5. viðauki

Úttekt á rekstri og innra eftirliti Íbúðalánasjóðs

1. Inngangur

Í ljósi þingsályktunar Alþingis1 taldi rannsóknarnefndin ástæðu til að gera rekstrarúttekt á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Ákveðið var að hún skyldi ná til alls starfstíma sjóðsins eða frá árinu 1999 til ársloka 2011. Jafnframt var ákveðið að skoða einstök atriði sérstaklega eins og nánar er tilgreint í úttektinni.

Við úttekt á rekstrarþáttum sjóðsins var notast við gögn frá starfsmönnum sjóðsins, frá Ríkisendurskoðun og úr gagnasafni rannsóknarnefndarinnar. Einnig voru á vegum nefndarinnar unnar greiningar í Navision-fjárhagsbókhaldi sjóðsins á starfsstöð hans í Borgartúni 21. Starfsmenn sjóðsins voru mjög samvinnufúsir og fljótir til svara við framlögðum gagnabeiðnum og kann rannsóknarnefndin þeim bestu þakkir fyrir. Lesandi þarf að hafa í huga við lestur rekstrarúttektar þessarar að meira er fjallað um það sem miður fer en hitt sem vel er gert.

Í ljósi þess að skipt var um fjárhagsbókhaldskerfi í ársbyrjun 2001 ná greiningar á rekstrarþáttum ekki til áranna 1999 og 2000 og eru því fyrir árin 2001‒2011, sem hér eftir verður einnig nefnt skoðunartímabil. Það er álit nefndarinnar að það hafi ekki teljandi áhrif á upplýsingagildi þeirra greininga sem framkvæmdar voru.

Rannsóknarnefndin ákvað einnig að gera heildstæða úttekt á innra eftirliti Íbúðalánasjóðs byggða á:

  • innri endurskoðunarskýrslum Ríkisendurskoðunar vegna áranna 2005‒2011, að árinu 2008 undanskildu, og
  • endurskoðunarskýrslum KPMG vegna áranna 2000‒2011.

2. Ályktanir rannsóknarnefndarinnar

2.1 Rekstrarúttekt Íbúðalánasjóðs

Þegar litið er til almenns rekstrar Íbúðalánasjóðs á tímabilinu 2001‒2011 var jákvæð afkoma af starfsemi hans öll árin, sbr. mynd 3 sem sýnir afkomu sjóðsins fyrir virðisrýrnun og framlag í afskriftasjóð útlána. Jákvæð afkoma náðist þrátt fyrir:

  • Umtalsverðan kostnað og óhagræði vegna uppgreiðslna lántakenda sjóðsins sem greiddu upp húsnæðislán sín hjá Íbúðalánasjóði. Þessi kostnaður er að hluta kominn fram en á að hluta eftir að koma fram (sjá kafla 9.6 og 14 í skýrslu rannsóknarnefndarinnar).
  • Umtalsverðan kostnað vegna innlausnar, umsýslu, rekstrar og sölu fullnustueigna sem hafa ekki verið eins margar í eigu sjóðsins og varð eftir hrun hins íslenska bankakerfis, sbr. umfjöllun í kafla 2.5.3.
  • Viðvarandi neikvæðan vaxtamun af hluta af lánasafni sjóðsins sem skýrðist að mestu á yfirteknum lánasöfnum sem voru frá forverum Íbúðalánasjóðs sem voru Húsnæðisstofnun, Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna, sbr. umfjöllun í kafla 2.5.2.
  • Óhagstæðan vaxtamun vegna lausafjárskyldu sem hvíldi á Íbúðalánasjóði og nam um 20‒25 milljörðum króna, sbr. umfjöllun í kafla 2.5.2.
  • Umtalsverðan kostnað vegna ákvörðunar Alþingis um að Íbúðalánasjóði bæri að greiða hluta af kostnaði við embætti umboðsmanns skuldara, sem áður var Ráðgjafarstofa heimilanna, sbr. umfjöllun í kafla 2.5.3.

Þegar litið var til afkomu sjóðsins að teknu tilliti til virðisrýrnunar lánasafna og framlaga í afskriftareikning, sbr. mynd 4 þá skáru árin 2008 til og með 2010 sig algerlega úr með samanlögðu tapi að fjárhæð 47.895 milljónir króna. Þar vó þyngst virðisrýrnun lánasafna sjóðsins vegna niðurfærslu lána til einstaklinga niður í 110% af fasteignamati eða verðmati eigna, svokallaðrar 110%-leiðar, og vegna taps og niðurfærslu lána til lögaðila.

Rekstrargjöld Íbúðalánasjóðs stóðu í stað frá árinu 2001 til 2010 að teknu tilliti til verðlagsbreytinga eins og mynd 7 ber með sér. Árið 2011 hækkuðu rekstrargjöld verulega en að baki þeirri hækkun lágu eftirfarandi skýringar:

  • Kostnaður við matsgerðir vegna 110%-leiðarinnar.
  • Þóknanir vegna sölu fullnustueigna.
  • Launakostnaður vegna fjölgunar starfsmanna sem tengdust m.a. vinnu við framkvæmd úrlausna vegna skuldavandkvæða einstaklinga, þ.m.t. vegna 110%-leiðarinnar.
  • Launakostnaður vegna fjölgunar starfsmanna sem tengdust m.a. umsýslu og rekstri fullnustueigna.
  • Hlutdeild Íbúðalánasjóðs í rekstrarkostnaði embættis umboðsmanns skuldara sem ákvörðuð var af Alþingi.

Rekstrarúttektin leiddi í ljós að almennur rekstur sjóðsins var með eðlilegum hætti og án stórvægilegra rekstrarlegra vankanta, annarra en þeirra sem skýringar eru á. Þegar litið er hins vegar til annarra þátta í starfsemi Íbúðalánasjóðs, blasa við atriði sem benda til skorts á skýrri stefnu fyrir sjóðinn og skilvirkni. Í því sambandi er vísað til tíðra skipulagsbreytinga í stjórnskipulagi sjóðsins, þar sem svið voru stofnuð, sameinuð eða lögð af, sem tóku án efa allt of mikið af tíma og orku stjórnar, stjórnenda og starfsmanna, tíma sem betur hefði verið varið í skilgreiningar á sjálfum verkefnum sjóðsins, ígrundunar á mikilvægum ákvörðunum og ekki síst þeim áhættuþáttum sem að starfseminni beindust. Í því sambandi er jafnframt vísað til umfjöllunar um innra eftirlit Íbúðalánasjóðs, sjá kafla 2.6.4, og athugasemda sem komu fram í innri endurskoðunarskýrslum Ríkisendurskoðunar, sjá kafla 2.6.2.

2.2 Varðandi aðkeypta þjónustu og ferðakostnað Íbúðalánasjóðs

Rannsóknarnefndin telur verulega ámælisvert að Íbúðalánasjóður skuli hafa haft aðkeyptan verktaka í stöðu yfirmanns tveggja af sviðum sjóðsins, áhættustýringar- og fjárstýringarsviðs, í eins langan tíma og raun bar vitni eða frá nóvember 2003 til loka janúar 2006, þ.e. í rúm tvö ár. Ríkisendurskoðun kom þessari athugasemd á framfæri í sinni fyrstu innri endurskoðunarskýrslu sem dagsett er í janúar 2006 og var vegna ársins 2005. Svo virðist sem við þá athugasemd hafi stjórnendur sjóðsins breytt starfssambandinu og viðkomandi aðili varð starfsmaður og launþegi sjóðsins í viðkomandi yfirmannsstöðum.

Við skoðun á aðkeyptri þjónustu Íbúðalánasjóðs vakti athygli hve mikið var keypt af valkvæðri þjónustu, þ.e. þjónustu sem starfsmenn sjóðsins hefðu hæglega getað unnið í einhverjum tilvikum. Við mat á hverju verkefni fyrir sig þurftu stjórnendur að meta hagkvæmni þess að það væri leyst með aðkeyptum verktökum eða starfsmönnum sjóðsins. Þá skipti mestu þegar viðkomandi verkefnum var lokið að sú þekking sem kostað hafði verið til sæti eftir innan sjóðsins honum til framdráttar til framtíðar. Hin umfangsmiklu kaup sjóðsins á aðkeyptri þjónustu gefa vísbendingar um að stjórnendur sjóðsins hafi ekki byggt upp það þekkingarstig meðal starfsmanna sjóðsins sem þurfti til að leysa öll þau verkefni sem fyrir lágu í starfsemi hans.

Rannsóknarnefndin gerir ekki athugasemdir við fjárhæð ferðakostnaðar Íbúðalánasjóðs sem var óverulegur á tímabilinu 2001–2011. Hins vegar gefur lágur ferðakostnaður tilefni til að íhuga hvort stjórnendur sjóðsins hafi ekki aflað sér og starfsmönnum sjóðsins viðeigandi þekkingar á starfsemi sambærilegra eða svipaðra fasteignalánasjóða í útlöndum. Það vekur furðu þegar litið er til þess að sjóðurinn var sá eini sinnar tegundar á Íslandi.

2.3 Varðandi innra eftirlit Íbúðalánasjóðs

Eins og rakið er í köflum 2.6.1 og 2.6.2 verður vart sagt að innleiðing innra eftirlits og innri eftirlitsaðgerða hafi gengið snurðulaust hjá Íbúðalánasjóði. Í margþættum athugasemdum Ríkisendurskoðunar, innri endurskoðanda sjóðsins, kom fram gagnrýni ár eftir ár á seinagang við innleiðinguna. Á þessu gekk þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hefði ítrekað notað stór orð í athugasemdum sínum, eins og í innri endurskoðunarskýrslu vegna
ársins 2007:2

Skýrsla starfsmanna Íbúðalánasjóðs um „Innra eftirlit – Áhættugreiningu og eftirlitsaðgerðir“ hefur verið uppfærð og var hún samþykkt á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs hinn 29. desember 2006. Í inngangi hennar kemur m.a. fram að fyrstu heildarendurskoðun á áhættugreiningu sjóðsins sé lokið og hér sé um að ræða fyrsta skrefið í uppbyggingu innra eftirlits. Þá kemur fram að næstu skref séu fólgin í ákveðnum verkþáttum, svo sem skipulögð skráning verklags- og vinnureglna en sú vinna er grundvöllur fyrir innleiðingu eftirlitsþáttanna sem fram koma í skýrslunni. Innleiðingin hefur ekki gengið eftir eins og væntingar hafa staðið til þó að þessi vinna hafi þokast áfram. Ríkisendurskoðun leggur á það þunga áherslu að þessari vinnu sé lokið á þessu ári og gengið frá heildstæðu yfirliti um reglurnar. Það skal ítrekað að framkvæmdastjórar sviðanna bera ábyrgð á að innra eftirlit í starfsemi sjóðsins sé virkt. Að mati Ríkisendurskoðunar er það einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi Íbúðalánasjóðs að verklagsreglur og verkferlar séu til staðar.

Athugasemdir Ríkisendurskoðunar um innleiðingu innri eftirlitsþátta í starfseminni, gerð og skráningu verklags- og vinnureglna voru ítrekaðar á ný í innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 20103 þar sem fram kom:

Nú fimm árum seinna hefur sjóðnum ekki enn tekist að ljúka verkinu og enn á ný leggur því Ríkisendurskoðun enn og aftur áherslu á að því ljúki sem allra fyrst. Stjórnendur sjóðsins verða að taka þetta mál fastari tökum, bretta upp ermar og ljúka þessari innleiðingu hið fyrsta.

Enn og aftur voru athugasemdir Ríkisendurskoðunar um innleiðingu innri eftirlitsþátta í starfseminni, gerð og skráningu verklags- og vinnureglna ítrekaðar í innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 20114 þar sem sagði:

Ríkisendurskoðun hefur í skýrslum sínum um innri endurskoðun hjá Íbúðalánasjóði margítrekað athugasemdir sínar vegna seinagangs. Vinna við skipulagningu innra eftirlits og innleiðingu verkferla og eftirlitsaðgerða í starfsemi sjóðsins hófst með skipulögðum hætti í nóvember 2000, tæplega tveimur árum eftir stofnun sjóðsins, eða fyrir ellefu árum. Það er með ólíkindum hvað þetta hefur tekið langan tíma.

Í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 20065 komu fram skýringar á seinaganginum. Þar voru raktar helstu skýringar starfsmanna á því hvers vegna innleiðing eftirlitsaðgerða í starfsemi sjóðsins hefði ekki gengið sem skyldi. Þar komu fram eftirfarandi ástæður:

  • Árið 2004 hefði Íbúðalánasjóður gengið í gegnum umfangsmiklar skipulagsbreytingar.
  • Órói hefði verið í kringum sjóðinn á liðnum árum þar sem tekist hefði verið á um tilveru hans.
  • Óróinn hefði skapað óöryggi hjá starfsmönnum og hægt á ákvörðunartöku stjórnenda sjóðsins að einhverju marki.

Vissulega má til sanns vegar færa að umfangsmiklar skipulagsbreytingar í starfsemi sjóðsins hafi tekið drjúgan tíma starfsmanna og yfirmanna sjóðsins en bornar voru brigður á að það teldist fullnægjandi skýring þegar litið var til þess að full tvö ár voru liðin frá viðkomandi skipulagsbreytingum án þess að innleitt hefði verið svo veigamikið stjórntæki sem öflugt innra eftirlit var í starfsemi fyrirtækja og stofnana.

Þrátt fyrir óróa, sem telja verður að hafi verið viðvarandi um starfsemi Íbúðalánasjóðs allt frá stofnun, þá var það á ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjórnar að sinna í hvívetna stjórnunarskyldum sínum. Framkomin skýring að hægt hefði á ákvörðunartöku verður að teljast skýrt veikleikamerki og augljóst dæmi um skort á stefnumörkun og stefnufestu innan sjóðsins, sbr. ábendingar Ríkisendurskoðunar og seinagang stjórnenda við að innleiða skilvirka stjórnunarhætti hjá Íbúðalánasjóði.

Sérstaka athygli rannsóknarnefndarinnar vöktu athugasemdir sem komu fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um útlánaskoðun hjá Íbúðalánasjóði, sem gefin var út í desember 2008, sbr. umfjöllun í kafla 2.6.3.5.1. Upp úr stóðu eftirfarandi tvær athugasemdir:

Formlegar heildstæðar innri verklagsreglur um lánveitingar eru ekki til staðar hjá sjóðnum.
Áhættustýring vegna útlánaáhættu á sér hvergi formlegan stað innan skipulags sjóðsins.

Í þessu sambandi er vert að benda sérstaklega á að þegar Fjármálaeftirlitið vann viðkomandi útlánaúttekt á árinu 2008 hafði sjóðurinn verið starfræktur í nær 10 ár. Efni þessarar ábendingar vekur því sérstaka furðu í ljósi umfangs sjóðsins og mikilvægis viðkomandi atriða í rekstri hans. Fjallað er nánar um áhættustýringu Íbúðalánasjóðs í 11. kafla skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

2.4 Stjórnskipulag og uppgjörsmál Íbúðalánasjóðs

Á vef Íbúðalánasjóðs, ils.is, má sjá gildandi skipurit, eins og það var kynnt í október 2010, sbr mynd 1.

Á starfstíma Íbúðalánasjóðs voru gerðar breytingar á stjórnskipulagi hans þar sem rekstrareiningar voru stofnaðar, sameinaðar, þeim skipt upp eða þær lagðar niður. Á árunum 1999‒2000 voru 10 skilgreindar rekstrareiningar hjá sjóðnum. Á árunum 2001‒2004 voru þær 5, á árunum 2005‒2006 voru þær 6, á árunum 2007‒2010 voru þær 7 talsins og á árinu 2011 voru þær 8 talsins. Skipulagsbreytingarnar voru misumfangsmiklar en þær umfangsmestu tóku gildi á árinu 2001 og síðan 2011.

Við greiningu á launakostnaði Íbúðalánasjóðs var því einungis litið til heildarlaunakostnaðar sjóðsins en ekki launakostnaðar eftir einstökum sviðum, sbr. umfjöllun í kafla 2.5.3, þar sem skipulagsbreytingar gerðu samanburð ómarktækan. Það staðfesta töflur sem finna má á öftustu síðum viðaukans, annars vegar tafla 9 sem sýnir launakostnað eftir sviðum sjóðsins á verðlagi ársins 2011 og hins vegar tafla 8 á verðlagi hvers árs. Fjallað er nánar um stjórnskipulag Íbúðalánasjóðs í kafla 6.

2.4.1 Ársuppgjör Íbúðalánasjóðs

Endurskoðað ársuppgjör var að jafnaði kynnt af ytri endurskoðendum sjóðsins á stjórnarfundum og lagt fram til samþykktar að lokinni umræðu. Fyrir lágu ársreikningar Íbúðalánasjóðs, sem jafnframt er að finna á vef sjóðsins ils.is:

  1. Ársskýrsla 1999 til 2001.
  2. Ársskýrsla 2003 með samanburði við árið 2002.
  3. Ársskýrsla 2004 til 2005.
  4. Ársskýrsla 2006.
  5. Ársskýrsla 2007.
  6. Ársskýrsla 2008.
  7. Ársskýrsla 2009.
  8. Ársreikningur 2010.
  9. Ársreikningur 2011.

Tafla 4 sýnir rekstrarreikninga Íbúðalánasjóðs 1999‒2011 og tafla 5 sýnir efnahagsreikninga Íbúðalánasjóðs 1999‒2011.

2.4.1.1 Breyting á reikningsskilaaðferðum árið 2002

Sjóðurinn hætti að beita verðleiðréttingum í ársreikningi 2002 og var það gert í samræmi við lög sem samþykkt voru á Alþingi í lok árs 2001. Breyting þessi á reikningsskilaaðferðum tók gildi 1. janúar 2002 og hafði áhrif á eftirfarandi liði í reikningsskilum sjóðsins:

  1. Rekstrarfjármunir sem áður voru endurmetnir miðað við breytingu á neysluverðsvísitölu, voru frá og með 1. janúar 2002 færðir á kostnaðarverði.
  2. Afskriftir sem áður voru reiknaðar sem hlutfall af framreiknuðu kostnaðarverði voru frá og með 1. janúar 2002 reiknaðar af kostnaðarverði.
  3. Hætt var að reikna gjöld vegna verðlagsbreytinga í rekstrarreikningi sjóðsins frá og með 1. janúar 2002.

Áhrif þessa á rekstrar- og efnahagsreikning ársins 2002 voru þau að niðurstaða rekstrarins var ekki á meðalverðlagi ársins og framangreindar eignir voru ekki færðar á verðlagi í lok ársins eins og áður var. Ef sömu reikningsskilaaðferðum hefði verið beitt á árinu 2002 eins og árið áður hefði hagnaður ársins orðið 220 milljónum króna lægri.

Í samræmi við alþjóðlegar reglur um breytingar úr verðleiðréttum reikningsskilum í óverðleiðrétt varð bókfært verð rekstrarfjármuna í árslok 2001 talið kostnaðarverð framangreindra eigna þann 1. janúar 2002. Við samanburð á rekstrarniðurstöðu milli ára þurfti fyrst og fremst að líta til áhrifa af reiknuðum gjöldum vegna verðlagsbreytinga. Áhrif breytinganna á aðra liði, svo sem afskriftir, höfðu ekki afgerandi áhrif á samanburðinn.

2.4.1.2 Breyting á reikningsskilaaðferðum árið 2007

Ársreikningur Íbúðalánasjóðs fyrir árið 20076 var gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (e. International Financial Reporting Standards – IFRS). Áður voru reikningsskil sjóðsins gerð í samræmi við lög um ársreikninga og reglur um reikningsskil lánastofnana. Ársreikningur samanburðarársins 2006 var endurgerður til samræmis við hinar nýju reikningsskilareglur.

Innleiðing alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna hafði áhrif á eigið fé Íbúðalánasjóðs þannig að það hækkaði um 1.286 milljónir króna. Annars vegar um 984 milljónir vegna hækkunar á innleiðingardegi þann 1. janúar 2006 vegna uppreiknings í samræmi við breyttar reikningsskilareglur og hins vegar um 302 milljónir vegna breytinga á afkomu ársins 2006.

Samantekt vegna upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla:

  1. Lækkun eigin fjár um 1.902 milljónir króna vegna breytinga á meðferð lántökugjalda.
  2. Hækkun eigin fjár um 3.193 milljónir króna vegna breytinga á meðferð afskriftareiknings vegna útlána.
  3. Lækkun eigin fjár um 5 milljónir króna vegna annarra ótilgreindra liða.
  4. Engin breyting varð á eigin fé vegna jöfnunar á mati eigna og skuldbindinga sem voru beint tengdar afleiðusamningum.

Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar gerðu mun meiri kröfur um upplýsingagjöf en lög um ársreikninga auk þess sem reikningshaldsleg meðhöndlun ýmissa liða var önnur samkvæmt alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum. Því var um að ræða umtalsverða breytingu á framsetningu reikningsskila sjóðsins eins og rakið var í viðkomandi ársreikningi hans.

Eftirfarandi voru helstu breytingar sem raktar voru í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 20077 en innleiðingin hafði óveruleg áhrif á aðra liði í reikningsskilum Íbúðalánasjóðs:

2.4.1.2.1 Lántökugjöld

Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum voru lántökugjöld hluti af vöxtum, hvort sem var af lánveitingum eða eigin lántökum. Því var óheimilt að tekju- eða gjaldfæra lántökugjöld þegar þau féllu til, heldur skyldi taka tillit til þeirra við útreikning á virkum vöxtum af viðkomandi fjáreign eða fjárskuld. Lántökugjöldum, hvort sem var vegna fjáreigna eða fjárskulda, bar að dreifa á líftíma viðkomandi skuldbindinga.

Upptaka alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna í ársbyrjun 2007 hafði því í för með sér tímabundinn mismun þar sem lántökugjöld vegna lánveitinga sjóðsins voru tekjufærð á líftíma viðkomandi lánveitinga og lántökugjöld vegna lántöku voru gjaldfærð á líftíma viðkomandi skuldbindinga. Lántökugjöld vegna lána sem veitt voru fyrir 1. janúar 1999 voru ekki bakfærð og voru viðkomandi eignir og skuldir sjóðsins eftir sem áður núvirtar miðað við 4,02% vexti. Áhrif þessarar breytingar voru að eigið fé lækkaði um 1.902 milljónir króna.

Fyrir upptöku alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna voru lántökugjöld vegna lánveitinga tekjufærð á lánveitingardegi og lántökugjöld vegna eigin lántöku gjaldfærð á lántökudegi.

2.4.1.2.2 Virðisrýrnun útlána og krafna

Í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum var að finna ítarlegar kröfur um hvernig meta skyldi virðisrýrnun fjáreigna, svo sem útlána til íbúðaeigenda. Samkvæmt þessum kröfum þurfti að hafa átt sér stað atburður (e. loss event) eftir að lánveiting fór fram, sem leiddi til þess að væntar greiðslur yrðu lægri en gert var ráð fyrir í upphafi. Hins vegar var með öllu óheimilt að færa almenna virðisrýrnun vegna útlána sem kynnu að tapast síðar meir af völdum atburða sem ekki höfðu átt sér stað, hversu líklegir sem þeir kynnu að vera.

Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum var því eins og áður færð sérstök niðurfærsla vegna þeirra útlána sem sérstaklega höfðu verið metin í tapshættu. Síðan var færð almenn niðurfærsla vegna annarra útlána sem byggist á tapreynslu sjóðsins. Framlag í afskriftareikning útlána var fyrir upptöku alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna mun hærra en útlánatöp á undanförnum árum gáfu tilefni til. Vegna þess var staða afskriftareiknings útlána lækkuð sem leiddi af sér að eigið fé hækkaði um 3.193 milljónir króna.

2.4.1.2.3 Eignir og skuldir á gangvirði

Íbúðalánasjóður hafði gert afleiðusamninga í áhættuvarnarskyni, bæði til að tryggja jafnvægi í meðaltíma (meðallíftíma) fjáreigna og fjárskulda sem og til að verjast vaxtaáhættu. Hluti af þessum samningum var færður á kostnaðarverði hjá sjóðnum. Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum voru allir afleiðusamningar færðir á gangvirði og voru áhrif þessarar breytingar að eigið fé lækkaði um 2.214 milljónir króna.

Þær eignir og skuldir sem sjóðurinn var að verja með gerð afleiðusamninga sinna voru almennt færðar á afskrifuðu kostnaðarverði. Til þess að verjast þeim sveiflum sem annars yrðu ákváðu stjórnendur sjóðsins að nýta sér heimild í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 39 og færa við innleiðingu hluta af kröfum á lánastofnanir og skuldum á gangvirði í gegnum rekstur, en gangvirði eigna og skulda sem verið var að verja með gerð afleiðusamninga breytist í gagnstæða átt við gangvirðisbreytingu afleiðusamnings og jafnar þar með sveiflur í rekstrarreikningi. Áhrif þess voru að eigið fé hækkaði um 2.214 milljónir króna.

Þessar breytingar höfðu engin áhrif á efnahag Íbúðalánasjóðs en breyttu því hins vegar hvernig þessir liðir voru settir fram í reikningsskilum sjóðsins.

Með öðrum orðum var sjóðurinn að jafna saman afleiðusamningum sem gerðir höfðu verið til að standa á móti tilteknum eignum og skuldbindingum. Íbúðalánasjóður var með þessu að sýna eðlilegri stöðu og koma í veg fyrir sveiflur með því að meta með sama hætti eignir og þá afleiðusamninga sem voru beint tengdir þeim eignum og að meta með sama hætti skuldbindingar og þá afleiðusamninga sem voru beint tengdir þeim skuldbindingum.

2.4.2 Árshlutauppgjör Íbúðalánasjóðs

Í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 20018 kom fram að nýjar reglur Verðbréfaþings Íslands kváðu á um að þeir aðilar sem voru með skráð skuldabréf á þinginu yrðu að skila hálfsársuppgjöri til þingsins á árinu 2002.

Upplýsingar um endurskoðuð árshlutauppgjör komu fyrst fram í fundargerð 105. stjórnarfundar sjóðsins þann 25. mars 20039 en þá var um hálfsársuppgjör að ræða. Árshlutauppgjör hafa verið gerð síðan þá en í kringum fall hins íslenska bankakerfis var gert sérstakt 9 mánaða árshlutauppgjör 2008.

2.4.3 Innanhússuppgjör Íbúðalánasjóðs

Á fyrri hluta árs 2012 hóf sjóðurinn gerð mánaðarlegra rekstraruppgjöra sem voru sundurliðuð eftir sviðum sjóðsins í samræmi við stjórnskipulag hans. Samkvæmt upplýsingum stjórnenda sjóðsins hafði sjóðurinn ekki áður gert sundurliðað mánaðarlegt uppgjör eftir einstökum sviðum heldur einungis fyrir sjóðinn í heild. Af því leiddi að það var ekki fyrr en á árinu 2012 að yfirmenn sviða sjóðsins voru upplýstir um rekstrarkostnað síns sviðs ásamt samanburði við áætlun sem rannsóknarnefndin telur mjög til bóta.

2.4.4 Áætlanagerð Íbúðalánasjóðs

Í fundargerðum stjórnar kemur fram að sjóðurinn gerði rekstraráætlanir sem voru lagðar fyrir stjórn til samþykktar. Rekstraráætlanir voru hluti af vinnu við gerð fjárlaga. Fundargerðir stjórnar benda einnig til þess að stjórn sjóðsins hafi með nokkuð reglulegum hætti farið yfir rekstrartölur með samanburði við áætlanir.

Hins vegar kemur hvergi fram að yfirmenn sviða sjóðsins hafi verið ábyrgir fyrir rekstri síns sviðs né að þeir hafi þurft að svara fyrir frávik frá áætlun. Því var komið á árið 2012 og voru sviðsstjórar gerðir ábyrgir fyrir rekstri og áætlunargerð síns sviðs og mánaðarlega var farið yfir rekstraruppgjör hvers mánaðar með samanburði við áætlun. Vart þarf að greina frá gildi þess að fylgjast mánaðarlega með því hvort rekstur einstakra sviða sjóðsins sé í samræmi við samþykkta áætlun.

2.5 Úttekt á rekstri Íbúðalánasjóðs árin 2001–2011

Eins og fram kom í inngangi var úttekt á rekstri sjóðsins miðuð við allt tímabilið frá stofnun hans 1999 til ársloka 2011 enda lágu fyrir staðfestir ársreikningar sjóðsins fyrir það tímabil. Eins og áður sagði var fjárhagsbókhald sjóðsins árin 1999 og 2000 fært í kerfi sem nú hefur verið lagt af. Við vinnslu rekstrarúttektarinnar kom í ljós að erfitt var að fá sundurliðaðar rekstrarfjárhæðir úr hinu aflagða fjárhagsupplýsingakerfi vegna viðkomandi ára. Rannsóknarnefndin mat það svo að það væri ekki ómaksins virði og að sundurliðun rekstrarliða á viðkomandi árum hefði ekki áhrif á gildi rekstrarúttektarinnar á skoðunartímabilinu sem varð því vegna áranna 2001–2011.

Í lok úttektarinnar eru eftirfarandi töflur:

  • Tafla 4 sýnir rekstrarreikninga Íbúðalánasjóðs 1999–2011 eins og þeir voru birtir fyrir viðkomandi ár og eru flestir þeirra aðgengilegir á vef Íbúðalánasjóðs, ils.is.
  • Tafla 5 sýnir efnahagsreikninga Íbúðalánasjóðs 1999–2011 eins og þeir voru birtir fyrir viðkomandi ár og eru flestir þeirra aðgengilegir á vef Íbúðalánasjóðs, ils.is.
  • Tafla 6 sýnir rekstrarreikninga Íbúðalánasjóðs 2001–2011 sem gerðir voru af rannsóknarnefndinni, á verðlagi hvers árs.
  • Tafla 7 sýnir rekstrarreikninga Íbúðalánasjóðs 2001–2011 sem gerðir voru af rannsóknarnefndinni, á verðlagi ársins 2011.

Ástæður þess að rannsóknarnefndin setur fram rekstrarreikninga Íbúðalánasjóðs með öðrum hætti en var í ársreikningum sjóðsins fyrir viðkomandi ár skýrist af eftirfarandi atriðum:

  1. Í ársreikningi sjóðsins á viðkomandi ári voru liðir stundum teknir saman eða birtir með mismunandi hætti á milli ára.
Rekstrarreikningur rannsóknarnefndarinnar var gerður þannig að fjárhæð hvers fjárhagsbókhaldslykils er sýnd á sama stað öll árin sem gerir fjárhæðir samanburðarhæfar milli ára og því mögulegt að draga ályktanir af breytingu einstakra liða á milli ára. Við skoðun rannsóknarnefndarinnar á ársreikningum Íbúðalánasjóðs kom í ljós að ekki var alltaf samræmi hvar viðkomandi liðir voru sýndir í ársreikningi.
Byggt var á þeirri forsendu að bókun á fjárhagsbókhaldslykla á viðkomandi árum hafi verið í samræmi við notkun hvers bókhaldslykils, t.d. laun bókuð á reikningslykilinn laun o.s.frv., en rannsóknarnefndin gerði ekki sérstaka athugun á því, svo sem með fylgiskjalaskoðun. Þær myndir og töflur sem fram koma í þessari úttekt byggjast á rekstrarreikningi rannsóknarnefndarinnar á verðlagi ársins 2011.
  1. Í rekstrarreikningi rannsóknarnefndarinnar eru tekjur og gjöld vegna afleiðusamninga sýnd sérstaklega m.a. vegna umfjöllunar í kafla 14 í rannsóknarskýrslunni.

2.5.1 Afkoma Íbúðalánasjóðs 2001–2011

Mynd 2 sýnir hagnað og tap Íbúðalánasjóðs á tímabilinu 2001–2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 6 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs.

Rekstur Íbúðalánasjóðs hafði verið jákvæður allt frá stofnun árið 1999 til ársins 2008 þegar íslenska bankakerfið féll, ef frá er talið tap ársins 2001. Frá og með 2008 komu þrjú slæm ár í rekstri sjóðsins og á árinu 2010 þurfti ríkissjóður að leggja honum til stofnfé að fjárhæð 33.000 milljónir króna (annars vegar vegna virðisrýrnunar eigna og hins vegar til að styrkja eiginfjárstöðu sjóðsins svo að hann yrði rekstrarhæfur og gjaldgengur á lánamarkaði). Með stofnfjárframlagi ríkissjóðs var eiginfjárhlutfall, sem reiknað var með sama hætti og fyrir lánastofnanir (svokallað CAD-hlutfall), einungis 2,2% í árslok 2010 sem var talsvert undir því 5% langtímamarkmiði sem kom fram í reglum um sjóðinn.

Hið gríðarlega mikla tap á árinu 2010, 10 sbr. ársreikning Íbúðalánasjóðs árið 2011, skýrist að mestu af:

  1. Virðisrýrnun eigna vegna niðurfærslu lána einstaklinga niður í 110% af fasteignamati eða verðmati eigna. Miðað var við að niðurfærslan gæti numið allt að 22.762 milljónum króna. Vakin var athygli á að útreikningar niðurfærslunnar byggðust á fjölmörgum forsendum sem sumar hverjar voru metnar og því var gerður fyrirvari um að endanleg fjárhæð kynni að breytast.
  2. Virðisrýrnun eigna vegna lána til lögaðila nam 6.795 milljónum króna.

Mynd 3 sýnir afkomu fyrir virðisrýrnun eigna og framlag í afskriftasjóð útlána á tímabilinu 2001 til 2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 6 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs.

Eins og fram kemur á myndinni hafði afkoma Íbúðalánasjóðs fyrir virðisrýrnun eigna og framlag í afskriftasjóð útlána verið jákvæð á árunum 2001–2011. Afkoma fyrir virðisrýrnun og framlag í afskriftasjóð útlána má til einföldunar segja að sé afkoma fyrir útlánatap Íbúðalánasjóðs. Í því sambandi stendur útlánatap bæði fyrir raunverulegt „innleyst útlánatap“ sem aldrei innheimtast og einnig fyrir „reiknað útlánatap“ þar sem ekki liggur fyrir hvort eða hve mikið innheimtist.

Mynd 4 sýnir virðisrýrnun eigna og framlag í afskriftasjóð útlána á tímabilinu 2001–2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 6 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs.

Einn af stærstu liðum í taprekstri sjóðsins var virðisrýrnun eigna og framlag í afskriftasjóð útlána eins og rakið er hér að framan. Fjallað er nánar um virðisrýrnun Íbúðalánasjóðs í kafla 14.

2.5.2 Tekjur Íbúðalánasjóðs 2001–2011

Mynd 5 sýnir hreinar vaxtatekjur Íbúðalánasjóðs á árunum 2001–2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 6 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs.

Hjá Íbúðalánasjóði eins og öðrum fjármálastofnunum var megináhersla lögð á að viðhalda viðunandi hreinum vaxtatekjum. Í ársreikningum sjóðsins voru hreinar vaxtatekjur alltaf tilgreindar en sú fjárhæð sýndi afkomu sjóðsins af útlánastarfsemi sinni að teknu tilliti til kostnaðar af fjármögnun sem að langmestu leyti var í formi útgefinna skuldabréfaflokka.

Íbúðalánasjóður setti sér reglur um álag ofan á fjármagnskostnað lána sem sjóðurinn hafði fengið. Það samanstóð af:

  1. Uppgreiðsluáhættu.
  2. Útlánaáhættu.
  3. Álagi til rekstrar sjóðsins.

Árið 2005 hóf sjóðurinn að bjóða lántakendum vaxtakjör eftir því hvort lántaki vildi greiða upp lán með eða án uppgreiðslugjalds. Frá því að Íbúðalánasjóður tók til starfa og þar til um miðjan júlímánuð 2004 voru húsbréf notuð sem fjármögnunarbréf og vextir á útlánum ákvarðaðir með 0,35% álagi á húsbréfin, sem báru þá 4,75% vexti, til að mæta rekstrar- og útlánaáhættu. Tafla 1 sýnir þróun útlánavaxta Íbúðalánasjóðs.

Mynd 6 sýnir aðrar tekjur Íbúðalánasjóðs á tímabilinu 2001–2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 6 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs.

Íbúðalánasjóður hafði á skoðunartímabilinu umtalsverðar aðrar tekjur sem voru einkum vegna lántökugjalda af útlánum til íbúðaeigenda, innheimtutekjur og tekjur vegna fullnustueigna sjóðsins. Frá öðrum tekjum voru dregin þjónustugjöld sem komu til vegna innheimtutekna sjóðsins. Sem fyrr segir var reikningsskilaaðferðum sjóðsins breytt árið 2007 til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Það hafði í för með sér að lántökugjöld voru ekki tekjufærð um leið og lánveiting átti sér stað heldur var viðkomandi tekjum dreift á líftíma veittra lána. Það skýrir að mestu þá lækkun sem sést á myndinni.

2.5.2.1 Neikvæður vaxtamunur af lánum Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður vann á árinu 2012 að greiningu á vaxtamun sjóðsins vegna lána með sérstökum vaxtakjörum tengdum Húsnæðisstofnun, Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna.

Við stofnun tók Íbúðalánasjóður við lánasöfnum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Húsnæðisstofnun hafði veitt lánsloforð vegna lána með sérstökum vaxtakjörum sem Íbúðalánasjóður tók við og voru vegna leigulána til sveitarfélaga samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IX í lögum nr. 44/1998 sem voru með 1% vöxtum. Íbúðalánasjóður efndi sínar skyldur á fyrstu starfsárum sínum og lánaði á viðskiptakjörum byggingarsjóðanna. Um mitt ár 2012 námu þessi lánasöfn samtals um 127 milljörðum króna. Innan lánasafnanna eru flokkar sem eru með neikvæðan vaxtamun en samantekið nam hann um 1.100 milljónum króna á ári. Það þýðir að Íbúðalánasjóður var með neikvæðan vaxtamun af þessum lánasöfnum. Ríkissjóður niðurgreiddi hluta af þessum vaxtamun en Íbúðalánasjóður bar það sem upp á vantaði, sem byggðist á skilgreindu hlutfalli ofan á fjármögnunarkostnað Íbúðalánasjóðs.

Lausafjárkvöð sem hvíldi á Íbúðalánasjóði og var um 20–25 milljarðar króna hafði neikvæð áhrif á vaxtamun sjóðsins enda var lausafjárstýring einungis að skila 1% raunávöxtun. Frá því að ríkissjóður lagði sjóðnum til stofnframlag á árinu 2010 hefur lausafé verið yfir 50 milljarða króna. Nánar er fjallað um lausafjárkvöð Íbúðalánasjóðs í kafla 11.

2.5.3 Rekstrargjöld Íbúðalánasjóðs 2001–2011

Mynd 7 sýnir rekstrargjöld Íbúðalánasjóðs árin 2001–2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 6 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs.

Eins og sjá má á myndinni höfðu rekstrargjöld sjóðsins verið í jafnvægi á skoðunartímabilinu en hækkuðu umtalsvert á árinu 2011, á föstu verðlagi. Meðal rekstrarkostnaðar voru matsgerðir sérfróðra aðila á verðmæti eigna þar sem sjóðurinn hóf vinnu vegna niðurfærslu lána lántakenda í 110% af verðmati viðkomandi eigna, sbr. umfjöllun hér að framan. Þá varð gríðarleg kostnaðaraukning vegna framlags Íbúðalánasjóðs til embættis umboðsmanns skuldara eins og nánar er rakið í kafla 2.5.3. Starfsmönnum sjóðsins hafði fjölgað um 20 stöðugildi, úr 69 í 89, milli áranna 2010 og 2011. Fjölgun starfsmanna var að mestu leyti vegna úrvinnslu úrræða í þágu lántakenda og umsýslu þeirra fjölmörgu fullnustueigna sem sjóðurinn hafði yfirtekið. Jafnframt jókst kostnaður verulega vegna sölulauna þeirra eigna sem voru seldar.

Á mynd 8 kemur vel fram hvernig viðkomandi kostnaðarliðir, meðal rekstrargjalda Íbúðalánasjóðs, hafa þróast sem hlutfall af rekstrarkostnaði viðkomandi árs á verðlagi ársins 2011. Tafla 6 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs.

Mynd 9 sýnir þróun valinna rekstrarkostnaðarliða Íbúðalánasjóðs 2001–2011 á verðlagi 2011 með öðrum hætti þar sem upphafsárið 2001 er sett sem 100%. Myndin sýnir hvernig viðkomandi kostnaðarliðir hafa þróast til ársloka 2011. Valdir voru kostnaðarliðir sem eru annars vegar verulegir í hlutfalli af rekstrarkostnaði sjóðsins en einnig kostnaðarliðir sem tekið hafa miklum breytingum á skoðunartímabilinu.

Vakin er athygli á að þrír kostnaðarliðir fara út úr myndinni en þeir eru:

  1. Kostnaður vegna fullnustueigna var 625% á árinu 2010 og 1.241% á árinu 2011 en þá sést línan ekki.
  2. Aðkeypt sérfræðiþjónusta var 542% á árinu 2011.
  3. Kostnaður vegna fullnustueigna var 3.273% á árinu 2011.

Hæsta hlutfall á myndinni er 350% en ef það hefði fylgt hæsta gildi sem er 3.273% hefði myndin orðið með öllu ólæsileg.

2.5.3.1 Afskriftir fastafjármuna og gjaldfærsla óefnislegra eigna

Mynd 10 sýnir þróun afskrifta varanlegra rekstrarfjármuna og gjaldfærslu langtímakostnaðar og óefnislegra eigna Íbúðalánasjóðs á tímabilinu 2001–2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 6 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs.

2.5.3.2 Launakostnaður Íbúðalánasjóðs 2001–2011

Mynd 11 sýnir þróun launakostnaðar, þ.e. launa og launatengdra gjalda á árunum 2001–2011 sem er á verðlagi ársins 2011. Tafla 9 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi ársins 2011 sundurliðaðar á deildir í samræmi við stjórnskipulag sjóðsins á hverju ári fyrir sig. Tafla 8 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs ásamt sundurliðun á deildir í samræmi við stjórnskipulag sjóðsins á hverju ári fyrir sig.

Myndin sýnir umtalsverða hækkun launa á árinu 2011 og er það í samræmi við fjölgun stöðugilda úr 69 á árinu 2010 í 89 á árinu 2011. Fjölgun stöðugilda hjá sjóðnum skýrðist að langmestu leyti af vinnu vegna niðurfærslu lána lántakenda hjá sjóðnum í 110% af verðmæti eigna ásamt umsýslu og þeirra fjölmörgu fullnustueigna sem sjóðurinn hafði yfirtekið frá falli íslenska bankakerfisins árið 2008. Fjölgun stöðugilda varð einnig á fjármálasviði Íbúðalánasjóðs en KPMG hafði í endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2010 bent á að æskilegt væri að auka við mannafla til að annast greiningar, uppgjör og úrvinnslu upplýsinga, sjá kafla 2.6.1.

Eins og rakið var í upphafi úttektarinnar var vegna tíðra skipulagsbreytinga, þar sem svið voru stofnuð, breytt eða lögð af, erfitt að fá raunhæft mat á þróun launakostnaðar sviða sjóðsins og því eru laun og launatengd gjöld sjóðsins í heild tekin fyrir. Tafla 9 sýnir breytingar á skipulagi sjóðsins með glöggum hætti og tafla 8 sýnir laun og launatengd gjöld á verðlagi hvers árs.

Þegar laun og launatengd gjöld eru skoðuð í heildarsamhengi þá þyrfti að gera ráð fyrir hækkun vegna kaupa á aðkeyptri þjónustu sem í raun hefði átt að teljast til launa í ljósi andlags. Í því sambandi er vísað til umfjöllunar í kafla 2.5.4 þar sem fram kemur að Íbúðalánasjóður var í verktakasambandi við einkahlutafélagið Ekrur ehf. vegna starfa Jóhanns G. Jóhannssonar sem yfirmanns tveggja sviða sjóðsins, áhættustýringar- og fjárstýringarsviðs. Í ljósi þessa hefðu laun og launatengd gjöld átt að vera hærri sem nam þeim fjárhæðum sem greiddar voru til Ekra frá nóvember 2003 til loka janúar 2006, sbr. töflu 3.

Tafla 2 sýnir útreikning Íbúðalánasjóðs á launakostnaði sem hlutfalli af eignum sjóðsins á viðkomandi árum

Mynd 12 sýnir þróun fjölda stöðugilda hjá Íbúðalánasjóði frá árinu 2001 til 2011.

Þegar litið var til meðalárslauna, sem fengin eru með því að deila fjölda stöðugilda á viðkomandi ári í heildarfjárhæð launa og launatengdra gjalda, kom fram að meðalárslaun höfðu lækkað allt frá árinu 2007 þegar þau náðu hámarki, sbr. mynd 13:

Mynd 14 sýnir þróun starfsmannatengds kostnaðar Íbúðalánasjóðs 2001–2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 8 sýnir viðkomandi fjárhæðir á verðlagi hvers árs.

Starfsmannatengdur kostnaður er allur kostnaður sem fellur til vegna starfsmanna, annar en bein laun og launatengd gjöld. Dæmi um slíkan kostnað er vegna ráðningar starfsmanna, vegna námskeiða fyrir starfsmenn, vegna starfsmannafélags, vegna árshátíðar og rekstrarkostnaður sumarbústaðar starfsmanna.

2.5.3.3 Annar rekstrarkostnaður

Mynd 15 sýnir þróun annars rekstrarkostnaðar Íbúðalánasjóðs 2001–2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 10 sýnir heildaryfirlit annars rekstrarkostnaðar eftir einstökum liðum á tímabilinu 2001–2011 á verðlagi hvers árs fyrir sig en tafla 11 sýnir það sama á verðlagi ársins 2011. Einungis er fjallað um þá kostnaðarliði sérstaklega sem hafa breyst verulega á skoðunartímabilinu.

Annar rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðs árin 2001–2011 samanstóð af eftir-farandi kostnaðarliðum:

  1. Innheimtukostnaður.
  2. Fjárstýring og söluþóknanir verðbréfa.
  3. Rekstrarkostnaður fullnustueigna.
  4. Húsnæðiskostnaður.
  5. Tölvu- og hugbúnaðarkostnaður.
  6. Aðkeypt sérfræðiþjónusta.
  7. Umboðsmaður skuldara (áður Ráðgjafarstofa heimilanna)
  8. Skrifstofukostnaður.
  9. Markaðs- og kynningarkostnaður.
  10. Styrkir vegna þróunar og tækninýjunga í byggingariðnaði.
  11. Annar kostnaður.

Myndir 16 til 26 sýna þróun hvers og eins kostnaðarliðar sem tilgreindur er hér að framan á tímabilinu 2001–2011. Tafla 10 sýnir heildaryfirlit annars rekstrarkostnaðar á tímabilinu 2001–2011 á verðlagi hvers árs fyrir sig en tafla 11 sýnir það sama á verðlagi ársins 2011. Einungis er fjallað um þá kostnaðarliði sérstaklega sem hafa breyst verulega á skoðunartímabilinu.

Árið 2010 leysti Íbúðalánasjóður til sín 854 fasteignir með fullnustugerð, seldar voru 132 fasteignir og í árslok voru 1.069 fasteignir í eigu sjóðsins. Á árinu 2011 leysti sjóðurinn til sín 691 fasteign með fullnustugerð, seldar voru 154 fasteignir og í árslok voru 1.606 fasteignir í eigu sjóðsins. Eðli málsins samkvæmt fellur umtalsverður kostnaður til við eignarhald og umsýslu fullnustueigna sjóðsins sem kemur fram í kostnaði eins og fram kemur á mynd 18. Hér að framan hefur verið fjallað um aukinn launakostnað vegna starfsmanna sjóðsins sem sjá um eignavörslu og umhirðu fullnustueigna sjóðsins. Í þessum kafla er einnig fjallað um umtalsverða hækkun kostnaðar við matsgerðir sérfróðra aðila á verðmæti viðkomandi eigna vegna sölumeðferðar. Vissulega er um gríðarlega mikinn kostnað að ræða en hann þarf að setja í samhengi við umfang málsins.

Við skoðun á tölvu- og hugbúnaðarkostnaði Íbúðalánasjóðs þarf að hafa í huga að hluti árlegs kostnaðar var eignfærður meðal varanlegra rekstrarfjármuna. Í úttekt á aðkeyptri þjónustu sjóðsins, sem fjallað er um í kafla 2.5.4, má sjá heildarkostnað vegna tölvu- og hugbúnaðarmála og þá fjárhæð sem eignfærð var á hverju ári fyrir sig og færð til gjalda meðal afskrifta í rekstrarreikningi í samræmi við nýtingartíma hverrar eignar fyrir sig.

Eins og myndin sýnir hækkaði aðkeypt sérfræðiþjónusta umtalsvert milli áranna 2010 og 2011. Það skýrðist að langmestu leyti af söluþóknun af seldum fullnustueignum og kaupum á þjónustu sérfróðra aðila við matsgerðir á verðmæti eigna, vegna úrræðis lántakenda sjóðsins um niðurfærslu lána í 110% af verðmati viðkomandi eigna.

Á árinu 2004 voru framkvæmd skuldabréfaskipti þar sem húsbréfum var skipt í Íbúðabréf, sjá nánar umfjöllun í kafla 9.6. Við þessi skipti féll til kostnaður að fjárhæð um 750 milljónir króna sem rann til Deutsche Bank, sem annaðist skuldabréfaskiptin og fékk þóknun sína greidda með hinum nýju útgefnu íbúðabréfum. Viðkomandi kostnaður var færður á meðal fjármagnskostnaðar. Í ljósi umfangs hefði verið eðlilegt að greina frá honum í skýringum með ársreikningi 2004, þar sem kostnaður vegna skuldabréfaskiptanna var verulegur og hafði umtalsverð áhrif á fjárhæðina „hreinar vaxtatekjur“, en það var ekki gert.

Frá nóvember 2003 til og með janúar 2006 var yfirmaður áhættustýringar- og fjárstýringarsviðs verktaki hjá Íbúðalánasjóði en ekki starfsmaður og launþegi hjá sjóðnum. Einkahlutafélagið Ekrur ehf. var í verktakasambandi við Íbúðalánasjóð vegna starfa Jóhanns G. Jóhannssonar sem yfirmanns viðkomandi sviða. Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við þann framgangsmáta í innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 200511 og vísaði sérstaklega til ákvæða laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Nánar er fjallað um þetta atriði í kafla 2.5.4.

Samkvæmt ákvörðun Alþingis bar Íbúðalánasjóði að greiða hluta af rekstrarkostnaði embættis umboðsmanns skuldara. Við skoðun kom í ljós að umtalsverð fjárhæð er bókuð á árinu 2011 sem hefði með réttu átt að bókast á árið 2010. Skýrðist það af því að Íbúðalánasjóður fékk ekki kostnaðaruppgjör vegna embættis umboðsmanns skuldara fyrr en langt var liðið á árið 2011 en þá hafði sjóðurinn lokið gerð ársreiknings fyrir árið 2010. Vantalinn kostnaður Íbúðalánasjóðs vegna embættis umboðsmanns skuldara á árinu 2010 var 49.956.592 kr. Í bókhaldi sjóðsins voru gjaldfærðar 5.153.317 kr., sbr. súlu á myndinni, en átti í raun að vera 55.109.909 kr. Kostnaðarhlutdeild Íbúðalánasjóðs vegna ársins 2011 var að fjárhæð 121.276.972 kr. Þetta skekkir vissulega mynd 22 en einungis milli áranna 2010 og 2011. Vakin er athygli á að Íbúðalánasjóður hafði enga stjórn á þessum kostnaðarlið þar sem kostnaðarhlutdeild var ákveðin af Alþingi.

Íbúðalánasjóður lagði mat á áhrif kostnaðar við rekstur embættis umboðsmanns skuldara og niðurstaða þess mats var ígildi þriggja punkta sem sjóðurinn þyrfti að taka af rekstrarhluta þess álags sem lagt var á ný lán til lántakenda.

Styrkir sem Íbúðalánasjóður hafði veitt frá stofnun tengjast allir rannsóknum og þróun í byggingariðnaði.

2.5.4 Úttekt á aðkeyptri þjónustu Íbúðalánasjóðs 2001–2011

Gerð var úttekt á aðkeyptri þjónustu Íbúðalánasjóðs. Í því sambandi voru upplýsingar fengnar úr upplýsingakerfum sjóðsins á vettvangi. Aflað var upplýsinga þvert á bókun á einstaka bókhaldslykla og aðkeypt þjónusta greind, óháð því á hvaða bókhaldslykil viðkomandi kostnaður var færður. Sem dæmi hafi aðili sinnt ráðgjöf vegna heimasíðu og einnig ráðgjöf vegna skipulagsbreytinga, sem bókuðust á sinn hvorn lykilinn í bókhaldi, þá náðist að fá heildarfjárhæð með greiningu á lánardrottnalykli viðkomandi utanaðkomandi aðila.

Vakin er sérstök athygli á að ekki er hægt að bera saman kostnaðarliðinn „aðkeypt sérfræðiþjónusta“ sem sýndur er sérstaklega meðal rekstrarkostnaðar hér að ofan við aðkeypta þjónustu sem hér er greind heldur gengur þessi greining þvert á marga af þeim kostnaðarliðum sem tilgreindir eru meðal rekstrarkostnaðar.

Mynd 27 byggist á fjárhæðum í töflu 13 vegna aðkeyptrar þjónustu Íbúðalánasjóðs 2001–2011 á verðlagi ársins 2011. Tafla 12 sýnir sömu liði á verðlagi hvers árs fyrir sig.

Mynd 27 er ætlað að sýna alla keypta þjónustu í því augnamiði að greina hvaða þjónusta er keypt af utanaðkomandi aðilum vegna starfsemi Íbúðalánasjóðs. Súlurnar eru tvískiptar þar sem neðri hluti þeirra sýnir aðkeypta þjónustu sem gjaldfærð var á viðkomandi ári en efri hluti þeirra sýnir aðkeypta þjónustu sem var eignfærð á viðkomandi ári.

Tafla 15 sýnir nánari sundurliðun á því af hverjum Íbúðalánasjóður keypti viðkomandi þjónustu á verðlagi ársins 2011 og tafla 14 sýnir nánari sundurliðun á því af hverjum Íbúðalánasjóður keypti þjónustu á verðlagi viðkomandi árs.

Við skoðun á aðkeyptri þjónustu vakti eftirfarandi ákvörðun Íbúðalánasjóðs sérstaka athygli. Í stað þess að ráðinn væri starfsmaður sem launþegi, sem starfaði sem slíkur og hefði réttindi og skyldur sem starfsmaður ríkisins, til að stýra áhættustýringar- og fjárstýringarsviðum sjóðsins ákvað Íbúðalánasjóður að kaupa þjónustu af einkahlutafélaginu Ekrur ehf. Jóhann G. Jóhannsson, framkvæmdastjóri og eigandi Ekra ehf., varð því yfirmaður beggja sviða í verktakasambandi við Íbúðalánasjóð um miðjan mars 2004. Á tímabilinu nóvember 2003 til janúarloka árið 2006 keypti Íbúðalánasjóður þjónustu Ekra ehf. og vann Jóhann G. að ráðgjafastörfum fyrir sjóðinn.

Félagið Ekrur ehf.12 var stofnað 20. desember 1996 af Jóhanni G. Jóhannssyni og Gunnbirni Óla Jóhannssyni sem var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins. Þann 26. júní 2003 keypti Jóhann G. alla hluti í félaginu samkvæmt aukatilkynningu13 til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra og var frá þeim tíma stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins. Nýjar samþykktir fylgdu aukatilkynningunni til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra og hafði þá „ráðgjafastarfsemi“ verið bætt við tilgang félagsins.

Ofangreindar fjárhæðir sem greiddar voru til Ekra ehf. innihalda ekki útlagðan kostnað, svo sem vegna síma og ferðakostnaðar. Ekrur ehf. innheimti þann kostnað sérstaklega.

Eins og stuðull í töflunni ber með sér voru viðkomandi „launakjör“ rífleg en stuðullinn segir til um hve margföld meðalárslaun Ekrur ehf. var að innheimta í samanburði við meðallaunakostnað starfsmanna Íbúðalánasjóðs á viðkomandi ári. Meðallaunakostnaður starfsmanna samanstóð af launum og launatengdum gjöldum sjóðsins deilt með stöðugildum á viðkomandi ári. Greiðsla Íbúðalánasjóðs til Ekra ehf. vegna vinnu Jóhanns G., samkvæmt töflunni, var t.d. 2,66 sinnum hærri en meðalkostnaður Íbúðalánasjóðs á árinu 2005.

Ekki lágu fyrir skýringar á ákvörðun sjóðsins en þær gátu hafa verið þær að Íbúðalánasjóður hafi verið að leysa tímabundið ástand og að viðkomandi ákvörðun hafi verið hugsuð sem slík, eða að Íbúðalánasjóður hafi ekki talið mögulegt eða réttlætanlegt að hafa viðkomandi aðila á launaskrá meðal opinberra starfsmanna með allt önnur og lægri laun.

Þrátt fyrir mögulegar skýringar telur rannsóknarnefndin ámælisvert að Íbúðalánasjóður skuli hafa haft aðkeyptan verktaka í stöðum yfirmanns tveggja af sviðum sjóðsins í eins langan tíma og raun bar vitni og er sammála mati Ríkisendurskoðunar sem kom fram í innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 200514, sjá kafla 2.6.2.

Athygli vakti í úttekt á aðkeyptri þjónustu Íbúðalánasjóðs hve mikið var keypt af valkvæðri þjónustu sem starfsmenn sjóðsins hefðu hæglega getað unnið í einhverjum tilvikum. Með valkvæðri þjónustu er átt við að stjórnendur höfðu val um hvort viðkomandi verkefni væru unnin af starfsmönnum sjóðsins eða keypt af utanaðkomandi aðila. Við mat á hverju verkefni þurftu stjórnendur að meta hagkvæmni þess að það væri leyst með aðkeyptum verktökum eða starfsmönnum sjóðsins. Þá skipti mestu þegar viðkomandi verkefnum var lokið að sú þekking sem kostað hafði verið til sæti eftir innan sjóðsins honum til framdráttar til framtíðar. Hin umfangsmiklu kaup sjóðsins á aðkeyptri þjónustu gefa vísbendingar um að stjórnendur sjóðsins hafi ekki byggt upp það þekkingarstig meðal starfsmanna sjóðsins sem þurfti til að leysa öll þau verkefni sem fyrir lágu í starfsemi hans.

2.5.5 Úttekt á ferðakostnaði Íbúðalánasjóðs 2001–2011

Gerð var úttekt á ferðakostnaði Íbúðalánasjóðs. Í því sambandi voru upplýsingar fengnar úr fjárhagsbókhaldskerfi sjóðsins á vettvangi.

Ferðakostnaður var meðal annars kostnaðar í rekstrarkostnaði Íbúðalánasjóðs sem fjallað er um í kafla 2.5.3 hér að framan. Á mynd 29 er þróun ferðakostnaðar sjóðsins á árunum 2001–2011 á verðlagi ársins 2011.

Tafla 17 sýnir nánari sundurliðun ferðakostnaðar vegna 2001–2011 á verðlagi 2011 og tafla 16 sýnir það sama á verðlagi hvers árs.

Ferðakostnaður sjóðsins var óverulegur og kom að mestu til vegna starfsemi sjóðsins á Sauðárkróki. Það hve lágur ferðakostnaðurinn var gæti bent til þess að starfsmenn hafi ekki aflað sér þekkingar á starfsemi sambærilegra eða svipaðra fasteignalánasjóða í öðrum löndum. Það vekur furðu þegar litið er til þess að sjóðurinn var sá eini sinnar tegundar á Íslandi. Þess í stað leitaði Íbúðalánasjóður til verktaka vegna slíkrar vinnu, sbr. umfjöllun um aðkeypta þjónustu í kafla 2.5.4 hér að framan.

2.6 Úttekt á innra eftirliti Íbúðalánasjóðs

Gerð var úttekt á innra eftirliti og innri eftirlitsaðgerðum Íbúðalánasjóðs. Við þá úttekt var byggt á upplýsingum ytri og innri endurskoðenda Íbúðalánasjóðs varðandi innleiðingu og virkni innra eftirlits og innri eftirlitsaðgerða sjóðsins.

2.6.1 Ytri endurskoðun Íbúðalánasjóðs

Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 6. gr. laga 86/1997, um Ríkisendurskoðun, skal hún endurskoða reikninga stofnana sem reknar eru á ábyrgð ríkissjóðs, sbr. Íbúðalánasjóð. Samkvæmt ákvæðum 4. gr. sömu laga er Ríkisendurskoðun heimilt að fela löggiltum endurskoðendum eða öðrum sérfræðingum á viðkomandi sviði að vinna að einstökum verkefnum sem henni eru falin. Svo hefur verið raunin og hafði Ríkisendurskoðun falið endurskoðunarfirmanu KPMG ehf. ytri endurskoðun Íbúðalánasjóðs allt frá stofnun hans 1999 og til dagsins í dag.

Í kafla 2.4.1 er fjallað um ársuppgjör og í kafla 2.4.2 er fjallað um og árshlutauppgjör Íbúðalánasjóðs sem voru endurskoðuð af KPMG ehf. á skoðunartímabilinu.

Fyrir hvern endurskoðaðan ársreikning gerði KPMG endurskoðunarskýrslu sem send var Ríkisendurskoðun, sem verkkaupa og ábyrgðaraðila ytri endurskoðunar Íbúðalánasjóðs, og einnig stjórnarformanni sjóðsins. Endurskoðunarskýrslurnar var þó ekki að finna í skjalasafni sjóðsins og var því leitað til Ríkisendurskoðunar sem afhenti rannsóknarnefndinni skýrslur áranna 2000 til 2011. Í svarbréfi Ríkisendurskoðunar kom fram að „endurskoðunarskýrsla ársins 1999 sé hvorki til í skjalasafni Ríkisendurskoðunar né hjá KPMG sem geyma gögn einungis í 10 ár“. Því verður ekki fjallað um framlagðar athugasemdir í endurskoðunarskýrslu ársins 1999 hér á eftir.

Ekki verður fjallað ítarlega um alla þá þætti er koma fram í endurskoðunarskýrslum KPMG heldur einblínt á þá þætti sem eru hér til umfjöllunar varðandi rekstur, innra eftirlit og innri eftirlitsþætti í starfsemi Íbúðalánasjóðs.

2.6.1.1 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200015

Við endurskoðun gerði KPMG úrtakskannanir á bókhaldsgögnum og bókhaldskerfum, m.a. til að sannreyna virkni innra eftirlits Íbúðalánasjóðs. Ekki voru gerðar athugasemdir við innra eftirlit sjóðsins í endurskoðunarskýrslunni.

Fram kom að við endurskoðun á sjóðnum á árinu 1999 höfðu verið lagðar fram upplýsingar um „Innra eftirlitskerfi Íbúðalánasjóðs“. Var hér um að ræða vísi að lýsingu á innra eftirlitskerfi sjóðsins sem hafði verið í þróun frá því að hann tók til starfa með nýjum stjórnendum og skipulagi frá ársbyrjun 1999. Við endurskoðun á árinu 2000 var farið yfir þær upplýsingar og innri reglur sem bæst höfðu við hjá sjóðnum á árinu 2000 í því samhengi.

Við endurskoðunina mat KPMG og studdist við innra eftirlitskerfi Íbúðalánasjóðs, svo sem lánaeftirlit og áætlanir sem fyrir lágu á hverjum tíma um reksturinn. Í því sambandi leit KPMG einnig til þeirra kannana sem áður höfðu verið gerðar á innra eftirliti og bókhaldskerfi Íbúðalánasjóðs.

KPMG kom með ábendingu um að sjóðurinn skyldi gera uppgjör oftar en einu sinni á ári og mælti með hálfsársuppgjöri í því sambandi en einnig að stjórn sjóðsins fengi upplýsingar um rekstur hans ársfjórðungslega.

2.6.1.2 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200116

Við endurskoðun gerði KPMG úrtakskannanir á bókhaldsgögnum og bókhaldskerfum, m.a. til að sannreyna virkni innra eftirlits Íbúðalánasjóðs. Ekki voru settar fram athugasemdir við innra eftirlit sjóðsins í endurskoðunarskýrslunni.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG kom fram að á árinu hefði verið ráðinn starfsmaður hjá Íbúðalánasjóði í innra eftirlit sem unnið hefði að frekari skipulagningu þessara mála hjá sjóðnum í samráði við ytri endurskoðendur. Höfðu verkefni hans aðallega snúið að skráningu verkferla almennt hjá sjóðnum og að gert væri ráð fyrir að þeirri vinnu lyki á árinu 2002.

2.6.1.3 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200217

Við endurskoðun gerði KPMG úrtakskannanir á bókhaldsgögnum og bókhaldskerfum, m.a. til að sannreyna virkni innra eftirlits Íbúðalánasjóðs.

KPMG lagði áherslu á að úrbótum og uppbyggingu á innra eftirlitskerfi Íbúðalánasjóðs yrði haldið áfram á markvissan hátt í sérstökum kafla í endurskoðunarskýrslu sem fjallaði um innra eftirlit og innri endurskoðun. Fyrir lá skýrsla starfsmanns innra eftirlits fyrir árið 2002 þar sem gerð var grein fyrir innra eftirliti hjá sjóðnum á árinu, hvað hefði áunnist, hver framvindan hefði verið og þær áætlanir sem ætlunin væri að vinna eftir í framhaldinu. Tilgreindir voru helstu efnisþættir:

  • Innri eftirlitsaðgerðir yrðu undirbúnar með áherslu á mikilvægustu ferlin og helstu áhersluþættina. Lögð hefði verið fram sérstök verkefnaáætlun um innra eftirlit.
  • Fyrir lá aðgerðar- og tímaáætlun vegna uppsetningar innra eftirlits sem samþykkt var af framkvæmdastjórn sjóðsins í framhaldi af skýrslu KPMG Ráðgjafar ehf. um „Mat á tillögum til eflingar innra eftirlits„ í september 2002. Eftir að innra eftirlit hefði verið sett upp yrði á ábyrgð hvers sviðsstjóra að framfylgja því. Starfsmaður innra eftirlits myndi í framhaldinu sinna innri endurskoðun sem fæli m.a. í sér endurskoðun á virkni innra eftirlits.
  • Á tímabilinu janúar til september 2002 voru skráðar yfir 40 verklagsreglur (verkferlar).
  • Í ljósi þess að upp komst um svikamál tengt fasteignasölu var sett upp tillaga að vinnslu málsins. Tekin var saman skýrsla um niðurstöður að tillögum um viðbrögð sjóðsins og úrbætur. Viðkomandi tillögur voru lagðar fyrir stjórn sjóðsins sem samþykkti þær í ársbyrjun 2003 en Ríkisendurskoðun hafði lagt jákvætt mat á tillögurnar.
  • Verkefnahópur um rafvæðingu á starfsemi sjóðsins benti á öryggismál upplýsingakerfa sem einn af veikleikum sjóðsins. Í framhaldi var unnið að úrbótum á netkerfi og skýrsla skrifuð í mars 2002 um stöðu þeirra. Í september 2002 var gerð verkefnaáætlun um endurmat eftir breytingar og úrbætur sem farið höfðu fram. Í niðurstöðum skýrslunnar kom fram að netkerfið væri mun öruggara eftir breytingarnar. Starfsmaður í innra eftirliti gerði í skýrslu sinni ráð fyrir að öryggismál upplýsingakerfa kæmu til með að vera forgangsmál eftir að áhættugreining innra eftirlits hefði verið framkvæmd.

2.6.1.4 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200318

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var sérstakur kafli um innra eftirlit og innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs þar sem fram kom eftirfarandi:

  • Stjórnendur sjóðsins í samvinnu við KPMG Ráðgjöf ehf. höfðu unnið að eflingu innra eftirlits hjá sjóðnum. Í skýrslu KPMG Ráðgjafar frá september 2003, „Efling innra eftirlits, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir“19 hjá Íbúðalánasjóði komu fram tillögur stjórnenda Íbúðalánasjóðs um innra eftirlit. Í skýrslunni var framvinda og þróun mála undanfarin misseri rakin:
    • Nóvember 2000. Innra eftirlit var skilgreint sem nýtt starf á rekstrarsviði og grunnvinna við gerð verklagsreglna hófst.
    • Ágúst 2002. KPMG Ráðgjöf lagði mat á stöðu innra eftirlits og gerði tillögur um framhaldið sem stjórnendur samþykktu.
    • Júní 2003. Áhættugreiningu lauk með ákvörðun stjórnenda um eftirlitsaðgerðir.
    • Október 2003. Lokaskýrsla innra eftirlits var kynnt fyrir stjórn sjóðsins. Samkvæmt skýrslunni voru næstu skref að:
      • Stjórn Íbúðalánasjóðs afgreiddi tillögur um innra eftirlit.
      • Ábyrgðaraðilar eftirlitsaðgerða hæfu innleiðingu. Stuðningur og eftirfylgni lykilatriði.
      • Innleiða innri endurskoðun.
      • Tryggja reglulegt endurmat.
  • Skýrslan var send Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitinu til umsagnar og að fengnum athugasemdum og ábendingum frá þeim var sett upp tímasett aðgerðaáætlun. Þegar innra eftirlit hefði verið sett upp væri á ábyrgð hvers sviðsstjóra að framfylgja því.

Í lok ársins 2003 gerði Fjármálaeftirlitið könnun á áhættustýringu og innra eftirliti húsbréfadeildar Íbúðalánasjóðs og skilaði skýrslu um niðurstöður könnunarinnar. Þar kom m.a. fram að innri endurskoðun þyrfti að kanna hvort eftirlitsaðgerðum væri fylgt með sérstakri áherslu á nýjar eftirlitsaðgerðir.

2.6.1.5 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200420

Vert er að benda á að ekki kom fram í endurskoðunarskýrslu KPMG að virkni innra eftirlits Íbúðalánasjóðs hefði verið sannreynt.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var sérstakur kafli um innra eftirlit og innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs þar sem fram kom eftirfarandi:

  • Stjórnendur Íbúðalánasjóðs hafa á undanförnum árum unnið að eflingu innra eftirlits hjá sjóðnum. Í skýrslu frá desember 2004 um innleiðingu innra eftirlits – áhættugreiningu, eftirlitsaðgerðir og stöðu mála – kom meðal annars fram að flestar af þeim eftirlitsaðgerðum sem settar voru upp fyrir einu ári væru enn í fullu gildi og að þær eftirlitsaðgerðir sem ekki voru komnar til framkvæmda væru í flestum tilfellum ekki stórvægilegar. Þá kom einnig fram í skýrslunni að miklar annir vegna breytinga á rekstri sjóðsins hefðu tafið innleiðingu á ýmsum eftirlitsþáttum sem til stóð að innleiða á árinu 2004 og nauðsynlegt yrði í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á rekstrinum að farið yrði að nýju yfir áhættugreininguna hjá sjóðnum og þeirri vinnu yrði lokið fyrir apríllok. KPMG tók undir þá niðurstöðu sem fram kom í skýrslunni og nauðsyn þess að farið yrði yfir þá áhættuþætti sem væru í rekstri sjóðsins m.t.t. innra eftirlits.

2.6.1.6 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200521

Vert er að benda á að ekki kom fram í endurskoðunarskýrslu KPMG að virkni innra eftirlits Íbúðalánasjóðs hefði verið sannreynt.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var sérstakur kafli um innra eftirlit og innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs þar sem fram kom eftirfarandi:

  • Ríkisendurskoðun annaðist innri endurskoðun hjá Íbúðalánasjóði samkvæmt sérstökum samningi.22 KPMG átti fund með Ríkisendurskoðun þar sem farið var yfir athuganir hennar á starfsemi sjóðsins á árinu 2005 og tók KPMG mið af vinnu Ríkisendurskoðunar við skipulagningu endurskoðunarinnar. Athugun Ríkisendurskoðunar á árinu 2005 fólst fyrst og fremst í því að afla upplýsinga um verkferla og reglur sem voru í gildi hjá sjóðnum. Ríkisendurskoðun hafði skilað ítarlegri skýrslu23 um þær athuganir sem gerðar voru á innra eftirliti hjá sjóðnum á árinu 2005.

2.6.1.7 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200624

Vert er að benda á að ekki kom fram í endurskoðunarskýrslu KPMG að virkni innra eftirlits Íbúðalánasjóðs hefði verið sannreynt. Hins vegar kom fram að KPMG hefði tekið mið af innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 200625 við skipulagningu á endurskoðun sjóðsins.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var sérstakur kafli um innra eftirlit og innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs þar sem fram kom eftirfarandi:

  • Ríkisendurskoðun annaðist innri endurskoðun hjá Íbúðalánasjóði vegna ársins 200626 samkvæmt sérstökum samningi.27 KPMG átti fund með Ríkisendurskoðun þar sem farið var yfir athuganir hennar á starfsemi sjóðsins á árinu, KPMG fékk drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar til yfirlestrar og tók mið af þeirri vinnu við skipulagningu endurskoðunarinnar.
  • Ein af niðurstöðum Ríkisendurskoðunar var um aðgang stjórnarmanna að fundargerðum innanhúss sem var takmarkaður. KPMG var sammála og taldi eðlilegt og nauðsynlegt að stjórnarmenn hefðu aðgang að öllum fundargerðum eins og öðrum þáttum starfseminnar. Að auki var bent á að allir starfsmenn Íbúðalánasjóðs hefðu aðgang að fundargerðum stjórnar. Þetta fyrirkomulag er ekki heppilegt og gæti leitt til þess að einhverjar umræður stjórnarfunda væru ekki skráðar eða að stjórnarmönnum þætti erfitt að ræða málefni á þeim vettvangi.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um úttekt á upplýsingakerfum Íbúðalánasjóðs og er vísað til umfjöllunar í kafla 2.6.4.3 um upplýsingakerfi Íbúðalánasjóðs.

2.6.1.8 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200728

Vert er að benda á að ekki kom fram í endurskoðunarskýrslu KPMG að virkni innra eftirlits Íbúðalánasjóðs hefði verið sannreynt. Hins vegar kom fram að KPMG hafði tekið mið af innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar við skipulagningu á endurskoðun sjóðsins.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var sérstakur kafli um úttekt Ríkisendurskoðunar sem annaðist innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs vegna ársins 200729 þar sem fram kom eftirfarandi:

  • Ríkisendurskoðun hafði yfirumsjón með innri endurskoðun hjá Íbúðalánasjóði samkvæmt sérstökum samningi. Ríkisendurskoðun skilaði af sér skýrslu um innri endurskoðun í október 2007 og var tekið mið af þeirri vinnu við skipulagningu á endurskoðun sjóðsins.
  • Ekki voru gerðar alvarlegar athugasemdir [af Ríkisendurskoðun] byggðar á skoðunum á úrtökum í skýrslunni en settar voru fram ábendingar um að skoða þyrfti verkþætti sem tengdust aðstoð vegna vanskila og greiðsluerfiðleikalána.
  • Bent var á nauðsyn þess að gengið væri frá öllum verklagsreglum og útbúið heildstætt yfirlit yfir þær. Lögð var áhersla á að þessari vinnu yrði hraðað eftir föngum.
  • Í endurskoðunarskýrslu fyrra árs var bent á nauðsyn þess að stjórn fengi fundargerðir framkvæmdastjórnar eða yfirlit yfir þau mál sem framkvæmdastjórn ræðir til þess að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu á fullnægjandi hátt. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar 2007 ákvað framkvæmdastjóri hvaða málefni væru kynnt stjórnarformanni og stjórn sérstaklega. Einnig væru fundargerðir aðgengilegar stjórn sjóðsins óskaði hún eftir þeim.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um úttekt á upplýsingakerfum Íbúðalánasjóðs og er vísað til umfjöllunar um upplýsingakerfi Íbúðalánasjóðs í kafla 2.6.4.

2.6.1.9 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200830

Í endurskoðunarskýrslu KPMG kom fram að á árinu 2008 hefði verið unnið að innleiðingu ferla og eftirlitsþátta í daglegri starfsemi Íbúðalánasjóðs. Við endurskoðun ársins höfðu komið fram nokkur atriði sem vel hefði verið staðið að ásamt því að tilgreindir voru nokkrir veikleikar í innra eftirliti og frágangi fylgiskjala sem KPMG benti á:

  1. Íbúðalánasjóður gerði ekki skipulagðar birgðatalningar á útlánasamningum, skiptasamningum, veðsetningargögnum og undirskjölum þeim tengdum. KPMG taldi eigi að síður að eftirlit og utanumhald með skjölum og samningum væri í góðu lagi hjá sjóðnum. Engin skrifleg stefna væri hins vegar innan sjóðsins um birgðatalningar og lagt var til að skipulega og reglulega yrði úrtak valið af útlánasamningum, skiptasamningum, veðsetningargögnum og undirskjölum þeim tengdum og tilvist þeirra staðfest. Ekki hafði orðið vart við að gögn hafi glatast.
  2. Við endurskoðun kom í ljós að sviðsstjóri rekstrarsviðs hafði heimild til millifærslu af bankareikningum og gat bókað færslur í bókhaldið vegna þeirra. Tryggja þyrfti að afstemmingar, yfirferð og eftirlit með þeim væru framkvæmdar af öðrum starfsmanni en þeim sem höfðu greiðsluheimild.
  3. Aðgangsstýringar inn í upplýsingakerfi þyrftu að vera með formlegum hætti. Þannig þyrfti að vera tryggt að starfsmenn hefðu viðeigandi aðgangsheimildir. Aðgangsstýringar að upplýsingakerfum styrktu innra eftirlit sjóðsins.
  4. Við athugun á ferli við fjárfestingar á skammtímakröfum eða markaðsverðbréfum kom í ljós að starfsmaður fjármálasviðs, með B-heimild, sem sá um fjárfestingar og skráningu í upplýsingakerfi sjóðsins gat átt viðskipti án þess að fyrst væri aflað samþykkis eða staðfestingar annars starfsmanns með B-heimild eða yfirmanns með A-heimild.
  5. Við athugun á utanumhaldi um kröfur á lánastofnanir kom í ljós að starfsmenn fjármálasviðs útbjuggu fylgiskjöl til að bóka afborganir og áfallna vexti samkvæmt skýrslum frá viðkomandi lánastofnunum og studdust alfarið við þær. Til þess að eftirlit yrði með viðkomandi kröfum og undirliggjandi lánasöfnum þyrftu starfsmenn að afla frekari staðfestinga á að skýrslur væru réttar. Slíkra staðfestinga var aflað vegna ársins 2007. Árlega þyrfti að afla staðfestingar frá innri endurskoðendum lánastofnana eða með sérstökum úttektum starfsmanna Íbúðalánasjóðs þar sem staðfest væri að skýrslur og upplýsingar væru réttar og fullnægjandi.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um úttekt á upplýsingakerfum Íbúðalánasjóðs og er vísað til umfjöllunar um upplýsingakerfi Íbúðalánasjóðs í kafla 2.6.4.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs vegna ársins 2008 og er vísað til umfjöllunar í kafla 2.6.2.

2.6.1.10 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 200931

Í endurskoðunarskýrslu KPMG kom fram að á árinu 2009 hefði verið unnið áfram að innleiðingu ferla og eftirlitsþátta í daglegri starfsemi Íbúðalánasjóðs. Við endurskoðun ársins höfðu komið fram nokkur atriði sem vel hafði verið staðið að ásamt því að nokkrir veikleikar voru tilgreindir í innra eftirliti og frágangi fylgiskjala sem KPMG benti á:

  1. KPMG taldi nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi breyttra aðstæðna, svo sem vegna skuldbreytinga og frystingar lána, að sjóðurinn framkvæmdi með reglubundnari hætti greiningar á því hvort vaxtatekjur og vaxtagjöld af fjáreignum og fjárskuldum væru í samræmi við væntingar og hvort vaxtamunur væri eðlilegur. Með slíkum greiningum ætti sjóðurinn að geta fylgst betur með flæði tekna og gjalda.
  2. Við endurskoðun kom í ljós að starfsmaður í reikningshaldi hafði heimild til millifærslu af bankareikningum og gat bókað færslur í bókhaldið vegna þeirra. KPMG lagði áherslu á að tryggja þyrfti að afstemmingar, yfirferð og eftirlit með þeim væru framkvæmdar af öðrum starfsmanni en þeim sem hefðu greiðsluheimild.
  3. Við athugun á utanumhaldi um kröfur á lánastofnanir kom í ljós að starfsmenn fjármálasviðs útbjuggu fylgiskjöl til að bóka afborganir og áfallna vexti samkvæmt skýrslum frá viðkomandi lánastofnunum og studdust alfarið við þær. Til þess að eftirlit yrði með viðkomandi kröfum og undirliggjandi lánasöfnum þyrftu starfsmenn að afla frekari staðfestinga á að skýrslur væru réttar. Slíkra staðfestinga var aflað vegna ársins 2007. Þrátt fyrir óskir um staðfestingu hefðu verið sendar til viðkomandi lánastofnana í árslok 2009 fengust ekki svör. KPMG ítrekar athugasemdir frá fyrra ári um að árlega þyrfti að afla staðfestingar frá innri endurskoðendum lánastofnana eða með sérstökum úttektum starfsmanna Íbúðalánasjóðs þar sem staðfest væri að skýrslur og upplýsingar væru réttar og fullnægjandi. Lagt var til að á árinu 2010 yrði unnið að greiningartæki þar sem sannreyna mætti eðlilega ávöxtun, breytingar og uppgreiðslur.
  4. Við skoðun kom í ljós að innherjalisti var ekki uppfærður og var bent á þá aðila sem vantaði á listann.
  5. Við skoðun kom í ljós að starfsmaður sem hættur var störfum var á prókúrulista sjóðsins. Prókúrulistann þyrfti að uppfæra og lagt var til að forstöðumenn sviða sæju til þess að starfsmenn einstakra sviða bæru ábyrgð og hefðu þá prókúru sem starfslýsing segði til um.
  6. Farið var yfir færslur eftir því hver bókaði þær. KPMG benti á mikilvægi þess að tveir starfsmenn kæmu að stærri og flóknari færslum og að þær fengju sýnilega meðferð.
  7. KPMG benti á að nauðsynlegt væri að allir efnahagsliðir væru afstemmdir í uppgjörum og að afstemmingar væru studdar með utanaðkomandi gögnum eða gögnum úr bókhaldi sjóðsins.
  8. Í uppgjöri sjóðsins var þónokkuð stuðst við Excel-skjöl við útreikninga á mikilvægum liðum, svo sem núvirðingu lána. KPMG benti á að mikilvægt væri að stýra vandlega aðgangi að þessum skjölum þar sem mikil hætta væri á villum í þeim.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um úttekt á upplýsingakerfum Íbúðalánasjóðs og er vísað til umfjöllunar um upplýsingakerfi Íbúðalánasjóðs í kafla 2.6.4.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs vegna ársins 2009 og er vísað til umfjöllunar í kafla 2.6.2.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um úttekt Fjármálaeftirlitsins á útlánaáhættu sex stærstu fjármálafyrirtækja landsins. Úttektin hófst þann 10. desember 2007 og lauk með skýrslu sem dagsett er í desember 2008, sjá nánari umfjöllun í kafla 2.6.3.5.1.

2.6.1.11 Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 201032

Við endurskoðun ársins komu fram nokkur atriði sem vel hafði verið staðið að ásamt því að nokkrir veikleikar voru tilgreindir í innra eftirliti og frágangi fylgiskjala sem KPMG benti á:

  1. KPMG taldi nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi breyttra aðstæðna, svo sem vegna skuldbreytinga og frystingar lána, að sjóðurinn framkvæmdi með reglubundnari hætti greiningar á því hvort vaxtatekjur og vaxtagjöld af fjáreignum og fjárskuldum væru í samræmi við væntingar og hvort vaxtamunur væri eðlilegur. Með slíkum greiningum ætti sjóðurinn að geta fylgst betur með flæði tekna og gjalda. Þessi athugasemd var sú sama og KPMG setti fram í endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2009.
  2. Vegna umsjónar með kröfum á lánastofnanir framkvæmdi KPMG greiningar á vaxtatekjum vegna lánasafna/greiðsluflæðissafna við NBI hf. og Íslandsbanka hf. Í ljós kom að útreiknuð ávöxtun var nálægt væntingum hvað varðar NBI hf. en ekki Íslandsbanka hf. Í ljós kom, eins og raunar undanfarin ár, sbr. endurskoðunarskýrslur KPMG vegna áranna 2008 og 2009, að starfsmenn fjármálasviðs Íbúðalánasjóðs útbjuggu fylgiskjöl til að bóka afborganir og áfallna vexti samkvæmt skýrslum frá viðkomandi lánastofnunum og studdust alfarið við þær. Til þess að eftirlit yrði með viðkomandi kröfum og undirliggjandi lánasöfnum þyrftu starfsmenn að afla frekari staðfestinga á að skýrslur væru réttar. Slíkra staðfestinga var aflað frá NBI hf. vegna ársins 2010 en staðfesting barst ekki frá Íslandsbanka hf. KPMG ítrekaði athugasemdir frá fyrra ári um að minnsta kosti árlega yrði aflað staðfestingar frá innri endurskoðendum lánastofnana eða með sérstökum úttektum starfsmanna Íbúðalánasjóðs þar sem staðfest væri að skýrslur og upplýsingar væru réttar og fullnægjandi. KPMG lagði til að á árinu 2011 yrði unnið að greiningartæki þar sem sannreyna mætti eðlilega ávöxtun, breytingar og uppgreiðslur.
  3. Farið var yfir færslur eftir því hver bókaði þær. KPMG benti á mikilvægi þess að tveir starfsmenn kæmu að stærri og flóknari færslum og að þær fengju sýnilega meðferð.
  4. KPMG ítrekaði ábendingu um að nauðsynlegt væri að allir efnahagsliðir væru afstemmdir í uppgjörum og að afstemmingar væru studdar með utanaðkomandi gögnum eða gögnum úr bókhaldi sjóðsins.
  5. Í uppgjöri sjóðsins var þónokkuð stuðst við Excel-skjöl við útreikninga á mikilvægum liðum, svo sem núvirðingu lána. KPMG ítrekaði ábendingu um mikilvægi þess að stýra vandlega aðgangi að þessum skjölum þar sem villuhætta er mikil í þeim.
  6. KPMG bendir á að æskilegt væri að auka mannafla á fjármálasviði sjóðsins til að annast greiningar, uppgjör og úrvinnslu upplýsinga. Samræma mætti betur upplýsingaflæði frá sjóðnum þannig að virk stýring væri á því.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um úttekt á upplýsingakerfum Íbúðalánasjóðs og er vísað til umfjöllunar um upplýsingakerfi Íbúðalánasjóðs í kafla 2.6.4.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs vegna ársins 201033 og er vísað til umfjöllunar í kafla 2.6.2.

2.6.1.12 Endurskoðunarskýrslu KPMG vegna 201134

Við endurskoðun ársins komu fram nokkur atriði sem vel hafði verið staðið að ásamt því að nokkrir veikleikar voru tilgreindir í innra eftirliti og frágangi fylgiskjala sem KPMG benti á:

  1. Á árinu 2011 hóf sjóðurinn að framkvæma eigin vaxtagreiningar en KPMG hafði ítrekað gert athugasemdir við að það vantaði. Vinnulag KPMG breyttist að sama skapi og fólst nú að stórum hluta í yfirferð þeirra gagna sem sjóðurinn byggði greiningu sína á. Vaxtagreining sjóðsins fólst í því að draga saman vegna ávöxtunarkröfu flokka fjáreigna og fjárskulda og reikna þannig út hver vaxtamunur ætti að vera. KPMG taldi nauðsynlegt að sjóðurinn bætti við vaxtagreiningu sína í framtíðinni og greindi með ítarlegum hætti raunverulega ávöxtun einstakra flokka fjáreigna og fjárskulda og bæri saman við vænta ávöxtun. Með öðrum orðum var ekki nægjanlegt að mati KPMG að greina hver ávöxtun einstakra flokka ætti að vera heldur þyrfti að skoða hver ávöxtunin var í raun og greina frávik eftir því sem við ætti.
  2. Vegna utanumhalds um kröfur á lánastofnanir framkvæmdi KPMG greiningar á vaxtatekjum vegna lánasafna/greiðsluflæðissafna við Landsbanka hf. og Íslandsbanka hf. KPMG nefndi sérstaklega nauðsyn þess að greina með ítarlegum hætti ávöxtun lánasafna/greiðsluflæðissafna frá viðkomandi fjármálafyrirtækjum.
  3. Farið var yfir launaferli Íbúðalánasjóðs þar sem aðgreining starfa og eftirlitsþættir í kringum ráðningarsamninga, bókanir í bókhald og útborganir voru athugaðar. Athugun leiddi í ljós veikleika í innra eftirliti þar sem aðgreining starfa var ekki nægjanleg. Enginn yfirfór vinnu verkefnastjóra starfsmannamála varðandi útreikning launa en Fjársýsla ríkisins sá um útgreiðslu á launum til starfsmanna og greiðslu á launatengdum gjöldum. Lagt var til að framkvæmdastjóri eða forstöðumaður fjármálasviðs yfirfæru launaútreikninga og samþykktu áður en skilagreinar væru sendar til Fjársýslu ríkisins.
  4. Í endurskoðun var farið yfir ferla í kringum helstu eignir og skuldir Íbúðalánasjóðs. Farið var yfir ferla í kringum handbært fé, útlán, fasteignir til sölu og verðbréfaútgáfu. Við endurskoðun voru eftirlitsþættir og ferlar sannreyndir með úrtökum. Farið var yfir ferlana með starfsmönnum Íbúðalánasjóðs og fengnar útskýringar á almennri starfsemi og verkaskiptingu innan sjóðsins. KPMG benti á að heimildir starfsmanna til að skuldbinda sjóðinn þyrftu að vera í samræmi við starfsskyldur og tryggja þyrfti að starfsmaður þekkti hverjar takmarkanir væru á þeim heimildum sem hann hefði hverju sinni. Einnig benti KPMG á að stillingar í CapDirect-afgreiðslukerfinu tryggðu að tvo aðila þyrfti til að samþykkja endanleg kaup á bréfi, en kerfið héldi ekki utan um hvort starfsmaður hefði réttar heimildir til að samþykkja endanleg kaup.
  5. Ákvæði var í lögum og reglum um útlán til einstaklinga. Engar formlegar verklagsreglur voru til hjá sjóðnum vegna lána til einstaklinga, fyrir utan þær vinnureglur sem voru í CapDirect-afgreiðslukerfinu. KPMG benti á að æskilegt væri að stjórn setti formlegar verklagsreglur vegna lána til einstaklinga til leiðbeiningar fyrir starfsfólk sjóðsins.
  6. Farið var yfir færslur eftir því hver bókaði þær. KPMG benti á mikilvægi þess að tveir starfsmenn kæmu að stærri og flóknari færslum og að þær fengju sýnilega meðferð.
  7. KPMG ítrekar ábendingu um nauðsyn þess að allir efnahagsliðir væru afstemmdir í uppgjörum og að afstemmingar væru studdar með utanaðkomandi gögnum eða gögnum úr bókhaldi sjóðsins.
  8. Í uppgjöri sjóðsins var þó nokkuð stuðst við Excel-skjöl við útreikninga á mikilvægum liðum, svo sem núvirðingu lána, tekjufærslu lántökugjalda og útreikninga á virðisrýrnun. KPMG ítrekaði ábendingu um mikilvægi þess að stýra vandlega aðgangi að þessum skjölum þar sem villuhætta væri mikil í þeim og einnig að laga þyrfti skjölin þannig að yfirsýn fengist yfir færslur milli tímabila og að í þeim væru innbyggðar afstemmingar sem kæmu upp um villur.
  9. KPMG benti á að auka þyrfti yfirlestur innanhúss á upplýsingum sem notaðar væru við gerð ársreiknings, að yfirferð stjórnenda á upplýsingum væri sýnileg og að ársreikningur væri vandlega yfirfarinn.
  10. KPMG benti á mikilvægi þess að greiningar, uppgjör og úrvinnsla upplýsinga væri unnið þannig að tímanleg yfirferð næðist af hendi endurskoðenda, endurskoðunarnefndar, stjórnenda sjóðsins og stjórnar.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um úttekt á upplýsingakerfum Íbúðalánasjóðs og er vísað til umfjöllunar um upplýsingakerfi Íbúðalánasjóðs í kafla 2.6.4.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG var umfjöllun um innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs vegna ársins 201135 og er vísað til umfjöllunar í kafla 2.6.2.

2.6.2 Innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs

Innri endurskoðun á Íbúðalánasjóði var fyrst framkvæmd fyrir árið 2005 af Ríkisendurskoðun, samkvæmt samningi36 aðila, dagsettum 15. júní 2005. Samningurinn var um innri endurskoðun vegna ársins 2005 til og með 2007. Gerður var nýr samningur37 milli sömu aðila, dagsettur 4. janúar 2008, um innri endurskoðun sem gilti til ársloka 2010.

Stjórn Íbúðalánasjóðs ákvað að stofna sérstaka deild sem annast ætti innri endurskoðun hjá sjóðnum. Til stóð að hún hæfi störf í byrjun árs 2011 en það gekk ekki eftir. Í ljósi þess var gerður nýr samningur38 milli Íbúðalánasjóðs og Ríkisendurskoðunar, dagsettur 19. september 2011, um innri endurskoðun ársins 2011.

Ríkisendurskoðun skilaði skýrslum um innri endurskoðun fyrir framangreind ár til stjórnar sjóðsins að undanskildu árinu 2008 en fyrir það ár samdi hún þess í stað greinargerðir um einstök mál sem rakin eru í innri endurskoðunarskýrslu fyrir árið 2009.39 Eftirfarandi eru helstu athugasemdir og ábendingar sem koma fram í innri endurskoðunarskýrslum Ríkisendurskoðunar.

Ríkisendurskoðun var Íbúðalánasjóði innan handar við gerð draga að erindisbréfi fyrir innri endurskoðun, í samvinnu við starfsmann innra eftirlits hjá sjóðnum. Þrátt fyrir að stjórn sjóðsins hefði samþykkt að stofna innri endurskoðunardeild höfðu þær raddir heyrst innanhúss hjá sjóðnum að ekki væri þörf fyrir slíka deild til að sinna innri endurskoðun allt árið heldur væri nægilegt að semja við utanaðkomandi aðila um ákveðinn tímafjölda á ári til að annast innri endurskoðun. Í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 2011 komu fram eftirfarandi röksemdafærslur:

  1. Ríkisendurskoðun var ósammála því að ekki væri þörf fyrir slíka innri endurskoðunardeild og vísaði í því sambandi til fjárhagslegs umfangs sjóðsins.
  2. Ríkisendurskoðun mælti með því að deildin yrði hluti af skipulagi sjóðsins og stór þáttur í eftirlitskerfi hans og ætti m.a. að leggja mat á og bæta virkni áhættustýringar sjóðsins.
  3. Samkvæmt drögum að erindisbréfi yrðu viðfangsefni innri endurskoðunar mjög umfangsmikil.
  4. Ríkisendurskoðun benti á að þrátt fyrir að Íbúðalánasjóður væri ekki eftirlitsskyldur aðili samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki þá hagaði hann starfsemi sinni sem slíkt.
  5. Það lægju því veigamikil rök til þess að hjá sjóðnum væri starfrækt innri endurskoðunardeild og mælti Ríkisendurskoðun með því.

2.6.2.1 Innri endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar vegna 200540

Ríkisendurskoðun lauk innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2005 í janúar 2006. Var það fyrsta innri endurskoðunarskýrsla sem gerð var fyrir Íbúðalánasjóð. Í henni komu fram fjölmargar athugasemdir og ábendingar en hér verða raktar hinar helstu þeirra:

  1. Innleiðing margra eftirlitsaðgerða, sem fjallað er um í kafla 2.6.4, höfðu ekki komist til framkvæmda vegna þess að verklagsreglur og verkferla vantaði.
  2. Stjórn sjóðsins hafði ekki sett sér starfsreglur. Það var því ekki skjalfest hvernig verkaskiptingu milli stjórnar og framkvæmdastjóra skyldi háttað og heldur ekki samskiptum þeirra við félagsmálaráðuneytið.
  3. Uppfærð heildarstefnumótun fyrir sjóðinn lá ekki fyrir. Í slíkri stefnu hefði átt að koma fram skilgreining á hlutverki sjóðsins, framtíðarsýn hans, helstu áherslur gagnvart stjórnvöldum, viðskiptavinum og samstarfsaðilum og skilgreining á stefnumótandi þáttum innri málaflokka. Áhættugreiningin og áhættumat tækju síðan eðlilega mið af heildarstefnumótun sjóðsins.
  4. Uppfærð heildstæð öryggisstefna lá ekki fyrir.
  5. Yfir tveimur af sviðum sjóðsins, áhættustýringarsviði og fjárstýringarsviði, var sami starfsmaðurinn sem jafnframt var verktaki. Hann var því ekki starfsmaður undir sömu formerkjum og hinir sem störfuðu hjá sjóðnum og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins tóku til.
  6. Skortur var á skriflegum verklagsreglum.
    • Ekki lágu fyrir skriflegir verkferlar vegna fjárstýringar.
    • Ekki lágu fyrir skriflegir verkferlar um hvernig aðkomu starfsmanna var háttað að banka-, gjaldkera- og bókhaldsmálum og hvernig þau tengdust.
    • Ekki lá fyrir skriflegur verkferill eða listi yfir allt sem viðkom bankamálum.
  7. Skortur var á því að farið væri eftir skriflegum verklagsreglum.
    • Þrátt fyrir að fyrir lægju skriflegar verklagsreglur um bókun og greiðslu reikninga viðhafði sjóðurinn þau vinnubrögð að sami starfsmaðurinn bókaði flesta reikninga, greiddi þá og stemmdi af bankareikninga.
    • Starfsmaður sem sinnti bókunarstörfum og greiðslu reikninga í forföllum gjaldkera gerði það í tölvu gjaldkerans og með hans notandanafni og leyniorði.
    • Þrátt fyrir að sjóðurinn starfrækti samþykktarkerfi, sem undirkerfi fjárhagsbókhaldskerfis, þá voru ekki allir reikningar skannaðir í það kerfi og var því samþykkt þeirra ekki rafræn. Það hafði í för með sér að greiðsluseðlar viðkomandi reikninga voru ekki greiddir í gegnum fjárhagsbókhaldskerfi sjóðsins heldur voru þeir skráðir handvirkt í fyrirtækjabankann.
  8. Eignaskrá lá ekki fyrir en var í vinnslu samkvæmt upplýsingum stjórnenda. Mælti Ríkisendurskoðun með því að eignaskráin innihéldi bæði eignfærðar og gjaldfærðar fjárfestingar rekstrarfjármuna og að settar yrðu verklagsreglur um skráningu eigna og að skýrt væri hver bæri ábyrgð á skráningu hennar.
  9. Ríkisendurskoðun benti á að stjórnendur sjóðsins væru vel meðvitaðir um nauðsyn á aðgreiningu starfa innan sjóðsins en að hún hefði ekki verið skjalfest með skipulögðum hætti. Fram kom að í vinnslu væru verklagsreglur um aðgreiningu starfa vegna afgreiðslu lána, áhættu- og fjárstýringar ásamt gjaldkera-, banka- og bókhaldsmálum.

2.6.2.2 Innri endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar vegna 200641

Ríkisendurskoðun lauk innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2006 í nóvember sama ár. Í henni komu fram fjölmargar athugasemdir og ábendingar og eru hinar helstu þær sem hér verða raktar:

  1. Innleiðing innri eftirlitsþátta í starfseminni hafði ekki gengið sem skyldi og var vísað til tafa við gerð verklagsreglna og verkferla um skilgreinda þætti. Ríkisendurskoðun lagði áherslu á að vinnu við innleiðingu eftirlitsþátta yrði hraðað.
  2. Nýframlagðar starfsreglur fyrir stjórn Íbúðalánasjóðs voru ekki í nægjanlega föstum skorðum og að stjórnarmenn þyrftu að lesa margar skýrslur til að öðlast heildstæða yfirsýn yfir starfsemi sjóðsins.
  3. Stjórnarmenn fengu ekki fundargerðir framkvæmdastjórnar þrátt fyrir að mörg af málum sem tekin voru fyrir í framkvæmdastjórn rötuðu inn á borð stjórnarinnar.
  4. Stjórnarmenn fengu ekki fundargerðir fjárhagsnefndar.
  5. Eftirfarandi athugasemdir sem þegar höfðu komið fram voru í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar en Íbúðalánasjóður ekki brugðist við með þeim hætti sem Ríkisendurskoðun vænti:
    • Ekki hafði verið gengið endanlega frá áhættugreiningu og formlegu áhættumati en fyrir lá að sú vinna var í gangi. Ríkisendurskoðun gerði ekki athugasemdir við þá aðferðafræði sem beitt var í því sambandi en lagði áherslu á að allir eftirlitsþættir, sem fyrir lágu í drögum, kæmu til framkvæmda sem fyrst.
    • Ekki hafði verið gengið frá öllum verklagsreglum og heildstæðu yfirliti yfir þær verklagsreglur sem voru fyrir hendi.
    • Ekki hafði verið gengið eftir að fyrir lægju fullnægjandi, dagsettar og undirritaðar starfslýsingar. Ríkisendurskoðun lagði áherslu á að því lyki sem fyrst.
    • Ekki lá fyrir uppfærð og skjalfest heildarstefnumótun fyrir Íbúðalánasjóð.
    • Ekki lá fyrir uppfærð heildstæð öryggisstefna fyrir Íbúðalánasjóð. Meðal athugasemda um öryggisstefnu voru öryggismál upplýsingakerfa, aðgangstakmarkanir að vinnustöðvum starfsmanna í opnum rýmum og fyrirkomulag á vistun frumrita af skuldabréfum sjóðsins í starfsstöð á Sauðárkróki.
    • Ekki lá fyrir skjalfest regla um hvaða skýrslur stjórn sjóðsins ætti að fá reglulega og hver bæri ábyrgð á gerð þeirra.
    • Ekki lá fyrir endanlega eignaskrá.
    • Ekki lá fyrir skriflegur og myndrænn verkferill vegna fjárstýringar og tengingar við bókhald.

Í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar komu fram skýringar starfsmanna sjóðsins á því hvers vegna innleiðing eftirlitsaðgerða í starfseminni hefði ekki gengið sem skyldi og voru ástæðurnar helstar:

  • Á árinu 2004 hefði Íbúðalánasjóður gengið í gegnum umfangs-miklar skipulagsbreytingar.
  • Órói hefði verið í kringum sjóðinn á liðnum árum þar sem tekist hefði verið á um tilveru hans.
  • Óróinn hefði skapað öryggisleysi hjá starfsmönnum sjóðsins og hægt á ákvörðunartöku stjórnenda hans að einhverju marki.

2.6.2.3 Innri endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar vegna 200742

Ríkisendurskoðun lauk innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2007 í október sama ár. Í henni komu fram fjölmargar athugasemdir og ábendingar og verða hinar helstu raktar hér:

  1. Innleiðing innri eftirlitsþátta í starfseminni hafði ekki gengið sem skyldi og var vísað til tafa við gerð verklagsreglna og verkferla um skilgreinda þætti. Ríkisendurskoðun lagði þunga áherslu á að vinnu við innleiðingu eftirlitsþátta yrði lokið á árinu 2007 ásamt því að gengið yrði frá heildstæðu yfirliti um reglurnar. Ríkisendurskoðun ítrekaði að framkvæmdastjórar sviðanna bæru ábyrgð á að innra eftirlit í starfsemi sjóðsins væri virkt. Að mati Ríkisendurskoðunar var það einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi Íbúðalánasjóðs að verklagsreglur og verkferlar væru til staðar.
  2. Íbúðalánasjóður hafði unnið að gerð heildstæðrar öryggisstefnu og lágu fyrir drög frá júlí 2007. Ríkisendurskoðun lagði áherslu á að gengið yrði frá þessum reglum sem fyrst.
  3. Eftirfarandi athugasemdir sem þegar höfðu komið fram voru í innri endurskoðunarskýrslum Ríkisendurskoðunar vegna áranna 200543 og 200644 en Íbúðalánasjóður ekki brugðist við með þeim hætti sem Ríkisendurskoðun vænti. Athugasemdirnar voru mismikilvægar en þær sem nauðsynlegt var talið að unnið yrði úr sem fyrst lutu að:
    • áhættugreiningu,
    • áhættumati og frágangi,
    • yfirliti um verklags- og vinnureglur,
    • gerð yrði heildstæð öryggisstefna,
    • eignaskrá yrði uppfærð,
    • gert yrði heildstætt yfirlit um bankareikninga og
    • yfirlit um tölvuumhverfið.

Þetta hafði aðeins þokast í rétta átt en engan veginn eins hratt og væntingar stóðu til. Öryggisstefnan lá fyrir í drögum, vinna var hafin við eignaskráningu, heildstætt yfirlit um bankareikninga var ekki alveg fullunnið og gengið hafði verið frá yfirliti um tölvuumhverfið. Þá lá fyrir uppfærð greinargerð, sem samþykkt var af stjórn sjóðsins í desember 2006, sem nefndist „Innra eftirlit – áhættugreining og eftirlitsaðgerðir“45. Með þessari greinargerð töldu starfsmenn að áhættugreiningu væri lokið. Hins vegar hafði vinnu við gerð verklagsreglna og verkferla vegna þessara eftirlitsaðgerða seinkað eins og áður hafði komið fram.

2.6.2.4 Innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs vegna 2008

Ríkisendurskoðun gerði ekki sérstaka innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2008. Þess í stað samdi Ríkisendurskoðun greinargerðir um sérstök mál sem skoðuð voru.

Í sérstökum kafla um innri endurskoðun 2008 í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 200846 var að finna umfjöllun um stöðu innra eftirlits og innri eftirlitsþátta sjóðsins á árinu 2008 sem var eftirfarandi:

Við athugun KPMG á vinnu innri endurskoðenda sjóðsins kom í ljós að á árinu 2008 var eingöngu um að ræða sérstaka athugun að beiðni félagsmálaráðherra. Beiðnin fólst í úttekt á ferli Íbúðalánasjóðs við lánveitingu til byggingaraðila, þegar um var að ræða breytingu á atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Úttektin var unnin þar sem Íbúðalánasjóður hafði gert skriflegar athugasemdir við Fasteignamat ríkisins og byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar um skráningu fyrrgreindrar breytingar á tilteknu húsnæði. Innri endurskoðandi gerði ekki athugasemdir við ferlið við lánveitingar til fyrirtækja.

Eftir athugasemd frá Ríkisendurskoðun hafði allsherjarátak verið sett í gang innan Íbúðalánasjóðs í uppbyggingu og lýsingu á innra eftirliti sjóðsins. Svið innra eftirlits var með yfirumsjón yfir átakinu sem fólst í því að teikna upp verkferla sjóðsins ásamt því að skrifa vinnulýsingar og leiðbeiningar fyrir hvert verkefni. Hver starfsmaður var látinn bera ábyrgð á ferlalýsingum tengdum starfi sínu. Eftirlit og yfirumsjón með innleiðingu og framkvæmd ferlanna var á ábyrgð sviðsstjóra. Öllum verkferlum, vinnulýsingum og leiðbeiningum var safnað saman í eina starfsmannahandbók sem var rafræn og aðgengileg öllum starfsmönnum á innra neti sjóðsins. Handbókinni var skipt í nokkur starfssvið, þ.e. samningagerð, fjárstýringu, lánveitingar, innheimtu, kynningar- og markaðsmál, tölvumál, rekstur og bókhald, skjalastjórnun, rekstur stjórnkerfa ásamt því að verklýsingar voru um innra eftirlit og öryggismál og sérkafli var um hlutverk, starfsemi og stefnur hjá sjóðnum.

Eins og staðan var um miðjan mars 2009 var eftir að klára verkferla sem tengdust upplýsinga- og tæknisviði, reikningshaldi, innra eftirliti og öryggismálum og ferla sem tengdust samningsgerð. Áætlað var að klára verkferla, vinnulýsingar og leiðbeiningar fyrir sumarið 2009. Innra eftirlit Íbúðalánasjóðs áætlaði að haustið 2009 yrði fyrst hægt að skoða virkni á innra eftirlitinu.

2.6.2.5 Innri endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar vegna 200947

Ríkisendurskoðun lauk innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2009 í desember sama ár. Fram kom að Ríkisendurskoðun gekk ekki frá sérstakri skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2008 en samdi greinargerðir um sérstök mál sem fjallað var um í innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2009. Í henni komu fram fjölmargar athugasemdir og ábendingar og voru þær helstu eftirfarandi:

  1. Í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að Fjármálaeftirlitið gerði á árinu 2008 athugasemd þess efnis að ekki væru til staðar hjá Íbúðalánasjóði formlegar heildstæðar innri verklagsreglur um lánveitingar, sbr. umfjöllun í kafla 2.6.3.5.1. Fram kom að Fjármálaeftirlitið hefði tekið undir margar af athugasemdum Ríkisendurskoðunar.
  2. Í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að Fjármálaeftirlitið gerði á árinu 2009 athugasemd þess efnis að áhættustýring vegna útlánaáhættu ætti sér hvergi formlegan stað innan skipulags sjóðsins, sbr. umfjöllun í kafla 2.6.3.5.1
  3. Eftirfarandi athugasemdir höfðu þegar komið fram í innri endurskoðunarskýrslum Ríkisendurskoðunar en Íbúðalánasjóður ekki brugðist við með þeim hætti sem Ríkisendurskoðun vænti:
    1. Innleiðingu innri eftirlitsþátta í starfseminni, gerð og skráningu verklags- og vinnureglna hafði enn ekki verið lokið af hálfu Íbúðalánasjóðs. Í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 200748 var lögð þung áherslu á að því ætti að ljúka á árinu 2007 en athugasemdin kom fyrst fram í fyrstu innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 200549. Nú fjórum árum seinna hafði sjóðnum ekki enn tekist að ljúka verkinu og enn á ný lagði Ríkisendurskoðun áherslu á að því lyki sem allra fyrst.
    2. Ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi upplýsingagjöf til stjórnar Íbúðalánasjóðs. Ríkisendurskoðun hafði bent á að sjóðurinn þyrfti að gera skýrslur um helstu þætti í starfseminni sem væru jafnframt aðgengilegar og nýttust stjórn Íbúðalánasjóðs til að sinna eftirlitshlutverki sínu sem og til ákvarðanatöku. Þessi athugasemd var í vinnslu hjá þróunarsviði Íbúðalánasjóðs en það svið hafði verið fellt niður í stjórnskipulagi sjóðsins og málið lagt til hliðar. Ríkisendurskoðun áréttaði að málið yrði tekið upp að nýju.
    3. Ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum Ríkisendurskoðunar um að allar starfslýsingar væru undirritaðar og dagsettar. Fram kom að Ríkisendurskoðun lýsti furðu sinni á því hve langan tíma hefði tekið fyrir Íbúðalánasjóð að bregðast við þessari athugasemd og lagði áherslu á að því lyki um komandi áramót.
    4. Ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi gerð heildstæðs lista yfir allt er viðkom bankamálum Íbúðalánasjóðs. Heildstæður listi var einungis til að hluta þar sem fram kom hverjir höfðu heimildir til að millifæra eða skoða stöður á bankareikningum en ekki komu fram upplýsingar um stofnun reikninganna, hvernig að því var staðið, hve oft viðkomandi bankareikningar voru afstemmdir né hvaða starfsmenn sáu um afstemmingar þeirra. Lagði Ríkisendurskoðun til að slíkur listi yrði fullunninn.
    5. Ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi öryggismál er tengdust geymslu skuldabréfa í starfsstöð Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki. Ríkisendurskoðun lagði áherslu á að stjórnendur sjóðsins yfirfæru þennan þátt gaumgæfilega þegar gengið yrði frá öryggisreglum í samræmi við öryggisstefnu sjóðsins.
    6. Ekki hafði verið brugðist við athugasemd Ríkisendurskoðunar um veikleika í innra eftirlitsferli Varasjóðs húsnæðismála er sneri að aðgreiningu starfa. Fram kom að Ríkisendurskoðun hafði í bréfi til Íbúðalánasjóðs, dagsettu 29. október 2007, lagt til að stjórnendur Íbúðalánasjóðs tækju á sérstökum veikleika hjá Varasjóðnum sem laut að aðgreiningu starfa en framkvæmdastjóri Varasjóðsins sá um allan rekstur, bókhald og fjármál hans.

2.6.2.6 Innri endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar vegna 201050

Ríkisendurskoðun lauk innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2010 í desember sama ár. Í henni komu fram fjölmargar athugasemdir og ábendingar og eru þær helstu eftirfarandi:

  1. Öryggisstefna Íbúðalánasjóðs var samþykkt á fundi stjórnar 27. nóvember 2008.51 Meðal markmiða var að gæði hennar skyldu könnuð árlega en það hafði ekki verið gert né hafði verið fylgt eftir tilteknum liðum öryggisstefnunnar. Ríkisendurskoðun lagði til að öryggisstefnan yrði uppfærð, markmiðum hennar fylgt eftir og mælikvarðar skilgreindir.
  2. Í lok árs 2008 var gengið frá nokkrum einstökum stefnumálum, svo sem öryggisstefnu, starfsmannastefnu, jafnréttisstefnu, skjalastefnu, stefnu um rekstrarsamfellu og umhverfisstefnu. Þær höfðu ekki verið endurskoðaðar og uppfærðar síðan en í þeim var gert ráð fyrir að þær yrðu endurskoðaðar í nóvember ár hvert. Ríkisendurskoðun lagði til að stefnur þessar yrðu yfirfarnar og afgreiddar af stjórn Íbúðalánasjóðs.
  3. Ríkisendurskoðun benti á að „óþarfa seinagangur“ leiddi til þess að Íbúðalánasjóður greiddi dráttarvexti við greiðslu reikninga vegna tafa við rafrænt samþykktarkerfi reikninga.
  4. Ríkisendurskoðun lagði til að Íbúðalánasjóður setti sér verklagsreglur varðandi risnu, þrátt fyrir að um óverulegar fjárhæðir væri að ræða.
  5. Ríkisendurskoðun lagði til að Íbúðalánasjóður skerpti á verklagsreglum varðandi lán til endurbóta og viðauka og lán til byggingar leiguíbúða.
  6. Eftirfarandi athugasemdir höfðu þegar komið fram í innri endurskoðunarskýrslum Ríkisendurskoðunar en Íbúðalánasjóður ekki brugðist við með þeim hætti sem Ríkisendurskoðun vænti:
    1. Innleiðingu innri eftirlitsþátta í starfseminni, gerð og skráningu verklags- og vinnureglna hafði enn ekki verið lokið af hálfu Íbúðalánasjóðs. Í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 200752 var lögð þung áherslu á að því ætti að ljúka á árinu 2007 en athugasemdin kom fyrst fram í fyrstu innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 2005.53 Á árinu 2010, eða fimm árum síðar, hafði sjóðnum ekki enn tekist að ljúka verkinu og enn á ný lagði Ríkisendurskoðun áherslu á að því lyki sem allra fyrst og sagði orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar: „Stjórnendur sjóðsins verða að taka þetta mál fastari tökum, bretta upp ermar og ljúka þessari innleiðingu hið fyrsta.“
    2. Ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi upplýsingagjöf til stjórnar Íbúðalánasjóðs. Ríkisendurskoðun hafði bent á að sjóðurinn þyrfti að gera skýrslur um helstu þætti í starfseminni sem væru jafnframt aðgengilegar og nýttust stjórn Íbúðalánasjóðs til að sinna eftirlitshlutverki sínu sem og til ákvarðanatöku. Þessi athugasemd var í vinnslu hjá þróunarsviði Íbúðalánasjóðs en það svið hafði verið fellt niður í stjórnskipulagi sjóðsins og málið lagt til hliðar. Ríkisendurskoðun áréttaði að málið yrði tekið upp að nýju.
    3. Ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum Ríkisendurskoðunar um að allar starfslýsingar væru undirritaðar og dagsettar. Fram kom að Ríkisendurskoðun lýsti furðu sinni á því hve langan tíma hefði tekið fyrir Íbúðalánasjóð að bregðast við þessari athugasemd og lagði áherslu á að því lyki um komandi áramót.
    4. Ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi gerð heildstæðs lista yfir allt er viðkom bankamálum Íbúðalánasjóðs. Heildstæður listi var einungis til að hluta þar sem fram kom hverjir höfðu heimildir til að millifæra eða skoða stöður á bankareikningum en ekki kæmu fram upplýsingar um stofnun reikninganna, hvernig að því var staðið, hve oft viðkomandi bankareikningar voru afstemmdir né hvaða starfsmenn sáu um afstemmingar þeirra. Lagði Ríkisendurskoðun til að slíkur listi yrði fullunninn.
    5. Ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi öryggismál er tengdust geymslu skuldabréfa í starfsstöð Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki. Ríkisendurskoðun lagði áherslu á að stjórnendur sjóðsins yfirfæru þennan þátt gaumgæfilega þegar gengið yrði frá öryggisreglum í samræmi við öryggisstefnu sjóðsins.

2.6.2.7 Innri endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar vegna 201154

Ríkisendurskoðun lauk innri endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2011 í desember sama ár. Í henni komu fram fjölmargar athugasemdir og ábendingar og eru þær helstu eftirfarandi:

  1. Ríkisendurskoðun lagði áherslu á að vinnu við verklagsreglur um kyrrstöðusamninga yrði hraðað en samningsform fyrir gerð þeirra lá þegar fyrir.
  2. Sérstakur kafli, sem bar nafnið eftirfylgni, var um athugasemdir sem þegar höfðu komið fram í innri endurskoðunarskýrslum Ríkisendurskoðunar en Íbúðalánasjóður ekki brugðist við með þeim hætti sem Ríkisendurskoðun vænti:
    1. Ríkisendurskoðun hafði í skýrslum sínum um innri endurskoðun hjá Íbúðalánasjóði margítrekað athugasemdir sínar vegna seinagangs. Vinna við skipulagningu innra eftirlits og innleiðingu verkferla og eftirlitsaðgerða í starfsemi sjóðsins hófst með skipulögðum hætti í nóvember 2000, tæplega tveimur árum eftir stofnun sjóðsins, eða fyrir ellefu árum. Orðrétt sagði í skýrslu Ríkisendurskoðunar: „Það er með ólíkindum hvað þetta hefur tekið langan tíma.“
    2. Ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum athugasemdum Ríkisendurskoðunar um að allar starfslýsingar væru undirritaðar og dagsettar. Fram kom að Ríkisendurskoðun lýsti furðu sinni á því hve langan tíma hefði tekið fyrir Íbúðalánasjóð að bregðast við þessari athugasemd og lagði áherslu á að því lyki um komandi áramót.
    3. Í lok árs 2008 var gengið frá nokkrum einstökum stefnumálum. svo sem öryggisstefnu, starfsmannastefnu, jafnréttisstefnu, skjalastefnu, stefnu um rekstrarsamfellu og umhverfisstefnu. Þær höfðu ekki verið endurskoðaðar og uppfærðar síðan en í þeim var gert ráð fyrir að þær yrðu endurskoðaðar í nóvember ár hvert. Ríkisendurskoðun lagði til að stefnur þessar yrðu yfirfarnar og afgreiddar af stjórn Íbúðalánasjóðs.
    4. Ríkisendurskoðun lagði til að Íbúðalánasjóður setti sér verklagsreglur varðandi risnu, þrátt fyrir að um óverulegar fjárhæðir væri að ræða. Verklagsreglur voru í vinnslu þegar Ríkisendurskoðun yfirfór starfsemi sjóðsins í desember 2011.
    5. Ríkisendurskoðun benti á að „óþarfa seinagangur“ leiddi til þess að Íbúðalánasjóður greiddi dráttarvexti við greiðslu reikninga vegna tafa við rafrænt samþykktarkerfi reikninga.

2.6.3 Ytra eftirlit Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins er lýtur sérstakri stjórn og heyrir stjórnarfarslega undir velferðarráðuneytið. Hér á eftir verða tilgreindir þeir aðilar sem komu að ytra eftirliti með starfsemi sjóðsins með einum eða öðrum hætti:

2.6.3.1 Velferðarráðuneyti

Fjárhagsleg samskipti Íbúðalánasjóðs við velferðarráðuneytið, áður félagsmálaráðuneytið, fólust í veitingu heimilda til handa Íbúðalánasjóði til útgáfu íbúðabréfa, áður húsbréfa.

Íbúðalánasjóði bar að senda ráðuneytinu sérstaka tilkynningu ef eigið fé sjóðsins stefndi niður fyrir 4% samkvæmt reglugerð 544/2004 um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs.

Í samræmi við ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 544/2004 um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs bar stjórn Íbúðalánasjóðs ársfjórðungslega að skila félagsmálaráðherra (velferðarráðherra) og Fjármálaeftirlitinu, og auk þess fjármálaráðuneyti og Ríkisábyrgðasjóði skýrslu um framvindu áhættustýringarstefnunnar og lykilkennitölur í rekstri sjóðsins. Í skýrslunni þurfti að greina þróun vanskila, hlutfall lána í sérmeðferð af heildarútlánum sjóðsins, uppgreiðslur ÍLS-verðbréfa og fasteignaveðbréfa og vaxtaþróun nýrra útlána. Þá bar sjóðnum að leggja mat á tapsáhættu og vaxtaáhættu útlána og greina stöðu afskriftareiknings, horfur um afskriftir og áhrif aukaafborgana og uppgreiðslna á fjárhag sjóðsins. Íbúðalánasjóði bar að senda Ríkisábyrgðasjóði skýrsluna til kynningar.

2.6.3.2 Fjármála- og efnahagsráðuneyti

Fjárhagsleg samskipti Íbúðalánasjóðs við fjármálaráðuneytið fólust í upplýsingagjöf í sambandi við fjárlagagerð. Íbúðalánasjóði bar að senda ráðuneytinu upplýsingar um vænta útgáfu íbúðabréfa. Jafnframt bar Íbúðalánasjóði að veita ráðuneytinu upplýsingar um rekstur sjóðsins og áætlun næsta árs til fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins.

Í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 544/2004 bar stjórn Íbúðalánasjóðs að skila ráðherra fjármála- og efnahagsráðuneytis ársfjórðungslegri skýrslu þeirri sem fjallað er um hér að framan í kaflanum velferðarráðuneyti.

2.6.3.3 Seðlabanki Íslands

Fjárhagsleg samskipti Íbúðalánasjóðs við Seðlabanka Íslands fólust í upplýsingagjöf varðandi útgáfu íbúðabréfa sjóðsins.

2.6.3.4 Ríkisábyrgðasjóður

Starfsemi Íbúðalánasjóðs var með ábyrgð ríkissjóðs og féll því undir Ríkisábyrgðasjóð.

Í samræmi við ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 544/2004 um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs bar stjórn Íbúðalánasjóðs að skila Ríkisábyrgðasjóði til kynningar ársfjórðungslega skýrslu þeirri sem fjallað er um hér að framan í kaflanum velferðarráðuneyti.

2.6.3.5 Fjármálaeftirlitið

Starfsemi Íbúðalánasjóðs var felld undir Fjármálaeftirlitið með lögum nr. 57/2004. Í ljósi þessa bar Íbúðalánasjóði að senda Fjármálaeftirlitinu skýrslur um tiltekna þætti í rekstri sjóðsins.

Í samræmi við ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 544/2004 um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs skyldi Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með því að Íbúðalánasjóður starfaði samkvæmt ákvæðum laga um húsnæðismál og reglugerða sem um hann giltu. Um upplýsingaskyldu og eftirlit með starfsemi sjóðsins fór samkvæmt ákvæðum laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, eftir því sem við ætti.

Í samræmi við það hlutverk Fjármálaeftirlitsins að hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum framkvæmdi Fjármálaeftirlitið sérstaka skoðun á útlánum Íbúðalánasjóðs auk fimm stærstu fjármálafyrirtækja landsins, sbr. eftirfarandi umfjöllun:

2.6.3.5.1 Sérstök útlánaskoðun Fjármálaeftirlitsins hjá Íbúðalánasjóði

Samkvæmt innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 200955 framkvæmdi Fjármálaeftirlitið sérstaka útlánaskoðun hjá Íbúðalánasjóði og gaf út um hana skýrslu í desember 2008. Úttekt Fjármálaeftirlitsins á Íbúðalánasjóði var ákveðin í júní 2007 og var hluti af úttekt á sex stærstu fjármálafyrirtækjum landsins. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar voru raktar þær athugasemdir og ábendingar sem fram komu í útlánaskoðun FME og eru þær eftirfarandi:

  1. Formlegar, heildstæðar innri verklagsreglur um lánveitingar voru ekki til staðar hjá sjóðnum.
  2. Áhættustýring vegna útlánaáhættu átti sér hvergi formlegan stað innan skipulags sjóðsins.
  3. Upplýsingar úr lánakerfum gáfu ekki í öllum tilvikum nákvæmar upplýsingar um raunveruleg veðhlutföll lána þar sem aðeins var hægt að tengja eitt fasteignanúmer við hvert lán.
  4. Gögnin sem bankarnir sendu til sjóðsins vegna lánasamninga, sem gerðir voru við fjármálastofnanir, voru misgóð.
  5. Innri endurskoðun gerði athugasemd við að Íbúðalánasjóður fengi ekki nákvæmar upplýsingar um hvernig bankarnir héldu utan um undirliggjandi lán vegna lánasamninga Íbúðalánasjóðs við þá. Einnig var gerð athugasemd við að óljóst væri hvort starfsmönnum bankanna var fullljóst að sérstakir samningar voru í gildi við sjóðinn vegna þessara lána sem bankarnir höfðu veitt viðskiptamönnum sínum.
  6. Í skýrslu um fjárhagslega stöðu Íbúðalánasjóðs var ekki sérstaklega fjallað um vanskil fasteignalána sem voru undirliggjandi lánasamningum við fjármálastofnanir.
  7. Í eiginfjárskýrslum skv. Basel I pr. 31.12.2007 og 31.3.2008 voru fasteignalán undirliggjandi lánasamningum við fjármálastofnanir færð undir flokkinn „útlán tryggð með veði í fjölnota atvinnuhúsnæði“. Þetta var ekki rétt þar sem undirliggjandi lán voru vegna kaupa á íbúðarhúsnæði.
  8. Yfirsýn yfir tegundir lögaðila sem sjóðurinn hafði lánað til var ekki nægjanleg.
  9. Úrtakskannanir á undirliggjandi fasteignalánum lánasamninga við fjármálastofnanir voru í nokkrum tilvikum framkvæmdar utan þess tíma sem samið var um í lánasamningum.
  10. Taka þyrfti til skoðunar að setja Íbúðalánasjóði útlánareglur varðandi hámarkslán til eins lánþega sambærilegar þeim sem fjármálafyrirtæki störfuðu eftir, sbr. reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.

Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins kom fram að úrbótum yrði lokið innan ákveðinna tímamarka. Þá var í skýrslunni krafist þess að ytri endurskoðandi Íbúðalánasjóðs, KPMG, legði mat á hvernig sjóðurinn tæki á þessum athugasemdum og ábendingum. KPMG sendi Fjármálaeftirlitinu skýrslu, dagsetta 24. mars 2009, um yfirferð sína yfir úrbætur hjá sjóðnum. Þær höfðu ekki gengið eftir eins og Fjármálaeftirlitið hafði krafist. Í bréfi til Íbúðalánasjóðs, dagsettu 30. september 2009, ítrekaði Fjármálaeftirlitið kröfur vegna ákveðinna atriða og var þess krafist að úrbætur vegna þeirra lægju fyrir eigi síðar en 1. desember 2009 ella gæti það leitt til beitingar ákvæða 11. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er varðar dagsektir og févíti. Um mánaðamótin nóvember/desember 2009 tók KPMG út útlánareglur Íbúðalánasjóðs og var skýrslu um það skilað til Fjármálaeftirlitsins 10. desember 2009.

2.6.4 Innra eftirlit Íbúðalánasjóðs

Við rekstrarúttektina var farið yfir innra eftirlit og innri eftirlitsaðgerðir Íbúðalánasjóðs.

Ákvæði 11. gr. b laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, kveða á um skyldu Íbúðalánasjóðs að viðhafa eftirlitskerfi með ákveðnum þáttum í starfsemi hans. Eftirfarandi ákvæði varð þó ekki að lögum fyrr en með gildistöku laga nr. 84/2012, sbr. 6. gr. þeirra, sbr. 11. gr. b laga nr. 44/1998.

Íbúðalánasjóður skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við starfsemi sína. Hjá sjóðnum skulu vera til staðar fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar til að meta nauðsynlega stærð, samsetningu og innri dreifingu eiginfjárgrunns með hliðsjón af þeirri áhættu sem starfsemin felur í sér hverju sinni. Innri ferlarnir skulu endurmetnir reglulega til að tryggja að þeir séu fullnægjandi með hliðsjón af eðli og umfangi starfsemi sjóðsins.

Í>búðalánasjóði ber að framkvæma regluleg álagspróf og skjalfesta forsendur og niðurstöður þeirra. Niðurstöður álagsprófa skulu vera á dagskrá næsta stjórnarfundar eftir að niðurstaða þeirra liggur fyrir.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd áhættustýringar, áhættuviðmið, eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi Íbúðalánasjóðs og innra eftirlit að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs og Fjármálaeftirlitsins.

Í samræmi við heimild ráðherra í lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum, var sett reglugerð nr. 544/2004 um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um innra eftirlit Íbúðalánasjóðs og þar segir:

Íbúðalánasjóður skal setja á fót og viðhalda innra gæðakerfi til að tryggja aðskilnað einstakra verkþátta í starfi sjóðsins. Slíkt gæðakerfi skal nánar útfært í áhættustýringarstefnu sjóðsins.

Sé litið til þeirra margþættu athugasemda og andlags þeirra, sem komu fram í innri endurskoðunarskýrslum Ríkisendurskoðunar, sbr. umfjöllun í kafla 2.6.2, endurskoðunarskýrslum KPMG, sbr. umfjöllun í kafla 2.6.1, og í úttektarskýrslu Fjármálaeftirlitsins, sbr. umfjöllun í kafla 2.6.3.5.1, þá ber rannsóknarnefndin brigður á að Íbúðalánasjóður hafi farið í hvívetna eftir ákvæðum er varða innleiðingu og starfrækslu innra eftirlits innan sjóðsins.

Vinnu við að koma á innra eftirliti hjá Íbúðalánasjóði mætti rekja til stofnunar hans árið 1999 þar sem þegar á fyrsta starfsári var gerð lýsing á innra eftirlitskerfi sjóðsins, sbr. umfjöllun í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 2000.56 Í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 200557 kom þó fram að vinnu við skipulagningu innra eftirlits í starfsemi Íbúðalánasjóðs hafði hafist með skipulögðum hætti í nóvember 2000. Vinnu við innleiðingu innra eftirlits var haldið áfram allt þar til lögð var fram lokaskýrslan: „Efling innra eftirlits, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir“58 sem unnin var af KPMG Ráðgjöf og starfsmanni innra eftirlits Íbúðalánasjóðs, sem kom til starfa á árinu 2001. Skýrslan var kynnt fyrir stjórn sjóðsins í október 2003 en endanleg útgáfa hennar var dagsett þann 29. janúar 2004.

2.6.4.1 Efling innra eftirlits, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir59

Skýrslan „Efling innra eftirlits, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir“ sem dagsett var í janúar 2004, innihélt tillögur stjórnenda um eflingu innra eftirlits Íbúðalánasjóðs en fram kom að hún væri fyrsta formlega verkefnið þar sem stjórnendur fóru markvisst sem hópur yfir áhættuþætti og eftirlitsaðgerðir og var í því sambandi ákveðið að:

  • Leggja einungis áherslu á mikilvægustu ferlin og helstu áhættuþættina.
  • Koma núverandi eftirlitsaðgerðum í formlegri farveg og skilgreina nýjar aðgerðir sem klár þörf væri á.

Verkefnum var skipt í þrjá tímasetta áfanga sem voru:

Áfangi 1 (sem miðað var við að yrði lokið í október 2003):

  1. Áhættumat og úrvinnsla meiriháttar áhættuþátta.
  2. Skilgreining á núverandi eftirlitsaðgerðum.
  3. Skilgreining á nýjum eftirlitsaðgerðum.

Áfangi 2 (sem miðað var við að yrði lokið í maí 2004):

  1. Formfesta núverandi eftirlitsaðgerðir og gangsetning á nýjum.
  2. Aðhald og stuðningur við stjórnendur.
  3. Skráning mikilvægustu ferla og aðgreining starfa skoðuð.
  4. Skipurit endurmetið.
  5. Innri endurskoðun innleidd.
  6. Markviss upplýsingagjöf til stjórnar um niðurstöður innra eftirlits.
  7. Ferli reglubundins áhættumats skilgreint og innleitt.
  8. Áhættumat og uppfærsla eftirlitsaðgerða eftir þörfum.

Áfangi 3 :

  1. Reglubundið áhættumat og uppfærsla á eftirlitsaðgerðum.

Meiriháttar áhættuþættir voru flokkaðir eftir tegund m.a. með hliðsjón af leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins um innra eftirlit þannig:

  1. Fjárhagsleg áhætta sem greindist í undirflokkana eignir, gengismál, lausafé og vaxtamál.
  2. Rekstrarleg áhætta sem greindist í undirflokkana lánveitingar, rekstur, samningar, þjónusta, þróun þjónustuframboðs og upplýsingamál.
  3. Starfsmannaáhætta sem greindist í undirflokkana starfsfólk og stefnumótun og stjórnun.
  4. Ytri áhætta sem greindist í undirflokkana erlend þróun, orðstír, samfélagsþróun, samkeppni og stefna stjórnvalda, þ.m.t. lög og reglugerðir.

Meginhluti skýrslunnar var greining stjórnenda á helstu áhættuþáttum í starfsemi Íbúðalánasjóðs. Stjórnendur sem hópur skilgreindu 65 áhættuþætti og mátu þá með þremur mælikvörðum sem voru á skalanum 1 til 5:

  1. Fjárhagsleg áhrif þar sem áhættugreiningin var á bilinu engin áhrif (1) til þess að geta leitt til gjaldþrots sjóðsins (5).
  2. Áhrif á orðspor og ímynd þar sem áhættugreiningin var á bilinu engin (1) til þess að geta haft áhrif á tilvist/framtíð sjóðsins (5).
  3. Líkindi á að viðkomandi áhætta kæmi til var á bilinu nánast engin (1) til þess að vera nánast örugg (5).

Meðhöndlun hvers áhættuþáttar var tilgreind annars vegar að „taka áhættu án sérstakra aðgerða“ og hins vegar að beita aðgerðum til að „draga úr áhættu“ og var það mat stjórnenda sjóðsins að einungis einn áhættuþáttur af 65 væri þess eðlis að sjóðurinn skyldi taka áhættu án sérstakra aðgerða.

Þá tilgreindu stjórnendur 192 eftirlitsaðgerðir og viðbragðsáætlanir sem áttu að draga úr áhættu á tilgreindum áhættuþáttum ásamt því að tilgreind var tíðni viðkomandi aðgerða eða áætlana, svo sem stöðugt, daglega, vikulega, mánaðarlega, ársfjórðungslega, hálfsárslega eða árlega. Einnig var ábyrgð á framkvæmd eftirlitsaðgerða eða viðbragðsáætlana skilgreind á viðkomandi stjórnendur sjóðsins.

2.6.4.2 Innra eftirlit, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir60

Skýrslan „Innra eftirlit, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir“, sem dagsett var í júlí 2006, var heildarendurskoðun á skýrslu sama efnis sem dagsett var í janúar 2004 og fjallað er um í kafla 2.6.4.1 Efling innra eftirlits, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir hér að framan.

Í inngangi skýrslunnar voru raktar ástæður þess að farið var í heildarendurskoðun á innra eftirliti og áhættugreiningu sjóðsins. Í því sambandi var vísað til stórfelldra breytinga á fjármögnun sjóðsins og útlánum sem fólust í að húsbréfakerfið, sem var við lýði frá stofnun sjóðsins, var lagt niður en í stað þess varð fjármögnun sjóðsins í formi útgáfu á íbúðabréfum. Þessi breyting leiddi til verulegra skipulagsbreytinga á flestum sviðum sjóðsins og mikillar tímabundinnar vinnu starfsmanna við að aðstoða erlendra ráðgjafa sem fengnir voru til að meta lánshæfi Íbúðalánasjóðs. Af þeim sökum sat uppbygging á innra eftirliti og innri eftirlitsaðgerðum á hakanum. Breytingarnar á skipan fjármögnunar sjóðsins höfðu þau áhrif að meta þurfti á ný þá áhættuþætti og innri eftirlitsaðgerðir sem þegar höfðu verið unnir og tilgreindir voru í skýrslunni um innra eftirlit sem dagsett var í janúar 2004.

Í kaflanum „Næstu skref“ í skýrslunni kom fram að uppbyggingu innra eftirlits væri alls ekki lokið heldur væri bara um fyrsta skrefið að ræða og tilgreind voru næstu skref í því sambandi:

  1. Gera þyrfti ferilteikningu af starfsemi sjóðsins og greina áhættuþætti rekstrarins á hverju stigi fyrir sig.
  2. Heimfæra þyrfti áhættuþætti á einstaka þætti rekstrarins í samræmi við ferilteikningu og hvort að eitthvað uppá vantaði eða sé ofaukið.
  3. Setja þyrfti áhættuþættina upp með kerfisbundnari hætti til að auðvelda breytingar.
  4. Vinna þyrfti verklagsreglur fyrir flesta þætti rekstrarins í samræmi við áhættugreiningar, gera lýsingar á verklagsreglum og skilgreina skyldur á ábyrgð viðkomandi aðila.
  5. Setja þyrfti vinnureglur fyrir hvern og einn verkferil þar sem nánar var kveðið á um hvernig ákveðin verk voru unnin og hvaða reglur þau féllu undir.
  6. Að upplýsa starfsmenn Íbúðalánasjóðs um nauðsyn þess að farið væri eftir þeim verklags- og starfsreglum sem í gildi voru hverju sinni og að starfsmönnum væru upplýstir um ábyrgð og skyldur hvers og eins og nauðsyn þess að allir væru meðvitaðir um tilurð og markmið með innra eftirliti sjóðsins.
  7. Að öllum viðkomandi væru ljóst að uppbyggingu innra eftirlits væri ekki lokið með gerð skýrslunnar heldur væri hún upphaf ferðar sem ætti sér engin endalok.

Í skýrslunni voru tilgreindir 58 áhættuþættir og sami framgangsmáti og skilgreindur er í kafla 2.6.4.1 Efling innra eftirlits, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir hér að framan um flokkun þeirra og matsþætti.

Í endurskoðaðri áhættugreiningu stjórnenda voru tilgreindar 198 eftirlitsaðgerðir og viðbragðsáætlanir sem áttu að draga úr áhættu á tilgreindum 58 áhættuþáttum. Eins og áður var tilgreind tíðni viðkomandi aðgerða eða áætlana, svo sem stöðugt, daglega, vikulega, mánaðarlega, ársfjórðungslega, hálfsárslega eða árlega og ábyrgðaraðila á framkvæmd eftirlitsaðgerða eða viðbragðsáætlana. Til viðbótar upplýsingum úr fyrri áhættugreiningu var tilgreint hvaða sviði Íbúðalánasjóðs viðkomandi eftirlitsaðgerð tilheyrði og hver staðan var á hverjum þeirra. Samkvæmt stöðumati voru 155 eftirlitsaðgerðir og viðbragðsáætlanir, af tilgreindum 198, í framkvæmd en 43 voru ekki komnar í framkvæmd og þar af voru 42 í athugun en 1 sem var án skilgreiningar á tíðni, ábyrgð, umsjónarsviði eða stöðu.

2.6.4.3 Upplýsingakerfi Íbúðalánasjóðs

Sjóðurinn starfrækti fjöldann allan af upplýsingakerfum (upptalningin er ekki tæmandi):

  • Fjárhagsbókhaldskerfi.
  • Uppáskrifta-, samþykktar- og greiðslukerfi.
  • Leigu-, kaupleigu- og uppboðsíbúðakerfi.
  • Greiðslumatskerfi.
  • Umsóknarkerfi fyrir einstaklinga og lögaðila vegna nýrra lána og breytinga á lánum.
  • Kerfi vegna greiðsluerfiðleikamats og 110%-leiðar.
  • Samninga- og skjalakerfi ásamt handbók og þjónustu- og aðgangsbeiðnum.
  • Skönnunarkerfi,
  • Þjónustubeiðnakerfi.
  • Innheimtukerfi.
  • Bréfaútlánakerfi.
  • Reiknivélar á vef fyrir viðskiptavini.

Eðli málsins samkvæmt var fjárhagsbókhaldskerfið það upplýsingakerfi sem hélt utan um rekstur sjóðsins og því er nánast eingöngu unnið út frá því í þessari rekstrarúttekt.

Það vekur athygli við skoðun á bókhaldsfærslum í fjárhagsbókhaldskerfi sjóðsins hve lítið var um að textasvæði í bókun væri notað til nánari útskýringar á andlagi færslna. Af þeim sökum þurfti að greina fjárhagsfærslur út frá mótbókunarlykli sem að jafnaði var í lánardrottnakerfi. Við þá greiningu var hægt að sjá hver var seljandi þeirrar þjónustu sem bókuð var en ekki andlag veittrar þjónustu. Algengast var að textasvæðið bæri sama texta og nafn viðkomandi fjárhagsbókhaldslykils. Þessi framgangsmáti telst ekki vera í samræmi við almenna skráningu bókhalds og raunar til verulegra óþæginda við skoðun þar sem skoða þarf fylgiskjöl bókunarinnar til að sjá hvert andlag hennar er í raun.

Á skoðunartímabilinu var fjárhagsbókhald sjóðsins fært í þremur upplýsingakerfum:

  1. fjárhagsbókhaldskerfi Reiknistofu bankanna árin 1999 og 2000,
  2. fjárhagsbókhaldskerfinu Fjölni árin 2001–2004 og
  3. fjárhagsbókhaldskerfinu Navision Financials frá árinu 2005.
2.6.4.3.1 Öryggismál upplýsingakerfa

Í innri endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 200561 kom fram að afritun gagna sem voru á stórtölvu og netþjónum sjóðsins væri, samkvæmt samningi, sinnt af Nýherja hf. Afritun fór reglulega fram og afritin voru geymd annars vegar hjá Nýherja og hins vegar utan húss. Kæmi til þess að afritun hafði ekki tekist sem skyldi fengu tölvumenn sjóðsins alltaf upplýsingar um það.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 200662 kom fram að gerð hefði verið úttekt á eftirlitskerfum er sneru að öryggi og stjórnun upplýsingakerfa Íbúðalánasjóðs. Úttektinni var í aðalatriðum beint að stjórnunaraðgerðum sem tryggja áttu rekstrar- og aðgangsöryggi upplýsingakerfa og áreiðanleika gagna sem stuðst var við í endurskoðun Íbúðalánasjóðs. Helstu niðurstöður þeirrar skoðunar voru þær að skipulag öryggismála væri óformlegt og ekki til skráð ferli vegna mikilvægra aðgerða, t.d. afritunar, breytinga/stillinga á kerfum, prófana á endurheimt gagna og þess háttar en slíkt gat haft þónokkur áhrif á daglegan rekstur. Einnig kom í ljós að aðgangsstýringar voru ekki yfirfarnar reglulega og nokkrir notendur með meiri heimildir en starfssvið þeirra krafðist og ekki var búið að loka fyrir aðgang starfsmanna sem hætt höfðu störfum. Úttektin var byggð upp þannig að þeir þættir sem þurfti að laga voru dregnir fram en ekki var lagt mat á upplýsingakerfið og eftirlitsþætti þess að öðru leyti.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 200763 kom fram að við endurskoðun ársreiknings Íbúðalánasjóðs hefði verið gerð úttekt á eftirlitsþáttum (e. Information Technology General Controls) og stjórnun upplýsingakerfa sjóðsins. Úttektinni var í aðalatriðum beint að stjórnunaraðgerðum sem tryggja áttu rekstrar- og aðgangsöryggi upplýsingakerfa og áreiðanleika gagna sem stuðst var við í endurskoðun. Niðurstöður voru helstar þessar:

  1. Vinna stóð yfir við að lagfæra mörg af þeim atriðum sem gerðar voru athugasemdir við í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 2006.64
  2. Til staðar var samþykkt upplýsingatæknistefna og öryggishandbók.
  3. Búið var að hanna viðbúnaðaráætlun um órofinn rekstur en hún hafði ekki hlotið samþykki stjórnar og var því ekki í notkun.
  4. Búið var að koma á þverfaglegri öryggisstjórn vegna málefna sem tengdust upplýsingaöryggi en fram kom að hún hafði ekki verið virk á árinu 2007.
  5. Fræðslu og kynningu til starfsmanna varðandi upplýsingaöryggismál var ábótavant.
  6. Ytra öryggi tölvubúnaðar sjóðsins var gott og helsti öryggisbúnaður var til staðar í tölvusölum sjóðsins þar sem lykilvélbúnaður var hýstur, þ.m.t. aðgangsstýringar að viðkomandi sölum.
  7. Sem lið í upplýsingatæknistefnu sjóðsins var fjallað um breytingastjórnun í tengslum við upplýsingakerfi sjóðsins. Stefna hafði því verið mörkuð hvað breytingastjórnun varðar en ekki höfðu verið mótaðar formlegar verklagsreglur varðandi breytingastjórnun hjá sjóðnum.
  8. Heildstæð afritunaráætlun var ekki í notkun en afritun gagna virtist almennt vera í lagi. Skilgreiningu á afritun fjárhagsgagna og hlutverki ábyrgðarmanna var þó ábótavant auk þess sem verklagsreglur voru ekki fyrir hendi. Ekki höfðu verið gerðar reglulegar prófanir á endurheimt gagna úr fjárhagskerfi sjóðsins.
  9. Lítið var um skjölun og formlegar verklagsreglur fyrir umsjónarmenn Navision-upplýsingakerfisins. Unnið var að gerð verklagsreglna.
  10. Farið var yfir „super“-notendaaðgang (kerfisstjóraaðgang) og sambærileg aðgangsréttindi í Navision-kerfinu, en slíkur aðgangur veitti ótakmarkaðan aðgang að öllum gögnum og vinnslum kerfisins. Ekki komu fram athugasemdir.
  11. Skortur var á að farið væri reglulega yfir aðgang notenda að fjárhagskerfi sjóðsins og aðgangi lokað á þá starfsmenn sem ekki voru við störf lengur eða aðgangur núverandi starfsmanna væri endurskoðaður.
  12. Í ljós kom að lítið var um skjölun og formlegar verklagsreglur fyrir umsjónarmenn ILS-kerfisins. Unnið var að gerð verklagsreglna

Í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 200865 kom fram að við endurskoðun ársreiknings Íbúðalánasjóðs hefði verið gerð úttekt á völdum eftirlitskerfum er sneru að öryggi og stjórnun upplýsingakerfa sjóðsins. Fram kom að starfsemi Íbúðalánasjóðs félli undir eftirlitsskylda starfsemi samkvæmt skilgreiningu Fjármálaeftirlitsins og voru því gerðar ríkari kröfur um upplýsingaöryggi hjá sjóðnum. Helstu niðurstöður voru þessar:

  1. Afritatöku gagna var útvistað til Nýherja hf. og var eftirlit með afritun í höndum starfsfólks Íbúðalánasjóðs. Úrbóta var þörf varðandi afritun og meðhöndlun öryggisafrita. Uppfæra þyrfti núverandi afritunaráætlun og nauðsynlegt var að innleitt yrði ferli við heildarafritun á fjárhagsgögnum við lok fjárhagsárs. Æskilegt væri að taka þetta atriði til skoðunar og lagfæra.
  2. Við skoðun kom í ljós að ekki voru gerðar reglulegar prófanir á endurheimt afrita vegna fjárhagsgagna Navision-kerfisins. Æskilegt var að taka þetta atriði til skoðunar og lagfæra.
  3. Farið var yfir „super“-notendaaðgang (kerfisstjóraaðgang) og sambærileg aðgangsréttindi í Navision-kerfinu, en slíkur aðgangur veitti ótakmarkaðan aðgang að öllum gögnum og vinnslum kerfisins. Ekki komu fram athugasemdir.
  4. Ábending var lögð fram vegna notkunar sameiginlegra notendareikninga með ráðleggingu um að notast yrði við notendanöfn sem rekja mætti til einstakra notenda til að viðhalda kröfum um rekjanleika.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 200966 kom fram að við endurskoðun ársreiknings Íbúðalánasjóðs hefði verið gerð úttekt á völdum eftirlitskerfum er sneru að öryggi og stjórnun upplýsingakerfa sjóðsins. Fram kom að stjórnendur Íbúðalánasjóðs væru almennt meðvitaðir um mikilvægi upplýsingaöryggis og þörfina á vel skipulögðu stjórnunarumhverfi á sviði rekstrar tölvukerfa. Við úttekt kom í ljós að skipulag öryggismála í upplýsingatækni var að hluta til óformlegt og í einhverjum tilvikum var skortur á skriflegum verklagsreglum hjá Upplýsinga- og tæknisviði. Helstu niðurstöður úttektarinnar voru þessar:

  1. Til staðar var upplýsingatæknistefna en ekki starfandi öryggisstjóri sem bar ábyrgð á og hafði umsjón með upplýsingaöryggi innan sjóðsins. Starfsemi sjóðsins féll undir eftirlitsskylda starfsemi samkvæmt skilgreiningu FME og voru því gerðar ríkar kröfur um upplýsingaöryggi, skriflegar verklagsreglur og vel skilgreinda ferla við rekstur upplýsingakerfa hjá sjóðnum. Augljóst var að mikil og góð vinna hefði verið unnin af hálfu Upplýsinga- og tæknisviðs en í mörgum tilvikum var töluverður skortur á skjölun þannig að rekjanleiki og staðfesting á framkvæmd var ekki möguleg. Nauðsynlegt væri að verklagsreglur yrðu skjalaðar og innleidd yrðu ferli til að styðja við rekstur upplýsingakerfa.
  2. Skortur var á skriflegum verklagsreglum varðandi aðgangsstýringar að upplýsingakerfum sjóðsins. Til staðar var vísir að verklagsreglum sem tók á stofnun fjartenginga (e. VPN) en sú verklagsregla hafði ekki verið staðfest né tekin í notkun á árin 2009. Nauðsynlegt var að eitt ferli væri til staðar við að stofna, breyta og loka aðgangi að kerfum sjóðsins og allir þeir aðilar sem fengju aðgang að upplýsingakerfum hans færu í gegnum sama ferli.
  3. Skoðaður var aðgangur að Navision-fjárhagskerfi og kom í ljós að sex notendur voru með óhindraðan aðgang að öllum gögnum og virkni kerfisins. KPMG mælti með að enginn starfsmaður hefði svona víðtæk réttindi í fjárhagskerfi sjóðsins. Það var algerlega óháð starfssviði viðkomandi.
  4. Endurskoða þyrfti aðgengi að sameiginlegu gagnadrifi þannig að starfsmenn sjóðsins hefðu einungis aðgang að þeim gögnum sem þeir þyrftu í sínu starfi fyrir sjóðinn. Í því sambandi var bent á að samkvæmt reglum um persónuvernd og meðferð trúnaðarupplýsinga skyldu aðeins þeir sem þyrftu að hafa aðgang að slíkum gögnum hafa hann.
  5. Skortur var á að unnið væri eftir skjalfestu breytingastjórnunarferli við framkvæmd breytinga á kerfum. Nauðsynlegt væri að sjóðurinn tæki í notkun skjalfestar verklagsreglur varðandi breytingastjórnun og að kröfum sjóðsins væri komið á framfæri við lykilþjónustuaðila.
  6. Til staðar var stefna um rekstrarsamfellu (neyðaráætlun). Ekki hefði verið gerð skjalfest prófun á viðbúnaðaráætluninni en æskilegt að hún væri prófuð að minnsta kosti árlega til að þeir starfsmenn sem gegndu lykilhlutverkum í ferlinu væru betur undirbúnir ef til áfalla kæmi.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 201067 kom fram að við endurskoðun ársreiknings Íbúðalánasjóðs hefði verið gerð úttekt á völdum eftirlitsþáttum er sneru að öryggi og stjórnun upplýsingakerfa sjóðsins. Úttektin var framkvæmd þar sem upplýsingakerfi teljast mikilvæg fyrir starfsemi sjóðsins og var í aðalatriðum beint að stjórnunaraðgerðum sem tryggja ættu rekstrar- og aðgangsöryggi upplýsingakerfa og áreiðanleika gagna sem stuðst var við í endurskoðun.

Fram kom að stjórnendur Íbúðalánasjóðs væru almennt meðvitaðir um mikilvægi upplýsingaöryggis og þörfina á vel skipulögðu stjórnunarumhverfi á sviði rekstrar tölvukerfa. Við úttekt kom í ljós að skipulag öryggismála í upplýsingatækni var að hluta til óformlegt og í einhverjum tilvikum var skortur á skriflegum verklagsreglum hjá Upplýsinga- og tæknisviði. Helstu niðurstöður úttektarinnar voru þessar:

  1. Til staðar var upplýsingatæknistefna sem fjallaði um helstu atriði er snertu upplýsingaöryggi innan sjóðsins. Stefnan hafði ekki verið samþykkt og uppfærð á árinu 2010. Starfandi var öryggisstjóri sem bar ábyrgð á og hafði umsjón með upplýsingaöryggi innan sjóðsins en ekki var starfandi öryggisnefnd. Starfsemi sjóðsins féll undir eftirlitsskylda starfsemi samkvæmt skilgreiningu FME og voru því gerðar ríkar kröfur um upplýsingaöryggi, skriflegar verklagsreglur og vel skilgreinda ferla við rekstur upplýsingakerfa hjá sjóðnum.
  2. Augljóst var að mikil og góð vinna hafði verið unnin af hálfu Upplýsinga- og tæknisviðs en í mörgum tilvikum var töluverður skortur á skjölun þannig að rekjanleiki og staðfesting á framkvæmd var ekki möguleg. Nauðsynlegt væri að verklagsreglur yrðu skjalaðar og innleidd ferli til að styðja við rekstur upplýsingakerfa. Ennfremur var nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður skilgreindi helstu viðskiptakerfi og að yfirmenn eða ábyrgðaraðilar bæru ábyrgð á viðkomandi kerfi.
  3. Skortur var á skriflegum verklagsreglum varðandi aðgangsstýringar að upplýsingakerfum sjóðsins. Ennfremur kom í ljós að aðgangur að kerfisstjóraheimildum í gagnagrunni lykilkerfa og einnig í netumhverfi sjóðsins var of frjáls og nauðsynlegt að aðgangur væri yfirfarinn og aðgangur takmarkaður eins og mögulegt væri. Ennfremur þyrfti að takmarka aðgang þjónustuaðila í rekstrarumhverfi sjóðsins, sérstaklega í gagnagrunn lykilkerfa. Fram kom að mikil vinna hefði verið lögð í að greina stöðu upplýsingatæknimála og höfðu úrbótaverkefni verið sett af stað.
  4. Skoðaður var aðgangur að Navision-fjárhagskerfi og CapDirect-lánakerfi. Við úttekt kom í ljós að fjórir notendur voru með óhindraðan aðgang að öllum gögnum og virkni CapDirect-kerfisins. Ráðlagt var að aðgangur væri yfirfarinn og takmarkaður eins og mögulegt væri og byggður á starfshlutverki viðkomandi starfsmanns.
  5. Skortur var á að unnið væri eftir skjalfestu breytingastjórnunarferli við breytingar á kerfum. Stefna sjóðsins var að takmarka eins og kostur var breytingar á stórtölvuumhverfi og að innleiða nýjan hugbúnað til að leysa af hólmi stórtölvu. Nauðsynlegt var að sjóðurinn tæki í notkun skjalfestar verklagsreglur varðandi breytingastjórnun og að kröfum sjóðsins væru komið á framfæri við lykilþjónustuaðila.

Í endurskoðunarskýrslu KPMG vegna ársins 201168 kom fram að við endurskoðun ársreiknings Íbúðalánasjóðs hefði verið gerð úttekt á völdum eftirlitsþáttum er sneru að öryggi og stjórnun upplýsingakerfa sjóðsins. Úttektin var framkvæmd þar sem upplýsingakerfi teljast mikilvæg fyrir starfsemi sjóðsins og var í aðalatriðum beint að stjórnunaraðgerðum sem tryggja áttu rekstrar- og aðgangsöryggi upplýsingakerfa og áreiðanleika gagna sem stuðst væri við í endurskoðun.

Fram kom að stjórnendur Íbúðalánasjóðs væru almennt meðvitaðir um mikilvægi upplýsingaöryggis og þörfina á vel skipulögðu stjórnunarumhverfi á sviði rekstrar tölvukerfa. Mikið starf hafði verið unnið innan Upplýsinga- og tæknisviðs á árinu 2011 við að uppfæra verklagsreglur og stefnur tengdar rekstri upplýsingakerfa. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum var unnið að innleiðingu á stjórnkerfi upplýsingaöryggis í samræmi við ISO/IEC 27001, og stefndi sjóðurinn að vottun samkvæmt staðlinum á komandi árum.

Við úttekt kom í ljós að skipulag öryggismála í upplýsingatækni var að hluta til óformlegt og í einhverjum tilvikum var skortur á skriflegum verklagsreglum hjá Upplýsinga- og tæknisviði. Helstu niðurstöður úttektarinnar voru þessar:

  1. Til staðar var öryggisstefna sem fjallaði um helstu atriði er sneru að upplýsingaöryggi innan sjóðsins. Unnið hafði verið áhættumat og unnið var samkvæmt verkefnaáætlun við úrlausn úrbótaverkefna á sviði rekstrar upplýsingakerfa. Starfsemi sjóðsins féll undir eftirlitsskylda starfsemi samkvæmt skilgreiningu FME og voru því gerðar ríkar kröfur um upplýsingaöryggi, skriflegar verklagsreglur og vel skilgreinda ferla við rekstur upplýsingakerfa hjá sjóðnum. Kröfur tengdar rekstri og öryggi upplýsingakerfa voru sífellt að aukast og nauðsynlegt að sjóðurinn héldi áfram að auka formfestu í tengslum við rekstur upplýsingakerfa.
  2. Í einhverjum tilvikum var skortur á skriflegum verklagsreglum og skjölun hjá Upplýsinga- og tæknisviði þannig að rekjanleiki og staðfesting á framkvæmd var ekki gerleg. Bar þar helst að nefna verklagsreglur er snertu daglegan rekstur upplýsingakerfa, eftirlit með rekstrarumhverfi og daglegum vinnslum.
  3. Við úttekt kom í ljós að aðgangur að kerfisstjóraheimildum í netumhverfi sjóðsins var of frjáls og nauðsynlegt var að endurskoða aðgang starfsmanna. Ennfremur þurfti að takmarka aðgang þjónustuaðila í rekstrarumhverfi sjóðsins. Verið var að nýta sameiginlegt notendanafn við kerfisstjóravinnu sem kom í veg fyrir rekjanleika aðgerða.
  4. Til staðar voru verklagsreglur um framkvæmd breytinga á upplýsingatækniumhverfi sjóðsins. Skerpa mátti á ferlum tengdum breytingastjórnun og efla eftirlitsþætti sem tryggja ættu rekjanleika aðgerða á öllum stigum ferilsins. Tekið skal fram að innleiðing á verklagsreglum stóð yfir á árinu 2011.

1. Þingsályktun nr. 3/139 um rannsókn á Íbúðalánasjóð o.fl. á þskj. 611, 22. mál á löggjafarþingi 2010-2011.

2. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2007.

3. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2010.

4. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2011.

5. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2006.

6. Ársskýrsla Íbúðalánasjóðs 2007.

7. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2007.

8. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2001.

9. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 25. mars 2003.

10. Ársreikningur Íbúðalánasjóðs 2011.

11. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2005.

12. Ríkisskattstjóri, fyrirtækjaskrá, tilkynning um stofnun einkahlutafélags, 20. desember 1996.

13. Ríkisskattstjóri, fyrirtækjaskrá, aukatilkynning um breytt eignarhald, stjórn og framkvæmdastjórn, 26. júní 2003.

14. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2005.

15. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2000.

16. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2001.

17. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2002.

18. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2003.

19. KPMG, Íbúðalánasjóður – Efling innra eftirlits, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir.

20. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2004.

21. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2005.

22. Samningur milli Íbúðalánasjóðs og Ríkisendurskoðunar um vinnu við innri endurskoðun 2005-2007, 15. júní 2005.

23. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2005.

24. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2006.

25. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2006.

26. Sama heimild.

27. Samningur milli Íbúðalánasjóðs og Ríkisendurskoðunar um vinnu við innri endurskoðun 2005–2007, 15. júní 2005.

28. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2007.

29. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2007.

30. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2008.

31. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2009.

32. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2010.

33. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2010.

34. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2011.

35. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2011.

36. Samningur milli Íbúðalánasjóðs og Ríkisendurskoðunar um vinnu við innri endurskoðun 2005–2007, 15. júní 2005.

37. Samningur milli Íbúðalánasjóðs og Ríkisendurskoðunar um vinnu við innri endurskoðun 2009–2010, 4. janúar 2008.

38. Samningur milli Íbúðalánasjóðs og Ríkisendurskoðunar um vinnu við innri endurskoðun 2011, 19. september 2011.

39. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2009.

40. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2005.

41. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2006.

42. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2007.

43. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2005.

44. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2006.

45. Íbúðalánasjóður, Innra eftirlit, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir – Endurskoðuð áhættugreining.

46. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2008.

47. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2009.

48. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2007.

49. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2005.

50. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2010.

51. Fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs 27. nóvember 2008.

52. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2007.

53. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2005.

54. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2011.

55. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2009.

56. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2000.

57. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2005.

58. KPMG, Íbúðalánasjóður – Efling innra eftirlits, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir.

59. Sama heimild.

60. Íbúðalánasjóður, Innra eftirlit, áhættugreining og eftirlitsaðgerðir – Endurskoðuð áhættugreining.

61. Ríkisendurskoðun, innri endurskoðunarskýrsla 2005.

62. KPMG, Íbúðalánasjóður –endurskoðunarskýrsla 2006.

63. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2007.

64. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2006.

65. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2008.

66. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2009.

67. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2010.

68. KPMG, Íbúðalánasjóður – endurskoðunarskýrsla 2011.