarður ehf. var lengi einn af stærstu lánþegum sparisjóðsins, en árið 2003 fór félagið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Þá var hluta skulda félagsins við sparisjóðinn breytt í hlutafé, og eignaðist hann við það 15% hlutafjár í félaginu. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 3. mars 2003, þar sem þetta var samþykkt, var þó fjallað um slæma stöðu atvinnugreinarinnar. Samkeppnin væri hörð og óvenjuleg þar sem framleiðsla væri seld undir kostnaðarverði og ylli það vaxandi erfiðleikum hjá kjötframleiðendum. Þrátt fyrir erfiðleika hjá Grísagarði ehf. hélt sparisjóðurinn áfram að veita félaginu ný lán á árunum 2003–2007, bæði í íslenskum krónum og erlendum myntum.26 Sveitarfélagið Borgarbyggð, eini stofnfjáreigandi sparisjóðsins, var einnig meðal stærstu skuldara hans. Stærð skuldbindingarinnar var einkum vegna erlends láns sem sveitarfélagið fékk í september 2007. Kaupfélag Borgfirðinga var stærsti einstaki lántakandi sparisjóðsins, en hann réðst einnig í sameiginlegar fjárfestingar með kaupfélaginu.

Sparisjóðurinn lánaði til nokkurra fasteignaverkefna og lóðakaupa, en lán til byggingariðnaðar voru töluverður hluti lánasafns sparisjóðsins. Í þessu samhengi má nefna lán til einkahlutafélags til kaupa á tveimur jörðum í Borgarbyggð á árunum 2003 og 2005. Um var að ræða eingreiðslulán í erlendum myntum, og við lok árs 2008 var veðstaðan vegna þeirra ekki góð þótt sparisjóðurinn væri bæði með veð í jörðunum og sjálfskuldarábyrgð eigendanna. Höfuðstóllinn hafði hækkað mun meira en virði veðanna. Þá lánaði sparisjóðurinn byggingarfélagi til kaupa á jörð á Kjalarnesi, en þau lán voru í íslenskum krónum og til tuttugu ára. Sparisjóðurinn lánaði Sola Capital ehf. til kaupa á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu, og á árinu 2008 lánaði sparisjóðurinn Hanza-eignum ehf. til að taka yfir hluta skulda Sola Capital ehf.27 Þá fékk félagið Lónakot ehf. nokkur eingreiðslulán í erlendri mynt á árunum 2006 og 2007, meðal annars til að fjármagna kaup félagsins á jörðinni Lónakoti við Hafnarfjörð. Á sama tíma keypti sparisjóðurinn 20% hlut í félaginu. Lán til félagsins voru ítrekað framlengd án þess að til greiðslu kæmi, og stóðu veð sparisjóðsins í hinum keyptu lóðum ekki undir skuldbindingum félagsins eftir gengisfall krónunnar. Þetta fyrirkomulag, þ.e. eingreiðslulán í erlendum myntum, var mjög algengt í þeim lánum sem komu til skoðunar í úrtaki rannsóknarnefndarinnar.

Þjónusta var sú atvinnugrein sem sparisjóðurinn lánaði mest til, en í þann flokk falla meðal annars eignarhaldsfélög sem sinna fjárfestingum í hlutabréfum. Meðal stærstu lántaka í sparisjóðnum var Vesturland hf., fjárfestingarfélag í eigu Sparisjóðs Mýrasýslu og Kaupfélags Borgfirðinga sem fékk lán hjá sparisjóðnum til að fjárfesta í innlendum og erlendum hlutabréfum. Lán til félagsins voru tryggð með veði í þeim bréfum sem keypt voru. Skuldbindingar félagsins, sem langflestar voru í erlendum myntum, námu rúmum milljarði króna í lok júní 2008 og voru þá tæplega 30% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Síðla árs 2007 lánaði sparisjóðurinn um milljarð króna til nokkurra einkahlutafélaga til kaupa á hlutabréfum í Icebank hf. með öðrum veðrétti í hlutabréfunum sjálfum. Lánin voru í erlendum myntum og skyldu endurgreiðast á lokadegi, þremur árum eftir að þau voru veitt.

Nokkrar áhættuskuldbindingar sparisjóðsins urðu svo stórt hlutfall af eiginfjárgrunni hans að sjóðurinn þurfti að óska eftir ábyrgðum frá öðrum fjármálastofnunum fyrir skuldbindingunum til þess að þær færu ekki upp fyrir lögbundið hámark á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins. Til að mynda nam heildarskuldbinding Lónakots ehf. við sparisjóðinn 1,1 milljarði króna í byrjun árs 2008, og var áhættuskuldbindingin rétt undir 25% hámarkinu af eiginfjárgrunni. Sparisjóðurinn hafði þá fengið 200 milljóna króna ábyrgð frá VBS Fjárfestingarbanka hf. til að lækka skuldbindinguna. Sparisjóðurinn fékk ábyrgð frá sama banka til þess að lækka skuldbindingar Vesturlands hf. af sömu ástæðu á árinu 2007. Árið eftir dugði sú ráðstöfun ekki til þess að skuldbindingin væri fyrir neðan lögbundið hámark, og var lán sem félagið tók til að fjárfesta í hlutabréfum í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. fært til AB-fjárfestinga ehf.,28 annars fjárfestingarfélags í eigu sömu aðila, svo að skuldbindingar Vesturlands hf. færu niður fyrir 25% hámarkið. Skuldskeytingin var ekki í samræmi við nýsamþykktar útlánareglur sparisjóðsins frá september 2008. Samkvæmt þeim bar að líta á skuldbreytingu sem nýja lánveitingu sem koma þyrfti fyrir lánanefnd. Reglurnar gerðu ekki ráð fyrir hlutabréfum sem tryggingarandlagi, en lánanefnd hafði heimild til að samþykkja aðrar tryggingar en tilgreindar voru í lánareglunum. Hvorki var fjallað um skuldskeytinguna í stjórnarfundargerðum sparisjóðsins né í fundargerðum lánanefndar. Ekki dugði að færa lánið af AB-fjárfestingum ehf. yfir á Vesturland hf. því að í lok árs 2008 voru heildarskuldbindingar AB-fjárfestingar ehf. 787 milljónir króna, og var áhættuskuldbindingin 52,5% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins eða talsvert umfram 25% hámarkið.

Sparisjóður Mýrasýslu veitti sjálfur ábyrgðir til handa dótturfélagi sínu, Afli sparisjóði (þá Sparisjóði Siglufjarðar), til að lækka hlutfall skuldbindinga tveggja sjávarútvegsfyrirtækja niður fyrir 25% hámarkið. Ábyrgð Sparisjóðs Mýrasýslu leiddi hins vegar til þess að skuldbindingar félaganna voru orðnar of miklar miðað við eiginfjárgrunn Sparisjóðs Mýrasýslu, og til að lækka skuldbindingar þeirra niður fyrir 25% hámarkið á skýrslum sparisjóðsins sjálfs um stórar áhættuskuldbindingar gaf VBS Fjárfestingabanki hf. út ábyrgð til handa Sparisjóði Mýrasýslu.

Regluverk um útlán Sparisjóðs Mýrasýslu var ófullkomið og samþykktarferli við veitingu útlána ekki eins og tíðkaðist annars staðar; útlánaheimildir sparisjóðsstjóra og annarra starfsmanna voru miklar, en einstakir starfsmenn gátu skuldbundið sparisjóðinn fyrir mjög háar fjárhæðir. Fremur sjaldan var fjallað um útlán í stjórnarfundargerðum, og ekki var tryggt að öll útlán yfir 10% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins færu fyrir stjórn. Til að ráða bót á þessu voru settar nýjar lánareglur, en við þær var stuðst í mjög stuttan tíma þar sem sparisjóðurinn sameinaðist Nýja Kaupþingi banka hf. nokkrum mánuðum eftir að reglurnar voru settar. Eins og rakið er hér framar voru dæmi þess að nýjum lánareglum hefði ekki verið fylgt.

Þá var misbrestur á skjalagerð og formlegri tryggingatöku. Til að mynda reyndist erfitt að útvega rannsóknarnefndinni gögn sem sýndu fram á að mat á greiðslugetu lántakenda hefði farið fram. Þá vantaði upp á að fjárhagur lögaðila sem óskuðu eftir lánum sparisjóðsins væri kannaður, til að mynda vantaði oft ársreikninga þeirra, og því var ógerlegt fyrir sparisjóðinn að fá raunsanna mynd af fjárhagsstöðu lántaka. Sem dæmi má nefna að Formhús ehf., stór lántaki hjá sparisjóðnum, skilaði ekki ársreikningi til ársreikningaskrár allt frá stofnun félagsins 2006.29 Þá hefur áður verið minnst á fjárhagslega stöðu Grísagarðs ehf., eins af stærstu lántakendum sparisjóðsins. Hjá tveimur aðilum í úrtakinu gætti sparisjóðurinn þess ekki að framfylgja tryggingatöku vegna lána. Í báðum tilvikum liðu tæp tvö ár frá því lánin voru greidd út og þar til gengið var frá tryggingum. Má í því skyni nefna fjármögnun sparisjóðsins á kaupum Sola Capital ehf. og eiganda þess á fjölda fasteigna á höfuðborgarsvæðinu, en á árinu 2007 var drjúgur hluti skuldbindinga eigandans færður yfir á Sola Capital ehf. Í lok árs 2008 samþykkti sparisjóðurinn að aflétta veðum af tveimur fasteignum Sola Capital ehf. áður en nýtt veð var tekið í fasteign í Reykjavík. Í mars 2009 var bókað á stjórnarfundi að eigandi félagsins hefði ekki skilað inn skjölum vegna veðheimilda eins og um hefði verið samið. Þá var ekki gengið úr skugga um að bréf í óskráðu félagi sem veðsett var sparisjóðnum væru ekki veðsett annars staðar, sbr. umfjöllun um Sigurplast ehf. hér aftar.

Helsta ástæða afskrifta var sú að útlán sparisjóðsins í erlendum myntum hækkuðu mikið í lok árs 2008 vegna óhagstæðra gengisbreytinga, og afleiðingin af því var tryggingarskortur sem mætt var með framlögum í sérgreindan afskriftareikning. Þá má geta þess að sparisjóðurinn tapaði töluverðum fjármunum vegna ábyrgða sem hann tókst á hendur vegna skuldbindinga Kistu – fjárfestingarfélags ehf., en afskrifa þurfti endanlega um 250 milljónir króna vegna þeirra á árinu 2008. Sú afskrift nam um 62% af endanlega afskrifuðum útlánum samstæðunnar á árinu.30

Hér er fjallað um þrjá lánahópa hjá Sparisjóði Mýrasýslu sem rannsóknarnefndin taldi sérstaka ástæðu til að fjalla um. Hópurinn um Icebank hluthafalánin var ekki eiginlegur lánahópur, enda skilgreindi sparisjóðurinn lántakendurna ekki sem fjárhagslega tengda. Um þá er fjallað sameiginlega hér til einföldunar. Farið er yfir helstu lánveitingar til þessara þriggja hópa, hvort þær hafi verið í samræmi við lánareglur og gildandi lög og reglur á fjármálamarkaði, og fjallað um mat sparisjóðsins á afskriftaþörf vegna þeirra. Rannsóknarnefndin sá ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um lán til annarra lánahópa í úrtakinu umfram það sem þegar er komið fram.

Icebank hluthafalán

Í 9. kafla, um útlán, er ítarleg umfjöllun um Icebank hluthafalánin. Þar kemur fram heildarumfang kaupanna, upplýsingar um lántaka, lánsfjárhæðir og sérstaka samninga sem gerðir voru í tengslum við kaupin.

Síðla árs 2007 keyptu þrettán einkahlutafélög, sum hver í eigu stjórnenda Icebank hf., 43% hlut í bankanum af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., Byr sparisjóði, nb.is-sparisjóði hf., Sparisjóði Kópavogs og Sparisjóði Norðlendinga. Tólf þessara félaga fengu lánað hjá sparisjóðnum 5. desember 2007 fyrir hluta kaupverðsins, en þau voru voru SM 1 ehf., Bergið ehf., Obduro ehf., Fjárfestingarfélagið Sproti ehf., Breiðutangi ehf., Lagos ehf., HDH Invest ehf., G-tveir ehf., Saltsalan ehf., Óseki ehf., Infestus Holding ehf. og Sparta Holding ehf.

Rúm 68% af kaupverðinu voru upphaflega fjármögnuð með lánum frá sparisjóðum, og nam lánsfjárhæðin samtals 8,4 milljörðum króna. Kaupendur skuldbundu sig til að greiða það sem ekki var lánað til kaupanna með eiginfjárframlagi. Sparisjóður Mýrasýslu fjármagnaði 12,5% af lánunum eða rúman milljarð króna. Lánin voru veitt í erlendum myntum, og veð sparisjóðsins fyrir lánunum var 2. veðréttur í 75% keyptra hlutabréfa í Icebank hf., en Sparisjóðurinn í Keflavík var á sama veðrétti. Þessi lán voru ekki tekin fyrir á stjórnarfundum sparisjóðsins, en saman mynduðu þau stærstu áhættuskuldbindingu sjóðsins. Hvert lán fyrir sig var undir lánaheimildum sparisjóðsstjórans, en heildarlánveitingin var það ekki.

Þegar kom að útgreiðslu lánanna til einkahlutafélaganna sem keyptu hluti í Icebank hf. átti Sparisjóður Mýrasýslu ekki nægt laust fé. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður lánuðu þá Sparisjóði Mýrasýslu rúmar 800 milljónir króna til að bæta úr því. Um þetta fjallaði stjórnin ekki.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu frá 30. júlí 2008 voru bréf í Sparisjóðabankanum talin ofmetin. Bókfært virði þeirra 31. mars 2008 var 1.792 milljónir króna, en Fjármálaeftirlitið taldi réttara að virðið væri um 902 milljónir króna. Eigið fé sparisjóðsins var á þessum tíma 4,1 milljarður króna, og hefði slík niðurfærsla því haft töluverð áhrif á það.31 Lánin voru að fullu færð niður í ársreikningi sparisjóðsins 2008.32

Kaupfélag Borgfirðinga og tengdir aðilar

Kaupfélag Borgfirðinga svf. og tengdir aðilar voru stærsta áhættuskuldbinding sparisjóðsins í lok árs 2008 ef frá er talinn hópurinn sem fékk lán til kaupa á hlutabréfum í Icebank hf. Starfsemi kaupfélagsins var margþætt, en það var eignarhaldsfélag, rak verslunardeild, tók þátt í smásöluverslun og átti og rak ýmsar fasteignir. Félagssvæði Kaupfélags Borgfirðinga var hið sama og helsta þjónustusvæði Sparisjóðs Mýrasýslu og sveitarfélagsins Borgarbyggðar, þ.e. Borgarfjarðasýsla norðan Skarðsheiðar, Mýrasýsla og Snæfells- og Hnappadalssýsla sunnan heiða. Mikil tengsl voru milli Sparisjóðs Mýrasýslu og Kaupfélags Borgfirðinga, en félögin réðust meðal annars í sameiginlegar fjárfestingar. Kaupfélag Borgfirðinga hafði verið lengi í viðskiptum við sparisjóðinn og var ein af stærstu áhættuskuldbindingum hans á árunum 2007 og 2008.33 Lánahópnum tilheyrðu kaupfélagið, fjárfestingarfélag í eigu þess og félagið BK-fasteignir ehf.34 BK-fasteignir ehf. var fasteignafélag í eigu Borgarlands ehf. sem var í eigu Kaupfélags Borgfirðinga að 44%, Sparisjóðs Mýrasýslu að 42% og Vesturlands hf. að 14%.35 Borgarland ehf., sem var 100% eigandi BK-fasteigna ehf., var aftur á móti skilgreint sem hlutdeildarfélag í bókum sparisjóðsins, og var grein gerð fyrir skuldbindingum Borgarlands ehf. með Vesturlandi hf. sem einnig var í helmingseigu Kaupfélags Borgfirðinga.

Kaupfélag Borgfirðinga var með fyrirgreiðslur í formi skuldabréfa, lána í erlendum gjaldmiðlum og yfirdráttarláns. Til tryggingar var sparisjóðurinn með 1.–3. veðrétt í fasteignum Kaupfélags Borgfirðinga að Egilsholti í Borgarnesi, reikningskröfum og hlutabréfum í Samkaupum hf. og Vesturlandi hf. Kaupfélagið var mikilvægur viðskiptavinur hjá sparisjóðnum og hagsmunir þess, sparisjóðsins og eina stofnfjáreiganda sparisjóðsins, Borgarbyggðar, samofnir:

Kaupfélagið var mjög stór kúnni og hefur alltaf verið hjá Sparisjóði Mýrasýslu. Lengi vel þegar eigið fé var lítið þá var það kannski um 40% af eigin fé sparisjóðsins sem var undir í kaupfélaginu. Kaupfélagið er stærsti vinnuveitandinn í Borgarfirði. Það hefur alltaf verið kúltúr í héraðinu og í sparisjóðnum að vinna með þessu félagi til góðra verka.36

Í skýrslu um innri endurskoðun sparisjóðsins fyrir árið 2007 kom fram að tryggingarstaða vegna heildarskuldbindinga Kaupfélags Borgfirðinga og tengdra aðila væri góð og var veðsetningarhlutfallið metið 73,7%. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins í júlí 2008, eftir könnun á útlánaáhættu Sparisjóðs Mýrasýslu, sagði um fyrirgreiðslur til Kaupfélags Borgfirðinga:

Lauslegt mat á tryggingum fyrir skuldum þessa aðila við SPM er, að ef á reyndi vantar hugsanlega eitthvað upp á þær. Góð eiginfjárstaða kaupfélagsins gefur hins vegar til kynna að á þær muni ekki reyna á næstunni.37

Heildarskuldbinding lánahópsins nam 843 milljónum króna 30. júní 2008, og var áhættuskuldbindingin 60,1% af eiginfjárgrunni Sparisjóðs Mýrasýslu eða langt umfram 25% hámarkið samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Þrátt fyrir slæma fjárhagsstöðu sparisjóðsins fékk Kaupfélag Borgfirðinga nýtt eingreiðslulán til fimm ára 26. nóvember 2008, að fjárhæð 55 milljónir króna. Til tryggingar láninu fékk sparisjóðurinn handveð í hlutum félagsins í Borgarlandi ehf., að nafnvirði 19 milljónir króna.38 Á lántökudegi höfðu nýjar lánareglur sparisjóðsins tekið gildi; samkvæmt þeim hefði stjórn sparisjóðsins eða lánanefnd átt að fjalla um málið, en það var ekki gert. Ekki var gert ráð fyrir veði í hlutabréfum í lánareglunum, en lánanefnd hafði heimild til að víkja frá því. Þar sem lánanefnd fjallaði ekki um lánið eða frávik frá lánareglum var ekki farið að reglum sparisjóðsins, hvorki hvað varðaði málsmeðferð eða tryggingu sparisjóðsins fyrir láninu.

Lónakot ehf.

Lónakot ehf. var byggingarfélag sem stofnað var árið 2005. Á árinu 2007 var félagið í eigu Holtasels ehf. að 40% hluta, stofnanda félagsins að 30% hluta, Sparisjóðs Mýrasýslu 20%, og Valakletts ehf. 10%.39 Jóhann Halldórsson var stjórnarmaður í Lónakoti ehf. til ársins 2006 og framkvæmdastjóri til 2011. Engir aðrir aðilar eða félög voru skilgreind sem hluti af lánahópi með Lónakoti ehf.

Lónakot ehf. fékk fyrst fyrirgreiðslu frá Sparisjóði Mýrarsýslu í byrjun árs 2006 til að fjármagna kaup félagsins á jörðinni Lónakoti í Hafnarfirði, og til þess fékk félagið eingreiðslulán í erlendri mynt að jafnvirði 202 milljóna króna. Lánstími var fimm ár og tryggingin var 1. veðréttur í lóðinni Lónakoti í Hafnarfirði. Stjórnarfundur sparisjóðsins 24. febrúar hafði samþykkt að lána Lónakoti ehf. 200 milljónir króna, en bókað var á fundinum að það yrði skoðað nánar hvort sparisjóðurinn myndi jafnframt kaupa hlut í félaginu.

Í tölvupósti 10. mars 2006 frá Jóni Gunnari Vilhelmssyni, starfsmanni sparisjóðsins, til Stefáns Sveinbjörnssonar, starfsmanns sparisjóðsins, og Gísla Kjartanssonar sparisjóðsstjóra var fjallað um málefni Lónakots ehf. Í honum kom fram að sparisjóðnum hefði borist tilboð frá eigendum um að kaupa 20% hlut í félaginu fyrir 147,2 milljónir króna. Í tölvupóstinum lýsti Jón yfir efasemdum um verkefnið:

M.v. okkar áhuga á jarðakaupum, finnst mér þetta spennandi kostur á ofangreindu verði – greining sýnir fína mögulega ávöxtun. Þetta eru sterkir aðilar með góða þekkingu og tengsl til að klára verkið. Landið er vel staðsett, þó mér finnist það persónulega ekki spennandi búsetukostur – það býður uppá góðar tengingar við höfuðborgarsvæðið, sem og Reykjanesbæ. Helsti lösturinn er nálægð við stóriðju og annan fremur sóðalegan iðnað – en það virðist ekki hafa hindrað fólk í að byggja þarna suðurfrá hingað til.
Stærsta áhættan er fólgin í eftirfarandi:
Tvö sveitarfélög þurfa að koma að skipulagsmálum – þetta gæti flækt og tafið mál meira en ella og kostað þannig tíma sem er mjög dýrt.
Hluthafahópurinn hefur átt í útistöðum og mögulegt er að stóri aðilinn […] geti orðið erfiður í samstarfi – við þurfum að fyrirbyggja slíkt.
Svo er alltaf spurningin, af hverju eru þeir að bjóða okkur að koma inn í þetta – [stóri aðilinn] gæti klárað þetta sjálfur ef þetta er eitthvað spursmál. Þeir munu nota okkar hlut til að fjármagna skipulagsmál, o.fl., og finnst mér það mikill kostnaður (150M) – er eitthvað annað sem er að trufla þá?

Á stjórnarfundi 29. mars 2006 var samþykkt að kaupa 20% hlut í Lónakoti ehf. fyrir 147 milljónir króna og jafnframt að lána félaginu 36,8 milljónir króna með víkjandi hluthafaláni. Í lánssamningnum kom fram að aðrir hluthafar félagsins myndu veita Lónakoti ehf. sambærileg lán í hlutfalli við eign hvers fyrir sig. Lánið skyldi greiða með einni greiðslu höfuðstóls og vaxta í apríl 2011 og skyldi víkja fyrir öllum öðrum kröfum á hendur Lónakoti ehf. Lánið var án trygginga.

Nokkrum dögum síðar, 4. apríl 2006, fékk Lónakot ehf. lán í erlendri mynt að jafnvirði 176 milljóna króna frá sparisjóðnum. Lánið var upphaflega til skamms tíma og skyldi greiða með einni greiðslu höfuðstóls og vaxta 3. júlí sama ár. Til tryggingar var 2. veðréttur í Hvassahrauni á jörðinni Lónakoti. Lánið var þrisvar sinnum endurfjármagnað með nýjum lánum er kom að gjalddaga þar sem vöxtum var bætt við höfuðstól. Síðasti framlengdi gjalddagi lánsins var 3. október 2008, en þá komst lánið í vanskil.

Í skýrslu innri endurskoðanda sparisjóðsins árið 2006 kom fram að miðað við það verð sem sparisjóðurinn greiddi fyrir 20% hlut í Lónakoti ehf. mætti ætla að heildarverðmæti fyrirtækisins væri 736 milljónir króna. Hlutfall heildarfyrirgreiðslunnar á árinu 2006 væri 61,2% af því mati.40

Lónakot ehf. fékk lán í erlendri mynt 25. október 2007 að jafnvirði 112 milljóna króna til kaupa á jörðinni Austurkoti í Vogum á Vatnsleysuströnd. Lánið bar að endurgreiða með einum gjalddaga höfuðstóls og vaxta 25. apríl 2008 sem var síðar framlengt til 3. október 2008. Til tryggingar láninu fékk sparisjóðurinn 1. veðrétt í jörðinni Austurkoti. Ekki var fjallað um lánið í stjórn sparisjóðsins.

Hinn 31. maí 2008 voru heildarskuldbindingar Lónakots ehf. við sparisjóðinn 1.108 milljónir króna og áhættuskuldbindingin 24,9% af eiginfjárgrunni Sparisjóðs Mýrasýslu, rétt undir lögbundnu hámarki sem er 25%. Hafði þá verið tekið tillit til 200 milljóna króna ábyrgðar frá VBS Fjárfestingarbanka hf. á skuldbindingum félagsins sem veitt var 31. mars 2008 og gilti til 10. júlí 2008.

Á stjórnarfundi 17. desember 2008 voru málefni Lónakots ehf. tekin sérstaklega fyrir. Fram kom að Lónakot ehf. skuldaði vexti í Glitni banka hf. fyrir um það bil 7 til 8 milljónir króna og að bankinn væri með veð í Hvassahrauni á jörðinni Lónakoti á undan Sparisjóði Mýrasýslu. Tryggingarstaða Sparisjóðs Mýrasýslu var þar af leiðandi ekki nógu góð. Í lok árs 2008 voru heildarskuldbindingar Lónakots ehf. 1.037 milljónir króna og áhættuskuldbindingin 69,2% af eiginfjárgrunni Sparisjóðs Mýrasýslu. Áætlað verðmæti trygginga sparisjóðsins var um 610 milljónir króna, en fyrirgreiðslur félagsins höfðu hækkað mjög vegna óhagstæðra gengisbreytinga, og samhliða því rýrnuðu tryggingarnar. Sérgreint framlag í afskriftareikning útlána vegna skuldbindinga Lónakots ehf. nam 615 milljónum króna 31. desember 2008.

Á fundi lánanefndar Sparisjóðs Mýrasýslu 4. febrúar 2009 var samþykkt heimild til handa starfsmanni sparisjóðsins að framlengja lánasamninga Lónakots ehf. frá mánuði til mánaðar eftir þörfum. Sparisjóðurinn sameinaðist Nýja Kaupþingi banka hf. stuttu síðar, en Lónakot ehf. var úrskurðað gjaldþrota í október 2011.

Sigurplast ehf.

Sigurplast var stofnað árið 1960 og framleiddi og seldi ýmiss konar umbúðir úr plasti. Í mars 2007 var rekstur Sigurplasts seldur til nýstofnaðs félags er fékk nafnið Sigurplast ehf. stuttu eftir kaupin.41 Sigurplast ehf. var jafnt í eigu þriggja hluthafa, Vesturlands hf.42 og tveggja annarra einkahlutafélaga. Stjórnarformaður Sigurplasts ehf. var Jón Snorri Snorrason og Bernhard Þór Bernhardsson, fyrrverandi forstöðumaður viðskiptaþjónustu og síðar sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Mýrasýslu, var stjórnarmaður í félaginu.43

Sparisjóðurinn veitti Sigurplasti ehf. fjögur lán í erlendri mynt til kaupa á rekstri félagsins af fyrri eiganda á árinu 2007. Kaupverðið var tæpar 352 milljónir króna, en fjármögnunin var að jafnvirði 348 milljóna króna. Til tryggingar lánunum var gefið út 450 milljóna króna tryggingarbréf með 1. veðrétti í vörubirgðum, vörureikningum og rekstrartækjum félagsins.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu sparisjóðsins í júlí 2008 var gerð athugasemd við tryggingastöðu Sigurplasts ehf. hjá sparisjóðnum:

Það er ljóst að tryggingar skuldanna duga skammt ef til erfiðleika kemur og skuldsetning er nokkuð djörf út frá áætlaðri EBITDA (skuldir/EBITDA=10). FME telur mikilvægt að stjórnendur SPM endurmeti greiðslugetu og tryggingar vegna ofangreindra lána og láti gera virðisrýrnunarpróf á viðskiptavild fyrirtækisins.44

Skuldbindingar Sigurplasts ehf. hækkuðu mjög á árinu 2008 sökum óhagstæðra gengisbreytinga og námu 525 milljónum króna 30. júní 2008. Var áhættuskuldbindingin þá 35% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Seinna sama ár gerði sparisjóðurinn kröfu um að Sigurplast ehf. bætti veðstöðu sína gagnvart sparisjóðnum. Í október 2008 var gerður handveðssamningur um allt hlutafé einkahlutafélaganna tveggja í Sigurplasti ehf. og sérgreint lausafé félagsins, sem viðbótartrygging. Eigandi annars einkahlutafélaganna hafði þá með veðsamningi 14. júlí 2008 undirgengist kvöð gagnvart SPRON-Verðbréfum hf. um að veðsetja hvorki né selja hluti einkahlutafélagsins í Sigurplasti ehf. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2013 var eigandinn dæmdur fyrir skilasvik vegna þeirrar ráðstöfunar að veðsetja Sparisjóði Mýrasýslu hluti einkahlutafélagsins í Sigurplasti ehf.45 Sú niðurstaða var staðfest með dómi Hæstaréttar 10. október 2013 í máli nr. 170/2013.

Í lok árs 2008 nam heildarskuldbinding Sigurplasts ehf. við Sparisjóð Mýrasýslu 852 milljónum króna og var áhættuskuldbindingin 56,8% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.46 Sérgreint afskriftarframlag vegna Sigurplasts ehf. nam á sama tíma 635 milljónum króna. Sigurplast ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í september 2010. Arion banki hf., sem hafði tekið yfir hluta af eignum þrotabúsins, seldi reksturinn til nýrra eigenda í apríl 2012.

20.2.4 Lán til starfsmanna og stjórnarmanna

Ákvæði um lánveitingar til starfsmanna Sparisjóðs Mýrasýslu var hvorki að finna í útlánareglunum frá 1996 né í reglunum frá 2005. Í starfsreglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra frá árinu 2003 var hins vegar að finna ákvæði um að sparisjóðsstjóri mætti hvorki taka lán hjá sparisjóðnum né njóta ábyrgðar hans við lántöku hjá annarri lánastofnun. Þá var sparisjóðsstjóra óheimilt að gangast í ábyrgð vegna annarra gagnvart sparisjóðnum eða gerast umboðsmaður þeirra við sparisjóðinn. Sömu reglur giltu um maka sparisjóðsstjóra. Þá vísuðu starfsreglurnar til þess að aðrir starfsmenn sparisjóðsins skyldu lúta sömu útlánareglum og viðskiptamenn, en að strangari kröfur væru gerðar til skilvísi starfsmanna.

Í nýjum útlánareglum sparisjóðsins frá september 2008 var í fyrsta skipti að finna ákvæði um lán til starfsmanna og stjórnarmanna þótt vísað hefði verið til slíkra ákvæða í reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra. Ætlast var til þess að starfsmenn sýndu gott fordæmi í fjármálum og væru öðrum góð fyrirmynd. Útlán til starfsmanna skyldu samþykkt af sparisjóðsstjóra eða viðkomandi forstöðumanni eða útibússtjóra, væru lánin innan heimilda þeirra. Sömu reglur skyldu gilda um lánafyrirgreiðslur til aðila sem teldust venslaðir starfsmanni, svo sem til maka eða félags sem starfsmaður ætti meira en 10% eignarhlut í. Starfsmenn í fjárhagsvandræðum máttu ekki veita lán, og ef um væru að ræða tengsl milli starfsmanns og viðskiptamanns mátti starfsmaðurinn ekki veita honum lán. Að öðru leyti giltu sömu reglur um tryggingar og annað vegna lána til starfsmanna og um aðra lántaka sparisjóðsins.

Athugun rannsóknarnefndarinnar á lánum Sparisjóðs Mýrasýslu til starfsmanna leiddi í ljós að þau námu um 1%–2% af heildarútlánum sparisjóðsins. Enginn starfsmaður sparisjóðsins var með óvenjulega fyrirgreiðslu eða háar skuldbindingar hjá sparisjóðnum. Hæsta skuldbinding starfsmanns nam rúmlega 31 milljón króna 31. desember 2008, en aðrir starfsmenn voru með talsvert lægri fjárhæðir.

Stjórnum sparisjóða bar að setja sér starfsreglur þar sem meðal annars skyldi fjallað um framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt bar sparisjóðum að skila hálfsárslega til Fjármálaeftirlitsins skýrslu um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila þar sem fram kæmu allar fyrirgreiðslur yfir 10 milljónum króna til þeirra, það er til stjórnarmanna, maka þeirra, barna og félaga tengdra þeim. Samkvæmt leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 4/200647 um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr., átti sparisjóðurinn að leggja fyrir innri endurskoðanda að fara reglulega yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og bera þær saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina. Ennfremur sagði í 3. mgr. 27. gr. starfsreglna stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu að innri endurskoðandi ætti að fara reglulega yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og greina frá niðurstöðum athugana sinna í skýrslu til stjórnar. Þrátt fyrir skýrar reglur um þetta efni var ekki farið yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila hjá Sparisjóði Mýrasýslu með reglubundnum hætti, og gerði Fjármálaeftirlitið alvarlega athugasemd við þetta í athugun sinni á útlánaáhættu sparisjóðsins í júlí 2008. Hjá Sparisjóði Mýrasýslu var því ekki til listi yfir viðskipti venslaðra aðila fram til haustsins 2008, og fram að þeim tíma lét sparisjóðurinn hjá líða að gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir fyrirgreiðslum yfir 10 milljónum króna til venslaðra aðila.48 Í svari sparisjóðsins við drögum að skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að send hefði verið inn ný skýrsla um lán til venslaðra aðila og skýrsla um venslaða aðila verið endurbætt.49

Rannsóknarnefnd Alþingis kannaði hvort venslaðir aðilar Sparisjóðs Mýrasýslu, það er stjórnarmenn, makar þeirra og félög í tengslum við eða í eigu stjórnarmanna eða maka,50 hefðu notið óvenjulegrar lánafyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum með því að keyra kennitölur þeirra saman við lánagrunn sparisjóðsins. Athugunin leiddi í ljós að venslaðir aðilar voru með óveruleg lán hjá Sparisjóði Mýrasýslu. Fimm venslaðir aðilar, þrír stjórnarmenn og tveir makar stjórnarmanna, voru með heildarskuldbindingar yfir 10 milljónum króna 31. desember 2008, og þar af var einn maki með hæstu heildarskuldbindinguna sem nam rúmlega 50 milljónum króna.

Jafnframt var kannað hvort venslaðir aðilar úr öðrum sparisjóðum væru með óvenjulega háar fyrirgreiðslur hjá Sparisjóði Mýrasýslu, en sú athugun sýndi aðeins fram á óverulegar fjárhæðir í heildarskuldbindingum, að frátöldum einkahlutafélögum starfsmanna Icebank hf. sem tóku lán til kaupa á hlutabréfum í bankanum.

20.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Í þessum kafla er fjallað um fjárfestingar móðurfélags Sparisjóðs Mýrasýslu. Tekin eru dæmi af fjáreignum sparisjóðsins og rakið hvenær til þeirra var stofnað. Umfjöllun miðast aðallega við stærstu eignir sjóðsins árið 2007 sem flestar skiluðu miklu tapi á árinu 2008. Þá er einnig fjallað um nokkur dóttur- og hlutdeildarfélög sparisjóðsins.

Sparisjóður Mýrasýslu fjárfesti í verðbréfum fyrir eigin reikning, bæði í stærri og smærri fyrirtækjum. Nokkuð var um fjárfestingar þar sem sparisjóðurinn breytti kröfum í hlutafé, en stærstu fjárfestingar sparisjóðsins voru í Icebank hf., VBS Fjárfestingarbanka hf. og Exista hf. Þá átti sparisjóðurinn hlut í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Fjárfestingar Sparisjóðs Mýrasýslu skiluðu frekar lítilli ávöxtun í samanburði við aðra sparisjóði á árunum 2001–2005, ólíkt afkomunni frá 2005 til 2007. Flestar fjáreignir sparisjóðsins urðu hins vegar nánast verðlausar árið 2008.

20.3.1 Skipulag og reglur

Sparisjóður Mýrasýslu setti sér starfs- og áhættureglur vegna eigin verðbréfaviðskipta í lok árs 1999, og voru þær uppfærðar árið 2000. Þar voru hugtökin veltubók og fjárfestingarbók skilgreind:

Veltubók nær til þeirra markaðsverðbréfa/gjaldmiðla er SM á/skuldar á hverjum tíma og hefur keypt/selt til að hagnast á. Veltubók er á hverjum tíma gerð upp á markaðsvirði.
Fjárfestingarbók nær til þeirra verðbréfa er SM hefur keypt sem langtímafjárfestingu (oftast meira en 1 ár). Fjárfestingarbók er á hverjum tíma gerð upp á uppreiknuðu kaupverði (fylgir t.d. neysluverðsvísitölu). Hagnaður/tap á stöðutöku er því aðeins bókfærður þegar SM telur æskilegt og/eða nauðsynlegt.

Í þessum reglum voru sett fjárhæðamörk fyrir tilteknar fjárfestingar og mörkuð stefna um hversu lengi sparisjóðurinn skyldi eiga ákveðnar fjárfestingar. Fram kom að þeir starfsmenn sem stýrðu veltubók skyldu halda fundi mánaðarlega með sparisjóðsstjóra eða aðstoðarsparisjóðsstjóra og leggja fram tillögur og hugmyndir um fjárfestingarstefnu til næstu mánaða. Um fjárfestingarbókina sagði að stjórn sparisjóðsins skyldi að öðru jöfnu vera upplýst um hver staða hennar væri.

Í reglum um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra frá desember 2003, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, er fjallað um ákvarðanir um fjárfestingar í X. kafla, 55. gr.:

Það er hlutverk stjórnar sparisjóðsins að kynna stefnumörkun sína og markmið ætluðum fjárfestingum áður en hafin er vinna við undirbúning tillögugerða fyrir fjárfestingar næsta starfsárs. Í upphafi skal stefnan mörkuð, en hún síðan sveigð að þeim forsendum sem fyrir liggja, eftir að gagnaöflun í hinum ýmsu starfsdeildum sparisjóðsins er lokið. Það er liður í stjórnunarskyldum sparisjóðsstjórnar að marka starfseminni þann fjárfestingarramma sem hentar starfseminni á hverjum tíma.
Fjárfestingum verður skipt í eftirtalda flokka:
Rekstrarfjárfestingar. Kaup á búnaði og rekstrartækjum.
Eignafjárfestingar. Kaup á fasteignum.
Eignaaukning í formi hlutabréfa og öðrum tegundum viðskiptabréfa.
Við undirbúning gagnaöflunar skal leitað tillagna frá þeim stjórnendum sparisjóðsins sem stjórna hverri starfsdeild fyrir sig. Sparisjóðsstjóra ber að undirbúa tillögur að fjárfestingum næsta árs á grundvelli þeirra forsendna sem fyrir liggja og með hliðsjón af stefnumótun stjórnarinnar. Tillögur að fjárfestingastefnu sparisjóðsins skulu tilbúnar til afgreiðslu í sparisjóðsstjórn eigi síðar en í byrjun desember ár hvert.
Ekki er heimilt að ráðast í fjárfestingar án þess að kannað sé vandlega hvaða áhrif þær hafa á rekstur og afkomu sparisjóðsins til lengri tíma litið. Öll undirbúningsvinna skal unnin á faglegan hátt og leitast við að kanna allar hliðar hvers máls áður en ákvörðun er tekin.

Ekki er að sjá af fundargerðum sparisjóðsins að mörkuð hafi verið fjárfestingarstefna eða fjárfestingarrammi eða kannað vandlega hvaða áhrif fjárfestingar hefðu á rekstur og afkomu sparisjóðsins til lengri tíma litið þegar fjallað var um þær.

Um verkaskiptingu stjórnar og sparisjóðsstjóra sagði í 20. gr.:

Sparisjóðsstjórnin skal setja reglur um mörk heimilda sparisjóðsstjóra til að veita lán og til að ákveða fjárfestingar. Reglur þessar mega koma fram í lánareglum sparisjóðsins. Að öðru leyti ræðst verkaskipting stjórnar og sparisjóðsstjóra af starfsreglum sparisjóðsins og meginreglum félagaréttar.

Í útlánareglum sparisjóðsins frá nóvember 2005, hinum fyrstu sem settar voru eftir gildistöku starfsreglnanna, kemur ekkert fram um heimildir sparisjóðsstjóra til fjárfestinga.

Í 17. gr. starfsreglnanna sagði um starfsskyldur sparisjóðsstjóra:

Sparisjóðsstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri sparisjóðsins. Hann fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum sparisjóðsins sem ekki eru falin öðrum skv. lögum nr. 161/2002 eða samþykktum sparisjóðsins. […] Sparisjóðsstjórinn stendur fyrir rekstri sparisjóðsins í samræmi við þær reglur sem settar eru af sparisjóðsstjórn eða skv. samþykktum hans. Honum ber að gæta þess eftir megni að reksturinn sé í öllum greinum skv. lögum, samþykktum sparisjóðsins og ákvörðunum sparisjóðsstjórnar. […] Sparisjóðsstjóri ber ábyrgð á að greina, mæla, fylgjast með og hafa eftirlit með áhættum sem starfseminni fylgja. Honum ber að viðhalda skipuriti sem skýrt tilgreinir ábyrgðarsvið, heimildir starfsmanna og boðleiðir innan sparisjóðsins. Þá ber honum að tryggja að deiling ábyrgðar sé með fullnægjandi hætti. Sparisjóðsstjóri á að móta markmið fyrir innra eftirlit í samráði við stjórn sparisjóðsins og fylgjast með því að það eftirlitskerfi sé skilvirkt og fullnægjandi.

Nýjar reglur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra tóku gildi 31. janúar 2007, og breyttu þær litlu um verkaskiptingu stjórnar og sparisjóðsstjóra. Töluverðar breytingar urðu þó á ákvæðum um fjárfestingar. Þannig sagði í 30. gr. um mörk fjárfestingarheimilda:

Fjárfesting í fasteignum skal borin upp í stjórn, sem og önnur þau fjárfestingaráform sem telja má meiriháttar eða óvenjuleg. Sem dæmi má nefna kaup á meiriháttar tölvubúnaði og fyrirhuguð opnun afgreiðslustaða.

Fyrrum stjórnarformaður sparisjóðsins lýsti því fyrir rannsóknarnefndinni að mjög sjaldgæft hefði verið að stjórnin hefði átt frumkvæði að fjárfestingum, þær hefðu yfirleitt komið frá sparisjóðsstjóra sem bar fjárfestingarnar undir stjórnina. Hann sagði sparisjóðsstjóra hafa getað tekið ákvarðanir um fjárfestingar án þess að bera þær undir stjórn ef þær voru undir ákveðinni fjárhæð, en mundi ekki hver sú fjárhæð hefði verið.51 Fyrrum sparisjóðsstjóri sagði starfsmenn sína hafa staðið í fjárfestingum og yfirleitt borið þær undir sig. Ef um hefði verið að ræða meiriháttar ákvarðanir hefði hann sjálfur borið fjárfestingarnar undir stjórnarformann. Fjárfestingar hefðu þó ekki verið í föstu eða formlegu ferli.52

Á árunum 1999–2003 kom Kjartan Broddi Bragason, sérfræðingur hjá sparisjóðnum, talsvert að fjárfestingum sparisjóðsins. Á sama tíma starfaði hjá sparisjóðnum sérfræðingur á verðbréfasviði, Stefán Sveinbjörnsson, en frá 2003 var hann forstöðumaður fyrirtækjasviðs. Meðal verkefna hans þar var umsjón með veltubók og smærri fjárfestingum,53 en skipurit sparisjóðsins frá árinu 2007 sýnir að markaðsviðskipti, eigin viðskipti, fullnustueignir og dóttur- og hlutdeildarfélög hafi verið undir hatti fyrirtækjasviðs.54 Bernhard Þór Bernhardsson, sem varð sparisjóðsstjóri á árinu 2008, var ráðinn til sparisjóðsins árið 2007, meðal annars til þess að sinna kaupum og sölu fyrirtækja, en slík verkefni voru fá eða engin eftir að hann tók til starfa. Hann sinnti þá aðallega verkefnum sem tengdust erlendri fjármögnun sparisjóðsins.55 Jón Gunnar Vilhelmsson, útibússtjóri Reykjavíkurútibús Sparisjóðs Mýrasýslu, kom einnig að ákveðnum fjárfestingarverkefnum sparisjóðsins. Fyrrum starfsmenn sparisjóðsins báru fyrir nefndinni að stórar fjárfestingarákvarðanir hefðu alfarið verið í höndum sparisjóðsstjóra og stjórnar sparisjóðsins og þær hefðu lítt verið bornar undir sérfræðinga sem unnu á vegum sjóðsins.56 Reglur sparisjóðsins um áhættustýringu skilgreindu áhættu vegna fjárfestinga og ábyrgðarsvið starfsmanna með tilliti til þeirrar áhættu. Í nóvember 2005 voru settar reglur um áhættustýringu hjá Sparisjóði Mýrasýslu. Þar sagði:

Tilgangur áhættustýringar er að finna ásættanlegt jafnvægi milli annars vegar þeirrar áhættu sem óhjákvæmilega felst í starfsemi SPM og getur leitt til tekjutaps og rýrnunar á verðmæti eigna og hins vegar hámörkunar á tekjum SPM.

Samkvæmt reglunum bar stjórn sparisjóðsins ábyrgð á því gagnvart stofnfjáraðilum að reglum um áhættustýringu væri framfylgt, en sparisjóðsstjóri bar ábyrgð á áhættustýringu gagnvart stjórn. Hann gat sett nánari reglur um hana og skilgreint áhættuviðmið eftir því sem þörf var talin á í samræmi við ákvæði reglnanna. Forstöðumenn deilda og framkvæmdastjórar dótturfélaga báru ábyrgð gagnvart sparisjóðsstjóra á stýringu áhættuþátta sem að þeim sneru. Forstöðumaður áhættustýringar skyldi safna saman skýrslum um stöðu sparisjóðsins gagnvart áhættuviðmiðum og áhættustýringarnefnd sem skipuð væri sparisjóðsstjóra og forstöðumönnum sparisjóðsins, fjalla almennt um áhættustýringu, svo sem reglur og viðmið og stöðu sparisjóðsins gagnvart áhættuviðmiðum. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 10. júní 2008 voru samþykktar nýjar reglur um áhættustýringu sem voru efnislega mjög líkar þeim eldri. Helstu breytingar vörðuðu mörk fjárfestingarheimilda, og voru þær takmarkaðar mjög frá því sem áður var.

Ekki verður séð af fundargerðum stjórnar sparisjóðsins frá 2005–2008 hvort stjórnin hafi þekkt þessar reglur vel eða látið athuga hvort farið væri eftir þeim. Ekki er bókað að skýrslur hafi verið lagðar fram reglulega til að meta stöðu sparisjóðsins gagnvart áhættuviðmiðum þegar fjárfest var í hlutabréfum. Þannig bera stjórnarfundargerðir sparisjóðsins með sér að eftirlit með þessum helstu áhættuþáttum hafi ekki verið reglulegt eða skipulegt. Fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrum stjórnarformaður sparisjóðsins að misbrestir hefðu verið í áhættustýringunni sem hefði meðal annars birst í því að ekki hefði verið farið skipulega yfir áhættu vegna fjárfestinga. Umfjöllun stjórnar um fjárfestingar hefði einkum verið um einstök mál, einatt um fjárfestingu í sameiginlegum verkefnum sparisjóðanna, svo sem Exista hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. Stjórnarmenn hafi spurt út í fjárfestingarnar og hvort hyggilegt væri að ráðast í þær, en kannski hefði of lítil áhersla verið lögð á að athuga áhrif þeirra á heildaráhættu sparisjóðsins.57 Nokkrar ákvarðanir um fjárfestingar er að finna í fundargerðum stjórnar á tímabilinu, en bókanir eru ekki ítarlegar.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um athugun á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu frá 30. júlí 2008 voru gerðar þó nokkrar alvarlegar athugasemdir við markaðsáhættu sparisjóðsins.

Niðurstaða skoðunar á verðbréfaáhættu var harðorð:

Fjármálaeftirlitið gerir alvarlegar athugasemdir við að sparisjóðurinn hefur ekki sett fullnægjandi skjalfesta innri ferla til að meta nauðsynlega stærð, samsetningu og innri dreifingu eiginfjárgrunns með hliðsjón af þeim áhættum sem starfsemin felur í sér skv. 17. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá verður ekki betur séð en að Sparisjóður Mýrasýslu hlíti á engan hátt þeim fáu skjalfestu áhættuviðmiðum sem sparisjóðurinn setur sér.58

Um áhættustýringarreglur sparisjóðsins og undanþágur frá hámarksfjárfestingum í ákveðnum tegundum eigna sagði:

Fjármálaeftirlitið telur óeðlilegt að gerðar séu sömu undanþágur fyrir fjármálafyrirtæki sem hafa ekki lánshæfismat og víxla og skuldabréf útgefin af seðlabanka og ríkissjóði. Jafnframt telur Fjármálaeftirlitið að óeðlilegt sé að gera þær undanþágur fyrir félög í meirihlutaeigu sparisjóðanna. Slíkar reglur eru ekki til þess fallnar að draga úr markaðsáhættu.59

Fjármálaeftirlitið framkvæmdi álagspróf þar sem metin voru áhrif breytinga á virði fjáreigna á eigin fé sparisjóðsins, og var niðurstaða þess eftirfarandi:

Sparisjóðurinn [er] á engan hátt í stakk búinn til að taka við nánast neinu álagi varðandi markaðsáhættu sína og telur Fjármálaeftirlitið að sparisjóðurinn verði að leita leiða hið fyrsta til úrbóta. Þá skal tekið fram að álagsprófið var framkvæmt fyrir allar fyrirséðar afskriftir og er því staða sparisjóðsins í raun enn lakari en niðurstaða álagsprófsins gefur til kynna.60

Þá athugaði Fjármálaeftirlitið verkferla og kerfi sparisjóðsins:

Fjármálaeftirlitið gerir alvarlegar athugasemdir við skort á yfirsýn yfir áhættur sem að sparisjóðnum geta steðjað.61

Þessar niðurstöður Fjármálaeftirlitsins fá hljómgrunn í orðum fyrrverandi sparisjóðsstjóra:

[Áhættustýringarnefnd] var ekki virk. Mér fannst oft eins og þessar blessuðu reglur væru ætlaðar miklu stærri stofnunum heldur en við vorum að reka [ … ] og svona litlar stofnanir réðu bara ekki við þetta að mörgu leyti.62

Í athugasemdum sparisjóðsins við drög að skýrslunni kom fram að stjórnendum og stjórn sparisjóðsins hefði verið ljóst að ekki hefði verið nægilega vel staðið að áhættustýringu og gert ráð fyrir að stofna sérstaka áhættustýringarstöðu. Auglýst hefði verið eftir aðila til að sinna því hlutverki hjá sparisjóðnum, en ekki hefðu fengist fullnægjandi umsóknir um svo sérhæft starf, og því hafi ekki orðið af ráðningu. Þá hafi sparisjóðurinn leitað til ráðgjafarfyrirtækja til þess að sinna áhættustýringu í verktakavinnu, en það fyrirkomulag hafi ekki þótt henta. Ekki hefði náðst að ráða bót á þessu fyrir úttekt Fjármálaeftirlitsins. Ný stjórn sparisjóðsins var kosin 15. ágúst 2008 og nýr sparisjóðsstjóri ráðinn frá september það ár. Í kjölfarið voru samþykktar nýjar reglur um störf stjórnar og sparisjóðsstjóra og ráðist í umbætur á regluverki sparisjóðsins, meðal annars í samræmi við ábendingar í skýrslu Fjármálaeftirlitsins. Í formlegu svari sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins vegna skýrslunnar 3. október 2008 komu fram svipaðar skýringar og áður, en þess getið að stjórnin hefði í millitíðinni samið við Kaupþing banka um að sinna áhættustýringu sparisjóðsins þótt nánari útfærsla samstarfsins lægi ekki fyrir. Fjármálaeftirlitinu yrði tilkynnt um þær ráðstafanir síðar.

20.3.2 Fjáreignir

Hér er fjallað um þrenns konar fjáreignir: hluti í hlutdeildarfélögum, hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum, og markaðsskuldabréf og önnur skuldabréf með föstum tekjum. Jafnan er fjallað um tvær fyrstnefndu gerðirnar saman sem eignarhluti, þ.e. hluti í hlutdeildarfélögum annars vegar og hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum hins vegar. Fjáreignir Sparisjóðs Mýrasýslu voru aldrei minna en 10% af eignasafni hans og virði þeirra jókst hratt milli áranna 2004 og 2007, en í lok árs 2007 voru þær hátt í 10 milljarðar króna, um 21% eigna sparisjóðsins. Milli áranna 2004 og 2007 tífaldaðist hlutabréfaeign sparisjóðsins þegar hún fór úr tæpum 800 milljónum króna í árslok 2004 í rúman 8,1 milljarð króna í árslok 2007.

20.3.3 Tekjur af fjáreignum

Tekjur af fjáreignum eru gengishagnaður vegna eignarhluta, verðbreytingar skuldabréfa, hlutdeild í afkomu hlutdeildarfyrirtækja og arðstekjur. Vaxtatekjur af skuldabréfum teljast ekki til tekna af fjáreignum og færast með öðrum vaxtatekjum. Ávöxtun er hér skilgreind sem tekjur af fjáreignum á einu ári, reiknað sem hlutfall af meðalstöðu eignarhluta á árinu.63

Söluhagnaður fjáreigna var einatt færður sem aðrar tekjur í ársreikningi sparisjóðsins, en ekki sem tekjur af fjáreignum. Þetta var með ólíkum hætti milli sparisjóða og ekki alltaf gætt samræmis í hverjum sjóði. Árið 2002 var um 40 milljóna króna söluhagnaður sparisjóðsins af sölu eignarhlutar í SP-fjármögnun hf. færður sem aðrar rekstrartekjur, og ári síðar var söluhagnaður bókfærður með sama hætti þegar sparisjóðurinn seldi öll hlutabréf sín í Kaupþingi banka hf. og innleysti söluhagnað sem nam um 246 milljónum króna. Endurskoðunarskýrslur síðari ára greina ekki frá söluhagnaði á öðrum bréfum. Í sundurliðunum sem rannsóknarnefndinni voru afhentar um hagnað og tap af fjáreignum kemur fram 60 milljóna króna söluhagnaður af Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. árið 2005, og var hann færður sem gengishagnaður, en ekki sem aðrar rekstrartekjur.

Ávöxtun Sparisjóðs Mýrasýslu jókst árin 2003 og 2004 frá því sem áður var, en þó var hún síðri en meðtaltalsávöxtun annarra sparisjóða sömu ár. Þetta kom meðal annars til af því að sparisjóðurinn hafði selt hluti sína í Kaupþingi banka hf. (þá KB banka hf.) og naut því ekki ágóða af gengishækkun félagsins eins og margir aðrir sparisjóðir, ekki síst Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, en hann hefur töluverð áhrif á samanburðartölurnar vegna hlutfallslegra umsvifa hans. Óskráð bréf voru drjúgur hluti af verðbréfaeign Sparisjóðs Mýrasýslu, og hafði endurskoðandi sparisjóðsins áhyggjur af því eins og fram kom í skýrslu hans árið 2003:

Við viljum engu að síður ítreka fyrri ábendingar okkar þess efnis að mikil áhætta er fólgin í eignarhaldi hlutabréfa í óskráðum félögum. Jafnan er erfitt að leggja mat á raunvirði óskráðra hlutabréfa því sjaldan liggja fyrir upplýsingar um viðskipti með slík bréf. Við höfum áður lagt til að reynt verði að leggja mat á raunvirði einstakra eignarhluta í óskráðum félögum og þeir færðir niður ef raunvirði er talið lægra en bókfært verð.
Loks má benda á að bókfært verð óskráðra hlutabréfa í eigu sparisjóðsins eru um 43,8% af eigin fé sjóðsins í árslok 2003. Viljum við því leggja til að stjórnendur sparisjóðsins marki skýra stefnu hvað varðar hámark eignarhalds á hlutabréfum í óskráðum félögum.64

Í árslok 2003 var bókfærð eign samstæðunnar í óskráðum hlutabréfum og stofnfjárbréfum um 531 milljón króna, en fjáreignir námu þá alls 1,6 milljörðum króna. Ári síðar gerði endurskoðandi sömu athugasemd þegar óskráð bréf voru um 31% af eigin fé sjóðsins. Óskráð hlutabréf og stofnfjárbréf námu þá 439 milljónum króna meðan heildarfjáreignir sparisjóðsins voru áfram um 1,6 milljarðar króna. Árið 2004 var ávöxtun fjáreigna Sparisjóðs Mýrasýslu í fyrsta sinn frá aldamótum töluvert hærri en ávöxtunarkrafa ríkisbréfa,65 en sé ávöxtun sparisjóðsins borin saman við hækkun íslensku úrvalsvísitölunnar66 2003 og 2004, þegar hún nam 56% og 59%,67 sést að samsetning eignasafnsins var ekki eins og best verður á kosið með tilliti til hagnaðar (óháð áhættudreifingu). Óskráð hlutabréf og stofnfjárbréf námu 1,3 milljörðum króna í lok árs 2005, en þar af var eignarhlutur í Exista ehf. bókfærður á 780 milljónir króna.

Á mynd 14 er sýndur uppsafnaður hagnaður af fjáreignum Sparisjóðs Mýrasýslu, og hafa tölur hvers árs verið færðar á verðlag ársins 2011. Þær eru því ekki sambærilegar umfjöllun annars staðar í kaflanum. Árið 2008 var tap á fjáreignum rúmir 7 milljarðar króna, en það var um einum milljarði króna hærra en uppsafnaður hagnaður árin 2001–2007.

Líkt og á árinu 2004 er verulegur hluti afkomu ársins tilkominn vegna liða sem ekki heyra undir kjarnastarfsemi sjóðsins. Þannig nemur afkomuhlutdeild í rekstri dóttur- og hlutdeildarfélaga á árinu samtals 301,3 millj. kr. Þá er verulegur gengishagnaður á árinu af hlutabréfum í veltubók eða alls um 387,5 millj. kr. Alls gerir þetta 688,8 millj. kr. sem svarar til 93,8% af hagnaði sparisjóðsins fyrir reiknaðan tekjuskatt. Ljóst er að ekki er hægt að reiða sig á viðlíka hagnað af þessum rekstrarþáttum á næstu árum og því mikilvægt að okkar mati að treysta stoðir kjarnastarfsemi sjóðsins.

20.3.4 Umfjöllun um stakar eignir og stærstu niðurfærslur

Þær fjáreignir sem höfðu mest áhrif á efnahag og rekstur sparisjóðsins voru Exista hf. og síðar Kista – fjárfestingarfélag ehf., Sparisjóðabanki Íslands hf., VBS Fjárfestingarbanki hf. og Afl sparisjóður. Á árinu 2007 átti sparisjóðurinn stórar jákvæðar stöður í vaxtaskiptasamningum, hlutabréfasamningum og gjaldmiðlasamningum sem skýra verulegan hluta þess sem fellur undir „annað“ í töflu 24.

Þær fimm fjáreignir sparisjóðsins sem voru verðmætastar í lok árs 2007 voru fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélög utan um slík fyrirtæki. Sviptingar sem urðu á íslenskum fjármálamarkaði haustið 2008 höfðu mikil áhrif á virði þessara eigna, og voru þær orðnar nærri verðlausar í lok ársins.

Það voru 10–12 fjáreignir sem mynduðu nær alla afkomu sparisjóðsins af fjáreignum á árunum 2005–2008, og þau fimm félög sem voru stærst í efnahagsreikningi 2007 höfðu mest áhrif á afkomu. Fjármálafyrirtækin Sparisjóðabanki Íslands hf., VBS Fjárfestingarbanki hf. og Exista hf. (og síðar Kista – fjárfestingarfélag ehf.) voru félög sem margir sparisjóðir komu að í samstarfi. Fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrum stjórnarformaður Sparisjóðs Mýrasýslu: „Það hefði verið miklu betra að sjálfsögðu, að eiga í einhverjum framleiðslufyrirtækjum eða einhverju slíku, til þess að [auka] dreifinguna. Útlánadreifingin var allt í lagi en það er fyrst og fremst eignadreifingin sem varð okkur að falli.“68

Í lok árs 2005 átti Sparisjóður Mýrasýslu 1,7% hlut í Exista hf., en ári síðar hafði sá hlutur lækkað í 0,97%, og í lok árs 2007 var hann 0,06%. Þetta stafaði meðal annars af því að sparisjóðurinn seldi hluta eignar sinnar í Exista hf. yfir í Kistu – fjárfestingarfélag ehf. á árunum 2006 og 2007. Gengi Exista hf. var hæst í júlí 2007 þegar það var rúmlega 40 krónur á hlut, en hafði verið um 22,5 í lok árs 2006. Í lok árs 2007 var gengið rétt tæpar 19,75 krónur á hlut. Því varð lítils háttar gengislækkun milli ársloka 2006 og 2007, en sparisjóðurinn bókaði um 1,8 milljarða króna í hagnað af þessum bréfum á árinu 2007. Skýrist það af sölu 26,3 milljóna hluta í Exista hf. á genginu 28 til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. í mars 2007 og sölu 34,8 milljóna hluta á genginu 33,5 í júní 2008. Kista – fjárfestingarfélag ehf. eignaðist þannig bréfin, og gengisfall þeirra fram til ársloka 2007 olli fjárfestingarfélaginu töluverðu tapi á þessari eign og eigendum þess sömuleiðis. Þannig var tap Sparisjóðs Mýrasýslu á Kistu rúmur milljarður króna á árinu, en sparisjóðurinn átti 10,3% hlut í Kistu í lok árs 2007. Gengi Exista hf. hélt svo áfram að lækka á árinu 2008, og tapaði sparisjóðurinn því enn frekar á bréfunum, sem og Kistu. Sparisjóðurinn seldi bréf sín í Exista hf. á árinu 2008.69

Tap Sparisjóðs Mýrasýslu á Sparisjóðabankanum var um 2,1 milljarður króna árið 2008. Í desember 2007, þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður seldu stóran hluta eignar sinnar í Sparisjóðabankanum, jók Sparisjóður Mýrasýslu við hlut sinn. Fyrir kaupin átti sparisjóðurinn um 8,7% hlut, og var stefnt að því að kaupa um 3% til viðbótar, en sækja þurfti um leyfi Fjármálaeftirlitsins til þess að fara með virkan eignarhlut, þ.e. meira en 10% hlut, og voru kaupin skilyrt því samþykki. Kaupgengið var 28,055, en í lok árs 2007 var það mat sparisjóðsins að hlutir í Sparisjóðabankanum væru 23 króna virði hver. Þetta skýrir að drjúgum hluta það tap sem varð á eigninni á árinu 2007. Fjármálaeftirlitið hafnaði umsókn sparisjóðsins um að fara með virkan eignarhlut í Sparisjóðabankanum 30. maí 2008, og því átti hann áfram 8,7% hlut eða 99,6 milljón hluti.70

Sparisjóðabanki Íslands hf. var meðal stærstu eigenda Exista hf., en minnkaði hlut sinn í félaginu smám saman frá árinu 2006, meðal annars með því að selja Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. hlutabréf sín. Í lok árs 2005 átti bankinn 5,8% í Exista hf., ári síðar 3,5% og 2,5% í lok árs 2007. Í þessu ljósi má skoða hversu stór hlutur af eigin fé Sparisjóðs Mýrasýslu var bundinn í þessu eina félagi, bæði sem bein eign og óbein í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og Sparisjóðabanka Íslands hf.

Exista hf. og Kista – fjárfestingarfélag ehf.

Sparisjóður Mýrasýslu var einn af eigendum SP-eignarhaldsfélags ehf. sem hélt utan um eignarhlut nokkurra sparisjóða í Kaupþingi banka hf. Þetta félag skipti um nafn og hét Meiður ehf. í nokkurn tíma og síðar Exista ehf./hf.71 Á stjórnarfundi sparisjóðsins 16. október 2002 var samþykkt að selja SP-eignarhaldsfélagi ehf. hlut sparisjóðsins í Kaupþingi banka hf., en sparisjóðurinn myndi eiga hlut í eignarhaldsfélaginu. Félagsins var lítið getið í stjórnarfundargerðum þar til 17. desember 2003 þegar samþykkt var að flytja hlutabréf í Meiði ehf. yfir í veltubók sparisjóðsins. Rétt tæpum tveimur árum síðar var fjallað um félagið á stjórnarfundi þegar samþykkt var að kaupa nýtt hlutafé í Exista hf. fyrir 336 milljónir króna 9. nóvember 2005.

Hlutur Sparisjóðs Mýrasýslu í Exista hf. var 1,68% í lok árs 2005. Um var að ræða 146,2 milljónir hluta sem metnir voru á um 780 milljónir króna í bókhaldi sparisjóðsins í árslok. Það voru þá um 37% af eigin fé sparisjóðsins, en reglur hans um áhættustýringu takmörkuðu samanlagt bókfært virði óskráðra hlutabréfa í veltu- og fjárfestingarbók við 50% af eigin fé. Óskráð bréf voru þá samtals um 1,3 milljarðar króna eða 62,4% af eigin fé móðurfélagsins. Ekki er að finna sérstaka umfjöllun í fundargerðum stjórnar um þessa stöðu eða til hvaða aðgerða skyldi grípa.

Innan sparisjóðsins voru uppi ólíkar skoðanir á því hvað ætti að gera við hlutabréfaeign hans í Exista hf. Þar tókust annars vegar á þau sjónarmið að fjárfestingin væri áhættusöm og íþyngjandi fyrir eiginfjárhlutfall sparisjóðsins og hins vegar þau sem bentu á hagnaðinn sem sparisjóðurinn hefði haft af þessum bréfum. Fyrir rannsóknarnefndinni lýsti fyrrum forstöðumaður fyrirtækjasviðs því á þessa leið:

Sparisjóðsstjórinn hélt um þessa eign og það var oft í gegnum árin búið að tala við hann og segja að það væri áhættusamt að eiga þetta og það þyrfti að minnka þessa eign. En hann vildi halda þessu og hafði þau rök fyrir máli sínu að þetta væri búið að hækka mjög mikið og þess vegna ætti ekki að selja þessa eign. Hann hafði í raun mikið til síns máls þangað til að bréfin fóru að lækka.72

Fyrrum stjórnarformaður greindi rannsóknarnefndinni frá sams konar togstreitu:

Á miðju ári 2007 lagði ég nú til, reyndar óformlega, í stjórninni og við sparisjóðsstjóra að við færum að selja þetta [bréf í Exista hf.], bara á opnum markaði, losa okkur við þetta. Við vorum komnir með mikið undir í bréfum hjá fjármálafyrirtækjum og það var náttúrulega vont fyrir okkur því að það dróst allt frá CAD-inu og það var svo hættulegt við þessar aðstæður sem að gerðust svo. Ég man að sparisjóðsstjóri var ekki mjög hrifinn af þessum áformum. Hann trúði mjög mikið á að Exista væri góð eign og hafði örugglega einhverja ástæðu fyrir því. Samt sem áður þá fórum við að reyna að losa okkur, á þessum tíma, við eignir. Við enduðum á því að selja Exista-bréf eins og við gátum. Það var bara of seint. Við seldum líka í Íslenskum verðbréfum og fleiri fyrirtækjum en það fór bara allt í frost. Það var eins og hendi væri veifað og það lokaðist allt.73

Af stjórnarfundargerðum frá árinu 2006 er ekki að sjá að mikið hafi verið fjallað um eign sparisjóðsins í Exista hf. Sparisjóðsstjóra var veitt heimild 25. apríl 2006 til að selja fyrir tæpar 50 milljónir króna og 1. júní sama ár var fjallað um fréttatilkynningu frá Exista hf. vegna kaupa á Vátryggingafélagi Íslands hf. Bókfærð eign sparisjóðsins í Exista hf. var þá um 780 milljónir króna og óinnleystur hagnaður vegna hennar metinn 1,3 milljarðar króna. Forstöðumaður fyrirtækjasviðs kom á stjórnarfund 6. september 2006 og fjallaði um stöðu félagsins. Hann sagði fyrir rannsóknarnefndinni að skýrslur um áhættuþætti hefðu verið lagðar fyrir stjórnina, þó ekki reglulega, og taldi að stjórnin hefði verið meðvituð um áhættuna sem í stöðunni fólst. Sérstök greining hefði verið gerð á Exista hf. síðla árs 2007 og niðurstaðan orðið sú að verðið væri of hátt og sparisjóðurinn ætti að selja. Það hefði þó ekki verið gert.74 Um þessa sömu kynningu sagði sérfræðingur sem einnig kom að henni: „Ég held að á einni glærunni hafi bara beinlínis staðið að sjóðurinn væri orðinn nokkurs konar Exista afleiða.“75

Bernhard Þór Bernhardsson, sérfræðingur hjá Sparisjóði Mýrasýslu og síðar sparisjóðsstjóri, sagði rannsóknarnefndinni frá kynningu á alvarlegri stöðu sparisjóðsins sem hann lagði fyrir stjórnarfund í byrjun júní 2008. Þar hefði komið fram að eignaverð á mörkuðum færi lækkandi, bankar og fyrirtæki væru í fjármagnsþröng og Exista hf. myndi væntanlega lenda í vanskilum. Farið var yfir það hversu mikið hefði tapast á árinu á hlutabréfastöðum og hvað væri í þann mund að tapast. Spurningin væri ekki lengur hver staðan væri, heldur hvað menn ætluðu að gera. Bernhard sagði sparisjóðsstjóra og stjórnarformann hafa brugðist illa við kynningunni. Umræða fór fram á fundinum, en ekki var ákveðið að bregðast við. Gat hann sér þess til að stjórnarmenn hefðu allt eins átt von á að markaðir tækju við sér eins og þeir hefðu gert áður. Stuttu síðar hefði sparisjóðsstjórinn sannfærst um að sparisjóðurinn hefði ekki efni á að taka meiri áhættu. Það yrði að hreinsa út þær eignir sem hægt væri og allt hefði verið selt í Exista. Sparisjóðurinn hefði hins vegar enn átt stóran eignarhlut í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf., það hefði verið „strúktúr sem menn voru fastir inni í“.76

Stjórn sparisjóðsins samþykkti 22. nóvember 2006 að taka þátt í stofnun eignarhaldsfélags sex sparisjóða sem myndu kaupa hlutabréf í Exista hf. Sparisjóðsstjóri fékk umboð til að skrifa undir stofnskjöl fyrir hönd Sparisjóðs Mýrasýslu, og var samþykkt að selja um 35 milljón hluti í Exista hf. hinu nýja félagi sem hlaut nafnið Kista – fjárfestingarfélag ehf.77 Hann sat í stjórn félagsins frá stofnun þess. Sparisjóðurinn tók þátt í hlutafjáraukningu Kistu í desember 2006 og greiddi fyrir hana með 17,5 milljónum hluta í Exista hf. Þá keypti Kista jafnmarga hluti af sparisjóðnum í sama mánuði, og var greitt fyrir þá til helminga með hlutafé í Kistu og peningum. Greiðslan til sparisjóðsins nam 389 milljónum króna. Í mars 2007 keypti Kista af Sparisjóði Mýrasýslu 26,3 milljónir hluta í Exista hf. fyrir 736 milljónir króna, en 12. apríl 2007 samþykkti stjórn sparisjóðsins sölu á bréfum í Exista hf. til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. fyrir um 800 milljónir króna. Í júní 2007 seldi sparisjóðurinn Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. enn hlutabréf í Exista hf., í þetta sinn fyrir 1,2 milljarða króna. Ekki liggur fyrir hvort stjórnarsamþykktin 12. apríl átti við um fyrri eða seinni söluna, en í þeim báðum var helmingur kaupverðs greiddur í reiðufé og helmingur með hlutum í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Ekki er að sjá að stjórn hafi samþykkt aðra sölu á árinu 2007.

Í þessu ljósi má geta þess að samkvæmt c-lið 4. gr. reglna um áhættustýringu Sparisjóðs Mýrasýslu frá 9. nóvember 2005 var sparisjóðsstjóra óheimilt að kaupa óskráð bréf fyrir meira en 30 milljónir króna án samþykkis stjórnar. Þar sem helmingur greiðslna fyrir Exista-bréfin sem seld voru til Kistu 2007 voru hlutafé í Kistu, þykir ljóst að hvorki hafi legið fyrir nægilega skýr heimild stjórnar fyrir viðskiptunum né til hverra þeirra heimildin tók.

Í byrjun árs 2008 fór að halla undan fæti hjá Kistu – fjárfestingarfélagi ehf., en félagið var mjög skuldsett og hafði lagt bréf í Exista hf. að veði fyrir skuldunum. Með fallandi gengi hlutabréfanna fóru lánardrottnar fram á auknar tryggingar fyrir lánunum. Á stjórnarfundi Sparisjóðs Mýrasýslu 16. janúar 2008 greindi sparisjóðsstjóri frá stöðu Kistu – fjárfestingarfélags ehf. Auka þyrfti hlutafé félagins, og var samþykkt að taka þátt í þeirri hlutafjáraukningu. Svo fór að samþykkt var að auka hlutafé Kistu – fjárfestingarfélags ehf. þrisvar sinnum á árinu 2008, fyrst um 7,1 milljarð króna á aðalfundi félagsins 28. mars 2008, svo um 1,5 milljarða króna á hluthafafundi 27. júní og loks um 2,4 milljarða króna á stjórnarfundi 27. júlí sama ár. Hlutur Sparisjóðs Mýrasýslu í þessum hlutafjáraukningum var fyrst 731 milljón króna, en þar af voru 360 milljónir króna greiddar með reiðufé og 371 milljón með yfirtöku skulda félagsins,78 svo 154 milljónir króna og loks 248 milljónir króna.

Auk eiginfjárframlags gekkst Sparisjóður Mýrasýslu í sjálfskuldarábyrgð fyrir hluta af skuldum Kistu – fjárfestingarfélags ehf. Í yfirlýsingu stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu frá 12. febrúar 2008 kom fram að hún hefði á fundi sínum sama dag samþykkt að veita ábyrgðir fyrir hönd Kistu – fjárfestingarfélags ehf. til viðskiptabankanna þriggja, samtals að fjárhæð 504 milljónir króna. Undir bréfið skrifa fjórir af fimm stjórnarmönnum sparisjóðsins ásamt sparisjóðsstjóra. Fundargerðir stjórnar sparisjóðsins sem rannsóknarnefndinni voru afhentar bera ekki með sér að fundur hafi verið haldinn í stjórn sparisjóðsins á þeim degi eða öðrum í febrúarmánuði 2008. Það var ekki fyrr en á stjórnarfundi 21. maí sama ár sem ábyrgðir vegna Kistu – fjárfestingarfélags ehf. komu á borð stjórnar sjóðsins. Þá var samþykkt að veita sparisjóðsstjóra umboð til að gefa út slíkar ábyrgðir fyrir allt að 350 milljónir króna. Engin tímamörk voru tiltekin á gildistíma ábyrgðanna. Ábyrgðirnar voru endurnýjaðar nokkrum sinnum; hinar fyrstu voru frá febrúar 2008, en voru endurnýjaðar í mars og júní sama ár. Ábyrgð til Kaupþings banka hf. var þó ekki endurnýjuð þar sem sparisjóðurinn tók á sig hluta af skuldum Kistu við bankann. Ábyrgðirnar giltu þar til síðla árs 2008, og rann ábyrgð til Glitnis banka hf. út án þess að gripið væri til aðgerða, en Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki hf. gekk að ábyrgðinni sem að honum sneri. Ábyrgðin nam þá um 2,3 milljörðum króna, og var hlutur Sparisjóðs Mýrasýslu um 250 milljónir króna, en aðrir eigendur Kistu – fjárfestingarfélags ehf. höfðu gengist í sams konar ábyrgðir. Í fundargerðum stjórnar er ekkert bókað um uppgjör vegna ábyrgðarinnar.

Af þessu má sjá að hluthafar í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. tóku á sig töluverða áhættu vegna félagsins með eiginfjárframlögum, skuldskeytingum og sjálfskuldarábyrgðum á árinu 2008. Samtals var framlag Sparisjóðs Mýrasýslu til fjárfestingarfélagsins tæpir 1,4 milljarðar króna á árinu 2008,79 þar af 402 milljónir króna eftir að sparisjóðurinn hafði tilkynnt Fjármálaeftirlitinu að eigið fé hans kynni að vera komið undir lögbundið lágmark samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Vera má að forsvarsmenn sparisjóðsins hafi ekki talið sig eiga annarra kosta völ og að sparisjóðurinn hafi verið „fastur í strúktúr“ eins og áður var lýst. Um þetta sagði fyrrum sparisjóðsstjóri:

SPRON […] réði ferðinni þarna. Við höfðum náttúrulega notið góðs af þessu samstarfi við SPRON í gegnum Kaupþing á sínum tíma og haft ómælda fjármuni út úr þessu og treystum kannski ansi mikið á þá í þessum efnum, að þarna værum við að fara rétta leið. […] Við ræddum oft innan okkar hóps uppi í Mýrasýslu: Af hverju erum við með þarna, af hverju erum við ekki með þessi bréf bara sjálfir? En einhvern veginn er það þannig að maður vildi ekki kljúfa sig út úr hópnum. Þetta var samstæður hópur og maður hafði einhvern veginn ekki burði til að rífa sig út úr því, en við ræddum þetta oft saman, við félagarnir, að við ættum náttúrulega að vera með þetta bara sjálfir, en þetta var svona eitthvað í anda samstarfsins að halda þessu félagi og við trúðum því sjálfir að við værum að búa til mikla peninga þarna, sem ekki varð.80

Um ástæðu þess að sparisjóðurinn tók þátt í stofnun Kistu – fjárfestingarfélags ehf. sagði sparisjóðsstjórinn fyrrverandi:

Ég held að það hafi verið kominn ákveðinn hugur í menn að [selja] eftir því sem bréfin [hækkuðu gríðarlega], að þá kom hugur í menn að búa til pening úr því og selja úr þessum bréfum og í framhaldi af því held ég að Kista hafi verið stofnuð og þess vegna var það nú gert með þessum hætti að við héldum eftir, seldum út úr og settum ákveðinn hlut inn í Kistu og ákveðinn hlut tókum við til okkar sjálfra.81

Þegar spurt var hvort þrýst hefði verið á að taka þátt í stofnun félagsins sagði hann:

Ég skal ekkert um það segja [ … ] það var svona samstaða bara, samstaða um það að fylgja þessari leiðsögn sem ég held að við getum nú sagt að þessir stærstu aðilar hafi leitt okkur. Ég er alls ekki að meina að þeir hafi verið að leiða okkur vísvitandi út í einhverja vitleysu, en alla leiðina held ég að sé óhætt að segja – ja, ég get orðað það bara þannig að það er meira en að segja það þegar maður er kominn í svona samstarf eins og þarna, að rífa sig út úr því. Ég er ekkert í vafa um það að mönnum hafi oft dottið það í hug.82

Þegar sparisjóðurinn seldi síðan á markaði þau bréf í Exista hf. sem hann átti í beinu eignarhaldi á árinu 2008 töldu starfsmenn sparisjóðsins að það hefði ekki verið vel séð:

Sparisjóðurinn átti sjálfur hlutabréf í Exista, ég man ekki hvað það var mikið, en þau voru seld í byrjun árs 2008. Það þurfti að ganga á eftir sparisjóðsstjóranum til að fá að selja þessi hlutabréf. Hann hafði miklu meiri trú á því en við að um tímabundna lækkun væri að ræða og að markaðurinn myndi taka við sér aftur. Þegar við seldum þessi bréf í gegnum kauphöllina var það ekki vel séð af markaðsaðilum að við værum að selja þessi hlutabréf án þess að upplýsa aðra eigendur Exista um söluna.83

Með því að selja hlutabréf í Exista hf. til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. náði sparisjóðurinn tveimur markmiðum, annars vegar að innleysa söluhagnað en sleppa um leið við að setja bréfin á markað og hafa þannig áhrif á markaðsframboð bréfanna og þar með verðmyndun; hins vegar hafði salan áhrif á eiginfjárhlutfall sparisjóðsins, en eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum koma til frádráttar eiginfjárgrunni og lækka þar með eiginfjárhlutfallið. Með sölu á hlutabréfum í Exista hf. til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. minnkaði frádráttur vegna Exista-eignarinnar, en frádráttur sparisjóðanna vegna Kistu var ekki sambærilegur þar eð hann nam hlutdeild þeirra í eigin fé félagsins. Hefði Kista ekki verið skuldsett hefði frádrátturinn verið hinn sami, hvort sem Exista-eignin hefði verið á bókum sparisjóðsins eða í Kistu. Félagið var hins vegar mjög skuldsett, og með þessu móti hækkaði eiginfjárhlutfall sparisjóðanna sem seldu bréf sín í Exista fyrir bréf í Kistu.84 Fyrrum stjórnarmaður sparisjóðsins skýrði svo frá fyrir rannsóknarnefndinni:

Eftir á var þetta vond ákvörðun kannski, þessi stofnun á Kistu. Alltaf þegar sparisjóðirnir sem að áttu í þessu þurftu að selja bréf þá keypti Kista þau með miklum söluhagnaði fyrir sparisjóðina, en þeir voru í raun og veru bara að kaupa sjálfa sig og báru ábyrgð á Kistunni.85

Yfirsýn sparisjóðanna yfir áhættuna sem fólst í eignarhlutanum í Exista hf. var einnig minni en ella þegar hluti hans var kominn í fjárfestingarfélagið. Sparisjóðurinn hafði sett sér reglur sem takmörkuðu samanlagt markaðsvirði hlutabréfa í eigu sparisjóðsins sem mynduðu úrvalsvísitölu ICEX við 40% af eigin fé hans. Sé nafnverðseign Sparisjóðs Mýrasýslu í Exista hf. margfölduð með gengi félagsins í árslok 2006 var hún 17% af eigin fé sparisjóðsins, en 39% ef einnig var horft til eignarhluta sem sparisjóðurinn átti í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. Sömu hlutföll fyrir árið 2007 voru 14% fyrir beina eign sparisjóðsins og 47% fyrir óbeina eign.86

Sparisjóðabanki Íslands hf.

Sparisjóður Mýrasýslu var meðal stærri hluthafa Sparisjóðabankans. Hann átti tæp 7% í bankanum í lok árs 2005, en í lok áranna 2006–2008 var eignarhlutur hans um 8,7%. Gísli Kjartansson sparisjóðsstjóri sat í stjórn Sparisjóðabankans frá 2007, en hafði áður verið í varastjórn frá 2002 þar til hann lét af störfum sem sparisjóðsstjóri haustið 2008.87

Sparisjóðabankinn var ekki mikið til umræðu í stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu ef marka má fundargerðir. Á árinu 2005 var samþykkt að taka þátt í tveimur sambankalánum með bankanum, annars vegar fyrir 2 milljónir evra og hins vegar 1 milljón sterlingspunda. Þá var í október 2005 samþykkt að veita ábyrgð til Sparisjóðabankans fyrir allt að 1,5 milljónir Bandaríkjadala vegna MDM bank í Rússlandi og að kaupa í gegnum bankann skuldabréf á eftirmarkaði sem gefin voru út af frönsku fyrirtæki, Rexel, fyrir 1,5 milljónir evra. Á stjórnarfundi 25. maí 2005 samþykkti Sparisjóður Mýrasýslu að kaupa af Sparisjóði Ólafsfjarðar eignarhlut þess síðarnefnda í Sparisjóðabankanum. Ekki kom fram í fundargerðinni hversu stór hlutur var keyptur, en í lok árs 2005 átti Sparisjóður Ólafsfjarðar um 2,1% í bankanum og ári síðar 0,3%.

Síðla árs 2005 kynnti sparisjóðsstjóri fyrir stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu hugmyndir um breytingar á uppbyggingu Sparisjóðabankans. Meðal hugmynda sem unnið var með í stefnumótun bankans var að hann keypti Frjálsa fjárfestingarbankann hf., FSP hf., Verðbréfastofu Sparisjóðanna88 og SPRON-Verðbréf hf.

Stjórnin samþykkti 1. febrúar 2006 að kaupa um 50 milljónir af nýju hlutafé í Sparisjóðabanka Íslands hf., og sparisjóðsstjóri kynnti hagnað bankans samkvæmt sex mánaða uppgjöri fyrir stjórn sparisjóðsins 16. ágúst 2006. Hlutdeild sparisjóðsins í afkomu Sparisjóðabankans á árinu var um 495 milljónir króna. Árið 2007 urðu breytingar á eignarhaldi og samþykktum bankans og samþykkti stjórn sparisjóðsins breytingarnar á fundi sínum 12. september 2007. Um sama leyti seldu Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður mikinn hluta eignar sinnar í bankanum. Kaupendur voru tólf einkahlutafélög, meðal annars í eigu starfsmanna bankans. Fimm sparisjóðir juku einnig við hlut sinn í bankanum, þeirra á meðal Sparisjóður Mýrasýslu.89

Á fundinum 12. september 2007 var samþykkt að auka hlut sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum um allt að 3%, en fyrir átti hann 8,7%. Samkvæmt kauptilboði sem fylgdi fundargerðinni var verðmæti 3% hlutarins um 960 milljónir króna.90 Í fundargerðum stjórnar frá þessum tíma kemur ekki fram að aðrir samningar hafi verið gerðir um kaup á hlutum í Sparisjóðabankanum. Hins vegar fjallar endurskoðunarskýrsla vegna ársins 2007 um „íþyngjandi samninga“ og þar undir kaupin á 3% hlutnum, sem og samning um kaup á hlutabréfum í Sparisjóðabankanum fyrir 1,3 milljarða króna.91 Samhliða þeim samningi hafi verið gerður samningur um sölu á 40 milljónum hluta til annarra aðila utan samstæðunnar. Mismunur kaup- og sölusamnings var um 5 milljónir hluta.92 Kaup Sparisjóðs Mýrasýslu á eignarhlut í Sparisjóðabankanum gengu ekki eftir þar sem Fjármálaeftirlitið synjaði sparisjóðnum 30. maí 2008 um heimild til þess að fara með virkan eignarhlut í bankanum.

Að sögn fyrrum forstöðumanns fyrirtækjasviðs Sparisjóðs Mýrasýslu var hugmyndin að baki kaupunum sú að Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóðurinn í Keflavík tækju við sem kjölfesta í samstarfi sparisjóðanna um Sparisjóðabankann eftir að tveir stærstu eigendurnir seldu sína hluti.93 Fyrrum sparisjóðsstjóri sagði Byr sparisjóð hafa átt öll bréfin sem til stóð að Sparisjóður Mýrasýslu keypti:

[Eftir að Fjármálaeftirlitið synjaði umsókn sparisjóðsins um að fara með virkan eignarhlut] skrifuðu [forsvarsmenn Byrs sparisjóðs] mér bréf og hótuðu mér öllu illu. Ég svaraði þeim með þeim hætti að við settum þetta ákvæði í samninginn með fyrirvara um samþykki FME og bentum bara á samninginn og ég heyrði aldrei meira í þeim um það […]. Buðu mér gull og græna skóga ef ég vildi kaupa þetta […]. Það hefði kannski átt að kveikja svolítið á perunni hjá okkur.94

Sparisjóður Mýrasýslu, ásamt Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóði, Sparisjóðnum í Keflavík og Sparisjóðabankanum, lánaði nýjum eigendum hlutafjár í Sparisjóðabankanum fyrir kaupunum með veði í bréfunum. Af fundargerðum stjórnar er ekki að sjá að hún hafi rætt þessi viðskipti og þá áhættu sem þeim fylgdi. Sparisjóður Mýrasýslu lánaði rúman milljarð króna til kaupanna, en þegar kom að því að greiða lánin út reyndist sparisjóðurinn ekki eiga laust fé til þess. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður lánuðu þá Sparisjóði Mýrasýslu rúmar 800 milljónir króna til að bæta úr því. Um þetta fjallaði stjórnin ekki. Í skýrslu fyrrum forstöðumanns fyrirtækjasviðs hjá rannsóknarnefndinni kom þetta fram:

Það gekk mjög erfiðlega að koma þessu saman. Ég sagði strax í upphafi þegar þetta var skoðað að sparisjóðurinn ætti ekki til neina peninga til að kaupa þetta og hvað þá að lána fyrir kaupum. Þetta var gert gegn mínum vilja. SPRON og Byr lánuðu SPM til að hægt væri að klára þetta. Síðan var sótt um til FME að fara með virkan eignarhlut í Sparisjóðabankanum sem þeir höfnuðu og ég var manna glaðastur að þeir neituðu okkur um að fara með þennan eignarhluta. Sparisjóðsstjórinn hafði mjög mikið um þetta að segja. Það var búið að ganga mjög vel hjá honum með rekstur á sparisjóðnum fram til þessa tíma. Hann var ráðandi stjórnandi í sparisjóðnum og fékk nánast allt samþykkt sem hann lagði fyrir stjórnina. Mig minnir að það hafi aldrei verið neitt fellt sem hann kom með inn í stjórn, það hefur kannski verið einu sinni eða tvisvar sem hans tillögur fengu ekki brautargengi.95

Kauptilboðið í Sparisjóðabankann frá september 2007 hljóðaði upp á 28,055 krónur fyrir hverja krónu nafnverðs hlutafjár, en í lok árs 2007 voru bréfin metin á 23 krónur. Það var einkum dalandi gengi Exista hf. sem hafði áhrif á mat á bréfum Sparisjóðabankans.96 Á stjórnarfundi Sparisjóðs Mýrasýslu 21. maí 2008 fór starfsmaður sparisjóðsins yfir breytingar á hlutabréfaeign sparisjóðsins í þriggja mánaða uppgjöri hans. Stærstu breytingarnar voru meðal annars vegna Sparisjóðabankans. Fjallað var um fræðilega kosti um áhrif á eiginfjárhlutfall ef allir eignarhlutir í bankanum og öðrum fjármálafyrirtækjum yrðu seldir.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu frá 30. júlí 2008 voru bréf í Sparisjóðabankanum talin ofmetin. Bókfærð staða þeirra 31. mars 2008 var 1.792 milljónir króna, en Fjármálaeftirlitið taldi réttara að virðið væri um 902 milljónir króna. Eigið fé sparisjóðsins var á þessum tíma 4,1 milljarður króna og hefði slík niðurfærsla því haft töluverð áhrif á það.97

Ný stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu tók við 15. ágúst 2008, og á fundi hennar 10. september 2008 var farið yfir skýrslu um lán í tengslum við kaup á hlutafé í Sparisjóðabankanum. Á stjórnarfundi tveimur vikum síðar kom fram að Nýi Kaupþing banki hf. væri búinn að kaupa hlut sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum. Enginn kaupsamningur fylgdi með stjórnarfundargerðinni eða upplýsingar um kaupverð hlutarins. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri gat ekki haft upp á afriti af kaupsamningnum og efaðist um að salan hefði gengið eftir þegar rannsóknarnefndin innti eftir upplýsingum.98 Á árinu 2008 var tap vegna eignarhlutarins í Sparisjóðabankanum 2,1 milljarður króna.

VBS Fjárfestingarbanki hf.

Í árslok 2004 átti Sparisjóður Mýrasýslu 7,9% hlutafjár í Verðbréfastofunni hf. (síðar VBS Fjárfestingarbanka hf.). Á árinu 2005 var hlutafé félagsins aukið, og keypti sparisjóðurinn þá um 2 milljónir hluta og átti 6,7% hlutafjár í árslok 2005.99 Ekki er bókuð í stjórnarfundargerð samþykkt fyrir kaupunum. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 27. september 2006 var samþykkt heimild til sparisjóðsstjóra til að kaupa hlut í VBS Fjárfestingabanka hf. fyrir allt að 200 milljónir króna. Á fundi stjórnar 8. nóvember 2006 sagði sparisjóðsstjóri frá málum fjárfestingarbankans. Ný stjórn væri tekin til starfa, og var sparisjóðsstjórinn formaður hennar. Á árinu 2006 jók sparisjóðurinn hlut sinn í fjárfestingarbankanum um 4,6 milljónir hluta og átti í árslok 7,3% eignarhlut.

Í árslok 2004 átti Sparisjóður Mýrasýslu 7,1% hlutafjár í Fjárfestingarfélagi sparisjóðanna hf. (síðar FSP hf.). Sparisjóður vélstjóra, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóðabanki Íslands hf. voru stærstu eigendur félagsins. Helstu fjárfestingar þess árin 2004 og 2005 voru í skuldabréfum, en hlutabréf voru einnig hluti af eignasafninu. Í lok árs 2006 var meirihluti eigna félagsins í hlutabréfum í óskráðum innlendum félögum. Stefán Sveinbjörnsson, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Sparisjóðs Mýrasýslu, sat í stjórn félagsins. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 25. maí 2005 var samþykkt að taka þátt í hlutafjáraukningu í fjárfestingarfélaginu. Ákveðið var að kaupa 53,1 milljón hluta á genginu 1,2 og varð hlutur sparisjóðsins eftir það um 7%. Önnur hlutafjáraukning fór fram snemma á árinu 2006, og keypti sparisjóðurinn 15,7 milljónir hluta. Eignarhluturinn var enn um 7% í árslok 2006.

Hinn 31. janúar 2007 voru lagðar fyrir stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu hugmyndir um sameiningu FSP hf. og VBS Fjárfestingarbanka hf. Eignarhlutur sparisjóðsins í fjárfestingarbankanum var þá bókfærður á 123 milljónir, og var markaðsverð hans talið um 348 milljónir króna. Sparisjóðurinn átti einnig í FSP hf., og var bókfært virði eignarhlutarins 158 milljónir króna og markaðsverð talið 676 milljónir króna. Mismunur bókfærðs virðis og markaðsverðs væri þá um 395 milljónir króna sem myndi tekjufærast hjá sparisjóðnum við sameiningu. Sparisjóðurinn myndi eiga um 7,5% í sameinuðu félagi, en sameiningin myndi lækka eiginfjárgrunn sparisjóðsins um 158 milljónir króna. Stefnt var að því að auka eignarhlut sparisjóðsins í sameinuðu félagi upp í 15–20% eignarhlut. Kaupverðið yrði 675–1.125 milljónir króna.

Stjórn sparisjóðsins samþykkti á fundi sínum 1. maí 2007 að auka eignarhlut sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka hf., en á stjórnarfundi 12. desember sama ár var ákveðið að reyna að selja eignarhlutinn í bankanum. Sparisjóðsstjóri hafði hætt í stjórn félagsins daginn áður. Eignarhluturinn var aldrei seldur, og átti sparisjóðurinn um 10% hlut í bankanum í árslok 2007. Um eignarhlut sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka hf. sagði fyrrum sparisjóðsstjóri fyrir rannsóknarnefndinni:

[Tilgangur kaupanna var] ekkert nema græða peninga held ég, ég held að það hafi verið fyrst og fremst tilgangurinn hjá okkur. […] Staðreyndin var náttúrulega sú að meðan allt lék í lyndi þá var þetta allt í lagi, og þegar allt var á uppleið og við skiluðum ómældum hagnaði, þá var þetta allt í lagi. En menn kannski horfðu ekki nógu vel fram í tímann og vitanlega kom þetta svo í bakið á okkur þegar á reyndi. […] Þegar fór að verða erfiðara fyrir, þá varð þetta strax óseljanlegt. Við gerðum tilraun til að losa okkur út úr þessu en það var um seinan.100

Sparisjóðurinn færði eign sína í VBS Fjárfestingarbanka hf. niður að fullu á árinu 2008 þrátt fyrir viðunandi gengi bankans. Eigið fé hans í árslok 2008 var til dæmis 8,9 milljarðar króna samkvæmt ársreikningi. Ástand á fjármálamarkaði gaf þó tilefni til að meta eignir sem þessar lágt í þeirri óvissu sem uppi var á þeim tíma, enda var rekstrarniðurstaða ársins 2009 afleit hjá fjárfestingarbankanum; hann tapaði 40,9 milljörðum króna á árinu, og eigið fé í árslok var neikvætt um 31,9 milljarða króna.

Lónakot ehf.

Á fundi stjórnar sparisjóðsins 29. mars 2006 var samþykkt að kaupa 20% hlut í Lónakoti ehf. fyrir 148 milljónir króna. Eigið fé félagsins samkvæmt ársreikningi 2005 var 84 milljónir króna. Mánuði áður en hluturinn var keyptur samþykkti stjórnin að lána félaginu 200 milljónir króna.101 Tilgangur Lónakots ehf. var „fyrst og fremst að fjárfesta í byggingarlandi og vinna að framgangi skipulags og hönnunar í samráði við skipulagsyfirvöld á hverjum stað með það markmið að selja fullbúið byggingarland til verktaka og einstaklinga. Þá er jafnframt tilgangur félagsins að kaupa, selja og reka fasteignir ásamt því að stunda lánastarfsemi“.102 Fyrrum stjórnarformaður sparisjóðsins sagði um þessi viðskipti:

Þá átti að fara að veðja á framtíðarbyggingarlóðir fyrir Hafnarfjörð. […] Það var búið að leggja töluverða vinnu í það, teikna það upp. Þetta átti bara að vera þolinmótt fjármagn sem að átti að vinna vinnuna sína og taka hagnaðinn eftir 10–20 ár eða hvað það var, að veðja á það að Hafnarfjörður myndi vilja þetta land undir byggingarsvæði. Við áttum það með einhverjum öðrum. Þessu stýrði […] fyrrum starfsmaður okkar.103

Forstöðumaður fyrirtækjasviðs Sparisjóðs Mýrasýslu var stjórnarmaður í félaginu. Aðrir eigendur Lónakots ehf. samkvæmt ársreikningi 2006 voru Holtasel ehf. (40%), Trek ehf. (10%) og einn stofnandi félagsins (30%), en ári síðar hafði Valaklettur ehf. eignast hlut Trek ehf. Félagið, sem var stofnað árið 2005, keypti lóðir og lönd sem metin voru á 776 milljónir króna í lok fyrsta rekstrarárs þess. Í lok árs 2006 voru eignir félagsins metnar á 881 milljón króna, en í árslok 2007 var matið 8,3 milljarðar króna. Á árinu var keypt land fyrir um 110 milljónir króna, en sérstakt endurmat á landeignum félagsins í Lónakoti og Hvassahrauni nam 7,3 milljörðum króna.104 Eigið fé félagsins hækkaði um rétt tæpa 6 milljarða króna á árinu.

Lónakot ehf. átti 50% eignarhlut í jörðinni Lónakoti við Hafnarfjörð, en Hafnarfjarðarbær var sameigandi með önnur 50%. Jörðin var 540 hektarar. Þá átti félagið hluta af landi bújarðarinnar Hvassahrauns í landi Voga, um 202 hektara. Jafnframt átti félagið 11% eignarhlut í óskiptu landi Vogatorfu, 2.772 hektara lands. Nettóflatarmál lands í eigu Lónakots ehf. var því 749 hektarar í lok árs 2008.105 Á árinu 2008 gjaldfærði Sparisjóður Mýrasýslu um 350 milljónir króna vegna eignar sinnar í Lónakoti ehf., auk þess sem afskrifaðar voru um 615 milljónir króna af láni til félagsins. Félagið var lýst gjaldþrota í lok árs 2011.

Menntaskóli Borgarfjarðar ehf.

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Mýrasýslu 7. september 2005 kynnti Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, hugmynd að nýjum framhaldsskóla í Borgarnesi. Sparisjóðsstjóranum var falið að fylgja málinu eftir fyrir hönd stjórnar og leggja allt að 40 milljónir króna í hlutafé ef af yrði. Menntaskólinn var formlega stofnaður 4. maí 2006 með staðfestingu menntamálaráðherra sem um leið tók fyrstu skóflustunguna að skólabyggingunni. Skólinn var settur 22. ágúst 2007.106

Í lok árs 2006 átti sparisjóðurinn um 51% hlut í félaginu og Borgarbyggð 38%. Á fundi stjórnar sparisjóðsins 14. nóvember 2007 var samþykkt að auka hlutafé í Menntaskóla Borgarfjarðar um 50 milljónir króna sem var lagt fram á árinu 2008. Í lok árs 2007 átti sparisjóðurinn 56% í félaginu og Borgarbyggð 36%. Áætlanir um byggingu menntaskólans stóðust ekki, hvorki hvað varðaði tíma né kostnað. Vorið 2008 var talið að kostnaður við skólann yrði um 1 milljarður króna.107 Stuttu síðar var rætt um það í stjórn sparisjóðsins að hlutaféð sem sparisjóðurinn lagði fram hefði verið styrkur til skólans. Einnig kom fram að aukna fjármögnun vantaði í verkefnið þar sem kostnaður hefði farið fram úr áætlun og Glitnir banki hf. hefði hafnað beiðni um að lána frekar til verkefnisins.108 Sparisjóðurinn færði niður eign sína í Menntaskóla Borgarfjarðar ehf. um 90 milljónir króna á árinu 2008.

Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Vestfirðinga

Á fundi sínum 30. apríl 2004 samþykkti stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu að kaupa stofnfjárbréf í Sparisjóði Vestfirðinga fyrir 4 milljónir króna að nafnvirði og veita honum einnig 6 milljóna króna víkjandi lán. Sparisjóður Mýrasýslu átti um 2% hlut í Sparisjóði Vestfirðinga fram á árið 2007, og stofnfé var ekki aukið meira en sem nam endurmati.

Á árinu 2007 hófust þreifingar um sameiningu Sparisjóðs Keflavíkur og Sparisjóðs Mýrasýslu, en stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu hafnaði síðan þeim áformum.109 Á stjórnarfundi 12. september 2007 var fjallað um bréf sem Sparisjóðurinn í Keflavík hafði sent mörgum sparisjóðum með ósk um viðræður um sameiningu. Stefnt var að því að fjalla um bréfið á sameiginlegum fundi allra sparisjóða fljótlega. Á þessu ári sameinuðust Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóður Húnaþings og Stranda Sparisjóðnum í Keflavík.

Sparisjóður Mýrasýslu tók þátt í tveimur útboðum á stofnfé í Sparisjóði Vestfirðinga í aðdraganda sameiningar hans við Sparisjóðinn í Keflavík á árinu 2007. Þannig keypti Sparisjóður Mýrasýslu um 25 milljónir að nafnverði í útboði í október 2007, og var kaupverðið rúmar 26 milljónir króna. Þá keypti Sparisjóður Mýrasýslu rúmlega 18 milljónir að nafnverði af stofnfé í Sparisjóði Vestfirðinga í öðru útboði í desember 2007.110 Ekki var fjallað um þessi kaup eða sameiningu Sparisjóðs Vestfirðinga, Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og Sparisjóðsins í Keflavík í fundargerðum stjórnar sparisjóðsins. Við sameininguna eignuðust stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestfirðinga 16,4% stofnfjár í sameinuðum sjóði.111 Í árslok 2007 og 2008 átti Sparisjóður Mýrasýslu 0,4% í Sparisjóðnum í Keflavík. Tap Sparisjóðs Mýrasýslu á þessum eignarhluta var rúmar 38 milljónir króna á árinu 2008.

Eignarhaldsfélagið Fasteign hf.

Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. var stofnað í desember 2002. Félagið átti og leigði út fasteignir til fjármálafyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga. Í árslok 2003 áttu Íslandsbanki hf. og Reykjanesbær 49,9% hvor í félaginu. Ári síðar hafði hlutur hvors um sig lækkað í 34,8%, en Vestmannaeyjabær átti þá um 12%, Sandgerðisbær 5,8%, Garðabær 7,8% og Sparisjóður Mýrasýslu 1,3%.112 Í fundargerðum stjórnar sparisjóðsins á árinu 2004 er ekki getið um kaup á hlut í félaginu. Sparisjóðsstjórinn sagði sparisjóðinn hafa eignast hlut í félaginu í tengslum við byggingu á nýju húsnæði sparisjóðsins: „Við áttum smá hlut [í Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf.], áttum 2–3% minnir mig. Það gerðist um leið og þeir byggðu fyrir okkur.“113

Snemma árs 2003 var rætt um það í stjórn sparisjóðsins að selja húsnæði að Borgarbraut 14. Á fundi stjórnar 23. júlí 2003 var sparisjóðsstjóra og stjórnarformanni falið að ganga frá sölu á húsinu til sveitarfélagsins Borgarbyggðar. Söluverð hússins var 83 milljónir króna samkvæmt fundargerðinni. Á sama fundi var þeim falið að ganga frá kaupum á lóð við Borgarfjarðarbrú. Um haustið var skipuð þriggja manna byggingarnefnd sparisjóðsins vegna nýja húsnæðisins, og var Guðmundur Eiríksson, einn stjórnarmanna, ráðinn verkefnisstjóri við bygginguna.114 Þá um haustið var keypt lóð við Brúartorg til byggingarinnar og auglýst eftir samstarfsaðilum við bygginguna.115 Gengið var til samninga við Ingimund Sveinsson um að teikna húsið, en rætt við VSÓ ráðgjöf ehf. og Íslenskar fasteignir ehf. um að byggja það og að sparisjóðurinn leigði það af þeim.116 Á stjórnarfundi 11. febrúar 2004 sagði sparisjóðsstjóri frá húsbyggingunni og að gerður hefði verið samningur við Íslenskar fasteignir ehf. um byggingu hússins sem yrði væntanlega skrifað undir í mars. Framkvæmdir myndu hefjast í apríl sama ár. Ekki kom annað fram um nýbygginguna í stjórnarfundargerðum fyrr en 7. apríl 2004, en þá var búið að undirrita samning við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. um hana. Engin skýring fylgdi þessari breytingu.

Upphaflega stóð til að sparisjóðurinn myndi byggja nýja starfsstöð sjálfur. Það var búið að teikna húsið þegar sú umræða kom upp að fá fasteignafélag til að byggja og leigja sparisjóðnum húsið. Mig minnir að það hafi verið rætt við nokkur slík félög en niðurstaðan var að fá Eignarhaldsfélagið Fasteign til að byggja og leigja sparisjóðnum. Talið var að Fasteign myndi byggja fyrir lægri fjárhæð en ef sparisjóðurinn gerði það sjálfur auk þess sem Fasteign hafði aðgang að ódýru lánsfé.117

Sparisjóðurinn hafði lítils háttar arð af fjárfestingunni í Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf., en á árinu 2007 hækkaði mat á eignarhlutnum töluvert, og hafði sparisjóðurinn um 75 milljónir í tekjur af hlutnum á því ári. Ári síðar tapaði sparisjóðurinn um 42 milljónum króna vegna félagsins.

20.3.5 Dótturfélög

Dótturfélög Sparisjóðs Mýrasýslu í árslok 2008 voru 6 talsins: Niðurskógur ehf., NordVest verðbréf hf., SPM ehf., Sparisjóður Ólafsfjarðar, Afl sparisjóður og Veita hf. Verulegt tap varð á eignarhlutum sjóðsins í þessum félögum árið 2008 eða samtals um 1,6 milljarðar króna. Aðeins eitt félag, SPM ehf., hafði jákvæð áhrif á afkomu sparisjóðsins eða sem nam um 5,2 milljónum króna.

Í 21. og 22. kafla þessarar skýrslu er gerð grein fyrir Afli sparisjóði og Sparisjóði Ólafsfjarðar, meðal annars með tilliti til eignarhalds. Því er ekki fjallað frekar um þessa tvo sparisjóði hér.

Hér framar hefur verið fjallað um móðurfélagið, og þar hafa áhrif dótturfélaga á rekstur Sparisjóðs Mýrasýslu komið fram sérstaklega (sjá t.d. í töflu 25). Þær tölur sem hér birtast eru ekki til viðbótar tapi eða eignum sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en gefa þó ekki fyllri mynd af samstæðureikningsskilum þar sem jöfnunarfærslur koma ekki fram.

Niðurskógur ehf.

Niðurskógur ehf. var fasteignafélag utan um fasteignir í landi Húsafells.118 Sparisjóður Mýrasýslu yfirtók félagið til lúkningar skuldum, en fyrirgreiðslan var í formi tveggja skuldabréfa sem voru án trygginga.119 Frá 2005 til 2009 var félagið í 100% eigu Sparisjóðs Mýrasýslu og sparisjóðsstjóri eini stjórnarmaður félagsins. Forstöðumaður fyrirtækjasviðs sparisjóðsins var framkvæmdastjóri félagsins.

Lóðir félagsins voru í útleigu, en í árslok 2007 var bókfært virði þeirra 454 milljónir króna. Tap var af rekstri félagsins 2005–2008, mest nam það 253 milljónum króna í lok árs 2008. Eigið fé var þá neikvætt um tæpar 230 milljónir króna. Fyrir rannsóknarnefndinni sagði forstöðumaður fyrirtækjasviðs sparisjóðsins að upprunalega hefði staðið til að stofna félag utan um fullnustueignir sparisjóðsins í lánamáli tengdu landi í Húsafelli. Í félagið hefðu verið lagðar þessar eignir sem hefðu skilað reglulegum tekjum. Þegar borið var undir hann að félagið hefði ekki skilað hagnaði frá 2005 til 2008 sagði hann sennilega skýringu þá að fleiri lóðir hefðu verið keyptar inn í félagið. Upp hefðu komið hugmyndir um að fara í framkvæmdir á svæðinu og þá hefði meira land verið keypt. Áform um stækkun svæðisins hefðu ekki gengið eftir, en lóðirnar sem upphaflega voru inni í félaginu hefðu ávallt skilað tekjum.120

Nýi Kaupþing banki hf. (nú Arion banki hf.) eignaðist félagið þegar Sparisjóður Mýrasýslu sameinaðist bankanum á árinu 2009. Í ársreikningi félagsins fyrir 2011 kemur fram að lóðirnar hafi verið seldar fyrir 230 milljónir króna, en skuldir félagsins afskrifaðar. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2012 er félagið eignalaust og er fyrirhugað er að slíta félaginu árið 2015.

SPM ehf.

Hlutabréfasjóður Vesturlands hf. var stofnaður í nóvember 1999 til að veita viðtöku fé frá einstaklingum og lögaðilum í formi hlutafjár, láns eða annarra fjármögnunarleiða til sameiginlegra fjárfestinga í hlutabréfum og öðrum framseljanlegum verðbréfum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Skráð hlutafé 14. febrúar 2000 var 79,4 milljónir króna og fjöldi hluthafa 136. Fyrrum sparisjóðsstjóri sagði félagið hafa verið „barn síns tíma; við stofnuðum þarna svona hlutabréfasjóð og það varð nú aldrei hvorki fugl né fiskur úr því“.121 Sjóðurinn var skráður í Kauphöllinni og fjárfesti í skráðum félögum, skuldabréfum og öðru slíku.122

Sjóðurinn var afskráður úr Kauphöllinni í byrjun september 2003 þar sem Sparisjóður Mýrasýslu hafði þá eignast yfir 98% hlutafjár í félaginu og það uppfyllti því ekki lengur skilyrði skráningar um dreifða hlutafjáreign. Á hluthafafundi félagsins 12. maí 2004 voru samþykktar nýjar samþykktir fyrir félagið. Þá var tekið upp nýtt nafn fyrir félagið, SPM ehf., og því breytt í einkahlutafélag.123 Tilgangur félagsins var þá skilgreindur sem „fjárfestingarstarfsemi hvers konar og eignarhald. Leitast verður við að ávaxta eignir félagsins á sem bestan hátt í samræmi við áhættu. Þá er tilgangur félagsins einnig lánastarfsemi og önnur verkefni er tengjast starfsemi félagsins“.124

Áhrif félagsins á rekstur sparisjóðsins voru lítil. Það skilaði um 2–5 milljóna króna hagnaði árin 2005–2008, og eigið fé í árslok 2008 var 89 milljónir króna. Sparisjóðsstjóri var eini stjórnarmaður félagsins. Arion banki hf. eignaðist félagið þegar Sparisjóður Mýrasýslu sameinaðist bankanum í apríl 2009. Samkvæmt ársreikningi ársins 2010 voru eignir félagsins tæpar 99 milljónir króna í árslok og nærri eingöngu handbært fé.

NordVest verðbréf hf.

Stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu samþykkti kaup á tæplega 95% hlut í NordVest verðbréfum hf. á fundi 12. september 2007. Kaupverð var 19 milljónir króna, en eiginfjárstaða félagsins uppfyllti þá ekki skilyrði þess að félagið héldi starfsleyfi sínu og því þurfti eiginfjárframlag til. Stefna sparisjóðsins var samkvæmt stjórnarfundargerð að reka áfram verðbréfamiðlun og setja upp fyrirtækjaráðgjöf. Sparisjóðurinn sá verðmæti í þeim starfsleyfum sem voru til staðar í félaginu, t.d. til verðbréfaviðskipta, sem og skattalegu tapi.125 Jafnvel stóð til að flytja fjárfestingar sparisjóðsins yfir í þetta félag og aðskilja þannig sparisjóðastarfsemina frá fjárfestingarstarfseminni.126 Hlutafé var aukið um 30 milljónir á árinu 2007 og nam 75 milljónum króna í lok þess árs.127

Sparisjóðurinn þurfti að sækja um það til Fjármálaeftirlitsins að fara með virkan eignarhlut í NordVest verðbréfum, og var umsókn þess efnis send 1. október 2007. Í bréfi sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins vegna fyrirhugaðra kaupa á félaginu frá 18. september 2007 var lýst þeirri starfsemi sem ætlað var að taka upp í félaginu. Þar sagði að sparisjóðurinn myndi ráðleggja viðskiptavinum sínum að leita til NordVest verðbréfa hf. vegna framvirkra samninga og lána til hlutabréfakaupa sem verðbréfafyrirtækið fengi þóknun fyrir. Í öðru bréfi til Fjármálaeftirlitsins 26. september sama ár var hugmyndin sú að sparisjóðurinn yrði hinn raunverulegi lánveitandi og mótaðili framvirkra samninga, en NordVest verðbréf hf. sæju um samskipti vegna viðskiptanna. Sparisjóðurinn þyrfti að samþykkja alla samninga og annast umsjón og bakvinnslu. Fjármálaeftirlitið samþykkti að heimila sparisjóðnum að fara með virkan eignarhlut í NordVest verðbréfum hf. 31. janúar 2008. Í framhaldinu gekk Sparisjóður Mýrasýslu frá kaupum á öllu útistandandi hlutafé félagsins.

Í árslok 2007 sátu í stjórn félagsins starfsmenn sparisjóðsins, Stefán Sveinbjörnsson og Bernhard Þór Bernhardsson. Framkvæmdastjóri var Skúli Sveinsson. Í byrjun janúar 2008 kom til umræðu í stjórn sparisjóðsins að breyta Sparisjóði Ólafsfjarðar, öðru dótturfélagi sparisjóðsins, í hlutafélag svo að hann gæti sameinast NordVest verðbréfum hf.128

Ein af þeim hugmyndum, og MP banki gekk fast á okkur með hana, var í raun og veru að færa bankaleyfi og RB leyfi Sparisjóðs Ólafsfjarðar inn í þetta félag, svo að þeir gætu keypt það og orðið sér úti um viðskiptabankaleyfið með þeim hætti. Þetta snýst náttúrulega svo mikið um það ef þú ætlar að reka viðskiptabanka á Íslandi, þá verðurðu að hafa aðgang að RB [Reiknistofu bankanna] og á þeim tíma var það lokað. Það er nú búið að opna það í dag. Þannig að menn voru að leita leiða til þess að komast þangað inn. Og eins líka einhvers konar skemmri skírn að því að ná sér í viðskiptabankaleyfi en þeir hefðu náttúrulega þurft að uppfylla öll skilyrði áfram, geri ég ráð fyrir.129

Á aðalfundi NordVest verðbréfa hf. 18. mars 2008 var ákveðið að breyta nafni félagsins í Reykjavík Capital hf. Hlutafé var aukið um 124,4 milljónir króna á árinu 2008 og lækkað á móti óráðstöfuðu eigin fé um 106,6 milljónir króna.

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Mýrasýslu 7. janúar 2009 var gerð grein fyrir sölu á félaginu til Sextant Capital. Á stjórnarfundi 18. febrúar sama ár kom fram að samningnum hefði verið rift vegna þess að kaupendur hefðu ekki staðið við greiðslur. Hinn 26. mars 2009 var síðan lagt fram á stjórnarfundi 30 milljóna króna kauptilboð í allt hlutafé Reykjavík Capital hf. frá Tindum verðbréfum ehf., og samþykkti stjórnin að ganga að tilboðinu.130

Árin 2005–2008 var tap á rekstri félagsins, rúmar 52 milljónir króna í lok árs 2007 og rúmar 97 milljónir króna árið 2008. Auður Capital hf. keypti félagið árið 2011.

Veita fjármálaþjónusta hf.

Premium Group hf. var stofnað í október 2004, en breytti nafni sínu í Premium Kredit hf. árið 2006. Enn var nafninu breytt í september 2007, og hét félagið þá Veita fjármálaþjónusta hf. Félagið hafði aðsetur í Reykjavík og sinnti aðallega innheimtu en einnig kröfukaupum. Á stjórnarfundi 19. nóvember 2005 samþykkti stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu heimild til sparisjóðsstjóra til að skoða hlutafjárkaup í Premium Group hf. sem þó gengu ekki eftir fyrir lok árs. Stærsti eigandi félagsins í árslok 2005 var Saxhóll ehf. með 16,6% hlut, en fjórir einstaklingar áttu um 12,5% hlut hver og sá fimmti um 10,1%.

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Mýrasýslu 27. september 2006 var sparisjóðsstjóra falið að kaupa hlutabréf í Premium ehf. og freista þess þar með að ná meirihluta í fyrirtækinu. Sparisjóður Mýrasýslu keypti 54,16% hlut í félaginu árið 2006, en næststærsti eigandi félagsins í árslok 2006 var Saxhóll ehf. með um 17% í félaginu.131 Árið eftir keypti sparisjóðurinn 6% til viðbótar, og var félagið fært sem dótturfélag hans upp frá því. Forstöðumaður fyrirtækjasviðs sparisjóðsins var þá kominn í stjórn félagsins. Sparisjóðurinn keypti eignarhluta sína í félaginu á yfirverði, og var viðskiptavild kaupanna 183 milljónir króna. Virðisrýrnunarpróf á viðskiptavildinni leiddi til 20 milljóna króna niðurfærslu 2007.132

Starfsmenn sparisjóðsins töldu að félagið gæti fallið vel að rekstri sparisjóðsins, reksturinn hefði í fyrstu gengið eins og til stóð, en síðan hefði farið að halla undan fæti, meðal annars eftir að skipt var um framkvæmdastjóra.133 Félagið tapaði um 29 milljónum króna árið 2005, 2 milljónum króna ári síðar og tæpum 5 milljónum króna árið 2007. Árið 2008 var tap af rekstri félagsins 84 milljónir króna og eigið fé í árslok um 16 milljónir króna. Árið 2009 keypti Gjaldheimtan fjármálaþjónusta ehf. félagið.

20.3.6 Hlutdeildarfélög

Í lok árs 2008 voru hlutdeildarfélög Sparisjóðs Mýrasýslu fjögur, Borgarland ehf. (42%), Fjárkvíar hf. (34%), AB-fjárfestingar hf. (50%) og Vesturland hf.(49,8%). Borgarland og Vesturland höfðu neikvæð áhrif á afkomu sjóðsins á árinu, en hlutdeild í afkomu Fjárkvía og AB-fjárfestinga var lítil.

Vesturland hf., eignarhaldsfélag

Vesturland hf., eignarhaldsfélag var stofnað í desember 1999, og var Sparisjóður Mýrasýslu einn stofnenda. Starfsmenn og stjórnendur sparisjóðsins sátu gjarnan í stjórn félagsins. Nafni félagsins var breytt í Vesturland hf. í desember 2008, og því var breytt í einkahlutafélag í janúar 2012. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 11. desember 2002 var samþykkt að leggja félaginu til nýtt hlutafé, allt að 140 milljónir króna, gegn mótframlagi frá Byggðastofnun. Eignarhaldsfélagið myndi fjárfesta í fyrirtækjum á Vesturlandi á grundvelli arðsemissjónarmiða, vegna nýmæla í atvinnulífi eða í fyrirtækjum sem voru mikilvægir hlekkir í uppbyggingu atvinnulífs í landshlutanum.134 Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrum forstöðumaður fyrirtækjasviðs sparisjóðsins:

Vesturland var upphaflega stofnað sem félag utan um nýsköpunarfjárfestingar á Vesturlandi. Þar voru fleiri hluthafar með sparisjóðnum í félaginu, m.a. Byggðastofnun og sveitarfélög á Vesturlandi. Félagið starfaði í nokkur ár með þennan eigendahóp en síðan var hlutafé Byggðastofnunar og sveitarfélaganna keypt og þá kemur Kaupfélag Borgfirðinga inn í félagið með sparisjóðnum og þá minnir mig að starfsemi þess hafi verið útvíkkuð.135

Í árslok 2006 hafði Kaupfélag Borgfirðinga eignast hlut Byggðastofnunar í Vesturlandi hf. eignarhaldsfélagi og átti 48% hlut, en sparisjóðurinn 50%. Áður en Kaupfélag Borgfirðinga kom að félaginu var meirihluti eigna þess í skuldabréfum eða um 241 milljón króna, en hlutabréf og hlutdeildarskírteini námu um 122 milljónum króna. Þar af voru óskráð bréf að virði 114 milljóna króna. Félagið átti þá um 1,3% hlut í ORF Líftækni hf., 14% hlut í Borgarlandi ehf., 46,9% hlut í Bifur ehf.136 og 1,2% hlut í Límtré hf.

Ári síðar, í árslok 2006, námu markaðsskuldabréf í eigu félagsins um 185 milljónum króna og óskráð hlutabréf um 107 milljónum króna. Á árinu 2007 var fjárfest töluvert fyrir lánsfé, meðal annars frá Sparisjóði Mýrasýslu, og í árslok 2007 var skuldbinding Vesturlands hf. við sparisjóðinn tæpar 792 milljónir króna, en félagið var þá stærsti lántakandi sparisjóðsins.137 Í árslok 2007 námu markaðsskuldabréf Vesturlands tæpum 197 milljónum króna, en óskráð hlutabréf um 920 milljónum. Helstu nýfjárfestingar í óskráðum bréfum voru 27% hlutur í Hótel Hamri ehf. og 5,6% eignarhlutur í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Skráð hlutabréf í eigu félagsins höfðu fram að þeim tíma nær eingöngu verið bréf í Bakkavör Group hf. og Kaupþingi banka hf., en í árslok 2007 átti félagið hlutabréf í Össuri hf., Exista hf., Hf. Eimskipafélagi Íslands og Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf.138

Mikið tap varð á rekstri félagsins á árinu 2008 þegar fjárfestingar þess féllu mjög í virði. Markaðsskuldabréf námu í árslok um 95 milljónum króna, hlutabréf og hlutdeildarskírteini um 190 milljónum króna, þar af voru óskráð hlutabréf 170 milljónir króna. Félagið átti nær öll sömu bréf og árið áður.139 Hlutdeild sparisjóðsins í tapi félagsins á árinu 2008 var um 173 milljónir króna.

Í árslok 2009 var Vesturland hf. í 100% eigu Arion banka hf. Eign í markaðsskuldabréfum hafði lítið breyst frá árinu áður, en félagið átti þá hlutabréf og hlutdeildarskírteini fyrir um 97 milljónir króna. Félagið var afskráð 12. janúar 2012.

Borgarland ehf.

Í lok árs 2005 keypti Sparisjóður Mýrasýslu hlut Kers hf. í Borgarlandi ehf., og Vesturland hf., eignarhaldsfélag keypti hlut Samvinnulífeyrissjóðsins í sama félagi.140 Kaup sparisjóðsins á hlutnum voru samþykkt á stjórnarfundi 26. janúar 2005, og var kaupverðið 64 milljónir króna. Í lok árs 2005 voru eigendur Borgarlands ehf. þrír, Vesturland hf., eignarhaldsfélag (14%), Kaupfélag Borgfirðinga (44%) og Sparisjóður Mýrasýslu (42%). Þetta eignarhald hélst óbreytt til ársins 2009 þegar Nýi Kaupþing banki hf. eignaðist hlut Sparisjóðs Mýrasýslu við það að sparisjóðurinn sameinaðist bankanum. Samkvæmt 3. gr. samþykkta var tilgangur félagsins „kaup og sala fasteigna, eignarhald og rekstur fasteigna, fjárfesting í atvinnuhúsnæði, byggingarstarfsemi, útleiga fasteigna, lánastarfsemi og önnur skyld starfsemi“.141 Sparisjóðsstjóri var stjórnarformaður félagsins.

Í ársreikningi Borgarlands ehf. fyrir árið 2005 var starfsemi félagsins á árinu lýst. Þar segir að útleiga á Borgarbraut 56–60 í Borgarnesi hafi verið með sama hætti og áður, en á árinu hafi félagið keypt lóðina að Digranesgötu 4 í Borgarnesi og allt hlutafé í Hvönnum ehf. sem átti meirihluta í Hvanneyrargötu 3 á Hvanneyri. Markmið með kaupunum var frekari uppbygging á húsnæði til endursölu eða útleigu. Á árinu voru Hvannir ehf. svo sameinaðar Borgarlandi ehf. sem yfirtók allar eignir og skuldir þess.

Frá árinu 2006 átti Borgarland allt hlutafé í BK-fasteignum ehf. sem átti og rak sláturhús í Brákarey í Borgarnesi og byggði nýja kjötiðnaðarstöð að Vallarási 7–9. Leigjandi húsnæðisins var Borgarnes kjötvörur ehf. Fyrri eigendur BK-fasteigna voru eigendur Borgarlands, sparisjóðurinn og kaupfélagið.142 Borgarland átti rúmlega 2% eignarhlut í Vesturlandi hf. frá árinu 2006143 og á sama ári keypti félagið fasteign í Faxafeni í Reykjavík sem var í útleigu. Árið eftir eignaðist félagið 22,5% hlut í Bifur ehf. sem minnst var á hér framar.144

Á árinu 2008 var ný fasteign keypt, lokið við stækkun annarrar og hönnun húsa á lóð í eigu félagsins. Nokkuð var um uppsagnir á húsnæði í eign sem var í útleigu. Það olli töluverðum samdrætti í tekjum félagsins á árinu 2008, auk þess sem vaxtagjöld, verðbætur og gengistap ársins var mikið. Tap varð af rekstri félagsins á árinu 2008 og eigið fé neikvætt í kjölfarið. Hlutdeild sparisjóðsins í tapi ársins var um 50 milljónir króna, en hann afskrifaði einnig 72 milljónir króna af lánum til félagsins.

Í lok árs 2011 voru stærstu eigendur félagsins samkvæmt ársreikningi Samkaup hf. (43%) og Kaupfélag Borgfirðinga (21%). Félagið átti í árslok 2011 fasteignir sem námu 352 milljónum króna, og eigið fé nam 69 milljónum króna.145

20.3.7 Skattaleg meðferð hagnaðar af sölu hlutabréfa

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003 telst hagnaður af sölu hlutbréfa að fullu til skattskyldra tekna á söluári, óháð því hvenær bréfin voru keypt. Fram á mitt ár 2008 var í 5. mgr. greinarinnar kveðið á um að lögaðilum, sbr. 1. mgr. 2. gr. tekjuskattslaga, væri heimilt að fresta skattlagningu söluhagnaðarins með því að fjárfesta aftur í hlutabréfum og lækka stofnverð þeirra um fjárhæð sem nam skattskyldum söluhagnaði. Ef ekki var fjárfest í hlutabréfum á söluári var heimilt að fresta skattlagningu um tvenn áramót og færa söluhagnaðinn til lækkunar á kaupverði hlutabréfa sem keypt væru innan þeirra tímamarka. Væri kaupverð nýju bréfanna lægra en söluhagnaðurinn bar félaginu að telja mismuninn til tekjuskattsskyldra tekna. Þetta ákvæði fól í raun í sér að félög greiddu sjaldnast tekjuskatt af söluhagnaði hlutabréfa strax þar sem flest þeirra frestuðu skattgreiðslum og endurfjárfestu.

Endurskoðandi Sparisjóðs Mýrasýslu ritaði stjórn sparisjóðsins bréf 21. maí 2008 um skattalega meðferð hagnaðar af sölu hlutabréfa í tilefni af því að Alþingi hafði 15. maí 2008 samþykkt að breyta skattalegri meðferð hagnaðar af sölu hlutabréfa. Minnisblaðið fjallaði um hugsanleg áhrif lagasetningarinnar á sparisjóðinn. Þar kom fram að undanfarin ár hefði samstæðan nýtt sér heimildir til frestunar söluhagnaðar af sölu hlutabréfa um tvenn áramót frá söludegi. Í bréfinu sagði að í árslok 2007 hefði tekjuskattsskuldbinding samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu vegna hlutabréfa numið 1,2 milljörðum króna og 6,5 milljarðar króna væru bundnir í fjáreignum til þess að fresta skattgreiðslum. Það voru þá um 63% fjáreigna sparisjóðsins. Gengishækkun eigna undanfarin ár hafði verið mikil, en skattalegt hagræði var að því að fjárfesta á ný fyrir innleystan söluhagnað og áhættan af fjáreignum minnkaði því síður.

20.4 Fjármögnun

Efnahagur Sparisjóðs Mýrasýslu óx ört frá árinu 2005 til 2008, og hefur þegar verið gerð grein fyrir útlánaaukningu og virðisaukningu fjárfestinga í köflunum hér framar. Þessi vaxandi starfsemi olli aukinni fjármögnunarþörf, og voru það einkum innlán og lántaka sem stóðu undir henni, en skuldir við lánastofnanir jukust mjög milli áranna 2007 og 2008 og voru stærsti fjármögnunarliðurinn í lok árs 2008. Í október 2008 gjaldfelldu erlendar lánastofnanir lán sjóðsins, en þá veitti Nýi Kaupþing banki hf. sparisjóðnum fyrirgreiðslu sem nam liðlega 19 milljörðum króna í lok árs 2008.

Helstu skuldir Sparisjóðs Mýrasýslu á árunum 2005–2008 voru almenn innlán, skuldir við lánastofnanir og lántaka. Fyrirgreiðsla í formi millibankalána og ádráttarlína í erlendum myntum frá Sparisjóðabanka Íslands hf. var færð sem skuldir við lánastofnanir.

Innlán Sparisjóðs Mýrasýslu námu hæst 11,3 milljörðum króna árið 2008; þá voru þau 22% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé, en sama hlutfall hafði verið 41% árið 2005.146 Innlán voru að mestum hluta í eigu einstaklinga, en einnig voru fjármálafyrirtæki önnur en bankar með um 18–30%.147 Stærstu innlánseigendur í sparisjóðnum voru fjármálafyrirtæki. Samkvæmt lausafjáryfirlitum sem sparisjóðurinn skilaði mánaðarlega til Seðlabanka Íslands var hlutfall bundinna innlána mjög óstöðugt á árunum 2005–2009, en það varð lægst 31% og hæst 64%. Bundin innlán jukust mikið í lok árs 2007, en þá hækkaði hlutfall bundinna innlána úr 38% í 53% frá nóvember til desember.

Hvað varðar eðli bundinna innlánsreikninga í Sparisjóði Mýrasýslu kom það fram á stjórnarfundi að viðskiptavinum sparisjóðsins hefði verið lofað því í mörg ár að þeir gætu tekið út af bundnum, verðtryggðum innlánsreikningum ef á þyrfti að halda.148 Lausafjárskortur sparisjóðsins var orðinn þó nokkur í byrjun árs 2009, en þá var rætt á stjórnarfundi að sparisjóðurinn ætti erfitt með að bregðast við ósk stórs innlánseiganda um að taka 500 milljónir króna út af innlánsreikningi.149

20.4.1 Skuldir við lánastofnanir

Skuldir við lánastofnanir á árunum 2005–2007 komu einkum til vegna innlendra og erlendra ádráttarlína sjóðsins og dótturfélaga hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. Sparisjóðurinn var einnig með skammtímafyrirgreiðslu frá stærri fjármálastofnunum, svo sem Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf. Á árinu 2008 hækkuðu skuldir sjóðsins við lánastofnanir mjög vegna hækkunar erlendra skulda, en erlendar langtímaskuldir sparisjóðsins hækkuðu lítið milli ársloka 2007 og 2008.

Hluti þess sem taldist til erlendra langtímaskulda 2007 var fjármagnaður með skammtímaskuldum á árinu 2008 og hækkuðu þær mikið með falli íslensku krónunnar. Skammtímafjármögnunin var að mestu leyti ný lán frá Kaupþingi banka hf. og voru nýtt til að endurfjármagna erlendar lánalínur frá Sparisjóðabankanum, gera upp uppsafnað tap af framvirkum samningum og endurfjármagna önnur skammtímalán sparisjóðsins, m.a. hjá Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf., Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., Kaupþingi Lúxemborg og peninga- og fjárfestingasjóðum. Sparisjóður Mýrasýslu þurfti einnig að afla fjármagns til að mæta útflæði innlána, bæði í sparisjóðnum sjálfum og dóttursparisjóðunum Afli og Sparisjóði Ólafsfjarðar.150 Lausafjárerfiðleikar sparisjóðsins voru ræddir á stjórnarfundum sparisjóðsins í október 2008. Þar kom fram að ekki hefði fengist samþykkt beiðni um undanþágu frá broti lánasamninga á 10 milljóna evra láni í Lúxemborg og 8 milljóna evra láni í Austurríki. Lausafjárhlutfallið væri ófullnægjandi og bindiskyldan fyrir október ekki í lagi. Því þyrfti að gera samning við Kaupþing um ófrágengin skammtímalán í bankanum.

Skuld við Sparisjóðabankann vegna endurhverfra viðskipta með bréf í Exista hf. var til komin vegna þess að bankinn var milligönguaðili (e. settlement agent) milli sparisjóðsins og Raiffeisen Zentralbank í slíkum viðskiptum.151 Stjórn sparisjóðsins samþykkti 22. nóvember 2006 að nýta bréf sparisjóðsins í Exista hf. til endurhverfra viðskipta við Raiffeisen Zentralbank fyrir 15 milljónir evra. Samningur um slík viðskipti var gerður við austurríska bankann í janúar 2007, og var lánalínan í gangi fram eftir árinu 2007.152 Árið 2008 hélt Raiffeisen áfram að lána sparisjóðnum með veði í verðbréfum, en þá var um að ræða íbúðabréf (HFF flokka).153 Lánalínunni var lokað að beiðni sparisjóðsins 9. september 2008.154

20.4.2 Lántaka

Lántaka Sparisjóðs Mýrasýslu var 8 milljarðar króna í árslok 2005 og 11,9 milljarðar króna í árslok 2008. Stór hluti lántöku sparisjóðsins var í erlendum myntum, og breyttist erlend lántaka lítið milli ársloka 2007 og 2008 þar sem Kaupþing banki veitti sparisjóðnum skammtímafyrirgreiðslu til þess að greiða erlendar langtímaskuldbindingar.

Fjármögnun Íbúðalánasjóðs á útlánum Sparisjóðs Mýrasýslu nam 1,2 milljörðum króna frá 2005 til 2007, en var engin í lok árs 2008.155 Önnur lán voru aðallega frá erlendum bönkum eða erlend endurlán frá Sparisjóðabanka Íslands.

Verðbréfaútgáfa jókst lítið frá 2005 til 2008 eða úr 2,1 milljarði króna í 2,8 milljarða króna, en sparisjóðurinn gaf út ný skuldabréf bæði á árinu 2005 og árinu 2006. Á stjórnarfundi 14. nóvember 2007 samþykkti stjórn sparisjóðsins víxlaútgáfu fyrir allt að 18 milljarða króna. Samkvæmt ársreikningi 2007 var útistandandi víxlaútgáfu sparisjóðsins rúmar 30 milljónir króna, og átti Kaupþing banki hf. allt sem var útistandandi af þessum útgáfum.156 Allir víxlarnir voru á gjalddaga fyrir árslok 2008, og því voru engir útistandandi víxlar við árslok 2008.

Í tölvupósti skipaðs sérfræðings til Fjármálaeftirlitsins 7. nóvember 2008 kom fram að einhverjir þeirra sem áttu kröfur á sparisjóðinn hefðu leitað eftir því að víxlum og skuldabréfum yrði breytt í innlán hjá sparisjóðnum, en samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 6. október 2008 áttu allar innistæður í bönkum og sparisjóðum hér á landi að vera tryggðar að fullu. Sparisjóðurinn óskaði eftir upplýsingum um hvort Fjármálaeftirlitið hefði mótað afstöðu til þess hvort það gæti talist eðlilegt að breyta skuldaskjölum í innistæður, og ef svo væri ekki, frá hvaða tíma skyldi þá skoða hvort slíkar beiðnir hefðu verið afgreiddar. Í bréfi skipaðs sérfræðings kom fram að þetta „gæti létt á SPM vegna minni kostnaðar af skuldbindingunni, en gæti einnig talist mismunun kröfuhafa vegna mismunandi reglna um meðferð skulda og innlána.“157 Fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrum sparisjóðsstjóri að fjöldamargir hefðu óskað eftir að breyta skuldabréfum sínum í innlán en engin slík beiðni verið samþykkt.158

Sparisjóður Mýrasýslu hóf að fjármagna sig sjálfur erlendis á árinu 2004 þegar framboð af fjármagni var gott. Um öflun lánsfjár erlendis sagði fyrrum stjórnarformaður sparisjóðsins við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni: „Þá bara gekk allt á þessum markaði. Það var nóg að senda einn mann til Þýskalands og Sviss og það var ekkert mál að ná í peninga.“159

Á fundi 6. september 2006 samþykkti stjórn sparisjóðsins að veita sparisjóðsstjóra heimild til að taka brúarlán hjá Bayern Landesbank og Raiffeisen Zentralbank sem nam 10 milljónum evra til fimm mánaða. Á lokadegi brúarlánsins fengi sparisjóðurinn svo sambankalán sem leitt yrði af sömu bönkum.160

Bayern Landesbank og Raiffeisen Zentralbank leiddu sambankalán til sparisjóðsins í mars 2007, og söfnuðust 32,5 milljónir evra. Lánið var til þriggja ára, en ekki var fjallað um það á stjórnarfundum sparisjóðsins á árinu 2007 fram til þess er lánssamningurinn var undirritaður. Sparisjóðurinn fékk jafnframt 10 milljóna evra lán til fimm ára hjá Landsbankanum í Lúxemborg, en sú lántaka var samþykkt af stjórn sparisjóðsins 20. júlí 2007. Í lánasamningnum kemur fram að lánið hafi verið veitt til þess að endurgreiða lán sparisjóðsins hjá bankanum frá árinu 2004 sem nam 5 milljónum evra. Landesbank Rheinland-Pfalz veitti sparisjóðnum 6 milljóna evra lánalínu til þriggja ára í nóvember 2007.

Lausafjárvandræði sparisjóðsins voru rædd á stjórnarfundi 16. janúar 2008 þar sem farið var yfir lausafjárhlutfall, og kom fram að leitað væri allra leiða til að ná í fjármagn á ásættanlegum kjörum.161 Fimmtán dögum síðar var fjallað um það á stjórnarfundi að skrifað yrði undir lánasamning við DZ bank, en sá banki veitti sparisjóðnum 5 milljóna evra lán til fimmtán mánaða 1. febrúar 2008.162

Lánið frá DZ bank var hið síðasta sem sparisjóðurinn sótti á erlenda markaði, og sagði sparisjóðsstjóri frá því á aðalfundi sjóðsins 4. apríl 2008 að mikill skortur væri á lausu fé og ekki merki um að staðan myndi lagast á næstunni. Skammtímalán sparisjóðsins hefðu hækkað mikið og erfitt væri að fá lán erlendis. Á þessum sama fundi var arðgreiðsla vegna ársins 2007 samþykkt, og voru greiddar út 268 milljónir króna í arð. Í glærukynningu sem farið var yfir á stjórnarfundi 10. júní sama ár kom fram að erlendir bankar væru hættir að lána til Íslands og búnir að loka á fjármögnun til sparisjóðsins. Ekki væri að sjá að viðhorf bankanna myndi breytast á næstu mánuðum og ekki ljóst hvaða fjármögnunarleiðir stæðu sparisjóðnum til boða ef ástandið batnaði ekki.163

Á stjórnarfundum sparisjóðsins í október kom fram að ekki hefði fengist samþykkt beiðni um undanþágu vegna brots á ákvæðum lánasamnings um 10 milljóna evra lán í Lúxemborg og 8 milljóna evra lán í Austurríki, en sparisjóðurinn uppfyllti ekki lengur þau fjárhagslegu skilyrði sem sett voru í lánasamningunum. Þá var lausafjárhlutfallið ófullnægjandi og bindiskyldan fyrir október sömuleiðis. Jafnframt var rætt um að gera þyrfti samning við Kaupþing banka hf. um skammtímalán í bankanum.164

Sambankalánið frá mars 2007, lánið frá Landsbankanum í Lúxemborg, lánalína frá Landesbank Rheinland-Pfalz og lán frá DZ bank í febrúar 2008 voru meðal þeirra krafna sem voru óuppgerðar þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjárhafafundar sparisjóðsins 3. apríl 2009.165

20.4.3 Víkjandi lán

Víkjandi lántaka Sparisjóðs Mýrasýslu var 5–6% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé hans árin 2005 til 2008, en hún nam á bilinu 900 milljónum króna til 3,3 milljarða króna í ársreikningum þessara ára, mest árið 2008.

Hinn 16. febrúar 2005 var samþykkt að taka 200 milljóna króna víkjandi lán hjá Verðbréfastofunni hf. Lánið var tekið 25. febrúar sama ár.166 Á stjórnarfundi 21. desember 2005 var samþykkt heimild til sparisjóðsstjóra til víkjandi lántöku, allt að 300 milljónum króna, og kom sú ákvörðun í kjölfar ákvörðunar stjórnar á sama fundi um að kaupa nýtt hlutafé í Exista hf. fyrir 336 milljónir króna.

Stjórn sparisjóðsins samþykkti kaup á útibúi Glitnis banka hf. á Siglufirði fyrir 180 milljónir króna 1. júní 2006. Greitt var fyrir útibúið með víkjandi láni frá Glitni banka hf. sem nam sömu fjárhæð.167 Á stjórnarfundi Sparisjóðs Mýrasýslu 21. júní 2006 var samþykkt að stækka skuldabréfaflokk víkjandi lána sem samþykktur hafði verið á stjórnarfundi 21. desember 2005 í 600 milljónir króna, en ástæða lántökunnar kom ekki fram í fundargerðinni. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis átti mestan hluta þessa skuldabréfaflokks eða 250 milljónir að nafnverði í lok árs 2008.168

Hinn 31. ágúst 2007 samþykkti stjórn sparisjóðsins að taka 8 milljóna evra víkjandi lán frá Raiffeisen Zentralbank, og var sparisjóðsstjóra falið að ganga frá láninu. Samningurinn var undirritaður 25. október sama ár. Í lok árs 2007 var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 18,10%, en hefði verið 14,9% ef víkjandi lánið er ekki tekið með í eiginfjárútreikning. Hinn 31. mars 2008 seldi sparisjóðurinn Rekstrarfélagi SPRON hf. víkjandi skuldabréf fyrir 300 milljónir króna að nafnverði.169 Ákvörðunin var ekki bókuð í stjórnarfundargerð.

Aðspurður um tilgang þessara lána sagði fyrrum forstöðumaður fyrirtækjasviðs Sparisjóðs Mýrasýslu að þau hefðu verið tekin til þess að hækka eiginfjárhlutfall sparisjóðsins. Stækkun efnahagsreikningsins hefði lækkað eiginfjárhlutfallið, en stækkunina mætti rekja til fjárfestinga, einkum í Exista hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf., og aukinna útlána.170

20.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Árið 1998 sameinuðust Álftaneshreppur, Borgarhreppur og Þverárhlíðarhreppur Borgarbyggð, og eftir þá sameiningu átti Borgarbyggð 97% hluta í Sparisjóði Mýrasýslu, en Hvítársíðuhreppur 2%.171 Hinn 10. júní 2006 sameinaðist Hvítársíðuhreppur og Borgarbyggð, og varð Borgarbyggð þá eini stofnfjárhafi sparisjóðsins.

Samþykktir sparisjóðsins frá 28. febrúar 2003 kváðu á um að stofnfé hans skyldi ekki vera lægra en 3 milljónir króna og skiptast í eigi færri en tvo hluti. Stofnfé Borgarbyggðar var 3.641.224 krónur og Hvítársíðuhrepps 113.906 krónur. Í 15. gr. samþykkta sparisjóðsins kom fram að sveitarstjórnir í Mýrasýslu skyldu að afloknum sveitarstjórnarkosningum kjósa tuttugu fulltrúa, svonefnda sparisjóðsaðila, á aðalfund sparisjóðsins til fjögurra ára. Borgarbyggð kaus átján og Hvítársíðuhreppur tvo. Kjósa átti jafnmarga varamenn.

Hver fulltrúi á aðalfundi sparisjóðsins fór með eigið atkvæði burtséð frá stofnfjáreign þess aðila sem hann var fulltrúi fyrir. Stofnfjárbréf skyldu hljóða á nafn og ekki verða framseld til handhafa, þannig að gildi hefði gagnvart sparisjóðnum. Yrðu eigendaskipti að stofnfjárhlut og ákvæði laga eða samþykkta sparisjóðsins væru því ekki til fyrirstöðu skyldi nafn hins nýja eiganda fært í stofnfjáreigendaskrá þegar hann tilkynnti eigendaskiptin og sannaði rétt sinn. Þá var sala eða annað framsal stofnfjárhlutar í sparisjóðnum óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Teldi sparisjóðsstjórn að væntanlegur kaupandi stofnfjár væri að falast eftir virkum eignarhlut í sparisjóðnum skyldi stjórnin vísa málinu til Fjármálaeftirlitsins og ekki samþykkja framsal sem myndi leiða til þess að einn aðili færi með virkan eignarhlut fyrr en heimild fengist frá Fjármálaeftirlitinu. Þá var veðsetning stofnfjárhlutar í sparisjóðnum óheimil. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnfé umfram það sem kveðið var á um í samþykktum sparisjóðsins með áskrift nýrra stofnfjárhluta. Þá var heimilt að auka stofnfé með endurmati á stofnfé og með ráðstöfun hluta hagnaðar.

Samþykktum var breytt í mars 2007 eftir sameiningu Hvítársíðuhrepps og Borgarbyggðar. Í nýjum samþykktum var stofnfé sparisjóðsins 4.471.000 krónur og að fullu í eigu Borgarbyggðar. Á aðalfundum sparisjóðsins kusu sparisjóðsaðilar sparisjóðsstjórn og fjölluðu um önnur aðalfundarmál. Með breytingum á samþykktum í mars 2007 var sparisjóðsaðilum fækkað í 18, og voru þeir allir kosnir af Borgarbyggð.

Helstu breytingar á stofnfé sparisjóðsins á árunum 2005–2009 voru hækkanir stofnfjár vegna endurmats auk stofnfjáraukningar sem fram fór á árinu 2007. Á stjórnarfundi 12. september 2007 óskaði Borgarbyggð eftir að auka stofnfé sparisjóðsins um 500 milljónir króna. Fyrir var uppreiknað stofnfé tæpar 5 milljónir króna. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, og var samþykktum sparisjóðsins breytt til að heimila hækkunina. Í skýrslutökum fyrir rannsóknarnefnd Alþingis komu fram getgátur um að tilgangur stofnfjáraukningarinnar hefði fyrst og fremst verið að geta greitt aukinn arð til stofnfjárhafans, Borgarbyggðar.172

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 20. júní 2007 var fjallað um bréf frá Sparisjóðnum í Keflavík þar sem þess var farið á leit við sparisjóðinn (og aðra sparisjóði) að teknar yrðu upp sameiningaviðræður. Stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu hafnaði þessum umleitunum, en á næsta stjórnarfundi þar á eftir, 8. ágúst sama ár, var sparisjóðsstjóra falið að rita bréf til minni sparisjóða með beiðnum um sameiningar, en ekki varð úr. Sparisjóðsstjórn ræddi sameiningar á ný í byrjun árs 2008 með það að augnamiði að bæta eiginfjárstöðu sparisjóðsins.173

Þrátt fyrir 500 milljóna króna stofnfjáraukningu á árinu 2007 höfðu stjórnendur sparisjóðsins miklar áhyggjur af eiginfjárstöðu hans í byrjun árs 2008. Í lok árs 2007 var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 11,6%, en sama hlutfall var 8,7% þremur mánuðum síðar. Auk sameiningarhugmynda var rætt um að selja eignir í fjármálafyrirtækjum og gefa út víkjandi skuldabréf til þess að bæta stöðuna.174 Eiginfjárstaða sparisjóðsins hélt áfram að versna og á stjórnarfundi hans 19. júní 2008 var stjórnarformanni og sparisjóðsstjóra falið að leita samninga við Landsbankann eða Kaupþing banka um hugsanlega sameiningu.

Tæplega tveimur vikum síðar, 31. júlí 2008, undirrituðu Sparisjóður Mýrasýslu og Kaupþing banki hf. viljayfirlýsingu um aukningu stofnfjár í sparisjóðnum um 2 milljarða króna þar sem bankinn myndi kaupa stofnfé fyrir 1.750 milljónir króna og ábyrgjast fjárfestingu annarra fyrir 250 milljónir króna. Gengi þetta eftir yrði Kaupþing banki hf. eigandi 70% stofnfjár í sjóðnum.175 Breytingar á samþykktum sparisjóðsins í tengslum við þessa stofnfjáraukningu þurfti að leggja fyrir fund sparisjóðsaðila. Sá fundur var haldinn 15. ágúst 2008, og lýstu sparisjóðsaðilar sig ósátta við að hafa ekki verið hafðir með í ráðum um samninginn við Kaupþing banka hf. Þeir töldu sér vera stillt upp við vegg þar sem fjárhagsstaða sparisjóðsins væri slæm á þessum tímapunkti og grípa þyrfti til aðgerða. Engar aðrar lausnir væru í boði sem myndu rétta fjárhaginn við og sparisjóðurinn gæti ekki haldið áfram starfsemi að óbreyttu. Því samþykkti fulltrúaráð breytingu á samþykktum sparisjóðsins. Á fundinum var einnig kosin ný stjórn.176

Með breytingunum fékk stjórn heimild til að hækka stofnfé um allt að 2 milljarða króna, en það var 505.021.000 krónur á þeim tíma. Stjórn skyldi ákveða hvenær og að hvaða marki hækkunarheimildin yrði nýtt, og gilti hún til septemberloka 2011. Greiða skyldi nafnverð að viðbættu þegar gerðu endurmati, hagnaðarráðstöfunum og ónýttri heimild til endurmats stofnfjár fyrir nýja stofnfjárhluti. Stofnfjáreigendur skyldu ekki hafa forgangsrétt að nýjum hlutum í hlutfalli við stofnfjáreign sína, heldur væri stjórn heimilt að selja nýjum aðilum hækkunarhlutina að hluta eða öllu leyti. Stofnfjáreigendur ættu einn eða fleiri jafngilda stofnfjárhluti og væri atkvæðisréttur í réttu hlutfalli við stofnfjáreign. Eitt atkvæði skyldi fylgja hverri krónu í stofnfé. Ekki voru sett takmörk á fjölda hluta í eigu einstakra stofnfjáreigenda, en þó var þeim aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum. Þá var heimilað í samþykktunum að veðsetja stofnfjárbréf að tilskildu samþykki stjórnar sparisjóðsins.

Áður en stofnfjáraukningin náði fram að ganga tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka og var rekstur hans frá þeim tíma í höndum skilanefndar. Í

nóvember 2008 gerði Nýi Kaupþing banki hf. tilboð í allt stofnfé Borgarbyggðar í Sparisjóði Mýrasýslu sem var samþykkt,177 og í framhaldinu samþykkti ríkisstjórnin að veita bankanum fjármagn til kaupanna.178 Bankinn eignaðist þó ekki allt stofnféð fyrr en eftir að samningar næðust við lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu, auk samþykkis Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.179 Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjáreigendafundar sparisjóðsins 3. apríl 2009. Þá ráðstafaði Fjármálaeftirlitið eignum og skuldum í samræmi við kaupsamning Nýja Kaupþings og sparisjóðsins á eignum og rekstri sparisjóðsins frá 3. apríl 2009.180

20.6 Arður af stofnfjáreign

Sparisjóður Mýrasýslu greiddi stofnfjárhöfum sínum jafnan arð af stofnfé þeirra. Á árunum 2001–2008 námu arðgreiðslur vegna næstliðinna rekstrarára samtals nærri 274 milljónum króna, þar af voru tæplega 268 milljónir króna greiddar vegna ársins 2007. Ekki var greiddur arður vegna 2004, enda þótt tillaga um greiðslu 15% arðs væri samþykkt á aðalfundi 11. mars 2005. Greiðsla arðs vegna 2006 og 2007 var ekki í samræmi við reglur Tryggingasjóðs sparisjóða.181 Arðgreiðslan vegna ársins 2006 nam 69,3% af stofnfé, en leyfilegt hámark, þ.e. raunarðsemi eigin fjár, var þá 58,6%, og munaði þar tæpum 480 þúsund krónum. Arðgreiðsla vegna ársins 2007 var fimmfalt hærri en heimilt var samkvæmt reglunum eða 53% í stað 10%, og munaði þar nærri 215 milljónum króna. Raunarðsemi eigin fjár samstæðunnar á árinu 2007 var ekki nema 5,7%, þannig að 10% hámark Tryggingasjóðs gilti sem arðgreiðsluhlutfall og arðgreiðsla samkvæmt því hefði þá numið 50,1 milljón króna. Við upptöku alþjóðlegra reikningsskilareglna (IFRS) var eigið fé samstæðunnar í ársbyrjun hækkað um nærri 1,7 milljarða króna, og samkvæmt reglum Tryggingasjóðs mátti við útreikning arðsins taka tillit til þess sem heimilt hefði verið að greiða vegna 2006 hefði nefndri hækkun verið bætt við afkomuna þá. Í útreikningum sparisjóðsins var þessari matshækkun eigin fjár bætt við hagnað ársins 2007 og þannig fengin út þessi arðsemi. Matshækkunin var vegna afkomu fyrri ára og því átti að reikna hana á forsendum ársins 2006 en þá var stofnfé mun lægra en árið 2007 og hámarksarðgreiðsla, sem var hlutfall af stofnfé, því lægri. Ógreiddur arður vegna fyrri ára var ekki nema tæplega 2,9 milljónir króna samkvæmt reglum Tryggingasjóðsins. Arðgreiðslan vegna 2007 mátti því nema samtals 53 milljónum króna. Greiðslan til eina stofnfjárhafans, Borgarbyggðar, eftir aðalfundinn 2008 nam 267,7 milljónum króna eða 214,7 milljónum króna umfram það sem heimilt var. Útreikningur á þessari arðgreiðslu er sýndur í töflu 35. Fyrst er þar sýnt hvernig sparisjóðurinn hefur reiknað út arðinn og því næst hvernig þetta skyldi reiknað í samræmi við reglur Tryggingasjóðs. Í fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Mýrasýslu 4. apríl 2008 var bókuð undir lið 5 „Tillaga um arðgreiðslu til stofnfjáraðila“:

Aðalfundur Sparisjóðs Mýrasýslu […] samþykkir að greiða 53% arð til stofnfjáreiganda á árinu 2008 vegna ársins 2007.
Fundarstjóri bar upp tillöguna, ekki urðu umræður um hana og hún var síðan samþykkt samhljóða.

Ekki er að sjá að nein umræða um arðgreiðsluna eða útlegging á henni hafi farið fram á stjórnarfundum, heldur er einungis bókað í stjórnarfundargerð 4. apríl 2008, sama dag og aðalfundurinn var haldinn:

Samþykkt var að greiða 53% arð til stofnfjáreigenda á árinu 2008 vegna ársins 2007.

Reglur Tryggingasjóðs um hámark arðgreiðslna giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt, og eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.182 Arðgreiðslur og forsendur þeirra eru tíundaðar í töflu 36.

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda, og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.183 Árin 2006 og 2007 var stofnfé Sparisjóðs Mýrasýslu hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um 855 þúsund króna. Endurmat ársins 2006 var tvöfalt á við verðlagsbreytingar ársins, en sparisjóðurinn hafði ekkert endurmetið síðustu þrjú ár, og var því heimilt að flytja ónýtt endurmat milli ára. Árið 2007 var stofnfé sparisjóðsins hækkað um 500 milljónir króna, og var endurmatið því í samræmi við þá stofnfjáraukningu. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2007.

Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.184 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári, og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Á aðalfundum sparisjóðsins 2006 og 2007 var samþykkt að hækka stofnfé í lok næstliðins árs um 5%. Alls var stofnfé hækkað um 411 þúsund krónur með sérstöku endurmati, og var framkvæmdin í samræmi við lög og reglur.

Í töflu 36 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau voru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar, og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

20.7 Fjárhagsleg endurskipulagning

Í kjölfar fundar Fjármálaeftirlitsins með forsvarsmönnum Sparisjóðs Mýrasýslu 31. mars 2008 vegna versnandi stöðu á fjármálamörkuðum óskaði Fjármálaeftirlitið eftir greinargerð um stöðu sparisjóðsins og dótturfélaga hans. Í greinargerðinni sem barst Fjármálaeftirlitinu 4. apríl 2008 var farið yfir stöðu sparisjóðsins og atvik sem gætu haft áhrif á eiginfjárhlutfallið, einkum kaup á hlutum í Icebank hf. (Sparisjóðabankanum). Í kjölfarið krafði Fjármálaeftirlitið sparisjóðinn, með vísan til 2. mgr. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki, um reikningsuppgjör miðað við 31. mars 2008 sem skyldi áritað af endurskoðanda, enda hefði fram komið í greinargerð sparisjóðsins að „hugsanlega [væri] lögbundið eigið fé sparisjóðsins undir þeim mörkum sem segir til um í 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki“. Frestur til að skila uppgjörinu var til 2. maí 2008.185 Endanleg útgáfa uppgjörsins barst Fjármálaeftirlitinu 9. júní 2008, og var eiginfjárhlutfall samkvæmt því 8,7%.186 Sama hlutfall hafði verið 11,6% í lok árs 2007. Á sama tíma og eiginfjárstaðan versnaði þrengdist einnig lausafjárstaða sjóðsins.187

Um miðjan júní 2008 framkvæmdi Fjármálaeftirlitið vettvangsskoðun hjá sparisjóðnum, og var niðurstaða hennar að eigið fé sparisjóðsins í uppgjöri 31. mars 2008 væri ofmetið. Í skýrslunni var fjallað sérstaklega um rúman milljarð króna sem sparisjóðurinn hafði lánað til ellefu lögaðila til kaupa á hlutabréfum í Icebank hf. og þær tryggingar sem að baki þeim lágu. Eina trygging sparisjóðsins fyrir lánveitingunum væri 2. veðréttur í hlutabréfunum; virði þeirra hefði lækkað frá lánveitingunni, en höfuðstóll lánanna, sem var í erlendri mynt, hækkað í íslenskum krónum. Lántakendur væru flestir með lágmarks hlutafé auk þess sem eignarhlutur þeirra í Icebank hf. væri jafnframt eina eign viðkomandi lögaðila. Samkvæmt útreikningum Fjármálaeftirlitsins voru þessi lán í verulegri tapshættu, og myndi það eitt leiða til þess að eiginfjárhlutfall sjóðsins færi niður í 6,75%. Fyrstu niðurstöður úttektarinnar gáfu einnig til kynna enn frekari tapshættu vegna annarra útlána, sem og eignarhalds í Exista hf. í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. Því virtist lögbundið eigið fé sparisjóðsins vera talsvert undir 8% lágmarkinu sem krafist var í 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Meginniðurstaða Fjármálaeftirlitsins var að bókfært eigið fé sjóðsins væri að öllum líkindum ofmetið um 2,4–3,0 milljarða króna, en í uppgjörinu var það talið vera 4,8 milljarðar króna. Fjármálaeftirlitið óskaði eftir því að sparisjóðurinn legði fram nákvæmar og tímasettar tillögur um aðgerðir og úrbætur vegna þessa. Þá var þess jafnframt óskað að árshlutauppgjöri 30. júní 2008 yrði hraðað sem kostur væri.188

20.7.1 Samningaviðræður við aðrar fjármálastofnanir

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 19. júní 2008 var sparisjóðsstjóra falið að leita samninga við Landsbanka Íslands eða Kaupþing banka um hugsanlega sameiningu. Degi síðar tilkynnti stjórn sparisjóðsins að ákveðið hefði verið að leita eftir viðræðum við Landsbankann um sameiningu eða kaup á sparisjóðnum, og átti að ljúka viðræðum á 3–4 vikum. Talið var að breyta þyrfti sparisjóðnum í hlutafélag og stefnt að því að vinna við hlutafélagsvæðingu yrði hafin „í næstu viku“.189

Sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður sparisjóðsins áttu fund með bankastjóra Landsbankans 24. júní 2008, og var Fjármálaeftirlitinu tilkynnt um fundinn. Fjármálaeftirlitið leitaði eftir viðbrögðum frá forsvarsmönnum sparisjóðsins um aðra kosti í stöðunni ef Landsbankinn hefði ekki áhuga á sparisjóðnum. Helst var talið koma til greina að ræða við sparisjóðina, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf., Byr sparisjóð og Sparisjóðinn í Keflavík, um allsherjarsameiningu „sparisjóðafjölskyldunnar“. Af hálfu Fjármálaeftirlitsins var það talinn of tímafrekur kostur, auk þess sem í slíkum viðræðum myndu öll vandamál Sparisjóðs Mýrasýslu opinberast og eiga greiða leið í fjölmiðla. Ekki væri mikill tími til stefnu og taldi Fjármálaeftirlitið að sparisjóðurinn yrði að koma eiginfjárstöðu sinni í ásættanlegt horf innan örfárra vikna.190

Hinn 4. júlí 2008 tilkynnti sparisjóðsstjóri sparisjóðsins Fjármálaeftirlitinu að Landsbankinn hefði „ekki mikinn áhuga á að yfirtaka Sparisjóð Mýrasýslu en ef eigendur sjóðsins væru áfram um það myndu þeir gera það“. Forsvarsmönnum sparisjóðsins hefði verið ráðlagt af Landsbankamönnum að ræða heldur við Kaupþing banka hf. og að þar kynni að fást hærra verð. Í kjölfarið hefðu forsvarsmenn sparisjóðsins fundað með Kaupþingi, og hefði hugmyndum um samruna verið vel tekið, en beðið væri svara um hvernig bankinn vildi nálgast verkefnið.191 Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni sagði sparisjóðsstjórinn Fjármálaeftirlitið hafa bent sparisjóðnum á að ræða við þessa banka:

En þá felur stjórnin mér og stjórnarformanni að kanna það hvort einhver viðskiptabankanna myndi vilja yfirtaka sparisjóðinn eða taka sparisjóðinn að sér vegna þessara erfiðleika, því það lá fyrir að eigandinn ætlaði ekki að leggja í þetta peninga, sveitarstjórnin í Borgarnesi hafði ekki fjármagn í það. Málið var að við ræddum við þáverandi forstöðumann Fjármálaeftirlitsins og hann ráðlagði okkur að tala við annaðhvort Landsbankann eða Kaupþing. […] Í framhaldi af því var það að beiðni sveitarstjórnarinnar að við töluðum fyrst við Landsbankann […] og ræddum þar við Sigurjón Árnason og Halldór um þessi mál. Það var enginn áhugi þar fyrir að koma okkur til aðstoðar, við gátum ekki fundið að það væri áhugi fyrir því. Það gekk því fljótt yfir. Í framhaldinu var mér falið að tala við Sigurð Einarsson. Við þekktumst náttúrlega vel í gegnum tíðina. Ég var líka búinn að vera í stjórn Kaupþings þarna í nokkur ár og starfa mikið með þeim og áður en þeir sameinuðust Búnaðarbankanum. Ég ræddi við Sigurð og hann tók strax mjög vel í þetta. Þá fóru í gang strax þessar viðræður sem við tókum þátt í. […] Niðurstaðan var sú, ég var nú svolítið hissa á því sjálfur hvernig að þessu var staðið að því leytinu til, að þeir koma þarna inn strax. Ég vissi ekki til þess að þeir væru búnir að borga inn neitt stofnfé eða neitt en þeir komu þarna strax inn og kjósa nýja stjórn og kjósa sína menn í stjórn þá.192

Kaupþing banki, Sparisjóður Mýrasýslu og Borgarbyggð undirrituðu viljayfirlýsingu um aukningu stofnfjár 31. júlí 2008. Í yfirlýsingunni kom fram að fyrirhuguð aukning stofnfjár væri 2 milljarðar króna og að Borgarbyggð hygðist ekki nýta sér forkaupsrétt að auknu stofnfé. Kaupþing skuldbatt sig til skráningar fyrir stofnfénu þannig að tryggt yrði að áskrift fengist fyrir 2.000 milljónum króna. Aðilar væru sammála um að sparisjóðnum yrði breytt í hlutafélag jafnskjótt og kostur væri.193 Samkomulag um stofnfjáraukninguna var undirritað 15. ágúst 2008. Í því kom fram að Kaupþing banki hygðist skrá sig fyrir 1.750 milljónum króna og tryggja að aðrir fjárfestar skráðu sig fyrir 250 milljónum króna. Áætlunin gerði ráð fyrir því að heildarstofnfé eftir stofnfjáraukningu, 2.340 milljónir króna, skiptist milli Sparisjóðs Kaupþings (70,2%), Borgarbyggðar (20%) og annarra fjárfesta (9,8%).194

Á fundi fulltrúaráðs sparisjóðsins sama dag var samþykktum sparisjóðsins breytt til að stofnfjáraukning yrði möguleg, og fékk stjórnin heimild til að hækka stofnfé um allt að 2 milljarða króna. Ný fimm manna stjórn var kosin, og voru tveir stjórnarmenn á vegum Kaupþings, Róbert Agnarsson, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði bankans, og Þórbergur Guðjónsson. Á stjórnarfundi 2. september 2008 var fjallað um ósk sparisjóðsstjóra, Gísla Kjartanssonar, um að láta af störfum. Gengið var frá starfslokum hans og nýr sparisjóðsstjóri, Bernhard Þór Bernhardsson, tók við 3. september 2008.

Stofnfé var ekki aukið um leið og heimild til þess fékkst. Framsal og aukning stofnfjár sem leiddi til þess að einstakur stofnfjáreigandi eignaðist eða færi með virkan eignarhlut í sparisjóðnum var óheimilt samkvæmt þágildandi 2. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002, nema að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitinu var því tilkynnt um fyrirhuguð viðskipti með bréfi 15. ágúst 2008, en þar kom jafnframt fram að bráðabirgðauppgjör sparisjóðsins fyrir annan ársfjórðung 2008 benti til þess að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins væri 0,4% og áætlað væri að við stofnfjáraukninguna færi það yfir 10%.195 Sama dag lagði Kaupþing inn umsókn til Fjármálaeftirlitsins um að dótturfélag bankans, Sparisjóður Kaupþings hf., fengi að fara með virkan eignarhlut í Sparisjóði Mýrasýslu. Fjármálaeftirlitið óskaði þá eftir frekari upplýsingum frá bankanum, en við yfirtöku þess á Kaupþingi banka hf. 9. október 2008 höfðu ekki borist allar umbeðnar upplýsingar frá bankanum í tengslum við umsóknina, og því gekk fyrirhuguð stofnfjáraukning ekki eftir. Vakti stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu athygli Fjármálaeftirlitsins á því að vegna þessa væri eigið fé sparisjóðsins langt undir lögbundnum mörkum.196

20.7.2 Aðgerðir Fjármálaeftirlitsins vegna eiginfjárstöðu Sparisjóðs Mýrasýslu

Í kjölfar falls bankanna haustið 2008 óskaði Fjármálaeftirlitið eftir árshlutauppgjöri sparisjóðsins miðað við 30. september 2008 ásamt öðrum upplýsingum.197 Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri 30. september 2008 sem tók tillit til líklegrar virðisrýrnunar verðbréfaeignar og útlána sjóðsins vegna atburða í október 2008, var eiginfjárhlutfall sjóðsins neikvætt um 3,8%. Fjármálaeftirlitið krafði sparisjóðinn þá um greinargerð um þær ráðstafanir sem hann hygðist grípa til til þess að leysa úr eiginfjárvandanum í samræmi við 3. mgr. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Jafnframt var óskað upplýsinga um það hvort stjórn sparisjóðsins hefði kannað hvort grípa þyrfti til úrræða samkvæmt 98. gr. laga nr. 161/2002 vegna þeirrar stöðu sem upp var komin, þ.e. hvort leita ætti heimildar til greiðslustöðvunar eða nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti.198

Í greinargerð sparisjóðsins 31. október 2008 taldi stjórn sparisjóðsins greiðslustöðvun eða nauðasamninga koma til greina miðað við stöðu sjóðsins. Hún vildi þó fyrst láta reyna á stofnfjáraukningu og óskaði eftir fresti til að kanna hvort sú leið væri fær. Gert var ráð fyrir að auka þyrfti stofnfé um 13 milljarða króna til að tryggja áframhaldandi starfsemi sparisjóðsins, en þá yrði eiginfjárhlutfallið 15,2% miðað við stöðu sparisjóðsins samkvæmt uppgjöri 30. september 2008. Þá hafði verið tekið tillit til athugasemda Fjármálaeftirlitsins í kjölfar eftirlitsskoðunar í júní 2008 um tapsáhættu sjóðsins og líklegrar rýrnunar á verðbréfaeign og útlánum vegna atburða eftir uppgjörsdagsetningu.199 Stjórn hygðist leita til lánveitenda sparisjóðsins um að afskrifa 50% krafna þeirra. Skuld sparisjóðsins við Nýja Kaupþing banka nam um 18,8 milljörðum króna, og hafði bankinn lýst yfir „vilja til að skoða beiðni um afskrift með jákvæðum hug“.200 Kröfur erlendra lánardrottna næmu um 10 milljörðum króna og yrðu hugmyndir um afskriftir krafna kynntar þeim stuttu síðar. Þá yrði sjóðnum breytt í hlutafélag og leitað eftir áframhaldandi samstarfi við Nýja Kaupþing banka hf.201

Fjármálaeftirlitið skipaði Jón Hauk Hauksson hdl. sérfræðing til að hafa sértækt eftirlit með rekstri sparisjóðsins 3. nóvember 2008. Hann hafði starfsstöð í sparisjóðnum meðan hann sinnti sértæku eftirliti með sjóðnum.202 Daginn eftir veitti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum frest til 20. nóvember 2008 til þess að auka eiginfjárgrunn sinn á grundvelli greinargerðar sparisjóðsins.203

20.7.3 Samningaviðræður við kröfuhafa

Í byrjun nóvember 2008 hafði sparisjóðsstjóri samband við fjóra stærstu erlendu lánardrottna sjóðsins, Bayern LB, Landesbank Rheinland Pfalz, DZ Bank og Raiffeisen Zentralbank, og voru þeim kynntar hugmyndir að lausnum á fjárhagsvanda sparisjóðsins. Fyrstu viðbrögð þeirra voru þau að veittur frestur til að bæta eiginfjárstöðu sparisjóðsins væri of skammur. Forsvarsmenn sparisjóðsins töldu að ef til vill kynni að vera ofáætlað að erlendir lánardrottnar samþykktu helmingsafskrift krafna sinna, en ólík afskriftarhlutföll væru vandasöm og mætti túlka sem mismunun. Því var rætt um nýjar tillögur með lægri afskriftaprósentu, bæði hvað erlenda lánardrottna varðaði og Nýja Kaupþing banka, auk þess sem horft var til stofnfjárframlags þess síðastnefnda. Þær hugmyndir þörfnuðust þó frekari útfærslna.204 Daginn eftir kynnti sparisjóðsstjóri Fjármálaeftirlitinu að Nýi Kaupþing banki hefði í hyggju að kaupa stofnfé Borgarbyggðar í sparisjóðnum. Þá yrði leitað til erlendra lánardrottna um lækkun krafna um 35%. Bankinn myndi færa sínar kröfur niður um sama hlutfall og breyta 15% krafna sinna, um 3 milljörðum króna, í nýtt stofnfé. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins yrði þá rúmlega 12%, að teknu tilliti til forsendna sem lágu til grundvallar fyrri tillögu sparisjóðsins. Það var mat sparisjóðsins að ósk um 50% afskrift án þess að til kæmi nýtt stofnfé yrði illa tekið erlendis.205

Skilyrt kauptilboð í stofnfé sparisjóðsins var undirritað 6. nóvember 2008 þar sem Nýi Kaupþing banki bauð 505 milljónir króna fyrir allt stofnfé Borgarbyggðar í sjóðnum.206 Kaupverðið yrði greitt með uppgreiðslu 250 milljóna króna láns Borgarbyggðar hjá Kaupþingi frá 15. október 2007, en staða þess var 577 milljónir króna 4. nóvember 2008. Lánið hafði Borgarbyggð upphaflega tekið til að kaupa nýtt stofnfé í sparisjóðnum árið 2007. Kauptilboðið var bundið þeim skilyrðum að allir samningsaðilar samþykktu tilboðið og eftirlitsstofnanir heimiluðu kaupin og samruna sparisjóðsins og bankans. Þá var það gert að skilyrði að bankinn fengi breytt 15% af eftirstæðum kröfum á hendur sparisjóðnum í nýtt stofnfé og að allir lánardrottnar féllust á fyrirkomulagið og samþykktu að lágmarki 35% afskriftir krafna sinna.

Sparisjóðurinn hafði frest til 20. nóvember 2008 til að auka við eiginfjárgrunn sinn, en óskaði eftir að hann yrði framlengdur. Í samskiptum sparisjóðsins við helstu lánardrottna hefðu hinir síðarnefndu sýnt málefnum sparisjóðsins skilning, en hefðu lýst yfir áhuga á því að ljúka fyrst málum viðskiptabankanna sem skiptu þá meira máli. Því væru þeir ekki tilbúnir að semja sérstaklega við Sparisjóð Mýrasýslu eða önnur smærri fjármálafyrirtæki. Lánardrottnarnir hefðu gefið sterklega í skyn að þeir teldu eðlilegt að samningar sparisjóðsins við Nýja Kaupþing banka gengju í gegn og að lausn á málefnum sparisjóðsins yrði hluti af lausn á málum Kaupþings banka hf. Í ljósi þessa óskaði sparisjóðurinn eftir áframhaldandi fresti sem tæki mið af þessari stöðu, enda gæti nokkur tími liðið þar til lausn fyndist á málum viðskiptabankanna.207 Hinn 24. nóvember 2008 veitti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum áframhaldandi frest til 10. desember 2008 til að uppfylla skilyrði um eiginfjárhlutfall.208

Í skýrslu skipaðs sérfræðings til Fjármálaeftirlitsins 22. nóvember 2008 sagði að Nýja Kaupþingi banka og fjórum erlendum lánardrottnum hefði verið kynnt aðgerðaráætlun um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Enginn erlendu lánardrottnanna hefði hafnað viðræðum á grundvelli þeirra hugmynda, en hugsanlega vildu þeir beina kröftum sínum að úrlausnum viðskiptabankanna og láta málefni sparisjóðsins bíða. Hjá erlendum lánardrottnum væru allnokkur óvissuatriði um úrvinnslu hugmynda sparisjóðsins, og óljóst væri hvaða tíma hún tæki. Kvaðst sérfræðingurinn hafa komið því áleiðis til stjórnar sparisjóðsins, samkvæmt beiðni Fjármálaeftirlitsins, að gengið yrði eftir kyrrstöðusamningi (e. standstill agreement) frá lánardrottnum, jafnvel þótt engin vanskil væru. Samþykkt hins skilyrta kauptilboðs hefði verið á dagskrá stjórnarfunda Nýja Kaupþings banka í tvígang, en verið frestað í bæði skiptin,209 og taldi hann að stjórn Nýja Kaupþings banka biði afstöðu ríkisvaldsins áður en ákvörðun yrði tekin.210

Í minnisblaði stjórnarformanns og bankastjóra Nýja Kaupþings banka 29. nóvember 2008 til fjármálaráðherra sagði frá því að Kaupþing banki hefði skuldbundið sig til að afla áskrifta að nýju stofnfé sumarið 2008, og fram að yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á bankanum hefði hann lánað sparisjóðnum talsvert fé og ætti töluvert undir því að fá það greitt. Yrði tilboðið samþykkt, væri gert ráð fyrir að breyta sparisjóðnum í hlutafélag og sameina hann Nýja Kaupþingi banka. Þannig væri hægt að hagræða í rekstri með því að fækka starfsstöðvum bankans í Borgarnesi úr tveimur í eina. Með samningnum taldi bankinn sig komast hjá átökum við sveitarfélagið vegna sameiningaráforma, auk þess að einfalda ferlið gagnvart erlendum lánardrottnum og byggja upp traust á því að mál væru komin í góðan farveg. Erlendir lánardrottnar legðu áherslu á að hafa útgönguleið síðar ef þeir eignuðust stofnfé í sparisjóðnum. Með sameiningu við bankann eignuðust þeir hlutabréf í bankanum sem væru seljanlegri en stofnfé í sparisjóðnum, en miðað við áætlanir myndu þeir eignast á bilinu 1–2% í Nýja Kaupþingi eftir samrunann. Gengi kaupsamningurinn eftir sæi bankinn fram á að ríkissjóður þyrfti að leggja um 580 milljónir króna af nýju hlutafé í bankann því að kaup á fjármálafyrirtæki hefðu áhrif á eiginfjárhlutfallið. Því var lagt til að fjármálaráðherra gæfi vilyrði fyrir hönd ríkissjóðs fyrir aukningu hlutafjár í Nýja Kaupþingi banka.211

Bráðabirgðauppgjör Sparisjóðs Mýrasýslu 31. október 2008 var kynnt á stjórnarfundi 3. desember 2008, og hafði staða sparisjóðsins versnað umtalsvert frá fyrra uppgjöri. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins var orðið neikvætt um 47,5% og eigið fé neikvætt um 3,7 milljarða króna. Uppgjörið gerði ráð fyrir 15% afskriftum af útlánum, en talið var að afskriftaþörfin væri hugsanlega hærri.212

Tilboð Nýja Kaupþings banka hf. var á dagskrá ríkisstjórnarfundar 9. desember 2008. Sama dag óskaði sparisjóðurinn eftir auknum fresti til að bæta eiginfjárstöðu sína þar sem viðræður við lánardrottna og frágangur kauptilboðs hefði dregist á langinn. Vísaði sparisjóðurinn til þess að stjórn Nýja Kaupþings banka hefði frestað afgreiðslu samnings við Borgarbyggð um kaup á stofnfé ítrekað, en stjórn bankans vildi ekki afgreiða málið án samþykkis fjármálaráðherra sem færi með eignarhlut í bankanum fyrir hönd ríkissjóðs.213 Í bréfi sparisjóðsins var bent á að þótt eiginfjárstaðan væri slæm mætti bæta hana verulega með því að Nýi Kaupþing banki afskrifaði helming „sinna skulda“ og „ganga á þá lánadrottna sem mesta áhættu bera eða eigendur víkjandi lána sem eru um 3 milljarðar króna“. Þetta tvennt myndi bæta eiginfjárstöðu sparisjóðsins um 13 milljarða króna og „hann yrði sennilega með besta stöðu allra sparisjóða í kjölfarið“. Þó væri „rétt í ljósi aðstæðna og til að gæta fullrar sanngirni að leita til erlendra lánadrottna“, en unnið væri að því.214 Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum áframhaldandi frest til 12. janúar 2009.215

Í desember höfðu erlendir lánardrottnar óskað eftir ítarlegum, fjárhagslegum upplýsingum um sparisjóðinn, en jafnframt að Fjármálaeftirlitið ætti aðild að kyrrstöðusamningi. Gert var ráð fyrir því að allir lánardrottnar kæmu að honum, en þeir voru rúmlega 40 talsins. Þá taldi sparisjóðsstjóri erlenda lánardrottna gjarnan vilja komast hjá eignarhaldi á stofnfé, en talið var að þeir væru undir þrýstingi heima fyrir um að minnka áhættu erlendis. Ríkisstjórnin hafði samþykkt framlag til Nýja Kaupþings banka til að bankinn gæti staðið við tilboð um kaup á stofnfé í sparisjóðnum.216 Stjórn Nýja Kaupþings banka hf. samþykkti síðan samning um kaup á stofnfé Borgarbyggðar í Sparisjóði Mýrasýslu 22. desember 2008.

Enn dróst að gengið yrði frá kyrrstöðusamkomulagi, og 22. janúar 2009 upplýsti skipaður sérfræðingur Fjármálaeftirlitið um það að Landsbankinn í Lúxemborg hefði neitað að skrifa undir kyrrstöðusamninginn og efaðist um réttmæti samninga um niðurfellingu skulda við þær aðstæður sem uppi væru hjá sparisjóðnum. Stjórnendur sparisjóðsins töldu að afstaða bankans þyrfti ekki að vera vísbending um að bankinn yrði neikvæður gagnvart samningum um afskriftir skulda. Sérfræðingurinn benti á að meðferð málsins væri að þokast nær nauðasamningsgerð þótt um skuldalækkunarsamninga væri að ræða.217

Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum aukinn frest til 2. mars 2009 til að koma eigin fé sparisjóðsins í lögbundið horf,218 og tók kyrrstöðusamningur, undirritaður af öllum helstu lánardrottnum, gildi 27. janúar 2009 og gilti til 2. mars 2009.219 Um miðjan febrúar lágu fyrir tillögur að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins sem voru kynntar erlendum lánardrottnum.220 Í þeim kom meðal annars fram sundurliðun þeirra skulda sem gert var ráð fyrir að yrði endursamið um, samtals um 31,5 milljarðar króna. Settar voru fram tvær ólíkar tillögur um meðhöndlun skulda sem báðar leiddu til þess að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins yrði 8,1%. Í fyrri tillögunni var gert ráð fyrir að 39,2% af kröfum yrði breytt í stofnfé, 57,6% yrði skuldbreytt, 3,2% krafna yrðu greiddar og öllum víkjandi lánum breytt í stofnfé. Í þeirri seinni var gert ráð fyrir að Nýi Kaupþing banki breytti 56% af kröfum sínum í stofnfé, en aðrir kröfuhafar breyttu 80% krafna í víkjandi lán, 16,8% yrði skuldbreytt og 3,2% krafna greiddar. Öllum útistandandi víkjandi lánum 31. desember 2008 yrði síðan breytt í stofnfé.221

Nokkru síðar, eða 24. febrúar 2009, greindi sparisjóðsstjóri Fjármálaeftirlitinu frá þriðju hugmyndinni um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins, en sú hafði komið frá Bayern LB. Hugmyndin fól í sér að Nýi Kaupþing banki breytti kröfum sínum í stofnfé og aðrir lánveitendur veittu vaxtalaus lán, en „núvirtur vaxtaafsláttur [yrði] eignfærður sem ívilnun“. Nýja Kaupþingi banka leist síst á þessa leið því að hún fæli í sér tilteknar bókhaldsæfingar, einnig ættu bæði endurskoðendur og Fjármálaeftirlitið eftir að samþykkja hana. Fram kom að erlendir lánardrottnar væru „að bíða eftir einhverju nýju útspili varðandi heildarlausn fyrir sparisjóðina“ og að svo virtist sem þeir hefðu fengið skilaboð um að slíkt væri í farvatninu. Sparisjóðsstjóri taldi ferlið að einhverju leyti ráðast af aðgerðum stjórnvalda. Ef þau hefðu gefið erlendum lánardrottnum von um að þau kæmu að lausnum á vanda sparisjóðanna myndi lítið gerast fyrr en þær lausnir litu dagsins ljós. Þá virtust lánardrottnar óttast að lausn á málefnum einnar fjármálastofnunar yrðu notaðar sem fordæmi fyrir lausn á málum annarra.222

Hinn 26. febrúar 2009 óskaði sparisjóðurinn eftir áframhaldandi fresti til að bæta eigið fé sparisjóðsins á grundvelli framlengingar kyrrstöðusamnings. Gert var ráð fyrir að framlenging samningsins gilti til 1. apríl 2009, og var óskað eftir fresti til sama dags frá Fjármálaeftirlitinu. Erlendir lánardrottnar hefðu óskað eftir fundi með fulltrúum ríkisins til að ræða og fá skýr svör um aðkomu þess að málefnum sparisjóðanna. Í kjölfarið yrði hægt að ljúka samningum við einstaka sjóði, en gert var ráð fyrir fundinum í fyrri hluta marsmánuðar.223 Hinn 2. mars 2009 veitti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum aukinn frest til 1. apríl 2009 til að koma eiginfjárhlutfalli sínu yfir lögboðið horf.224

Fjármálaeftirlitið tók yfir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. 21. mars 2009, og 26. mars höfðu stærstu innlendu lánardrottnarnir og allir hinir erlendu nema einn samþykkt tillögu Sparisjóðs Mýrasýslu að fjárhagslegri endurskipulagningu.225 Jafngilti það um 83,4% kröfuhafa sjóðsins. Samkvæmt tillögunni skyldi 43,7% krafna breytt í stofnfé, 3,1% krafna skyldi greitt með peningum, 53,2% með skuldabréfi, en víkjandi lánum skyldi breytt í stofnfé. Gert var ráð fyrir að sjóðnum yrði breytt í hlutafélag og hann síðan sameinaður Nýja Kaupþingi banka hf. Hins vegar lá fyrir að einn erlendu lánardrottnanna hefði ekki samþykkt tillöguna, auk þess sem ekki hefði verið leitað eftir afstöðu allra sem áttu skráð skuldabréf. Því var ljóst að torsótt yrði að ná samþykki allra kröfuhafa eins og „frjálsir nauðasamningar“ krefðust. Taldi stjórn sparisjóðsins þann kost einan í stöðunni að reyna formlega nauðasamninga í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þá líklega að undangenginni greiðslustöðvun. Óvarlegt eða jafnvel ógerlegt væri að gera ráð fyrir því að sparisjóðurinn gæti stundað viðskiptabankastarfsemi meðan hann væri í greiðslustöðvun eða í formlegu nauðsamningsferli. Hinn 1. apríl 2009 lauk gildistíma kyrrstöðusamningsins, og frá þeim degi naut sparisjóðurinn ekki verndar gegn aðgerðum stærstu lánardrottna hans.226

Þar sem yfirgnæfandi meirihluti kröfuhafa sparisjóðsins hafði lýst sig fylgjandi áformum um sameiningu sparisjóðsins og Nýja Kaupþings banka, sem og fyrirliggjandi tillögu um uppgjör á kröfum, gerðu sparisjóðurinn og bankinn með sér kaupsamning 3. apríl 2009. Samningurinn fól í sér að bankinn keypti rekstur og eignir sparisjóðsins, ásamt því að yfirtaka veð- og forgangskröfur, sbr. 111. og 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.227

20.6.4 Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins

Meginforsenda þess að hægt yrði að efna kaupsamninginn af hálfu sparisjóðsins var að Fjármálaeftirlitið féllist á að beita heimildum 3. mgr. 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Það fól í sér að Fjármálaeftirlitið yfirtæki vald stofnfjáreigendafundar og tæki ákvörðun um að framselja frá sparisjóðnum til bankans þau réttindi og þær eignir sem samningurinn kvæði á um. Fór stjórn sparisjóðsins þessa á leit við Fjármálaeftirlitið 3. apríl 2009.228

Fjármálaeftirlitið varð við beiðni sparisjóðsins sama dag og rökstuddi ákvörðun sína með því að eigið fé sparisjóðs væri neikvætt og ólíklegt að hann gæti greitt gjaldfallnar skuldbindingar sínar þar sem samkomulag við kröfuhafa hefði ekki verið framlengt. Óviðunandi lausafjárstaða og verulega neikvæð eiginfjárstaða sparisjóðsins fæli í sér knýjandi aðstæður í skilningi laganna. Því taldi Fjármálaeftirlitið að hagsmunum viðskiptamanna, kröfuhafa og allra annarra hlutaðeigandi aðila væri best gætt með þeirri ráðstöfun sem kaupsamningurinn fól í sér.

Kaupverð samkvæmt kaupsamningi tók mið af því hvort sparisjóðnum tækist að ná nauðasamningum við kröfuhafa sína. Tækjust nauðasamningar skyldi kaupverðið greiðast með þeim hætti að bankinn yfirtæki veðkröfur og aðrar kröfur sem nytu tryggingaréttinga sem og forgangskröfur, sbr. 111. og 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti, auk yfirtöku almennra og víkjandi krafna. Almennar og víkjandi kröfur skyldu greiddar eins og tillaga sparisjóðsins hafði gert ráð fyrir, að því undanskildu að hlutafé í bankanum kæmi í stað stofnfjár í sparisjóðnum. Fyrir hverja milljón krafna, almennra og víkjandi, kæmu hlutabréf í bankanum að nafnverði 136.782 krónur. Tækjust nauðasamningar hins vegar ekki og bú sparisjóðsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta myndi bankinn eftir sem áður yfirtaka framangreindar veð- og forgangskröfur. Kaupverðið myndi hins vegar lækka að því leyti að sá hluti kaupverðs, sem greiða átti með afhendingu á hlutafé í bankanum, félli niður að öllu leyti og almennar kröfur yrðu aðeins greiddar að hluta. Endanlegt kaupverð myndi því ráðast af fjárhæð yfirtekinna skulda og þeirra greiðslna sem bankinn þyrfti að inna af hendi hvort sem nauðasamningar tækjust eður ei. Kaupverðið skyldi gert upp í síðasta lagi 31. desember 2009. Enn fremur sagði í kaupsamningunum að eftir afhendingu skyldi bankinn efna skilyrtan kaupsamning frá 7. nóvember 2008 við Borgarbyggð um kaup á öllu stofnfé í sparisjóðnum. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins fólst því jafnframt samþykki þess fyrir eignarhaldi bankans á öllu stofnfé í sparisjóðnum.

Í kjölfar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sótti sparisjóðurinn um heimild til greiðslustöðvunar, og var umsóknin samþykkt 27. apríl 2009. Hinn 30. september 2009 sótti sparisjóðurinn um heimild til að leita nauðasamninga í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti,229 og á fundi 20. nóvember sama ár voru greidd atkvæði um frumvarp til nauðasamninga fyrir sparisjóðinn. Niðurstaðan varð sú að 90% kröfuhafa, sem jafngilti 73% af fjárhæð lýstra krafna, samþykktu. Engin atkvæði voru greidd gegn samningnum. Greiðsluhlutfall samkvæmt nauðasamningnum nam 67,6% almennra krafna.230 Með úrskurði héraðsdóms Vesturlands 15. desember 2009 var nauðasamningur á grundvelli frumvarpsins staðfestur. Honum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.231

20.8 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hefðu verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Mýrasýslu. Áhersla er lögð á skoðun tímabilsins 2005–2008.

20.8.1 Innri endurskoðun

Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá rekstri eigin innri endurskoðunardeildar í kjölfar samnings sparisjóðsins við KPMG endurskoðun hf. um innri endurskoðun árið 2004. Árið 2006 sagði sparisjóðurinn upp samningnum við KPMG og setti á fót eigin innri endurskoðunardeild. Sú deild annaðist einnig innri endurskoðun dótturfélaganna, Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Sparisjóðs Siglufjarðar frá árinu 2006 og Reykjavík Capital hf. frá árinu 2008. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrum sparisjóðsstjóri að ástæðan fyrir því að ákveðið hafi verið að hafa innri endurskoðanda innanborðs en nýta ekki þjónustu KPMG hefði verið sú að talið hefði verið að það yrði í betri höndum að hafa aðgang að innri endurskoðun „innanhúss“ og taldi hann það betra fyrir stofnunina.232

Í 16. gr. starfsreglna stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu sagði að endurskoðunardeild skyldi annast innri endurskoðun sparisjóðsins. Stjórn sparisjóðsins skyldi ráða forstöðumann endurskoðunardeildar sem færi með innri endurskoðun í umboði stjórnar og tryggja sjálfstæði hans í starfi. Þá skyldi stjórn sparisjóðsins samþykkja starfsreglur innri endurskoðanda. Innri endurskoðun heyrði beint undir stjórn sparisjóðsins og var sett sem sérstakt svið í skipurit frá árinu 2003 þótt innri endurskoðun hefði verið útvistað fram til ársins 2006.233

Hlutverk innri endurskoðanda var ekki skilgreint hjá Sparisjóði Mýrasýslu, en þegar Sonja Kristín Jakobsdóttir var ráðin sem forstöðumaður innri endurskoðunar sumarið 2006 átti hún frumkvæði að því að gera drög að erindisbréfi þar sem umgjörð innri endurskoðunar var skilgreind. Ekki var gengið formlega frá því.234 Ekki fundust umræður um erindisbréf eða skráning í fundargerð um að það hefði verið afgreitt af stjórn.

Á fundi stjórnar sparisjóðsins 10. október 2007 var bókað að innri endurskoðandi hefði sagt starfi sínu lausu, og var stjórnarformanni og sparisjóðsstjóra falið að finna nýjan innri endurskoðanda. Ekki er að finna í gögnum stjórnar að ráðning nýs innri endurskoðanda hafi komið á dagskrá stjórnar, en sparisjóðsstjóri réð nýja manneskju til starfa. Rósa Jennadóttir, sem tók við starfi forstöðumanns innri endurskoðunar, leit á sparisjóðsstjóra sem næsta yfirmann sinn, en ekki stjórn og hafði lítil samskipti við hana.235 Fram kom í skýrslu Rósu fyrir rannsóknarnefndinni að hún myndi ekki til þess að gert hefði verið erindisbréf vegna starfa hennar þegar hún tók við starfinu í árslok 2007.236 Fjármálaeftirlitið kallaði eftir starfsreglum innri endurskoðunar í tengslum við úttekt á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti sumarið 2008, en vísað var til þeirra í starfsreglum stjórnar sparisjóðsins. Reglurnar bárust ekki Fjármálaeftirlitinu, og leit það svo á að þessar reglur væru ekki til.237

Í fyrstu var talið að starf forstöðumanns innri endurskoðunar yrði fullt starf, en í skýrslu Sonju fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að samhliða hefði hún sinnt öðrum störfum sem voru ekki talin raska óhæði og sjálfstæði innri endurskoðunar.238 Önnur störf sem innri endurskoðandi sinnti voru gerð heimasíðu og útgáfa tímarits hjá sparisjóðnum.239

Tjáði Sonja rannsóknarnefndinni að hún teldi að ekki hefði verið mikill skilningur á hlutverki innri endurskoðunar, hvorki á meðal starfsmanna né stjórnenda. Eftir á að hyggja hefði sá sem sinnti innri endurskoðun þurft að hafa reynslu áður en hann færi í slíkt starf. Gott væri að hafa reynslu af bankastörfum, en það væri ekki nóg. Viðkomandi þyrfti að hafa reynslu af eftirlitsstarfi og þá sérstaklega þegar hann kæmi að ómótuðu starfi.240

Í skýrslu fyrrverandi stjórnarformanns sparisjóðsins lýsti hann því að málefni innri endurskoðunar hefðu „ekki verið í lagi“. Þegar sparisjóðurinn hefði ráðið til sín starfsmann til að sinna innri endurskoðun hefði honum ekki haldist á starfsmanninum og þeim sem ráðinn var í hans stað hefði ekki auðnast á þeim tíma sem um var að ræða til að tileinka sér alla þá þekkingu sem til þurfti. Innri endurskoðun hefði því verið „eitt af því sem var í ólagi“ hjá sparisjóðnum.241

Verkefni innri endurskoðunar

Innri endurskoðun var útvistað til KPMG á árunum 2003–2006. Vinna KPMG við innri endurskoðun ársins 2003 fól í sér athugun á innra eftirliti sparisjóðsins auk úttektar á stærstu skuldurum og vanskilaaðilum sparisjóðsins. Niðurstöður KPMG sýndu að almennt kæmi innra eftirlit sparisjóðsins vel út, og væri það í samræmi við athuganir þess undanfarin ár.242 Innri endurskoðun vegna áranna 2004 og 2005 fól í sér könnun á ýmsum þáttum í innra eftirliti sparisjóðsins, hvort unnið hefði verið í samræmi við ákvarðanir stjórnar sjóðsins, hvort starfsreglur hefðu verið virtar, svo og lög og aðrar viðmiðanir. Niðurstaðan var sú að innra eftirlit sparisjóðsins kom almennt vel út og voru þær niðurstöður í samræmi við fyrri athuganir.243

Verkefni innri endurskoðunar á árunum 2006–2007 mótuðust af þeim verkefnum sem áður hafði verið sinnt af innri endurskoðun, auk þess sem forstöðumaður innri endurskoðunar, Sonja Kristín Jakobsdóttir, átti samstarf við aðra innri endurskoðendur hjá sparisjóðunum. Ekki var gerð endurskoðunaráætlun, heldur leitast við að fara yfir rekstur sparisjóðsins, innlán og útlán, skýrslur til Fjármálaeftirlitsins, eftirlit með peningaþvætti, fundargerðir og fleira. Þegar forstöðumaðurinn lét af störfum hafði hann aflað sér upplýsinga um það hvernig aðrir innri endurskoðendur sparisjóða ynnu sínar áætlanir og hafði hug á því að gera endurskoðunaráætlun byggða á áhættumati. Lítið var til af skráðum starfsreglum, verkferlum og vinnulýsingum hjá sparisjóðnum á þessum tíma, og beindi innri endurskoðun því til stjórnenda að á því yrði gerð bragarbót. Forstöðumaður innri endurskoðunar taldi að helstu áhættuþættir Sparisjóðs Mýrasýslu hefðu tengst eigin fjárfestingum og útlánum, en áherslur innri endurskoðunar voru frekar á útlán en fjárfestingar.244

Þegar hefur komið fram að Rósa Jennadóttir tók við starfi forstöðumanns innri endurskoðunar í desember 2007 og gegndi því fram undir árslok 2008. Fram kom í skýrslu hennar fyrir rannsóknarnefndinni að hún hefði ekki fengið neinn þjálfunartíma með fráfarandi forstöðumanni og hvorki hefði legið fyrir erindisbréf né önnur fyrirmæli frá stjórn um starfið. Allan starfstímann hefði hún verið að reyna að ná tökum á starfinu og leitað meðal annars til KPMG um aðstoð. Sparisjóðsstjóri og staðgengill hans neituðu þó forstöðumanninum um að kaupa aðstoð frá KPMG vegna kostnaðar.245 Mikill tími hefði farið í að lesa sér til um starfið, en sparisjóðsstjórinn hefði lagt á það áherslu að hún gæfi sér tíma til að lesa og fræðast sem mest, ná áttum og skilja út á hvað innri endurskoðun gengi. Hún taldi sig ekki hafa geta leitað til stjórnar eða sparisjóðsstjóra um verkefni innri endurskoðunar og fannst stjórnin fjarlæg.246 Forstöðumaðurinn taldi sig í upphafi hafa þann bakgrunn sem þyrfti í starfið, en eftir á að hyggja hefði svo ekki verið, ekki síst vegna þess að hún var eini starfsmaður endurskoðunardeildarinnar. Forstöðumaðurinn sinnti málum sem hann þekkti vel til úr bankanum, til dæmis hvernig væri staðið að peningaþvættismálum, en skoðaði ekki „störf stjórnar eða hvað þeir voru að gera, strákarnir á loftinu“.247

Í ársskýrslu innri endurskoðunar vegna ársins 2007 var mælt með því að skriflegum verklagsreglum yrði komið á hjá sparisjóðnum. Slíkar reglur væru hluti af innra skipulagi og tilgangur þeirra að tryggja gott vinnulag og innra eftirlit. Hafin væri vinna við gerð verklagsreglna og mikilvægt væri að halda þeirri vinnu áfram og bent hefði verið á að samkvæmt Basel II reglum bæri stjórn ábyrgð á því að ferlar og verklagsreglur væru til staðar. Þá þyrfti stjórn að setja reglur um viðskipti starfsmanna, og ljúka yrði gerð starfslýsinga og ráðningarsamninga hið fyrsta. Þetta voru að mati innri endurskoðanda mikilvægir þættir í innra eftirlitskerfi.248

Í skýrslu forstöðumannsins fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að það væri mat hennar að reglur og verkferlar hefði hvort tveggja verið fátæklegt í sparisjóðnum í samanburði við það sem hún hefði séð í störfum sínum fyrir banka, enda þótt það bankaútibú hefði verið mun minna en sparisjóðurinn. Uppfærslu innra netsins sem sparisjóðirnir héldu úti hefði ekki verið sinnt sem skyldi og það hefði því ekki verið góður grunnur til að leita í. Forstöðumaðurinn skoðaði einnig gögn um útlán í sparisjóðnum og fannst „merkilegt að sjá einmitt hvað útlán voru unnin hratt. Það var ekkert endilega verið að greiðslumeta þá, […] ég held að það hafi heyrt til tíðinda ef það voru reiknuð upp veð á fasteignum sem var verið að taka veð í. […] Ég held að það hafi ekkert verið vandað sérstaklega til svoleiðis mála hjá sparisjóðnum“.249

Forstöðumaður innri endurskoðunar skilaði árlega skýrslu um störf sín til stjórnar sparisjóðsins, auk þess sem slíkum skýrslum var skilað árlega fyrir Sparisjóð Siglufjarðar og Sparisjóð Ólafsfjarðar til stjórnar þeirra sparisjóða. Ekki komu fram sérstakar beiðnir frá stjórnunum um úttekt á einstökum verkefnum, en almennt voru lítil samskipti milli innri endurskoðunar og stjórnar.250 Taldi Sonja að samskipti við stjórnendur sparisjóðsins hefðu mátt vera meiri en þau voru og hún hefði mátt fylgjast betur með ákvörðunum stjórnenda. Í einhverjum tilvikum vissi hún ekki af tilteknum viðskiptum fyrr en eftir á, til dæmis um lán til kaupa á hlutabréfum í Sparisjóðabankanum. Einungis var um að ræða fundargerðir af stjórnarfundum, og voru þeir ekki margir á ári. Engar formlegar nefndir eða starfshópar voru starfandi hjá sparisjóðnum og þar af leiðandi engar fundargerðir. Rósa Jennadóttir, seinni forstöðumaður innri endurskoðunar, staðfesti einnig fyrir rannsóknarnefndinni að hún hefði einungis haft aðgang að fundargerðum stjórnar.251

Seinni forstöðumaður innri endurskoðunar náði ekki heilu ári í starfi og skilaði því ekki formlegum skýrslum til stjórnar á þeim tíma. Taldi hún sig upplifa áhugaleysi af hálfu stjórnenda sparisjóðsins sem meðal annars lýsti sér í því að hún fékk ekki næga aðstoð til að sinna starfinu eins og til var ætlast. Einhver skýrslugjöf átti sér þó stað til sparisjóðsstjóra og forstöðumanna, en að mestu leyti óformleg.252

Úttekt á störfum innri endurskoðunardeildar Sparisjóðs Mýrasýslu

Fjármálaeftirlitið lauk úttekt á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu 30. júlí 2008. Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd innri endurskoðunar á árinu 2008. Taldi Fjármálaeftirlitið að ekki hefði verið virk innri endurskoðun hjá sparisjóðnum frá desember 2007 þegar nýr forstöðumaður innri endurskoðunar tók til starfa. Lagði Fjármálaeftirlitið ríka áherslu á mikilvægi þess að til staðar væri virk innri endurskoðun sem kannaði innra eftirlit sparisjóðsins og hvort unnið hefði verið í samræmi við lög og reglur um starfsemina. Alvarlegar athugasemdir voru gerðar við það að engar skýrslur, úttektir eða greiningar hefðu verið gerðar frá því í desember 2007 og fram að skoðun eftirlitsins. Því hefði innri endurskoðun ekki verið sinnt að því marki sem fram kæmi í skipuriti sparisjóðsins. Athugasemdir voru gerðar við það að ekki hefðu verið gerðar starfsreglur fyrir innri endurskoðanda þótt vísað væri til þeirra í starfsreglum stjórnar og að ekki hefði verið gerð endurskoðunaráætlun fyrir árið 2008. Þá hefði innri endurskoðandi ekki farið með reglubundnum hætti yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila eins og gert var ráð fyrir í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2006. Í tilmælunum kom fram að Fjármálaeftirlitið teldi mikilvægt að fjármálafyrirtæki legðu fyrir innri endurskoðanda að fara með reglubundnum hætti yfir fyrirgreiðslu til venslaðra aðila, meðal annars með tilliti til kjara, endursamninga og stöðu.253

20.8.2 Áhættustýring

Samkvæmt 12. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 ber fjármálafyrirtækjum að upplýsa opinberlega um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu sína, en Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um slíka upplýsingagjöf. Umfjöllun um áhættustýringu sparisjóðsins kom fyrst fram í skýringum með ársreikningi vegna ársins 2007. Um sambærilegan texta er að ræða og í ársreikningum annarra sparisjóða:

Í daglegri starfsemi sinni sem fjármálafyrirtæki stendur sparisjóðurinn frammi fyrir ýmsum tegundum áhættu. Stjórnendur hans verja umtalsverðum tíma í að stjórna þessari áhættu. Eitt það mikilvægasta í skilvirkri áhættustjórnun er greining helstu áhættuþátta, mæling áhættu, viðbrögð til að takmarka áhættuna og reglubundið eftirlit með henni. […] Helstu áhættuþættir eru útlánaáhætta, lausafjáráhætta og markaðsáhætta. Í markaðsáhættu felst gjaldeyrisgengisáhætta, vaxtaáhætta og verðáhætta.254

Stefna sparisjóðsins var að sífellt skyldi fylgst með og reynt að stjórna helstu áhættuþáttum sem gætu haft áhrif á afkomu og eigið fé sparisjóðsins. Skyldi áhættustýring sinna þessu hlutverki.255 Stjórn sparisjóðsins samþykkti reglur um áhættustýringu 9. nóvember 2005. Síðar samdi áhættustýringarnefnd nýjar reglur um áhættustýringu, samþykktar af stjórn sparisjóðsins 10. júní 2008. Samkvæmt 3. gr. reglnanna256 bar stjórn sparisjóðsins ábyrgð gagnvart stofnfjáraðilum á því að reglum um áhættustýringu væri framfylgt. Sparisjóðsstjóri bar ábyrgð á áhættustýringu sparisjóðsins gagnvart stjórn og gat sett nánari reglur um hana, auk þess sem hann átti að skilgreina áhættuviðmið eftir því sem þörf væri talin á. Forstöðumenn einstakra deilda eða framkvæmdastjórar dótturfélaga báru hver um sig ábyrgð gagnvart sparisjóðsstjóra á stýringu á áhættuþáttum sem að þeim sneru. Í því fólst að framfylgja reglum um áhættustýringu og öðrum reglum og viðmiðum um áhættustýringu sem kynnu að verða settar.

Það var markmið eða tilgangur áhættustýringar, samkvæmt 2. gr. reglna sparisjóðsins um áhættustýringu, að finna ásættanlegt jafnvægi milli þeirrar áhættu, sem óhjákvæmilega fólst í starfsemi hans og gæti leitt til tekjutaps eða rýrnunar eigna, og hámörkunar á tekjum hans. Í 2. grein reglnanna sagði jafnframt: „Að því skal stefnt að árlegt framlag á afskriftareikning útlána sé að jafnaði innan við 1% af útlánum og ábyrgðum.“ Eitt helsta verkefni sparisjóðsins var talið vera áhættumat ásamt aðgerðum sem beindust að því að takmarka áhættuna með skynsamlegri dreifingu útlána og fjárfestingum í öðrum eignum. Í ársreikningi 2007 sagði að verið væri að byggja upp virka áhættustýringu innan sparisjóðsins, og var sami texti í árshlutareikningi sparisjóðsins 31. mars 2008.

Í ársreikningi 2007 kom fyrst fram að í sparisjóðnum væri starfandi áhættustýringardeild sem greindi helstu áhættuþætti sem fylgdu starfsemi sparisjóðsins, innleiddi aðferðir til að fylgjast með þeim, mat þá reglulega, hélt við eftirliti og reglum til að halda viðkomandi áhættuþáttum innan skilgreindra viðmiða. Forstöðumaður fyrirtækjasviðs annaðist framkvæmd áhættustýringar í umboði sparisjóðsstjóra.257 Jafnframt sagði að í þeirri uppbyggingu áhættustýringardeildar sem stæði yfir yrði sjálfstæði deildarinnar aukið. Áhættustýring veitti stjórn og áhættustýringarnefnd upplýsingar um stöðu helstu áhættuþátta, meðal annars með tilliti til áhættuviðmiða, þannig að yfirstjórn sparisjóðsins væri hverju sinni meðvituð um helstu áhættur og gæti brugðist við þeim, væri ástæða til.258 Samkvæmt innri matsskýrslu sparisjóðsins var auglýst starf við áhættustýringu í byrjun árs 2008, en auglýsingin skilaði ekki tilætluðum árangri.259

Samkvæmt 3. gr. reglna sparisjóðsins um áhættustýringu bar sparisjóðnum að hafa áhættustýringarnefnd sem skipuð væri sparisjóðsstjóra og forstöðumönnum sparisjóðsins. Nefndin var ráðgefandi, en hafði ekki ákvörðunarvald. Fundir skyldu haldnir mánaðarlega og þar fjallað almennt um áhættustýringu sparisjóðsins og reglur og viðmið á því sviði, virkni áhættustýringar og stöðu sparisjóðsins gagnvart áhættuviðmiðum. Þá skyldi nefndin einnig fjalla um fjármögnun sparisjóðsins og fjárstýringu, auk þess að fjalla almennt um rekstraráhættu. Nefndin skyldi sjá um að safna saman skýrslum sem sýndu stöðu sparisjóðsins gagnvart áhættuviðmiðum og annast frekari úrvinnslu upplýsinga á grundvelli skýrslnanna. Nefndarmenn skyldu hafa beinan aðgang að nauðsynlegum gögnum svo að þeir gætu kannað áreiðanleika upplýsinga og framkvæmt sjálfstætt áhættumat. Allar upplýsingar skyldu unnar á samstæðugrundvelli.

Í skýrslum sem forstöðumenn innri endurskoðunar gáfu fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að ekki hefðu verið formleg samskipti milli innri endurskoðunar og áhættustýringar. Þá kom einnig fram að áhættustýring hefði ekki verið formlega skilgreind sem hlutverk einhvers eins starfsmanns og raunar verið í mýflugumynd í sparisjóðnum.260 Rannsóknarnefndinni bárust ekki fundargerðir áhættustýringarhóps, og ekki er að sjá að formleg skýrslugjöf hafi verið frá áhættustýringu eða áhættustýringarhópi til stjórnar sparisjóðsins. Forstöðumanni innri endurskoðunar var ekki kunnugt um að slík nefnd hefði verið starfandi og vissi ekki hverjir hefðu setið í nefndinni.261 Nýjum forstöðumanni innri endurskoðunar sem kom til starfa árið 2007 var ekki heldur kunnugt um að áhættustýringarhópur hefði starfað innan sparisjóðsins.262 Fyrrum sparisjóðsstjóri staðfesti fyrir rannsóknarnefndinni að áhættustýringarnefnd hafi ekki verið virk. Þó kveðið hafi verið á um það í reglum að áhættustýringarnefnd ætti að vera til staðar hafi reglurnar verið ætlarðar mun stærri stofnunum en Sparisjóði Mýrasýslu og að miklu leyti ekki átt við.263 Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathugun í sparisjóðnum voru gerðar töluverðar athugasemdir við áhættustýringu sparisjóðsins. Í athugasemdum sparisjóðsins við drög að skýrslunni frá í október 2008 kom fram að stjórnendum og stjórn sparisjóðsins hefði verið ljóst að ekki hefði verið nægilega vel staðið að áhættustýringu en gert væri ráð fyrir að stofna sérstaka áhættustýringarstöðu innan sparisjóðsins eins fljótt og auðið er.

Sparisjóðurinn skilaði innri matsskýrslu um eiginfjárþörf (ICAAP skýrslu) til Fjármálaeftirlitsins 13. júní 2008. Í skýrslunni var farið yfir helstu þætti um stöðu og framtíðarhorfur sparisjóðsins. Fjallað var um áhættuþætti, eiginfjárþörf, fjármögnun, áhættustýringu, stjórnun og fleira. Í skýrslunni sagði að eftirlit með áhættu og áhættustýringarferlar væru ekki nægilega mótaðir innan sparisjóðsins, en átak í þeim efnum væri í gangi þegar skýrslunni var skilað.264 Talið var að markaðsáhætta, útlánaáhætta og fjármögnunaráhætta væru stærstu áhættuþættir sparisjóðsins, en þar sem ekki væri um umfangsmikinn rekstur að ræða væru ekki til staðar sérstök kerfi eða áhættustýringarlíkön til að mæla áhættuna. Vel væri þó fylgst með stærstu þáttum og málum sem áhrif gætu haft á áhættu sparisjóðsins.265

Úttektir á áhættustýringu Sparisjóðs Mýrasýslu

Fjármálaeftirlitið lauk úttekt á útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirliti með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu 30. júlí 2008. Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við áhættustýringu sparisjóðsins, og var það mat Fjármálaeftirlitsins að áhættustýringarnefnd sinnti hvorki áhættustýringu með þeim hætti sem reglur Sparisjóðs Mýrasýslu kvæðu á um né með þeim hætti sem lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2002 um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum mæltu fyrir um.266

Bent var á að áhættustýring væri ekki sjálfstæð eining innan sparisjóðsins eins og ráða mætti af skipuriti. Ekki væri sérstakt áhættustýringarsvið, heldur væri áhættustýring í höndum áhættustýringarnefndar sem stýrt væri af forstöðumanni fyrirtækjasviðs. Að mati Fjármálaeftirlitsins væru þessi störf ósamrýmanleg með tilliti til sjálfstæðis áhættustýringar. Þá væri sparisjóðsstjóri ekki formaður nefndarinnar eins og áskilið væri í reglum um áhættustýringu. Þá var gagnrýnt að ekki væru lögð fram mánaðaryfirlit yfir áhættuþætti og áhættuviðmið fyrir áhættustýringarnefnd sem gert væri ráð fyrir í sömu reglum. Eftirliti með því að skuldbindingar væru innan marka væri ekki sinnt og ekki fylgst með stöðu áhættuskuldbindinga. Taldi Fjármálaeftirlitið að áhættustýring sparisjóðsins væri ekki virk og hvorki væru framkvæmd álagspróf á útlánasafni samstæðunnar né greining á útlánaáhættu. Hvergi væri skilgreint verklag vegna lána í tapsáhættu. Tryggingar vegna útlána hefðu ekki verið metnar og ekki væri um að ræða verklag sem bæri að fylgja ef frávik yrðu á tryggingum vegna útlána. Þá var einnig gerð sú athugasemd að áhættustýringarnefnd fundaði ekki reglulega og fundargerðir nefndarinnar væru ekki tiltækar.

Sparisjóðurinn svaraði þessum athugasemdum í bréfi 3. október 2008, en þá hafði orðið gagnger breyting á regluverki og innra eftirliti sjóðsins. Í því bréfi var vísað til þess að stjórnendum sparisjóðsins væri kunnugt um að áhættustýringu hefði verið ábótavant þegar vettvangsathugunin fór fram og reynt hefði verið að ráða starfsmann í áhættustýringu í þó nokkurn tíma, en enginn fundist sem uppfyllti skilyrði til svo sérhæfðs starfs. Stjórnin hefði hins vegar, frá því að skýrsla Fjármálaeftirlitsins var gerð, samið við Kaupþing banka um að sinna áhættustýringu sparisjóðsins þótt nánari útfærsla samstarfsins lægi ekki fyrir. Fjármálaeftirlitinu yrði tilkynnt um þær ráðstafanir síðar. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni staðfesti fyrrum stjórnarformaður sparisjóðsins að áhættustýring hefði verið lítil sem engin í sparisjóðnum.267

 


 

1 . Snorri Þorsteinsson, Sparisjóður í 90 ár: Saga Sparisjóðs Mýrasýslu 1913–2003, Borgarnesi 2003, bls. 166.

2 . Sparisjóðsaðilar voru 18 frá árinu 2007.

3 . Snorri Þorsteinsson, Sparisjóður í 90 ár: Saga Sparisjóðs Mýrasýslu 1913–2003, Borgarnesi 2003, bls. 140.

4 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Mýrasýslu, 2. mars 2007.

5 . Ársreikningur Sparisjóðs Mýrasýslu 2009.

6 . Fjallað er um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla.

7 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Mýrasýslu 2007.

8 . Samningur um starfslok og starfslokagreiðslur til sparisjóðsstjóra, samningur á milli stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu og sparisjóðsstjóra, 1. september 2008.

9 . Í viðauka C má sjá efnahagsreikninga sparisjóðsins á árunum 2001–2008 á verðlagi hvers árs og einnig á föstu verðlagi.

10 . Þetta er vegna afskrifta móðurfélags hjá dótturfélögum sínum.

11 . Sjá samantekt á áhrifum innleiðingar alþjóðlegra reikningsskilareglna (IFRS) í 8. kafla.

12 . Tölur fyrir þriðja ársfjórðung miðast við 31. október 2008.

13 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Mýrasýslu 2007.

14 . Fjármálaeftirlitið tilkynnti stjórnendum sparisjóðsins þessa alvarlegu stöðu með bréfi 18. júní 2008 og var úrbóta krafist.

15 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

16 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

17 . Bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 29. júlí 2008.

18 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndar Alþingis 6. febrúar 2014.

19 . Endurútgefin sem lög nr. 113/1996; síðar felld úr gildi við gildistöku laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

20 . Í ákvæði 2.4 í lánareglum sparisjóðsins frá 24. september 2008 kemur fram að „sparisjóðsstjóri“ hafi heimild án takmarkana, en gengið er út frá því hér að það hafi verið misritun í reglunum og að frekar hafi verið átt við lánanefnd því að ákvæðið fjallaði um heimildir lánanefndar, en ekki sparisjóðsstjóra.

21 . Nánari umfjöllun um aðferðafræði, forsendur og gögn má finna í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.

22 . Reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila, svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán, ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðra fyrirgreiðslu hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laga nr. 161/2002 og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.

23 . Hámarkið var lækkað úr 800% í 400% af eiginfjárgrunni í september 2011 með lögum nr. 119/2011 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

24 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

25 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

26 . Grísagarður ehf. var úrskurðað gjaldþrota 22. október 2010.

27 . Sola Capital ehf. var úrskurðað gjaldþrota 14. mars 2012. Hanza-eignir ehf. var úrskurðað gjaldþrota 24. október 2012, en hét þá Laugarakur ehf.

28 . Félagið var upphaflega stofnað árið 1998 undir nafninu AB-Mjöl ehf. og rak kjötmjölsverksmiðju og framleiddi fóður. Á árinu 2003 var nafni félagsins breytt í AB-fjárfestingar ehf. og tilgangur þess breyttist í eignarhaldsfélag um hlutabréf og fasteignir. Félagið var frá upphafi í eigu Kaupfélags Borgfirðinga, en í lok árs 2008 var það komið í helmingseigu Sparisjóðs Mýrasýslu og Kaupfélags Borgfirðinga. AB-fjárfestingar ehf. var úrskurðað gjaldþrota í mars 2012.

29 . Formhús ehf. var úrskurðað gjaldþrota 21. desember 2011, en hét þá KK105 ehf.

30 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Mýrasýslu 2008.

31 . Skýrsla um eigið fé Sparisjóðs Mýrasýslu, 31. mars 2008.

32 . Um aðdraganda sölu hlutafjár í bankanum er fjallað í 31. kafla skýrslunnar og ítarlega er gerð grein fyrir lánveitingum í tengslum við hana í 9. kafla.

33 . Sbr. skýrslur um stórar áhættuskuldbindingar til Fjármálaeftirlitsins, sbr. reglur nr. 216/2007.

34 . Skuldbindingar fjáfestingarfélagsins við sparisjóðinn voru óverulegar.

35 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

36 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

37 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

38 . Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvert áætlað markaðsvirði bréfanna var á þeim tíma.

39 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

40 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Mýrasýslu 2006, 20. desember 2006.

41 . Félagið hét Löðmundarhóll ehf. og var stofnað í janúar 2007. Nafninu var breytt í Sigurplast ehf. í júlí sama ár.

42 . Vesturland hf. var í eigu Sparisjóðs Mýrasýslu og Kaupfélags Borgfirðinga.

43 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 7. nóvember 2013 sagði Bernhard Þór Bernhardsson að hann hefði sagt sig úr stjórn félagsins árið 2008 þegar hann tók við sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu.

44 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

45 . Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2013 í máli nr. S-20/2013.

46 . Samkvæmt skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar í árslok 2008 var miðað við að eiginfjárgrunnur sjóðsins væri 1,5 milljarðar króna, en í raun var hann neikvæður um yfir 15 milljarða króna samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 og hlutfallið því í raun neikvætt.

47 . Síðar leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2010 um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, endurskoðun á leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2006.

48 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

49 . Bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 29. júlí 2008.

50 . Miðað var við 20% lágmarks eignarhlut.

51 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

52 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

53 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

54 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Mýrasýslu, 2. mars 2007.

55 . Skýrsla Bernhards Þórs Bernhardssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. ágúst 2013.

56 . Skýrsla Bernhards Þórs Bernhardssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. júlí 2012; skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

57 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

58 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

59 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

60 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

61 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

62 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

63 . Rétt er að benda á að ávöxtun er hér reiknuð sem hlutfall af meðalstöðu eigna. Þegar tap verður á eignum, eins og varð 2008 og 2009, verður ávöxtun neikvæð. Í einhverjum tilvikum verður hún neikvæð um meira en 100% vegna þess að tapi er deilt í meðalstöðu eigna. Ekki ætti að vera hægt að tapa meiru en fjárfest hefur verið fyrir (að því gefnu að engir framvirkir samningar séu til staðar), en með þeirri aðferð sem notuð er hér við að reikna ávöxtun getur hún birst með þessum hætti. Hér er því ekki verið að halda því fram að sparisjóðurinn hafi tapað meiru en hann átti í fjáreignum.

64 . Skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Mýrasýslu 2003.

65 . Ávöxtun fjáreigna í eigu Sparisjóðs Mýrasýslu var 13,4%, en meðalávöxtunarkrafa ríkisbréfa í flokki RB 13 0517 það árið var 7,55%.

66 . OMXI15-úrvalsvísitalan.

67 . Gögn fengin frá Kauphöllinni.

68 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

69 . Skýrsla Bernhards Þórs Bernhardssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. ágúst 2013.

70 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

71 . Umfjöllun um Exista hf. og Kistu – fjárfestingarfélag ehf. má finna í 10. kafla.

72 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

73 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

74 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

75 . Skýrsla Bernhards Þórs Bernhardssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. ágúst 2013.

76 . Skýrsla Bernhards Þórs Bernhardssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. ágúst 2013.

77 . Í 10. kafla er nánar fjallað um Kistu – fjárfestingarfélag ehf.

78 . Sparisjóður Mýrasýslu og aðrir hluthafar Kistu – fjárfestingarfélags ehf. tóku á sig hluta skulda félagsins.

79 . Hér er gert ráð fyrir 250 milljónum króna vegna ábyrgðar til Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka hf. ásamt þeim hlutafjáraukningum sem fram fóru á árinu.

80 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

81 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 3. september 2012.

82 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

83 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

84 . Ítarlega er fjallað um áhrif fjárfestinga í fjármálafyrirtækjum, eignarhaldsfélög utan um eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og frádrátt frá eiginfjárgrunni í 10. kafla.

85 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

86 . Ekki kemur fram í stjórnarfundargerðum sparisjóðsins að hann hafi farið fram úr þessum reglum. Hins vegar má benda á að bókfærð eign sparisjóðsins í Exista hf. var önnur en reiknað markaðsvirði þó að eignin væri færð á gangvirði í ársreikningi. Því er með öllu óljóst hvernig áhætta vegna eignarinnar var metin.

87 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra. Hér er einnig tekið mið af athugasemdum Gísla Kjartanssonar til rannsóknarnefndarinnar 8. nóvember 2013.

88 . Þetta heiti kemur fram í kynningunni sem lögð var fyrir stjórnarfundinn, en ekkert félag bar þetta nafn. Annað félag hét Verðbréfaþjónusta sparisjóðanna hf. og getur verið að átt hafi verið við það.

89 . Um aðdraganda þessara viðskipta er fjallað í 31. kafla, um Sparisjóðabanka Íslands hf., en um lán til kaupanna er fjallað í sérstökum kafla um hluthafalánin, sjá 9. kafla.

90 . Um var að ræða 34 milljónir hluta á genginu 28,055.

91 . Um var að ræða 46 milljónir hluta á genginu 28,055.

92 . Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu gerðu samning um kaup- og sölurétt á 45,6 milljónum hluta í Sparisjóðabankanum af Byr sparisjóði og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (samtals 91,2 milljónir hluta). Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu áttu kauprétt gagnvart hinum tveimur, en Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis áttu sölurétt gagnvart Sparisjóðnum í Keflavík og Sparisjóði Mýrasýslu. Kæmi til þess að kaup- eða söluréttur yrði nýttur áttu Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu kaup- og sölurétt gagnvart þeim sem keyptu hluti í Sparisjóðabankanum haustið 2007. Samningurinn var undirritaður 9. október 2007 og gilti í 12 mánuði.

93 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

94 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

95 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

96 . Til að mynda gerði Sparisjóðabankinn söluréttarsamning við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóð um sölu á hlutabréfum í Exista hf. til þess að tryggja tiltekið verðmæti bréfa í félaginu í eigu Sparisjóðabankans. Þetta var gert til þess að fjárfesting nýju eigendanna í Sparisjóðabankanum rýrnaði ekki um of, sbr. umfjöllun í 9. kafla.

97 . Skýrsla um eigið fé Sparisjóðs Mýrasýslu, 31. mars 2008.

98 . Tölvuskeyti Bernhards Þórs Bernhardssonar til rannsóknarnefndarinnar 16. október 2013.

99 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

100 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

101 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 24. febrúar 2006.

102 . Sbr. 3. gr. samþykkta Lónakots ehf. frá 31. mars 2006.

103 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

104 . Í ársreikningi 2007 er vísað til heimildar í 31. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga hvað varðar þetta sérstaka endurmat, en samkvæmt henni er heimilt að hækka bókfært verð fastafjármuna, annarra en þeirra sem um getur í 36. og 39. gr. sömu laga, ef markaðsverð þeirra er talið verulega hærra en bókfært verð af ástæðum sem taldar eru varanlegar.

105 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 17. desember 2008.

106 . Vefsíða Menntaskóla Borgarfjarðar, http://www.menntaborg.is/skolinn.

107 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 21. maí 2008.

108 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 24. september 2008.

109 . Sjá meðal annars fundargerð stjórnar sparisjóðsins frá 20. júlí 2007.

110 . Samkvæmt gögnum frá Landsbankanum hf. um kaup í stofnfjárútboðum Sparisjóðs Vestfirðinga.

111 . Samrunaáætlun Sparisjóðsins í Keflavík, Sparisjóðs Vestfirðinga og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, 11. september 2007.

112 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

113 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

114 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 13. ágúst 2003.

115 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 24. september 2003.

116 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 5. nóvember 2003.

117 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni 21. maí 2013 sagði Gísli Kjartansson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri: „Ég held að þeir hafi byggt þetta miklu ódýrara en við hefðum nokkurn tímann gert.“

118 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Mýrasýslu, 4. apríl 2008.

119 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Mýrasýslu 2006, 20. desember 2006.

120 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

121 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

122 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

123 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Mýrasýslu, 4. apríl 2008.

124 . Samþykktir SPM ehf., 12. maí 2004.

125 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

126 . Skýrsla Bernhards Þórs Bernhardssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. ágúst 2013.

127 . Ársreikningur NordVest verðbréfa hf. fyrir árið 2007.

128 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 31. janúar 2008.

129 . Skýrsla Bernhards Þórs Bernhardssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. ágúst 2013. Þess má geta að MP Fjárfestingarbanki hf. keypti nb.is-sparisjóð hf. af Dróma hf. í mars 2009 og varð þá að MP Banka hf.

130 . Tindar verðbréf ehf. varð síðar Eignarhaldsfélagið Tindar ehf. og Reykjavík Capital hf. fékk nafnið Tindar verðbréf ehf.

131 . Ársreikningur Premium Kredit hf. fyrir árið 2006.

132 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Mýrasýslu 2007.

133 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013; skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

134 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Mýrasýslu, ræða stjórnarformanns, 24. febrúar 2006.

135 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

136 . Í ársreikningi Háskólans á Bifröst fyrir skólaárið 2004–2005 segir undir fyrirsögninni Nemendagarðar: „Á starfsárinu 2004–2005 var byggt nýtt stórhýsi með aðstöðu fyrir rannsóknasetur á jarðhæð og 51 stúdíóíbúð á 2., 3. og 4. hæð ásamt þvottahúsi og geymslum í kjallara. Eigendur hússins eru tvö einkahlutafélög, Bifur ehf. sem á jarðhæðina og leigir þá aðstöðu til viðskiptaháskólans undir rannsóknarsetur og Vikrafell ehf. sem á íbúðirnar ásamt geymslum og þvottahúsi í kjallara og leigir þær til Nemendagarða viðskiptaháskólans.“

137 . Samkvæmt skýrslu Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar 12. desember 2007.

138 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

139 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

140 . Ársreikningur Borgarlands ehf. fyrir árið 2005.

141 . Samþykktir Borgarlands ehf., 4. mars 2005.

142 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað var til ríkisskattstjóra.

143 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað var til ríkisskattstjóra.

144 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað var til ríkisskattstjóra.

145 . Ársreikningur Borgarlands ehf. 2011.

146 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

147 . Yfirlit um atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.

148 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 7. janúar 2009.

149 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 7. janúar 2009.

150 . Tölvuskeyti Bernhards Þórs Bernhardssonar, fyrrum sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Mýrasýslu til rannsóknarnefndarinnar 21. ágúst 2013.

151 . Tölvuskeyti Bernhards Þórs Bernhardssonar til Raiffeisen Zentralbank 6. maí 2008.

152 . Tölvuskeyti Bernhards Þórs Bernhardssonar til Raiffeisen Zentralbank 21. september 2007; tölvuskeyti Bernhards Þórs Bernhardssonar til Raiffeisen Zentralbank 18. október 2007.

153 . Tölvuskeyti Bernhards Þórs Bernhardssonar til Raiffeisen Zentralbank 6. maí 2008.

154 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Mýrasýslu til Raiffeisen Zentralbank 9. september 2008.

155 . Sjá nánari umfjöllun um fjármögnun Íbúðalánasjóðs á útlánum sparisjóðanna í 11. kafla.

156 . Samkvæmt sundurliðun frá Sparisjóði Mýrasýslu til rannsóknarnefndarinnar.

157 . Tölvuskeyti Jóns Hauks Haukssonar til Ólafs Orrasonar 7. nóvember 2008.

158 . Skýrsla Bernhards Þórs Bernhardssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. ágúst 2013. Gögn um innlán (t.d. lausafjárskýrslur til Seðlabanka Íslands) sýna litla breytingu á innlánum frá september 2008 til mars 2009. Innlán drógust frekar saman en að aukast.

159 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

160 . Tölvuskeyti Þórbergs Guðjónssonar, starfsmanns sparisjóðsins, til Gísla Kjartanssonar sparisjóðsstjóra og Stefáns Sveinbjörnssonar forstöðumanns fyrirtækjasviðs sparisjóðsins 23. ágúst 2006.

161 . Á fundinum var þó rætt um að leggja aukið fé í Kistu með bréfum í Exista hf. og öðrum hlutabréfum sparisjóðsins.

162 . Í fundargerðinni stendur reyndar GZ bank en lánasamningar og tölvupóstar benda til þess að um sé að ræða DZ bank.

163 . Í kynningunni kom fram að Exista væri með stórt lán á gjalddaga á árinu, og að sögn Bayerische Landesbank ætlaði enginn banki að endurfjármagna lánið.

164 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 8. október 2008; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 28. október 2008.

165 . Áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Mýrasýslu (Restructuring proposal), 12. febrúar 2009.

166 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 9. mars 2005.

167 . Tölvuskeyti Kristjáns Óskarssonar, framkvæmdastjóra hjá Glitni banka, til Gísla Kjartanssonar sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Mýrasýslu 18. maí 2006.

168 . Tölvuskeyti Stefáns Sveinbjörnssonar til Jóns Halls Péturssonar 20. janúar 2006.

169 . Tölvuskeyti Stefáns Sveinbjörnssonar til Bernhards Þórs Bernhardssonar 14. maí 2008.

170 . Skýrsla Stefáns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. maí 2013.

171 . Snorri Þorsteinsson, Sparisjóður í 90 ár: Saga Sparisjóðs Mýrasýslu 1913–2003, Borgarnesi 2003.

172 . Skýrsla Bernhards Þórs Bernhardssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 16. ágúst 2013.

173 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 4. mars 2008.

174 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 23. apríl 2008.

175 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 15. ágúst 2008.

176 . Fundargerð fulltrúaráðsfundar Sparisjóðs Mýrasýslu, 15. ágúst 2008.

177 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 7. nóvember 2008.

178 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 17. desember 2008.

179 . Sparisjóður Mýrasýslu framlengir samning um kyrrstöðutímabil (standstill) við helstu lánadrottna félagsins til 1. apríl 2009, minnisblað lagt fram á stjórnarfundi sparisjóðsins 26. mars 2009.

180 . Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstafanir í samræmi við kaupsamning Sparisjóðs Mýrasýslu og Nýja Kaupþings bank hf., 3. apríl 2009. Fjallað er um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins hér aftar.

181 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.

182 . Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

183 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

184 . Sú heimild var leidd í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

185 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 15. apríl 2008; tölvuskeyti Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 4. apríl 2008.

186 . Minnisblað Fjármálaeftirlitsins: Staða Sparisjóðs Mýrasýslu frá miðju ári 2007 samkvæmt skýrslum frá þeim, bréfaskriftum, fundarhöldum o.fl., 30. júlí 2008.

187 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 4. apríl 2008; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 23. apríl 2008; minnisblað Fjármálaeftirlitsins: Staða Sparisjóðs Mýrasýslu frá miðju ári 2007 samkvæmt skýrslum frá þeim, bréfaskriftum, fundarhöldum o.fl., 30. júlí 2008.

188 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008; bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 18. júní 2008.

189 . Tölvuskeyti Stefáns Sveinbjörnssonar til Ólafs Orrasonar og Ragnars Hafliðasonar 20. júní 2008.

190 . Minnisblað Fjármálaeftirlitsins: Fundur með sparisjóðsstjóra og stjórnarformanni Sparisjóðs Mýrasýslu, 25. júní 2008.

191 . Tölvuskeyti Bernhards Þórs Bernhardssonar til Fjármálaeftirlitsins 4. júlí 2008.

192 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

193 . Viljayfirlýsing Kaupþings banka hf., Sparisjóðs Mýrasýslu og Borgarbyggðar, 31. júlí 2008.

194 . Samkomulag Kaupþings banka hf., Sparisjóðs Mýrasýslu og Borgarbyggðar.

195 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 15. ágúst 2008.

196 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Kaupþings hf. 3. október 2008; bréf Róberts B. Agnarssonar til Fjármálaeftirlitsins 10. október 2008.

197 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 16. október 2008; tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 31. október 2008.

198 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 30. október 2008.

199 . Bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 31. október 2008.

200 . Krafa Kaupþings banka hf. á Sparisjóð Mýrasýslu fluttist yfir til Nýja Kaupþings banka hf. við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á þeim fyrrnefnda.

201 . Greinargerð stjórnar um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Mýrasýslu, 31. október 2008.

202 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 3. nóvember 2008.

203 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 4. nóvember 2008.

204 . Tölvuskeyti Jóns Hauks Haukssonar hdl. til Fjámálaeftirlitsins 4. nóvember 2008.

205 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 5. nóvember 2008.

206 . Skilyrt kauptilboð í stofnfé í Sparisjóði Mýrasýslu, 6. nóvember 2008.

207 . Bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 19. nóvember 2008.

208 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 24. nóvember 2008.

209 . Skýrsla sérstaks sérfræðings, Jóns H. Haukssonar hdl., til að hafa eftirlit með Sparisjóði Mýrasýslu, 22. nóvember 2008; bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 3. apríl 2009.

210 . Tölvuskeyti Jóns H. Haukssonar til Fjármálaeftirlitsins 19. nóvember 2008.

211 . Minnisblað um Sparisjóð Mýrasýslu, 29. nóvember 2008.

212 . Skýrsla sérstaks sérfræðings, Jóns H. Haukssonar hdl., til að hafa eftirlit með Sparisjóði Mýrasýslu, 5. desember 2008; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, 3. desember 2008.

213 . Skýrsla sérstaks sérfræðings, Jóns H. Haukssonar hdl., til að hafa eftirlit með Sparisjóði Mýrasýslu, 9. desember 2008; bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 9. desember 2008.

214 . Bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 9. desember 2008.

215 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 12. desember 2008.

216 . Skýrsla sérstaks sérfræðings, Jóns H. Haukssonar hdl., til að hafa eftirlit með Sparisjóði Mýrasýslu, 19. desember 2008.

217 . Skýrsla sérstaks sérfræðings, Jóns H. Haukssonar hdl., til að hafa eftirlit með Sparisjóði Mýrasýslu, 22. janúar 2009.

218 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 26. janúar 2009.

219 . Bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 3. apríl 2009.

220 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 13. febrúar 2009.

221 . Áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Mýrasýslu (Restructuring proposal), 12. febrúar 2009.

222 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 24. febrúar 2009.

223 . Bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 26. febrúar 2009.

224 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Mýrasýslu 2. mars 2009.

225 . Í tölvuskeyti sparisjóðsstjóra til Fjármálaeftirlitsins 24. febrúar 2009 kom fram að lánardrottnar virtust hræddir við að „lenda“ einu máli því að þá væri komið fordæmi. Fimm dögum eftir yfirtöku Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. höfðu allir erlendu kröfuhafarnir utan einn samþykkt tillögu sparisjóðsins, en hafa verður í huga að að miklu leyti var um sömu erlendu kröfuhafa að ræða gagnvart Sparisjóði Mýrasýslu og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf.

226 . Bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 3. apríl 2009.

227 . Kaupsamningur Nýja Kaupþings banka hf. og Sparisjóðs Mýrasýslu, 3. apríl 2009.

228 . Bréf Sparisjóðs Mýrasýslu til Fjármálaeftirlitsins 3. apríl 2009.

229 . Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands sama dag var heimildin veitt.

230 . Fréttatilkynning á vef Kauphallarinnar, „Nauðasamningar Sparisjóðs Mýrasýslu samþykktir“, 23. nóvember 2009.

231 . Sbr. auglýsingu um lok nauðasamningsumleitana sem birt var í Lögbirtingablaðinu 30. desember 2009.

232 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

233 . Í starfsreglum stjórnar sparisjóðsins frá 2003 var kveðið á um að stjórn hans og sparisjóðsstjóri bæru ábyrgð á og ættu að stuðla að góðu viðskiptasiðferði og heilbrigðum starfsháttum innan sparisjóðsins og byggja upp jákvætt viðhorf til verkefna innri endurskoðunar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í starfsreglum stjórnar frá 2007.

234 . Skýrsla Sonju Kristínar Jakobsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

235 . Skýrsla Rósu Jennadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

236 . Skýrsla Rósu Jennadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

237 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

238 . Skýrsla Sonju Kristínar Jakobsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

239 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

240 . Skýrsla Sonju Kristínar Jakobsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

241 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

242 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Mýrasýslu 2003, 26. nóvember 2003.

243 . Skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Mýrasýslu 2004; skýrsla KPMG hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Mýrasýslu 2005, 23. febrúar 2005.

244 . Skýrsla Sonju Kristínar Jakobsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

245 . Skýrsla Rósu Jennadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

246 . Skýrsla Rósu Jennadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

247 . Skýrsla Rósu Jennadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

248 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Mýrasýslu árið 2007.

249 . Skýrsla Rósu Jennadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

250 . Skýrsla Sonju Kristínar Jakobsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

251 . Skýrsla Rósu Jennadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

252 . Skýrsla Rósu Jennadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

253 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

254 . Ársreikningur Sparisjóðs Mýrasýslu 2007; árshlutareikningur Sparisjóðs Mýrasýslu, 31. mars 2008.

255 . Ársreikningur Sparisjóðs Mýrasýslu 2007.

256 . Reglur Sparisjóðs Mýrasýslu um áhættustýringu, 9. nóvember 2005. Sambærilegt ákvæði er í reglum Sparisjóðs Mýrasýslu um áhættustýringu frá 10. júní 2008.

257 . Í skipuriti sparisjóðsins frá 2004 var tilgreint að sparisjóðsstjóri, forstöðumaður einstaklingsþjónustu og forstöðumaður fyrirtækjaþjónustu sinntu áhættustýringu. Í þeim skipuritum sem síðar komu var áhættustýring tilgreind sem sjálfstæð eining, en ekki kom fram hverjir sinntu henni.

258 . Ársreikningur Sparisjóðs Mýrasýslu 2007.

259 . Innri matsskýrsla Sparisjóðs Mýrasýslu, 13. júní 2008.

260 . Skýrsla Sonju Kristínar Jakobsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

261 . Skýrsla Sonju Kristínar Jakobsdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

262 . Skýrsla Rósu Jennadóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. september 2012.

263 . Skýrsla Gísla Kjartanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.

264 . Innri matsskýrsla Sparisjóðs Mýrasýslu, 13. júní 2008.

265 . Innri matsskýrsla Sparisjóðs Mýrasýslu, 13. júní 2008.

266 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóði Mýrasýslu, 30. júlí 2008.

267 . Skýrsla Sigurðar Más Einarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. maí 2013.