12. kafli – Eignarhald sparisjóða, stofnfé og ávöxtun þess

12. Eignarhald sparisjóða, stofnfé og ávöxtun þess

Í b-lið 2. mgr. þingsályktunar Alþingis frá 10. júní 2011 um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna var rannsóknarnefndinni falið að skoða meðal annars eignarhald sparisjóðanna, aukningu stofnfjár, greiðslur arðs, kaup og sölu stofnfjár og hlutafélagavæðingu þeirra. Fjallað er um þessi atriði í köflunum um einstaka sparisjóði en hér er fjallað heildstætt um þessi atriði. Rakið er hvernig „eignarhaldið“ á sparisjóðunum var afmarkað í lögum á hverjum tíma, hvaða breytingum það tók og til hvers það leiddi. Í því sambandi er nauðsynlegt að skilja hvernig eigið fé í sparisjóðum er saman sett.

12.1 Eigið fé í hlutafélagi og í sparisjóði

Áður en vikið er að eigin fé sparisjóðanna skal hugað að því hvernig því er háttað í hlutafélögum. Þar er mismunur eigna og skulda nefndur eigið fé. Það eru þau verðmæti í félaginu sem eigendur, hluthafarnir, eiga tilkall til. Hluta þessara verðmæta hafa þeir sjálfir lagt til, þ.e. hlutaféð, en önnur eru sjálfsaflafé félagsins, þau verðmæti sem rekstur félagsins hefur skapað. Hlutafé er almennt ekki hægt að taka út úr félaginu, enda felst ábyrgð hluthafanna á skuldbindingum félagsins í hlutafjárframlagi þeirra. Um meðferð sjálfsaflafjárins gilda á hverjum tíma ákvæði í lögum. Hluti þess skal lagður í varasjóð, einn eða fleiri, eða bundinn á tilteknum reikningum, en það sem eftir stendur nefnist óráðstafað eigið fé. Geta hluthafar á aðalfundi ákveðið að félagið greiði þeim það allt eða að hluta í formi arðs.

Í sparisjóðum hefur þetta verið með nokkuð öðrum hætti. Upphaflega voru sparisjóðirnir ábyrgðarmannasjóðir, þ.e. stofnendur þeirra eða ábyrgðarmenn skrifuðu undir yfirlýsingu um að þeir ábyrgðust tiltekna fjárhæð til tryggingar innstæðufé í sparisjóðnum. Í sumum tilfellum var hluti ábyrgðarfjárins, þriðjungur til helmingur, lagður fram við stofnun sparisjóðs og voru þá greiddir vextir af slíku fé og heimilt að endurgreiða það ef og þegar varasjóður næmi meira en 10% af innstæðufénu.1 Meðan þetta fyrirkomulag var við lýði var ekki litið á innborgað ábyrgðarfé sem eigið fé í sparisjóðnum, heldur sem bundnar innstæður. Mismunur eigna og skulda nefndist varasjóður og í hann rann afkoma hvers árs, en hún var lengi vel nefnd ársarður. Þetta fyrirkomulag hélst meðan sparisjóðirnir voru ábyrgðarmannasparisjóðir. Lengi vel var óljóst hver munur var á innborguðu ábyrgðarfé og stofnfé, ef hann var þá nokkur. Í mörgum sparisjóðum var bæði stofnfé og ábyrgðaryfirlýsingar frá ábyrgðarmönnum. Hugtakið eigið fé var því óljóst á þessum tíma.

Frá og með árinu 1986 var ekki lengur heimilt að stofna sparisjóði með ábyrgðum og stofnun sparisjóðs eftir það var aðeins möguleg með innborguðu stofnfé, sbr. 6. gr. laga nr. 87/1985 um sparisjóði. Starfandi sparisjóðum var þá heimilað að taka upp stofnfé í stað ábyrgða, sbr. 15. gr. laganna. Frá miðju ári 1993 og á næstu þremur árum þar á eftir varð hins vegar skylt að breyta sparisjóðum með ábyrgðum í stofnfjársparisjóði.2 Þá var tekið að halda utan um stofnfé í ársreikningi með líkum hætti og hlutafé hjá hlutafélögum. Á tímabilinu 1986−1993, og jafnvel alveg til 1996, var við lýði nokkurs konar forveri stofnfjárreikningsins sem nefndist séreignarsjóður. Í hann rann hluti þeirra vaxta sem ákveðið var á aðalfundi að greiða stofnfjáreigendum af árlegum tekjuafgangi og upphæðir sem greiddar voru fyrir ný stofnfjárbréf umfram nafnverð. Hver stofnfjáreigandi átti þá ákveðinn hlut í séreignarsjóði í hlutfalli við stofnfjáreign sína og var hlutur hans í sjóðnum sérgreindur í bókhaldi sparisjóðsins. Séreignarsjóðirnir voru aflagðir 1993 og inneignin í þeim gerð að stofnfé. Síðan hefur eigið fé sparisjóða skipst í stofnfé og varasjóð.

Mynd 1 sýnir á einfaldan hátt hvernig efnahagsreikningur hlutafélaga og umræddra tveggja útfærslna af sparisjóðum er uppbyggður.

Í fljótu bragði virðist vera samsvörun milli eigin fjár í hlutafélagi og í stofnfjársparisjóði. Því fer þó fjarri vegna þess að um eignarhaldið hafa gilt gjörólíkar reglur. Í hlutafélagi geta hluthafarnir gert tilkall til óráðstafaðs eigin fjár og ráðstafað því að vild með sameiginlegri ákvörðun. Þá bitnar tap félagsins á óráðstöfuðu eigin fé. Hlutaféð geta hluthafarnir ekki fengið endurgreitt frá félaginu, nema hugsanlega við slit, en geta hins vegar selt það á markaði á því verði sem þar býðst. Áhætta þeirra liggur í þessu verði. Í sparisjóði eiga stofnfjáreigendur ekki tilkall til varasjóðsins. Hann er að vísu notaður til að jafna tap, en honum verður ekki ráðstafað í þágu stofnfjáreigenda.3 Eignarhald á varasjóðnum hefur alla tíð verið óljóst. Á vissan hátt má segja að hann sé skuld sparisjóðsins við nærsamfélagið eða nokkurs konar „arfur kynslóðanna“ á starfssvæði sparisjóðsins. Heimilt hefur verið að verja fé úr varasjóði til almenningsþarfa samkvæmt ákvörðun stofnfjáreigenda á aðalfundi. Stofnfé hefur frá upphafi borið vexti og síðar veitt rétt til arðs. Heimilt var áður fyrr að endurgreiða það þegar og ef varasjóður náði tiltekinni stærð. Síðar varð sparisjóðum skylt að innleysa stofnfé ef stofnfjáreigendur óskuðu eftir því, en aðeins á endurmetnu nafnverði. Stofnfjáreigendur gátu ekki selt stofnfjárbréf sín til þriðja aðila á markaðsverði fyrr en eftir 2002.

12.2 Hver á sparisjóðinn?

Eignarhaldið á sparisjóðum hefur lengst af verið mjög óljóst. Þótt þeim svipaði um margt til sjálfseignarstofnana lá munurinn helst í endurgreiðslu til þeirra sem lögðu fram stofnfé og ávöxtun þess. Svo sem fyrr segir voru sparisjóðirnir upphaflega ábyrgðarmannasjóðir. Þess var ekki krafist að lögum að ábyrgðarmenn legðu fram fé, heldur nægði að þeir skrifuðu upp á yfirlýsingu um tiltekna ábyrgð til handa sparisjóðnum. Stundum var samt ekki hægt að hefja starfsemi nema eitthvert fé væri lagt fram.

12.2.1 Ábyrgðir eða stofnfé

Í fyrstu sparisjóðalögunum, frá 1915, var í 3. gr. talað um „stofnendur eða ábyrgðarmenn“ og aðra þá „sem lagt hafa fram fé til starfrækslu sparisjóðs, hvort heldur sem er stofnfé eða greitt ábyrgðarfje“. Orðalagið bendir til þess að á stofnfé og greiddu ábyrgðarfé hafi verið einhver munur, en hann var ekki útskýrður og stofnfé ekki aftur nefnt á nafn í lögunum. Þótt eigendur væru ekki nefndir í lögunum var ljóst að stofnendur eða ábyrgðarmenn áttu sjálfir það fé sem þeir höfðu lagt fram því að gert var ráð fyrir því að þeir fengju „arð eða vexti af slíku fje“ og að auki var heimilt að endurgreiða þeim ábyrgðarféð „ef varasjóður [næmi] meiru en 10% af sparisjóðsinnstæðufjenu“. Þeir höfðu líka einir rétt til setu í stjórn sparisjóðs sem skyldi skipuð þremur mönnum hið minnsta.

Lögunum var breytt árið 1935.4 Með breytingunni var svo að sjá sem bæði væri gert ráð fyrir sparisjóðum í einkaeigu og sparisjóðum sem starfræktir væru sem sjálfseignarstofnanir. Í lögunum var dregið úr valdi stofnenda og ábyrgðarmanna yfir sparisjóðunum og kveðið á um að sýslunefndir og bæjarstjórnir ættu fulltrúa í stjórn sparisjóðanna. Í ákvæðum um stjórnarkjör var greint á milli ferns konar eignarhalds: 1) sparisjóða sem væru eign sýslu eða bæjarfélaga; 2) sparisjóða sem væru sjálfseignarstofnanir og hefðu tiltekinn lágmarksfjölda ábyrgðarmanna; 3) sparisjóða sem væru ekki eign sýslu eða bæjarfélaga eða félaga einstakra manna og hefðu ekki lágmarksfjölda ábyrgðarmanna; og, 4) sparisjóða sem væru eign hreppsfélaga eða félaga einstakra manna.5 Það var eingöngu í tilfelli 2) sem stofnendur og ábyrgðarmenn fengu að kjósa meiri hluta stjórnarmanna. Þessi aðgreining skipti ekki máli fyrir neitt annað en hvernig stjórnarkjöri var háttað.

Ný lög um sparisjóði voru sett 1941.6 Í þeim varð ekki nein breyting á eignarhaldsákvæðum fyrri laga, en í lögunum var meðal annars vísað til stofnenda eða annarra eigenda og ábyrgðarmanna, og jafnvel til annarra en stofnenda og ábyrgðarmanna sem lagt hefðu fram fé til starfsrækslu sparisjóðs, hvort heldur væri stofnfé eða greitt ábyrgðarfé. Þá sagði þar jafnframt að stofnendur gætu verið félag einstakra manna, bæjarfélag, sýslufélag eða hreppsfélag að fengnu leyfi sýslunefndar. Þá var treyst í sessi vald opinberra aðila, þ.e. sýslunefnda og bæjarstjórna, til þess að kjósa að minnsta kosti einn af þremur stjórnarmönnum eða tvo af fimm.

12.2.2 Stofnfjár„eigendur“

Í sparisjóðalögunum frá 1985 gat að lesa strax í fyrstu grein: „Stofnfjáreigendur eða ábyrgðaraðilar, sem hér eftir nefnast sparisjóðsaðilar“.7 Með þessum lögum varð óheimilt að stofna sparisjóði með ábyrgðarmannafyrirkomulagi. Þrátt fyrir það var yfirleitt talað um „stofnfjáreigendur“ í lögunum og sömuleiðis í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna og í ræðu Matthíasar Á. Mathiesen viðskiptaráðherra þegar hann mælti fyrir því 20. maí 1985. Það var samt skýrt í lögunum að eignarréttur stofnfjáreigenda tók ekki til annars en stofnfjárins og sætti þó takmörkunum. Stofnfé varð t.d. ekki endurgreitt nema við slit sparisjóðs eftir að skuldir væru uppgreiddar. Ekki var unnt að selja eða framselja stofnfjárhlut nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Enn fremur var veðsetning stofnfjárhlutar óheimil. Sú nýlunda var í þessum lögum að gefin skyldu út stofnfjárbréf fyrir skráðum stofnfjárhlutum. Þau skyldu hljóða á nafn og urðu ekki framseld til handhafa þannig að gildi hefði gagnvart sparisjóðnum. Sparisjóður skyldi og halda skrá yfir stofnfjáreigendur eða ábyrgðaraðila.

Stofnfjárbréfafyrirkomulaginu svipaði á vissan hátt til hlutabréfa í hlutafélögum, nema hvað réttindin sem þau báru með sér voru gjörólík. „Sparisjóðirnir eru í eðli sínu sjálfseignarstofnanir“ sagði í athugasemdum með lagafrumvarpinu, en jafnframt var bent á að sumt bæri þó á milli. Í athugasemd við 1. gr. frumvarpsins sagði:

Sparisjóðir teljast því hvorki til sjálfseignarstofnana né venjulegra atvinnufyrirtækja sem rekin eru í ágóðaskyni fyrir eigendur þeirra. Þeim er í þessu frumvarpi valið það form, sem telst henta best m.t.t. þeirrar sérstöku starfsemi sem þeir reka og með hliðsjón af sögulegum og félagslegum forsendum.8

Með þessum lögum var mælt fyrir um að sparisjóðsaðilar skyldu allir eiga jafnan hlut nema samþykktir heimiluðu annað. Atkvæðisréttur sparisjóðsaðila á aðal- og aukafundum skyldi einnig vera jafn nema samþykktir kvæðu á um annað. Einstökum sparisjóðsaðilum skyldi þó aldrei heimilt að fara með meira en 1/5 hluta af atkvæðamagni, nema í þeim tilvikum þar sem sveitar- og sýslufélög hefðu ein verið sparisjóðsaðilar við gildistöku laganna, sbr. 20. gr.

Í lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði var hætt að nota hugtakið „stofnfjáraðilar“, en þess í stað ávallt talað um „stofnfjáreigendur“. Bráðabirgðaákvæði I með lögunum skyldaði starfandi sparisjóði, þar sem stofnfé hafði ekki verið lagt fram heldur einungis ábyrgðir, til að leggja af ábyrgðarmannafyrirkomulagið og breytast í stofnfjársjóði innan þriggja ára frá gildistöku laganna. Þegar lögin voru endurútgefin sem lög nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði láðist að fella þetta bráðabirgðaákvæði út. Hámarksatkvæðisréttur einstakra stofnfjáreigenda var þrengdur með lögunum 1993 í 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, nema þegar sveitarfélag væri eini stofnfjáreigandinn, sbr. 2. mgr. 35. gr. laganna. Með lögunum var sú breyting einnig gerð að lögaðilar máttu nú eiga stofnfé í sparisjóðum án takmarkana, en 5% atkvæðahámarkið átti að tryggja valddreifingu í sparisjóðunum, sbr. 5. gr. laganna.

12.2.3 Hlutafélagsákvæðið – væntingar um yfirverð

Mikil breyting sem tengdist eignarhaldi yfir sparisjóðunum varð með lögum nr. 71/2001 um breytingu á lögum nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Hún gekk út á þrennt: Í fyrsta lagi var losað um áhrif sveitarfélaga og héraðsnefnda í stjórn sparisjóða með því að heimila að allir stjórnarmenn yrðu kosnir af stofnfjáreigendum, í öðru lagi varð heimilt að breyta rekstrarformi sparisjóða í hlutafélag og í þriðja lagi var ákvæðum um stofnfjárbréf breytt í því skyni að gera þau að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti.9 Eignarhaldið sjálft breyttist ekki í fljótu bragði séð – það var áfram óljóst – en yfirráðin yfir sparisjóðunum breyttust umtalsvert. Nú gátu stofnfjáreigendur einir tekið allar ákvarðanir, sem lög heimiluðu, fyrir sparisjóðina án þess að sveitarfélög hefðu þar nokkur áhrif. Þetta greiddi án efa fyrir því sem í hönd fór, að landfræðileg mörk sparisjóða víkkuðu með sameiningu sparisjóða og uppkaupum. Sú þróun varð bæði innan landshluta og milli þeirra.10 Þær breytingar voru gerðar að heimild til greiðslu arðs af stofnfjárbréfum var rýmkuð og sérstakt endurmat á stofnfé innleitt. Hlutafélagsákvæðið var stærsta breytingin og sú sem mesta athygli vakti. Það fól í sér að breyting sparisjóðs í hlutafélag yrði með þeim hætti að sparisjóðurinn sameinaðist hlutafélagi sem hann hefði áður stofnað í því skyni að taka við rekstri sparisjóðsins, eignum hans og skuldum. Jafnframt skyldi sett á fót sjálfseignarstofnun sem eignaðist það hlutafé í hlutafélagssparisjóðnum sem ekki gengi til stofnfjárhafa sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti þeirra. Skyldi samanlagt hlutafé sem þeir fengju í sparisjóðnum nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og endurmetið stofnfé næmi samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Markaðsvirðið skyldi metið af óháðum aðila og miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi sparisjóðsins. Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar skyldi kosin af fulltrúaráði sem allir stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði, er honum var breytt í hlutafélag, skyldu eiga sæti í. Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar skyldi vera að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins og fjármunum hennar mætti aðeins verja í þeim tilgangi og til menningar- og líknarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs.11

12.2.3.1 Gagnrýni á hlutafélagsákvæðið

Frumvarpið um fyrrnefnda breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði var samþykkt 18. maí 2001 með 35 atkvæðum gegn einu, en þingmenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sátu hjá. Þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu var Pétur H. Blöndal. Í ræðu sinni um frumvarpið á Alþingi 26. mars 2001 gagnrýndi hann einkum þá meðferð á varasjóði sparisjóðanna við breytingu þeirra í hlutafélag sem frumvarpið mælti fyrir um, þ.e. að varasjóðurinn yrði eign sjálfseignarstofnunar sem stofnfjárhafarnir fengju yfirráð yfir, ótímabundið. Hann benti á mótsögn í frumvarpinu. Stuðlað skyldi að valddreifingu með því að einstökum hluthöfum yrði óheimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í hlutafélagssparisjóði enda þótt einstökum aðilum væri heimilt að eiga stærri hlut. Hins vegar væri einnig kveðið á um að sjálfseignarstofnunin gæti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagninu því óeðlilegt væri að hluthafi sem ætti mikinn meiri hluta hlutafjár nyti ekki atkvæðisréttar í samræmi við eign sína. Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar skyldi valin af og úr fulltrúaráði sem í skyldu eiga sæti allir stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði er honum var breytt í hlutafélag. Þannig fengju stjórnarmenn yfirráð yfir öllu atkvæðamagni sjálfseignarstofnunarinnar í hlutafélagssparisjóðnum og eignuðust því í reynd allan sparisjóðinn.12

Tveir þingmenn tóku undir með Pétri að með þessu fyrirkomulagi yrðu óeðlilega mikil völd færð í hendur fyrrverandi stofnfjáreigenda hlutafélagssparisjóðs. Guðmundur Árni Stefánsson kvaðst vera

… fullur tortryggni þegar svona sjálfsprottnum fulltrúaráðum sem eru sjálfskipuð og endurnýjast innan frá eru afhent með lögum frá Alþingi svo víðfeðm völd sem í raun erfast. Þau eru óumbreytanleg hvað sem tautar og raular. Þetta er klúbbur sem endanlega lokast með þessu frumvarpi ef að lögum verður. Var hann þó lokaður fyrir. Ég er ekki alveg tilbúinn að samþykkja slíkt athugasemdalaust.13

Guðmundi Árna þótti einnig óeðlilegt að í frumvarpinu væri opnað fyrir það að sveitarstjórnir ættu ekki lengur fulltrúa í stjórn sparisjóða. Þannig yrði unnt að útiloka áhrif sveitarstjórna í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar sem væri þó ætlað að ráðstafa hagnaði til menningar- og líknarmála á starfssvæði sparisjóðsins.

Jóhann Ársælsson hafði einnig uppi varnaðarorð gegn skipan sjálfseignarstofnunarinnar:

Hér er aftur á móti gert ráð fyrir því að í framtíðinni geti þeir sem eiga tiltölulega mjög lítinn hlut af eigin fé þessara fjármálafyrirtækja sem hér um ræðir ráðið þeim gjörsamlega.14

Pétur H. Blöndal vakti athygli á að væntanleg yfirráð yfir eigin fé sparisjóðs í gegnum sjálfseignarstofnunina myndu leiða til þess að stofnféð yrði mjög verðmætt rétt fyrir breytingu í hlutafélag. Menn yrðu tilbúnir að greiða miklu hærra verð fyrir það en hið endurmetna stofnverð sem gilti við innlausn og sölu gegnum sparisjóðinn. Hann sagði útfærsluna í frumvarpinu bjóða upp á mjög skrýtna hluti:

… ég ætla bara að biðja menn um að hugleiða hvað gerist að samþykktu þessu stjórnarfrumvarpi, hvað gerist á meðal stofnfjáreigenda hópsins. Í sumum litlum stofnfjáreigendahópum, eins og hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, eru 45 stofnfjáreigendur. Þeir eiga eftir lauslegum útreikningum mínum eitthvað um 36 milljónir hver í eigið fé á meðan hjá SPRON, eiga 1.000 stofnfjáreigendur um það bil 2 milljónir hver. Þegar menn eiga 36 milljónir hver og eru 45 eru hagsmunirnir orðnir geysilega miklir þegar á að fara að búa til úr þessu batterí sem enginn á en einhver ræður.15

Hann benti á í þessu sambandi að lögaðilar mættu vera eigendur að stofnfé. Sveitarfélögum væri það heimilt og hlutafélögum einnig.

[O]g það er ekkert sem bannar að einhver stór aðili bjóði mönnum, stofnfjáreigendum, t.d. þessum þúsund sem eru hjá SPRON, mjög gott verð fyrir hlut sinn ef þeir kjósa mann hans í stjórn. Þegar hann er kominn í stjórn áður en hlutafjárvæðingin verður, þá ræður hann hvaða stofnfé er framselt því að hann ákveður það. Hann getur ákveðið að þau stofnfjárbréf sem hann ætlar að kaupa, að framselja megi þau til fyrirtækja hans og þar með getur hann borgað mjög sæmilegt verð fyrir þetta stofnfé vegna þess að hann ræður um aldur og ævi þessari sjálfseignarstofnun sem á 90% í þeim sparisjóði.16

Jóhann Ársælsson bað Pétur um nánari útskýringar á þessu:

Síðan langar mig að spyrja háttvirtan þingmann sem hefur velt þessum málum mikið fyrir sér hvernig hann sjái fyrir sér stöðu þessara sparisjóða og gagnvart því að aðilar mundu vilja eignast þá. Þá þarf að ná samningi við þá sem stjórna sparisjóðunum um kaupin. Það er sem sagt hægt að kaupa sig inn í veisluna, finnst mér, kaupa sparisjóðina upp með samningi við fáa stofnfjáreigendur, samningi við stjórnir sparisjóðanna og í gegnum þetta. Ég spyr: Er hugsanlegt að menn séu að verðleggja eigið fé sem þeir eiga ekki inni í þessari sölu, þ.e. ráðin yfir því eigin fé sem er í öllum sparisjóðnum?17

Pétur hélt áfram að lýsa því sem gæti gerst ef frumvarpið yrði samþykkt:

Ég benti á það áðan að stjórnin verður að samþykkja framsal á hlutum. Þar af leiðandi verður stjórnin á þeim tímapunkti áður en breytt verður í hlutafélag afskaplega valdamikil. Hún hefur þetta allt í hendi sér. Hún gæti t.d. heimilað að einhver stór aðili keypti alla hluthafana út á mjög háu verði og þá er spurningin, ég þori varla að segja það: Hvað borgar hann mikið til stjórnarinnar?18

Pétur sagði að eigið fé sparisjóðanna hefði orðið til í tímans rás með háum vaxtamun. Þannig hefðu það verið skuldarar sparisjóðanna og sparifjáreigendur sem bjuggu til þetta eigið fé. Hann kvaðst ekki geta stutt þessa lausn „vegna þess að menn eru að búa til nýtt batterí sem er fé án hirðis“. Hann taldi að gæfulegra hefði verið að reyna að finna eigendur að þessu eigin fé:

… láta stofnfjáreigendur „fá“ eitthvað meira en hér er gert ráð fyrir. Samkvæmt þessum hugmyndum ráða þeir í raun og veru sjálfseignarstofnuninni líka, þannig að þeir fá í rauninni allan sparisjóðinn. Ég hefði talið miklu eðlilegra að þeir hefðu fengið það hreint og beint, segjum 1/3 af sparisjóðunum eða eitthvað slíkt og afganginum yrði skipt á milli skuldara og sparifjáreigenda, kannski svona fimm ár aftur í tímann, finna hvaða sparifjáreigendur hafa lagt til þennan vaxtamun og finna hvaða skuldarar hafa lagt til þennan vaxtamun og reyna að finna eigendur að öllu þessu eigin fé því að hin harða hönd eigandans er alltaf langbesta höndin. Hún hefur engin annarleg sjónarmið önnur en að græða og það eru heilbrigð og góð sjónarmið og yfirleitt öllum til góðs.19

Þingmenn virtust almennt, fyrir utan þá Jóhann og Guðmund Árna, láta sér þessi varnaðarorð Péturs í léttu rúmi liggja. Margrét Frímannsdóttir tók reyndar undir að hugmyndin að sjálfseignarstofnuninni og hvernig yrði valið í stjórn hennar gæti verið varhugaverð:

Þar með væru stofnfjáreigendur komnir með ægivald yfir fjármagninu en það er ekkert meira vald en þeir hafa í dag. Við erum að tala um sama fólkið með sömu völdin þannig að breytingin er kannski ekki svo mikil. Frumvarpið er aðallega til þess ætlað að treysta það að þeir sem fara með ráðin í sparisjóðunum og hafa framfylgt ákvæðum stofnskrár og laga um sparisjóðina haldi áfram að vinna í sama anda enda vilji þeir nota fjármagnið til uppbyggingar á heimasvæði.20

Flestir aðrir sem tóku til máls um frumvarpið kváðust treysta því að þessi „sami andi“ og stjórnendur sparisjóðanna hefðu starfað í yrði áfram við lýði og því væru þessar áhyggjur Péturs H. Blöndal ástæðulausar:

Kristján L. Möller: Við eigum örugglega samleið með því að okkur þykir vænt um sparisjóði og við vitum að þeir hafa staðið sig vel í byggðarlögum sínum, en við vitum líka að undanfarið hafa breytingar í bankakerfinu gert það að verkum að sparisjóðirnir standa ekki jafnfætis öðrum peningastofnunum. Þetta frumvarp er að mínu mati sett fram til þess að sparisjóðirnir standi jafnfætis öðrum peningastofnunum við það að ná sér í peninga, að ná sér í meira eigið fé eins og hér hefur komið fram.21

Jón Bjarnason: Menn geta verið ágætis féhirðar án þess að eiga féð. Við þekkjum dæmi um marga góða fjárhirða sem hirtu vel féð án þess að eiga það. […] Ég vil bara láta í ljós þá von að sparisjóðirnir fái að lifa og þjóna sínu fólki. Ég er viss um að fólk um dreifðari byggðir landsins á mikið undir sparisjóðum sínum og á miklu meiri samleið með þeim en stórum alþjóðavæddum netbönkum. Ég ítreka þá ósk að sparisjóðirnir haldi sínu.22

Nokkrum þótti sem andaði köldu í garð sparisjóða í málflutningi Péturs:

Árni Ragnar Árnason: Ég verð hins vegar að gera athugsemdir við þau rök sem hann færir fram máli sínu til stuðnings og sérstaklega að háttvirtur þingmaður leyfi sér að álykta hér í þingsölum að þeir sem væntanlega muni fara með stjórn sjálfseignarstofnana af því tagi sem hér um ræðir muni mjög líklega, eins og hann orðar það, láta ráða þar annarleg sjónarmið, t.d. til að hlúa að eigin ábata eða mismuna fyrirtækjum, félögum og fólki í samfélaginu. […] Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég er vel kunnugur starfi sparisjóðanna þar sem ég hef búið nokkuð lengi en ég hef ekki orðið var við slíkt.23

Guðmundur Árni Stefánsson reyndi til þrautar að ná eyrum meiri hlutans í málinu:

En háttvirtur þingmaður Pétur H. Blöndal hefur einmitt bent á ýmsar hættulegar stöður sem gætu myndast í þessu samhengi. Þegar menn hafa völd og áhrif yfir miklum fjármunum, þá getur það stundum og mjög snögglega orðið ígildi fjármagns. Sú hætta skapast óneitanlega við slíkar aðstæður.24

Viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, svaraði þeirri gagnrýni sem fram hafði komið á frumvarpið, sérstaklega gagnrýninni á hlutafélagsákvæðið:

Varðandi eignarhald kemur ekki til greina að afhenda stofnfjáreigendum eða einhverjum öðrum verðmæti sem þeir geta ekki gert tilkall til. Það kemur skýrt fram í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði að stofnfjáreigendur skuli einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu. Þeir eiga ekki tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðsins. Þetta er lykilatriði í frumvarpinu. Þar sem stofnfjáreigendur geta ekki gert tilkall til stórs hluta af hlutafé sparisjóða verður sjálfseignarstofnunin í öllum tilvikum langstærsti hluthafinn. Það er visst vandamál, en það verða sparisjóðirnir að leysa. Hlutverk sjálfseignarstofnunarinnar er að stuðla að vexti og viðgangi í starfsemi sparisjóðsins. Ráðstöfun fjár sjálfseignarstofnunarinnar er til líknar- og menningarmála á starfsvæði viðkomandi sparisjóðs. Það er nákvæmlega sama ráðstöfun og fram kemur í samþykktum sparisjóða í dag og hefur ekki það ég veit valdið vandræðum hingað til.25

Ráðherra beindi orðum sínum sérstaklega til Péturs:

Það var ýmislegt annað sem kom fram í máli háttvirts þingmanns Péturs H. Blöndals sem ég er ósammála. Háttvirtur þingmaður vill að fundnir séu eigendur að sparisjóðunum og þeir séu munaðarlausir í dag og hann hafi ímugust á fé sem enginn á. Hann kom með tillögu um að afhenda stofnfjáreigendum og viðskiptavinum þau verðmæti sem í sparisjóðunum eru og það fyrirkomulag sem nú sé verið að koma á verði rotið, spilling grasseri, mannskepnan sé breysk og gömlu stofnfjáreigendurnir muni ota sínum tota og koma miklum verðmætum undan til menningar- og líknarfélaga sem sett væru á laggirnar af velunnurum stofnfjáreigenda eingöngu í þeim tilgangi að komast yfir fé. En það kom hins vegar á óvart að háttvirtur þingmaður Pétur H. Blöndal telur að sparisjóðirnir hafi staðið sig vel hingað til þrátt fyrir að óljóst eignarhald sé á þeim. […] Það er þetta með hver á hvað. Ég segi það aftur við háttvirtan þingmann: Hver á að fara með þennan eignarhlut ef ekki þeir sem eru þó stofnfjáreigendur? Við höfum bókstaflega ekki aðra útgönguleið ef við viljum yfirleitt breyta lögum um sparisjóði og gera þeim mögulegt að eiga möguleika í þeirri hörðu samkeppni á fjármagnsmarkaðnum.

Ég held að háttvirtur þingmaður sé ansi hugmyndaríkur í þessu sambandi, og hægt svo sem að láta sér detta ýmislegt í hug að geti gerst. […] En að láta hugmyndaflugið leika lausum hala og láta sér detta í hug hluti í líkingu við það sem háttvirtur þingmaður nefnir, mér finnst slíkt raunverulega ómögulegt.26

Pétur svaraði ráðherra með svofelldum orðum:

Það er aðalsmerki hlutafjármarkaðar að beita hugmyndaflugi og uppgötva leiðir sem aðrir sjá ekki. Og að halda að hugmyndaflugið stoppi við mitt hugarflug, það er langt í frá. Það munu aðrir koma með miklu snjallari hugmyndir til að leysa þennan vanda vegna þess sem hæstvirtur ráðherra hefur ekki svarað. Hver er munurinn á því að fá að ráða ákveðnu fjármagni og eiga það ekki og fá að ráða ákveðnu fjármagni og eiga það? Munurinn er sá að ef maður ræður því en á það ekki, reynir maður að ná arðinum fram öðruvísi en með eðlilegum hætti.27

12.2.3.2 Slagurinn um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis varð fyrstur sparisjóða til að virkja hlutafélagsákvæðið sem innleitt var með lagasetningunni 2001. Stjórn sparisjóðsins stofnaði bæði hlutafélag og sjálfseignarstofnun í maí 2002. Síðan var ætlunin að leggja fyrir fund stofnfjáreigenda í lok júní sama ár tillögu um að breyta sparisjóðnum í hlutafélag.28 Áætlun stjórnarinnar miðaðist við að samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fengju í sparisjóðnum myndi nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé næmi samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins.29 Í hópi stofnfjáreigenda komu upp raddir um að meira verðmæti fælist í stofnfjárbréfunum. Áður en fyrirhugaður fundur stofnfjáreigenda var haldinn gerðu fimm stofnfjárhafar í sparisjóðnum öðrum stofnfjárhöfum tilboð í stofnhluti þeirra fyrir fjórfalt verð. Fimmmenningarnir, eins og þeir voru kallaðir, höfðu gert samning við Búnaðarbankann um að hann myndi síðan kaupa hlutina af þeim ef þeim tækist að kaupa að minnsta kosti 67% af stofnfénu. Miklar deilur spruttu af þessu um rétt stofnfjárhafa til þess að selja stofnbréf sín á yfirverði, þ.e. á hærra verði en því endurmetna nafnverði sem gilda skyldi lögum samkvæmt við innlausn og sölu sparisjóðsins sjálfs á bréfunum. Fimmmenningarnir leituðu samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir að fá að fara með virkan eignarhlut í sparisjóðnum. Fjármálaeftirlitið gaf ekki strax endanlegt svar við erindi fimmmenninganna og kvaðst myndu gera það þegar frekari upplýsingar lægju fyrir um framvinduna. Það tók samt afstöðu til nokkurra álitamála sem fólust í þessum áformum. Ein af niðurstöðum Fjármálaeftirlitsins var að gildandi lög legðu ekki bann við því að stofnfjáreigandi gæti selt eða framselt þriðja aðila stofnhlut sinn á hærra verði en endurmetnu nafnverði, fengi hann til þess lögmælt samþykki stjórnar. Önnur niðurstaða var sú að tryggja yrði hlutdeild sparisjóðsins, þ.e. þess hluta sem ekki var stofnfjáreign, í þeirri verðmætisaukningu sem í áformunum fælust.30

Ætlun fimmmenninganna var að samþykki stjórnar sparisjóðsins fyrir framsali stofnbréfanna til þeirra lægi fyrir áður en viðskiptin færu fram. Ef stjórnin synjaði um framsalið væru þeir búnir að tryggja sér nægilegan meiri hluta til þess að fella stjórnina og síðan myndi ný stjórn samþykkja framsal stofnbréfanna til þeirra. Sú niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að ekki væri óheimilt að eiga viðskipti með stofnfjárbréf á yfirverði setti stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í erfiða stöðu. Sparisjóðurinn mátti ekki sjálfur innleysa stofnbréf á öðru verði en endurmetnu nafnverði, en hins vegar var ekki andstætt lögum að framselja bréfin á hærra verði. Stjórnin gat því tæplega synjað beiðnum um framsal stofnbréfa þótt það færi fram á yfirverði. Stjórn sparisjóðsins taldi sig fá mjög óljósar leiðbeiningar frá Fjármálaeftirlitinu um það hvernig hún ætti að bregðast við óskum um framsal á yfirverði. Í bréfi sagði stjórnin að Fjármálaeftirlitið bæri ábyrgð á því að hafa „ýtt undir hagnaðarvæntingar stofnfjáreigenda, sem hefur verið trúað fyrir almenningseign, langt umfram það sem þeir gátu nokkru sinni vænst“.31

Á meðan frekari framvinda málsins var óviss fengu fimmmenningarnir óvænta samkeppni. Starfsfólk Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis stofnaði með stuðningi starfsmannafélagsins sérstakt einkahlutafélag, Starfsmannasjóð SPRON ehf., sem gerði stofnfjáreigendum tilboð um kaup á bréfum þeirra á hærra verði en fimmmenningarnir höfðu boðið, eða á genginu 4,5. Tilboð starfsmannasjóðsins var gert til þess að tryggja að rekstur sparisjóðsins yrði í óbreyttri mynd og ekki stæði til að breyta honum í hlutafélag. Slagurinn harðnaði og tilboð beggja aðila hækkuðu upp í gengið 5,5.

Margir lágu Pétri á hálsi fyrir að vera einn fimmmenninganna. Hann hafði ekki farið dult með það á Alþingi að honum þætti réttast að finna eigendur að þessu fé. Hann hafði viðrað þá hugmynd að láta stofnfjáreigendur fá meira fyrir stofnbréfin en lögin gerðu ráð fyrir, nefndi þriðjung af eigin fé í því sambandi, og skipta síðan afganginum milli skuldara og sparifjáreigenda eftir einhverri reglu. Tilboð fimmmenninganna átti að tryggja stofnfjáreigendum fjórfalt verð fyrir stofnbréfin, en hins vegar var fyrirhugaða salan til Búnaðarbankans ekki í samræmi við málflutning Péturs á þingi.

Morgunblaðið, sem hafði gefið hugmyndinni um að sparisjóðum yrði heimilað að breytast í hlutafélög mikinn gaum frá byrjun, fjallaði mikið um þessa tilraun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til að fara þá leið. Í ritstjórnargrein var rifjuð upp sú afstaða sem blaðið hafði strax tekið til sölu stofnfjár á yfirverði, að „menn gætu ekki selt það sem þeir ættu ekki“ og að ekki væri rétt staðið að hlutafélagavæðingu ef „stofnfjáreigendur í sparisjóðum gætu eignast hlutdeild í eigin fé sparisjóðanna án þess að hafa nokkru sinni lagt fram fjármuni til að eignast þá hlutdeild“.32 Tilboði fimmmenninganna og Búnaðarbankans var og enda illa tekið í sömu ritstjórnargrein:

Með yfirtökutilboði Búnaðarbankans Íslands er gengið gegn skýru markmiði laganna. Með því er að hluta til verið að bjóða stofnfjáreigendum í SPRON að selja það sem þeir hafa aldrei keypt.

Í greininni komu fram áhyggjur af því að ef niðurstaða Fjármálaeftirlitsins yrði á þann veg að slíkt tilboð væri heimilt að lögum, þá myndu allir bankarnir keppast við að gera stofnfjáreigendum um land allt tilboð í stofnfjárbréf þeirra og að skömmum tíma liðnum myndu nánast engir sparisjóðir vera til. Leiðarahöfundur útilokaði ekki þann möguleika að lögin væru óljós:

Hafi lagasetning Alþingis um sparisjóðina ekki verið nógu skýr verður ekki hjá því komizt að löggjafinn grípi strax í taumana. Það er hörmulegt að þegar fyrsta skrefið er stigið í átt til þess að breyta rekstrarformi sparisjóðs skuli það mál falla í þann farveg sem nú blasir við. Það uppnám, sem nú er orðið í kringum fyrirhugaða hlutafélagavæðingu SPRON, er enn eitt dæmið um það að endurskipulagning fjármálakerfisins hefur ekki verið hugsuð til enda af Alþingi og ríkisstjórn.

Í ritstjórnargrein daginn eftir var leitast við að draga fram hver vilji Alþingis var þegar það breytti lögum um sparisjóði vorið 2001. Rifjuð voru upp orð Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra í umræðum um frumvarpið þar sem ráðherra sagði að ekki kæmi til greina að afhenda stofnfjáreigendum eða einhverjum öðrum verðmæti sem þeir gætu ekki gert tilkall til. „Þeir eiga ekki tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðsins. Þetta er lykilatriði í frumvarpinu.“ Síðan sagði blaðið:

Það er varla hægt að tala skýrar. Viðskiptaráðherra undirstrikar að þetta sé „lykilatriði“ í frumvarpinu.33

Einnig var í greininni vísað til nýlegra ummæla Vilhjálms Egilssonar, þáverandi alþingismanns og formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, um tilboð fimmmenninganna þar sem hann kvaðst ekki hafa séð nein rök fyrir því að borga stofnfjáreigendum meira en sem næmi þeirra stofnhlut. „Eigið fé í sparisjóðunum [hefði] safnast upp umfram stofnfé og stofnfjáreigendurnir [væru] gæslumenn þess fjár en þeir [ættu] það ekki.“ Leiðarahöfundur dró síðan ályktun út frá þessum ummælum:

Og þess vegna getur heldur ekki farið milli mála að sú aðferð, sem Búnaðarbankinn beitir með milligöngu fimm stofnfjáreigenda í SPRON, gengur þvert á markmið og vilja Alþingis Íslendinga.

Í greininni voru rifjuð upp varnaðarorð Péturs H. Blöndal sem hann hafði uppi í umræðum á Alþingi um hvað gæti gerst ef breytingin á lögunum yrði samþykkt. Leiðarahöfundi þótti aðgerðir fimmmenninganna fara mjög nálægt þeim ábendingum þingmannsins. Síðan var tilfært hvaða dóm Pétur lagði á slíkar aðgerðir í umræðunum á þingi:

„Það er þetta, sem ég var að benda á og þegar ég gat um spillingu og annað slíkt, þá átti ég við möguleikana á slíku. Ég var alls ekki að segja að þetta ætti sér stað í dag, langt í frá. En þetta er það sem ég átti við.“

Síðan sagði leiðarahöfundurinn:

Um þessi ummæli þingmannsins þarf ekki að hafa mörg orð. Þau skýra sig sjálf.

Framangreind áform fimmmenninganna og Búnaðarbankans annars vegar og Starfsmannasjóðs SPRON ehf. hins vegar gengu ekki eftir því Fjármálaeftirlitið gaf báðum aðilum endanlegt svar í september og október og synjaði þeim um að fara með virkan eignarhlut í sparisjóðnum. Tilboðin sem þessir aðilar gerðu stofnfjáreigendum í stofnhluti þeirra og sú niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að sala stofnhluta á yfirverði væri ekki andstæð lögum varð til þess að hópurinn sem sá mikil verðmæti í stofnfjárbréfum sparisjóðsins stækkaði. Brátt var það ekki bundið við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis einan. Sumt af því sem Pétur H. Blöndal hafði spáð fyrir um að gæti gerst ef hlutafélagaákvæðið yrði að lögum hafði einmitt komið fram, þ.e. stofnféð varð skyndilega mjög verðmætt rétt fyrir breytingu í hlutafélag og stór aðili kom fram á sjónarsviðið reiðubúinn að greiða hátt verð fyrir stofnbréfin.

12.2.4 Ný lög 2002 – Yfirtökuvarnir settar

Lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki voru samþykkt á Alþingi 20. desember 2002. Drög að frumvarpinu, samin af bankalaganefnd, voru tilbúin í júní 2002 og voru þá kynnt og send til umsagnar til fjölmargra aðila. Í ágúst 2002 óskaði viðskiptaráðherra eftir því að bankalaganefnd yfirfæri lagaákvæði um sparisjóði með hliðsjón af umræðu um yfirtökutilboð sem borist höfðu í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Nefndin skipaði undirhóp til að yfirfara lagaákvæðin. Í undirhópnum sátu tveir fulltrúar viðskiptaráðuneytis, einn fulltrúi viðskiptabanka og einn fulltrúi sparisjóða. Tillögur undirhópsins voru í VIII. kafla frumvarpsins, en bankalaganefnd tók ekki afstöðu til þeirra. Fulltrúi viðskiptabanka var andvígur tillögum hópsins. Ákvæðum um sparisjóði var breytt til að treysta yfirtökuvarnir sparisjóða. Þannig var kveðið á um við hvaða aðstæður sparisjóðsstjórn skyldi heimila framsal á virkum eignarhlut. Þá var tryggilegar búið um að tengdir stofnfjáreigendur gætu ekki farið með yfir 5% heildaratkvæðamagns í sparisjóði. Að lokum var kveðið á um að sparisjóður skyldi breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag áður en samruni við aðrar tegundir fjármálafyrirtækja gæti orðið.34

Í athugasemd með 70. gr. frumvarpsins voru rakin tildrögin að þessum breytingum og:

Sumarið 2002 var gert yfirtökutilboð í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) með það að markmiði að SPRON rynni að lokum saman við annað fjármálafyrirtæki. Var afstaða Fjármálaeftirlitsins sú að ákvæði gildandi laga yrðu ekki túlkuð á þann veg að óheimilt væri að framselja stofnfjárhluti á yfirverði með þeim hætti sem yfirtökutilboðið gerði ráð fyrir. Sú niðurstaða hefur leitt af sér bagalega réttaróvissu fyrir sparisjóðina varðandi það hver staða þeirra er gagnvart hugsanlegum fjandsamlegum yfirtökutilboðum af hendi annarra fjármálafyrirtækja.

Með ákvæðum 2. mgr. eru treystar varnir sparisjóðanna gegn slíkum yfirtökuboðum með því að skerpa á meginreglunni um dreifða eignaraðild. Er í ákvæðinu skýrt kveðið á um það að stjórn sé heimilt og skylt að synja um framsal stofnfjárhluta sem leiða mundi til myndunar virks eignarhluta í skilningi laganna, nema því aðeins að uppfyllt sé annað hvort tveggja tilgreindra skilyrða.

Í fyrsta lagi kann myndun virks eignarhluta að réttlætast af sérstökum aðstæðum vegna nauðsynjar á fjárhagslegri endurskipulagningu viðkomandi sparisjóðs. Hér kann að vera um að ræða björgunaraðgerðir, t.d. tímabundna eignaraðild sveitarfélags á starfssvæði sparisjóðsins í því skyni að tryggja stöðugleika í atvinnulífi. Í öðru lagi kann öflun stofnfjárhlutarins að vera liður í eflingu samvinnu milli sparisjóða í landinu, að því marki sem slík samvinna er heimil vegna ákvæða annarra laga, t.d. samkeppnislaga.35

Í framsöguræðu Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra um lagafrumvarpið kom fram að auk yfirferðar undirhóps bankalaganefndar á sérákvæðum um sparisjóði hefði ráðuneyti hennar aflað álitsgerðar Páls Hreinssonar lagaprófessors um það hvort eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar stæðu í vegi fyrir því að tilteknar breytingar yrðu gerðar á ákvæðum laga um framsal stofnfjárhluta.36 Ráðherra greindi svo frá niðurstöðunni í álitsgerðinni:

Niðurstaða Páls varð á þá leið að bann við framsali stofnfjárhluta á yfirverði teldist trúlega fara gegn stjórnarskrárákvæðinu, enda var sú leið ekki lögð til í tillögum vinnuhópsins. Þær leiðir sem hópurinn lagði til að farnar yrðu taldi lagaprófessorinn hins vegar líklegra að fælu í sér almennar takmarkanir á eignarréttindum sem vörðuðu ríkið ekki bótaskyldu.37

Þarna voru því með liðlega tveggja mánaða millibili komin fram tvö lögfræðileg álit sem hnigu í þá átt að bann við framsali stofnfjárhluta til þriðja aðila á hærra verði en endurmetnu nafnverði væri ekki að finna í gildandi lögum og væri slíkt bann sett bryti það að líkindum gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Þingmaðurinn Guðmundur Árni Stefánsson lét í ljósi efasemdir um þær yfirtökuvarnir sem áttu að felast í frumvarpinu:

Hæstvirtur ráðherra sagði að hún hefði undir höndum lögfræðiálit sem skæri úr um að þetta ákvæði laganna væri ekki virkt. Það stangaðist á við stjórnarskrána. Ég vil árétta spurningu mína til hæstvirts ráðherra: Ef þessi ákvæði gildandi laga eru aftur upp tekin í frumvarpinu sem hún leggur hér fram en virka ekki í raun og sannleika, stangast á við stjórnarskrá að mati hennar lögfræðinga, hvers vegna er þá verið að blekkja fólk og þá sem vinna í þessum geira með því að halda þessum ákvæðum inni?38

Í svari ráðherra kom fram:

Það sem nú er kveðið á um í þessu frumvarpi og snýr að sparisjóðum er fyrst og fremst til þess að eyða réttaróvissu og til þess að koma hlutum þannig fyrir í lagalegu formi að ekki ríki óvissa og hlutir eins og gerðust í sumar gerist ekki. Ég segi aftur: Gengið er eins langt í þeim efnum og ég tel að við getum gert með tilliti til stjórnarskrár Íslands.39

Pétur H. Blöndal hafði þetta um frumvarpið að segja:

Við erum með þrískiptingu valdsins, framkvæmdarvald, dómsvald og löggjafarvald. Ágreining sem rís vegna gildandi laga á að leysa fyrir dómstólum, herra forseti. Hann á ekki að leysa með tilskipunum. Hann á ekki að leysa á löggjafarsamkundunni sem er ekki dómsvald. Með ákvæðum þessa frumvarps er gerð tilraun til þess að leysa ágreining með lögum. Verið er að setja lög sem eiga að treysta yfirtökuvarnir sparisjóða. Talað er um fjandsamlega yfirtöku. Fjandsamlega hverjum? Stofnfjáreigendum? Nei. Sparisjóðnum? Nei. Hans eigið fé er tryggt. Stjórninni? Kannski.40

Margir þeirra sem tóku til máls um frumvarpið vísuðu til yfirtökutilraunar Búnaðarbankans og fimmmenninganna á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis á liðnu sumri og rifjuðu upp þátt Péturs í henni. Hann svaraði þeirri gagnrýni með því að vísa til afgreiðslu þingsins á margnefndri lagabreytingu vorið 2001:

Ég lagði til að því fé sem enginn á yrði dreift og enn fremur að stofnfjáreigendur fengju eitthvað meira en þetta litla sem ætlað var í lögunum. Það var virkilega farið illa með stofnfjáreigendur í þessum lögum og ef SPRON hefði verið breytt í hlutafélag 28. júní eins og til stóð væri stofnfjáreignin orðin verðlaus hlutabréf, gjörsamlega verðlaus, vegna þess að einn aðili mundi ráða 90% og enginn vill kaupa hluta af þeim 10% sem eftir yrðu. Þannig er veist að stofnfjáreigendum sem einir hafa lagt fram fé í sparisjóðina. […] Og ég vildi að nefndin skoðaði að stofnfjáreigendur fengju eitthvað fyrir sína áhættu, að hafa lagt fram féð, en restinni yrði svo dreift á menningar- og líknarfélög á viðkomandi svæði, að þau fengju hlutabréf í viðkomandi sparisjóði. Þannig vildi ég hafa þetta í vor en ekki að búa til fé sem enginn á en einhver ræður og getur notað í valdabrölti hingað og þangað. Það er nefnilega það sem gerist og það er það sem þingmenn horfa upp á í dag.41

12.2.4.1 Breytingar gerðar á frumvarpinu

Fáeinar breytingar urðu á frumvarpinu í meðförum þingsins. Tveggja verður hér getið, sem báðar vörðuðu eignarhaldið en vöktu litla athygli þingmanna. Sú fyrri var meðal fjölmargra smábreytinga sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til við aðra umræðu. Hún var viðbót við 1. mgr. 74. gr. frumvarpsins, en sú grein fjallaði um skiptingu hlutafjár í sparisjóði. Málsgreinin hljóðaði svo eftir breytinguna (viðbótin er hér sýnd með breyttu letri):

Við breytingu á sparisjóði í hlutafélag skv. 73. gr. skulu stofnfjáreigendur eingöngu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé, endurmetið skv. 67. gr., nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Markaðsvirði sparisjóðsins sem og gagngjald fyrir stofnfjárhluti skal metið af óháðum aðila og miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi sparisjóðsins. Við mat á hlut stofnfjár skal hafa til hliðsjónar arðsvon stofnfjárhluta skv. 68. gr. annars vegar og arðsvon og áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar. Sá hluti hlutafjár sparisjóðsins eftir breytingu hans í hlutafélag sem ekki gengur til stofnfjáreigenda samkvæmt framansögðu skal verða eign sjálfseignarstofnunar sem sett er á stofn skv. 76. gr.

Í nefndarálitinu var vísað til þess hvernig umrætt ákvæði var í lögum nr. 71/2001 og sagt að því hefði verið ætlað að tryggja að áætlað verðmæti hlutafjár stofnfjáreigenda væri hið sama og endurmetið stofnfé fyrir hlutafélagavæðingu sparisjóðsins. Síðan voru eftirfarandi rök færð fyrir breytingunni:

Þessi aðferð tryggir hins vegar ekki að stofnfjáreigendur séu jafnsettir fyrir og eftir hlutafélagavæðingu. Það kemur einkum til af því að gengisáhætta er mikil í hlutafélagi en innlausnarvirði stofnfjárhluta er þekkt. Jafnframt er möguleiki fyrir sparisjóði að greiða góðan arð af stofnfjárhlutum skv. 59. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 68. gr. frumvarpsins, og ráðstafa hluta hagnaðar til hækkunar á stofnfé. Eðlilegt er að tryggja eins og kostur er að stofnfjáreigendur séu jafn vel settir fyrir og eftir hlutafélagavæðingu. Þeirri breytingu sem hér er lögð til er ætlað að ná því markmiði. Til að tryggja að sparisjóðsstjórnir gæti ekki hagsmuna stofnfjáreigenda umfram hagsmuna sjálfseignarfjár sparisjóðsins er lagt til að óháður aðili verði fenginn til að meta ákvörðun hlutafjár. Til viðbótar við hinn óháða aðila fer Fjármálaeftirlitið yfir matið. Við matið skal hinn óháði aðili leggja til grundvallar þekktar aðferðir við mat á áhættu og hafa til hliðsjónar arðsvon og áhættu stofnfjárshluta [svo] skv. 68. gr. annars vegar og arðsvon og áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar.42

Vilhjálmur Egilsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, mælti fyrir breytingartillögum nefndarinnar og sagði um þessa tilteknu breytingu:

Meginmarkmiðið með þessu er að tryggja að sparisjóður sem vill breytast í hlutafélag lendi ekki í því að stofnfjáreigendum finnist þeir vera verr settir við þá breytingu og fái ekki jafngilda eign í hlutafé í staðinn fyrir það stofnfé sem þeir ráða yfir. Þetta þýðir þá væntanlega að það verður greiðara um vik að stofna hlutafélög um sparisjóði eins og ætlunin var alltaf með því að heimila slíkar breytingar. Þessi breyting gengur ekki út á það að stofnfjáreigendur eigi að eiga eitthvað meira en þeir í sjálfu sér eiga samkvæmt gildandi lögum eða eitthvað meira heldur en þeir eiga sem stofnfé í sparisjóði heldur einungis að eignin sem þeir fá sé jafngild þeirri sem þeir láta af hendi.43

Þessi breyting bar vitni um alveg nýtt viðhorf til stofnfjárbréfa. Meginröksemdin fyrir því að heimila vorið 2001 breytingu sparisjóða í hlutafélög var samkvæmt greinargerðinni með lagafrumvarpinu að þeir ættu örðugra en fjármálafyrirtæki í hlutafélagsformi með að afla sér nýs eigin fjár til vaxtar. Skýringin var sögð liggja í einkennum stofnfjár-
bréfanna:

[Þ]au ganga ekki kaupum og sölum á markaði, takmarkanir reistar við framsali og atkvæðisréttur er skertur, þykja síður fýsilegur kostur fyrir fjárfesta. […] Hér er gengið út frá því sem vísu að einkenni stofnfjárbréfa geri þau lítt áhugaverð, enda séu til staðar aðrir möguleikar til fjárfestinga sem ættu, að öðru jöfnu, að gefa betri ávöxtun.44

Stofnfjárbréfin voru hins vegar orðin það miklu verðmætari en hlutabréf að bæta þyrfti stofnfjáreigendum það upp ef þeir létu þau í skiptum fyrir hlutabréf. Með lagabreytingunni 2001 höfðu komið inn ákvæði sem ætlað var að gera stofnbréf eftirsóknarverðari fjárfestingarkost en áður, þ.e. heimild til sérstaks endurmats stofnfjár og að greiða mætti arð þótt tap væri af rekstrinum.45 Tilboð fimmmenninganna til stofnfjáreigenda í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis um sumarið hafði að líkindum haft áhrif í þessa veru.

Rannsóknarnefndinni tókst ekki að afla upplýsinga um hvernig þessi breytingartillaga varð til. Tillagan var samþykkt nær umræðulaust.46 Aðeins einn þingmaður gerði þessa breytingartillögu að umtalsefni, en það var Jóhanna Sigurðardóttir sem átti sæti í efnahags- og viðskiptanefnd. Hún hafði eftirfarandi um hana að segja:

Meginbreyting efnahags- og viðskiptanefndar er við 74. gr., sem ég hef nokkrar efasemdir um. Þar er sett fram nokkurs konar dúsa til stofnfjáreigenda, sett eru fram matskennd ákvæði um aukna arðsvon af stofnfjárhluta við breytingu á sparisjóði í hlutafélag. […] Hér er á ferðinni afar sérstætt ákvæði svo ekki sé meira sagt. Það er ekki bara matskennt og opið, heldur má segja að það gangi gegn þeim grunngildum sem sparisjóðalöggjöfin hefur byggt á um verðgildi stofnfjárhluta sem er nafnverð stofnfjár og breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs.47

Hin breytingin á frumvarpinu sem hér verður gerð að umtalsefni var lögð fram við þriðju umræðu af fjórum nefndarmönnum efnahags- og viðskiptanefndar, þeim Vilhjálmi Egilssyni, Einari K. Guðfinnssyni, Gunnari Birgissyni og Kristni H. Gunnarssyni. Hún var viðbót við 64. gr. frumvarpsins sem kvað á um að veðsetning stofnfjárhlutar í sparisjóði væri óheimil, eins og staðið hafði óbreytt í lögum frá 1985. Lagt var nú til að við þetta ákvæði yrði bætt: „nema samþykktir sparisjóðsins heimili veðsetningu að fengnu samþykki stjórnar.“ Einnig yrði tveimur málsgreinum aukið við greinina, er fjölluðu um hvað gera skyldi við fullnustu veðréttar.

Þessi breyting var samþykkt samhljóða og án nokkurrar umræðu. Þarna var þó um að ræða grundvallarbreytingu á eðli stofnfjáreignar. Ef samþykktum sparisjóðs yrði breytt á þann veg að veðsetning stofnfjárhluta yrði leyfð væri búið að opna fyrir að veðsettir hlutir kæmust í eigu aðila utan starfssvæðis sparisjóðsins, að vísu háð samþykki stjórnar. Þetta var eitt af því sem stuðlaði að því að losa um tengsl sparisjóða við nærsamfélag þeirra. Áður var búið að aflétta skyldunni um að fulltrúar sveitarfélags ættu sæti í stjórn sparisjóða.

12.2.5 „Skyndilög“ 2004

Þótt yfirtökutilraunir Búnaðarbankans með hjálp fimmmenninganna og Starfsmannasjóðs SPRON ehf. á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hefðu farið út um þúfur síðla árs 2002 höfðu væntingar stofnfjáreigenda um mikil verðmæti í stofnbréfunum verið vaktar. Viku fyrir aðalfund sparisjóðsins sem haldinn var 26. mars 2003 kom framboð til stjórnarkjörs sem stefnt var gegn sitjandi stjórn. Pétur H. Blöndal var efstur á framboðslistanum. Fimmmenningarnir stofnuðu Samtök stofnfjáreigenda um framboðið. Baráttumál listans var að gera stofnfjáreigendum kleift að selja stofnfjárbréf sín í sparisjóðnum á markaðsverði. Framboðið náði tveimur mönnum í stjórn og var Pétur annar þeirra.

12.2.5.1 Samkomulag Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Kaupþings Búnaðarbanka hf.

Mikill þrýstingur var á stjórnendur sparisjóðsins að finna leið til að auka verðmæti stofnfjárins. Í fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 11. desember 2003 var eftirfarandi fært til bókar:

Sparisjóðsstjóri skýrði frá því að undirnefnd um stofnfjármál hefði komist að þeirri niðurstöðu að mögulega væri fundin leið til að breyta SPRON í hlutafélag þar sem stofnfjáreigendur gætu fengið yfirverð fyrir stofnfjáreign sína, en sú leið felur í sér að sparisjóðurinn yrði rekinn sem hlutafélag í eigu eða í samstarfi við viðskiptabanka. Ef sparisjóðurinn ákveður hins vegar að breyta sér ekki í hlutafélag er hægt að koma upp tilboðsmarkaði með stofnfjárbréf í SPRON, sem ætti að geta gert stofnfjáreigendum kleift að selja stofnfjárbréf sín á yfirverði. Nefndin lagði til við stjórnina að sparisjóðsstjóra og lögmanni sparisjóðsins yrði falið að ganga á fund viðskiptabankanna þriggja til að kanna hvort þeir hefðu áhuga á slíkum viðræðum.

Stjórnin samþykkti að þessi möguleiki yrði kannaður við viðskiptabankana. Sparisjóðsstjóri lagði fram drög að bréfi […] Í bréfinu eru eftirfarandi atriði lögð til grundvallar slíkum viðræðum:

  • að SPRON starfi áfram sem sjálfstæð eining undir eigin nafni
  • að starfsmönnum verði eftir því sem unnt er tryggt starf áfram í sparisjóðnum
  • að hagsmuna viðskiptavina verði gætt og reynt verði að varðveita viðskiptasambönd þau sem sparisjóðurinn hefur
  • að hagsmuna stofnfjáreigenda verði gætt þannig að þeir fái sem hæst verð fyrir það hlutafé sem þeir fá í skiptum fyrir stofnfé
  • að viðskiptabankar þeir sem rætt verður við skýri ítarlega á hvern hátt þeir telji unnt að efla starfsemi sparisjóðsins og jafnframt verði greint frá því hagræði sem sparisjóðurinn muni njóta af samstarfi sínu við viðkomandi viðskiptabanka.48

Áður en til þessa kom hafði stjórnin fengið PricewaterhouseCoopers til að verðmeta sparisjóðinn. Niðurstaða þess var að verðið á einni hendi væri 7,4 milljarðar króna.49 Atburðarásin í framhaldinu varð hröð. Hugmyndir viðskiptabankanna hvers um sig lágu fyrir á fundi stjórnar sparisjóðsins 20. desember. Stjórnin samþykkti að gengið yrði til viðræðna við Kaupþing Búnaðarbanka hf. þar sem „hugmyndir þeirra væru hagstæðastar, bæði hvað varðar verð og aðrar hugmyndir til að koma til móts við skilyrði af hálfu SPRON“. Báðir aðilar undirrituðu 21. desember viljayfirlýsingu um samstarf þar sem stefnt skyldi að því að sparisjóðurinn yrði rekinn sem sjálfstætt starfandi dótturfélag Kaupþings Búnaðarbanka. Samstarfsáætlun lá svo fyrir 29. desember og var staðfest af stjórn sparisjóðsins á fundi hennar sama dag. Þá var jafnframt ákveðið að senda stofnfjárhöfum fundarboð um upplýsingafund um miðjan janúar 2004. Unnið var að málinu allan janúarmánuð og boðaður var stofnfjáreigendafundur 10. febrúar 2004 þar sem hnýttur skyldi endahnútur á sameininguna.

Samkomulagið byggðist á því að stjórn sparisjóðsins aflaði sér samþykkis stofnfjáreigenda fyrir því að breyta sjóðnum í hlutafélag. Við breytinguna yrði hlutur sjálfseignarstofnunarinnar, SPRON-sjóðsins ses., 81% af hlutum SPRON hf., en stofnfjáreigendur fengju 19% af hlutunum sem gagngjald fyrir stofnféð sitt. Að þessu loknu myndi Kaupþing Búnaðarbanki kaupa hluti sjálfseignarstofnunarinnar fyrir 6 milljarða króna og greiða fyrir með hlutabréfum í sjálfum sér. Jafnframt myndi bankinn bjóða stofnfjáreigendum að kaupa þeirra hlut fyrir tæpa 3 milljarða króna, einnig greitt með bréfum í sjálfum sér. Samkomulagið var háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og því að samkeppnisyfirvöld gerðu ekki athugasemd við það.

Þessi áform urðu opinber sama dag og viljayfirlýsingin var undirrituð. Daginn eftir var greint frá málinu í forsíðufrétt Morgunblaðsins undir fyrirsögninni: „Kaupþing Búnaðarbanki kaupir SPRON.“ Undirfyrirsögnin var: „Kaupverð um 9 milljarðar króna. Til verður 6 milljarða sjóður, sem leggur fé til menningar- og líknarmála. 1.100 stofnfjáreigendur fá 3 milljarða í sinn hlut.“50 DV var einnig með forsíðufrétt um málið undir risafyrirsögn: „Kaupþing kaupir SPRON.“

Mikil fjölmiðlaumræða fór í gang og voru dagblöðin, einkum Morgunblaðið, dugleg að birta fréttir um málið og viðtöl við marga sem það snerti, auk þess sem fjöldi aðsendra greina var birtur. Fyrsta daginn sem fjölmiðlar fjölluðu um samninginn var tónninn hlutlaus og jafnvel fremur jákvæður. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var innt álits á þessari fyrirhuguðu sameiningu:

Þetta mál er í raun ekki á mínu borði, heldur eru þetta hlutir sem eru að gerast úti á markaðinum. Hins vegar get ég sagt að mér finnst allt annar svipur á þessu heldur en var í fyrrasumar. Þarna virðist vera samvinna um málið á milli Kaupþings Búnaðarbanka og SPRON og ekki annað að sjá en það sé samstaða hjá stjórn SPRON að vilja láta þetta ganga eftir. Það finnst mér vera mikið atriði. […] Eftir að Fjármálaeftirlitið gaf þann úrskurð að það væri heimilt að selja stofnfjárbréf á yfirverði þá var nokkuð ljóst að það gæti dregið til tíðinda.51

Næsta dag komu fram efasemdarraddir um ágæti samkomulagsins. Ögmundur Jónasson, alþingismaður og fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, kvaðst í blaðaviðtali vera búinn að óska eftir að nefndin fundaði um málið:

Það átti aldrei að heimila að sparisjóðir yrðu gerðir að hlutafélögum. Það er á þeirri forsendu sem á að fara í gegnum þessar breytingar. […] Það stefnir í aukna fákeppni og samþjöppun. Ætla menn bara að góna á þetta eins og dofnir áhorfendur eða ætla menn að taka á þessu af alvöru?52

Forystugrein Morgunblaðsins þann sama dag bar fyrirsögnina „Vilji fólksins“. Þar var tekin eindregin afstaða gegn þessum áformum og atburðirnir sumar og haust 2002 rifjaðir upp, þ.e. yfirtökutilraunirnar á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og lagasetningin í kjölfarið, þar sem reynt hafði verið að treysta yfirtökuvarnir sparisjóðanna:

Þar [var] ekki stoppað upp í það gat sem Fjármálaeftirlitið hafði með greinargerð sinni frá 19. júlí sl. talið að væri í gildandi löggjöf. Skýring Valgerðar Sverrisdóttur á því kom fram í umræðum um hið nýja frumvarp. Hún sagði m.a.: „Við fengum lögfræðiálit, sem kveður á um að það stæðist að öllum líkindum ekki ákvæði stjórnarskrár að setja inn ákvæði í lög, sem útilokaði það að stofnfé væri selt á yfirverði.“ Alþingi gafst með öðrum orðum upp við að setja lög, sem kæmu í veg fyrir að til yrði nýtt gjafakvótakerfi í tengslum við sparisjóðina.

Það eru óneitanlega sérstakir afreksmenn í lagasmíð og lagatúlkun, sem fá því framgengt með þessum hætti að yfirlýstur vilji Alþingis frá árinu 1915 sé hundsaður og að engu hafður. Það er merkilegt að sjálft löggjafarvaldið skuli láta sér nægja að taka mið af lögfræðiálitum í stað þess að setja sjálft lög á grundvelli eigin vinnu og láta á það reyna fyrir dómstólum, hvort þau standist ákvæði stjórnarskrár. Eins og allir vita eru lögfræðiálit af margvíslegu tagi. Niðurstaðan er eftirfarandi: nýtt gjafakvótakerfi í tengslum við sparisjóðina. Þeir verða nánast allir á uppboði næstu mánuði og misseri.53

Næstu daga birtust viðtöl við og yfirlýsingar frá ýmsum alþingismönnum og félagasamtökum þar sem lýst var vanþóknun á samkomulaginu. Í blaðaviðtali sagði Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður meðal annars:

Hvað orsakar raunverulega þessi umskipti sem orðið hafa hjá forstöðumönnum SPRON og líka viðskiptaráðherra? Þeir gengu mjög hart fram í því og við vorum öll í liði með þeim í því að verja sparisjóðina svo ekki væri hægt að braska með þetta stofnfé. Nú eru þeir algjörlega búnir að snúa við blaðinu. Ég tel að það þurfi raunverulega að rannsaka hvað býr að baki þessum umskiptum sem þarna hafa orðið. Þessar dúsur um það að stofnfjáraðilarnir sjálfir geti hagnast gífurlega á þessu, hefur það eitthvað að segja í þessu máli?54

Stjórn Sambands íslenskra sparisjóða sendi frá sér yfirlýsingu 30. desember þar sem sagði meðal annars að þessi áform fælu í sér „aðför að íslenska sparisjóðakerfinu“ og „að mati stjórnar SÍSP er ekki hægt að leggja blessun sína yfir það að stofnfjáreigendur falbjóði með þessum hætti sjálfseignarstofnun gegn þóknun“.

Fáir lýstu velþóknun sinni á samkomulaginu nema stofnfjáreigendur, starfsfólk sparisjóðsins og stjórnarmenn. Í einu dagblaðinu var Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og stjórnarmaður í sparisjóðnum, spurður að því hvort 6 milljarða króna sjóðurinn sem til stæði að yrði eign Kaupþings Búnaðarbanka væri ekki dæmi um það sem hann kallaði fé án hirðis kvað Pétur svo vera:

„Ég var andvígur frumvarpinu á þingi, en lögin eru svona og við fylgjum þeim.“ Pétur var fulltrúi uppreisnarafla í stjórn SPRON. Hann segist sáttur við niðurstöðuna og fagna henni. Pétur segir meginmuninn á viðskiptunum nú og þegar hann ásamt fimmmenningunum gerði tilboð þann að hlutur stofnfjáreigenda hafi aukist örlítið, en sjóðurinn hafi hins vegar stækkað verulega.55

12.2.5.2 Inngrip Alþingis

Á forsíðu Morgunblaðsins 31. janúar 2004 var greint var frá að iðnaðar- og viðskiptaráðherra íhugaði að grípa til aðgerða vegna samnings SPRON-sjóðsins ses. við KB banka hf. (nýtt nafn á Kaupþingi Búnaðarbanka hf.). Vitnað var til bréfs sem ráðuneytið hafði sent stjórn SPRON-sjóðsins 28. janúar 2004 og birt var í Morgunblaðinu sama dag og umrædd frétt. Ráðuneytið fór fram á skýringar sjóðsins vegna athugasemda sem ráðuneytið gerði við fyrirhugaða sölu. Athugasemdirnar lutu annars vegar að því að vegna mismunandi sölugengis til stofnfjáreigenda (gengið 2,13) og sjálfseignarstofnunarinnar (gengið 1,0) kynnu hagsmunir stjórnarmanna að ganga í bága við hagsmuni sjóðsins og samrýmdust því ekki ákvæðum laga um sjálfseignarstofnanir. Í annan stað fór ráðuneytið fram á að fá að vita á hvaða grundvelli þáverandi stjórn SPRON-sjóðsins hefði umboð til að taka ákvarðanir fyrir hönd sjálfseignarstofnunarinnar, þar sem kveðið væri á um það í lögum að fulltrúaráð, sem í ættu sæti allir stofnfjáreigendur, ætti að kjósa stjórn stofnunarinnar. Ný stjórn hafi tekið við sjóðnum 20. janúar og hún hafi ekki verið kosin af fulltrúaráði.56

Um sama leyti voru ekki færri en þrjú lagafrumvörp í smíðum sem öllum var ætlað að draga úr líkum þess að af viðskiptunum yrði milli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og KB banka hf. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra mælti fyrir stjórnarfrumvarpi 4. febrúar 2004 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Deginum áður hafði þingflokkur Sjálfstæðisflokks samþykkt að veita Einari Oddi Kristjánssyni, þingmanni flokksins, heimild til að leggja fram frumvarp er kæmi í veg fyrir að KB banki eignaðist sparisjóðinn. Það frumvarp var samið að frumkvæði Einars Odds og Lúðvíks Bergvinssonar, þingmanns Samfylkingar.57 Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, upplýsti við fyrstu umræðu um stjórnarfrumvarpið að flokkur hans væri með tilbúið frumvarp í svipuðum tilgangi.

Stjórnarfrumvarpið innihélt breytingu á ákvæðinu um það hverjir skyldu sitja í stjórn sjálfseignarstofnunar sem til yrði við breytingu sparisjóðs í hlutafélag. Í stað þess að þeir yrðu kosnir af og úr fulltrúaráði stofnunarinnar var lagt til að í henni ættu sæti tveir fulltrúar sveitarfélags þar sem sparisjóðurinn á heimilisfesti við breytingu í hlutafélag, tveir fulltrúar tilnefndir af ráðherra og einn fulltrúi tilnefndur af samtökum sparisjóða, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Í athugasemd með frumvarpinu sagði um þessa breytingu:

Reynslan hefur hins vegar sýnt að hagsmunaárekstrar geta orðið á milli stofnfjáreigenda annars vegar og sjálfseignarstofnunarinnar hins vegar og að óheppilegt sé að stofnfjáreigendur taki bæði ákvörðun fyrir sína hönd og hönd sjálfseignarstofnunarinnar, t.d. um sölu á hlutabréfum stofnfjáreigenda annars vegar og sjálfseignarstofnunarinnar hins vegar. Frumvarp þetta er því lagt fram til að tryggja að stjórn sjálfseignarstofnunarinnar verði óháð stofnfjáreigendum í viðkomandi sparisjóði.58

Viðskiptaráðherra kvaðst í framsöguræðu sinni um frumvarpið hafa gagnrýnt samninginn milli sparisjóðsins og bankans eingöngu fyrir það að gert væri ráð fyrir að sjálfseignarstofnunin seldi sinn hlut á mun lægra gengi en stofnfjáreigendurnir. Þetta væri óeðlilegt og hagsmuna sjálfseignarstofnunarinnar hefði því ekki verið gætt:

Sú breyting sem hér er lögð til aftengir hagsmuni stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunar. Þessi breyting hefur engin áhrif á stöðu stofnfjáreigandans sem hluthafa í sparisjóði. […]

Hvort stofnfjáreigendur í sparisjóðum kjósi að breyta rekstrarformi sparisjóða eftir þessa breytingu verður að koma í ljós. Hvort SPRON-málið hið þriðja mun koma upp á næstu missirum er einnig óvissu háð. En eitt er víst: Ekkert verður eins og áður. Við getum ekki tryggt að sparisjóðirnir verði alltaf til í óbreyttri mynd.59

Pétur H. Blöndal benti á að stjórn sparisjóðsins stæði einhuga á bak við þessa breytingu. Nú væri því ekki um neitt að ræða sem áður hefði heitið óvinveitt yfirtaka. Hann kom með skýringu á tvenns konar verði í samningnum:

Varðandi mismunandi verð þá er það afskaplega einfalt. Sá sem kaupir 80% af sjálfseignarstofnuninni fær ekki nema 5% vægi. Hann þarf að ná 97,5% til að geta breytt samþykktum af því að 2,5% sem eftir eru hafa helmings vægi á við 5%. Hann fær aldrei meira en 5%. Þess vegna þarf hann sífellt að bjóða hærra og hærra verð til stofnfjáreigenda því að margir þeirra munu ekkert selja. Þeir eru ekki skyldaðir til að selja. Þetta skýrir af hverju það er mismunandi verð. Ég skil ekki að menn skuli ekki skilja þetta.60

Pétur, sem var formaður efnahags- og viðskiptanefndar, vildi fá skýringar út frá orðum ráðherra:

Hæstvirtur ráðherra sagði rétt áðan að SPRON-málið hið þriðja kæmi upp. Á hún þá við það að þessi lagasetning muni stöðva SPRON-málið annað? Á hún við það að þessi lagasetning sé sett til höfuðs þeim samningi sem gerður var milli SPRON og Kaupþings Búnaðarbanka hf. 23. desember sl.? Ég vil fá svör við því og eins því hvort meiningin sé að klára lagasetninguna fyrir 10. febrúar. Ég spurði hæstvirtan forseta að því áðan og hann kom sér undan því að svara. En ég vil fá að vita hvort störf háttvirtrar efnahags- og viðskiptanefndar skuli vera svo hröð að það eigi að afgreiða þetta á fimm dögum. Það þarf ég að vita því að annars vanda ég mig við lagasetninguna og fæ til mín lögfræðinga og leita umsagna.61

Dagsetningin sem Pétur vísaði til var einmitt dagurinn sem fundur stofnfjáreigenda í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis skyldi haldinn og smiðshöggið yrði rekið á samninginn við KB banka. Nefndinni gafst enginn tími til að leita umsagna því frumvarpið fór með miklum hraða í gegnum þingið. Við þriðju umræðu um frumvarpið klukkan hálfellefu að kvöldi 5. febrúar tók Pétur einn til máls og sagði:

Herra forseti. Ég ætla ekki að setja á langar ræður. Ég er ekki hrifinn af því ofbeldi sem stundum tíðkast, að tefja mál með langlokum. Hins vegar bendi ég á að hið ótrúlega er að gerast að Alþingi er að setja lög gegn einum ákveðnum samningi. Það er alveg á hreinu miðað við það sem kom fram áðan að Alþingi telur nauðsynlegt að flýta þessu frumvarpi þvílíkt að klukkan hálfellefu að kvöldi er verið að hefja 3. umræðu með afbrigðum. Málið var lagt fram í gær. Þvílíkur er hraðinn. Það er sem sagt greinilegt að þessu frumvarpi er stefnt gegn ákveðnum samningi sem gerður hefur verið í samræmi við lög og það er með ólíkindum, herra forseti, að slíkt skuli vera að gerast.

Það er grundvallaratriði í réttarríkinu að fólk geti gert samninga í samræmi við gildandi lög án þess að eiga á hættu að löggjafinn komi þar inn ef honum líkar ekki niðurstaðan, taki að sér hlutverk dómsvalds og brjóti þrískiptingu ríkisvaldsins. Ég vara eindregið við þessu. Og ég ætla að vona að háttvirtir þingmenn lendi ekki í þeirri stöðu einhvern tímann seinna á lífsleiðinni að löggjafinn eyðileggi fyrir þeim það sem þeir töldu gert í samræmi við lög og geri það refsivert eftir að þeir hafa gert eitthvað sem þeir töldu að væri í samræmi við lög. Það gæti nefnilega gerst. Réttaróvissan er algjör þegar Alþingi hegðar sér svona.62

Frumvarpið tók nokkrum breytingum í meðförum þingsins. Fáeinum ákvæðum var bætt inn í það, svo sem að sjálfseignarstofnun færi með atkvæðisrétt í samræmi við hlutafjáreign sína, engar skuldbindandi ákvarðanir yrðu teknar fyrir hönd sjálfseignarstofnunarinnar áður en fundur stofnfjáreigenda yrði haldinn og að stjórnartími í sjálfseignarstofnun skyldi vera fjögur ár nema annað væri ákveðið í samþykktum. Það var samþykkt með áðurnefndum breytingum sem lög frá Alþingi að kvöldi 5. febrúar 2004. Atkvæðagreiðslan fór þannig að 43 þingmenn samþykktu og einn var á móti, en það var Pétur H. Blöndal.

Á fundi sínum daginn eftir samþykkt frumvarpsins ákvað stjórn sparisjóðsins að falla frá fyrirhugaðri breytingu í hlutafélag. Samin voru drög að fréttatilkynningu og ákveðið að senda KB banka bréf þar sem afstaða stjórnar í málinu yrði kynnt. Samþykkt var að halda fund stofnfjáreigenda 10. febrúar eins og áður hafði verið ákveðið til þess að gera þeim grein fyrir þessari ákvörðun stjórnarinnar.63

Í tilkynningunni sem stjórnin sendi frá sér sagði að nýsett lög hefðu kollvarpað áformum stjórnar sparisjóðsins. Enn fremur sagði:

Er það óneitanlega sérstakt að sett séu lög til að hindra að farið verði eftir gildandi lögum og er lagabreytingunni leynt og ljóst beint gegn viðskiptasamningi. Um leið er komið í veg fyrir að myndaður verði sex milljarða króna sjóður, sá langstærsti sinnar tegundar á Íslandi, sem ætlað var að styðja við menningar- og líknarmál í Reykjavík og nágrenni.64

Stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis aflaði lögfræðiálits um það hvort stofnfjáreigendur gætu leitað réttar síns vegna meintra brota á lögum um eignarrétt. Niðurstaðan varð sú að þeim væru engar leiðir færar í þeim efnum.65

12.2.6 Yfirverð í brennidepli

Þótt þessi áætlun um að breyta Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í hlutafélag hafi sjálfkrafa gufað upp eftir að lögunum var breytt í febrúar 2004 virðast væntingar stofnfjáreigenda um yfirverð fyrir stofnbréfin síður en svo hafa minnkað, og það var ekki bundið við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Innleiðing hlutafélagsákvæðisins í löggjöf um sparisjóðina 2001 og átökin í kringum Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hafa haft sín áhrif. Í greinargerð Fjármálaeftirlitsins frá 19. júlí 2002 um fyrirhuguð kaup fimmmenninganna og Búnaðarbankans á stofnfé sparisjóðsins voru rakin sjónarmið tilboðsgjafanna og stjórnar sparisjóðsins og síðan leitast við að svara nokkrum álitaefnum í deilunni. Í því skyni var reifuð þróun löggjafar um sparisjóði allt frá 1915 og hvernig lög hafa mælt fyrir um viðskipti með stofnfjárbréf og um aðgang stofnfjáreigenda að eigin fé sparisjóðs. Tekið var fram í greinargerðinni að niðurstöður þær sem þar birtust væru ekki endanlegur úrskurður, heldur „liður í athugun [Fjármálaeftirlitsins] á fram kominni umsókn um kaup á virkum eignarhlut“. Meðal þeirra niðurstaðna sem Fjármálaeftirlitið setti fram í greinargerðinni var:

Þegar allt framangreint er virt og þrátt fyrir upphaflegan tilgang löggjafar um sparisjóði sem og vísbendingar um skilning löggjafans er það mat Fjármálaeftirlitsins að núgildandi löggjöf feli ekki í sér bann við því að stofnfjáreigandi geti selt eða framselt þriðja aðila stofnfjárhlut sinn á hærra verði en endurmetnu nafnverði, fái hann til þess lögmælt samþykki stjórnar.66

Niðurstöður í greinargerðinni voru túlkaðar á ýmsa vegu. Þeir sem voru mótfallnir yfirtökutilboðinu töldu ljóst að Fjármálaeftirlitið hefði þarna verið að benda á veikleika í löggjöfinni, en andi laganna og vilji löggjafans væri skýr. Í forystugrein Morgunblaðsins sagði um framangreinda niðurstöðu í greinargerðinni:

Þetta er gatið í löggjöfinni. Viðbrögðin við því geta ekki verið þau að hundsa vilja og markmið Alþingis, sem Fjármálaeftirlitið segir raunar að megi rekja allt aftur til ársins 1915 og gefa færi á að nýta smugu í löggjöfinni, sem útsjónarsamir menn hafa komið auga á. Viðbrögðin hljóta þvert á móti að verða þau að bæta úr þeim galla, sem er á löggjöfinni, úr því að hún megnar ekki að tryggja að markmið og vilji Alþingis nái fram að ganga.67

Fimmmenningarnir og allir þeir sem aðhylltust yfirverðshugmyndirnar tóku þessari niðurstöðu fagnandi og sem stóradómi í málinu.

Spár Péturs H. Blöndal í umræðum á Alþingi 2001 og 2002 um það hvað mundi gerast í framhaldi af samþykkt hlutafélagsákvæðisins höfðu verið að rætast hver af annarri og voru mikill drifkraftur væntinganna um yfirverð fyrir stofnfjárbréfin. Pétur hafði t.d. bent á í fyrstu ræðu sinni um frumvarpið sem varð að lögum nr. 71/2001 að í sumum litlum stofnfjáreigendahópum, eins og hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, ættu 45 stofnfjáreigendur „um 36 milljónir hver“, en í Sparisjóði Reykjavíkur ættu „1.000 stofnfjáreigendur um það bil 2 milljónir hver“.68

Þessi ábending hans gleymdist ekki og var stundum minnst á þetta í fjölmiðlum þegar tilboðin voru gerð í stofnfé Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Í Morgunblaðinu 24. desember 2003, þegar fjölmargar fréttir og greinar fjölluðu um fyrirhuguð kaup Kaupþings Búnaðarbanka á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, var lítil fréttagrein undir fyrirsögninni „Stofnfjáreigendur stærstu sparisjóðanna frá 46 uppí 1.100“. Þar var greint frá því að stofnfjáreigendur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis væru 1.100 og að samkvæmt tilboði Kaupþings Búnaðarbanka fengju þeir samtals um þrjá milljarða króna fyrir stofnfjárhluti sína. Eigið fé sparisjóðsins hefði numið tæpum fjórum milljörðum króna um mitt ár. Síðan var greint frá fjölda stofnfjáreigenda og hvert eigið fé hinna stóru sparisjóðanna væri. Þar var þess getið að stofnfjáreigendur Sparisjóðs Hafnarfjarðar væru 46 og eigið fé tæpir 2,7 milljarðar króna.

12.2.6.1 Tilboðsmarkaður með stofnfé

Á aðalfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 26. mars 2003 sagði Jón G. Tómasson stjórnarformaður að það yrði áfram verkefni stjórnar að kanna leiðir til að tryggja verðmætaaukningu í viðskiptum með stofnfjárbréf fyrir þá stofnfjáreigendur sem þess óskuðu. Stjórnin setti þó þau skilyrði að farið yrði að settum lögum og að sjálfstæði og tilvist sparisjóðsins yrðu tryggð. Á þessum sama aðalfundi buðu nýstofnuð Samtök stofnfjáraðila í sparisjóðnum fram lista til stjórnarkjörs á móti lista stjórnarinnar. Pétur H. Blöndal var efstur á þessum lista og í kynningarræðu hans um framboðið sagði í fundargerðinni:

Pétur kvaðst ekki síður treysta sér en núverandi stjórnarmönnum til að gæta hagsmuna stofnfjáraðila. Hann sagðist vera búinn að finna galla á lögunum og hafa hugmynd að lausn á sölu stofnfjárbréfa sem hann myndi skýra betur síðar. Pétur sagðist telja að verkefni hans í stjórn SPRON myndi taka stuttan tíma.69

Pétur útskýrði þessa hugmynd sína ekki frekar á fundinum en var kjörinn í stjórn ásamt öðrum frambjóðanda af lista Samtaka stofnfjáraðila.

Um sumarið voru kannaðar ýmsar leiðir til þess að viðskipti með stofnbréf gætu farið fram á yfirverði og var hugmynd um einhvers konar tilboðsmarkað meðal annars varpað fram, en tæknileg framkvæmd hennar vafðist fyrir mönnum. Hugmyndin um að breyta sparisjóðnum í hlutafélag var enn á dagskrá og var leitað til PricewaterhouseCoopers um að verðmeta sparisjóðinn.70 Niðurstaða lá fyrir 13. nóvember. Svo sem fyrr var getið tók málið nýja stefnu um miðjan desember þegar stjórn sparisjóðsins ákvað að leita til viðskiptabankanna þriggja um kaup á sparisjóðnum. Það leiddi til samningsins við Kaupþing Búnaðarbanka hf. sem var nær fullfrágenginn þegar lagasetningin 5. febrúar 2004 varð til þess að aðilar hættu við þau viðskipti.

Stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis tók aftur upp hugmyndina um tilboðsmarkað fyrir stofnfé og var hann opnaður 30. september 2004 eftir að Fjármálaeftirlitið hafði fallist á að viðskipti með stofnfé á markaði væru heimil.71 Mikil viðskipti áttu sér stað fyrstu vikurnar. Á símafundi stjórnar 19. október 2004 var farið yfir lista yfir þá sem höfðu keypt og selt stofnfjárbréf frá því markaðurinn var opnaður. Þá höfðu 28% heildarstofnfjár í sparisjóðnum skipt um hendur. Alls höfðu 24 aðilar keypt samtals 3.926 bréf. Enginn þeirra fór yfir 5% hámarkið sem stjórnin hafði sett og samþykkti stjórnin þessi framsöl. Upp komu þó vangaveltur í stjórninni um það hvort tengsl væru milli einhverra hinna nýju kaupenda. Þar voru nefndir til KB banki, Meiður, Bakkabræður, VÍS og jafnvel fleiri. Í október höfðu stjórnarformenn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðs vélstjóra undirritað viljalýsingu um sameiningu sparisjóðanna. Þau áform runnu út í sandinn meðal annars vegna þess að hjá Sparisjóði vélstjóra var litið svo á að KB banki og aðilar honum tengdir væru að tryggja sér áhrif í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis.72

Í lok ársins var haldinn stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þar var greint frá að tæp 60% stofnfjár í sparisjóðnum hefðu skipt um eigendur frá því tilboðsmarkaðurinn var opnaður fyrir um 2,2 milljarða króna. Stjórnarformaðurinn, sem þá var Pétur H. Blöndal, skýrði frá breytingum á verðmæti stofnfjár á undanförnum þremur árum eða úr genginu 1,0 upp í gengið 7,0 sem dæmi voru um að hefði verið í nýlegum viðskiptum. Pétur taldi verðið sanngjarnt og að stofnfjáreigendur gætu vel við unað. Hann kvað stjórnina sem hann átti sæti í aðallega hafa sinnt því skammtímaverkefni að bæta hag stofnfjáreigenda. Nú hefði eigendahópurinn breyst mikið og því eðlilegt að hinir nýju eigendur vildu fylgja fjárfestingu sinni eftir og kysu sér nýja stjórn. Ný stjórn var kjörin á fundinum.73

Tilboðsmarkaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis starfaði til 7. ágúst 2007. Stjórn sparisjóðsins samþykkti 17. júlí 2007 að sjóðnum yrði breytt í hlutafélag og skráður í Kauphöll Íslands þá um haustið, en jafnframt var þá ákveðið að tilboðsmarkaðurinn yrði opinn til 7. ágúst.

Sparisjóðurinn í Keflavík starfrækti tilboðsmarkað fyrir stofnfjárhluti um skeið. Stjórnin samþykkti stofnun hans 8. janúar 2007 og var viðskiptastofu sparisjóðsins falið að opna hann eins fljótt og auðið yrði.74 Fyrstu viðskiptin fóru fram 15. janúar 2007 og var gengi stofnfjárbréfa þá 5,6. Rúmlega 700 viðskipti fóru fram á þessum tilboðsmarkaði. Gengi bréfanna varð hæst 12,7 í viðskiptum sem fram fóru í lok júlí og byrjun ágúst 2007, en var aðeins 1,0 í síðustu viðskiptum sem áttu sér stað 19. september 2008.75

Aðrir sparisjóðir starfræktu ekki sjálfir tilboðsmarkað með stofnfjárbréf. Hins vegar önnuðust nokkrir aðilar slík viðskipti fyrir sparisjóði, svo sem MP Fjárfestingarbanki hf., Saga Capital Fjárfestingarbanki og H.F. Verðbréf hf.

12.2.6.2 „Hallarbylting“ í Sparisjóði Hafnarfjarðar

Hvergi var greitt hærra yfirverð fyrir stofnfjárbréf en í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þar háttaði svo til að stofnfjáreigendur voru ekki nema 47 talsins og höfðu verið það um langa hríð. Stofnféð var örlítill hluti eigin fjár í sparisjóðnum eins og oft hafði verið vakin athygli á.76 Í árslok 2002 var það ekki nema 0,24% af eigin fé sem þá nam tæpum 2,6 milljörðum króna. Stofnféð var tvöfaldað á árinu 2004 með því að allir stofnfjárhafar, að einum undanskildum, keyptu annað stofnfjárbréf. Í árslok 2004 var hlutur stofnfjár í eigin fé orðinn 0,48%. Eigið fé nam þá tæplega 3,1 milljarði króna en stofnféð á endurmetnu nafnverði var aðeins 14,7 milljónir króna. Miðað við að stofnfjárbréfin hafi verið 93 talsins hefur endurmetið stofnverð hvers bréfs numið 158 þúsund krónum. Það hefur nokkurn veginn verið verðið sem stofnfjáreigendur greiddu fyrir nýju bréfin. Í ljósi allrar yfirverðsumræðunnar var hægt að slá því fram að markaðsvirði hvers bréfs væri vart minna en 33 milljónir króna, ef heildarfjölda bréfa væri deilt upp í eigið fé sparisjóðsins.

Mikill þrýstingur var á stjórn sparisjóðsins að koma á fót markaði með stofnfé í sparisjóðnum en stjórnin undir forystu Matthíasar Á. Mathiesen, sem hafði verið formaður samfellt frá 1958, var því algjörlega mótfallin. Stjórnarkjör hafði ekki farið fram í sparisjóðnum síðan árið 1941. Stjórnin hafði á hverjum tíma tilnefnt fulltrúa í stjórn, en tveir stjórnarmanna voru fulltrúar sveitarfélagsins. Þingmaðurinn Guðmundur Árni Stefánsson vísaði til þessa fyrirkomulags í umræðum á þingi þegar til meðferðar voru áðurnefndar breytingar á lögum um sparisjóði vorið 2001 og haustið 2002. Við flýtiafgreiðsluna á lögum nr. 4/2004 lagði hann fram breytingartillögu sem gekk út á að bætt yrði inn ákvæði um að öllum viðskiptamönnum sparisjóðsins skyldi boðin þátttaka í stofnfjáraukningunni að hluta. Guðmundur Árni sagði meðal annars við atkvæðagreiðslu um tillöguna sem felld var með 30 atkvæðum gegn 10:

Herra forseti. Hér er lagt til að í samþykktum sparisjóða verði kveðið á um rétt viðskiptavina sparisjóða til að taka þátt í útboði á nýju stofnfé. Í ljósi breyttra þjóðfélagshátta og sterkra tengsla sparisjóðanna við starfssvæði sín tel ég nauðsynlegt að hverfa frá því að handvalið sé í flokk stofnfjáreigenda við útgáfu á nýju stofnfé. Hér er með öðrum orðum lagt til að klúbbarnir verði opnaðir.77

Óánægja var farin að gerjast meðal stofnfjáreigenda Sparisjóðs Hafnarfjarðar og leiddi hún til þess að stjórnin var felld á aðalfundi sparisjóðsins sem haldinn var 20. apríl 2005. Mótframboðið sigraði með eins atkvæðis mun. Þetta vakti mikla athygli og fjölmiðlar töluðu um „hallarbyltingu“ í sparisjóðnum.

Strax kom upp sá kvittur að hallarbyltingin hefði verið gerð að undirlagi fjársterkra aðila sem vildu ná tangarhaldi á sparisjóðnum. Nokkrir voru nefndir í því sambandi. Það fylgdi sögunni að stofnfjáreigendum hefði verið lofað umtalsverðu fé ef þeir tækju þátt í að fella gömlu stjórnina og afsöluðu sér stofnbréfum sínum að því loknu. Fjárhæðin sem nefnd var í því sambandi var 46–50 milljónir króna fyrir hvern hlut, þ.e. fyrir tvö stofnfjárbréf. Guðmundur Árni Stefánsson kallaði þetta í blaðaviðtali „rán um hábjartan dag“ og sagði:

Ég er ekki einn um að segja að mig svíði það að þessi stofnun verði græðginni að bráð. Það var aldrei hugmyndin með hópi ábyrgðarmanna, sem síðar breyttust í stofnfjáreigendur, að þeir væru að maka krókinn vegna áratuga viðskipta fjölmargra bæjarbúa í góðri trú. Að þeir notuðu eigið fé sjóðsins í eigin þágu!78

Á sama stað var vitnað í bæjarstjórann í Hafnarfjarðarbæ, Lúðvík Geirsson:

Bæjaryfirvöld og bæjarbúar eiga allir hagsmuna að gæta í þessu máli. Ég hef alltaf, og held ég að sá sé almannarómur, litið svo á að stofnunin sé eign bæjarbúa sjálfra en ekki einhverra sárafárra sem valdir hafa verið sem ábyrgðarmenn.

Mikil spenna byggðist upp í kringum það hverjir væru kaupendur að stofnfjárbréfunum. Fjármálaeftirlitið sendi öllum stofnfjáreigendum í Sparisjóði Hafnarfjarðar dreifibréf 24. júní 2005 og vakti athygli þeirra á að aðilum sem hygðust eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki bæri, lögum samkvæmt, að leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram. Enn fremur óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum um hvort viðkomandi stofnfjáraðili hefði verið aðili að samkomulagi um beitingu atkvæðisréttar á aðalfundinum mánuði áður, hvort hann væri aðili að samkomulagi um sölu á stofnfjárhlut sínum, hvort hann hefði fengið tilboð um slíkt og þá frá hverjum og loks hvort viðkomandi væri kunnugt um samkomulag um framangreind atriði.79 Stjórn sparisjóðsins sendi samdægurs frá sér tilkynningu þar sem hún kvað engin viðskipti hafa verið með stofnbréf í sparisjóðnum þrátt fyrir margítrekaðar óskir um kaup á bréfum. Stjórnin sagðist ekki mundu standa í vegi fyrir því ef stofnfjáraðilar vildu framselja bréf sín. Beiðni um slíkt hefði hins vegar ekki borist stjórn sjóðsins. Ef slík beiðni bærist yrði hún tekin til greina að því tilskildu að hún fullnægði skilyrðum laga. Stjórnin lýsti jafnframt yfir vilja sínum til að fjölga stofnfjáraðilum.80

Þetta varð upphaf mikilla deilna milli stjórnar sparisjóðsins og Fjármálaeftirlitsins. Stjórn sparisjóðsins taldi Fjármálaeftirlitið fara út fyrir valdheimildir sínar með því að krefjast þessara upplýsinga frá stofnfjáreigendum. Stjórnin væri hinn rétti aðili sem ætti að eiga samskipti við. Fjármálaeftirlitið benti á að það hefði heimildir til að afla framangreindra upplýsinga hjá einstaklingum í tengslum við eftirlit með virkum eignarhlutum og jafnframt að stjórn sparisjóðs væri ekki aðili að slíkri athugun.81 Fjórir stofnfjáreigendur svöruðu ekki spurningum Fjármálaeftirlitsins innan tilskilins frests og lagði Fjármálaeftirlitið á þá dagsektir. Þeir kærðu ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins til kærunefndar, sem starfaði samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Kærunefndin ógilti dagsektirnar en staðfesti heimild Fjármálaeftirlitsins til að afla upplýsinga og gagna í tilvikum sem þessum.

Fimm dögum eftir að stjórnin sendi frá sér tilkynninguna voru teknar fyrir beiðnir tíu stofnfjáraðila um samþykki fyrir framsali á þeirra hlutum. Stjórnin samþykkti þær allar.82 Þegar hulunni var svipt af því hverjir hefðu keypt fékk umræðan byr undir báða vængi. Töldu margir sig sjá tengsl milli kaupendanna. Tæpum mánuði síðar féllst stjórnin á fimm beiðnir um samþykki fyrir framsali. Þar var í tveimur tilvikum um að ræða framsal frá nýjum stofnfjáraðila til þriðja aðila. Þessi viðskipti með stofnfjárbréf í sparisjóðnum leiddu til enn meiri samþjöppunar á eignarhaldi. Á tímabilinu frá 23. júní 2005 til 13. nóvember 2006 fækkaði stofnfjáreigendum úr 47 í 30, sem var lágmarksfjöldi samkvæmt gildandi lögum. Einhverjir hinna nýju stofnfjáreigenda höfðu keypt fleiri en 5 hluti, sem var hámark samkvæmt samþykktum sparisjóðsins.

Fjármálaeftirlitið hóf sem fyrr sagði athugun á því hvort framsöl stofnfjárbréfa í Sparisjóði Hafnarfjarðar hefðu leitt til þess að myndast hefði virkur eignarhlutur eða eignarhlutir. Það krafðist þess jafnframt að stjórn sparisjóðsins samþykkti engin frekari framsöl þar til Fjármálaeftirlitið hefði lokið athugun sinni. Stjórn sparisjóðsins varð ekki við því. Tíðar bréfasendingar gengu á báða bóga. Fjármálaeftirlitið lagði févíti á sparisjóðinn þar sem brotið hefði verið gegn ákvörðun þess um að samþykkja ekki frekari stofnfjárframsöl meðan það hefði til athugunar hvort virkur eignarhlutur hefði myndast í sparisjóðnum. Eftirlitið tók undir lok ársins ákvörðun um að ákveðnir stofnfjárhafar mynduðu saman virkan eignarhlut og gætu ekki farið sameiginlega með meira en 5% atkvæðisrétt í sparisjóðnum og tilkynnti viðkomandi aðilum um það.

Fjármálaeftirlitið tilkynnti með bréfi 16. desember 2005 til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra ætluð ólögmæt viðskipti með stofnfjárhluti í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Athugun þess hefði leitt í ljós að óbeinn virkur eignarhlutur virtist vera til staðar í sparisjóðnum í andstöðu við lög. Fjármálaeftirlitið hefði ástæðu til að ætla að svör átta tilgreindra seljenda stofnfjár væru röng eða villandi. Þeir hefðu neitað að hafa selt stofnfjárhluti þrátt fyrir að hafa fengið verulegar fjárhæðir greiddar af bankareikningi lögmanna sem hefðu haft milligöngu um viðskipti með stofnfé. Framsalsbeiðnir fjögurra þeirra hefðu þegar verið afgreiddar en engar framsalsbeiðnir hefðu komið fram frá hinum fjórum. Þá er því lýst í sama bréfi að svo virtist sem þriðji aðili eða aðilar kynnu að hafa komið að fjármögnun viðskiptanna.

Málið sætti ítarlegri lögreglurannsókn. Teknar voru skýrslur af stofnfjáreigendum sem ýmist höfðu keypt eða selt stofnfjárhluti. Rannsóknin beindist meðal annars að því að upplýsa hvort þessir aðilar hefðu veitt Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar um stofnfjáreign sína. Þeir höfðu flestir réttarstöðu grunaðra þegar þeir gáfu skýrslur hjá lögreglu. Þessari rannsókn lauk án þess að niðurstaða fengist og var málið gagnvart þeim fellt niður.

Fjármálaeftirlitið tilkynnti með öðru bréfi til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra 13. mars 2006 að í tengslum við framangreinda athugun þess hefði komið til sérstakrar athugunar aðkoma lögmannanna Sigurðar G. Guðjónssonar og Karls Georgs Sigurbjörnssonar vegna viðskipta með stofnfjárhluti í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Fjármálaeftirlitið hefði fengið þær upplýsingar frá Baugi Group hf. að félag því tengt hefði lagt til lánsfjármagn til lögmannsstofu Karls Georgs Sigurbjörnssonar sem hefði haft milligöngu fyrir hönd þeirra sem hugðust eiga viðskipti með stofnfjárskírteini í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Stefán H. Hilmarsson stjórnarmaður í A. Holding, dótturfélagi Baugs, hefði sagt í viðtali við Morgunblaðið 4. mars 2006 að A. Holding hefði lagt fram 1,9 milljarða inn á reikning lögmannsstofunnar til þess að ávaxta fjármuni sína, en lögmannsstofan hefði haft milligöngu um kaup á stofnfé í Sparisjóði Hafnarfjarðar.

Skömmu áður höfðu tveir fyrrverandi stofnfjáreigendur í sparisjóðnum lagt fram kæru og skaðabótakröfu til ríkislögreglustjóra á hendur Karli Georg Sigurbjörnssyni lögmanni vegna tjóns sem stofnfjáreigendurnir töldu sig hafa orðið fyrir þegar þeir seldu, með milligöngu Karls Georgs, tvo stofnfjárhluti hvor í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þeir hefðu fengið greitt fyrir þá 50 milljónir króna hvor, en kaupandi hlutanna hefði greitt lögmannsstofunni fyrir tvo hluti 90 milljónir króna. Málið var tekið til rannsóknar og var ákæra gefin út á hendur honum fyrir fjársvik.

Aldrei tókst að sýna fram á að myndaður hefði verið virkur eignarhlutur í sparisjóðnum og enginn var sakfelldur fyrir lögbrot, hvorki seljendur eða kaupendur stofnfjárhluta né lögmaðurinn sem hafði milligöngu um viðskiptin. Kæran á hendur stofnfjáreigendum var felld niður og lögmaðurinn, sem ákærður var vegna milligöngunnar um söluna, var sýknaður með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2009 sem staðfestur var af Hæstarétti 18. mars 2010.83

Fjármálaeftirlitið gat ekki sýnt fram á að virkur eignarhluti hefði myndast í Sparisjóði Hafnarfjarðar og leit þá til óbeins virks eignarhlutar. Þar getur samstarf aðila leitt til þess að þeir fari saman með virkan eignarhlut. Stjórn sparisjóðsins benti á það í samskiptum sínum við Fjármálaeftirlitið að hún hefði við afgreiðslu beiðna um samþykki fyrir framsali farið nákvæmlega eins að og fyrri stjórnir hefðu gert.84 Stjórnin benti á að einnig væri hægt að halda því fram að fyrrverandi stjórnarmenn hefðu um langt skeið farið með virkan eignarhlut í sparisjóðnum. Ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins var skotið til kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Kærunefndin felldi þær úr gildi með úrskurðum 5. júlí, 4. ágúst og 9. október 2006.

Þegar breytingar voru gerðar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi vorið 2006 var bætt inn í lög um fjármálafyrirtæki og fleiri lög skilgreiningu á því hvernig óbeinir virkir eignarhlutar geta myndast samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.85 Í viðbótinni segir meðal annars:

Með óbeinni hlutdeild í skilningi 40. gr. er átt við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við hafi eignast eða fari sameiginlega með virkan eignarhlut í skilningi laganna.

Samstarf skal vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti.86

Í almennum athugasemdum með frumvarpinu sagði að breyting þessi væri lögð til vegna vandkvæða á að staðreyna hvort virkir eignarhlutir hefðu myndast óbeint, t.d. með samstarfi eða tengslum aðila, en gildandi lög skilgreindu ekki hvað fælist í óbeinum virkum eignarhlut heldur væri eingöngu vikið að því efnislega í lögskýringargögnum. Með sömu lögum var kærunefndin lögð niður. Hún skyldi þó ljúka meðferð þeirra mála sem skotið hafði verið til hennar við gildistöku laganna.87

Hér verður engum getum að því leitt hvort Fjármálaeftirlitinu hefði tekist að sýna fram á óbeina virka eignarhluti í umræddu máli, ef búið hefði verið að breyta lögum á þann veg sem gert var. Rannsóknarnefndin skoðaði málið gaumgæfilega og tók skýrslur af fjölmörgum sem málið snerti. Fjölmiðlaumfjöllun um það var hástemmd og margar samsæriskenningar komu fram. Fæstar þeirra áttu við rök að styðjast.

Eftirmálinn af atburðarásinni í Hafnarfirði varð sá að hugmynd að sameiningu Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra var komin á dagskrá í ársbyrjun 2006. Fyrst var greint frá henni á stjórnarfundi í Sparisjóði Hafnarfjarðar 31. janúar 2006. Á stjórnarfundi 27. apríl sama ár var samþykkt að hefja viðræður við Sparisjóð vélstjóra um samruna. Þetta hafði verið kynnt á stjórnarfundi í Sparisjóði vélstjóra deginum áður og verðmat á báðum sparisjóðunum nokkrum dögum fyrr, eða 21. apríl. Samruninn var samþykktur á fundi stofnfjáreigenda í báðum sparisjóðunum 1. desember 2006. Hinn sameinaði sparisjóður fékk síðan nafnið Byr sparisjóður.

Þessi samruni var að frumkvæði Sparisjóðs vélstjóra en stofnfjárkaup í Sparisjóði Hafnarfjarðar af hálfu aðila tengdra þeim fyrrnefnda voru áberandi. Fyrr á árinu 2006 hafði umtalsverð fækkun átt sér stað í stofnfjáreigendahópi Sparisjóðs vélstjóra og höfðu nokkrir þeirra komist yfir marga stofnhluti í sparisjóðnum. Þarna var að miklu leyti um að ræða sömu aðila og höfðu keypt mest í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Á árinu 2007 sá Samkeppniseftirlitið ástæðu til að hefja rannsókn á því hvort eigna- og stjórnunartengsl tiltekinna félaga og einstaklinga í þessum hópi væru slík að myndast hefðu sameiginleg yfirráð yfir Byr sparisjóði og Glitni banka hf. Rannsóknin var umfangsmikil og leiddi í ljós flókin eignatengsl sem Samkeppniseftirlitið taldi að leiddu til þess að umræddum félögum væri skylt að tilkynna um samruna sparisjóðsins og bankans.88 Kærunefnd samkeppnismála felldi síðan þessa ákvörðun Samkeppniseftirlitsins úr gildi 5. september 2008.89

12.2.6.3 Stofnfé aukið

Eftir að sparisjóðir urðu stofnfjársjóðir var eðlilegt að til þess gæti komið að auka þyrfti stofnfé. Í lögunum frá 1985 voru ákvæði um hvernig að slíku skyldi staðið. Engar hömlur voru settar á aukningu stofnfjár aðrar en þær að í samþykktum sparisjóðs skyldi vera tiltekinn hámarksfjöldi stofnhluta og þar með stofnfé.

Eigið fé sparisjóðs takmarkar stærð hans og umsvif, því lög og reglur kveða á um hvert lágmarkshlutfall eigin fjár skal vera. Hins vegar hafa aldrei gilt neinar reglur um það hversu mikið stofnféð skal vera eða hlutfall þess af eigin fé sparisjóðs. Það hefur og enda verið mjög breytilegt milli einstakra sparisjóða og milli ára. Hyggi sparisjóður á vöxt er honum nauðsynlegt að auka eigið fé. Sé sparisjóður rekinn með hagnaði bætist hagnaðurinn, að frádregnum arði og endurmati, við varasjóð og eykur þar með eigið fé. Í eðlilegu árferði stækkar sparisjóðurinn hægt með þessu móti. Eigi vöxturinn að vera skjótari verða stofnfjáraðilar að leggja fram meira stofnfé. Þegar sparisjóðum var veitt heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag var helsta röksemdin fyrir þeirri breytingu sú að það myndi auðvelda þeim að afla eigin fjár. Menn voru þó ekki á einu máli um að auðveldara væri að ná í hlutafé en nýtt stofnfé. Úr því fékkst þó aldrei skorið því aðeins einum sparisjóði var breytt í hlutafélag, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, og þar var hlutafé ekki aukið eftir breytinguna.

Rannsóknarnefndin tók saman upplýsingar um þróun stofnfjár hjá sparisjóðum í heild frá 1997. Þær eru sýndar í töflu 1. Hafa þarf í huga að Afl sparisjóður var hluti af samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu árin 2003–2008 og Sparisjóður Ólafsfjarðar sömuleiðis 2005–2008. Stofnfé þeirra og eigið fé vantar því í heildartöfluna. (Það er sýnt í tveimur öftustu dálkunum.) Heildarstofnféð jókst árlega til og með 2009. Mest var aukningin hlutfallslega á tveimur tímabilum, þ.e. 1998–1999 og 2005–2007. Þessar upplýsingar benda ekki til þess að sparisjóðunum í heild hafi gengið illa að auka stofnféð áður en hlutafélagsákvæðið var innleitt í lögin. Frá og með 2008 var varasjóðurinn minni en stofnféð, neikvæður í heild 2008 og 2009, og af þeim sökum var hlutfall stofnfjár af eigin fé afbrigðilegt.

Við upplýsingarnar sem birtast í töflunni má bæta að hlutfall stofnfjár af eigin fé var mjög breytilegt milli sparisjóða og var mjög lágt hjá mörgum. Til dæmis var það lægra en 3% hjá tíu sparisjóðum í árslok 2001 og hjá tólf sparisjóðum í árslok 2002 og 2003.

Stofnfé var ekki jafnslæmur fjárfestingarkostur eins og haldið var fram við lagabreytinguna 2001. Ávöxtun stofnfjár hafði farið stöðugt batnandi, t.d. var það verðbætt árlega frá 1993, heimilt var að greiða dágóðan arð frá sama tíma og áhættan var umtalsvert minni en af hlutafé. Í flestum tilvikum var hægt að fá stofnfjárbréfin innleyst þannig að um bindingu fjár var ekki lengur að ræða. Þar fyrir utan hafði tilkoma hlutafélagsákvæðisins orðið til þess, eins og áður sagði, að stofnfé varð skyndilega mjög verðmætt þótt sú verðmætisaukning kæmi ekki fram í ársreikningum sparisjóðanna.

Þegar fyrir lá að greiða mátti yfirverð fyrir stofnfé var ljóst að stofnfjáreigendur gátu fengið meira í sinn hlut en sem nam stofnfénu einu saman. Því hefur verið eftir nokkru að slægjast fyrir stofnfjáreigendur. Hins vegar skal ósagt látið hvað vakti fyrir þeim sem keypti stofnfé á yfirverði sem endurspeglaði hlutdeild þess í heildareiginfé sparisjóðs. Þar hafa vísast önnur sjónarmið ráðið ferðinni og viðkomandi séð viðbótarávinning af kaupunum. Sparisjóðir með lágt hlutfall stofnfjár af miklu eigin fé og fáa stofnfjáreigendur gátu átt erfiðara um vik að verjast slíkri yfirtöku. Af þessum sökum tóku sumir sparisjóðir að auka stofnféð í því skyni að verjast yfirtökutilraunum. Við skýrslugjöf fyrir rannsóknarnefndinni sögðu nokkrir sparisjóðsstjórar og stjórnarformenn að „alls konar lukkuriddarar“ hefðu hringt í stofnfjáreigendur og falast eftir þeirra hlut og boðið „gull og græna skóga“. Nokkuð kvað að þessu hjá Sparisjóði Norðfjarðar, Sparisjóði Vestmannaeyja, Sparisjóði Strandamanna og Sparisjóði Svarfdæla. Stjórnir þessara sparisjóða lögðust hart gegn þessu og vildu verjast slíkum tilraunum. Stjórnarformaður Sparisjóðs Norðfjarðar sagði um tildrögin að stofnfjáraukningu þar árið 2007:

Stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar var búin að velta fyrir sér þeim kostum sem við áttum í þeirri stöðu sem upp var komin. Á þeim tíma voru nokkrir af stærri sparisjóðunum að hverfa út úr samstarfi og hefja hlutafélagsvæðingu og jafnvel út á markað. Staða minni sjóðanna var orðin nokkuð erfið, Sparisjóður Keflavíkur bauð upp á samstarf með sameiningu í huga, einnig var skoðuð sameining annarra smærri sparisjóða. Ákvörðun stjórnar var að fara út í stofnfjáraukningu og reyna með því að tryggja áframhaldandi eignarhald Sparisjóðs Norðfjarðar í heimabyggð. Það var fljótt ljóst eftir að gefið var leyfi um kaup á stofnfjárbréfum á yfirverði að þá myndi fara af stað atburðarás sem ekki var hægt að stöðva.90

Í Vestmannaeyjum voru aðilar sem hugðust fara líkt að og gert var eftir stjórnarskiptin í Sparisjóði Hafnarfjarðar, þ.e. kaupa stofnfjárbréf á yfirverði og selja þau svo áfram á enn hærra verði. Fyrrverandi stjórnarformaður Sparisjóðs Vestmannaeyja lýsti þessu svo:

Það gerðist 2006 um vorið að þá fáum við bréf inn á borð til okkar, sem aldrei hafði gerst áður, þar sem er beðið um samþykki fyrir að framselja bréf. Yfirleitt höfðu stofnfjárbréfin farið á milli ættingja eða erfingja. Þannig hafði þetta mest verið og allir þessir stofnfjáreigendur komu bara sem hverjir aðrir þjóðfélagsþegnar inn í þennan sjóð og litu ekki á það á þeim tíma að þeir ættu neitt í þessum sjóði. Borguðu, eins og ég, tvöþúsund krónur. Tilboð í stofnféð, sem við vissum reyndar ekki hvað var hátt, en þetta var alveg nýtt að það væri einstaklingur að framvísa öðrum. Og náttúrulega í svona litlu bæjarfélagi, við fréttum utan að hvað væri að gerast.

Við vorum algjörlega á móti þessari stefnu og áttum fund með lögfræðingi sem vinnur mikið fyrir sparisjóðina. Hann sagði við okkur að það eina sem við gætum gert til að einhver hirti ekki sjóðinn, það væri að auka stofnfé, gera honum erfiðara fyrir. Það eru forsendurnar að mínu mati að við aukum stofnfé, að reyna að verjast þessu.91

Sparisjóðsstjórinn í sama sparisjóði lýsti þessu andrúmslofti fyrir rannsóknarnefndinni:

Síðan var rætt um það að þetta væri eitthvað vandræðalegt form af því að einhverjir stærri sparisjóðir teldu ástæðu til að fara í hlutafélag og ef það ætti að vera hægt að versla með þetta stofnfé þá yrði það að vera eitthvað þekkt og menn þekktu hlutafé, hlutafjármarkaðir væru til en stofnfjármarkaðir ættu ekki eins auðvelt aðgengi inn í framtíðina. Við vorum bara í miðri þessari umræðu. […] En ein af ástæðum fyrir því að við ákváðum að fara í þessa stofnfjáraukningu var að það var verið að sækja að þessu fólki. Það voru aðilar sem sóttu fast í það að komast í þennan hóp. Það var auglýst í blöðum eftir stofnfé í Sparisjóði Vestmannaeyja. Ég heyrði svo sem út undan mér og vissi eitthvað um það hverjir voru á bak við þetta. Þetta umhverfi okkar er ekki mjög stórt. Svo voru einhver viðskiptaborð og alla vega þau nöfn sem ég vissi um að voru þarna á bakvið, þau voru ekki bara að sækja í Sparisjóð Vestmannaeyja. Einhverjir hringdu í þessi símanúmer og mér var sagt að þeir fengju nánast svörin bara eftir því hvað viðkomandi héldi að menn vildu heyra. Einhverjir svöruðu því til að það væri bara gaman og gott að eiga stofnfé í Sparisjóði Vestmannaeyja, vildu bara vera þarna með og vista peningana sína. Hjá öðrum heyrðum við að þeir vildu bara fá sem mest fyrir stofnféð og það virtist einu gilda hvaða upphæðir voru boðnar. Þetta voru algjörlega glórulausar tölur […] Alla vega eitt nafn sem ég gat flett upp á og vissi hver var, það var handónýtur aðili sem vildi kaupa. Heimurinn er ekki stór og maður heyrði að það var verið að bjóða samhliða einn og tvo og þrjá hluti í Sparisjóði Vestmannaeyja til sölu. Sem sagt, ef einhver var tilbúinn að kaupa af mér á 100 krónur þá var ég tilbúinn til að kaupa af þér á 50 krónur og selja honum á 100 krónur. Nú hef ég ekkert skjalfest um þetta en svona var þetta, eins og ég upplifði þetta.

Ég held að á bak við þessa viðleitni hafi bara verið það að menn ætluðu að hagnast og var alveg sama hvað yrði svo um hlutinn. En af þessum 70 stofnfjárhlutum skiptu einhverjir 12–14 um hendur, aðallega innan Vestmannaeyja. Ég hef ekkert skjalfest um það hvaða viðskiptaverð voru þarna, en maður heyrði skelfilegar tölur sem áttu ekki við neinn raunveruleika að styðjast þó að þarna hefði verið um hlutafélag að ræða.92

Í mörgum sparisjóðum var búið að breyta samþykktum á þann veg að ekki var tilskilið að stofnfjáreigendur skyldu eiga jafnan hlut. Slík breyting varð möguleg eftir setningu laga nr. 87/1985. Það eitt út af fyrir sig gat ýtt undir það að einhverjir tækju að safna hlutum. Reglan um 5% hámark atkvæðisréttar var þó áfram grundvallarregla. Með lagasetningunni 2002 var svo sem fyrr sagði leitast við að styrkja yfirtökuvarnir sparisjóða með því að skerpa á reglunni um dreifða eignaraðild, einnig með því að kveða á um að stjórn sparisjóðs væri heimilt og skylt að synja um framsal stofnfjárhluta sem leiða myndi til myndunar virks eignarhluta í skilningi laganna.93 Slíkar yfirtökuvarnir reyndust haldlitlar þegar allt kom til alls, eins og greint var frá í tengslum við stofnfjárhlutasöfnunina í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þó skipti miklu máli í þessu sambandi hvort stjórn viðkomandi sparisjóðs væri hlynnt framsali til tiltekinna aðila eða væri því andsnúin. Lögin kváðu á um að ef stjórn teldi að virkur eignarhlutur yrði til við framsal skyldi hún ekki samþykkja það nema að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Ekkert var hins vegar tekið á því í lögunum ef ekki væri leitað samþykkis eftirlitsins.

Aðrar ástæður gátu verið fyrir því að stofnfé væri aukið en að verjast „óvinveittri“ yfirtöku. Fleiri sparisjóðir en Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis höfðu hug á að hlutafélagavæðast og kynntu stjórnendur þeirra sér hugsanlega kosti þess og galla. Þeir biðu þó átekta eftir að sjá hvernig tilraunum þar á bæ til að breyta sjóðnum í hlutafélag reiddi af.

Tillaga stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um að breyta honum í hlutafélag fól í sér að hlutafénu yrði skipt milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunarinnar samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 37. gr. A laga nr. 113/1996. Þar sagði að samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fengju skyldi nema sama hlutfalli og endurmetið stofnfé næmi samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins sem metið skyldi af óháðum aðila. Annað hlutafé yrði eign sjálfseignarstofnunarinnar sem sett skyldi á stofn.94 Það var mikilvægt að óháður aðili annaðist þetta mat, en ekki stjórnendur sparisjóðsins. Þeir gætu hugsanlega haft hag af því að meta markaðsvirðið sem lægst því þá fengju stofnfjáreigendur stærri hlutdeild í eigin fénu. Þetta sést í töflu 2 þar sem sýnd er skipting eigin fjár fyrir breytingu í hlutafélag og síðan skipting hlutafjárins miðað við þrjú mismunandi verðmöt.

Eins og rakið var framar í kaflanum var þessu ákvæði um skiptingu hlutafjárins breytt við lagasetninguna haustið 2002.95 Þá var bætt inn í fyrrnefnt ákvæði að auk markaðsvirðisins skyldi óháði aðilinn meta gagngjald fyrir stofnfjárhluti og við það mat skyldi hafa til hliðsjónar arðsvon stofnfjárhluta annars vegar og arðsvon og áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar.96 Breytingin leiddi þess að við verðmöt sem gerð voru á næstu árum í tengslum við hlutafélagsvæðingu var farið að líta á stofnfjárbréfin sem mun betri eign en hlutabréf og því þurfti að bæta stofnfjárhöfum það upp að láta gott bréf af hendi fyrir verra bréf.

Það að auka stofnféð í sparisjóði var góð aðferð til þess að auka hlutdeild stofnfjárhafanna í hlutafénu, og það var gert á kostnað sjálfseignarstofnunarinnar. Þetta er útskýrt í töflu 3 þar sem er horft til sama sparisjóðs og í töflu 2 og gengið út frá því að verðmat B gildi. Þarna fer máttur stofnfjáraukningar ekki á milli mála. Því meiri sem hún varð þeim mun stærri hlutdeild fengu stofnfjárhafarnir í eigin fé hlutafélagssparisjóðsins.

Með því að blanda báðum aðferðunum saman, þ.e. að auka stofnféð rétt áður en breytt yrði í hlutafélag og við matið á gagngjaldinu til stofnfjárhafanna að bæta þeim það upp að láta af hendi betri bréf fyrir verri, var hlutur sjálfseignarstofnunarinnar rýrður enn frekar.

Við skýrslugjöf fyrir rannsóknarnefndinni greindi Pétur H. Blöndal frá sameiningartilraun Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Kaupþings Búnaðarbanka hf. í ársbyrjun 2004 og hvernig hún fór út um þúfur þegar Alþingi breytti lagaákvæðum um skipan stjórnar

í sjálfseignarstofnuninni sem átti að taka við þeim hluta kaupverðsins er ekki rynni til stofnfjárhafa. Pétur sagði að þá hefðu augu manna beinst að stofnfjáraukningu og áhrifum hennar á hlutavæðingaráformin:

Þarna datt náttúrulega módelið burt sem menn höfðu haft í huga. Þá fóru menn, að ég tel, að auka eigið fé sparisjóðanna gífurlega. Það var gert með því að láta peningana fara í hring, held ég fram. Nú hef ég engar upplýsingar um það, en einfaldast væri til að draga úr vægi varasjóðs við hlutafélagsvæðingu, að Spron legði 100 milljónir króna sem innlán í Kaupþing. Kaupþing lánaði svo Jóni Jónssyni 100 milljónir króna til kaupa á stofnbréfum í Spron og þá er peningurinn kominn í hring. Eigið fé Spron hefur vaxið um 100 milljónir, Kaupþing er komið með mikið af innistæðum og ákveðinn hluti af fólki skuldar Kaupþingi en á stofnbréf í Spron. Maður sér það eftir á að þetta hafi verið módelið. Og af hverju gerðu menn þetta? Til að minnka vægi þessa heilaga sjóðs. Hann datt úr því að vera 89% hjá Spron í það að vera 15%. Þannig gátu menn farið í hlutafjárvæðingu án þess að þessi heilagi sjóður væri að trufla þá. En þá gátu þeir heldur ekki notað hann, en þeir höfðu ætlað sér að nota þann sjóð síðar.97

Enn önnur ástæða til að auka stofnféð var sú að það jók möguleika til greiðslu arðs. Hámarkshlutfall til arðgreiðslu var alltaf tiltekið hlutfall af stofnfé. Hlutfallið sjálft réðst af arðsemi eigin fjár eða var föst tala og því gaf það auga leið að því hærra sem stofnféð væri þeim mun hærri gat arðgreiðslan sjálf orðið. Þar að auki skerti arðurinn varasjóð um þann hluta hagnaðar sem ráðstafað var til greiðslu arðs.

Samantekið gat aukning stofnfjár þjónað fjórum markmiðum:

1. að auka eigið fé til að efla og stækka sparisjóðinn,

2. að auka eigið fé og um leið hlutfall stofnfjár til þess að verjast yfirtöku,

3. að minnka vægi sjálfseignarstofnunar í hlutafé við breytingu sparisjóðs í hlutafélag, og

4. að geta greitt hærri arð.

Hér skal að lokum gefið yfirlit yfir þær breytingar sem urðu á stofnfé sparisjóðanna, aðrar en endurmat (bæði sérstakt endurmat og endurmat vegna verðlagsbreytinga), á tímabilinu frá árslokum 2001 til 2011. Lágu fjárhæðirnar (ýmist plús eða mínus) voru innlausn á stofnfé og sala á eigin bréfum sparisjóðs. Stundum var líka um að ræða arðgreiðslu sem að hluta eða öllu leyti gekk til hækkunar á stofnfé. Stóru tölurnar eru hinar eiginlegu stofnfjáraukningar. Um þær stærstu er fjallað aftar í þessum kafla og í köflum um viðkomandi sparisjóði.

12.2.7 Lögum breytt 2009 – sjálfseignarstofnanir á ný

Eftir fall bankanna og erfiðleikana sem því fylgdu á fjármálamarkaði og sparisjóðirnir fóru ekki varhluta af var hraðað vinnu við að endurskoða heildstætt VIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, svonefndan sparisjóðakafla. Stjórnarfrumvarp til breytinga á gildandi lögum var lagt fram 5. júní 2009 og samþykkt sem lög frá Alþingi rúmum mánuði síðar eða 10. júlí, sbr. lög nr. 76/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Með 4. gr. laganna var því slegið föstu að sparisjóðir væru sjálfseignarstofnanir sem störfuðu sem fjármálafyrirtæki. Hvorki var gert ráð fyrir að stofnaðir yrðu nýir hlutafélagasparisjóðir né að stofnfjársparisjóðum yrði breytt í hlutafélagasparisjóði. Í samræmi við hið sérstaka form sparisjóða var tekið fram að ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri ættu ekki við um sparisjóði. Um sparisjóði giltu því ákvæði VIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki og þegar þeim ákvæðum sleppti önnur ákvæði laganna. Einnig giltu ákvæði hlutafélagalaga eftir því sem við átti. Í athugasemdum við 2. gr., sem síðar var samþykkt sem 4. gr. laganna, var ákvæðið skýrt nánar. Þar sagði meðal annars:

Má segja að í ákvæðinu komi hin félagaréttarlega sérstaða sparisjóðanna vel fram og hún birtist m.a. í því að ekki er fyrir hendi heildstæð löggjöf um sparisjóði sem rekstrarform. Með ákvæðinu er verið að leitast við að fylla í þær eyður sem geta verið fyrir hendi þegar kemur að úrlausn félagaréttarlegra viðfangsefna innan sparisjóða. Ástæða þess að í ákvæðinu er vísað til hlutafélagalaga er sú að skv. 13. gr. laganna gildir sú meginregla að fjármálafyrirtæki skulu vera hlutafélög, með sparisjóði sem einu almennu undantekninguna frá þeirri reglu. Þá er í lögunum víða vísað til þess að ákvæði hlutafélagalaga skuli gilda í ýmsum tilvikum, en slíkar tilvísanir eru settar til þess að fella sparisjóði undir sömu reglur og gilda um önnur fjármálafyrirtæki, svo sem ákvæði 29. gr. um eigin hluti, ákvæði 50. gr. um stjórn fjármálafyrirtækis og ákvæði 4. mgr. 106. gr. um samruna. Það er því talið vera til samræmingar að í greininni sé veitt heimild til þess að beita ákvæðum hlutafélagalaga almennt um sparisjóði, enda rekist beiting þeirra ekki á önnur ákvæði laga. Með því að tiltaka sérstaklega að hlutafélagalögum verði aðeins beitt að því leyti sem við getur átt er verið að leggja áherslu á að ekki sé hægt að beita þeim þannig að fari gegn þeim grundvelli sem sparisjóðir byggja á, samkvæmt ákvæðum kaflans eða þannig að fari gegn tilgangi þeirra.98

Ekki voru gefnar frekari skýringar á þessari breytingu í greinargerð með frumvarpi til laganna né gerði viðskiptanefnd athugasemdir í áliti sínu. Þá voru ekki uppi háværar umræður um þessa breytingu á Alþingi í samanburði við þá umræðu sem varð þegar hlutafélagavæðingin var heimiluð árið 2001.

Í 4. gr. laga nr. 76/2009 var áfram kveðið á um eignarréttindi stofnfjáreigenda en þar sagði að stofnfjáreigendur bæru ekki ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt og ættu ekki hlutdeild í öðru eigin fé sparisjóðs en bókfærðu stofnfé eins og það væri á hverju tíma. Í áliti meiri hluta viðskiptanefndar Alþingis var greint frá því að borið hefði á hugtakaruglingi varðandi eignarhald stofnfjáreigenda. Um það sagði í nefndarálitinu:

Var bent á að í athugasemdum með frumvarpinu væri vísað til „eignarhluts í sparisjóði“ en slíkt orðalag samræmist ekki því formi að sparisjóður sé sjálfseignarstofnun. Eign í stofnfé er ekki það sama og eign í sparisjóði. Réttara er að segja að eignarhald stofnfjáreigandans sé í stofnfénu en ekki sjálfum sparisjóðnum.99

Með lögum nr. 76/2009 voru gerðar nokkrar breytingar á stöðu og eðli stofnfjár og réttindum stofnfjáreigenda. Þannig voru ákvæði um takmörkun á veðsetningu og innlausn stofnfjár felld brott, hömlum á sölu stofnfjárbréfa var aflétt og nafnverð stofnfjár lögfest sem lágmarksverð útgefinna stofnfjárhluta. Breytingarnar voru liður í því að auðvelda sparisjóðum að afla fjár og gera stofnfé að áhugaverðum kosti fyrir fjárfesta.100

Veigamesta og umdeildasta breytingin sem lög nr. 76/2009 fólu í sér var heimild fyrir sparisjóðina til að færa niður stofnfé sitt í því skyni að jafna það tap sem ekki yrði jafnað með öðrum hætti. Markmið breytingarinnar var að gera sparisjóðum auðveldara fyrir að sækja sér nýtt stofnfé, meðal annars á grundvelli neyðarlaganna nr. 125/2008, og jafna þannig varasjóð þeirra.101 Miklar umræður urðu á Alþingi um framangreinda breytingu og sagði Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi þingmaður, að fjármálakreppan hefði gert það að verkum að mörgum fjármálastofnunum í heiminum hefði verið komið til bjargar. Um ástæðuna fyrir björguninni sagði Tryggvi að „fjármálastofnanir [væru] ekki venjuleg fyrirtæki heldur [væru] þær olía fyrir efnahagslífið“. Þá sagði Tryggvi:

Ef lokast fyrir hringrás peninganna, þ.e. ef fjármálafyrirtækin lokast hrynur það einfaldlega sem við köllum raunhagkerfið og við hverfum aftur á einhvers konar steinöld. […]

Prinsippið í þessu frumvarpi er að hér er verið að bjarga sparisjóðakerfinu, ekki stofnfjáreigendum. Það er byggt á grundvallarmisskilningi vegna þess að eðli íslensku sparisjóðanna er annað en banka og hefðbundinna fjármálastofnana. Stofnfé er þeim eiginleikum búið að það nær ekki að endurspegla eigið fé sparisjóðanna heldur nær það eingöngu yfir mjög lítinn hluta ef eðlilegir varasjóðir eru þar inni og að stofnhlutir, þó að undir lokin þegar hlutafjárvæða átti sparisjóðina, hafi verið farnir að ganga kaupum og sölum á mun hærra verði en áður hafði verið. Stofnfjáreign er ekki í eðli sínu „spekúlatíf“ eign heldur kaupa menn sig inn í sparisjóði í gegnum stofnfé til þess að halda á því, jafnvel alla ævina. Það er gert til þess að styðja við fjármálastofnun í því byggðarlagi sem stofnfjáreigendurnir eiga heimili. Það er gert til þess að styðja við atvinnulífið og bæta upp fyrir þann þekkingarskort — við getum orðað það sem svo — sem er á milli stórra banka sem eingöngu liggja með útibú og þeirra sem eingöngu eru að hugsa um hagsmuni byggðarlagsins.102

Með lögum nr. 77/2012 var ákvæðum VIII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki breytt á nýjan leik. Breytingarnar fólust meðal annars í því að sparisjóðum var aftur heimilt að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag í stað sjálfeignarstofnana. Markmiðið með breytingunni var að auðvelda sparisjóðum að sækja sér eigið fé og styrkja þannig rekstrarhæfi þeirra.103 Einar K. Guðfinnsson þingmaður sagði í umræðum á Alþingi:

Í þessu frumvarpi er gerð tilraun til að opna á þann möguleika að sparisjóðirnir geti orðið að hlutafélögum. Þetta var mikið rætt fyrir nokkrum árum og mjög skiptar skoðanir voru um það. Ég man ekki betur en að meðal annars úr núverandi stjórnarflokkum hafi hljómað miklar viðvörunarraddir í þessum efnum. Ég tel að það sé mjög vel íhugunar virði að við skoðum þennan möguleika. Ég ætla ekki að leggjast þvert gegn honum. Það kann að vera ein forsendan fyrir því að hægt sé að ná peningum inn í sparisjóðina til að efla þá og ég ætla ekki að leggjast gegn því en menn verða hins vegar að hafa alla heildarmyndina fyrir sér.104

Lilja Mósesdóttir þingmaður var ekki hlynnt breytingunni og hafði áhyggjur af framtíð sparisjóðakerfisins:

Ég óttast að fjárfestum finnist sparisjóðirnir ekkert frekar áhugaverðir eftir þessar breytingar en nú. Ég óttast líka að viðskiptavinum finnist sparisjóðirnir ekkert áhugaverðari kostur eftir þessar breytingar en nú. […] Ég hef sagt það á fundi í háttvirtri efnahags- og viðskiptanefnd að ég óttist að þetta frumvarp sé síðasti naglinn í líkkistu sparisjóðakerfisins vegna þess að það tekur einfaldlega ekki á vandamálunum sem þeir þurfa að kljást við í dag. Það felur heldur ekki í sér neina framtíðarsýn, hvorki fyrir sparisjóðakerfið né fjármálakerfið í landinu.105 

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tók fram að starfshópur á vegum sparisjóðanna sjálfra hefði lagt til breytinguna. Þá sagði hún:

Það þarf að styrkja þessar einingar og án rekstrarhagnaðar lifa hvorki sparisjóðir né aðrar fjármálastofnanir og af þeim sökum þarf að styðja sérstaklega með lagaumgerðinni við rekstrarforsendur sparisjóðanna og til þess er leikurinn gerður.106 

Frumvarpið var samþykkt 29. júní 2012 og tóku lögin gildi 5. júlí sama ár. Breyting sjálfseignarstofnunar í hlutafélag skyldi framkvæmd þannig að 2/3 hlutar stofnfjáreigenda sem mættu á löglega boðaðan fund þyrftu að samþykkja tillögu um að breyta sjálfseignarstofnun í hlutafélag. Að því loknu myndi sparisjóðurinn stofna hlutafélag sem myndi síðan yfirtaka sjálfseignarstofnunina með samruna samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga.

12.3 Vextir og arður af stofnfé

12.3.1 Ákvæði laga um ávöxtun stofnfjár og endurgreiðslu

Frá upphafi þótti eðlilegt að stofnendur og ábyrgðarmenn sparisjóða fengju einhverja ávöxtun á innborgað stofnfé eða ábyrgðarfé. Í 3. gr. laga nr. 44/1915 um sparisjóði var kveðið á um slíkt:

Stofnendur sparisjóða eða ábyrgðarmenn, eða aðrir þeir, er kunna að hafa lagt fram fje til starfrækslu sparisjóða, hvort heldur er stofnfje eða greitt ábyrgðarfje, mega ekki fá hærri arð eða vexti af slíku fje en 6 af hundraði á ári.

Þótt þarna væri talað um „arð“ var fortakslaust átt við vexti. Orðið arður var í lögunum haft um hagnað eða afkomu. Það sést af 1. og 2. mgr. 16. gr. sömu laga þar sem sagði:

Ársarð allan af rekstri hvers sparisjóðs, að kostnaði og vöxtum frádregnum, samkvæmt 3. gr., skal leggja í varasjóð.

Heimilt er þó að verja nokkru af ársarðinum til endurborgunar á greiddu ábyrgðarfje, ef varasjóður nemur meiru en 10% af sparisjóðsinnstæðufjenu.

Samkvæmt þessum lögum var að öðru leyti ekki heimilt að verja fé úr varasjóði til annars en að bæta tjón er sparisjóðurinn kynni að bíða og ef hann næði að minnsta kosti 10% af samanlögðu innstæðufé þá gat „Stjórnarráðið samþykkt eftir tillögum sparisjóðsstjórnarinnar að verja [mætti] fje úr sjóðnum til nytsamra fyrirtækja í almenningsþarfir“, sbr. 16. gr. Ef sparisjóður var lagður niður var sömuleiðis kveðið á um að Stjórnarráðið gæti, að fengnum tillögum þeirra er síðast sátu í stjórn hans, varið eigum sjóðsins umfram skuldir til einhverra ákveðinna nytsemdarfyrirtækja í héraði því er sjóðurinn var stofnaður í, sbr. 21. gr. laganna.

Í 1. gr. laga nr. 69/1941 um sparisjóði var skýrt tekið fram að „stofnendur eða aðrir eigendur og ábyrgðarmenn“ hefðu engan „rétt til ágóða af rekstrarafgangi starfseminnar“. Ákvæði um ávöxtun á framlagt fé þessara sömu aðila, þ.e. 4. gr., breyttist lítið eitt frá fyrri lögum og tiltók að það mætti hæst vera 1% umfram innlánsvexti sjóðsins. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga sagði um þetta ákvæði:

Réttara virðist að miða vexti af stofnfé og greiddu ábyrgðarfé við það, að þeir séu ákveðið hærri en vextir af innlánsfé. Leggur nefndin því til, að þeir megi aldrei vera meira en 1% hærri en innlánsvextir. Getur það ekki talizt of hátt, miðað við það, hve féð er bundið, og áhættu, sem framlaginu fylgir, og er því varla hægt að telja, að það fari í bága við þau ákvæði 1. gr., að stofnendur eða ábyrgðarmenn skuli engan ágóða hafa af rekstri sjóðsins. Að öðru leyti er 3. gr. sparisjóðslaganna óbreytt.107

Ákvæðið um að verja mætti nokkru af ársarðinum til endurborgunar á stofnfé og greiddu ábyrgðarfé ef varasjóður næmi meira en 10% af heildarinnstæðum var óbreytt frá fyrri lögum. Um ráðstöfun úr varasjóði að öðru leyti giltu nær óbreyttar reglur. Nú gat „sparisjóðsstjórn ákveðið, að fengnu samþykki ráðuneytisins, að verja fé úr sjóðnum til almenningsþarfa“. Við slit sparisjóðs gat nú hlutaðeigandi sýslunefnd eða bæjarstjórn ákveðið, að fengnum tillögum þeirra er síðast sátu í stjórn sjóðsins, að eignunum skyldi varið til almenningsþarfa, sbr. 27. og 28. gr. laganna.

Í sparisjóðalögunum frá 1985 var eignarréttur stofnfjáreigenda yfir stofnfénu staðfestur strax í 1. gr., en hann þó sagður háður þeim takmörkunum sem lögin kváðu á um. Með þessum lögum voru innleidd nokkur nýmæli varðandi ávöxtun stofnfjár. Sem fyrr var tekið fram að sparisjóðsaðilar, þ.e. stofnfjáreigendur og ábyrgðarmenn, hefðu ekki rétt til ágóða af rekstrarafgangi sparisjóðs umfram það sem lögin mæltu fyrir um. Honum skyldi varið í fyrsta lagi til jöfnunar taps fyrri ára, í öðru lagi skyldi að minnsta kosti helmingur þess sem þá yrði eftir lagður í varasjóð og í þriðja lagi skyldi honum varið til greiðslu vaxta af stofnfé og séreignarsjóði stofnfjáreigenda, sbr. 1. og 42. gr. laganna.

Þessir vextir máttu ekki vera hærri en bestu innlánskjör hjá viðkomandi sparisjóði á hverjum tíma. Vaxtagreiðsluheimild var ekki flytjanleg milli ára. Aðalfundur skyldi ákveða vextina að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar og jafnframt hve mikill hluti þeirra skyldi greiðast út til stofnfjáreigenda og hver hluti þeirra legðist inn í séreignarsjóð. Útgreiddir vextir máttu þó ekki vera hærri en svaraði til vaxta af almennum sparisjóðsbókum á hverjum tíma sem reiknaðir væru bæði af stofnfé og séreignarsjóði.

Í 16. gr. var fjallað um séreignarsjóð stofnfjáreigenda en hann var myndaður með þeim hluta vaxta til stofnfjáreigenda sem ekki var greiddur út og auk þess með fjárhæðum sem greiddar voru fyrir ný stofnfjárbréf umfram nafnverð. Hver stofnfjáreigandi átti sérgreindan hlut í séreignarsjóði í hlutfalli við stofnfjáreign sína. Í athugasemdum sem fylgdu ákvæðinu sagði að ákvæðin um séreignarsjóðinn væru tilkomin vegna verðlagsþróunar undanfarinna ára og með þeim væri stefnt að því að gera stofnfjáreign í sparisjóði eftirsóknarverðari, án þess þó að rýra stöðu eigin fjár hjá sjóðnum. Jafnframt sagði að líta þyrfti svo á að stofnfjáreign fylgdi fjárbinding til óákveðins tíma og að um áhættufé væri að ræða. Því væri eðlilegt að þeir sem lagt hefðu fram stofnfé í sparisjóði nytu góðra ávöxtunarkjara af þessu fé.108

Einnig var það nýmæli í lögunum frá 1985 að við slit sparisjóðs skyldi greiða stofnfjáreigendum eignarhlut þeirra, þ.e. stofnfé og séreignarsjóð, af eftirstöðvum eigna sjóðsins eftir að skuldir hefðu verið greiddar. Því sem þá kynni að vera eftir skyldi ráðstafað í samræmi við samþykktir sparisjóðsins, þó ekki til sparisjóðsaðila.

Enn eitt nýmælið í þessum lögum var bráðabirgðaákvæði I sem sagði að innan tveggja ára frá gildistöku laganna væri aðalfundi sparisjóðs heimilt að endurmeta stofnfé sjóðsins. Við endurmatið skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum frá 1. janúar 1940 (eða stofndegi sparisjóðs ef hann væri síðar) og stöðu eigin fjár hjá sparisjóði. Endurmatið skyldi háð samþykki Tryggingarsjóðs sparisjóða. Stofnfjárhlutir mættu þó ekki verða hærri en átta þúsund krónur eftir að endurmatið hefði farið fram. Sparisjóði var heimilt að greiða þetta endurmat af rekstrarhagnaði sínum inn á stofnfjárreikninga sparisjóðsaðila á allt að fimm árum. Ráðstöfun hagnaðar með þessum hætti mátti þó ekki fara fram fyrr en eftir að búið væri að jafna tap fyrri ára og að helmingi hagnaðar lögðum í varasjóð.

Í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem sett voru 1993 sagði að stofnfjáreigendur ættu ekki rétt til ágóðahlutar af rekstrarafgangi sparisjóðs umfram það sem stæði í lögunum. Þeir skyldu einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu. Um endurgreiðslu stofnfjár við slit sparisjóðs giltu sömu reglur og í lögunum frá 1985.

Með lögunum 1993 voru gerðar tvær grundvallarbreytingar á reglum um ávöxtun stofnfjár. Sú fyrri fólst í að hætt var að miða við vexti af innlánsfé og í stað vaxta var talað um arð af stofnfé. Í 59. gr. laganna voru ákvæði um ráðstöfun hagnaðar. Þar sagði að aðalfundur gæti ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að greiða stofnfjáreigendum arð af stofnfé. Tryggingarsjóði sparisjóða skyldi falið að ákveða árlega hvert hámarkshlutfall arðgreiðslu skyldi vera. Óheimilt var að flytja arðgreiðsluheimild milli ára. Hagnaður, sem ekki var ráðstafað samkvæmt framansögðu, skyldi lagður í varasjóð. Í athugasemdum með frumvarpi til þessara laga var breytingin sögð gerð til þess að „gera stofnfjáreign í sparisjóði eftirsóknarverðari og um leið samkeppnishæfari við aðra fjárfestingarkosti á fjármagnsmarkaði“. Um það að fela Tryggingarsjóði að ákveða hámarkshlutfall arðgreiðslu sagði í athugasemdunum að Tryggingarsjóður hefði verulegra hagsmuna að gæta af því að útgreiðsla úr eiginfjárreikningum sparisjóða tefldi hag einstakra sparisjóða ekki í tvísýnu.109

Hin grundvallarbreytingin var að frá ársbyrjun 1993 var sparisjóðum heimilt að endurmeta stofnfé og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda. Við endurmat þetta skyldi hafa hliðsjón af verðlagsbreytingum frá 1. janúar 1992 miðað við lánskjaravísitölu og af stöðu eigin fjár hjá sparisjóði. Nýtt stofnfé skyldi njóta endurmats hlutfallslega miðað við inngreiðslu þess innan ársins. Í samhengi við þetta ákvæði var séreignarsjóður stofnfjáreigenda lagður niður og inneign stofnfjáreigenda í slíkum sjóði skyldi við gildistöku laganna færð til aukningar á stofnfé viðkomandi stofnfjáreiganda. Í athugasemdum með frumvarpinu sagði að séreignarsjóðnum hefði með gildandi lögum verið ætlað að tryggja stofnfjáreigendum að hlutur þeirra rýrnaði ekki vegna verðbólgu. Framkvæmd ákvæðisins um séreignarsjóðinn hefði hins vegar reynst flókin og ómarkviss og þessu nýja ákvæði um endurmatið væri ætlað að ná sama tilgangi en á mun markvissari og einfaldari hátt. Í athugasemdunum sagði loks:

Til þess að staða stofnfjáreigenda rýrni ekki er talið nauðsynlegt að veitt verði almenn og viðvarandi heimild til endurmats á stofnfé í sparisjóðum með þeim hætti sem lagt er til.110

Með breytingalögum 2001 sem juku hlutafélagsákvæðinu við sparisjóðakaflann í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði var gerð mikil breyting á greininni um ráðstöfun hagnaðar, þ.e. á 59. gr. Þessi breyting vakti enga athygli þingmanna og var ekki nefnd einu orði í umræðum um frumvarpið. Hlutafélagsákvæðið fékk þar alla athyglina. Greinin, eins og hún hljóðaði eftir þessa breytingu, var tekin óbreytt inn í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þá sem 68. gr. Hún stóð síðan óbreytt til 2009 þegar hún var felld út og gjörbreytt ákvæði um ráðstöfun hagnaðar komu í hennar stað.111 Hér skal greinin tilfærð í heild sinni því talsvert verður vísað til hennar hér aftar en einnig er vísað til hennar í umfjöllun um arðgreiðslur í köflunum um einstaka sparisjóði:112

Hagnaði sparisjóðs skal ráðstafað sem hér segir:

1. Aðalfundur getur ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að greiða stofnfjáreigendum arð af stofnfé. Öryggissjóður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sem allir sparisjóðir stofna í þessu skyni, ákveður árlega hámarkshlutfall arðgreiðslu. Heimilt er að greiða arð þótt tap sé á rekstri sparisjóðs.

2. Til viðbótar arðgreiðslu skv. 1. tölul. getur aðalfundur ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins, þó þannig að hækkun stofnfjár samkvæmt þessum tölulið verði aldrei meiri en 5% á ári. Heimild til endurmats samkvæmt þessum tölulið flyst ekki á milli ára. Endurmat samkvæmt þessum tölulið má ekki leiða til þess að bókfært eigið fé að frádregnu stofnfé verði lægra en það var í árslok 2000. Nýtt stofnfé nýtur hlutfallslega endurmats samkvæmt þessum tölulið miðað við inngreiðslu þess innan ársins. Arðurinn skal reiknaður af endurmetnu stofnfé eins og það er í lok reikningsárs.

3. Hagnað, sem ekki er ráðstafað skv. 1. og 2. tölul., skal leggja í varasjóð.

Öryggissjóður sem nefndur var í 1 tölul. er Tryggingarsjóður sparisjóða eins og hann varð árið 2000 eftir að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tók til starfa, sbr. lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.113 Inn í þennan tölulið var bætt ákvæði um að heimilt væri að greiða arð þótt tap yrði af rekstri sparisjóðs. Þetta verður að skoðast sem undantekningarregla frá ákvæðum greinarinnar í heild sem fjallar um ráðstöfun hagnaðar og hefur einmitt þá fyrirsögn. Í athugasemd um þessa grein í frumvarpinu sagði um þetta atriði:

Eina breytingin í 1. tölul. greinarinnar er að lagt er til að heimilt verði að greiða arð þótt tap sé af rekstri sparisjóðs. Arðgreiðslan takmarkast þó af ákvörðun öryggissjóðs. […] Ákvörðun Tryggingasjóðs sparisjóða um hámarkshlutfall arðgreiðslu er eins konar öryggisventill fyrir sjóðinn, enda hefur hann verulegra hagsmuna að gæta af því að útgreiðsla arðs tefli ekki hag einstakra sparisjóða í tvísýnu.114

Í 2. tölul. var nýmæli. Í athugasemd í frumvarpinu sagði eftirfarandi:

Í því skyni að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðum fjárfestingarkosti er lagt til að heimilt sé að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins þó þannig að hækkun stofnfjár verði aldrei meiri en 5% á ári. Þessi hækkun á stofnfé kemur til viðbótar endurmati skv. 23. gr. laganna. Þessari breytingu er ætlað að bæta stöðu þeirra sparisjóða sem líklegt má telja að hafi ekki áhuga á að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Markmiðið er að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti með því að auka arðsvon stofnfjáreigenda.115

Endurmat samkvæmt þessu ákvæði var síðan yfirleitt kallað „sérstakt endurmat“ til aðgreiningar frá endurmati vegna verðlagsbreytinga. Fjallað er nánar um það hér aftar í sérstökum undirkafla.

Með lagabreytingunni 2001 var búið að ganga það langt í að gera stofnfjárbréfin að „eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti“ að þeir fundust vart betri. Bréfin voru í fyrsta lagi verðtryggð, til viðbótar var heimilt að hækka þau um 5% á ári með sérstöku endurmati og loks var heimilt að greiða af þeim arð sem mátti nema allt að 15% fyrstu árin sem stjórn öryggissjóðsins ákvað hámarkshlutfallið. Þetta hámarkshlutfall tók samt nokkrum breytingum meðan hún hafði þetta hlutverk með höndum, sbr. töflu 5 hér aftar.

Lögin sem sett voru sumarið 2009 um breytingar á sparisjóðakafla laga um fjármálafyrirtæki þrengdu reglur um hækkun stofnfjár með endurmati og um arðgreiðslur. Þá höfðu þau að geyma reglur um lækkun eða niðurfærslu stofnfjár til þess að jafna tap sem ekki yrði jafnað á annan hátt.

Hækkun stofnfjár með endurmati var áður tvenns konar, annars vegar hækkun í árslok vegna verðlagsbreytinga, óháð afkomu sparisjóðsins, (67. gr.) og hins vegar 5% hækkun samþykkt á aðalfundi líkt og arðgreiðslan (68. gr.). Með þessum lögum var þetta einfaldað þannig að greinin um ráðstöfun hagnaðar (68. gr.) var látin ná yfir hvers kyns endurmatshækkun stofnfjár. Nú skyldi helmingur hagnaðar fortakslaust renna í varasjóð, en hinum helmingnum var heimilt að ráðstafa til hækkunar á nafnverði stofnfjár og arðgreiðslu til stofnfjáreigenda. Með hagnaði samkvæmt þessari grein var átt við hagnað eftir skatta samkvæmt samþykktum ársreikningi fyrir síðasta reikningsár. Aðalfundi var ekki heimilt að ákveða að úthluta meiri arði en stjórn sparisjóðs legði til. Heimild til framangreindrar ráðstöfunar væri því aðeins fyrir hendi að um óráðstafað eigið fé væri að ræða í viðkomandi sparisjóði. Þar var að sjálfsögðu átt við varasjóð.

Í frumvarpinu var lagt til að arðgreiðsluheimildin yrði nokkuð þrengri. Miðað skyldi við meðaltalshagnað eftir skatta síðustu fimm reikningsára og arðgreiðslan mætti að hámarki nema meðaltali hæstu almennra innlánsvaxta hjá öllum sparisjóðum auk allt að 8 prósentustiga. Meiri hluti viðskiptanefndar lagði til breytingu á þessu fyrirhugaða ákvæði og rökstuddi hana þannig í nefndaráliti:

Markmið þeirra breytinga sem meiri hlutinn leggur til á 8. gr. eru að auka möguleika á því að nýtt stofnfé komi inn í sparisjóði, þ.e. að það verði talinn vænlegur fjárfestingarkostur að leggja fé inn í sparisjóði. Telur meiri hlutinn að með því að fella brott þær hömlur sem í ákvæðinu felast um möguleika til arðgreiðslu felist hvati til þess að gerast stofnfjáreigandi. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að þeir sem nú eru eigendur stofnfjár komi að endurreisn sjóðanna enda felist mikilvægir viðskiptalegir hagsmunir í því að tryggja áframhaldandi hlutverk þeirra í endurreisn sjóðanna.116

Með þessum lögum var ákvörðun um hámarksarðgreiðsluhlutfall ekki lengur í höndum stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða og af greininni leiðir að óheimilt varð að greiða arð ef tap var af starfsemi viðkomandi sparisjóðs.

Síðustu breytingar sem gerðar hafa verið á ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki og varða ávöxtun stofnfjár í sparisjóðum voru gerðar í júní 2012. Þær voru því ekki til umfjöllunar í rannsókninni. Þær voru þó í örstuttu máli eftirfarandi:

1. Sparisjóður skal ráðstafa að lágmarki 5% af hagnaði liðins árs fyrir skatt til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu og greina frá framlögunum í ársreikningi.

2. Aðalfundur stofnfjáreigenda getur samþykkt, að tillögu sparisjóðsstjórnar, að arði til stofnfjáreigenda skuli að hluta eða að öllu leyti varið til hækkunar á nafnverði stofnfjárhluta í sparisjóðnum. Ekki er þó heimilt að hækka nafnverð stofnfjárhluta umfram verðlagsbreytingar miðað við vísitölu neysluverðs frá útgáfu stofnfjárhlutanna.

12.3.2 Reglur Tryggingasjóðs um hámarkshlutfall arðgreiðslu

Eins og framar greinir var Tryggingasjóði sparisjóða falið það hlutverk með lögum nr. 43/1993 að ákveða árlega hámarkshlutfall arðgreiðslu hjá sparisjóðum. Samkvæmt þessum sömu lögum voru ekki lengur greiddir árlegir vextir af stofnfé en þeirra í stað komu arðgreiðslur. Meginhlutverk Tryggingasjóðs, sem breyttist árið 2000 í öryggissjóð og starfaði eftir það undir nafninu Tryggingasjóður sparisjóða, var að tryggja fjárhagslegt öryggi sparisjóða og full skil á innlánsfé við endurskipulagningu eða slit sparisjóðsins. Ákvörðun stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða um hámarkshlutfall arðgreiðslu átti því að vera eins konar öryggisventill fyrir sjóðinn, enda hafði hann verulegra hagsmuna að gæta af því að útgreiðsla arðs tefldi ekki hag einstakra sparisjóða í tvísýnu.

Stjórn Tryggingasjóðs tók jafnan ákvörðun um þetta hámark öðru hvorum megin við áramót og sendi síðan bréf til sparisjóðanna þar sem þeim var tilkynnt um arðgreiðsluhlutfallið fyrir liðið ár. Það var ákveðið 15% fyrstu árin. Alla vega frá og með rekstrarárinu 1997 var heimilt að fara upp fyrir hámarkið ef arðsemi einstakra sparisjóða hafði verið meiri. Í stjórnarfundargerð frá 23. febrúar 1998 var eftirfarandi:

Formarður (GH) lagði til að hámark yrði 15% eins sbr. árið á undan. Umræður – m.a. kom fram sú skoðun manna að draga mætti í efa réttmæti þess að greiða hærri arð p.a. en sem næmi arðsemi eiginfjár af rekstri viðkomandi spsj. Tillaga formanns samþykkt og framkv.stjóra falið að senda bréf til spsj. þar sem fram komi að 15% sé hám. en engin vísbending um hvað spsj. beri að greiða.

Í bréfinu sem sent var til allra sparisjóðsstjóra um hámark arðgreiðslu til og með rekstrarársins 2002 var þetta alltaf tilkynnt með sama orðalagi:

Stjórn Tryggingasjóðs hefur í samræmi við framangreint lagaákvæði samþykkt að arður vegna rekstrarársins 2002 verði að hámarki [x]% af stofnfé. Sé arðsemi eiginfjár hærri er heimilt að ákveða hærri arð sem arðseminni nemur umfram [x]%.

Við þetta er því að bæta að hér er um hámark að ræða en að sjálfsögðu er heimilt að ákveða lægri hlutfallstölu sem reyndar ber að gera a.m.k. í þeim tilfellum þar sem eiginfjárstaða sparisjóðs er ekki mjög sterk.

Í bréfinu vegna 2002 og 2003 var síðari hluti klausunnar breyttur:

Við þetta er því að bæta að hér er um að ræða hámark. Í ákvörðun stjórnar Tryggingasjóðs felst ekki neins konar leiðbeining um arðgreiðslu. Arðákvörðun ráða aðstæður í hverjum einstökum sparisjóði. Reyndar er full ástæða til að horfa til lægri arðgreiðslu sem reyndar ber að gera a.m.k. í þeim tilfellum þar sem eiginfjárstaða sparisjóðs er ekki þeim mun styrkari.

Hámarkið var lækkað í 12% vegna áranna 1998–2000 og fært niður í 10% vegna 2001. Á fundi stjórnar Tryggingasjóðs 22. janúar 2003 var samþykkt að hámarkið vegna rekstrarársins 2002 yrði 12%, en á milli funda var samþykkt að hækka þessi mörk í 15%.117

Í aðdraganda að ákvörðun um hámark arðgreiðsluhlutfallsins vegna 2004 sendi Fjármálaeftirlitið stjórn Tryggingasjóðs fyrirspurn 13. desember 2004 um væntanlega ákvörðun. Í bréfinu var bent á að ákvörðun sjóðsins um hámarksarðgreiðslur væri eitt mikilvægasta tæki hans til að þjóna því hlutverki sínu að vera öryggissjóður fyrir sparisjóðina. Fjármálaeftirlitið óskaði eftir því að stjórn Tryggingasjóðs sendi því hugmyndir sínar um fyrirhugað hámark arðgreiðslna, ásamt rökstuðningi.

Stjórn Tryggingasjóðs svaraði með bréfi 29. desember 2004. Með því fylgdi greining á arðsemi eigin fjár og arðgreiðsluhlutfalli einstakra sparisjóða næstliðin þrjú ár. Í bréfinu sagði að ef litið væri til arðgreiðslna þessara ára kæmi í ljós „að í flestum tilfellum [væri] ákvörðun arðgreiðslna í takt við arðsemi eigin fjár“.118 Í þessu bréfi var þess getið að eftirlit Tryggingasjóðs með sparisjóðunum hefði undanfarið aukist jafnt og þétt og stórt skref á því sviði hefði nú verið stigið með ráðningu Hrefnu Gunnarsdóttur, löggilts endurskoðanda, í fullt starf sem framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs, en áður hefði starfið verið unnið af Sigurði Hafstein, framkvæmdastjóra SÍSP, í hlutastarfi. Loks sagði í bréfinu að dagskrá næsta stjórnarfundar sjóðsins yrði að mestu helguð ákvörðun um hámark arðgreiðslna, meðal annars með hliðsjón af bréfi Fjármálaeftirlitsins og breyttu starfsumhverfi. Þar yrði meðal annars rætt hvort tilefni væri til að lækka hámarkshlutfallið úr 15% auk heimildar til arðgreiðslu í samræmi við arðsemi eigin fjár og einnig „hvort mælt [yrði] sérstaklega með því við sparisjóðina að arður [yrði] ekki greiddur ef um taprekstur [væri] að ræða árið 2004“.

Fjármálaeftirlitið sendi stjórn Tryggingasjóðs annað bréf 17. janúar 2005. Þar var bent á að frá byrjun hefði Tryggingasjóðurinn ákveðið eitt tiltekið hámarkshlutfall fyrir alla sparisjóði. Það hefði verið í samræmi við þau viðhorf að æskilegt væri að stofnfjáreign gæfi af sér jafna en hóflega ávöxtun; að vísu kynni 15% hámark að vera ríflegt fyrir ýmsa sparisjóði sem veikar stæðu. Síðustu árin hafi virst sem Tryggingasjóðurinn hefði gert ráð fyrir heimild til að greiða arð umfram umrætt hámarkshlutfall í samræmi við arðsemi eigin fjár viðkomandi sparisjóðs. Síðan sagði í bréfinu um þessa síðari leið:

Þessi síðari leið hefur tryggt sparisjóðum í taprekstri, eða með lakari arðsemi en 15%, rétt til að greiða út arð umfram arðsemi eigin fjár […] Fjármálaeftirlitið telur orka tvímælis að byggja ákvörðun um hámarkshlutfall á tveimur viðmiðum í senn, annars vegar föstu hlutfalli og hins vegar hlutfalli sem miðast við aðstæður hvers sjóðs.119

Hámarkshlutfall arðgreiðslu vegna ársins 2004 var síðan ákveðið á stjórnarfundi 26. janúar 2005. Bréfið um ákvörðunina var unnið í samvinnu við starfshóp sem stjórnin hafði skipað til að fjalla um málið: Hrefnu Gunnarsdóttur, Sigurð Hafstein, Sigurð Jónsson og Kristján Þorbergsson. Í fundargerðinni stóð að einnig hefði verið haft samráð við Fjármálaeftirlitið. Í bréfinu sagði um samþykkt stjórnarinnar

að hámark arðgreiðslu árið 2005, vegna rekstrarársins 2004, takmarkist við sama hlutfall og raunarðsemi eigin fjár viðkomandi sparisjóðs var á árinu 2004 og reiknast af endurmetnu stofnfé eins og það er í árslok 2004. Sparisjóði er þó heimilt að greiða allt að 10% arð þrátt fyrir lægri raunarðsemi enda fari CAD-hlutfall ekki niður fyrir 10% í árslok 2004 að teknu tilliti til arðgreiðslunnar. Hafi sparisjóður verið rekinn með tapi á árinu 2004 er greind hámarksheimild 5%. Sparisjóði sem notið hefur aðstoðar Tryggingasjóðs á næstliðnum þremur árum eða er með neikvætt óráðstafað eigið fé er óheimilt að greiða arð nema með sérstöku samþykki Tryggingasjóðs.

Jafnframt er skilyrði að á hverju þriggja ára tímabili mega arðgreiðslur ekki ganga á óráðstafað eigið fé sparisjóðsins. Upphafsviðmiðun í þessu tilliti fyrir árið 2005 er bókfært verð óráðstafaðs eigin fjár 31. desember 2001 og skal framkvæmd hagað þannig að óráðstafað eigið fé í árslok 2004, að frádregnum arði sem til stendur að úthluta, má ekki vera lægra en framangreind viðmiðunarfjárhæð.

Ítrekað skal að hér er um hámark að ræða en stjórn hvers sparisjóðs leggur fram tillögur um arðsúthlutun, sem takmarkast af hámarkinu auk þess sem tekið er tillit til aðstæðna í hverjum einstökum sparisjóði, m.a.:

  • áhættu vegna óinnleysts gengishagnaðar,
  • áhættu í tengslum við breytingar á fasteignalánamarkaði og
  • reglna um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja o.fl.

Þarna voru gerðar þrjár meginbreytingar frá fyrri reglu. Hlutfallið var lækkað úr 15% í 10%, ekki var lengur talað um arðsemi heldur raunarðsemi, og loks var sett 5% þak á arðgreiðsluhlutfallið þegar um tap var að ræða. Með umræddu bréfi fylgdi blað með skýringum á því hvað raunarðsemi væri og sýnd var formúla til útreiknings á henni og dæmi um útreikning. Í ákvörðun Tryggingasjóðs hafði til þessa verið miðað við arðsemi, en þar var alltaf átt við nafnarðsemi sem í skýringum Tryggingasjóðs var kölluð heildararðsemi. Gróf nálgun á raunarðsemi er arðsemi að frádreginni verðbólgu á árinu.120 Þessi ákvörðun gilti óbreytt vegna rekstraráranna 2005 og 2006.

Á stjórnarfundi Tryggingasjóðs 23. nóvember 2006 voru ræddar hugmyndir um meiri sveigjanleika varðandi arðgreiðslur, þ.e. að sparisjóður sem ekki nýtti sér hámarksmöguleika til arðgreiðslu eitt árið ætti kost á því að auka arðgreiðslur síðar. Með slíku fyrirkomulagi væri sparisjóðunum gert kleift að móta arðgreiðslustefnu og draga úr arðgreiðslum. Ákveðið var að skoða þessar hugmyndir að ári, en að nefna þær samt í bréfi til sparisjóðanna varðandi arðgreiðslur 2007. Þessar hugmyndir voru líka kynntar fulltrúum Fjármálaeftirlitsins á fundi með þeim sama dag.

Fjármálaeftirlitið, Ragnar Hafliðason, sendi framkvæmdastjóra Tryggingasjóðs fyrirspurn í tölvuskeyti 16. apríl 2007 um nokkur atriði sem tengdust ákvörðun stjórnar sjóðsins um arðgreiðsluhlutfallið, þ.e. hvort hann hefði gefið út leiðbeiningar eða fyrirmæli um hvernig raunarðsemi skyldi reiknuð og leiðbeiningar eða fyrirmæli um af hvaða stöðu stofnfjár, t.d. miðað við tímabindingu þess innan ársins, ætti að reikna arðshlutfallið. Bent var á í tölvuskeytinu að verulegar innborganir stofnfjár á árinu hefðu áhrif á arðsemisútreikninga eftir því hvenær þær væru greiddar inn í sparisjóðinn.

Framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs svaraði daginn eftir með tölvuskeyti og sendi sem viðhengi minnisblað með leiðbeiningum um útreikning raunarðsemi sem sent var til allra sparisjóða með bréfinu varðandi arðgreiðslur 2005, vegna ársins 2004. Einnig var upplýst um að næstliðin þrjú ár hefði í reglum Tryggingasjóðs verið miðað við að arðgreiðslan reiknaðist af endurmetnu stofnfé eins og það væri í árslok.

Arðgreiðslur sparisjóða voru á dagskrá stjórnarfundar Tryggingasjóðs sparisjóða 22. ágúst 2007. Undir þeim lið segir í fundargerðinni:

Kynnt var samantekt frá Sigurði Jónssyni, endurskoðanda, varðandi takmarkanir á arðgreiðslum sparisjóða. Samantektin er á sömu nótum og umræða á fundi TRSP í nóvember 2006, við ákvörðun hámarks arðgreiðslna vegna ársins 2007, auk þess sem fram kemur hjá SJ að tekið sé tillit til breytinga á eigin fé vegna upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Tillaga um arðgreiðslu verður tekin á næsta fundi TRSP.121

Á stjórnarfundinum þar á eftir var ákveðið að „GH og HG“ semdu drög að bréfi til sparisjóða fyrir næsta fund. Þau drög voru svo samþykkt á stjórnarfundi 7. desember 2007. Sama dag var haldinn fundur með fulltrúum frá Fjármálaeftirlitinu þar sem staða sparisjóðanna var rædd og auk þess arðgreiðslur þeirra. Greint var frá viðmiðum þeim sem stjórn Tryggingasjóðs samþykkti fyrr um daginn. Síðan sagði í minnispunktum frá fundinum:

RH [Ragnar Hafliðason] vakti máls á því að arður reiknast af stofnfé eins og það er í árslok, óháð innborgunartíma þegar um aukningu á stofnfé er að ræða. Ákvörðunarvald varðandi hámark arðgreiðslna liggur hjá TRSP og hefur fyrst og fremst verið horft til þess að koma í veg fyrir að arðgreiðslur veiktu rekstrarstöðu sparisjóðanna.122

Þarna benti Ragnar á hvað stofnfjáraukning í lok árs gæti aukið möguleika til arðgreiðslu þar sem hún hefði nær engin áhrif til lækkunar á arðseminni þegar hún væri greidd svo seint. Þetta verður skýrt betur hér aftar.

Umrætt bréf var sent til allra sparisjóða 10. desember 2007. Þar voru reglurnar nokkurn veginn þær sömu og árið áður, en búið var að bæta við heimild til að flytja heimild til arðgreiðslu á milli ára og fresta henni í allt að fjögur ár. Einnig voru felldar niður takmarkanir sem tækju mið af óráðstöfuðu eigin fé þar sem reglur um lágmark eiginfjárhlutfalls ættu að vera nægjanlegar takmarkanir. Í bréfinu kom eftirfarandi liður nýr inn:

Hafi breyting á reikningsskilaaðferðum með innleiðingu alþjóðlegra reikningsskila leitt til þess að fjárhæðir hafi verið færðar til hækkunar á eigin fé sem annars hefðu komið fram sem hagnaður í rekstrarreikningi er heimilt að reikna út hver er ónýtt arðgreiðsla fyrra árs og greiða hana út á næstu fjórum árum.123

Þessi liður hafði í raun takmarkaðan líftíma, var einsskiptisheimild fyrir viðkomandi sparisjóði. Með honum var opnað fyrir að arðsemi fyrra árs yrði endurreiknuð og gæti komið til úthlutunar árið eftir eða verið frestað eins og ákvæðið gat um. Nokkrir sparisjóðir greiddu hærri arð en þeim var í raun heimilt vegna þess að ákvæðinu var fylgt ranglega.

Snemma á árinu 2008 varð ljóst að forsendur voru til hárra arðgreiðslna í ljósi góðrar arðsemi á árinu og stofnfjáraukninga undir lok ársins. Á stjórnarfundi 7. mars 2008 var rætt um væntanlegar arðgreiðslur á árinu 2008, vegna 2007, og hlutverk Tryggingasjóðs rætt í því sambandi. Ársreikningar sparisjóða fyrir 2007 voru þá farnir að birtast og af þeim sást að nokkrir sparisjóðir hugðust greiða mjög háan arð. Á stjórnarfundinum var vitnað til 68. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þar sem sagði að Tryggingasjóður sparisjóða skyldi ákveða árlega hámarkshlutfall arðgreiðslu, en þar væri ekki kveðið á um eftirfylgni eða eftirlitsskyldu varðandi framkvæmd sparisjóða við arðgreiðslur. Sigríði Rafnar Pétursdóttur, lögfræðingi og fulltrúa ráðuneytisins í stjórninni, var falið að kanna hvort sjóðnum bæri skylda til eftirlits með því að ákvörðun sjóðsins um hámarkshlutfall arðgreiðslu væri fylgt í framkvæmd. Sigríður skilaði af sér minnisblaði 9. apríl 2008 þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að eftirlitsskyldan væri fyrst og fremst hjá Fjármálaeftirlitinu. Hins vegar væri eðlilegt að Tryggingasjóður aflaði upplýsinga frá sparisjóðum varðandi arðgreiðslur og tilkynnti Fjármálaeftirlitinu eða ráðherra ef uppvíst yrði að sparisjóður uppfyllti ekki skyldur sínar.124

Fjármálaeftirlitið hafði afskipti af arðgreiðslutillögu stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík sem kom fram í skýrslu stjórnar í ársreikningi sjóðsins er birtist 4. mars 2008. Þau afskipti urðu til þess að á aðalfundi sparisjóðsins sem haldinn var 11. mars lækkaði stjórnin tillögu sína

um arðgreiðsluhlutfallið.125 Þetta var eina tilvikið sem Fjármálaeftirlitið hafði afskipti af arðgreiðslu sparisjóðs.126

Síðasta bréfið sem Tryggingasjóður sparisjóða sendi frá sér um hámark arðgreiðslu sparisjóða var dagsett 10. mars 2009. Í inngangi að reglunum sagði:

Við núverandi efnahagsaðstæður eru arðgreiðslur líklega ekki ofarlega í huga fólks en vegna framangreinds lagaákvæðis var hámark arðgreiðslna tekið fyrir á fundi stjórnar TRSP þann 4. mars s.l. og samþykkt að hámark arðgreiðslu árið 2009, vegna rekstrarársins 2008, verði í samræmi við eftirfarandi viðmið.

Viðmiðin voru efnislega óbreytt frá fyrra ári.

Með breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki um mitt ár 2009 var ákvörðunin um hámarksarðgreiðsluhlutfall hjá sparisjóðum tekin úr höndum stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða og lögð í hendur aðalfundar í hverjum sparisjóði.

Í töflu 5 eru tekin saman ákvæði í reglum Tryggingasjóðs sparisjóða um hámarkshlutfall arðgreiðslu sparisjóða allan þann tíma sem stjórn sjóðsins hafði það hlutverk með höndum að ákveða það.

12.3.3 Arðgreiðslur frá 2001

Heildararðgreiðsla sparisjóðanna árið 2001 nam 11,1% af heildarstofnfé þeirra í árslok 2000. Þetta hlutfall varð talsvert lægra næstu þrjú árin enda var heildarhagnaður sparisjóðanna lægri árin 2001–2003 en hann var árið 2000. Árið 2004 var hagnaður sparisjóðanna tekinn að hækka umtalsvert og þess gætti í arðgreiðslum árið eftir. Arðgreiðslur voru umtalsverðar 2006–2008 og hið háa arðgreiðsluhlutfall réðst mjög af hárri raunarðsemi. Yfirlit um arðgreiðslur einstakra sparisjóða árin 2001–2011 er í töflu 6. Neðan við þær upplýsingar er samtala þeirra sýnd sem hlutfall af heildarstofnfé við lok næstliðins árs og einnig sem hlutfall af heildarhagnaði næstliðins árs. Arðgreiðsla Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 2008 er sýnd í töflunni og er höfð með í samtölu arðgreiðslna. Hins vegar er hún ekki tekin með við útreikning hlutfallanna neðst í töflunni vegna þess að um hana giltu ekki reglur Tryggingasjóðs þar sem sparisjóðurinn varð hlutafélag á árinu 2007. Áður en til þess kom var búið að samþykkja arðgreiðsluna vegna 2006 og um hana giltu sömu reglur og um aðra sparisjóði. Afl sparisjóður og Sparisjóður Ólafsfjarðar voru hluti af samstæðu Sparisjóðs Mýrasýslu þau ár sem arðgreiðslur þeirra eru á gulum grunni í töflunni. Þær greiðslur fóru til móðurfélagsins og eru því ekki teknar með í samtöluna.

Hlutfallstölurnar neðst í töflunni eru vitanlega vegin heildarhlutföll. Þessi hlutföll voru mjög breytileg milli einstakra sparisjóða. Árin 2007 og 2008 mátti sjá arðgreiðsluhlutfall upp á meira en 50% af stofnfé, en það voru undantekningar. Í kafla um hvern sparisjóð er tafla þar sem þessi hlutföll eru reiknuð fyrir viðkomandi sjóð. Árið 2008 nam arðgreiðsla samtals nærri 6 milljörðum króna meira en samanlögðum hagnaði næstliðins árs hjá nokkrum sparisjóðum.127 Heildararðgreiðsla allra sparisjóða það ár var nær 37% hærri en heildarhagnaður þeirra næstliðið ár. Þessi umframgreiðsla var á kostnað varasjóðs, ásamt sérstaka endurmatinu sem einnig var tekið úr varasjóði.

Rannsóknarnefndin skoðaði útreikning arðgreiðslna hjá einstökum sparisjóðum umrætt tímabil. Hann var að mestu leyti í samræmi við reglurnar á hverjum tíma, en þó reyndist eitt og annað athugavert við hann hjá nokkrum sparisjóðum. Eins og rakið var hér framar tóku reglurnar um arðgreiðsluhlutfallið talsverðum og tíðum breytingum. Fram til rekstrarársins 2004 voru þær tiltölulega einfaldar, þótt viðmiðin væru reyndar tvö, þ.e. fast hlutfall eða arðsemi. Fasta hlutfallið virkaði eins og lágmark því fara mátti upp fyrir það ef arðsemi eigin fjár var hærri. Frá og með 2001 var opnað fyrir það að greiða arð þótt tap væri af rekstrinum, en áfram gilti fasta hlutfallið sem lágmark þar til óheimilt varð frá og með 2004 að greiða meira en 5% ef um tap var að ræða. Ekki var flókið að reikna út arðsemi. Þar að auki var hún sýnd í flestum endurskoðunarskýrslum því þar voru venjulega helstu kennitölur viðkomandi sparisjóðs reiknaðar út, þar á meðal arðsemi eigin fjár.

Frá þeim tíma sem vísað var til raunarðsemi í reglunum vegna 2004, héldu sumir sparisjóðir samt sem áður að miða áfram við arðsemi, þ.e. heildararðsemi. Þeir notuðu þá hærra hlutfall en heimilt var sem nam liðlega vísitöluhækkun innan ársins. Þetta gat munað talsvert miklu, t.d. hækkaði vístalan um tæp 7% árið 2006 og tæp 6% árið eftir. Engum var ofætlandi að reikna þetta rétt því starfsmaður Tryggingasjóðs hafði sent öllum sparisjóðsstjórum skýrar leiðbeiningar um þennan útreikning. Sparisjóðsstjórar sem voru inntir skýringa á ofgreiðslu af þessum toga sögðu að þeir hefðu farið eftir því sem stóð í endurskoðunarskýrslunni, því þar væri þetta reiknað út. Í nokkrum tilfellum var arðsemi eigin fjár reiknuð áfram með sama hætti í endurskoðunarskýrslunni en ekki uppfært miðað við reglurnar, þ.e. að líta bæri til raunarðsemi. Endurskoðendur geta þó vart tekið sökina enda er arðgreiðslutillagan á ábyrgð stjórnar, en það eru svo stofnfjáreigendur sem þurfa að samþykkja hana.

Þegar aukning stofnfjár tók að færast í vöxt, fyrst árið 2005 og síðan verulega tvö næstu árin, varð útreikningur á raunarðsemi eigin fjár flóknari en verið hafði. Breytingar á eigin fé innan ársins hafa áhrif á arðsemina og einnig skiptir máli hvenær þær eiga sér stað. Með arðsemi er átt við hagnað sem hlutfall af eigin fé. Arðsemin vex með hækkandi hagnaði ef eigið fé er óbreytt. Hún lækkar hins vegar með auknu eigin fé ef miðað er við óbreyttan hagnað.

Í töflu 7 eru sýnd þrjú mismunandi dæmi um útreikning á arðsemi miðað við sama hagnað en mismunandi eigið fé. Ef engin eða óveruleg breyting verður á eigin fé innan ársins er hægt að nota eigið fé í ársbyrjun sem nefnara í hlutfallinu. Þetta er sýnt með dæmi A. Arðsemin er sýnd í tveimur öftustu dálkunum, fyrst heildararðsemi án verðlagsbreytinga, og síðan raunarðsemi miðað við 5% verðlagshækkun. Í dæmi B hefur stofnfé verið aukið þannig að hækkun verður á eigin fé. Ef aukningin verður á miðju ári hefur hún hálft vægi innan ársins og bætist þannig við stöðuna í ársbyrjun. Nefnarinn í arðsemishlutfallinu verður því vegin meðalstaða eigin fjár í árslok. Hagnaðinn má ekki taka með í þá tölu. Í dæmi C er stofnfé aukið um sömu fjárhæð og í B, en nú gerist það síðasta dag ársins. Vægi hennar innan ársins verður því 1/365. Þannig bætist sáralítið við eigið fé í ársbyrjun. Nefnarinn helst því nær óbreyttur þrátt fyrir mikla stofnfjáraukningu og það gefur hæstu mögulegu arðsemi. Hins vegar er stofnfjáraukningin tekin með að fullu þegar að því kemur að finna arðgreiðsluna sjálfa. Þá er það stofnfé í árslok sem er margfaldað með arðsemishlutfallinu.

Greinilega má sjá fylgni milli vaxandi stofnfjár 2005–2007, sbr. töflu 4, og hækkaðra arðgreiðslna 2006–2008, sbr. töflu 6. Ef búið var að taka ákvörðun um að auka stofnfé dró það ekki niður arðsemina ef það var gert undir lok ársins. Þetta leiddi til þess að stofnfjáreigendur fengu heils árs ávöxtun af fé sem þeir höfðu lagt sparisjóðnum til í skamman tíma. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins hafði orð á þessari brotalöm við stjórn Tryggingasjóðs sparisjóða á fundi stofnananna 7. desember 2007. Stjórnin gerði enga breytingu á reglunum til að girða fyrir þetta.

Vissan um þetta gat virkað sem hvati þegar stjórn sumra sparisjóðanna leitaði samþykkis stofnfjáreiganda fyrir stofnfjáraukningu. Auðveldara var að tala fyrir mikilli stofnfjáraukningu undir lok árs þegar hægt var að gefa vonir um háar arðgreiðslur fljótlega eftir aðalfund. Sem dæmi má taka Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sem var með mikla stofnfjáraukningu í desember 2006 og gat greitt mikinn arð í lok febrúar á næsta ári. Sparisjóðurinn í Keflavík jók stofnfé í desember 2006 og enn meira í desember 2007 og greiddi mikinn arð snemma árin á eftir. Einnig skal nefna Byr sparisjóð, Sparisjóð Norðlendinga, Sparisjóð Bolungarvíkur og Sparisjóð Strandamanna sem juku allir verulega við stofnféð síðari hluta desember 2007 og greiddu stofnfjáreigendum háan arð snemma árs 2008. Brögð voru að því að stofnfjárkaupendur fjármögnuðu kaupin með lántöku og oftar en ekki voru lánin tryggð með stofnfjárbréfunum sjálfum. Í tilfelli Byrs sparisjóðs fjármagnaði Glitnir mörg slík lán og tók veð í stofnfjárbréfunum sjálfum og væntanlegum arðgreiðslum, sem voru látnar ganga upp í lánin.

Enn ein breyting á reglum Tryggingasjóðs sparisjóða um hámarkshlutfall arðgreiðslu sem varð til þess að hækka flækjustigið til muna var ákvæði um að heimilt væri að taka tillit til matsbreytinga vegna upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla, IFRS. Þetta ákvæði gat að líta í bréfinu sem sent var 10. desember 2007 til allra sparisjóða. Í bréfinu var þessari heimild og hvernig breytingin skyldi reiknuð lýst tiltölulega skýrt. Þar sagði meðal annars:

Dæmi eru um að við innleiðingu IFRS séu einstaka eignaliðir færðir upp og uppfærslan komi til hækkunar á eigin fé en hefði samkvæmt fyrri reikningsskilaaðferðum farið yfir rekstur og haft þannig áhrif á arðsemi ársins. Er opnað fyrir að arðsemi fyrra árs sé endurreiknuð og geti komið til úthlutunar árið eftir eða sé frestað með þeim hætti sem áður greinir.128

Á árinu 2007 höfðu fimm sparisjóðir tekið upp reikningsskil samkvæmt IFRS og þrír aðrir breyttu reikningsskilaaðferðum sínum að verulegu leyti í áttina að IFRS.129 Eigið fé flestra þessara sparisjóða í ársbyrjun hækkaði, sumra verulega, vegna breyttra matsreglna samkvæmt IFRS. Hjá nokkrum þeirra var útreikningur á hækkun arðgreiðsluhlutfallsins rangur. Það leiddi til þess að þeir greiddu samtals nærri 300 milljónum króna hærri arð árið 2008 en þeim var heimilt.130

Hjá þeim öllum var útreikningurinn með sama hætti. Þar var matshækkun eigin fjár bætt við hagnaðinn 2007 en ekki við eigið fé í upphafi árs. Þannig urðu teljarinn í arðsemishlutfallinu hærri og nefnarinn lægri en þeir áttu að vera. Það gaf töluvert hærra hlutfall. Síðan var stofnfé í árslok 2007 margfaldað með þessu hlutfalli. Hjá öllum þessum sjóðum hafði stofnféð verið aukið á árinu 2007 þannig að það gaf hærri arð en ella. Þar var því verið að greiða stofnfjáreigendum ávöxtun fyrra árs, eða ára, af fé sem þeir höfðu enn ekki lagt til sparisjóðsins. Þessi aðferð er sýnd með tilbúnu dæmi í töflu 8. Til einföldunar er ekki reiknuð raunarðsemi, þ.e. ekki gert ráð fyrir verðlagsbreytingum. Með henni verða samanlagðar arðgreiðslur vegna þessara tveggja ára, 2006 og 2007, 433 milljónir króna. Í þessu tilbúna dæmi háttar þannig til að arðgreiðslan sem reiknuð er samkvæmt þessari röngu aðferð er hærri en hagnaður ársins. Slíkt var óheimilt samkvæmt lögum. Nokkur dæmi voru þó um að arðgreiðsla væri hærri en sem nam hagnaði ársins.

Samkvæmt leiðbeiningum í fyrrnefndu bréfi Tryggingasjóðs átti að endurreikna arðsemina árið 2006 með því að bæta matshækkuninni við hagnaðinn á því ári. Þá hefði komið út hærri arðsemi sem hefði leitt til hærri arðgreiðslu vegna 2006 en greidd var. Mismuninn, þ.e. hina ónýttu arðgreiðslu vegna 2006, var síðan heimilt að leggja við arðgreiðsluna vegna 2007, sem átti að reiknast með venjubundnum hætti.131 Þessi útreikningur er sýndur með tilbúnu dæmi í töflu 9. Horft er framhjá verðlagsbreytingum. Samkvæmt þessum útreikningi áttu samanlagðar arðgreiðslur vegna þessara tveggja ára að nema 253 milljónum króna. Það skal athugast að hagnaður ársins 2007 takmarkar það sem má greiða á næsta ári.

12.3.4 Endurmat stofnfjár

Með lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði varð heimilt að endurmeta stofnfé sparisjóða og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda. Við slíkt endurmat skyldi hafa hliðsjón af þessum atriðum:

1. verðlagsbreytingum frá 1. janúar 1992 miðað við lánskjaravísitölu og

2. stöðu eigin fjár hjá sparisjóði.

Nýtt stofnfé skyldi njóta endurmats hlutfallslega miðað við inngreiðslu þess innan ársins, sbr. 23. gr. laganna.

Þetta ákvæði var nær efnislega óbreytt í lögum nr. 161/2002, að öðru leyti en því að við endurmatið skyldi hafa hliðsjón af verðlagsbreytingum miðað við vísitölu neysluverðs, sbr. 67. gr. En með lögum nr. 76/2009 var það fellt inn í gjörbreytta grein um ráðstöfun hagnaðar. Samkvæmt henni varð heimilt að ráðstafa allt að helmingi hagnaðar til að hækka stofnfé eða greiða arð til stofnfjáreigenda, sbr. 10. gr. laga nr. 76/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Eftir 2009 var stofnfé því ekki verðbætt sjálfkrafa eins og áður hafði verið gert. Endurmat vegna verðlagsbreytinga var alltaf fært í lok árs. Það var í rauninni tilfærsla úr varasjóði og inn á stofnfé og breytti því ekki stöðu eigin fjár. Með 4. gr. laga nr. 71/2001 um breyting á lögum nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði var lögfest heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar á stofnfé með svokölluðu sérstöku endurmati.132 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára.

Þetta ákvæði, og raunar öll 59. gr., var tekið óbreytt inn í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar var það í 68. gr. undir fyrirsögninni Ráðstöfun hagnaðar. Greinin hófst svo: „Hagnaði sparisjóðs skal ráðstafað sem hér segir:“ Það varð gert með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með greiðslu arðs, í öðru lagi með umræddu sérstöku endurmati og í þriðja lagi skyldi hagnaður sem ekki yrði ráðstafað með framangreindum hætti lagður í varasjóð.133 Sérstaka endurmatið sætti líkri meðferð og arðurinn, þ.e. stjórnin gerði tillögu um það til aðalfundar og að henni samþykktri var færsla gerð úr varasjóði og inn á stofnfé. Þetta sást því ekki í ársreikningi viðkomandi rekstrarárs heldur kom fram í næsta ársreikningi.

Nokkur dæmi voru um það að sérstakt endurmat væri lagt til og samþykkt þótt hagnaðinum hefði öllum verið ráðstafað til greiðslu arðs. Einhver misskilningur var uppi um þetta, meðal annars í stjórn Tryggingasjóðs. Þar munu menn hafa litið svo á að ávallt mætti hækka stofnfé með sérstöku endurmati óháð því hvað arðgreiðslan næmi stórum hluta hagnaðar.134 Í því sambandi hefur verið vísað til þess að í athugasemd um 8. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 76/2009 segir: „Í gildandi lögum er að finna ákvæði sem heimila endurmat stofnfjár til hækkunar. Er heimild þessi óháð því hver afkoma sparisjóðs er.“135 Þetta þykir vitna um að frumvarpshöfundar hafi skilið þetta líkum skilningi og stjórn Tryggingasjóðs. Með 8. gr. í umræddu frumvarpi var ætlunin að nema úr gildi 67. gr. í lögum um fjármálafyrirtæki, en hún hafði fyrirsögnina endurmat stofnfjár og fjallaði aðeins um endurmat vegna verðlagsbreytinga. Í athugasemdinni er svo að sjá sem bókstafurinn r hafi fallið niður í orðinu „heimila“ þar sem stendur „er að finna ákvæði sem heimila[r]“. Þarna er augljóslega verið að tala um nefnda 67. gr. Ákvæði þeirrar greinar gilti án tillits til afkomu. Rannsóknarnefndin telur ákvæðið um sérstakt endurmat hafa verið skýrt í 68. gr. eins og hún var. Lagaframkvæmdin var hins vegar óljós.

Eins og fram hefur komið var hvers kyns hækkun á stofnfé með endurmati breytt með lögum nr. 76/2009. Þá varð heimilt að ráðstafa allt að 50% af hagnaði til greiðslu arðs eða hækkunar á stofnfé. Samkvæmt því var ekki lengur talað um „endurmat“.

Í töflu 10 eru dregnar saman upplýsingar um þær fjárhæðir sem varið var til hækkunar stofnfjár með endurmati, bæði vegna verðlagsbreytinga og einnig sérstöku endurmati. Hvort tveggja var tilfærsla úr varasjóði sparisjóðanna inn á stofnfjárreikning þeirra. Taflan sýnir einnig í hve miklum mæli arðgreiðslur sparisjóðanna fóru fram yfir hagnað viðkomandi rekstrarárs. Greiddur arður umfram hagnað var sóttur beint í varasjóð. Gerð er grein fyrir endurmati stofnfjár hjá einstökum sparisjóðum í köflum um hvern þeirra. Í nokkrum tilfellum var endurmat hærra en reglur leyfðu. Helsta dæmið um það var hjá Sparisjóðnum í Keflavík en þar var stofnfé hækkað um hálfan milljarð króna árið 2008 fram yfir það sem heimilt var samkvæmt lögum.

Þegar tafla 10 er skoðuð sést að samtalan af endurmati og arðgreiðslum umfram hagnað fór ekki að hækka að marki fyrr en 2006, þegar hún nam milljarði króna, og fór svo upp í 9 milljarða króna árið 2008. Þessi sömu þrjú ár, þ.e. 2006–2008, rann mikið fé beint til stofnfjáreigenda í formi arðs, eins og sýnt er í töflu 6. Samtala þessara tilfærslna úr varasjóði inn á stofnféð og þess sem greitt var út í arð á þessum þremur árum nam tæpum 36 milljörðum króna, þar af tæpum 22 milljörðum árið 2008. Árið 2008 skar sig algjörlega úr að flestu leyti, hvað þetta varðar. Hagnaði næstliðins árs var öllum varið í arðgreiðslur og gott betur. Varasjóður sparisjóðanna í heild nam 52 milljörðum króna í lok árs 2007. Snemma á næsta ári var hann skertur um nærfellt fimmtung með tilfærslu til stofnfjáreigenda. Það skal tekið fram að þessi umfjöllun er út frá heildartölum og er því óviðeigandi gagnvart sumum sparisjóðanna sem stigu varlega til jarðar í þessum efnum. Heildarmyndin er þó skýr.

12.3.5 Samantekt um ávöxtun stofnfjárins

Í kringum aldamótin síðustu var sú skoðun býsna almenn að sparisjóðunum væri nauðsynlegt að afla sér aukins eigin fjár til að renna stoðum undir starfsemina svo þeir stæðu betur að vígi í harðnandi samkeppni á fjármálamarkaði. Lögum var breytt í þessu skyni. Vilji löggjafans var alltaf skýr. Hann kom ávallt fram í lögunum sjálfum: Stofnfjáreigendur áttu ekki tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðanna og þeir skyldu einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu. Þetta var ítrekað í athugasemdum með lagafrumvörpum og í umræðum á Alþingi. Það hefur þó komið í ljós síðasta áratuginn að löggjöf um sparisjóðina er óskýr og lagaframkvæmdin hefur dregið dám af því. Lagareglur um ráðstöfun hagnaðar voru orðnar með þeim hætti að stofnfjárbréf voru orðin einhver sá besti ávöxtunarkostur sem í boði var á markaðinum, að minnsta kosti ef tekið var tillit til áhættu. Þau voru verðtryggð, þau nutu árlegrar 5% höfuðstólshækkunar umfram það, þau gáfu háan og tryggan arð og hægt var að fá þau endurgreidd hvenær sem var.

Tryggingasjóði sparisjóða var með lögum falið það hlutverk að útfæra fyrirmæli laganna og setja árlega reglur um hámarkshlutfall arðgreiðsla. Þar virtist vera vilji fyrir því að hafa einhvern hemil á arðgreiðslum sparisjóðanna. Meginhlutverk Tryggingasjóðs var að vera öryggissjóður fyrir sparisjóðina og því mikilvægt að sjá til þess að arðgreiðslur einstakra sparisjóða stefndu fjárhag þeirra ekki í voða. Óheppilegt reyndist að hafa tvö viðmið við ákvörðun arðgreiðsluhlutfallsins. Draga hefði mátt úr skaðsemi þess ef hið fastákveðna hlutfall hverju sinni hefði verið þak á arðgreiðslur en ekki gólf samkvæmt reglunni, þ.e. greiða hefði mátt hlutfall sem nam arðsemi eigin fjár, en þó aldrei hærra en fasta hlutfallið. Þannig hefði varasjóðurinn notið góðs af því ef arðsemin var hærri. Þegar arðsemi sumra sparisjóða tók að ná áður óþekktum hæðum 2005 og ekki síður 2006 hefði verið nauðsynlegt að endurskoða þetta arðsemisviðmið í reglum Tryggingasjóðs. Það var hins vegar ekki gert. Í stjórn Tryggingasjóðs sparisjóðanna, sem gegndi ákveðnu öryggishlutverki gagnvart sparisjóðunum, sátu þrír til fjórir sparisjóðsstjórar hverju sinni. Það fyrirkomulag kann að hafa verið óheppilegt í þessu tilliti. Ekki verður fullyrt um áhrif þeirra í störfum sjóðsins þegar kom að ákvörðunum um hámark arðgreiðsluhlutfalls sparisjóðanna.

Eftirlitshlutverk Tryggingasjóðs var óljóst. Ekki var þó vanþörf á eftirliti með arðgreiðslum því mörg dæmi fundust um það að sparisjóðir túlkuðu reglurnar, sem þó voru býsna rúmar, með sínum hætti og beittu eigin aðferðum við útreikning arðgreiðslna. Stjórnendur sumra sparisjóðanna vísuðu til endurskoðenda sparisjóðanna um útreikninga á arðsemi, raunarðsemi og mögulegri arðgreiðslu, en ábyrgð á tillögum um greiðslu arðs liggur fortakslaust hjá stjórn sparisjóðs. Stofnfjáreigendur áttu svo síðasta orðið með því að samþykkja tillögurnar.

Eftir hrunið á fjármálamarkaði 2008–2009 hefur naumast verið um það að ræða að þeir sparisjóðir sem eftir lifa hafi greitt stofnfjáreigendum arð. Það sama er að segja um endurmat stofnfjár.

Mynd 2 sýnir betur en mörg orð hvernig stofnfé sparisjóðanna var samsett til ársloka 2008. Eftir þann tíma er illmögulegt að fylla inn í myndina þannig að hún verði skiljanleg. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis er ekki hafður með 2007 og 2008 eftir að hann var orðinn hlutafélag. Það sést glöggt af myndinni hvað stofnfjáraukningarnar voru í raun miklar og hvað þær breyttu stofnfé sparisjóðanna frá 2005. Endurmat vegna verðlagsbreytinga, þ.e. samkvæmt 67. gr. laganna, tók að fá aukið vægi þegar stofnféð var orðið svona mikið. Ekki má horfa framhjá því að það var sótt í varasjóðinn.

12.3.6 Lækkun stofnfjár og tap

Við breytingu úr ábyrgðarmannasparisjóðum yfir í stofnfjársparisjóði, sem fyrstu drög voru lögð að með lögum nr. 87/1985, var lögfest það nýmæli að við slit sparisjóðs skyldi endurgreiða stofnfjáreigendum stofnféð þegar allar skuldir sparisjóðsins hefðu verið greiddar af eignum hans. Því sem þá kynni að verða eftir skyldi ráðstafað samkvæmt samþykktum sparisjóðsins en þó ekki til sparisjóðsaðila, sbr. 3. mgr. 64. gr. Þetta ákvæði hélst efnislega óbreytt þegar lög um fjármálafyrirtæki voru sett 2002, sbr. 3. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002.

Með lögum um viðskiptabanka og sparisjóði 1993 komu inn ákvæði um réttindi stofnfjáreigenda sem héldust einnig óbreytt þegar lög um fjármálafyrirtæki voru sett. Þar hljóðuðu 1. og 4. mgr. 17. gr. laga nr. 43/1993 svo:

Stofnfjáreigendur bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt.

[…]

Stofnfé verður ekki endurgreitt til stofnfjáreigenda nema samkvæmt ákvæðum 65. og 103. gr.136

Í 65. gr. var fjallað um innlausn stofnfjárhluta, en 103. gr. hafði að geyma ákvæði um að stofnfjáreigendum skyldi greitt stofnféð þegar skuldir sparisjóðs hefðu verið gerðar upp. Lögin gerðu ekki ráð fyrir að á þessa ábyrgð stofnfjáreigenda reyndi fyrr en við slit sparisjóðs.

Stjórnarfrumvarp það sem varð að lögum nr. 76/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, var lagt fram á Alþingi 5. maí 2009 og samþykkt sem lög rúmum mánuði síðar. Því var meðal annars ætlað að taka á vanda sparisjóðanna sem skapaðist við fall viðskiptabankanna þriggja í október 2008. Staða þeirra hafði enn versnað við fall Sparisjóðabankans hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., í mars 2009, ásamt sölu á rekstri og eignum Sparisjóðs Mýrasýslu til Nýja Kaupþings banka hf. Afkoma sparisjóðanna var almennt mjög slæm á árinu 2008. Hjá flestum þeirra varð veruleg rýrnun á eigin fé, einkum vegna lækkunar á hlutabréfaverði og gangvirði eignarhluta í félögum. Þá var afkoma af kjarnastarfsemi fyrir skatta neikvæð hjá þeim flestum. Margir þeirra höfðu nýverið hækkað stofnfé sitt mjög mikið og greitt stofnfjáreigendum ríflegan arð, sem hafði gengið á varasjóði þeirra. Vegna taprekstrar var svo komið snemma árs 2009 að varasjóður margra þeirra var uppurinn og jafnvel orðinn neikvæður, þ.e. að bókfært stofnfé var orðið hærra en annað eigið fé. Ljóst var að margir þeirra höfðu þörf fyrir að auka stofnfé sitt til þess að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi, hvort sem nýtt stofnfé kæmi frá ríkinu, sveitarfélögum eða öðrum aðilum sem fáanlegir væru til að styrkja rekstur þeirra. Við þessar aðstæður var talið ólíklegt að nýir aðilar væru tilbúnir að leggja fram nýtt stofnfé, auk þess sem gera varð ráð fyrir því skilyrði fyrir fjárframlagi ríkissjóðs, samkvæmt 2. gr. laga nr. 125/2008, að varasjóður væri ekki neikvæður.

Eitt af markmiðum þeirra breytinga sem gerðar voru á sparisjóðakafla laganna var að auðvelda sparisjóðum að sækja sér nýtt stofnfé, meðal annars á grundvelli laga nr. 125/2008, með því að geta lækkað stofnfé til að mæta taprekstri undangenginna ára og með þeim hætti jafnað varasjóð sparisjóðsins. Með þeirri aðgerð urðu stofnfjáreigendur að taka á sig tap sparisjóðsins að því leyti sem það var umfram varasjóð. Talið var að í gildandi löggjöf um sparisjóði væri ekki fyrir hendi heimild til þess að lækka stofnfé.

Eftir þessa lagabreytingu varð 67. gr. í lögum um fjármálafyrirtæki svohljóðandi:

Að tillögu stjórnar sparisjóðs getur fundur stofnfjáreigenda tekið ákvörðun um lækkun stofnfjár til jöfnunar taps sem ekki verður jafnað á annan hátt. Til þess að heimilt sé að fjalla um lækkun stofnfjár á fundi stofnfjáreigenda skal hafa verið boðað til fundarins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal gera grein fyrir tillögu um lækkun stofnfjár. Fyrir slíkri ákvörðun þarf samþykki tveggja þriðju hluta atkvæða sem mætt er fyrir á fundi stofnfjáreigenda. Í fundarboði skal greina frá ástæðum fyrir lækkuninni og hvernig hún á að fara fram. Fjármálaeftirlitinu skal tilkynnt fyrir fram um fyrirhugaða lækkun stofnfjár.

Ákvörðun fundar stofnfjáreigenda um lækkun skv. 1. mgr. tekur gildi þegar Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt hana.

Ekki þarf að innkalla kröfur vegna lækkunar stofnfjár samkvæmt þessari grein.

Um þetta ákvæði spunnust miklar umræður á þingi. Nokkrum þingmönnum sýndist sem með þessu yrði stofnfé sparisjóðanna þurrkað út og þeir myndu breytast í ríkissparisjóði.

Pétri H. Blöndal leist illa á slíkt fyrirkomulag:

Í frumvarpi því sem við hér erum að afgreiða sem lög er ýmislegt gott en annað verra. Það sem ég sakna mest er að það vantar alla framtíðarsýn. Hvernig verður sparisjóðakerfið eftir þrjú, fjögur eða fimm ár svo ég tali ekki um fimmtán ár? Hvað svo, spurði ég í gær, hvað svo? Menn ætla sér að láta ríkið koma inn í sparisjóðina og eignast þá að miklum hluta. Hvað er eiginlega ríkissparisjóður? Hvers lags fyrirbæri er það? Er því stýrt úr Reykjavík? Eru í sparisjóðsstjórninni einhverjir embættismenn úr Reykjavík eða hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Ég sé enga lausn, enga framtíðarsýn og ég get ekki stutt svona frumvarp.137

Eygló Harðardóttir taldi lækkun stofnfjár óásættanlegan kost fyrir sparisjóðina:

Ég tel að með 7. gr. sé nánast verið að neyða í sumum tilvikum sparisjóði til að hafna framlaginu frá ríkinu og fara kannski mun erfiðari leið en ella og gera það að verkum að sparisjóðakerfið verði mun veikara fyrir vikið.138

Einar K. Guðfinnsson taldi umrætt ákvæði ekki mundu þjóna tilgangi sínum auk þess sem með því væri brotin grundvallarregla:

Óttast ég mjög að með þeim breytingum sem boðaðar eru í þessu frumvarpi, og breytingartillögur meiri hlutans taka því miður ekki á, sé vegið að sjálfum rótum sparisjóðakerfisins sem er stofnféð. Stofnfé er ekki hlutafé, stofnfé hefur sína sérstöðu og það er gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á þessu. […]

Menn segja sem svo: Þetta er heimildargrein. En hvaða möguleika hafa menn til að taka ákvarðanir í þessari stöðu þegar eigið fé sparisjóðanna er komið langt niður fyrir 12% og fer að nálgast núllið þegar menn standa frammi fyrir því að eiga kannski einn valkost sem er sá að færa niður stofnféð gegn því að geta fengið aðkomu ríkisvaldsins? Ætla menn að segja að þetta sé eitthvert frjálst val? Auðvitað er það ekki frjálst val. Menn hafa engan annan kost en að segja já og þá verða menn að lúta því að stofnféð verði fært niður […]

Veltum fyrir okkur einfaldri spurningu: Hverjir eru líklegir til að koma með fjármuni til að leggja í litlu sparisjóðina úti um landsins byggðir? Jú, það er ríkið. Það hefur heimildina í neyðarlögunum. Og síðan hver? Ætli það sé hinn almenni fjárfestir í landinu sem bíður nú spenntur eftir því að fá að kaupa í þessum sjóðum? Auðvitað ekki. Það er kannski von til þess að hægt verði að fá heimamenn til að hjálpa til, kannski einhverja örfáa viðskiptavini o.s.frv. En ég segi það […] að það er ekki líklegt að þeir aðilar muni fara í að leggja fjármuni inn í sparisjóðina eftir að hafa verið sviðnir með því að stofnféð sé fært niður.139

Guðbjartur Hannesson benti á að mjög mismunandi ástæður væru fyrir stofnfjáreign einstaklinga:

Það er með mjög ólíkum hætti sem menn hafa gerst stofnaðilar í sparisjóðum, allt frá því að vera í þessu sem fjárfestingu og yfir í að reyna að bjarga fjármálastofnunum í sínu héraði.140

Formaður viðskiptanefndar, Álfheiður Ingadóttir, sagði þegar hún mælti fyrir nefndaráliti meirihluta:

Það sem ég er að leggja áherslu á er að staða hvers sparisjóðs fyrir sig verði metin. Það er mikilvægt að það verði gert og að það er því misskilningur að fyrirhugað sé að skrifa stofnfé í öllum sparisjóðum í landinu niður í eitthvert tiltekið hlutfall. Það kom einnig fram fyrir nefndinni að það er ekki ætlunin að skrifa stofnfé niður í núll, afskrifa það algerlega, og ráðuneytið telur, eins og reyndar kemur síðar fram í nefndaráliti meiri hlutans, að það séu fólgin verðmæti, eiginleg verðmæti í því að núverandi stofnfjáreigendur í sparisjóðunum verði áfram viðskiptamenn og stofnfjáreigendum [svo] í sjóðunum.141

Nokkrir þingmenn vildu fara aðrar leiðir en að færa niður stofnféð til að tryggja sparisjóðunum áframhaldandi líf, þeirra á meðal Einar K. Guðfinnsson. Álfheiður Ingadóttir innti hann eftir lausnum:

Hver er hin leiðin, háttvirtur þingmaður? Hún er sú að sjóðirnir fari lóðbeint á hausinn, að starfsleyfið verði tekið af þeim vegna þess að þeir uppfylla ekki kröfur í 77. gr. laganna um starfsleyfi vegna þess að eigið fé er uppurið eða neikvætt.142

Einar K. Guðfinnsson taldi rétt að stofnféð yrði ekki fært meira niður en í nafnverð:

Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að það væri t.d. til bóta ef inn í þetta frumvarp kæmi ákvæði, og yrði þar með lögfest, sem fæli það í sér að stofnféð væri ekki fært meira niður en svo að það væri alltaf sem svaraði nafnvirðinu. Þá væri varðveitt hin gamla sparisjóðshugsjón og þá væri hægt að taka á því sem ég þykist vita að menn vilji gjarnan taka á sem eru sparisjóðir þar sem menn hafa blásið upp eigið fé og þar sem menn hafa reynt síðan að færa það í verðmæti inn í stofnféð. Það á hins vegar ekki við um litlu sparisjóðina í landinu.143

Álfheiður Ingadóttir taldi skynsamlegra að það yrði fært niður í raunvirði:

Það er hins vegar mjög mikill og alvarlegur misskilningur þegar það liggur eiginlega í orðum háttvirts þingmanns að þetta frumvarp sé atlaga að sparisjóðunum og sparisjóðakerfinu í landinu. Það er rangt. Hér er verið að skapa grundvöll fyrir aðkomu nýrra stofnfjáreigenda og það verður ekki gert, háttvirtur þingmaður, nema stofnféð sem fyrir er í sjóðunum verði fært að raunvirði.144

Einari K. Guðfinnssyni þótti það mjög ósennilegt að þetta yrði til þess að laða nýja fjárfesta að sparisjóðunum:

Það sem við háttvirtur þingmaður erum hins vegar algjörlega ósammála um er að niðurfærsla stofnfjárins sé forsendan fyrir því að laða að nýja fjárfesta. Ég vek einfaldlega athygli á því að raunveruleikinn er þessi: Fyrir litla sparisjóði er vonin fólgin í tvennu, annars vegar að fá aðkomandi fjármagn ríkisvaldsins og hins vegar að fá stofnfjáreigendur og fólk í héraði til að leggja sjóðnum til viðbótarstofnframlag. Ég tel mjög ólíklegt að það verði hægt ef búið er að svíða niður stofnfjáreigendurna þannig að þeir beri af því skaða.145

Tryggvi Þór Herbertsson vildi einnig fara varlega í að færa stofnféð niður:

Ég mundi vilja að það mætti ekki færa stofnfé niður í lægri upphæð en nafnverð 1, að sett yrði víkjandi lán inn í þessar stofnanir til þess að bjarga þeim frá því að fara á hausinn og það yrði gert með því skilyrði að enginn arður yrði borgaður út fyrr en ríkið hefði fengið allt sitt greitt. Þannig höfum við varðveitt stofnunina í byggðarlaginu, þannig höfum við haldið inni stofnfjáreigendunum og þannig höfum við tryggt að ríkið fái sitt til baka. Þannig forðumst við að búa til það sem ég kallaði áðan zombie-bank.146

Viðskiptanefnd kallaði eftir umsögnum fjölmargra aðila við meðferð frumvarpsins. Í umsögn Sambands íslenskra sparisjóða frá 18. júní 2009 sagði m.a.:

Við gerum ráð fyrir að í þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu og aðkomu ríkisins sem er fram undan hjá sparisjóðunum muni vera nauðsynlegt að lækka stofnfé. Við viljum þó benda á að aðstæður sparisjóða eru mismunandi og sama gildir um ástæður fyrir þörfinni. Þess vegna er mikilvægt að undirstrika að þetta er heimildarákvæði sem er æskilegt að fara sparlega með. Í þessu samhengi má t.d. benda á að lagafrumvarpið takmarkar ráðstöfun hagnaðar þannig að hugsanlega geta liðið mörg ár án þess að arður verði greiddur á stofnfé sem auðvitað jafngildir umtalsverðri lækkun á stofnfé. Heimildinni til lækkunar stofnfjár er ætlað að tryggja jafnræði við hluthafa sem hafa tapað miklu í hruninu. En jafnræði verður þá að vera á öllum sviðum. Ef gerð er krafa um lækkun stofnfjár til að mæta tapi að fullu er óeðlilegt að setja hömlur varðandi framhaldið.147

Í umsögn stjórnarformanns og sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Svarfdæla frá 18. júní 2009 til viðskiptanefndar sagði:

Á undanförnum árum hafa verið gerðar margar tilraunir til að komast yfir annað eigið fé sparisjóðanna og tóku margir sjóðir til varnar. Í þeim slag var vörn í því að andi laga um sparisjóði var að stofnfé átti ekki tilkall í annað eigið fé. Nú eru hugmyndir uppi um að heimilt verði að meta stofnfé niður og taki þá stofnfé mið af bókfærðu virði sparisjóðsins. Þannig fer stofnfé að lúta sömu lögmálum og hlutafé án þess að hafa skilgreindan status eins og hlutafé. Um leið er fallin sú röksemd að stofnfjáreigendur eigi ekki hlutdeild í öðru eiginfé. Ef stofnfjáreigendur eiga hlutdeild í neikvæðu eigin fé hljóta þeir að eiga það líka í jákvæðu. Samfélagslegt yfirbragð sparisjóðanna mun þar með hverfa Eftir slíka meðferð stofnfjár sem fyrirhuguð er verður stofnfjáreigandi óumdeilanlega eigandi sparisjóðsins Þar sem hann er farinn að bera tap sjóðsins á hann jafnframt fullan rétt til hagnaðar. Með þessu munu þeir hafa fullan sigur sem gerðu atlögu að því sem kallað var „fé án hirðis“.148

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði við atkvæðagreiðslu um frumvarpið:

Það er þyngra en tárum taki hvernig hluti sparisjóðakerfisins, stór hluti þess reyndar, er á sig kominn eftir þátttöku í hrunadansi undanfarinna ára með fáeinum virðingarverðum undantekningum þó, fyrst og fremst þeim sem kunnu fótum sínum forráð og fóru ekki út í þær vitleysur sem hafa að mestu leyti fellt fjármálakerfið á Íslandi. Það er mikilvægt að hafa það í huga að aðstoð ríkisins verður ekki neytt [svo] upp á einn eða neinn en hún mun standa til boða þeim sem óska eftir stuðningi ríkisins til að endurreisa sína sparisjóði, vonandi í samstarfi við fleiri aðila sem vilja styðja sparisjóðakerfið, endurreisa það og tryggja framtíð þess.149

Við sama tækifæri sagði Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar:

Vel kann að vera að einhverjir hafi talið að skýrar reglur væru í gildi um sparisjóði á Íslandi. En þessar reglur leiddu engu að síður til þess að allt eigið fé í sparisjóðunum var sogið þaðan, blygðunarlaust segja margir. Það leiddi til hruns þeirra. Sá stærsti er fallinn. Aðrir ramba á brúninni. Hér er verið að reyna að bæta starfsskilyrðin og ég vil leyfa mér að endurtaka það sem ég sagði áðan að þetta eru nauðsynlegar breytingar.150

Umrætt ákvæði um lækkun stofnfjár var virkjað við fjárhagslega endurskipulagningu fjögurra sparisjóða í tengslum við uppgjör þeirra við Seðlabanka Íslands sem var stærsti kröfuhafi þeirra allra. Tilskilinn fjöldi stofnfjáreigenda í þessum sjóðum samþykkti lækkun stofnfjár og þeim var öllum unnt að ganga frá samkomulagi við Seðlabankann á árinu 2010.151 Tafla 11 sýnir hve mikla lækkun var um að ræða hjá umræddum sparisjóðum.

Í töflunni er einnig sýnt hve mikið stofnfé tapaðist við fall Byr sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík sama ár. Ekkert stofnfé tapaðist við fall Sparisjóðs Mýrasýslu því Nýi Kaupþing banki hf. keypti það af Borgarbyggð, eina stofnfjáreigandanum. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. var orðinn hlutafélag þegar hann féll, þar töpuðu hluthafar hlutafénu.

Ekkert verður um það sagt hvort þessi lækkun stofnfjár hafi þjónað því markmiði sem að var stefnt. Þessir sparisjóðir eru allir starfandi í dag. Bankasýslu ríkisins, sem fer með hlut ríkissjóðs í fimm sparisjóðum, hefur ekki tekist að laða að nýja fjárfesta eftir að búið var að ganga frá uppgjöri við Seðlabankann.

12.4 Tilkall til varasjóðsins

Hér framar hefur verið greint frá því hvernig hugmyndin um hlutafélagsvæðingu sparisjóðanna gat leitt til væntinga um að meiri verðmæti fælust í stofnfénu heldur en sem næmi hinu endurmetna nafnverði þess. Í sinni fyrstu gerð buðu ákvæði laga sem vörðuðu hlutafélagsvæðingu sparisjóða ekki upp á það að stofnfjáreigendur ættu rétt til ágóðahlutar af rekstrarafgangi sparisjóðs umfram það sem mælt var fyrir um í lögunum, en þar var átt við arð og endurmat. Þeir skyldu einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 71/2001 um breytingu á lögum nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Þar sagði m.a.:

Við breytingu á sparisjóði í hlutafélag skv. 1. mgr. skulu stofnfjáreigendur eingöngu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé, endurmetið skv. 23. gr., nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Markaðsvirði sparisjóðsins skal metið af óháðum aðila.

Meðan yfirtökutilraun fimmmenninganna stóð yfir litu dagsins ljós annars vegar greinargerð Fjármálaeftirlitsins, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að gildandi löggjöf legði ekki bann við sölu stofnfjárbréfa á yfirverði, og hins vegar álitsgerð Páls Hreinssonar laga-
prófessors þar sem sagði að bann við framsali stofnfjárbréfa á yfirverði kynni að stangast á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta varð til þess að við afgreiðslu frumvarps til laga um fjármálafyrirtæki síðla árs 2002 var hlutafélagsákvæðinu breytt í meðförum þingsins. Þar var bætt inn í ákvæðið að óháði aðilinn sem meta ætti markaðsvirði sparisjóðsins skyldi einnig meta „gagngjald fyrir stofnfjárhluti“. Auk þess var eftirfarandi bætt við:

Við mat á hlut stofnfjár skal hafa til hliðsjónar arðsvon stofnfjárhluta skv. 68. gr. annars vegar og arðsvon og áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar.152

Þetta síðasta ákvæði getur vart talist skýrt, enda reyndist það aflvaki flókinna reiknikúnsta í tengslum við áform nokkurra sparisjóða um hlutafélagsvæðingu.

12.4.1 Formlegt verðmat á sparisjóðum

12.4.1.1 Mat á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis varð fyrstur til að stefna að breytingu í hlutafélag. Það kom ekki á óvart því hugmyndin að hlutafélagsvæðingu sparisjóðanna var nátengd honum. Sparisjóðsstjórinn, Guðmundur Hauksson, hafði talað fyrir slíkri breytingu í nokkur ár. Á stefnumótunarfundi Sambands íslenskra sparisjóða 5. febrúar 1998 sagði hann að breytingar væru óhjákvæmilegar. „Krafa mun koma upp að fyrst við getum keypt önnur félög þá sé líka hægt að kaupa í okkur.“ Sjálfur kvaðst hann vilja skoða „að farið [yrði] alla leið í hlutafjárvæðingu“.153 Guðmundur sat einnig frá 1998 í nefnd þeirri sem samdi drög að frumvarpinu sem varð að lögum nr. 71/2001.

Fyrsta tillaga stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um breytingu sparisjóðsins í hlutafélag, sumarið 2002, byggðist alfarið á hlutafélagsákvæðinu eins og það leit þá út. Stjórnin hafði fengið endurskoðunarfyrirtækið Deloitte & Touche til að verðmeta sparisjóðinn. Verðmatið var lagt fram á stjórnarfundi sparisjóðsins 21. maí 2002 og niðurstaða þess var að verðmæti eigin fjár lægi á bilinu 4,0–4,4 milljarðar króna. Stjórnin gekk þá út frá verðinu 4,2 milljörðum króna. Miðað við að endurmetið stofnfé í árslok 2001 var 485 milljónir króna þá áttu stofnfjárhafar tilkall til 11,5% af hlutafé í væntanlegum hlutafélagssparisjóði. Þannig myndi 88,5% hlutafjárins ganga til nýstofnaðrar sjálfseignarstofnunar. Þetta þótti ýmsum stofnfjáreigendum rýr hlutur og því hófst sú atburðarás sem margoft hefur verið lýst hér framar.

Kauptilraun fimmmenninganna og einnig Starfsmannasjóðs SPRON rann út í sandinn, en hlutafélagshugmyndin var enn á dagskrá og nú var kynt undir henni með væntingum stofnfjáreigenda um yfirverð. Stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis fékk KPMG Endurskoðun hf. til að meta fyrir sig hæfilegt „gagngjald fyrir stofnfjárhluti“ við breytingu sparisjóðsins í hlutafélag. KPMG skilaði stjórninni drög að greinargerð sem lögð var fram og kynnt á stjórnarfundi í sparisjóðnum 14. ágúst 2003.154

Greinargerðin var unnin af Sigurði Jónssyni og Hrannari Hólm. Í henni var fyrst gerð grein fyrir áðurnefndu lagaákvæði um gagngjaldið og vitnað í álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við frumvarp sem varð að lögum nr. 161/2002. Þar var gerð grein fyrir innskoti í ákvæði frumvarpsins um mat á hlut stofnfjáreigenda í sparisjóði við hlutafélagsvæðingu. Það kváðu höfundar greinargerðarinnar einu leiðbeininguna sem löggjafinn hefði gefið um framkvæmd þessa viðbótarákvæðis. Í nefndarálitinu sagði:

Hvað varðar gagngjald stofnfjáreiganda fyrir stofnfjárhluti sína við hlutafélagavæðingu sparisjóðs tekur meiri hlutinn eftirfarandi fram: Í lögum nr. 71/2001, um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, var m.a. kveðið á um hlutafé sem stofnfjáreigendur fá sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína við hlutafélagavæðingu sparisjóðs. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og endurmetið stofnfé nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Þetta átti að tryggja að áætlað verðmæti hlutafjár stofnfjáreigenda væri hið sama og endurmetið stofnfé fyrir hlutafélagavæðingu sparisjóðsins. Þessi aðferð tryggir hins vegar ekki að stofnfjáreigendur séu jafnsettir fyrir og eftir hlutafélagavæðingu. Það kemur einkum til af því að gengisáhætta er mikil í hlutafélagi en innlausnarvirði stofnfjárhluta er þekkt. Jafnframt er möguleiki fyrir sparisjóði að greiða góðan arð af stofnfjárhlutum skv. 59. gr. laga nr. 113/1996, sbr. 68. gr. frumvarpsins, og ráðstafa hluta hagnaðar til hækkunar á stofnfé. Eðlilegt er að tryggja eins og kostur er að stofnfjáreigendur séu jafn vel settir fyrir og eftir hlutafélagavæðingu. Þeirri breytingu sem hér er lögð til er ætlað að ná því markmiði. Til að tryggja að sparisjóðsstjórnir gæti ekki hagsmuna stofnfjáreigenda umfram hagsmuna sjálfseignarfjár sparisjóðsins er lagt til að óháður aðili verði fenginn til að meta ákvörðun hlutafjár. Til viðbótar við hinn óháða aðila fer Fjármálaeftirlitið yfir matið. Við matið skal hinn óháði aðili leggja til grundvallar þekktar aðferðir við mat á áhættu og hafa til hliðsjónar arðsvon og áhættu stofnfjárhluta skv. 68. gr. annars vegar og arðsvon og áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar.155

Í greinargerð KPMG var gerð ítarleg grein fyrir arðsvon og áhættu af stofnfjárbréfum. Þar var bent á að stofnfjárbréf gætu skilað eigendum ávöxtun á fjóra mismunandi vegu, þ.e. með endurmati vegna verðlagsbreytinga, með arðgreiðslu – jafnvel þótt um tap væri að ræða, með 10% af hagnaði til hækkunar á stofnfé – þó ekki meira en um 5%, og loks væri heimilt að tilteknum skilyrðum uppfylltum að selja stofnfjárbréf á hærra verði en útreiknuðu innlausnarvirði. Að öllu þessu samantöldu og vangaveltum um áhættu og ávöxtunarkröfu sagði í greinargerðinni:

Í dag eiga stofnfjáreigendur bréf sem gegn lítilli áhættu gefa góða arðsvon. Aðrar slíkar eða sambærilegar fjárfestingar eru ekki til á íslenskum markaði. […] Nú er ljóst að ef af breytingu sparisjóðsins í hlutafélag verður munu stofnfjáreigendur fá hlutabréf í sparisjóðnum sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Af framansögðu er ljóst að hlutabréfin munu að öllum líkindum vera lakari fjárfestingarkostur en stofnfjárbréfin, bæði er arðsvonin minni, en auk þess er áhætta fjárfestingarinnar meiri.156

Höfundar greinargerðarinnar komust loks að eftirfarandi niðurstöðu:

Það er okkar mat að teknu tilliti til ofangreindra þátta að skynsamlegast sé að áætla að eðlilegt markaðsvirði stofnfjár SPRON liggi á bilinu 1.350–1.450 millj. kr. sem jafngildir gengisstuðli á bilinu 2,8–3,0.

Það er einnig mat okkar að ef SPRON yrði breytt í hlutafélag þá væri sanngjarnt og eðlilegt að stofnfjáreigendur fengju hlutafé í SPRON sem hefði sama markaðsvirði, þ.e. 1.350–1.450 millj. kr. í skiptum fyrir stofnféð, óháð metnu virði SPRON.

Þess má geta að miðað við verðmat Deloitte & Touche frá maí 2002 sem hljóðaði upp á 4.000–4.400 millj. kr. yrði samanlagður eignarhlutur fyrrverandi stofnfjáreigenda í hlutafélaginu samkvæmt þessu á bilinu 31–36%.

Þetta var ekki fjarri skiptingunni sem fólst í tilboði fimmmenninganna rúmi ári fyrr. Þetta hafði stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til hliðsjónar síðar á árinu þegar endurvekja átti hugmyndina um að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. Þá samdi hún við endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers um að verðmeta eigið fé sparisjóðsins. Drög að verðmatinu voru lögð fyrir stjórnina á fundi hennar 15. október 2003 og síðan fullunnu verðmati tæpum mánuði síðar, 13. nóvember. Niðurstaða Pricewaterhouse­Coopers var að „verðmæti félagsins samkvæmt núvirtum hámarksarðgreiðslum væri um 7,9 milljarðar króna“.157 Átt var við verðmæti á einni hendi, en 6,7–7,1 milljarð króna í dreifðu eignarhaldi. Hlutur stofnfjár í væntanlegu hlutafé var að mati PricewaterhouseCoopers 17,9%, en það var mun lægri hlutur en kom fram í greinargerð KPMG.

Með þetta verðmat í hendi leitaði stjórn sparisjóðsins til bankanna þriggja um hugsanlega aðkomu þeirra að Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis við og eftir breytingu hans í hlutafélag. Bankarnir höfðu efasemdir um verðmatið og varð það til þess að Price-
waterhouseCoopers lækkaði niðurstöðutölu verðmatsins í 7,4 milljarða króna eftir að hafa uppgötvað skekkju í útreiknilíkaninu.158

Aftur urðu áformin um að breyta Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í hlutafélag að engu. Lagabreytingin í febrúar 2004 gerði út af við hana, í bili að minnsta kosti. Samkvæmt breyttum lögum skyldi stjórn sjálfseignarstofnunarinnar eingöngu skipuð fulltrúum hins opinbera, sbr. b-lið 3. gr. laga nr. 4/2004 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Við þá breytingu hefðu stofnfjáreigendur ekkert haft að segja um ráðstöfun þess fjár sem kæmi í hlut sjálfseignarstofnunarinnar eftir að sparisjóðnum yrði breytt í hlutafélag.

Stofnfjáreigendur gátu haft hag af því að hlutdeild sjálfseignarstofnunarinnar í væntanlegu hlutafé yrði sem minnst. Úr varð að sparisjóðurinn jók stofnfé, þannig að hlutfall þess af eigin fé hækkaði og hlutur varasjóðs lækkaði að sama skapi. Þá jukust arðgreiðslur sem leiddu til þess að minna fór í varasjóð af afkomu sparisjóðsins. Mat KPMG á „hæfilegu gagngjaldi“ fyrir stofnfjárhluti og um leið skiptingu hlutafjárins milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunarinnar dró mjög skýrt fram yfirburði stofnfjárbréfa fram yfir hlutabréf sem fjárfestingarkosts. Með hækkuðum arðgreiðslum vó arðsvon stofnfjárbréfanna enn meira í útreikningi umrædds skiptihlutfalls.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis jók stofnfé tvisvar á árinu 2005; um 1,3 milljarða króna í maí og tæpa 2 milljarða króna í nóvember eða samtals um tæpa 3,3 milljarða króna. Þannig fór stofnféð úr 604 milljónum króna í árslok 2004 upp í tæpa 4 milljarða króna í árslok 2005. Hlutfall þess af eigin fé hækkaði við þetta úr 10,2% upp í 30,4%. Stofnféð var enn aukið á árinu 2006 og aftur var það gert tvisvar; í apríl um 5,5 milljarða króna og síðari hluta desember um 9,2 milljarða króna. Við þetta var stofnfé komið í 19,5 milljarða króna í árslok 2006 og hlutfall þess af eigin fé orðið 55,9%.

Til stóð að breyta sparisjóðnum í hlutafélag um sumarið 2006 og var samið við IMG ráðgjöf hf. að verðmeta sparisjóðinn í tengslum við það. Drög að verðmatinu voru kynnt á stjórnarfundi í sparisjóðnum 11. júlí 2006 og endanleg matsgerð lögð fram 23. ágúst. Niðurstaða IMG ráðgjafar var að markaðsvirði eigin fjár væri 35 milljarðar króna og skiptingin milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunar væri 74% á móti 26%. Matið var sent Fjármálaeftirlitinu eins og lög kváðu á um. Eftirlitið hafði ýmislegt við forsendur matsins og aðferðafræði að athuga. IMG ráðgjöf og Fjármálaeftirlitið áttu í talsverðum samskiptum vegna þessa fram á haust. IMG, sem hét nú Capacent, breytti mati sínu lítillega eftir þetta og lagði fram nýtt mat 18. október 2006, byggt á breyttum aðferðum að hluta. Markaðsvirðið breyttist þó nær ekkert, var 35,1 milljarður króna, en skiptihlutfallið breyttist nokkuð, stofnfjáreigendum í vil, og var nú 77% á móti 23%. Það dróst að Fjármálaeftirlitið samþykkti endurskoðað verðmat og meðal annars af þeim sökum varð ekkert úr breytingu sparisjóðsins í hlutafélag fyrir árslok.

Aftur var leitað til Capacent um að framkvæma verðmat á eigin fé Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Matið var tilbúið og lagt fram á stjórnarfundi 23. maí 2007. Höfundar þess voru Sigurður Harðarson og Kristján Björgvinsson. Sigurður hafði einnig unnið að fyrra verðmati IMG/Capacent. Samkvæmt þessu mati var markaðsvirði sparisjóðsins, þ.e. eigin fjár, 59,4 milljarðar króna. Matið byggðist á innra virði eða meðaltals Q-hlutfalli159 viðskiptabankanna þriggja annars vegar, sem var 2,55, og meðaltals Q-hlutfalli þriggja fjárfestingarfélaga, Exista, Straums-Burðaráss og FL Group hins vegar en það var 1,46.160 Allt voru þetta skráð félög. Síðan voru þessi hlutföll notuð sem margfaldarar á eigið fé sparisjóðsins, skipt í viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi. Einnig var tekið tillit til vanmetinna eigna, sem voru lóð í Kringlunni sem sögð var 1,2 milljarða króna virði, vanmetin hlutabréf í Icebank hf. upp á 1 milljarð króna og vanmat nokkurra óskráðra hlutabréf upp á hálfan milljarð.

Eigið fé sparisjóðsins samkvæmt endurskoðuðu uppgjöri 31. mars 2007 nam 30,5 milljörðum króna. Í verðmati Capacents var reiknað með að af þeirri fjárhæð tilheyrðu 10,6 milljarðar króna viðskiptabankastarfseminni og var sú upphæð því margfölduð með 2,55. Hinn hluti eigin fjárins, 19,9 milljarðar króna, tilheyrði því fjárfestingarstarfseminni og við það var bætt 2,2 milljörðum vegna vanmetnu eignanna. Samtalan af þessu var margfölduð með 1,46. Þessir útreikningar gáfu því til kynna að markaðsvirði eigin fjár Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis væri 59,4 milljarðar króna.

Þetta Q-hlutfall íslensku fjárfestingarfélaganna þriggja var hátt í samanburði við fjárfestingarfélög annars staðar.161 Í verðmati Capacent var fjárfestingarhluti eigin fjár sparisjóðsins margfaldaður með þessu hlutfalli. Það kann að orka tvímælis þar sem helmingur af fjárfestingareignum sparisjóðsins var að miklu leyti háður genginu á bréfum í Exista hf.

Við útreikning skiptihlutfallsins milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunar var reiknað út fræðilegt verðmæti stofnfjárins og síðan fundið hvert hlutfall þess var af markaðsvirðinu.162 Til að reikna verðmæti stofnfjár var gert ráð fyrir að framtíðarvöxtur sparisjóðsins yrði 2% umfram verðbólgu, arðsemi eigin fjár yrði 20,72% og reiknað með að meðalarðgreiðsluhlutfall sparisjóðsins síðastliðin tíu ár myndi haldast um ókomna tíð, en það var 22%. Einnig var tekið með í útreikninginn á skiptihlutfallinu að uppsafnaður hagnaður sparisjóðsins fyrstu þrjá mánuði ársins 2007 gæfi möguleika á rúmlega 3 milljarða króna arðgreiðslu. Þessi útreikningur leiddi til að verðmæti stofnfjár væri 50,5 milljarðar króna. Út frá þessu var loks fundið skiptihlutfallið 85% á móti 15% og stærri hlutinn stofnfjáreigenda. Þannig hafði skiptingin milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunarinnar eins og hún var reiknuð um mitt ár 2002 snúist við á fimm árum. Vissulega var búið að auka stofnfé gríðarlega mikið á þessum tíma, eða um nærri 18 milljarða króna. Hins vegar má líta svo á að hátt í tveir þriðju hennar hafi verið fjármagnaðir með arði, því arðgreiðslur árin 2006–2007 námu tæpum 11 milljörðum króna.

Í töflu 12 eru dregnar saman niðurstöður allra umræddra verðmatsgerða sem unnar voru fyrir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis á þessum fimm árum þar til honum var breytt í hlutafélag.

Til samanburðar er önnur tafla sem sýnir bókfært virði stofnfjár og varasjóðs og þar með eigin fjár Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í árslok 2001–2006 samkvæmt ársreikningum sjóðsins. Einnig er sýnt hvert hlutfall stofnfjár var þá af eigin fé.

12.4.1.2 Verðmat á öðrum sparisjóðum

Þrír aðrir sparisjóðir sömdu á árinu 2008 við Capacent um að meta markaðsvirði þeirra og gagngjald fyrir stofnfé. Capacent notaði sömu aðferðafræði og í síðasta verðmatinu sem það vann fyrir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, þ.e. byggði matið á innra virði.

Capacent gerði tvisvar sinnum verðmat fyrir Sparisjóð Svarfdæla á árinu 2008 í tengslum við væntanlega hlutafélagsvæðingu. Því fyrra var skilað í maí. Það byggðist á uppgjöri sparisjóðsins fyrir fyrsta ársfjórðung 2008. Hinu síðara var skilað í ágúst og var það byggt á hálfsársuppgjöri sparisjóðsins. Matið á markaðsvirði eigin fjár sparisjóðsins lækkaði talsvert milli þessara tveggja matsgerða. Munurinn lá einkum í því að í fyrra matinu dró Capacent fram hugsanlegt vanmat á eignarhlut sparisjóðsins í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. vegna skattaáhrifa í matinu, en í því síðara var ekki tekið tillit til mögulegs ofmats þegar markaðsvirði undirliggjandi eigna Kistu – fjárfestingarfélags ehf. hafði fallið um fjórðung. Þrátt fyrir að blikur væru á lofti á þeim tímapunkti sem síðara verðmatið var gert áætlaði Capacent að eignir sparisjóðsins í Íslenskum verðbréfum hf., Valitor hf. og Icebank hf. væru vanmetnar í bókum félagsins um 185 milljónir króna.

Hvað varðar skiptihlutfallið þá var hlutur varasjóðs samkvæmt fyrra matinu 848 milljónir króna sem samsvaraði 44,87% hlut í eigin fé. Í síðara matinu var hlutur varasjóðsins af eigin fé rétt rúmlega helmingur hlutfallsins þremur mánuðum fyrr. Þá hafði áætlað markaðsvirði hans hafði fallið niður í 281 milljón króna eða um tæplega tvo þriðju. Á sama tíma lækkaði hlutur stofnfjáreigenda aðeins úr 1.042 milljónum króna niður í 865 milljónir króna, enda tók varasjóðurinn á sig tapið þegar illa gekk, eins og varð raunin milli fyrsta og annars ársfjórðungs 2008. Stofnfé hafði verið aukið í Sparisjóði Svarfdæla á árinu 2007 um rúmar 515 milljónir króna, þannig að það lyfti hlutfalli stofnfjár af eigin fé úr 0,6% í árslok 2006 upp í 22,8% í árslok 2007. Vegna ársins 2007 var greiddur leyfilegur arður sem nam helmingi hagnaðar ársins. Ekkert varð síðan úr því að sparisjóðnum yrði breytt í hlutafélag.

Hugmyndir voru uppi hjá Byr sparisjóði um hlutafélagsvæðingu. Í því skyni hafði meðal annars verið farið í mikla stofnfjáraukningu árið 2007. Í september var stofnfé aukið um tæpa 2,6 milljarða króna og í lok desember um 23,7 milljarða. Hlutfall stofnfjár af eigin fé fór því úr 1,7% í árslok 2006 upp í 51,3% í árslok 2007. Stofnfjáreigendur fengu vænan hlut stofnfjáraukningarinnar greiddan til baka í formi arðs sem greiddur var út skömmu eftir aðalfund sparisjóðsins sem haldinn var í mars 2008, en arðgreiðslan nam 12,2 milljörðum króna og fór fram úr heimildum. Hagnaður árið 2007 nam tæpum 8 milljörðum króna, svo að með þessari arðgreiðslu var gengið á varasjóðinn hjá Byr sparisjóði.

Í tengslum við væntanlega breytingu sparisjóðsins í hlutafélag var Capacent fengið til að meta markaðsvirði eigin fjár sparisjóðsins. Matinu var skilað snemma í júní 2008. Það byggði á tölum úr uppgjöri sparisjóðsins fyrir fyrsta ársfjórðung 2008. Eins og í öðrum matsgerðum Capacent þetta ár var reiknað vanmat á eignum sjóðsins og voru hlutabréf í Íslenskum verðbréfum hf. talin vanmetin í bókum Byrs um 637 milljónir króna. Þessu til viðbótar voru eftirfarandi rök notuð fyrir mati á auknu verðmæti verðmæti stofnfjár:

Samkvæmt 74. grein laganna ber að taka tillit til arðsvonar stofnfjárhluta við mat á gagngjaldi stofnfjáreigenda. Áhrif þess að mega greiða 10% arð þótt arðsemi rekstrar sé lægri en 10%, og 5% arð þótt tap sé á rekstri má meta með hermun. Þessi áhrif eru sérstaklega mikilvæg í ljósi taprekstrar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en ólíklegt er að arðgreiðsla til stofnfjáreigenda í byrjun næsta árs geti orðið í samræmi við langtímaarðsemi sjóðsins. Skert arðgreiðsla sem nemur 5% af stofnfé er mun líklegri niðurstaða.

Niðurstaða okkar er að virði þessara heimilda nemi um 2,7 milljörðum króna fyrir stofnfjáreigendur Byrs Sparisjóðs.163

Niðurstaða verðmatsins var að markaðsvirði eigin fjár Byrs væri 58,2 milljarðar króna og að skiptihlutfallið milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunarinnar væri 93,5% á móti 6,5%. Ekkert varð síðan úr hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins.

Sparisjóðurinn í Keflavík hugði einnig á breytingu í hlutafélagsform á árinu 2008. Í tengslum við þau áform fékk stjórnin Capacent til að leggja mat á markaðsvirði eigin fjár og eðlilegt gagngjald til stofnfjárhafanna. Stofnfé hafði verið aukið um tæpan milljarð króna árið 2006 og um rúma 7 milljarða króna árið eftir. Stór hluti stofnfjáraukningarinnar árið 2006 var greiddur í formi arðs árið 2007 eða 750 milljónir króna. Arðgreiðslan vegna 2007 nam 2,8 milljörðum króna og var um 900 milljónum króna hærri en hagnaður ársins. Það var í samræmi við reglur því taka mátti tillit til ónýttrar arðsheimildar 2006 vegna upptöku IFRS árið 2007. Hlutfall stofnfjár af eigin fé í lok árs 2007 var 53,3% og hafði hækkað úr 28% á tveimur árum.

Á stjórnarfundi í sparisjóðnum 30. september 2008 var farið yfir drög Capacent að verðmati á sparisjóðnum. Stjórnin virðist ekki hafa verið sátt við verðmatsdrögin og var eftirfarandi bókað á fundinum:

Skv. niðurstöðu þeirra er verðmat á SpKef 11,2 milljarðar og eignahlutur stofnfjáreigenda 100%. Umræður urðu um verðmatið og varð niðurstaðan sú að gera breytingu sem hækkar matið um 1,2 milljarða.164

Capacent skilaði síðan verðmati sínu á Sparisjóðnum í Keflavík 2. október 2008 eða um svipað leyti og Glitnir banki hf. féll. Matið var byggt á hálfsársuppgjöri sparisjóðsins 2008, sem sýndi tap upp á 10,6 milljarða króna, sem ásamt hinni háu arðgreiðslu vegna ársins 2007 þurrkaði upp varasjóðinn. Hann var neikvæður um 2,2 milljarða króna í lok júní 2008. Engu að síður var sparisjóðurinn þá metinn á 12,6 milljarða króna, eða um 600 milljónum króna hærra en eigið fé sparisjóðsins samkvæmt hálfsársuppgjörinu. Þetta leiddi til þeirrar einkennilegu skiptingar milli stofnfjáreigenda og væntanlegrar sjálfseignarstofnunar að hlutföllin urðu 100% á móti 0%.

Í matsskýrslunni sagði að þar sem varasjóður væri neikvæður og hægt væri að greiða í arð allan hagnað, ef og eftir að hann hefði náð jafnvægi, væri ekki reiknað með neinu endurmati á stofnfé. Klykkt er út orðrétt um þetta atriði í skýrslunni:

Þar sem varasjóður er neikvæður um 2,2 milljarða króna þann 30.6.2008 og ekki fyrirsjáanlegt að jákvæð breyting verði á þessu ári, er ljóst að ekki verður um endurmat á stofnfé að ræða fyrr en varasjóður nær stöðu sinni í árslok ársins 2000. Stofnfjáreigendur geta greitt allan hagnað sparisjóðsins út í arð og ráða þar með alfarið hvort einhver varasjóður myndast hjá Sparisjóðinum í Keflavík í framtíðinni.165

12.4.2 Til hvers hlutafélagsvæðing?

Hugmyndin að baki því að heimila að sparisjóðum yrði breytt í hlutafélög var að auðvelda þeim að afla eigin fjár. Talið var að þeir yrðu vart samkeppnishæfir í breyttu umhverfi á fjármagnsmarkaði nema þeir gætu stækkað og eflt möguleika sína til útlána. Þeim væri nauðsynlegt að eiga sömu möguleika til öflunar nýs fjár og keppinautarnir, þ.e. viðskiptabankarnir sem voru allir orðnir hlutafélagsbankar. Stofnfjárbréf voru ólík hlutabréfum í mörgu tilliti og ýmsir töldu þau torvelda sparisjóðunum öflun nýs eigin fjár. Í aðdraganda lagasetningar um hlutafélagsvæðingu sparisjóða var því haldið á lofti að hlutabréf væru að öllu jöfnu betri fjárfestingarkostur en stofnfjárbréf litið til lengri tíma. Ávöxtun hlutabréfa byggðist á tvennu; úthlutuðum arði af nafnvirði hlutafjár og gengishækkun bréfanna. Möguleikar hluthafa til að njóta góðrar ávöxtunar væru ekki síst fólgnir í hækkun á verði bréfanna. Stofnfjáreigandi nyti hins vegar einungis arðs af framreiknuðu stofnfé sínu og hömlur væru lagðar á framsal. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/2001 sagði m.a.:

Við þær þjóðfélagsaðstæður sem nú ríkja, þar sem eigendavitund hefur aukist, hlutafélög eru að verða hið ráðandi form atvinnurekstrar og markaðsvæðing atvinnulífsins er á mikilli hraðferð, má telja ólíklegt að fjárfestar séu tilbúnir að leggja fé í stofnfjárbréf sparisjóða í miklum mæli. Nokkrir sparisjóðir hafa þó selt stofnfjárbréf með góðum árangri á undanförnum árum. Ekki er hægt að útiloka að ástæða eftirspurnar eftir stofnfjárbréfum á síðustu árum sé von fjárfestanna um að hagnast á hugsanlegri breytingu sparisjóðsins í hlutafélag.166

Fyrstu opinberu áformin um að breyta sparisjóði í hlutafélag, hjá stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis strax á árinu 2001, byggðust á þeirri gamalgrónu reglu að stofnfjáreigendur nytu einungis arðs af framreiknuðu stofnfé sínu og ættu ekki tilkall til annars eigin fjár sparisjóðsins. Þau áform gengu ekki eftir.

Þegar hlutafélagsákvæðið var lögfest var talið að aðeins stærstu sparisjóðirnir gætu nýtt sér möguleikana sem það byði upp á. Til þess að auka möguleika smærri sparisjóða á að afla sér nýs eigin fjár voru um leið lögfestar breytingar sem áttu að gera stofnfjárbréfin eftirsóknarverðari. Ekki leið nema rúmt ár þar til löggjafinn leit svo á að bæta þyrfti stofnfjáreigendum það upp ef þeir þyrftu að láta stofnfjárbréf af hendi fyrir hlutabréf. Sú hugsun varð allsráðandi upp frá því.

Nokkrar atrennur voru gerðar að því breyta Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í hluta-félag og tókst það um síðir; of seint telja sumir. Nokkrir aðrir sparisjóðir höfðu einnig áhuga á að hlutafélagsvæðast og hófu undirbúning að því. Við allan þennan undirbúning þurfti að láta óháðan aðila meta markaðsvirði sparisjóðsins og meta gagngjaldið fyrir stofnfjárhlutinn sem tæki mið af „arðsvon stofnfjárhluta skv. 68. gr. annars vegar og arðsvon og áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar“. Við allt slíkt mat var gengið út frá því að stofnfjárbréfin væru umtalsvert betri fjárfestingarkostur en hlutabréf.

Ef tekið er mið af umbreytingu SPRON í hlutafélag virðast stofnfjáreigendur fá til viðbótar ákveðna uppbót (u.þ.b. 20%). Ástæður þess munu vera það sérkenni stofnfjárbréfa að njóta árlegs endurmats samkvæmt sérstökum reglum eins og áður hefur verið tæpt á.167

Við mat á virði hlutafélags um sparisjóðina var tekið tillit til væntra arðgreiðslna. Háar arðgreiðslur í aðdraganda hlutafélagsvæðingar höfðu áhrif til hækkunar á virði hlutafélagsins. Þar sem hámark arðgreiðsluhlutfallsins réðst af raunarðsemi eigin fjár og hlutfallinu síðan beitt á stofnfé í lok árs, án tillits til þess hve lengi það hafði verið í sparisjóðnum, fóru stærstu stofnfjáraukningar sparisjóða fram í lok árs. Þannig urðu arðgreiðslur mjög háar sem dró um leið úr hlut sjálfseignarstofnunar gagnvart hlut stofnfjáreigenda við útreikning skiptihlutfalls.

Nokkrir stjórnarmanna í Byr sparisjóði voru farnir um mitt ár 2007 að horfa til þess að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. Stofnfjáraukningin undir lok ársins var öðrum þræði liður í því. Hugmyndir voru um að Glitnir banki hf. aðstoðaði stjórn Byrs sparisjóðs við þessa breytingu. Á fundi stjórnar sparisjóðsins 18. október 2007 var rætt um „drög að samningi við Glitni um ráðgjöf, sölutryggingu, fjármögnun og útboð í tengslum við breytingu á rekstrarformi BYRS sparisjóðs“.168 Í aðdraganda þessara áforma héldu starfsmenn Glitnis kynningu fyrir tvo stjórnarmenn úr Byr sparisjóði á því hvernig best væri að standa að hlutafélagsvæðingu sparisjóða. Í þessari kynningu voru áherslurnar í þeim anda að setja stofnfjáreigendur í öndvegi en sparisjóðinn sjálfan algjörlega til hliðar. Undir yfirskriftinni „Rúmar reglur um hækkun stofnfjár og arðgreiðslur“ gat t.d. að líta:

Einu takmarkanir á arðgreiðslum eru þær sem sparisjóðir setja sér sjálfir í gegnum Tryggingasjóð Sparisjóða […]

Reglur Tryggingasjóðs Sparisjóða: Mögulegt er að greiða út arð umfram hagnað ársins.169

Þarna var horft fram hjá ákvæði 68. gr. laganna um ráðstöfun hagnaðar. Í kynningunni var ein glæra sem bar yfirskriftina „Hlutafélagavæðing SPRON 2007“. Þar sagði meðal annars:

Stofnfjáreigendur skulu fá sanngjarnan hluta – afganginn fær samfélagssjóður […]

Grunnurinn í aðferðafræði SPRON var því að byrja að hækka stofnfé sem var að stórum hluta mætt með arðgreiðslum til stofnfjáreigenda.

Háar arðgreiðslur þjóna jafnframt því hlutverki að hækka vænta arðsvon og þar með þann hluta sem stofnfjáreigendur eiga tilkall til við breytingu sparisjóðsins í hlutafélag.

Síðasta glæran í kynningunni bar yfirskriftina „Stofnfjáraukning BYRS – helstu atriði“. Þar komu þessi atriði meðal annars fram:

Umtalsverð stofnfjáraukning krefst sáttar og stuðnings meðal allra stofnfjáreigenda.

Óháð breytingu sjóðsins í hlutafélag er stofnfjáraukning mikilvægt atriði til að tryggja sanngjarna hlutdeild stofnfjáreigenda í sparisjóðnum

  • Hlutafélagavæðing SPRON setur markið um eðlilegt gagngjald fyrir hverja krónu stofnfjár.
  • Löggjafinn virðist ekki hafa gert ráð fyrir stofnfjárhækkunum á þann máta sem SPRON hefur gert.

Mat Glitnis er að hækka skuli stofnfé um 20–30 milljarða á grundvelli núverandi samþykkta BYRS sem gefa stjórn sjóðsins heimild til stofnfjárhækkana allt að 30 milljörðum.

  • Hækkun sem nemur 20 milljörðum gefur stofnfjáreigendum aukinn arð en krefst hærra gagngjalds fyrir hverja krónu stofnfjár og eykur því hættu á óhagstæðri umræðu.
  • Hækkun sem nemur 30 milljörðum gefur aukið svigrúm til arðgreiðslna og til þess að breyta sjóðnum í hlutafélag með lægri gagngjaldsstuðli.

Nauðsynlegt er að tryggja öllum stofnfjáreigendum fjármögnun til kaupa á nýju stofnfé.

  • Verðmæti eignarhlutar þeirra sem ekki kaupa stofnfé lækkar umtalsvert.
  • Ekki er mögulegt að veðsetja stofnfé og margir stofnfjáreigendur því illa í stakk búnir til að fjármagna kaup á nýjum stofnfjárhlutum.
  • Neikvæð umræða meðal ósáttra stofnfjáreigenda gæti skaðað áform um hlutafélagavæðingu og mögulega gert slíka breytingu ómögulega.170

Erfitt er að sjá af þessum áformum hvernig sparisjóðurinn skuli styrktur í samkeppninni. Það sem gerðist síðan í framhaldi af þessum hugmyndum er rakið í 18. kafla, um Byr sparisjóð.

Í byrjun árs 2008 fékk stjórn Sparisjóðsins í Keflavík þá Pál Grétar Steingrímsson, endurskoðanda sparisjóðsins, og Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmann til að meta áhrif þess að breyta félagsformi sparisjóðsins í hlutafélag. Þeir lögðu fram minnisblað 12. febrúar 2008 fyrir stjórnina þar sem þeir settu fram helstu atriði sem að þeirra mati þyrfti að ræða og hafa í huga áður en ákvarðanir yrðu teknar. Þeir greindu innri og ytri áhrif af hlutafélagsvæðingu. Áhrifin töldu þeir langvíðtækust fyrir stofnfjáraðila og röktu muninn á stofnfjárbréfum og hlutabréfum, þar sem þeir töldu öryggið meira í stofnfjárbréfunum. Í lok minnisblaðsins veltu þeir fyrir sér til hvers menn vildu hlutafélagsvæða sparisjóðinn og sögðu meðal annars eftirfarandi:

Miðað við óbreyttan rekstur og umhverfi virðist ekki vera neinn eðlismunur á því að reka sparisjóð sem hlutafélag eða í sínu hefðbundna gamla formi.

Helstu rökin fyrir umbreytingu í hlutafélag hljóta því að vera þau að menn ætli sér að breyta stöðunni, sækja meira hlutafé, hugsanlega sameinast öðrum hlutafélögum o.s.frv. Þetta eru góð og gild rök því gildandi löggjöf gengur út frá því að ekki sé hægt að sameina sparisjóði öðrum en sparisjóðum.

Þeir sem taka slíkar ákvarðanir þurfa þá jafnframt að hafa í huga að með því missa menn „stjórn“ á atburðarásinni. Eftir hlutafjárvæðingu verða ekki lengur sömu hömlur um dreift eignarhald, bann við að eiga meira en 10% o.s.frv. Sparisjóður sem hefur breytt sér í hlutafélag er því auðvelt skotmark ef einhver annar banki vill t.d. kaupa upp stóran hlut eða sameina sjóðinn inn í rekstur sinn. Sú staðreynd að stofnfé sparisjóðsins hefur verið aukið mikið á liðnu ári kann að hafa veruleg áhrif á þetta.171

Þrátt fyrir að í þessu minnisblaði sé áminning til stjórnar sparisjóðsins um að stíga varlega til jarðar hélt stjórnin áfram að undirbúa hlutafélagsvæðinguna. Verðmatið sem greint var frá hér framar var næsta skrefið í því ferli. Af þessari hlutafélagsvæðingu varð samt ekki, þar sem allar aðstæður gjörbreyttust síðari hluta ársins.

12.5 Samantekt og ályktanir

Fyrstu sparisjóðirnir voru ábyrgðarmannasparisjóðir. Stofnendur þeirra, einstaklingar eða félög, skrifuðu upp á tiltekna ábyrgð fyrir sparisjóðinn sem hægt var að ganga að ef eignir í honum hrukku ekki fyrir skuldbindingum hans. Stundum var ábyrgðarféð, að hluta eða öllu leyti, lagt fram sem stofnfé til starfrækslu sparisjóðsins. Litið var á það sem bundna inneign sem bar þó tiltekna vexti, lengi vel framan af almenna innlánsvexti en síðar 1% hærri en innlánsvextir sparisjóðsins. Þegar fjárhagur leyfði var heimilt að endurgreiða innborgað stofnfé. Stofnendur áttu ekkert tilkall til ágóða sparisjóðsins umfram þessa vexti af innborguðu stofnfé.

Þetta fyrirkomulag var rammað inn með löggjöf um sparisjóði frá því hún var fyrst sett 1915. Skerpt var á ýmsum atriðum með nýjum sparisjóðalögum 1941, en ábyrgðarmannafyrirkomulagið hélst áfram. Sparisjóðum svipaði um margt til sjálfseignarstofnana. Í greinargerð með frumvarpinu til þeirra laga sagði að sparisjóðina ætti að reka með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum, en ekki til arðs fyrir stofnendur þeirra. Þessi tenging við almenning og nærsamfélagið var frá upphafi ríkjandi í tilvistargrundvelli sparisjóðanna. Hagnaði af starfseminni skyldi ekki varið til neins annars en almannaheilla, eða nytsemdarfyrirtækja í heimabyggð eins og það hét í lögunum.

Umtalsverðar breytingar voru gerðar með nýjum sparisjóðalögum 1985. Frá þeim tíma var einungis heimilt að setja á fót stofnfjársparisjóði. Þannig var farið að hverfa frá ábyrgðarmannafyrirkomulaginu því heimilt var að breyta starfandi sparisjóðum í stofnfjársparisjóði. Byrjað var að gefa út stofnfjárbréf á nafn. Með þessari breytingu tók eignarhaldið fyrst að skipta einhverju máli. Fram til þessa höfðu ábyrgðarmennirnir átt bundna inneign í sparisjóðnum sem þeir fengu þokkalega trygga vexti af og gátu í einhverjum tilfellum fengið endurgreidda. Nú urðu menn stofnfjáreigendur og fengu stofnfjárbréf fyrir eignarhluta sínum. Bréfin voru framseljanleg en með ströngum skilyrðum og skyldu framsöl fara í gegnum sparisjóðinn og voru þau háð samþykki stjórnar. Allir stofnfjáreigendur urðu að eiga jafnan hlut og jafnan atkvæðisrétt. Ávöxtun stofnfjárbréfa var þó enn í formi vaxtagreiðslna og stofnfjáreigendur áttu ekki rétt til hlutdeildar í afkomu sparisjóðsins umfram það.

Stofnfjárbréfafyrirkomulagið var undanfari enn meiri breytinga á eignarhaldinu. Stofnféð varð hluti af eigin fé sparisjóðsins. Þeirri tilhögun, ásamt því að menn eignuðust tiltekinn hlut í heildarstofnfénu og fengu stofnfjárbréf fyrir þessum hlut, tók að svipa til hlutafjáreignar í hlutafélagi þótt vissulega væri þar reginmunur á. Hér var sáð fyrsta fræinu að eigendavitund í sparisjóðunum.

Starfsheimildir sparisjóða voru auknar mikið með lögunum 1985 en með 1993 urðu þær hinar sömu og viðskiptabankanna og frá þeim tíma heyrðu báðar þessar tegundir fjármálastofnana undir sömu löggjöf. Það eina sem skildi á milli var eignarhaldið og stjórnunarleg uppbygging.

Með lögunum 1993 var ábyrgðarmannasparisjóðum gefinn tímafrestur til að gefa út stofnfjárbréf. Gengið var lengra í þá átt að gera stofnfjárbréfin líkari hlutabréfum. Farið var að greiða arð í stað vaxta og Tryggingasjóði sparisjóða falið að ákveða árlegt hámark arðgreiðsluhlutfalls. Með þessum lögum varð stofnfjáreign verðtryggð og framsal stofnfjárbréfa varð heimilt með samþykki stjórnar.

Þarna var farið að hilla undir að skrefið yrði stigið til fulls að leyfa sparisjóðum að breyta félagsformi sínu í hlutafélag. Þeir höfðu hvort sem er ekki um langan aldur, ef nokkurn tímann, verið hreinar sjálfseignarstofnanir þótt oft væri talað um þá sem slíkar. Það fyrirkomulag að ábyrgðarmenn og síðar stofnfjáreigendur skyldu fá ávöxtun af innborguðu fjárframlagi sínu kom í veg fyrir það. Á tíunda áratugnum urðu miklar breytingar á fjármálamörkuðum. Markaðsvæðing atvinnulífsins var komin á fullan skrið, eigendavitund jókst þar með og hlutabréfamarkaður festist í sessi með vaxandi þátttöku almennings. Hlutafélagsformið þótti falla vel inn í þessa mynd.

Stóra skrefið í átt til hlutafélagsvæðingar sparisjóða var svo stigið með lagabreytingu 2001. Við afgreiðslu málsins á Alþingi komu fram ábendingar um að breytingin væri vanhugsuð og fæli jafnvel í sér upphafið að endalokum sparisjóðakerfisins, en þær fengu þar ekki hljómgrunn. Frumkvæðið að þessari lagabreytingu kom upphaflega úr röðum sparisjóðanna sjálfra og hafði hugmyndin gerjast þar um nokkurra ára skeið. Markmiðið var að auðvelda sparisjóðum að afla sér nýs eigin fjár til þess að þeir stæðust betur samkeppni á fjármálamarkaði. Þegar að því kom að umrædd breyting yrði lögfest var samt ekki lengur einhugur um hana. Hlutafélagsvæðing danskra sparisjóða nokkrum árum fyrr hafði til dæmis leitt til þess að allir stóru sparisjóðirnir þar í landi voru runnir eða í þann veginn að renna inn í bankana.

Frá byrjun var ljóst að hlutafélagsformið höfðaði meira til stórra sparisjóða. Um leið var lagabreytingunni ætlað að gera stofnfjárbréf vænlegri fjárfestingarkost svo að sparisjóðir gætu aflað sér nýs eigin fjár án þess að hlutafélagavæðast. Að lögunum settum var strax hafist handa við að breyta stærsta sparisjóðnum í hlutafélag. Gerð var tilraun til að yfirbjóða áform stjórnar sparisjóðsins sem vann út frá því sem stofnfjáreigendur höfðu samþykkt á aðalfundi. Yfirtökutilraunin fór út um þúfur og sömuleiðis umbreyting sparisjóðsins í hlutafélag. Flest af því sem mælt hafði gegn lagabreytingunni 2001 varð nú að veruleika. Löggjafinn hafði ekki búið þannig um hnútana að hindruð yrðu bein viðskipti með stofnfjárbréf einstaklinga í milli á öðru verði en hinu endurreiknaða stofnverði. Væntingar um hátt yfirverð fyrir bréfin kviknuðu og urðu ekki kveðnar niður. Grundvallarreglunni að stofnfjáraðilar ættu ekki tilkall til ágóðahlutar sparisjóðsins, nema aðeins af innborguðu stofnfé sínu, var ekki lengur haldið á lofti.

Lögum var aftur breytt 2002 og þá var reynt að berja í brestina sem komið höfðu í ljós í gildandi lögum. Bæði var reynt að treysta yfirtökuvarnir sparisjóðanna og jafnframt að koma til móts við væntingar stofnfjáreigenda um aukinn arð við umbreytingu sparisjóðs í hlutafélag. Með þessum lögum varð og heimilt að afnema í samþykktum sparisjóðs ákvæðið um að stofnfjáreigendur skyldu eiga jafnan hlut og um bann við veðsetningu stofnfjárhluta. Yfirtökuvarnirnar héldu ekki þegar til kom.

Það að gera stofnfjárbréfin vænlegri sem fjárfestingarkost heppnaðist dável því fá ef nokkur önnur verðbréf gáfu eftir það jafn háa ávöxtun en báru um leið litla áhættu. Þau voru verðtryggð, þau nutu sérstaks endurmats sem gat numið 5% árlega og þau gáfu góðan arð, jafnvel þótt tap væri á rekstri sparisjóðsins. Þessir eiginleikar stofnfjárbréfanna reyndust hagsbót fyrir stofnfjáreigendur en voru íþyngjandi fyrir sparisjóðina sjálfa. Verðbætur og sérstakt endurmat breytti ekki eigin fé sparisjóðs en var tilfærsla úr varasjóði inn á stofnfé. Reglur um hámark arðgreiðsluhlutfalls voru lagðar í hendur Tryggingasjóði sparisjóða. Þar var frá upphafi lögð sú lína að láta hlutfallið ráðast af tvenns konar viðmiðum, annars vegar fastri hlutfallstölu og hins vegar arðsemi, eða raunarðsemi, eigin fjár viðkomandi sparisjóðs. Fasta hlutfallstalan var lágmark, en væri arðsemin eða raunarðsemin hærri þá var hún hámarkið. Stjórn Tryggingasjóðs var að mestu leyti skipuð sparisjóðsstjórum. Enginn hafði að lögum eftirlitsskyldu með arðgreiðslum sparisjóðanna. Þegar yfirverðsvæntingar og arðsvonir stofnfjáreigenda voru komnar í algleyming var ugglaust erfitt að standa gegn kröfum þeirra um háan arð. Mikill hagnaður sparisjóðanna árin 2004–2007 leiddi til þess að arðsemi eigin fjár varð mjög há. Það gerði mörgum sparisjóðum kleift að greiða stofnfjáreigendum drjúgan arð.

Sparisjóðum reyndist ekki torvelt að afla sér nýs eigin fjár. Mikil aukning stofnfjár átti sér stað árin 2005–2007. Fyrir utan það markmið að stækka sparisjóðinn og efla hann í samkeppni á fjármálamarkaði gátu önnur markmið legið að baki stofnfjáraukningu: Í fyrsta lagi að verjast yfirtöku, en slíkt átti einkum við um sparisjóði á landsbyggðinni þar sem heimamenn vildu halda í sparisjóðinn í héraði. Í öðru lagi að hækka hlutfall stofnfjár af eigin fé, en það stækkaði hlut stofnfjáreigenda gagnvart hlut sjálfseignarstofnunarinnar við umbreytingu í hlutafélag. Í þriðja lagi að fá hærri arð greiddan. Þetta síðasta markmið átti stoð annars vegar í þeirri tilhögun að arðgreiðsla var reiknuð af stofnfé í lok árs, án tillits til þess hvenær það var innborgað, þ.e. hve lengi það hafði verið bundið í sparisjóðnum. Hins vegar var við útreikning á arðsemi, eða raunarðsemi, eigin fjár tekið tillit til þess hvenær eigið fé myndaðist. Með því að auka stofnfé undir lok árs dró það ekki niður arðsemina en gaf háa arðgreiðslu ef hagnaður sparisjóðsins hafði verið góður. Árin 2004–2007 var hann yfirleitt dágóður vegna góðrar útkomu verðbréfaeignar.

Við þessar aðstæður var orðið djúpt á upphaflegum markmiðum sparisjóðanna. Stofnfé var talið stjórnarskrárvarin eign stofnfjáreigenda og óljóst var orðið hvort hlutafélagsvæðing sparisjóðanna væri frekar ætluð í þágu stofnfjáreigenda en sparisjóðanna sjálfra. Hin upphaflega tenging sparisjóðanna við nærsamfélagið, sem í gegnum tíðina var mikil lyftistöng fyrir marga staði á landsbyggðinni, slaknaði. Hjá sparisjóðunum á höfuðborgarsvæðinu hafa þessi tengsl aldrei verið viðlíka traust. Á höfuðborgarsvæðinu hefur almenningur síður skynjað sparisjóðinn sem einn af burðarásum nærsamfélagsins en fólk á landsbyggðinni. Það skýrir án efa hvernig eigendavitundin, hlutafélagshugmyndin og yfirverðsvæntingarnar fóru að dafna í kringum einmitt þessa sparisjóði og áttu sinn þátt í falli þeirra.

 


 

1 . Þetta var samkvæmt lögum um sparisjóði, bæði nr. 44/1915 og nr. 69/1941.

2 . Það var gert með lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði.

3 . Það var lengst af meginreglan, en með lagabreytingum í gegnum tíðina var opnað fyrir ákveðnar tilfærslur úr varasjóði inn á stofnfé eins og nánar greinir í kaflanum.

4 . Lög nr. 13/1935 um viðauka við og breyting á lögum nr. 44/1915 um sparisjóði.

5 . Í umræðum á Alþingi um frumvarpið að þessum lögum var talað um að til væru sparisjóðir sem „svífa að því leyti í lausu lofti, að enginn sérstakur aðili er eigandi þeirra, heldur hafa þeir í fyrstu verið stofnaðir með ábyrgð einstakra manna, sem ef til vill eru dánir, og stjórn þeirra þarf ekki að standa neinum reikningsskap ráðamennsku sinnar“. Í kafla 4.2.4 er greint nánar frá þessari umræðu.

6 . Lög nr. 69/1941.

7 . Sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 87/1985 um sparisjóði.

8 . Alþingistíðindi, 1984–1985, A-deild, bls. 3333.

9 . Alþingistíðindi, 2000–2001, A-deild, bls. 3692.

10 . Til dæmis má nefna samruna fjögurra sparisjóða á Vestfjörðum í Sparisjóð Vestfirðinga á árinu 2001 og kaup Sparisjóðs Mýrasýslu á Sparisjóði Siglufjarðar 2003 og á Sparisjóði Ólafsfjarðar 2005.

11 . Frekari umfjöllun um lagasetninguna er að finna í 4. kafla.

12 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5017–5018.

13 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5092.

14 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5088.

15 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5020.

16 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5097.

17 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5021.

18 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5021.

19 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5020.

20 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5016.

21 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5012–5013.

22 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5022–5023.

23 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5023.

24 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5100.

25 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5094–5095.

26 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5094 og 5097–5098.

27 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5098.

28 . Nánari umfjöllun um þessi fyrstu áform um að breyta Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í hlutafélag og yfirtökutilraun fimmmenninganna er í kaflanum um sparisjóðinn, 17. kafla.

29 . Þ.e.a.s. samkvæmt reglunum sem settar höfðu verið með lögum nr. 71/2001. Stundum var þetta nefnt í daglegu tali „bréf á móti bréfi í hlutfallinu 1:1“.

30 . Greinargerð Fjármálaeftirlitsins vegna athugunar á umsókn um kaup á virkum eignarhlut í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 19. júlí 2002.

31 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til Fjármálaeftirlitsins 18. nóvember 2002.

32 . „Nýr gjafakvóti?“, ritstjórnargrein, Morgunblaðið 27. júní 2002.

33 . „Markmið löggjafans“, ritstjórnargrein, Morgunblaðið 28. júní 2002.

34 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1082.

35 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 1128.

36 . Páll Hreinsson, Álitsgerð um heimilar takmarkanir á eignarréttindum stofnfjáreigenda í sparisjóðum, 27. september 2002. Efni þessarar álitsgerðar er rakið í 4. kafla skýrslunnar.

37 . Alþingistíðindi, 2002–2003, B-deild, d. 753.

38 . Alþingistíðindi, 2002–2003, B-deild, d. 757–758.

39 . Alþingistíðindi, 2002–2003, B-deild, d. 756.

40 . Alþingistíðindi, 2002–2003, B-deild, d. 756.

41 . Alþingistíðindi, 2002–2003, B-deild, d. 779–780.

42 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 2697–2698.

43 . Alþingistíðindi, 2002–2003, B-deild, d. 1984.

44 . Alþingistíðindi, 2001–2002, A-deild, bls. 3695–3696.

45 . Nánar er fjallað um þessi atriði síðar í kaflanum.

46 . Þessi breyting kom mikið við sögu þegar Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var breytt í hlutafélag 2007 og í aðdraganda þeirrar breytingar.

47 . Alþingistíðindi, 2002–2003, B-deild, d. 2003.

48 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 11. desember 2003.

49 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 20. desember 2003.

50 . Morgunblaðið 22. desember 2003.

51 . „Allt annar svipur á þessu samstarfi“, Morgunblaðið 22. desember 2003.

52 . „Lagasetningin hefur klikkað“, Fréttablaðið 23. desember 2003.

53 . „Vilji fólksins“, Morgunblaðið 23. desember 2003.

54 . „Forsvarsmenn SPRON skulda þingmönnum skýringar“, Morgunblaðið 24. desember 2003.

55 . „Þar til dauðinn aðskilur“, Fréttablaðið 23. desember 2003.

56 . „Íhugar aðgerðir vegna sölu á SPRON“, Morgunblaðið 31. janúar 2004; bréf viðskiptaráðuneytis til stjórnar SPRON-sjóðsins 28. janúar 2004.

57 . „Hlutabréf ekki seld nema með einróma samþykki“, Morgunblaðið 3. febrúar 2004.

58 . Alþingistíðindi, 2003–2004, A-deild, bls. 3236.

59 . Alþingistíðindi, 2003–2004, B-deild, d. 3255–3256.

60 . Alþingistíðindi, 2003–2004, B-deild, d. 3258.

61 . Alþingistíðindi, 2003–2004, B-deild, d. 3258.

62 . Alþingistíðindi, 2003–2004, B-deild, d. 3346–3347.

63 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 6. febrúar 2004.

64 . „SPRON ekki breytt í hlutafélag“, Morgunblaðið 7. febrúar 2004.

65 . Fundargerðir stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 11. mars, 25. mars og 22. júní 2004.

66 . Greinargerð Fjármálaeftirlitsins vegna athugunar á umsókn um kaup á virkum eignarhlut í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 19. júlí 2002.

67 . „Alþingi taki í taumana“, ritstjórnargrein, Morgunblaðið 30. júlí 2002.

68 . Alþingistíðindi, 2000–2001, B-deild, d. 5020.

69 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 26. mars 2003.

70 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 19. september 2003.

71 . Nánar er greint frá tilboðsmarkaðinum í 17. kafla, um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis.

72 . Fundargerðir stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 2. og 4. nóvember 2004.

73 . Fundur stofnfjáreigenda í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, 30. desember 2004.

74 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 8. janúar 2007.

75 . Frekari umfjöllun um þennan tilboðsmarkað er í 19. kafla, um Sparisjóðinn í Keflavík.

76 . Fjallað er um hana í 18. kafla, um Byr sparisjóð, en þar er undirkafli um Sparisjóð Hafnarfjarðar.

77 . Alþingistíðindi, 2003–2004, B-deild, d. 3343.

78 . „Rán um hábjartan dag“, DV 23. júní 2005.

79 . Dreifibréf Fjármálaeftirlitsins til stofnfjáreigenda í Sparisjóði Hafnarfjarðar, 24. júní 2005.

80 . „Vilja fjölga stofnfjáraðilum“, Morgunblaðið 25. júní 2005.

81 . Fréttatilkynning frá Fjármálaeftirlitinu 27. júní 2005.

82 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, 29. júní 2005.

83 . Dómur Hæstaréttar 18. mars 2010 í máli nr. 218/2009.

84 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar til Fjármálaeftirlitsins, 12. september 2005.

85 . Sbr. 12. gr. laga nr. 67/2006 um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit.

86 . Þetta urðu 1.–2. mgr. 40. gr. a. í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

87 . Alþingistíðindi, 2005–2006, A-deild, 2915.

88 . Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins um yfirráð yfir Glitni banka og Byr sparisjóði í máli nr. 0705008, 26. maí 2008.

89 . Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 5. september 2008 í máli nr. 11/2008.

90 . Skýrsla Jóns Kristins Ólafssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 9. apríl 2013.

91 . Skýrsla Þórs Ísfeld Vilhjálmssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 13. ágúst 2012.

92 . Skýrsla Ólafs Elíssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 13. ágúst 2012.

93 . Sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

94 . Þetta ákvæði bættist við með lögum nr. 71/2001, svo sem fjallað var um hér framar.

95 . Með breytingartillögu frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við afgreiðslu frumvarps sem varð að lögum nr. 161/2002.

96 . Sbr. þágildandi 1. mgr. 74. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

97 . Skýrsla Péturs H. Blöndal fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 14. ágúst 2013.

98 . Þskj. 97, 137. löggjafarþing 2009 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

99 . Þskj. 205, 137. löggjafarþing 2009 (enn óbirt í A-deild Alþingstíðinda).

100 . Þskj. 97, 137. löggjafarþing 2009 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

101 . Þskj. 97, 137. löggjafarþing 2009 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

102 . Ræða Tryggva Þórs Herbertssonar á Alþingi 9. júlí 2009 kl. 14:28 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda). Fjallað er nánar um þessa umdeildu breytingu, lækkun stofnfjár, hér aftar í kaflanum.

103 . Þskj. 1253, 140. löggjafarþing 2011–2012 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

104 . Ræða Einars K. Guðfinnssonar á Alþingi 11. maí 2012 kl. 12:17 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

105 . Ræða Lilju Mósesdóttur á Alþingi 11. maí 2012 kl. 13:47 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

106 . Ræða Svandísar Svavarsdóttur á Alþingi 11. maí 2012 kl. 14:30 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

107 . Alþingistíðindi, 1941, A-deild, bls. 144.

108 . Alþingistíðindi, 1984–1985, A-deild, bls. 3338.

109 . Alþingistíðindi, 1992–1993, A-deild, bls. 2003.

110 . Alþingistíðindi, 1992–1993, A-deild, bls. 1989.

111 . Sbr. lög nr. 76/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

112 . Í 2. tölul. greinarinnar sagði að endurmat mætti ekki leiða til þess að bókfært eigið fé að frádregnu stofnfé yrði lægra en það var í árslok 2000. Eðlilegt var að vísa til þessara ársloka þegar lögin voru sett 18. maí 2001. Við upptöku greinarinnar óbreyttrar í lög nr. 161/2002 láðist greinilega að breyta þessu viðmiði því það varð ómarktækt frá og með árinu 2002. Í stað „í árslok 2000“ hefði átt að standa „í lok næstliðins árs“.

113 . Fjallað er um Tryggingasjóð sparisjóða og hlutverk hans í 5. kafla.

114 . Alþingistíðindi, 2000–2001, A-deild, bls. 3706.

115 . Alþingistíðindi, 2000–2001, A-deild, bls. 3706.

116 . Þskj. 205, 137. löggjafarþing 2009 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

117 . Fundargerð stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða, 5. maí 2003.

118 . Þetta var rétt hvað snerti árið 2003 en ekki hvað snerti árin tvö þar á undan. Vegna ársins 2001 greiddu 18 sparisjóðir arð, þar af 13 hærra hlutfall en nam arðsemi eigin fjár. Vegna 2002 greiddu 11 af þeim 18 sem greiddu arð hærra hlutfall en arðsemin sagði til um.

119 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Tryggingasjóðs sparisjóða, 17. janúar 2005.

120 . Arðsemi og raunarðsemi er rækilega útskýrð í kafla 8.5.3 og sýnt dæmi um útreikning.

121 . Fundargerð stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða, 22. ágúst 2007.

122 . Minnispunktar frá fundi Tryggingasjóðs og Fjármálaeftirlitsins 7. desember 2007.

123 . Bréf Tryggingasjóðs sparisjóða til allra sparisjóða, 10. desember 2007.

124 . Upplýsingar um efni minnisblaðsins eru úr fundargerð stjórnar Tryggingasjóðs sparisjóða 5. júní 2008. Á þeim fundi lýstu stjórnarmenn sig sammála niðurstöðu Sigríðar.

125 . Þetta er nánar rakið í kaflanum um Sparisjóðinn í Keflavík, 19. kafla.

126 . Sbr. svar Fjármálaeftirlitsins 5. maí 2012 við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar.

127 . Um var að ræða Byr sparisjóð, Sparisjóð Norðlendinga, Sparisjóð Ólafsfjarðar og Sparisjóðinn í Keflavík.

128 . Bréf Tryggingasjóðs sparisjóða til allra sparisjóða, 10. desember 2007.

129 . Sé upp gefið að reikningsskilin séu í samræmi við IFRS ber að fylgja þeim fullu. Ekki er boðið upp á millistigslausnir í þeim efnum. Nánar er fjallað um þetta í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

130 . Fjallað er um þetta í köflunum um hvern þeirra. Sjá 20. kafla um Sparisjóð Mýrasýslu, 22. kafla um Sparisjóð Ólafsfjarðar, 23. kafla um Sparisjóð Bolungarvíkur og 24. kafla um Sparisjóð Strandamanna.

131 . Í 24. kafla, um Sparisjóð Strandamanna, er að finna rammagrein sem gerir grein fyrir þessum útreikningum.

132 . Þar fór þetta ákvæði inn sem 2. tölul. 59. gr.

133 . Greinina í heild sinni má sjá hér litlu framar í kaflanum.

134 . Þetta kom fram í athugasemdum Guðmundar Haukssonar, fyrrverandi forstjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og stjórnarmanns í Tryggingasjóði sparisjóða, í viðtali við rannsóknarnefndina 22. nóvember 2013.

135 . Þskj. 97, 137. löggjafarþing 2009 (enn óbirt í A-deild Alþingistíðinda).

136 . Þessi grein varð 63. gr. í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

137 . Ræða Péturs H. Blöndal á Alþingi 10. júlí 2009 kl. 11:10 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

138 . Ræða Eyglóar Harðardóttur á Alþingi 1. júlí 2009 kl. 15:35 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

139 . Ræða Einars K. Guðfinnssonar á Alþingi 1. júlí 2009 kl. 19:04 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

140 . Ræða Guðbjarts Hannessonar á Alþingi 1. júlí 2009 kl. 15:38 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

141 . Ræða Álfheiðar Ingadóttur á Alþingi 1. júlí 2009 kl. 14:59 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

142 . Ræða Álfheiðar Ingadóttur á Alþingi 1. júlí 2009 kl. 19:24 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

143 . Ræða Einars K. Guðfinnssonar á Alþingi 1. júlí 2009 kl. 19:04 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

144 . Ræða Álfheiðar Ingadóttur á Alþingi 1. júlí 2009 kl. 19:24 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

145 . Ræða Einars K. Guðfinnssonar á Alþingi 1. júlí 2009 kl. 19:27 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

146 . Ræða Tryggva Þórs Herbertssonar á Alþingi 9. júlí 2009 kl. 14:24 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

147 . Umsögn Sambands íslenskra sparisjóða 18. júní 2009 til viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, þskj. 97, 85. mál, 137. löggjþ. 2009, dbnr. 261.

148 . Umsögn Sparisjóðs Svarfdæla 18. júní 2009 til viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, þskj. 97, 85. mál, 137. löggjþ. 2009, dbnr. 267.

149 . Ræða Steingríms J. Sigfússonar á Alþingi 2. júlí 2009 kl. 11:23 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

150 . Ræða Álfheiðar Ingadóttur á Alþingi 1. júlí 2009 kl. 15:32 (enn óbirt í B-deild Alþingistíðinda).

151 . Sjá nánar í 13. kafla, um endurreisn sparisjóðanna.

152 . Ákvæðið um gagngjaldið fyrir stofnfjárbréfin varð að 1. mgr. 74. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Greinin stóð óbreytt í lögunum þar til hlutafélagsákvæðin voru felld niður með lögum nr. 76/2009.

153 . Sjá nánari umfjöllun um þetta í 5. kafla, um samstarf sparisjóðanna.

154 . Hugleiðingar um hæfilegt gagngjald fyrir stofnfjárhluti við breytingu SPRON í hlutafélag – með hliðsjón af arðsvon og áhættu stofnfjárbréfa í SPRON annars vegar og hlutabréfa í SPRON hins vegar, drög KPMG að greinargerð frá ágúst 2003.

155 . Alþingistíðindi, 2002–2003, A-deild, bls. 2697–2698.

156 . Hugleiðingar um hæfilegt gagngjald fyrir stofnfjárhluti við breytingu SPRON í hlutafélag – með hliðsjón af arðsvon og áhættu stofnfjárbréfa í SPRON annars vegar og hlutabréfa í SPRON hins vegar, drög KPMG að greinargerð frá ágúst 2003.

157 . SPRON verðmat – unnið af PricewaterhouseCoopers fyrir stjórn SPRON, október 2003.

158 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 20. desember 2003.

159 . Þetta hlutfall er oft nefnt V/I-hlutfall (e. price to book ratio).

160 . Það sem hér er kallað Q-hlutfall er markaðsvirði deilt með bókfærðu eigin fé. Umrædd gildi voru reiknuð út frá meðalgengi þessara sex fyrirtækja tvo fyrstu dagana eftir birtingu uppgjörs þeirra fyrir 1. ársfjórðung 2007 og eigin fé þeirra í lok 1. ársfjórðungs.

161 . Í 10. kafla er rammagrein um virði Exista hf. Þar er eðli V/I-hlutfalls útskýrt og bent á að á þessum tíma var hlutfallið mun lægra hjá þekktum fjárfestingarfélögum erlendis.

162 . Matið á virði stofnfjár byggðist á svokölluðu vaxtarlíkani Gordons. Sú aðferðafræði hvílir á þremur metnum stærðum: ávöxtunarkröfu til sparisjóðsins, áætluðum framtíðarvexti og áætlaðri arðsemi eigin fjár.

163 . Matsgerð Capacent við breytingu Byrs sparisjóðs í hlutafélag, 8. júní 2008.

164 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 30. september 2008.

165 . Matsgerð Capacent við breytingu Sparisjóðsins í Keflavík í hlutafélag, 2. október 2008.

166 . Alþingistíðindi, 2000–2001, A-deild, bls. 3696.

167 . Vegna hlutafélagavæðingar, minnisblað Páls Grétars Steingrímssonar og Jóhannesar Karls Sveinssonar til stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík 12. febrúar 2008.

168 . Fundargerð stjórnar Byrs sparisjóðs, 18. október 2007.

169 . Hlutafélagavæðing sparisjóðanna, glærukynning unnin af fyrirtækjaráðgjöf Glitnis.

170 . Hlutafélagavæðing sparisjóðanna, glærukynning unnin af fyrirtækjaráðgjöf Glitnis.

171 . Vegna hlutafélagavæðingar, minnisblað Páls Grétars Steingrímssonar og Jóhannesar Karls Sveinssonar til stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík 12. febrúar 2008.