27. kafli – Sparisjóður Suður-Þingeyinga

27. Sparisjóður Suður-Þingeyinga

Sparisjóður Suður-Þingeyinga varð til úr fimm sparisjóðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Elstur þeirra var Sparisjóður Kinnunga, sem var stofnaður árið 1889, en hinir voru Sparisjóður Aðaldæla, stofnaður 1940; Sparisjóður Fnjóskdæla, stofnaður 1943; Sparisjóður Mývetninga, stofnaður 1945, og Sparisjóður Reykdæla, stofnaður 1952. Árið 1988 sameinuðust Sparisjóður Kinnunga og Sparisjóður Fnjóskdæla undir nafni Sparisjóðs Kinnunga. Í árslok 1989 voru Sparisjóður Aðaldæla, Sparisjóður Kinnunga og Sparisjóður Reykdæla síðan sameinaðir undir nafni Sparisjóðs Suður-Þingeyinga. Í lok árs 1996 sameinuðust svo Sparisjóður Mývetninga og Sparisjóður Suður-Þingeyinga undir nafni hins síðarnefnda.1

Sparisjóðurinn skilgreinir sig sem sjálfseignarstofnun er hafi það hlutverk að stunda sjálfbæra svæðisbundna fjármálastarfsemi á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar. Starfsemin á að standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð svæðisins og lánveitingar skulu hafa jákvæð áhrif á umhverfi og framtíð svæðisins.2 Afkoma af rekstri sparisjóðsins á að standa undir stöðugri þróun sjóðsins, þátttöku hans í góðu mannlífi á svæðinu og hóflegum arði af stofnfé. Starfsemin byggi á nálægð við viðskiptavini, þekkingu á aðstæðum og þörfum viðskiptavina og svæðis, hóflegum vaxtamun, skynsamlegum útlánum og samstarfi við aðra sparisjóði um að hámarka hagkvæmni og þekkingu í starfi sjóðsins.3

Sparisjóður Suður-Þingeyinga hefur aðalstöðvar að Laugum í Reykjadal en útibú í Reykjahlíð og á Húsavík. Hjá sparisjóðnum starfa 13 starfsmenn. Guðmundur E. Lárusson gegndi starfi sparisjóðsstjóra frá 1. janúar 2006 til miðs árs 2012 er hann lét af starfi og Anna Dóra Snæbjörnsdóttir tók við starfi hans. Formaður stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga er Ari Teitsson og hefur hann verið það óslitið frá 1990.

Í lok árs 2007, fyrir fall bankanna, voru stofnfjárhafar 255. Sparisjóður Mýrasýslu var stærsti stofnfjárhafi með 12,6% hlut og Sparisjóður Bolungarvíkur átti 9,4% hlut. Heildareignir sjóðsins námu þá 2,9 milljörðum króna. Sparisjóðurinn var einn af minni sparisjóðunum í landinu með um 0,5% af samanlögðum eignum allra sparisjóða, en heildareignir sparisjóðanna voru þá um 614 milljarðar króna. Í árslok 2011 námu heildareignir Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 6,7 milljörðum króna og voru þá um 11% af samanlögðum eignum sparisjóðanna.

Sparisjóðurinn stóð að mörgu leyti af sér áhrif falls íslensku bankanna haustið 2008 og þarfnaðist ekki eiginfjárframlags úr ríkissjóði á grundvelli 2. gr. laga nr. 125/2008. Þá gerði sparisjóðurinn upp kröfur Seðlabanka Íslands á hendur honum sem færðust yfir til Seðlabankans við fall Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. í mars 2009, en nokkrir sparisjóðanna sem ekki gerðu upp við Seðlabankann með sama hætti og Sparisjóður Suður-Þingeyinga fengu kröfunum breytt í stofnfjáreign sem fluttist til Bankasýslu ríkisins fyrir hönd íslenska ríkisins.

Fyrir fall bankanna höfðu verið uppi hugmyndir um sameiningu sparisjóðsins við aðra sparisjóði en ekkert varð úr þeim. Þegar þetta er ritað er enn inni í myndinni að sparisjóðurinn muni sameinast öðrum, þar sem það er talið rekstrarlega hagkvæmt, en engar ákvarðanir hafa þó verið teknar í þá veru. Sameining við aðra sparisjóði þarf hins vegar ekki að vera nauðsynlegur þáttur í framtíð og rekstri sparisjóðsins eins og hann stendur núna.4

27.1 Ársreikningar 2001–2011

Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum 2001–2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.5

27.1.1 Rekstrarreikningar

Sparisjóður Suður-Þingeyinga var rekinn með hagnaði frá 2001 til 2011, að undanskildum árunum 2008 og 2009. Afkoma af fjáreignum hafði töluverð áhrif á heildarafkomu sjóðsins og gerði hana sveiflukenndari. Tekjur af fjáreignum voru grunnurinn að methagnaði sjóðsins árið 2006, sem nam 62 milljónum króna. Tap af fjáreignum, einkum af hlutdeildarfélögum, olli hins vegar viðsnúningi árið 2008 þegar sjóðurinn tapaði 127 milljónum króna. Það ár var 235 milljóna króna tap af hlutdeildarfélögum. Sjóðurinn tapaði enn árið 2009. Það skýrðist af áframhaldandi tapi af fjáreignum og háu framlagi í afskriftareikning útlána.

Samanlagður hagnaður Sparisjóðs Suður-Þingeyinga á 7 ára tímabili fyrir efnahagshrunið (á árunum 2001–2007) var 334 milljónir króna miðað við meðalverðlag ársins 2011. Tap hans á árunum 2008 og 2009 nam 204 milljónum króna á meðalverðlagi ársins 2011.

Í viðauka C má sjá sömu rekstrarreikninga á föstu verðlagi.

Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur samanstanda af hreinum vaxtatekjum, hreinum þjónustutekjum, arðstekjum og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga, gengishagnaði (-tapi) af fjáreignum og öðrum rekstrartekjum.

Hreinar rekstrartekjur sparisjóðsins hækkuðu tiltölulega lítið frá 2001 til 2007. Sveiflurnar á þeim stöfuðu aðallega af fjáreignum. Árið 2002 varð hækkun vegna sölu hlutabréfa og 2004–2006 uxu tekjur af fjáreignum. Þær drógust hins vegar mikið saman árið 2007. Þrátt fyrir mikla hækkun hreinna vaxtatekna árið 2008 dugðu þær ekki til að vega upp tapið af fjáreignum það ár. Hreinar vaxtatekjur héldust áfram háar eftir 2008 og hafa verið uppistaðan í hreinum rekstrartekjum sparisjóðs Suður-Þingeyinga síðan.

Tap af hlutdeildarfélögum árið 2008 var fyrst og fremst fólgið í 177 milljóna króna hlutdeild í tapi Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Eignarhluturinn í bankanum vó einnig mest í arðs- og hlutdeildartekjum áranna 2005–2007. Undir þessum lið var auk þess færð niðurfærsla hlutabréfaeignar sem að réttu lagi hefði átt að færa undir gengishagnað (-tap) af fjáreignum, enda færðu aðrir sparisjóðir hana með þeim hætti. Á árinu 2008 var eign sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka hf. og Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. færð niður um samtals 61 milljón króna. Árið eftir varð einnig liðlega 60 milljóna króna tap af hlutabréfum sem skýrðist helst af niðurfærslu eignarhlutar í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., FSP Holding hf. og Sparisjóðnum í Keflavík. Það sem fært var sem gengishagnaður (-tap) af fjáreignum voru breytingar á gjaldeyristengdum eignum og á veltuverðbréfum. Þessi liður var yfirleitt óverulegur hluti hreinna rekstrartekna á tímabilinu. Stærstur varð hann árið 2004.

Hreinar þjónustutekjur námu 21 milljón króna á árinu 2001 og voru 19% af hreinum rekstrartekjum. Vægi þessara tekna var að meðaltali 17% og í árslok 2011 námu þær 32 milljónum króna eða 13% af hreinum rekstrartekjum. Aðrar rekstrartekjur voru óverulegur hluti hreinna rekstrartekna hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga allt tímabilið, nema árið 2002 en þá var færður söluhagnaður af eignarhlutum í félögum upp á 41 milljón króna. Um var að ræða bréf í Kaupþingi hf. og Alþjóða líftryggingafélaginu hf.

Hreinar vaxtatekjur voru stærsti liður hreinna rekstrartekna á umræddu tímabili og breyttust að jafnaði lítið á milli ára. Árið 2006 hækkuðu þær um 27%, en mest var hækkunin árið 2008 þegar þær jukust um 80%. Stærstur hluti vaxtatekna sparisjóðsins kom frá útlánum, að undanskildum árunum 2009 og 2010 þegar vaxtatekjur vegna krafna á lánastofnanir vógu þyngst. Vaxtatekjur af kröfum á lánastofnanir námu minnst 5% af vaxtatekjum árið 2006 en urðu hæstar 58% árið 2010. Vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum voru nánast engar á tímabilinu.

Vaxtagjöld voru að langstærstum hluta vegna almennra innlána. Þau gjöld sem ekki voru vegna innlána fóru til lánastofnana en vægi þeirra var aldrei meira en 2%, nema árið 2001 þegar það var 9%. Vaxtagjöld vegna innlána námu 94 milljónum króna árið 2001 og fóru hæst í 651 milljón króna árið 2009. Í árslok 2011 voru þau 266 milljónir króna.

Vaxtamunur sparisjóðsins breyttist mun minna en hjá sparisjóðunum í heild á tímabilinu.6 Engu að síður var hann yfirleitt meiri hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, nema árin 2004, 2010 og 2011. Mestu munaði árið 2007 þegar vaxtamunurinn var 4,6% hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga en 1,2% hjá sparisjóðunum í heild. Í lok árs 2011 var vaxtamunurinn 5,5% hjá sparisjóðunum í heild en ekki nema 2,9% hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, en það var jafnframt lægsta gildi hans á tímabilinu 2001–2011.

Í viðauka B er að finna töflu sem sýnir vaxtamun einstakra sparisjóða.

Rekstrargjöld

Undir liðinn rekstrargjöld fellur almennur rekstrarkostnaður sem samanstendur af launakostnaði og öðrum rekstrar- og stjórnunarkostnaði, auk annarra rekstrargjalda. Undir þennan lið falla jafnframt afskriftir af rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum, auk framlags í afskriftareikning útlána.

Rekstrargjöld Sparisjóðs Suður-Þingeyinga fóru vaxandi á árunum 2001–2011. Vöxturinn stafaði jafnan af hækkuðum almennum rekstrarkostnaði en framlag í afskriftareikning útlána jókst einnig talsvert á árunum 2008–2010. Á tímabilinu 2001–2011 nam framlag í afskriftareikninginn samtals 354 milljónum króna, þar af 217 milljónum króna á árunum 2008–2011.

Árið 2008 ríflega tvöfaldaðist framlag í afskriftareikning útlána hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga. Framlagið var hækkað enn frekar á árunum 2009–2010 og varð hæst 76 milljónir króna á árinu 2010. Niðurfærsluhlutfallið hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga var á bilinu 4,4–6,9% á árunum 2001–2007.7 Í árslok 2007 var niðurfærsluhlutfallið hjá sjóðnum 4,2% en 1,6% hjá sparisjóðunum í heild. Frá 2008 til 2012 var niðurfærsluhlutfall sparisjóðsins á bilinu 4,9–7,1% en á sama tíma var niðurfærsluhlutfall sparisjóðanna í heild á bilinu 14–24,6%.8

Almennur rekstrarkostnaður Sparisjóðs Suður-Þingeyinga hækkaði jafnt og þétt á árunum 2001–2011. Um 27% hækkun varð árið 2011, sem skýrðist af hækkun annars almenns rekstrarkostnaðar, en þar var einkum um að ræða tölvukostnað og gjald til Tryggingarsjóðs innistæðueigenda. Eins og sjá má á mynd 3 var hlutfall rekstrarkostnaðar sjóðsins af meðaleignum á árunum 2001–2007 talsvert hærra en hjá sparisjóðunum í heild. Frá 2008 fór þessi munur minnkandi og í árslok 2011 var hlutfallið orðið hærra hjá sparisjóðunum í heild. Mest bar á milli á árinu 2005 þegar hlutfallið var 5,9% hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga en 3,2% hjá sparisjóðunum í heild.

Launakostnaður hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga var á bilinu 44–48% af almennum rekstrarkostnaði allt tímabilið, að undanskildu árinu 2011 þegar hann nam 38% vegna hækkunar annarra kostnaðarliða.

Fjöldi stöðugilda stóð nánast í stað á tímabilinu en meðallaunakostnaður á stöðugildi jókst jafnt og þétt milli ára. Laun sparisjóðsstjóra hækkuðu um 30%, bæði árið 2004 og 2005, og um 24% árið 2011. Launakostnaður sjóðsins nam tæpum 74 milljónum króna á árinu 2011.

Launaþróun hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga var mjög frábrugðin því sem þekktist hjá sparisjóðunum í heild sinni. Launin fylgdu nær algjörlega almennri launavísitölu á árunum 2001–2011 og hækkuðu því ekki eins mikið og hjá öðrum sparisjóðum.9

Starfsmenn nutu ekki annarra fríðinda en almennra fríðinda hjá sparisjóðunum. Á árinu 2010 var greidd 100 þúsund króna launauppbót fyrir hvern starfsmenn í fullu starfi og hlutfallslega fyrir starfsmenn í hlutastörfum. Heildarfjárhæð greiðslnanna var um 1,1 milljón króna. Á tímabilinu voru ekki greiddar árangurstengdar greiðslur eða hvatagreiðslur sem töldust ekki til hefðbundinna launagreiðslna. Þá voru ekki gerðir neinir starfslokasamningar sem fólu í sér réttindi umfram þau sem bundin voru í kjarasamninga.

Kjarnarekstur

Með kjarnarekstri er átt við afkomu af hreinni sparisjóðsstarfsemi (viðskiptabankastarfsemi). Þá er afkoma af fjárfestingastarfsemi undanskilin. Hagnaður fyrir skatta af kjarnastarfsemi eru hreinar vaxta- og þóknanatekjur að frádregnum rekstrargjöldum og virðisrýrnun útlána. Ekki hefur verið tekið tillit til áhrifa af vaxtakostnaði vegna fjármögnunar á hluta- og markaðsskuldabréfum. Hagnaðurinn kann því að vera vanmetinn að einhverju leyti.

Hagnaður varð af kjarnarekstri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga frá árinu 2001 til 2011, nema árin 2005 til 2007.10 Tap þessara ára skýrðist af hækkandi almennum rekstrarkostnaði sem fór saman við ónógan vöxt hreinna vaxta- og þjónustutekna. Vaxta- og þjónustutekjur stóðu undir almennum rekstrarkostnaði allt tímabilið, nema árið 2005 þegar upp á vantaði rúma eina milljón króna. Kjarnarekstur sjóðsins stóð vel á árunum 2008–2010 en þau ár var hagnaður af kjarnarekstri einnig mestur á tímabilinu. Tap af fjáreignum setti hins vegar strik í heildarreikninginn á þeim árum.

27.1.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga í lok áranna 2001–2011 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikning sparisjóðsins á sömu árum á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.

Eignir

Í árslok 2001 námu eignir Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 1,4 milljörðum króna en í árslok 2011 voru þær 6,7 milljarðar króna á verðlagi hvors árs um sig. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sjóðsins í árslok 2001 2,5 milljarðar króna. Þannig hafði sjóðurinn nærri þrefaldast að stærð á þessum ellefu árum. Útlán voru vaxandi liður en kröfur á lánastofnanir áttu stærstan þátt í mikilli hækkun eigna frá árinu 2008.

Lausafjárstaða sparisjóðsins var þröng, einkum á árunum 2006–2009 eins og sjá má af stöðu sjóðs og óbundinna innistæðna í Seðlabanka. Á árinu 2006 var m.a. rætt um lántöku sparisjóðsins til að mæta þessum lausafjárskorti.11 Þrátt fyrir mikla innlánaaukningu leystist þessi vandi ekki fyrr en á árunum 2010–2011 þegar mikil breyting varð á stöðu sjóðs og óbundnum innistæðum í Seðlabankanum.

Útlán voru stærsti einstaki eignaliður sjóðsins frá 2001 til 2007 og var vægi þeirra af heildareignum þá á bilinu 58–75%. Mesta aukning útlána á tímabilinu átti sér stað árið 2005 þegar þau hækkuðu um 43%. Frá 2008 minnkaði vægi útlána í 34–49% en þá hækkuðu kröfur á lánastofnanir til muna. Stærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa, eða að meðaltali 73%, og að mestu leyti til einstaklinga. Útlán til einstaklinga fóru vaxandi á tímabilinu, fóru úr 44% af heildarútlánum árið 2001 í 63% árið 2011. Lán til fyrirtækja, einkum í iðnaði, landbúnaði, sjávarútvegi og þjónustustarfsemi, fóru lækkandi á sama tíma, úr 55% í 37% af heildarútlánum.

Eins og fram kemur í töflu 6 hækkaði staða afskriftareiknings á árunum 2008 til 2011, mest árið 2009 um 53%. Niðurfærsluhlutfallið breyttist hins vegar lítið á öllu tímabilinu og lægst varð það 4,2% árið 2007 en fór hæst í 7,1% árið 2010. Framan af var niðurfærsluhlutfall annarra sparisjóða mun lægra en hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga en eftir árið 2008 færðu aðrir sparisjóðir mun meira af lánum sínum niður.

Kröfur á lánastofnanir meira en áttfölduðust á árinu 2008 og námu 2,6 milljörðum króna í árslok. Þar með urðu þær stærsti eignaliður sparisjóðsins og voru það til ársloka 2010. Þessar kröfur voru tilkomnar vegna aukinna innlána hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga í kjölfar falls viðskiptabankanna. Stórum hluta þessara auknu innlána var komið fyrir í ávöxtun hjá öðrum fjármálastofnunum, þar á meðal Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og Seðlabanka Íslands. Kröfur á lánastofnanir námu 4,4 milljörðum króna í árslok 2010, en í árslok 2011 hafði hluti þessara fjármuna verið færður á sjóð og óbundnar innistæður í Seðlabanka.

Fjáreignir voru ekki stór hluti af efnahagsreikningi sparisjóðsins. Vægi þeirra af heildareignum var á bilinu 1–19% á tímabilinu og fóru hæst í 417 milljónir króna í árslok 2007. Munaði þar mest um hækkun á bókfærðu virði hlutabréfa og hlutdeildarfélaga. Í árslok 2008 höfðu fjáreignir lækkað um rúman helming og vægi þeirra farið úr 14% af heildareignum í 4%. Í lok árs 2011 nam bókfært virði þeirra 74 milljónum króna, eða 1% heildareigna. Til samanburðar má geta þess að hlutfall fjáreigna af heildareignum allra sparisjóðanna var 6,6% í árslok 2011.

Til fjáreigna teljast markaðsskuldabréf o.fl. með föstum tekjum, hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum auk eignarhluta í hlutdeildarfyrirtækjum.

Hlutabréf voru meginhluti fjáreigna hjá sparisjóðnum á umræddu tímabili. Bókfært virði hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum sveiflaðist þó talsvert. Árið 2004 rúmlega tvöfaldaðist þessi liður en lækkaði svo um 67% árið 2006 þegar sparisjóðurinn leysti út stöðu sína í hlutabréfasjóði hjá Íslenskum verðbréfum hf. upp á 175 milljónir króna. Árið 2007 tvöfaldaðist eignin aftur, einkum vegna 53 milljóna króna fjárfestingar í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og 22 milljóna króna aukningar á stofnfé í Sparisjóðnum í Keflavík. Í lok árs 2011 nam bókfært virði hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum 32 milljónum króna eða 0,5% af heildareignum.

Markaðsskuldabréf voru að meðaltali um fjórðungur fjáreigna á árunum 2001–2011. Vægi þeirra óx þó eftir 2007 í 37–46% af fjáreignum. Í árslok 2008 varð heildarvirði markaðsskuldabréfa einnig hæst á tímabilinu, eða 73 milljónir króna, en lægst var bókfært virði þeirra í lok árs 2002 þegar það nam 11 milljónum króna.

Eign í hlutdeildarfélögum breyttist lítið frá 2001 til 2004. Árið 2005 hækkaði þessi liður um 66%, í 82 milljónir króna, og fór hæst í 185 milljónir króna í árslok 2007. Skýrðist hækkunin nær algjörlega af eign sparisjóðsins í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Í árslok 2007 nam bókfært virði hlutdeildarfélaga 185 milljónum króna, en þar af var 177 milljóna króna eignarhlutur í Sparisjóðabankanum. Vegna falls íslensku bankanna og sviptinga á fjármálamörkuðum lækkaði virði eigna í fjármálafyrirtækjum mikið og birtist það í 100% niðurfærslu á eignarhlutnum í Sparisjóðabankanum. Í lok árs 2011 nam eign í hlutdeildarfélögum 12 milljónum króna.

Hlutdeildarfélög eru þau félög þar sem sparisjóðurinn hefur veruleg áhrif á fjárhags- og rekstrarstefnu, án þess að hafa yfirráð yfir þeim.

Á mynd 5 samanstanda aðrar eignir af rekstrarfjármunum, skattinneign og öðrum eignum. Rekstrarfjármunir voru eignfærðir á 37 milljónir króna í lok árs 2011. Aðrar eignir námu 7,1 milljón króna í lok árs 2011 og skattinneign, sem kom til á árunum 2008–2010, var óveruleg.

Skuldir

Sparisjóður Suður-Þingeyinga var nær eingöngu fjármagnaður af innlánum en hlutfall innlána af heildarskuldum sparisjóðsins í lok áranna 2001–2011 var á bilinu 93–97%. Frá 2001 til 2007 uxu innlánin jafnt og þétt en árið 2008 tóku þau stökk og námu 4,6 milljörðum króna, sem var tvöföldun frá fyrra ári. Ári síðar hækkuðu þau enn frekar og náðu hámarki í sjö milljörðum króna. Samhliða auknum innlánum hækkaði hlutfall milli innlána og útlána og náði það hámarki 278% árið 2009. Þetta hlutfall varð hvergi hærra hjá sparisjóðunum allt umrætt tímabil. Lægst var hlutfallið 106% árið 2006 og því voru útlán aldrei hærri en innlán allt tímabilið 2001–2011.

Skuldir sparisjóðsins við lánastofnanir fóru aldrei upp fyrir 3% af heildarskuldum sjóðsins. Skuldirnar voru fyrst og fremst erlend lán í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. sem voru svo endurlánuð til viðskiptavina sparisjóðsins. Alls námu skuldir sparisjóðsins við lánastofnanir 164 milljónum króna í árslok 2008 og höfðu rúmlega tvöfaldast frá fyrra ári vegna lækkunar á gengi krónunnar. Skuldir við lánastofnanir lækkuðu síðan eftir 2009 og námu 119 milljónum króna í árslok 2011.

Aðrar skuldir eru hér samtala reiknaðra skuldbindinga, víkjandi skulda og ýmissa skulda. Þessi liður fór aldrei upp fyrir 5% af heildarskuldum sparisjóðsins. Víkjandi skuldir voru einungis til staðar frá 2001 til 2003 en tekjuskattskuldbinding sem hafði vaxið fram til ársloka 2007 dróst saman eftir 2008. Þar með voru ýmsar skuldir og áfallin gjöld meginhluti skuldaliðarins frá 2008 til 2011.

Eigið fé

Eigið fé Sparisjóðs Suður-Þingeyinga breyttist ekki að marki á árunum 2001–2011, þrátt fyrir jafna hækkun til 2007. Stofnfé hækkaði á milli ára, fyrst og fremst við endurmat. Árið 2008 lækkaði eigið fé um 20% vegna rekstrartaps upp á 127 milljónir króna, sem rekja mátti til afskrifta útlána og fjáreignataps. Á því ári var stofnfé aukið um 39 milljónir króna en fram að því hafði stofnfé verið um 1% af eigin fé, nema árið 2001 er það var 3%. Varasjóðurinn myndaði því stærstan hluta eigin fjár á tímabilinu. Eftir stofnfjáraukninguna varð hlutfall stofnfjár af eigin fé á bilinu 14–18%.

Sparisjóður Suður-Þingeyinga uppfyllti lágmarkskröfuna um 8% eiginfjárhlutfall (CAD-hlutfall) allt tímabilið 2001–2011 en hlutfallið fór þó lækkandi. Þannig var eiginfjárhlutfallið 21,5% árið 2001 en 9% í lok árs 2011. Samkvæmt lögum nr. 125/2008 (neyðarlögunum) var heimilað að veita framlag til sparisjóða í fjárhagsvandræðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem sett voru af fjármálaráðherra.12 Sparisjóður Suður-Þingeyinga sótti ekki um slíkt eiginfjárframlag enda taldi sparisjóðsstjóri hann ekki vera í þeim vandræðum að þörf væri fyrir þess háttar aðstoð.13

27.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Frá 2005 til 2011 námu útlán sparisjóðsins 33–73% af heildareignum hans, lægst var hlutfallið 2009 og hæst 2006. Þó höfðu útlán tekið nokkurt stökk milli áranna 2004–2005, um 440 milljónir, úr rúmum milljarði króna í tæpan einn og hálfan milljarð. Frá 2005 til 2007 námu útlánin um 71–73% af heildareignum en höfðu verið um 60% á árunum þar á undan. Fyrir rannsóknarnefndinni bar Guðmundur E. Lárusson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, sem tók til starfa á árinu 2005, að stefnt hefði verið að því að auka útlán sparisjóðsins á þessum tíma en útlánin takmörkuðust af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.14 Á árinu 2008 lækkaði hlutfallið í 44% en á móti jukust kröfur á lánastofnanir og lækkaði hlutfall útlána af heildareignum næstu árin, bæði sökum þess og vegna afskrifta. Sparisjóðurinn gerði samning við Seðlabanka Íslands á árinu 2010 um lækkun krafna Seðlabankans vegna ádráttarlína í erlendri mynt sem áður höfðu tilheyrt Sparisjóðabankanum og voru útlán sparisjóðsins í erlendri mynt færð niður að sama skapi.

Lítill hluti útlána Sparisjóðs Suður-Þingeyinga var í erlendum gjaldmiðlum og höfðu gengissveiflur því minni áhrif á útlánastöðu sjóðsins en margra annarra sparisjóða á landinu. Hæst fór vægi gengisbundinna lána í 6,3% af heildarútlánum í lok árs 2008 og námu þau þá um 144 milljónum króna.

Stærstur hluti lána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa. Gengistryggð skuldabréf voru flokkuð með skuldabréfum í ársreikningum sparisjóðsins 2005 til 2011. Á árinu 2008 hækkuðu þessi lán talsvert vegna falls íslensku krónunnar og má rekja aukningu þess árs nær eingöngu til gengisfallsins.

Stærstur hluti lána sparisjóðsins á þessum tíma var til einstaklinga, eða á bilinu 62–68%. Önnur lán voru nær eingöngu til fyrirtækja og voru fyrirtæki á sviði þjónustustarfsemi langstærsti hópur lántakenda hjá sparisjóðnum.

Staða á afskriftareikningi útlána sem hlutfall af útlánasafni Sparisjóðs Suður-Þingeyinga nam á bilinu 4–5% á árunum 2005–2008 en hún hækkaði í tæp 7% á árinu 2009 og hélst á því bili að meðaltali til ársloka 2011.

27.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila

Fjármálaeftirlitið gerði athugun hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga 16. nóvember 2005 og kannaði útlán sparisjóðsins og tryggingar ásamt vanskilum, afskriftum og vaxtafrystingu sjóðsins. Allir lántakendur með áhættuskuldbindingu yfir 10 milljónum króna voru til skoðunar, svo og öll skuldabréf og víxlar sem höfðu verið í vanskilum í 30 daga eða meira, allir tékkareikningar í vanskilum og öll vanskil á kreditkortum.15 Helstu niðurstöður athugunarinnar voru þær að áhættuskuldbindingar þriggja lánþega væru umfram 10% af eigin fé sparisjóðsins og var fjallað sérstaklega um þær í skýrslunni, en enginn þeirra var í vanskilum við sparisjóðinn á skoðunardegi.16 Tryggingarstaða sparisjóðsins gagnvart stærstu lántakendum var almennt talin vera í lagi. Þó var bent á að framtíðarrekstrarhorfur stærsta lántakans væru óvissar og talsverð hætta á að fyrirgreiðslan kallaði fyrr en síðar á framlag í afskriftareikning, sérstaklega þegar litið væri til þess hversu há hún væri. Mikilvægt væri fyrir sparisjóðinn að minnka fyrirgreiðsluna eins mikið og hægt væri.17 Þá var tekið fram að sparisjóðurinn virtist vera á réttri leið og að erfið skuldamál og vanskil færu minnkandi, þó að nokkur skuldamál kynnu að kalla á framlag í afskriftareikning útlána „á næstunni“. Að mati Fjármálaeftirlitsins ættu þau framlög hins vegar ekki að hafa veruleg áhrif á rekstur sparisjóðsins „á næstu misserum“. (Nánar er fjallað um þessar athugasemdir hér aftar.) Fjármálaeftirlitið gerði ekki aðra úttekt á Sparisjóði Suður-Þingeyinga á tímabilinu 2005–2011.

Í skýrslum innri endurskoðunar komu meðal annars fram athugasemdir við það að áhættuskuldbindingar hjá sjóðnum væru yfir 25% af eiginfjárgrunni sjóðsins. Sams konar athugasemdir komu fram í skýrslu ytri endurskoðanda og í skýrslum fyrir árin 2009 og 2010 var bent á að sjóðurinn þyrfti að fá ábyrgð á móti þeim skuldbindingum sem væru yfir 25% af eiginfjárgrunni eða lækka þær með öðrum hætti.

27.2.2 Útlánareglur

Stjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga samþykkti útlánareglur 2. janúar 2004. Þær voru settar með vísan til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þágildandi reglna nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Reglur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra voru samþykktar af stjórn sjóðsins 6. febrúar 2007 og var þeim einnig ætlað að setja ramma um lánveitingar hjá sparisjóðnum.

Útlánareglur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga höfðu ekki að geyma ítarleg ákvæði um lánveitingar og heimildir. Samkvæmt lánareglunum bar útlánum að þjóna þeim meginmarkmiðum að eðlilegur tekjuafgangur yrði af rekstri sjóðsins og að traustri eigin- og lausafjárstöðu yrði við haldið. Í sömu reglum sagði að leitast skyldi við að veita þeim er óskuðu eftir fyrirgreiðslu sem besta þjónustu á hverjum tíma.

Við ákvörðun um fyrirgreiðslu til viðskiptamanna bar að gæta þess að heildarfyrirgreiðsla til viðkomandi væri í hæfilegu hlutfalli af eigin fé sparisjóðsins18 með hliðsjón af tryggingum og fjárhag viðskiptaaðilans. Sama gilti um heildarfyrirgreiðslu til fleiri en eins aðila sem væru svo fjárhagslega tengdir að með tilliti til útlánaáhættu yrði að skoða skuldbindingar þeirra við sparisjóðinn í einu lagi. Heildarskuldbinding eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila mátti aldrei fara fram úr 25% af eigin fé sparisjóðsins.

Engin ákvæði voru í útlánareglum sparisjóðsins um hámarksveðsetningarhlutafall mismunandi eigna (lágmarkstryggingarþekju) en samkvæmt reglunum bar að jafnaði að taka fullnægjandi tryggingar vegna skuldbindinga. Þó var tilgreint sérstaklega í útlánareglunum að raunmat á tryggingarandlögum skyldi fara fram og gögn því til staðfestingar skyldu skjalfest þegar um veð væri að ræða, án þess að tilgreint væri hvernig bæri að meta veðandlögin.

Undanþága frá töku trygginga var heimil ef upplýsingar sem fyrir lágu sýndu að ekki væri þörf sérstakra trygginga, án þess að það væri skilgreint nánar í reglunum, enda væri fylgst með afkomu og fjárhag viðkomandi viðskiptamanns meðan skuldbinding varði. Þá var heimilt að veita lán án trygginga ef um smávægilega fyrirgreiðslu væri að ræða miðað við eigið fé sparisjóðsins og fyrir lægi fullnægjandi vitneskja um greiðslugetu viðskiptaaðilans. Enga skilgreiningu var þó að finna í útlánareglunum á því hvað teldist smávægileg fyrirgreiðsla eða hvaða upplýsingar teldust fullnægjandi hvað greiðslugetu viðskiptaaðilans varðaði. Að sögn fyrrum sparisjóðsstjóra óskaði sparisjóðurinn almennt eftir tryggingum við lánveitingar yfir 1 milljón króna.19

Almennt bar að taka mið af fyrri viðskiptum lántaka við sparisjóðinn, meta greiðsluhæfi einstaklinga og afla upplýsinga um fjárhag og rekstur lögaðila þegar lán voru veitt. Væri lántakinn atvinnufyrirtæki, bar eftir því sem unnt var að afla ársreikninga, rekstrar- og greiðsluáætlana og annarra fjárhagslegra upplýsinga.

Sparisjóðsstjóri gat tekið ákvörðun um lán til viðskiptamanns og fjárhagslega tengdra aðila sem voru lægri en 3% af eigin fé sparisjóðsins. Ef lánveiting fór umfram 3% af bókfærðu eigin fé þurfti samþykki stjórnar til. Var því ákveðið misræmi milli heimilda sparisjóðsstjóra og stjórnar, þar sem annars vegar var vísað til 3% af eigin fé samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og hins vegar til 3% af bókfærðu eigin fé.20 Stjórnin tilnefndi svo staðgengil sparisjóðsstjóra til að annast lánveitingar og ábyrgðir í fjarveru hans. Þá tók sparisjóðsstjóri ákvörðun um skipulag lánveitinga og lánaheimildir þeirra starfsmanna sem komu að útlánum með hans umboði.

Samkvæmt reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra bar að taka fyrir skýrslu um útlánaáhættu að minnsta kosti á þriggja mánaða fresti og skyldi hún meðal annars fela í sér yfirlit yfir skuldbindingar stærstu viðskiptaaðila sjóðsins og yfirlit yfir lánveitingar og ábyrgðir einstakra aðila sem fóru fram úr 1% af eigin fé sparisjóðsins. Viðmiðið við mat á stærstu viðskiptaaðilum sparisjóðsins var að heildarskuldbinding væri hærri en 5% af eigin fé sparisjóðsins.

Samkvæmt sömu reglum bar stjórn að sjá til þess að sparisjóðsstjóri og aðrir stjórnendur fylgdu útlánastefnu sjóðsins og inntu af hendi þær aðgerðir sem þörf væri á til að fylgja áhættustefnu og mörkum áhættutöku í rekstri. Reglur um áhættustýringu höfðu ekki verið innleiddar í lok árs 2011.

Reglur um framlög á afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána voru samþykktar af stjórn 2. janúar 2004. Samkvæmt 3. gr. þeirra skyldi færa sérstök afskriftaframlög í afskriftareikning útlána til að mæta áætluðu tapi vegna skuldbindinga lánþega sem á uppgjörsdegi væru metnar í sérstakri tapshættu. Lánþegar sem kæmu til skoðunar væru þeir sem a) hefðu verið í vanskilum í 3 mánuði eða lengur, b) væru komnir í greiðslustöðvun, c) gert hefði verið árangurslaust fjárnám hjá, d) væru gjaldþrota, e) hefðu lagt inn beiðni um nauðasamninga, eða f) aðrar aðstæður ættu við sem skertu gjaldþol eða greiðslugetu þeirra og gerðu það líklegt að ekki yrði staðið að fullu við lánasamninga.

27.2.3 Stærstu lántakendur

Útlán voru stærsta eign sparisjóðsins á árunum 2005–2011 og afskriftir af þeim höfðu nokkur áhrif á rekstur sparisjóðsins. Rannsóknarnefndin valdi úrtak lántaka til sérstakrar skoðunar og greiningar. Markmiðið með skoðuninni var að varpa ljósi á útlánastefnu sparisjóðsins, starfshætti útlánastarfsemi og ástæður afskrifta. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindinga sparisjóðsins, auk þess sem skoðuð voru útlán með há afskriftarframlög.21

Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar sem skila bar til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.22 Úrtak rannsóknarnefndarinnar samanstóð af lántakendum sem voru tilgreindir sem stærstu áhættuskuldbindingarnar í ársfjórðungsskýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2007–2011. Til viðbótar við helstu áhættuskuldbindingar sjóðsins voru í úrtakinu lántakendur þar sem fært hafði verið sérgreint framlag í afskriftareikning á árunum 2007–2011. Úrtakið nær til 21–32% útlánasafns og 31–59% af sérgreindum afskriftaframlögum eftir því til hvaða árs er litið.

Í úrtakinu voru 16 lánahópar23 sem samanstóðu af sjö einstaklingum og níu félögum ásamt tengdum aðilum. Einstaklingarnir voru með skuldabréfalán eða yfirdráttarlán, auk annarra smærri skuldbindinga og ábyrgða. Til trygginga voru fasteignir eða innistæður á reikningum. Af úrtakinu að dæma voru ekki greinanleg merki um veruleg vanskil eða ófullnægjandi tryggingar. Sérgreint afskriftarframlag var ekki fært vegna lána til þessara einstaklinga 2007–2011.

Þau félög sem sparisjóðurinn lánaði til fengu einkum fyrirgreiðslu til rekstrar. Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru ferðaþjónustufyrirtæki, flugfélag, fiskeldi, rafmagnsverkstæði og

svínabú. Í flestum tilvikum voru félögin með fyrirgreiðslu í formi yfirdráttarlána og skuldabréfalána sem veitt voru til fjárfestinga í húsnæði og tækjum og svo til almenns rekstrar.

Sparisjóðurinn virðist af úrtakinu að dæma hafa sýnt varfærni í útlánastefnu sinni að mati rannsóknarnefndar. Hafa má í huga að vöxtur útlána takmarkast af stærð eiginfjárgrunns fjármálafyrirtækis. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki mega hvorki einstök lán fara umfram ákveðið hlutfall af eiginfjárgrunni né samtala þeirra lána sem teljast til stórra áhættuskuldbindinga.24 Þar sem ekki var ráðist í stofnfjáraukningar í sparisjóðnum á tímabilinu jókst eigið fé hægt og að sama skapi útlánageta sparisjóðsins. Sparisjóðurinn lánaði sjö lán í erlendri mynt sem voru veitt á tímabilinu frá júlí 2005 til september 2007. Þá var ekki um miklar afskriftir að ræða hjá sjóðnum og voru skuldbindingar almennt vel tryggðar af úrtaki lánahópa að dæma.

Rannsóknarnefndin fann dæmi um að sparisjóðurinn framlengdi eða veitti aukna fyrirgreiðslu til félaga sem áttu í fjárhagslegum erfiðleikum. Tryggingarstaða nokkurra félaga var ófullnægjandi en sjóðurinn gekk á eftir auknum tryggingum, meðal annars eftir athugasemdir frá innri endurskoðanda sjóðsins, og gat því bætt stöðu sína gagnvart tilteknum lántakendum. Þrátt fyrir að einstakir lántakendur hafi lent í fjárhagslegum erfiðleikum og vanskilum virðast fyrirgreiðslur til þeirra ekki hafa haft marktæk áhrif á heildarútlánasafn sparisjóðsins. Þá var gripið til aðgerða ef vanskil voru yfirvofandi. Almennt var fjallað um þau útlánamál sem rannsóknarnefndin kannaði á fundum stjórnar sparisjóðsins, jafnvel í tilvikum þar sem samþykki sparisjóðsstjóra hefði nægt. Á hinn bóginn fann rannsóknarnefndin dæmi þess að heildarskuldbinding lánahópa væri yfir 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Má nefna að stærsta áhættuskuldbinding sparisjóðsins fór ítrekað fram úr þeim mörkum, allt frá árinu 2006 til ársloka 2011. Þá voru þrír lánahópar með skuldbindingu umfram 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins í árslok 2011.

Úrtak rannsóknarnefndarinnar náði til um 31–59% af sérgreindum afskriftareikningi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga á árunum 2007–2011. Fram kom í endurskoðunarskýrslum á árunum 2007–2011 að ytri endurskoðandi sparisjóðsins taldi að mat sjóðsins á afskriftarþörf hefði tekið tillit til þeirrar áhættu sem væri í útlánum. Í flestum tilvikum var rökstuðningurinn fyrir sérgreindum afskriftarframlögum á þá leið að um tapshættu væri að ræða af tilteknum lántakendum, til dæmis sökum fjárhagserfiðleika eða vegna ófullnægjandi trygginga.

Það vakti athygli rannsóknarnefndar að stærsta einstaka framlagið í sérgreindan afskriftareikning var metið með það að leiðarljósi að lækka skuldbindingu félagsins á skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar. Þannig sagði fyrrum sparisjóðsstjóri í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni: „Við settum á afskriftareikning að kröfu ytri endurskoðanda sem leiddi til þess að áhætta jafnaðist þar sem við vorum komnir yfir mörk gagnvart áhættuskuldbindingum.“25 Áhættuskuldbinding félagsins sem um ræðir fór umfram 25% hámarkið í árslok 2006 og var þá 26,8%. Skuldbindingin var innan marka í árslok 2007 og 2008 en var orðin rúm 35% í árslok 2009, tæp 35% í árslok 2010 og rúmt 31% í árslok 2011. Svo virðist sem lítil áhersla hafi verið lögð á greiðslugetu félagsins eða fjárhagslega stöðu þess við mat sparisjóðsins á framlagi í afskriftareikning. Bæði fyrrum sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður sparisjóðsins ítrekuðu við rannsóknarnefndina að félagið væri mjög vel statt í dag.26 Mat á þörf sérgreindrar afskriftar vegna félagsins virðist því ekki hafa byggt á þeim forsendum sem áttu að liggja til grundvallar mati á afskriftum samkvæmt reglum sparisjóðsins.27

Annar af stærstu lánþegum sparisjóðsins var ekki talinn í tapshættu árið 2010 en á árunum 2011 og 2012 voru allar eignir félagsins sem veðsettar voru sjóðnum yfirteknar á matsvirði og afgangur skuldanna afskrifaður.

Rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að gera frekari grein fyrir málum þessara lánahópa, sem og því hvort unnið hafi verið í samræmi við lög og lánareglur sparisjóðsins, og hvernig afskriftarþörf var metin. Að öðru leyti gaf skoðun á öðrum lánahópum í úrtakinu ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Ferðaþjónustufyrirtæki og tengdir aðilar

Ferðaþjónustufyrirtæki nokkurt sem rekur minjagripaverslun, hótel og veitingasölu og fleira var stærsti skuldari sparisjóðsins á árunum 2002–2011.28 Á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins 2004–2009 tilheyrðu lánahópnum tveir eigendur félagsins sem hvor um sig átti 38% hlut í félaginu. Árið 2010 eignaðist einn aðili 62% hlut í félaginu en annar átti áfram 38% hlut.

Félagið hafði verið í rekstrarvanda í allnokkur ár eftir aldamót og samkvæmt fundargerðum stjórnar sparisjóðsins var tímabundnum fyrirgreiðslum til félagsins reglulega breytt í langtímalán. Bróðir annars aðaleiganda félagsins sat í stjórn sparisjóðsins auk þess sem Ari Teitsson stjórnarformaður sparisjóðsins sat í stjórn félagsins á árunum 2006–2012.

Annað félag, sem var skráð eigandi fasteignarinnar sem starfsemin var rekin í, var ekki talið til lánahópsins á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins, en var skráð með lánahópnum á skýrslum um innri endurskoðun sparisjóðsins. Ari Teitsson, stjórnarformaður sparisjóðsins, sat í stjórn félagsins á árunum 2006–2012. Félagið var ekki með lán í sparisjóðnum.

Innri endurskoðandi sparsjóðsins gerði athugasemdir við stöðu ferðaþjónustufélagsins í skýrslu um innri endurskoðun í nóvember 2005:

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í atvinnurekstri þessa aðila og hefur sparisjóðurinn tekið þátt í fjármögnun þessarar uppbyggingar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum um rekstur félagsins má ljóst vera að töluverð útlánaáhætta er tengd þessum rekstri. Sparisjóðurinn hefur samþykkt að kaupa hlutabréf að verðmæti 10 millj. kr. í félaginu sem nota á til að greiða upp skammtímaskuldir félagsins. Undanfarin ár höfum við bent sparisjóðnum á að hann ætti að leitast við að minnka áhættu sína. Við viljum ítreka þá skoðun okkar nú. Í því sambandi ber meðal annars að líta til þess að fasteignin sem sparisjóðurinn er með veð í virðist hátt veðsett og er sparisjóðurinn með síðasta veðrétt.29

Á fundi stjórnar sparisjóðsins 8. nóvember 2005 var tekin fyrir ósk félagsins um „aðstoð við útvegun fjármagns til rekstrar fyrirtækisins“. Í fundargerð var bókað: „Stjórnin samþykkti að fela Ara og Margréti að skoða hugsanlegar lausnir. Stjórnin heimilaði þeim að kaupa hlutafé í [ferðaþjónustufélaginu] kr. 10.000.000 ef um semst um gengi hlutafjár.“ Á næsta fundi stjórnar, 29. nóvember 2005, var svo bókað: „Stjórnin samþykkti að Sparisjóður Suður-Þingeyinga kaupi hlutafé í [félaginu sem átti fasteignina sem reksturinn fór fram í] að fjárhæð kr. 14.000.000.– Seljandi er [ferðaþjónustufyrirtækið]. Gengi hlutafjár við kaupin er 0,7142857 og kaupverð því 10.000.000 kr., samanber bókun síðasta fundar 8. nóv. 2005.“30 Að sögn stjórnarformanns sparisjóðsins var ekki lögð mikil vinna í að meta gengi bréfanna þar sem kaupverðið gekk upp í skuldir við sjóðinn, auk þess sem óánægja var með reksturinn og því talið æskilegt að fá beina aðkomu að stjórnun fyrirtækjanna.31 Í kjölfar kaupanna var Brynjar Sigtryggsson tilnefndur af stjórn sparisjóðsins í stjórn ferðaþjónustufyrirtækisins. Á fundi stjórnar sparisjóðsins 4. ágúst 2006 var lesin upp skýrsla frá Brynjari þar sem hann gerði ýmsar athugasemdir við rekstur félagsins. Jafnframt óskaði hann eftir því að hætta sem fulltrúi sparisjóðsins í stjórn þess. Í framhaldi af því tók stjórnarformaður sparisjóðsins, Ari Teitsson, sæti í stjórnum bæði ferðaþjónustufyrirtækisins sem og félagsins sem átti fasteignina utan um reksturinn og sat þar fram á haustið 2012.32

Hjá sparisjóðnum var litið á félögin tvö sem fjárhagslega tengd við mat á áhættu sparisjóðsins vegna þeirra.33 Ari Teitsson, stjórnarformaður sparisjóðsins, sagði fyrir rannsóknarnefndinni að það hefði verið bókhaldsatriði að keyptur hefði verið hlutur í félaginu sem átti fasteignina, en fulltrúi sparisjóðsins hefði á þeim forsendum setið í stjórn ferðaþjónustufyrirtækisins. Í raun hefðu fyrirtækin verið rekin sem eitt fyrirtæki enda þótt annað hafi séð um reksturinn en hitt átt eignirnar.34 Í skýrslum um innri endurskoðun vegna áranna 2006 og 2007 voru gerðar athugasemdir við setu stjórnarformanns sparisjóðsins í stjórn félaganna:

Það er mat okkar að þetta fyrirkomulag sé ákaflega óheppilegt þar sem með setu í stjórn félagsins verður stjórnarformaður sparisjóðsins vanhæfur til þátttöku í ákvarðanatöku sem snýr að stærsta viðskiptavini sparisjóðsins. […] [V]irðist losarabragur á rekstri félagsins, að minnsta kosti að því er varðar eðlilega upplýsingagjöf til sparisjóðsins og viljum við í því sambandi benda á að mikil ábyrgð fylgir setu í stjórnum fyrirtækja s.s. ábyrgð á færslu bókhalds, gerð ársreikninga og skilum vörsluskatta.35

Í sparisjóðnum var litið á félögin sem eitt félag „rekstrarlega séð“36 þrátt fyrir að hlutafjáreign sjóðsins og tryggingar hafi verið í öðru félaginu en skuldir við sparisjóðinn í rekstri hins. Innri endurskoðandi gerði ekki athugasemd við þetta fyrirkomulag fyrr en með skýrslu sinni vegna ársins 2008:37

Öll útlán sparisjóðsins til félaganna eru skráð sem skuldir [ferðaþjónustufyrirtækisins] en hlutabréfaeign sjóðsins er í [félaginu sem á fasteignina utan um reksturinn]. Svo virðist vera að ekki sé sami skilningur á því hjá félögunum hvað varðar það hvort þeirra sé skuldari lána sparisjóðsins.38

Skuldbindingar ferðaþjónustufyrirtækisins við sparisjóðinn voru yfirdráttur, skuldabréf og lán í erlendri mynt, auk hlutafjárins í félaginu sem átti fasteignina. Í árslok 2006 nam heildarskuldbindingin 100 milljónum króna og var þá um 26,8% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins að teknu tilliti til frádráttarliða.39 Á sama tíma námu formlegar tryggingar 122 milljónum króna, 100 milljóna króna fasteignaveð og 22 milljónir króna í sjálfskuldarábyrgðir eigenda félagsins. Sparisjóðurinn keypti 15 milljóna króna ábyrgð af Sparisjóði Norðlendinga vegna skuldbindinga ferðaþjónustufyrirtækisins á árinu 2006 en hún dugði ekki til að lækka skuldbindinguna niður fyrir lögbundið hámark.40 Í skýrslu um innri endurskoðun sjóðsins fyrir árið 2006 sagði:

Undanfarin ár höfum við bent stjórnendum sparisjóðsins á að leitast við að minnka áhættu tengda þessum aðila. Við viljum enn ítreka þessa skoðun okkar þar sem ljóst má vera að veruleg útlánaáhætta er tengd þessum rekstri. Auk þess er það skoðun okkar að yfirsýn yfir reksturinn sé ófullnægjandi en engin gögn lágu fyrir hjá sjóðnum um rekstur félagsins á árunum 2005 og 2006. Er það mat okkar að veruleg óvissa sé um rekstrarhæfi félagsins og verðmæti trygginga og leggjum við því til að stjórn sjóðsins íhugi alvarlega þörf á að hækka framlag í afskriftarreikning vegna [ferðaþjónustufyrirtækisins].41

Um vorið 2007 gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við að útlán sparisjóðsins til ferðaþjónustufyrirtækisins væru yfir þeim mörkum sem heimilt væri.42 Í lok sama árs nam heildarskuldbinding lánahópsins tæpum 80 milljónum króna og var ekki yfir mörkum miðað við stöðu eigin fjár samkvæmt skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar í lok ársins. Fjármálaeftirlitið gerði enn athugasemd en í þetta skipti við mat á eigin fé sjóðsins. Ekki væri samræmi á mati sparisjóðsins á eiginfjárgrunni á skýrslum um eiginfjárhlutfall annars vegar og stórar áhættuskuldbindingar hins vegar. Eiginfjárgrunnur á skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar hefði verið of hár og hlutfall skuldbindinga af grunninum því of lágt metið. Var það mat Fjármálaeftirlitsins að þrír aðilar, þar á meðal ferðaþjónustufyrirtækið, hefðu verið yfir mörkum um stórar áhættuskuldbindingar í lok ársins 2007. Óskað var eftir upplýsingum um það hvernig sparisjóðurinn ætlaði sér að mæta kröfum laga og reglna um stórar áhættur.43 Þá benti Fjármálaeftirlitið á að 31. mars 2008 hefðu þrír aðilar verið með áhættuskuldbindingu sem næmi 24–25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.44

Í árslok 2007 voru engin vanskil hjá lánahópnum en stjórn sparisjóðsins taldi ástæðu til að færa 5 milljónir króna í sérgreindan afskriftareikning vegna hans. Í skýrslu um innri endurskoðun 2007 kom fram að stjórn sparisjóðsins teldi tapshættu vegna lánahópsins ekki vera meiri.45 Í árslok 2008 var heildarskuldbinding hópsins tæpar 124 milljónir króna, eða 22% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins að teknu tilliti til frádráttarliða, en tekið var fram í skýrslu um innri endurskoðun að keypt hefði verið 34,5 milljóna króna ábyrgð hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. vegna lánahópsins.46 Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi 2008 var sérgreind afskrift vegna skuldbindinga lánahópsins um 20 milljónir króna og töldu stjórnendur sparisjóðsins ekki vera tapshættu af skuldbindingunum umfram það.47 Rekstur félagsins var ræddur á fundum stjórnar sparisjóðsins og kom fram að hann hefði verið erfiður á árinu og útlit fyrir hallarekstur.48

Ári síðar námu skuldbindingar hópsins rúmum 128 milljónum króna og var áhættuskuldbindingin 35,4% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins49 en engar ábyrgðir voru þá lengur til staðar sem komu til lækkunar skuldbindingunum, eins og verið hafði í árslok 2008, en Sparisjóðabankinn var þá kominn í slitameðferð. Engin vanskil voru hjá félaginu en á sérgreindum afskriftareikningi stóðu 20 milljónir króna vegna skuldbindinga lánahópsins. Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2009 var lagt til að við mat á framlagi í afskriftareikning krafna yrði farið vel yfir það hvort ástæða væri til að auka framlagið. Þar mætti líta til hækkunar skuldbindinga og virði og seljanleika þeirra fasteigna sem væru til tryggingar skuldbindingum félaganna. Þrátt fyrir að skuldbindingar lánahópsins væru yfir leyfilegum mörkum í árslok 2009 var samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins 12. janúar 2010 að hækka yfirdrátt félagsins um 5 milljónir króna frá 15. janúar til 1. maí 2010. Sú ákvörðun var hvorki í samræmi við reglur sparisjóðsins um hámark áhættuskuldbindinga né ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um takmarkanir á stórum áhættum. Á hinn bóginn höfðu Fjármálaeftirlitið og sparisjóðurinn verið í samskiptum vegna stórra áhættuskuldbindinga sparisjóðsins um nokkurt skeið og var Fjármálaeftirlitið því upplýst um stöðu málsins.50

Á fyrri hluta árs 2009 sendi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga Fjármálaeftirlitinu bréf þar sem bent var á að útlán sparisjóðsins til ferðaþjónustufyrirtækisins hefðu verið umfram 25% af eigin fé sparisjóðsins um dágóðan tíma.51 Sparisjóðurinn hefði leitað eftir ábyrgðum frá öðrum fjármálafyrirtækjum til að áhættuskuldbinding vegna félagsins færi ekki yfir leyfileg mörk, síðast með ábyrgð frá Sparisjóðabanka Íslands hf. Þá var þess getið að sparisjóðurinn leitaði leiða til að leysa málið og hefði meðal annars hafið viðræður við Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis um sameiningu, en jafnframt væri beðið nýrra laga um sparisjóði sem til stæði að setja þá um sumarið. Óskaði sparisjóðurinn því eftir undanþágu frá reglum um stórar áhættuskuldbindingar vegna ferðaþjónustufyrirtækisins þar til úr rættist.

Samkvæmt 5. gr. þágildandi reglna nr. 216/2007 bar fjármálafyrirtækjum að tilkynna Fjármálaeftirlitinu þegar áhættuskuldbinding færi vegna sérstakra aðstæðna yfir 25% af eiginfjárgrunni þeirra og var Fjármálaeftirlitinu þá heimilt, ef aðstæður leyfðu, að veita fjármálafyrirtækjum tiltekinn frest til að laga sig að gildandi takmörkum.52 Með bréfi Fjármálaeftirlitsins 11. maí 2009 var sparisjóðnum veittur slíkur frestur til 16. júlí 2009.53 Í kjölfarið þurfti sjóðurinn að leita ítrekað til Fjármálaeftirlitsins til að sækja um undanþágu vegna stórra áhættuskuldbindinga sem voru umfram lögbundið hámark. Á árinu 2011 var svo uppi réttaróvissa um erlent lán lánahópsins og var þá ekki veittur frekari formlegur frestur heldur ákveðið að bíða niðurstöðu málsins.54

Skuldbindingar lánahópsins við sparisjóðinn í lok árs 2010 voru rúmar 135 milljónir króna og áhættuskuldbindingin 34,9% af eiginfjárgrunni. Engin vanskil voru en samkvæmt skýrslu vegna endurskoðunar ársreiknings 2010 stóð sérgreint afskriftarframlag í 30 milljónum króna í árslok vegna skuldbindingarinnar.55 Ári síðar nam heildarskuldbindingin rúmum 130 milljónum króna og áhættuskuldbindingin 31,3% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Engin vanskil voru og sérgreint afskriftaframlag óbreytt frá fyrra ári. Í árslok 2012 voru allar stórar áhættur sparisjóðsins innan lögboðinna marka.56

Í fundargerð stjórnarfundar sparisjóðsins 6. desember 2011 kom fram að Fjármálaeftirlitið hefði gert athugasemd við það að sparisjóðurinn ætti 10,1% í félaginu utan um fasteignina og fulltrúa í stjórn félagsins að auki. Var þá ákveðið að sparisjóðurinn seldi 0,2% hlut í félaginu og að Ari Teitsson, sem sat í stjórn fyrir hönd sparisjóðsins, segði sig úr stjórninni.

Fyrrum sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður sparisjóðsins ítrekuðu við rannsóknarnefndina að félögin væru traust og í góðum rekstri. Lánin væru vel tryggð þrátt fyrir rekstrarerfiðleika fyrir nokkrum árum.57 Stjórnarformaður sagði ástæður þess að hann hefði samþykkt að leggja 30 milljónir króna í afskriftareikning vegna skuldbindinga hópsins hafa verið tvær: Rekstur sparisjóðsins hefði leyft það og auk þess hefði sparisjóðurinn þurft að halda skuldbindingum lánahópsins undir 25% mörkunum en 30 milljón króna afskriftarframlagið kom til lækkunar á áhættuskuldbindingum á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins. Þá kom einnig fram hjá stjórnarformanni að endurskoðendur sjóðsins hefðu þrýst á um afskriftarframlag vegna skuldbindinga ferðaþjónustufyrirtækisins.58

Einstaklingur og lánahópur tengdur honum

Einstaklingur og félag sem var að fullu í hans eigu fram á síðari hluta árs 2011 og rak mötuneyti, gistiþjónustu og veitingasölu fengu fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum. Skuldbindinga félagsins við sparisjóðinn var ekki getið á skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar fyrr en í lok árs 2007. Á þeim tíma var eigandinn ekki skilgreindur sem aðili fjárhagslega tengdur félaginu. Hvor aðili um sig var með stóra áhættuskuldbindingu hjá sjóðnum í lok júní 2010 en þrátt fyrir það voru þeir ekki tengdir saman á skýrslum sjóðsins. Þetta breyttist í lok ársins 2010 þegar eigandinn og félagið mynduðu einn lánahóp.

Félagið tók 30 milljóna króna lán hjá sparisjóðnum vorið 2010 til kaupa á fasteign á Egilsstöðum undir veitingarekstur. Til tryggingar láninu var 40 milljóna króna tryggingarbréf áhvílandi á 1. veðrétti í fasteigninni. Um haustið fékk félagið nýtt 27 milljóna króna lán sem tryggt var með 2. veðrétti í fasteigninni, og samkvæmt fundargerð stjórnar sparisjóðsins 13. október 2010 var aukin fyrirgreiðsla til félagsins samþykkt, þannig að heildarfyrirgreiðsla næmi tæpri 61 milljón króna. Hinn 7. desember 2010 samþykkti stjórn sparisjóðsins svo 4 milljóna króna hækkun á yfirdrætti félagsins. Í árslok 2010 nam heildarskuldbinding lánahópsins rúmum 106 milljónum króna og var áhættuskuldbindingin 27,6% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins að teknu tilliti til frádráttarliða. Áætlað verðmæti trygginga lánahópsins nam þá um 105 milljónum króna, að frátalinni 5 milljón króna sjálfskuldarábyrgð. Samkvæmt skýrslu um innri endurskoðun á árinu 2010 taldi stjórn sparisjóðsins að ekki væri tapshætta vegna þessara skuldbindinga en í árslok voru samt sem áður færðar 10 milljónir króna sem framlag í sérgreindan afskriftareikning vegna lánahópsins sökum tapshættu, aðeins mánuði eftir að félagið hafði fengið viðbótarfyrirgreiðslu.

Töluverðra erfiðleika gætti hjá félaginu á árinu 2011. Á fundi stjórnar sparisjóðsins 22. mars 2011 var bókað að „fjárhagslegt uppgjör“ væri fyrirsjáanlegt, staða félagsins væri erfið og ljóst að hún kallaði á afskriftir hjá sparisjóðnum. Um það bil mánuði síðar, 20. apríl 2011, samþykkti stjórnin hækkun á fyrirgreiðslu til félagsins um 10 milljónir króna sem nýta átti að mestu til að greiða opinber gjöld. Áhættuskuldbinding félagsins nam 25,4% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins á skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar í lok mars 2011. Þá var enn aukin fyrirgreiðsla til félagsins 14. júní 2011 um 8 milljónir króna. Voru þessar lánveitingar án viðbótartrygginga. Í stjórnarfundargerð frá 24. ágúst 2011 sagði að fyrirsjáanlegt væri að rekstur félagsins væri að stöðvast. Sparisjóðurinn yfirtók fasteign félagsins á Egilsstöðum árið 2011, ásamt öllum lausamunum félagsins, á matsvirði, eða 75 milljónir króna, og voru eignirnar notaðar til lækkunar skulda félagsins.59

Í árslok 2011 var heildarskuldbinding lánahópsins í rúmum 20 milljónum króna og stóðu þá 20 milljónir króna á sérgreindum afskriftareikningi vegna skuldbindinga lánahópsins. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 7. febrúar 2012 og hafði sparisjóðurinn endanlega afskrifað 40,1 milljón króna árið 2012 vegna félagsins.60

Auknar fyrirgreiðslur sparisjóðsins við félagið virðast hvorki hafa verið í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins né ákvæði laga um takmarkanir á stórum áhættum. Vekur sérstaka athygli að félagið naut frekari fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum þegar slæm staða þess var stjórn sparisjóðsins vel kunn, auk þess að vera umfram lögbundið hámark. Á hinn bóginn verður hér að hafa í huga þann frest sem sparisjóðurinn fékk hjá Fjármálaeftirlitinu til að laga sig að gildandi takmörkum samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar.61

27.2.4 Lán til stjórnarmanna og starfsmanna

Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna sparisjóðsins eftir þeim reglum sem stjórn setti. Samkvæmt útlánareglum Sparisjóðs Suður-Þingeyinga bar að leggja lán til stjórnarmanna fyrir stjórn til samþykktar ef heildarskuldbinding viðkomandi stjórnarmanns og maka fór yfir 5 milljónir króna. Um lánveitingar til sparisjóðsstjóra og maka hans var vísað til áðurnefndrar 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið var á um að stjórn skyldi samþykkja fyrirgreiðslur og að þær ættu að hlíta sömu reglum og giltu um viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum. Um almenna starfsmenn gilti sú regla að lánveitingar til þeirra urðu að lúta sömu reglum og útlán til annarra viðskiptamanna sjóðsins og bar að færa í gerðabók ef lánið nam hærri fjárhæð en 2 milljónum króna.

Ekki kom fram í skýrslum innri endurskoðanda Sparisjóðs Suður-Þingeyinga vegna áranna 2005 og 2006 að farið hafi verið yfir fyrirgreiðslur til starfsmanna eða venslaðra aðila. Á árunum 2007–2011 kom fram í skýrslum innri endurskoðanda að skuldbindingar starfsmanna sparisjóðsins væru án athugasemda og að ekkert óeðlilegt hefði komið fram við skoðun á viðskiptum þeirra við sjóðinn.62 Rannsóknarnefndin kannaði útlán til starfsmanna og keyrði kennitölur þeirra saman við lánagrunn sparisjóðsins. Skoðun á lánum til starfsmanna gaf ekki tilefni til frekari umfjöllunar.

Rannsóknarnefndin kannaði hvort venslaðir aðilar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, það er stjórnarmenn í sparisjóðnum, makar þeirra, félög í eigu stjórnarmanna eða maka,63 eða félög þar sem stjórnarmenn sparisjóðsins sátu í stjórn, hefðu notið óvenjulegrar lánafyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum. Athugunin var framkvæmd með þeim hætti að kennitölur umræddra aðila voru keyrðar saman við lánagrunn sparisjóðsins.64 Sú athugun gaf ekki tilefni til athugasemda.

Félag í ferðaþjónustu og einkahlutafélagið sem átti fasteignina sem sú starfsemi var rekin í voru ekki skilgreind sem venslaðir aðilar á skýrslum sjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um fyrirgreiðslu við venslaða aðila. Stjórnarformaður sat í stjórn félaganna og sparisjóðurinn átti 10% hlut í fasteignafélaginu. Í skýrslu um innri endurskoðun sparisjóðsins fyrir árið 2009 var bent á að gæta þyrfti þess að allir sem skilgreindir væru sem venslaðir aðilar kæmu fram í skýrslu um fyrirgreiðslu við venslaða aðila.

27.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Sparisjóður Suður-Þingeyinga setti sér ekki sérstakar reglur um fjárfestingar. Í reglum sjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra frá því í febrúar 2007 var kveðið á um að fjárfestingar í fasteignum skyldu bornar upp í stjórn, sem og önnur fjárfestingaráform sem telja mætti meiriháttar eða óvenjuleg. Í sömu reglum kom fram að stjórn sjóðsins skyldi á að minnsta kosti þriggja mánaða fresti taka fyrir skýrslu um markaðsáhættu, sem fæli meðal annars í sér niðurstöður um hvort markaðsáhætta væri innan viðmiðunarmarka stjórnar og hvort stefnu stjórnar væri fylgt í þeim efnum. Ekki er að sjá af fundargerðum stjórnar að slíkar skýrslur um markaðsáhættu hafi verið teknar fyrir reglulega, en stærri fjárfestingaráform voru rædd í stjórn eins og fram kemur hér aftar.

Árið 2005 nam samanlögð verðbréfaeign minni sparisjóðanna 157% af samanlögðu eigin fé þeirra en mest varð hún í árslok 2008 er hún nam 401% af eigin fé.65 Í árslok 2011 var verðbréfaeignin 100% af eigin fé. Verðbréfaeign Sparisjóðs Suður-Þingeyinga var mest 111% af eigin fé sparisjóðsins árið 2005. Þrátt fyrir að hlutfall fjáreigna færi yfir 100% af eigin fé hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga var það yfirleitt lægra en hjá öðrum minni sparisjóðum og áhættan og áhrif á rekstur sparisjóðsins því takmarkaðri.

Ólíkt mörgum öðrum sparisjóðum átti Sparisjóður Suður-Þingeyinga ekki hlutabréf í Kaupþingi hf. eða Exista hf. á tímabilinu sem er til skoðunar. Árið 2000 seldi sparisjóðurinn hluta af eign sinni í Kaupþingi hf. og nam söluhagnaðurinn tæpum 88 milljónum króna.66 Á árinu 2002 seldi hann það sem eftir stóð af hlutabréfaeign sinni í Kaupþingi og nam söluhagnaðurinn rúmri 41 milljón króna á árinu.67

Í lok árs 2005 var stærsta verðbréfaeign sparisjóðsins í hlutabréfasjóði Íslenskra verðbréfa hf. Sú eign var seld á árinu 2006 en heildarfjárfesting sparisjóðsins í verðbréfum breyttist lítið á árinu þrátt fyrir þessa sölu. Sparisjóðurinn minnkaði áhættu sína í hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum á árinu 2006 en góð afkoma Sparisjóðabankans hf. hækkaði á sama tíma bókfært virði hans sem hlutdeildarfélags sparisjóðsins.

Eignarhlut Sparisjóðs Suður-Þingeyinga í VBS Fjárfestingarbanka hf. má rekja til sameiningar FSP hf. og fjárfestingarbankans árið 2007, en sparisjóðurinn hafði átt 2,5% eignarhlut í FSP hf. og átti rúmlega 1,1% í VBS Fjárfestingarbanka hf. eftir sameininguna.

Í apríl 2005 samþykkti stjórn sparisjóðsins að taka þátt í hlutafjáraukningu í FSP hf. fyrir 20 milljónir króna að nafnverði68 og í febrúar 2006 samþykkti stjórnin að taka þátt í annarri hlutafjáraukningu í FSP hf., að þessu sinni fyrir 5,6 milljónir króna.69

Sparisjóður Suður-Þingeyinga tók þátt í stofnfjáraukningu Sparisjóðs Vestfirðinga á árinu 2007. Sparisjóður Suður-Þingeyinga hafði eignast hlut í Sparisjóði Vestfirðinga vegna stofnfjár sem hann átti fyrir í einum þeirra sparisjóða sem mynduðu Sparisjóð Vestfirðinga með sameiningu. Þegar Sparisjóður Vestfirðinga sameinaðist Sparisjóðnum í Keflavík á árinu 2007 var stofnfé í Sparisjóði Vestfirðinga aukið til að jafna skiptihlutfall milli varasjóðs og stofnfjár við samrunann.70

Á sama ári fjárfesti sparisjóðurinn fyrir rúmar 50 milljónir króna í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Ástæður fjárfestingarinnar voru annars vegar samstarf um þjónustu vegna verðbréfaviðskipta og hins vegar skattalegt hagræði. Fyrrum sparisjóðsstjóri tjáði rannsóknarnefndinni að vegna tilkomu nýrra reglna um verðbréfaviðskipti (MiFID) hefði sparisjóðurinn gert samning við Saga Capital um að bankinn annaðist verðbréfaviðskipti viðskiptavina sparisjóðsins.71 Þá skýrði sparisjóðsstjóri frá því á fundi stjórnar sparisjóðsins 26. september 2007 að til að fresta skattlagningu söluhagnaðar annarra verðbréfa væri nauðsynlegt fyrir sjóðinn að kaupa hlutabréf á árinu. Kaupa þyrfti fyrir 45 milljónir króna. Var sparisjóðsstjóra og stjórnarformanni falið að ganga frá kaupum á þessu hlutafé. Í fundargerðinni voru ekki tilgreind nein ákveðin hlutabréf sem kaupa ætti en stjórnarformaður sparisjóðsins staðfesti í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni að keypt hefði verið í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. í þessum tilgangi.72

Í mars 2007 var upplýst í stjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga að sjóðnum hefði borist tilboð um að nýta forkaupsrétt á hlutafé í FSP Holding ehf. og var samþykkt að taka tilboðinu. Sparisjóðurinn átti 12,5 milljónir króna í FSP Holding ehf. í lok árs 2007 og í ársbyrjun 2008 samþykkti stjórn sjóðsins að nýta forkaupsrétt í annarri hlutafjáraukningu félagsins fyrir samtals 9,5 milljónir króna.73 Tap sparisjóðsins vegna eignarhlutar í FSP Holding ehf. nam 23,8 milljónum króna á árinu 2009 en það ár tapaði félagið tæplega 603 milljónum króna.

Á árinu 2008 dróst verðbréfaeign Sparisjóðs Suður-Þingeyinga töluvert saman og vó þar þyngst alger virðisrýrnun hlutdeildarfélagsins Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf.

Fjárfestingar sparisjóðsins í verðbréfum skiluðu honum töluverðum hagnaði á árunum 2001–2007, einkum fyrst eftir aldamótin. Á föstu verðlagi ársins 2011 voru tekjur sparisjóðsins af verðbréfaeign74 samtals rúmar 314 milljónir króna á árunum 2001–2007 en tap af þeim tæpar 345 milljónir króna frá árslokum 2008 til ársloka 2011. Eftir áföll á fjármálamörkuðum haustið 2008 urðu allar stærstu eignir sparisjóðsins nánast verðlausar. Þannig rýrnuðu eignir sparisjóðsins í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., VBS Fjárfestingarbanka hf., Sparisjóðabanka Íslands hf., Sparisjóðnum í Keflavík og fleiri fjármálafyrirtækjum á árunum 2008–2010. Í lok árs 2011 nam verðbréfaeign sparisjóðsins 32 milljónum króna og hafði dregist saman um 82% frá árinu 2007.

Þó að verðbréfaeign Sparisjóðs Suður-Þingeyinga væri ekki stór hluti af heildareignasafni hans, höfðu tekjur og gjöld vegna hennar töluverð áhrif á afkomu sjóðsins. Á mynd 12 má sjá að rekstrarniðurstaða tímabilsins 2005–2011 sveiflaðist mikið með afkomu verðbréfaeignar og var nær allur hagnaður áranna 2006 og 2007 afkoma af verðbréfaeign. Tap af verðbréfaeign árin 2008 og 2009 var mildað í rekstrarniðurstöðu ársins af góðum vaxtatekjum og sami tekjuliður bætti rekstrarniðurstöðu ársins 2010 þrátt fyrir tap af verðbréfaeign. Á árinu 2011 varð hagnaður af verðbréfaeign einkum vegna gjaldeyristengdra eigna en sparisjóðurinn átti tæpum 230 milljónum króna meira af eignum en skuldum í erlendri mynt í árslok 2011.75

Verðbréfaeign sparisjóðsins var fyrst og fremst í félögum sem sparisjóðirnir fjárfestu í sameiginlega og skiptu máli fyrir þjónustuframboð þeirra. Þetta voru félög á borð við Sparisjóðabanka Íslands hf., Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., VBS Fjárfestingarbanka hf. og svo aðra sparisjóði. Áhugi forsvarsmanna sparisjóðsins á fjárfestingum í verðbréfum kom fram í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni. Þar sagði fyrrverandi sparisjóðsstjóri meðal annars: „Ég hef aldrei haft mikla trú á íslenskum hlutabréfamarkaði, ég tel að við séum alltof fámenn þjóð til þess að reka svona stórt kerfi og hef verið ófeiminn við að segja skoðanir mínar á því. […] Þegar Lánasjóður landbúnaðarins var seldur til Landsbankans hófu stóru bankarnir skipulagða herferð til að fá bændur í aukin viðskipti. Við urðum að geta boðið viðskiptavinum okkar sambærilega þjónustu, og það var gott tækifæri til þess að selja öll hlutabréf sem sparisjóðurinn átti og voru ekki í beinum tengslum við fyrirtæki á vegum sparisjóðsins, svo sem í öðrum sparisjóðum, Sparisjóðabankanum eða öðrum rekstrartengdum aðilum.“76

27.4. Fjármögnun

Efnahagur Sparisjóðs Suður Þingeyinga efldist hratt eftir fall bankanna, einkum vegna ásóknar fjármagnseigenda í að leggja fé sitt á innlánsreikninga í sparisjóðnum. Innlán voru því meginhluti fjármögnunar sparisjóðsins, eða 86–97% af heildarskuldum hans að undanskildu eigin fé.77

Bundin innlán voru að meðaltali 31% af öllum innlánum sparisjóðsins frá janúar 2005 til desember 2011, en mest voru þau 36% og minnst 25%.78 Heimili áttu að meðaltali 80% innlána og fyrirtæki 14%.79 Innlán sparisjóðsins ríflega tvöfölduðust á árinu 2008 og hækkuðu enn um rúm 50% á árinu 2009. Mestur vöxtur var í innlánum á peningamarkaðsreikninga sjóðsins en jafnframt voru innistæður á verðtryggðum reikningum hátt hlutfall bundinna innlána. Hlutfallið milli innlána og útlána var á bilinu 106–278%, hæst í lok árs 2009.

Skuldir við lánastofnanir voru að mestu leyti lán frá Sparisjóðabanka Íslands hf. Sparisjóður Suður-Þingeyinga var með lánalínu hjá bankanum vegna erlendra endurlána, þ.e. erlend lán sparisjóðsins hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. voru endurspegluð með erlendum lánum sparisjóðsins til viðskiptavina sinna. Sparisjóðurinn var með ákveðna heimild hjá Sparisjóðabankanum til ádráttar á þessa lánalínu og fór aldrei út fyrir hana frá janúar 2005 til febrúar 2009.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að taka yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabanka Íslands 21. mars 2009 voru innistæður sparisjóðanna í Sparisjóðabankanum og vissar eignir framseldar Seðlabanka Íslands, þeirra á meðal voru kröfur vegna erlendra endurlána sparisjóðanna. Í lok árs 2009 voru kröfur Seðlabankans vegna þessa á Sparisjóð Suður-Þingeyinga 162 milljónir króna en ári síðar voru þær gerðar upp. Stærstur hluti útistandandi skulda sparisjóðsins við lánastofnanir á árunum 2010 og 2011 voru innistæður á uppgjörsreikningum hjá kortafyrirtækjum.

27.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Í samþykktum sparisjóðsins frá 2003 kom fram að stofnfé skyldi ekki vera minna en 2.500.000 krónur og skiptast í jafnháa hluti. Stofnfjáreigendur ættu jafnan atkvæðisrétt án tillits til fjölda hluta og skyldi sparisjóðsstjórn sjá til þess að stofnfjáreigendur væru aldrei færri en 60. Einstökum stofnfjáreigendum var ekki heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum. Árið 2008 voru gerðar þær breytingar á samþykktum sparisjóðsins að stofnfé skyldi ekki vera lægra en 6.410.815 krónur og skyldi nafnverð hvers hlutar vera ein króna.

Stofnfé Sparisjóðs Suður-Þingeyinga var 4,9 milljónir króna í lok árs 2005 og var Sparisjóður Mýrasýslu stærsti stofnfjáreigandinn með 13% hlut. Þá átti Sparisjóður Bolungarvíkur 9,7% en 241 stofnfjáraðili skipti með sér öðru stofnfé og átti hver um sig 0,32%. Meðal annarra stofnfjáreigenda voru Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Hafnarfjarðar og Sparisjóður vélstjóra. Stofnfjáreign sparisjóða í öðrum sparisjóðum skýrist jafnan að einhverju leyti af samvinnu sparisjóða sem komu öðrum til aðstoðar þegar illa áraði. Stofnfjáreign annarra sparisjóða í Sparisjóði Suður-Þingeyinga var til komin vegna aðstoðar þeirra við þá sparisjóði sem mynduðu Sparisjóð Suður-Þingeyinga og sameinuðust honum; öll stofnfjáreign annarra sparisjóða í Sparisjóði Suður-Þingeyinga var arfleifð frá samruna sparisjóðsins við Sparisjóð Mývetninga í lok árs 1996.80

Á árinu 2006 bættust fimm nýir einstaklingar í hóp stofnfjáreigenda sparisjóðsins en þeir keyptu stofnfé af sparisjóðnum sjálfum og fengu 0,32% hlut hver. Ári síðar bættust níu nýir stofnfjáreigendur í hópinn og var hlutur þeirra jafn stór og annarra stofnfjáreigenda sem fyrir voru. Í lok ársins 2007 nam stofnfé sparisjóðsins 6,4 milljónum króna. Hækkun stofnfjárins á þessum árum var til komin vegna endurmats í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki.81

Í desember 2008 var stofnfé aukið með stofnfjárútboði til stofnfjárhafa. Í útboðinu söfnuðust 39 milljónir króna og var stofnfé í lok árs 46,9 milljónir króna. Engin fjölgun varð í stofnfjáreigendahópnum við útboðið. Næstu tvö árin fjölgaði stofnfjáraðilum um tvo og stofnfé hækkaði um 6,3 milljónir króna. Í lok árs 2010 voru stofnfjáreigendur 257 og stofnfé 53 milljónir króna. Á aðalfundi sparisjóðsins í maí 2011 var samþykkt að nýta arðgreiðslu vegna ársins 2010 til hækkunar stofnfjár um 12% að nafnverði. Stofnfé í árslok 2011 var 59,2 milljónir króna.82

27.5.1 Stofnfjáraukning árið 2008

Hinn 11. mars 2008 var samþykkt á stjórnarfundi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga að vinna að tillögum til aukningar stofnfjár sparisjóðsins. Á stjórnarfundi 2. apríl 2008 var svo samþykkt að leggja tillögu fyrir aðalfund um að stofnfé yrði aukið um allt að 170 milljónir króna. Samhliða því var samþykkt að nýta heimild til endurmats stofnfjár og hækka það um 5% og framreikna stofnféð í samræmi við verðlagsbreytingar, auk þess sem samþykkt var að greiða 10% arð af stofnfjárhlutum fyrir árið 2007.

Á aðalfundi stofnfjáreigenda Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 29. apríl 2008 voru gerðar breytingar á samþykktum sparisjóðsins. Ein þeirra var að heimila veðsetningu stofnfjárbréfa en með henni varð mögulegt að fjármagna stofnfjárbréfakaup með veði í stofnfjárbréfunum sjálfum. Á aðalfundinum gerði stjórnarformaður grein fyrir tillögu stjórnar um stofnfjáraukningu og að sparisjóðurinn myndi „lána til kaupanna þeim sem það óska“.83 Þá var tillaga um 170 milljón króna aukningu stofnfjár í sparisjóðnum samþykkt samhljóða. Stofnfjáreigendur áttu forgang til áskriftar í samræmi við stofnfjáreign sína og var stjórn heimilt að ákvarða nánara fyrirkomulag stofnfjáraukningarinnar.

Fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði stjórnarformaður sparisjóðsins tilgang stofnfjáraukningarinnar hafa verið að styrkja eiginfjárstöðu sparisjóðsins en jafnframt að gera honum kleift að greiða út arð, jafnvel „einhverja tugi prósenta“. Til skýringar bætti hann því við að á þessum tíma hefði þessi aðferð verið „alþekkt meðal sparisjóðanna“ sem margir hverjir „belgdu út […] efnahagsreikninginn og greiddu stofnfjáreigendum 10–20% arð“. Fram að þessu hefðu stjórnendur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga hins vegar ekki þótt „mjög framsæknir eða til fyrirmyndar“ hvað þetta áhrærði. Einhverjir stofnfjáreigendur hefðu lýst yfir óánægju sinni yfir því að sparisjóðurinn skyldi ekki „dansa með“. Forsvarsmenn sparisjóðsins hafi því ákveðið að elta hina sparisjóðina „en á mjög hóflegum forsendum“.84 Guðmundur E. Lárusson, sparisjóðsstjóri á þessum tíma, hélt því hins vegar fram, að stofnfjárhækkunin hefði aðallega verið hugsuð til að hækka eiginfjárgrunn sparisjóðsins svo hann gæti aukið útlán. Hann hefði barist fyrir aukningu stofnfjár frá því hann kom til starfa hjá sparisjóðnum. Stofnfjáraukningin hefði því ekki komið til vegna þarfar sparisjóðsins á auknu fé til rekstrar.85

Við fall íslensku bankanna í október 2008 breyttust þær forsendur sem verið höfðu fyrir stofnfjáraukningunni um vorið. Í skýrslu þáverandi sparisjóðsstjóra hjá rannsóknarnefndinni kom fram að lítil eftirspurn hefði verið eftir stofnfé í kjölfar hrunsins enda hefðu menn óttast um afdrif sparisjóðsins.86 Á aukastofnfjáreigendafundi 24. nóvember 2008 var fallist á að heimild til stofnfjáraukningarinnar yrði ekki nýtt nema að hluta í útboði í desembermánuði og í kynningu á tillögunni var lögð áhersla á að stofnfjáraukningin væri til komin vegna bankahrunsins haustið 2008. Skyldi umfang stofnfjáraukningarinnar ráðast af því hversu miklu stofnfé stofnfjáreigendur skráðu sig fyrir, en hámark áskriftar var ákveðið 500.000 krónur og gátu stofnfjáreigendur nú ekki keypt aukinn hlut ef aðrir stofnfjáreigendur nýttu sér ekki rétt sinn til áskriftar fyrir nýjum hlut. Lokafrestur til skráningar var 15. desember 2008 og lokafrestur til greiðslu 30. desember. Í fundargerð stofnfjáreigendafundarins var tillaga stjórnar um skerta nýtingu heimildar til stofnfjáraukningar sett fram ásamt greinargerð:

Miklar sviptingar hafa orðið í íslensku fjármálaumhverfi á síðari hluta þessa árs. Sú óvissa hefur valdið því að ákvörðunum varðandi framkvæmd stofnfjáraukningar hefur verið frestað eins lengi og mögulegt er.

Ljóst virðist að þau áform um arð til stofnfjáreigenda sem kynnt voru á aðalfundi á liðnu vori ganga ekki eftir.

Þá hefur umræða um þýðingu og hlutverk sparisjóða sem sjálfstæðrar fjöldahreyfingar á fjármálamarkaði farið vaxandi og verður að skoða tillögur um breytt fyrirkomulag stofnfjáraukningar í því ljósi.

Í kjölfar fundarins var stofnfjáreigendum sent bréf 26. nóvember þar sem tilkynnt var um ákvörðun stofnfjáreigendafundarins og fyrirkomulag stofnfjáraukningarinnar. Þá sagði þar:

Nýtt stofnfé bætist við skráð stofnfé viðkomandi í sparisjóðnum og verður þannig grunnur að arðgreiðslum sparisjóðsins v. ársins 2008, en líklegt virðist að þær verði nálægt 10% af stofnfé. […]

Sparisjóðurinn mun lána þeim sem þess óska andvirði stofnfjáraukningarinnar að hluta eða öllu leyti.

Í útboðinu skráðu 126 aðilar sig fyrir samtals um 39 milljónum króna en 255 aðilar voru á stofnfjáreigendalistanum. Engin lán voru veitt fyrir stofnfjárkaupunum að því undanskildu að einn kaupandi fékk 200.000 króna yfirdráttarlán fyrir kaupunum sem var greitt fljótt til baka.87 Með stofnfjáraukningunni rúmlega sjöfaldaðist stofnfé sjóðsins og breyttist hlutfall stofnfjáreigenda í sjóðnum nokkuð. Hlutur Sparisjóðs Mýrasýslu fór úr 12,6% í 2,1% en Byr sparisjóður bætti við sig stofnfé og varð stærsti stofnfjáreigandinn með 2,2% stofnfjár. Byr sparisjóði ásamt tveimur öðrum sparisjóðum88 var boðið að kaupa stofnfé umfram 500.000 króna hámarkið, eða fyrir allt að eina milljón króna og réðst sú fjárhæð af fyrri stofnfjáreign sparisjóðsins.89 Þá var skipting stofnfjáreignar milli einstaklinga ekki lengur jöfn, en 60 einstaklingar áttu hver um sig 1,1% hlut og aðrir minna. Engir lögaðilar bættust í hóp stofnfjáreigenda við stofnfjáraukninguna.90

27.6 Viðbrögð við breyttum aðstæðum eftir fall íslensku bankanna 2008

Tap varð á rekstri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga árið 2008 og hafði það ekki gerst frá 1998. Hallinn nam 127 milljónum króna, einkum vegna taps á verðbréfaeignum. Eiginfjárhlutfallið var engu að síður 13,4% í lok ársins.91

Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins fór ekki undir lögbundið lágmark á tímabilinu 2005–2011 en sparisjóðurinn var þó ekki ónæmur fyrir áhrifum af falli viðskiptabankanna. Innlán jukust mjög frá því síðla árs 2008, en stjórnendur sparisjóðsins litu frekar á þau sem viðbrögð við breyttum aðstæðum á fjármálamarkaði en að þau yrðu til langframa í sparisjóðnum. Vegna þessa og þar sem eiginfjárgrunnur sparisjóðsins setti umsvifum útlána hans nokkur takmörk, var þessum innlánum ekki veitt til útlána í miklum mæli. Auk þess var „eftirspurn eftir lánsfé takmörkuð í kjölfar hrunsins“.92 Sparisjóðurinn ávaxtaði féð meðal annars hjá Seðlabanka Íslands.

27.6.1 Samkomulag við Seðlabanka Íslands

Með 2. gr. laga nr. 125/2008 var fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, heimilað að leggja sparisjóðunum til fjárhæð sem nam allt að 20% af bókfærðu eigin fé viðkomandi sparisjóðs vegna sérstakra og óvenjulegra aðstæðna á fjármálamarkaði. Nánar var kveðið á um útfærslu og skilyrði eiginfjárframlags í reglum frá 18. desember 2008.93 Flestir sparisjóða sóttu um eiginfjárframlag á grundvelli laganna en þó ekki Sparisjóður Suður-Þingeyinga. Í stjórnarfundargerð sparisjóðsins frá 27. janúar 2009 var bókað að samþykkt væri að sækja um eiginfjárframlag úr ríkissjóði, en ekkert varð úr því.94 Fyrir rannsóknarnefndinni sagði Ari Teitsson, stjórnarformaður sparisjóðsins, að rætt hefði verið að sækja um eiginfjárframlag úr ríkissjóði en sparisjóðurinn hefði fallið illa undir reglurnar. Stofnfjárframlag frá ríkinu hefði þýtt að Bankasýsla ríkisins hefði eignast meirihluta í sparisjóðnum. Þar með hefðu heimamenn misst forræði yfir sparisjóðnum og jafnvel hefði verið hægt að selja hann öðrum. Þessi kostur hefði því ekki verið til þess fallinn að styrkja stöðu sparisjóðsins.95

Þótt sparisjóðurinn hafi ekki gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu eins og margir aðrir sparisjóðir, gekk hann til samninga við Seðlabanka Íslands um uppgjör á kröfum á hendur sér. Undir lok sumars 2009 tóku fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands, undir forystu bankans, upp nánari samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóða, þegar ljóst var að sparisjóðirnir uppfylltu ekki allir skilyrði reglna um framlag til sparisjóða.96 Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi sparisjóðanna á þessum tíma, eftir að hafa fengið framseldar kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars sama ár. Þar á meðal voru kröfur á hendur Sparisjóði Suður-Þingeyinga sem námu 155 milljónum króna á yfirfærsludegi sem var 24. mars 2009.

Í september 2009 sendi Seðlabanki Íslands, í samvinnu við fjármálaráðuneytið, sparisjóðunum tillögu um meðferð krafna á hendur sparisjóðunum og var unnið að frekari útfærslu hennar um veturinn. Hinn 1. febrúar 2010 sendi Seðlabankinn síðan sparisjóðunum bréf þar sem þeim var boðið að semja um uppgjör krafna með ákveðnum kjörum og skilyrðum.97 Viku síðar, 8. febrúar, kynnti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum kröfur sínar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu með aðild ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 125/2008 eða með aðild Seðlabanka Íslands á grundvelli samnings um uppgjör krafna. Fjármálaeftirlitið gerði þá meðal annars kröfu um að eiginfjárhlutfallið yrði að lágmarki 16% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.98 Auknar kröfur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall tóku þó ekki til Sparisjóðs Suður-Þingeyinga þar sem hann sótti ekki um slíkt eiginfjárframlag.

Stjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga samþykkti á fundi 15. febrúar 2010 að greiða upp skuldir við Seðlabanka Íslands og var samningur þar að lútandi undirritaður 24. mars sama ár. Í samningnum var kveðið á um að sparisjóðurinn gerði upp allar kröfur Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðnum fyrir 1. júlí 2010. Við uppgjörið átti krónufjárhæð krafnanna að lækka um 12% miðað við stöðu þeirra á uppgjörsdegi.

Áform ríkisins og Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna var háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Á fundum fulltrúa Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytis með fulltrúum Eftirlitsstofnunarinnar 26. maí 2010 kom fram að forsvarsmenn stofnunarinnar ættu erfitt með að sjá fyrir sér að sá 12% afsláttur á uppgjöri krafna sem Seðlabankinn hugðist veita þremur smærri sparisjóðum, þeirra á meðal Sparisjóði Suður-Þingeyinga, stæðist reglur stofnunarinnar um ríkisaðstoð. Að óbreyttu myndi slík eftirgjöf ekki verða samþykkt.99 Þegar ljóst var orðið að Eftirlitsstofnun EFTA mundi ekki samþykkja að kröfur Seðlabanka Íslands yrðu gerðar upp með 12% afslætti af krónufjárhæð þeirra, var uppgreiðslu frestað þar til samþykki Eftirlitsstofnunarinnar lægi fyrir.100

Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, varðandi lögmæti lánsskuldbindinga í íslenskum krónum tengdum gengi erlendra gjaldmiðla, sendu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum tilmæli vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða 30. júní 2010. Fjármálafyrirtækjum var síðan gert að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi þessara aðstæðna og tryggja að eigið fé yrði nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem endurreikningur lána hefði í för með sér.101 Í svarbréfi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga við fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins um lögmæti gengisbundinna lána sparisjóðsins var gerð grein fyrir þeim lánum sem sparisjóðurinn hafði veitt í erlendum gjaldmiðlum og var ekki talin hætta á að réttarframkvæmdin hefði áhrif á uppgjör þeirra.102

Áfram var unnið að gerð samkomulags milli sparisjóðsins og Seðlabanka Íslands og var stefnt að því að ljúka því fyrir árslok 2010. Þar sem Eftirlitsstofnun EFTA hafði ekki samþykkt það fyrirkomulag sem lagt hafði verið upp með í fyrra samkomulagi frá 13. apríl 2010 var kannaður sá möguleiki að lækka afslátt af krónufjárhæð krafnanna í 11% í stað 12% áður.

Undirritað var samkomulag milli Seðlabanka Íslands og Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 28. desember 2010. Fól samkomulagið í sér uppgjör á kröfum í erlendum myntum samkvæmt „Rammasamningi um reikningslán milli Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og Sparisjóðabanka Íslands hf.“ frá 12. apríl 2005. Við uppgjör skyldi krónufjárhæð krafnanna lækka um 11% miðað við stöðu þeirra á uppgjörsdegi, ef sparisjóðurinn sýndi fram á að lausafjárstaða hans héldist viðunandi og engin atvik leiddu til þess að skilyrði Seðlabankans fyrir uppgjöri og fjárhagslegri endurskipulagningu kröfuhafa yrðu ekki uppfyllt. Undirritun samkomulagsins fól einnig í sér að sparisjóðurinn afsalaði sér rétti til eiginfjárframlags á grundvelli laga nr. 125/2008.103 Staða krafna við uppgjör nam 162 milljónum króna og greiddi sparisjóðurinn 146 milljónir króna í samræmi við samkomulagið og voru kröfurnar greiddar upp í lok árs 2010.104

Útlán sparisjóðsins í erlendri mynt voru fjármögnuð með ádráttarlínum frá Sparisjóðabanka Íslands hf. eins og framar greinir. Að sögn Ara Teitssonar, stjórnarformanns sparisjóðsins, var fullyrt við forsvarsmenn sparisjóðsins á þeim tíma sem gera átti kröfurnar upp að millibankalán yrðu aldrei dæmd ólögmæt. Þegar niðurstöður Hæstaréttar um ólögmæti lána í erlendri mynt lágu fyrir, fór stjórnarformaður sparisjóðsins á fund með fulltrúum Seðlabanka Íslands og Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., sem fór með kröfur á hendur sparisjóðunum. Óskaði hann eftir því að uppgjör sparisjóðsins við Seðlabankann yrði tekið til endurskoðunar út frá sanngirnissjónarmiðum.105 Niðurstaða samningaviðræðna lá fyrir í byrjun árs 2013. Án viðurkenningar á réttmæti kröfu sparisjóðanna samþykkti Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. að leiðrétta kröfur sparisjóðanna, í því skyni að forða málaferlum og ljúka ágreiningi, og fékk Sparisjóður Suður-Þingeyinga tæpra 65 milljóna króna viðbótarleiðréttingu.106 Samkomulagið er þó háð fyrirvara um jákvæða afstöðu Fjármálaeftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA.

27.6.2 Sameiningarhugmyndir

Sameiningarhugmyndir voru ekki einungis viðbragð við falli bankanna 2008, því sameining við aðra sparisjóði hafði verið rædd á stjórnarfundum Sparisjóðs Suður-Þingeyinga allt frá því á síðari hluta ársins 2007. Á fundi stjórnar 27. ágúst 2007 var tekið fyrir bréf frá Sparisjóðnum í Keflavík frá 31. júlí þar sem óskað var eftir viðræðum um nánara samstarf eða sameiningu. Í svarbréfi stjórnar sparisjóðsins sama dag lýsti stjórnin yfir áhuga á að ræða framtíð sparisjóðanna og fagnaði frumkvæði Sparisjóðsins í Keflavík að opinni umræðu um stöðu og möguleika sparisjóðanna í breyttu umhverfi og taldi stjórnin brýna þörf á aukinni samvinnu sparisjóða á landsbyggðinni. Á hinn bóginn var hugmyndum um sameiningu tekið fálega eða „afþökkuð kurteislega“107 og lögð áhersla á að sparisjóðurinn starfaði áfram á afmörkuðu starfssvæði, undir stjórn og á ábyrgð heimamanna, auk þess sem stofnfjáreign yrði bundin starfssvæðinu. Hins vegar var tekið undir samvinnuhugmyndir, svo sem að landsbyggðarsparisjóðir eða þeir allir rækju markaðs- og þróunarstarf sem tæki mið af aðstæðum um markmið og kostnað; að unnið yrði sameiginlega að lausn flóknari úrlausnarefna varðandi samskipti við eftirlitsstofnanir og að leitað yrði sameiginlegrar fjármögnunar stærri verkefna. Vegna hraðra breytinga í formi og umhverfi sparisjóðanna þótti stjórninni eðlilegast að málin yrðu rædd á næsta aðalfundi Sambands íslenskra sparisjóða.108

Þá voru á svipuðum tíma uppi hugmyndir um sameiningu við Sparisjóð Höfðhverfinga, Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóð Norðfjarðar en viðræður báru ekki árangur.109 Á fundi stjórnar 28. nóvember 2007 var rætt um samstarf og sameiningu sparisjóða í landinu og var bókað í fundargerð: „Við hér í Sparisjóði Suður-Þingeyinga bíðum og erum ekki tilbúnir í hlutafélög eða sameiningar þar sem við vitum ekki hvaða rekstrarform yrði hér í framtíðinni.“

Eftir fall bankanna fengu hugmyndir um sameiningu sparisjóðanna byr undir báða vængi að nýju en einhverjir sparisjóðanna áttu þá í nokkrum erfiðleikum. Hinn 24. nóvember 2008 mætti Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, á fund stjórnar og var rætt um stöðu mála, hugsanlega aðkomu ríkisins á grundvelli neyðarlaganna og sameiningar sparisjóða.

Stjórnarformaður og sparisjóðsstjóri fóru á fund Fjármálaeftirlitsins 28. janúar 2009 ásamt nefnd sem vann að undirbúningi aðstoðar ríkisins við endurreisn sparisjóðanna. Sparisjóðurinn átti að leggja fram þriggja ára áætlun um rekstur sjóðsins til að sýna fram á rekstrarhæfi hans. Á fundinum var meðal annars rætt um sameiningu Sparisjóðs Suður-Þingeyinga við aðra sparisjóði en þó var sérstaklega rætt um sameiningu við Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis. Slíkar hugmyndir höfðu þegar verið ræddar í stjórn sparisjóðsins.

Á fundi stjórnar 27. apríl 2009 kom fram að staða Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis væri mjög erfið og hann vart rekstrarhæfur. Því þótti ekki tímabært að taka ákvörðun um sameiningu þar sem of margir þættir málsins væru í óvissu. Engu að síður var samþykkt á aðalfundi sparisjóðsins daginn eftir að halda viðræðunum áfram, þrátt fyrir að meðal fundarmanna hafi borið á nokkrum áhyggjum af minni möguleikum á arðgreiðslum í kjölfar sameiningar. Á fundi stjórnar 5. maí 2009 var hins vegar ákveðið að fresta frekari viðræðum þar sem fyrir lægi að breyta lögum um sparisjóði.

Í júlí 2009 voru uppi hugmyndir um sameiningu sparisjóða á Norður- og Austurlandi þar sem stofnaður yrði einn öflugur sparisjóður. Á stjórnarfundi 16. júlí undirritaði stjórn viljayfirlýsingu um sameiningu sparisjóðanna. Horft var til þess að fá aðstoð ríkisins en Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. sá um undirbúning þessara mála. Ekkert varð úr þessum sameiningaráformum.

Á aðalfundi sparisjóðsins 26. apríl 2010 voru nokkrar umræður um mögulega sameiningu sparisjóðsins við Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis eða aðra sparisjóði, t.d. Sparisjóð Höfðhverfinga, en ekkert lá fyrir í þeim efnum á þeim tíma. Ári síðar, á aðalfundinum 8. maí 2011, var samþykkt heimild til stjórnar að hefja viðræður við „nærliggjandi sparisjóði um aukið samstarf eða sameiningu“.

Samkvæmt stjórnarfundargerð Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 14. júní 2011 var „mikill þrýstingur“ frá Bankasýslu ríkisins um sameiningu sparisjóða. Bankasýslan vildi helst sameina alla sparisjóði á landinu í einn sparisjóð en hún átti þá eignarhluti í Sparisjóði Bolungarvíkur (90,9%), Sparisjóði Svarfdæla (90%), Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis (75,8%), Sparisjóði Vestmannaeyja (55,3%) og Sparisjóði Norðfjarðar (49,5%). Aðrir sparisjóðir sem voru starfandi á þessum tíma voru Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Strandamanna og Sparisjóður Suður-Þingeyinga en Sparisjóður Ólafsfjarðar og Afl sparisjóður voru þá í meirihlutaeigu Arion banka hf. Stjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga taldi sameiningu allra sparisjóða ekki koma til greina og var ákveðið að ganga til sameiningarviðræðna við Sparisjóð Svarfdæla og Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis. Fundir voru haldnir með fulltrúum sparisjóðanna, Bankasýslu ríkisins og fjármálaráðherra vegna þessa en ekki náðist samkomulag milli sparisjóðanna.110 Sparisjóður Svarfdæla dró sig síðan út úr viðræðunum á haustmánuðum 2011. Sameiningarviðræður við Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis héldu þó áfram fram á árið 2012 en voru í nokkrum hægagangi framan af. Stjórnarformaður sparisjóðs Suður-Þingeyinga og fyrrverandi sparisjóðsstjóri tjáðu rannsóknarnefndinni að vegna þess hve varasjóður var stórt hlutfall af eigin fé Sparisjóðs Suður-Þingeyinga miðað við aðra sparisjóði, hefði sameining verið honum óhagstæð vegna skiptihlutfalla. Stofnfjáreigendur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga hefðu fengið lítinn hluta af sameinuðum sparisjóði en kæmu með mikið eigið fé.111 Nokkur skriður komst á viðræðurnar um sumarið þegar Bankasýsla ríkisins átti aðkomu að viðræðunum og voru m.a. uppi hugmyndir um að auka hlut stofnfjáreigenda þannig að Bankasýslan og Tryggingasjóðurinn112 ættu minnihluta, og lýstu fulltrúar Bankasýslunnar yfir vilja til þess að kanna slíka sameiningarleið þótt hún rýrði eignarhlut Bankasýslunnar. Á hinn bóginn lá þá fyrir frumvarp til laga113 um sparisjóði á Alþingi sem talið var geta haft áhrif á samrunahugmyndir sparisjóðanna.114 Var óskað eftir lögfræðiáliti um túlkun laganna þar sem talið var að lögin þyrftu ekki að stangast á við hugmyndir sparisjóðanna um samruna og skiptihlutföll.115 Gengu sameiningarviðræðurnar svo langt að undirrituð var samrunaáætlun 20. september 2012 en drög að henni höfðu verið afhent starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins á fundi í lok ágúst.116 Fjármálaeftirlitið gaf ekki upp afstöðu sína til samrunaáætlunarinnar með formlegum hætti „þó raunar lægi fyrir að stofnunin myndi ekki fallast á hana“.117 Í tölvuskeyti frá Fjármálaeftirlitinu til stjórnarformanns Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 15. nóvember 2012 sagði:

Eins og fram kom í símtali okkar um daginn þá virðist mér að samrunaáætlun Sparisjóðs Suður Þingeyinga og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis eins og hún er sett fram ekki samræmast lögum um fjármálafyrirtæki. Samrunaáætlunin miðast við það að endurgjald fyrir yfirtekna sjóðinn fari eftir eignarhlutföllum eigin fjár hins sameinaða sparisjóðs. Það virðist ekki samræmast 2. mgr. 72. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki [eftir lagabreytinguna með lögum nr. 77/2012] en samkvæmt ákvæðinu skal endurgjald til yfirtekins sjóðs, þegar um samruna sjálfseignarstofnana er að ræða, vera í samræmi við hlutdeild stofnfjár í eigin fé sparisjóðsins eins og það var samkvæmt efnahagsreikningi við sameininguna.118

Sparisjóðurinn leit svo á að Fjármálaeftirlitið hefði þar með hafnað samrunaáætlun sparisjóðanna tveggja en fulltrúi hans átti þó fund með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins 8. janúar 2013 til að leita annarra leiða til að ná markmiðum áætlunarinnar og sparisjóðsins.119 Í kjölfarið sendi Ari Teitsson, stjórnarformaður sparisjóðsins, Fjármálaeftirlitinu tillögu að formbreytingu vegna rekstrar sparisjóðsins sem miðaði að því að tryggja, við hugsanlegan samruna sparisjóðsins við aðra sparisjóði, „þau staðbundnu samfélagslegu markmið sem sjóðurinn hafði“. Í hugmyndinni fólst að „flytja óráðstafað eigið fé sjóðsins við breytingar á rekstrarformi yfir í sérstaka sjálfseignarstofnun sem hafi þann tilgang að vinna að fyrri samfélagslegum markmiðum“.120 Í svari Fjármálaeftirlitsins 14. febrúar 2013 var greint frá þeirri niðurstöðu að Fjármálaeftirlitið teldi tillögur sparisjóðsins eins og þeim var lýst ekki samræmast ákvæðum VIII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 68. gr. laganna.

27.7 Arður af stofnfjáreign

Sparisjóður Suður-Þingeyinga greiddi stofnfjárhöfum 10% arð af stofnfé þeirra óslitið frá 2000 til 2009 vegna næstliðinna rekstrarára, með þeirri undantekningu að arðgreiðslan árið 2001 nam 12% af stofnfé. Samtals námu þessar arðgreiðslur tæpum tíu milljónum króna, þar af voru 4,7 milljónir króna greiddar 2009 vegna ársins 2008. Greiðsla arðs á þessum árum var í samræmi við reglur Tryggingasjóðs sparisjóða, nema vegna ársins 2008 en þá var greiddur tvöfalt hærri arður en heimilt var samkvæmt reglunum, eða 10% í stað 5% og munaði þar rúmum 2,3 milljónum króna. Þessi skerðing á arðgreiðsluhlutfallinu var vegna þess að sparisjóðurinn var rekinn með tapi árið 2008.121

Reglur Tryggingasjóðs giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt og eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.122 Því var ekki greiddur arður vegna ársins 2009 sökum taprekstrar það ár. Vegna áranna 2010 og 2011 var svo aftur greiddur arður en þá samkvæmt breyttum lögum. Vegna síðarnefnda ársins var mestur hluti arðgreiðslunnar færður til hækkunar á stofnfénu en afgangurinn greiddur stofnfjárhöfum í reiðufé. Arðgreiðslur og forsendur þeirra eru tíundaðar í töflu 19.

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.123 Árin 2005–2009 var stofnfé Sparisjóðs Suður-Þingeyinga hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um 6,3 milljónir króna. Framkvæmdin var ekki fyllilega í samræmi við reglur. Endurmati vegna ársins 2006 var ekki bætt við stofnféð í árslok heldur var því bætt við stofnféð á árinu 2007 ásamt endurmati vegna þess árs, sem út af fyrir sig var leyfilegt. Hins vegar var endurmat á árinu 2009 upp á rúmar 4,2 milljónir króna óheimilt því samkvæmt lögum nr.76/2009 var ekki heimilt að verðbæta stofnfé ef tap var af rekstrinum. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2009.

Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.124 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Á aðalfundum sparisjóðsins 2005–2009 var samþykkt að hækka stofnfé í lok næstliðins árs um 5%. Þetta var í samræmi við lög, að undantekinni samþykktinni 2009, því tap var af rekstri sparisjóðsins árið 2008. Af þeim sökum var hækkun stofnfjár þá um rúmar 2,3 milljónir króna með sérstöku endurmati óheimil.

Í töflu 19 eru tilfærðar allar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

27.8 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og áhrif þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2011.

27.8.1 Innri endurskoðun

Sparisjóður Suður-Þingeyinga starfrækti ekki eigin endurskoðunardeild á því tímabili sem til athugunar var, en Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá rekstri eigin innri endurskoðunardeildar í kjölfar þess að sparisjóðurinn gerði samning við KPMG Endurskoðun hf. um innri endurskoðun.125 Annaðist KPMG innri endurskoðun sparisjóðsins frá árinu 2005 til 2010 en PricewaterhouseCoopers hf. tók við innri endurskoðun sparisjóðsins frá og með starfsárinu 2011.

Í skýrslu vegna innri endurskoðunar ársins 2005 var fjallað um mikilvægi þess að stjórn og sparisjóðsstjóri væru meðvituð um þá áhættu sem fylgdi smæð sparisjóðsins og því að hafa ekki fulla aðgreiningu starfa. Talið var æskilegt að stjórn sparisjóðsins fjallaði sérstaklega um áhættustýringu og innra eftirlit að minnsta kosti einu sinni á ári. Einnig var bent á að sparisjóðurinn þyrfti að setja sér stefnu, ákveða markmið og öryggiskröfur til reksturs upplýsingakerfa í samræmi við leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2005. Við innri endurskoðun ársins 2006 ítrekaði KPMG ábendingu frá árinu 2005 um að það væri á ábyrgð stjórnar sparisjóðsins að taka afstöðu til öryggisstefnu, áhættumats og reglna um öryggisráðstafanir varðandi rafræna vinnslu. Gerð var athugasemd við að formaður stjórnar sparisjóðsins sæti í stjórn eins stærsta viðskiptavinar sparisjóðsins en haft var eftir stjórn að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða til að tryggja hagsmuni sparisjóðsins. Þá var gerð athugasemd við útreikning á heildaráhættuskuldbindingu lánahóps tengdum ferðaþjónustufyrirtæki, sem tók ekki tillit til hlutafjáreignar sparisjóðsins, og lán til sveitarfélags sem var umfram samþykkta heildarfyrirgreiðslu.126

Í skýrslu um innri endurskoðun vegna ársins 2007 voru gerðar athugasemdir við talningar sjóðsins og að ekki væri fylgt eftir lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá var bent á nauðsyn á skýrum útlánareglum og útlánaheimildum, gefnar ábendingar um uppáskriftir og afstemmingar, skort á fjárfestingarstefnu um lausafé sparisjóðsins og skort á skriflegum verklagsreglum. Við innri endurskoðun vegna ársins 2008 var vísað til athugasemda Fjármálaeftirlitsins um upplýsingatæknimál sjóðsins og bent á að brýnt væri að þeim yrði komið í lag svo að lögum og reglum sem sett hefðu verið um upplýsingatækni væri fylgt. Könnun KPMG leiddi í ljós að skuldbindingar þriggja viðskiptamanna sparisjóðsins fóru yfir 25% af eigin fé sparisjóðsins. Í tveimur tilfellum var það vegna gengisbreytinga erlendra lána. Bent var á að þegar slíkar aðstæður kæmu upp þyrfti sparisjóðurinn að gera Fjármálaeftirlitinu viðvart og greina frá til hvaða aðgerða sparisjóðurinn hygðist grípa.

Gerðar voru athugasemdir við útlánaheimildir í tölvukerfum við innri endurskoðun vegna ársins 2009 og að þær væru ekki í samræmi við útlánareglur sjóðsins í einhverjum tilvikum. Þá vantaði víða skriflegar verklagsreglur. Bent var á að brýnt væri að ganga frá skipuriti fyrir sparisjóðinn og skýra þannig ábyrgðarsvið hvers og eins. Sparisjóðurinn fór yfir hámark stórra áhættuskuldbindinga á árinu og leiddi könnun KPMG í ljós frávik frá skilgreiningu á vensluðum aðilum.127 Við innri endurskoðun vegna ársins 2010 voru ítrekaðar ýmsar athugasemdir frá fyrri árum. Könnun KPMG leiddi í ljós að skuldbindingar tveggja viðskiptamanna sparisjóðsins voru yfir 25% af eiginfjárgrunni. Sérstök undanþága var fengin frá Fjármálaeftirlitinu vegna annars lánahópsins en ekki hins. KPMG benti á nauðsyn þess að gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir of stórum áhættuskuldbindingum og hvernig sparisjóðurinn hygðist koma þeim undir tilskilið lágmark. Þá var bent á að vanda þyrfti betur gerð skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar og gæta þess að allir sem skilgreindir væru sem venslaðir aðilar kæmu fram í skýrslu um fyrirgreiðslu við venslaða aðila.

PricewaterhouseCoopers annaðist innri endurskoðun vegna ársins 2011. Helstu niðurstöður innri endurskoðunar voru að áhættumat þar sem áhættuþættir væru skilgreindir heildstætt og með formlegum hætti hefði ekki farið fram. Þá var gerð athugasemd við virkni áhættustýringar með gjaldeyrisjöfnuði. Sparisjóðurinn hafði hins vegar sett reglur um viðbrögð við helstu áhættuþáttum. Gerðar voru athugasemdir við að ekki væri til staðar skipurit hjá sparisjóðnum og að lítið væri til af skráðum verklags- og vinnureglum. Einnig að gögn sem lægju fyrir við ákvörðun einstakra lánveitinga væru ekki nægilega ítarleg til þess að einstakir stjórnarmenn gætu tekið rökstuddar ákvarðanir. Við innri endurskoðun komu fram frávik við yfirferð áreiðanleika skýrslna til opinberra aðila og við skoðun á samþykktarferli rekstrar- og launakostnaðar þar sem gögn báru ekki með sér að þau hefðu verið samþykkt.128

Á þeim árum sem til skoðunar voru má sjá að ítrekað komu fram sömu ábendingar og athugasemdir í skýrslum innri endurskoðanda. Í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2007 til 2010 var bent á að nauðsynlegt væri að telja viðskiptabréf sparisjóðsins reglulega og að niðurstöður talninga lægju fyrir; að gott væri að til væri fjárfestingarstefna um lausafé sparisjóðsins; og nauðsyn þess að koma upp öryggismyndavélum og að myndefni þeirra væri vistað og geymt. Einnig var bent á mikilvægi þess að starfsmenn noti einungis sinn aðgang að kerfum sparisjóðsins og gerð var athugasemd við lykilorðanotkun. Ítrekuð var sú ábending að sparisjóðurinn fylgdi þeim athugasemdum sem Fjármálaeftirlitið hefði gert árið 2008 varðandi upplýsingatæknimál sparisjóðsins og að þeim yrði komið í lag. Lagt var til að sparisjóðurinn kæmi sér upp skriflegum verklagsreglum um úthlutun styrkja starfsmönnum til leiðbeiningar í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2009 og 2011. Í sömu skýrslum, og einnig skýrslu vegna ársins 2010, var bent á að brýnt væri að til væri skipurit fyrir sparisjóðinn þar sem ábyrgðarsvið hvers og eins væri skýrt. Einnig var ítrekað bent á mikilvægi þess að sparisjóðurinn héldi sig innan marka í gjaldeyrisjöfnuði og þess yrði gætt að allir sem skilgreindir væru sem venslaðir aðilar kæmu fram í skýrslu um fyrirgreiðslu til slíkra aðila.

 


 

1 . Uppruni Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, skjal útbúið af Sparisjóði Suður-Þingeyinga fyrir rannsóknarnefndina samkvæmt beiðni, 21. janúar 2013.

2 . Samþykktir Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 8. maí 2011. Í þeim samþykktum segir að sparisjóðurinn sé sjálfseignarstofnun, en þess hafði ekki verið getið í fyrri samþykktum. Þá var samfélagslegs hlutverks sparisjóðsins heldur ekki getið með sambærilegum hætti í fyrri samþykktum sparisjóðsins. Í samþykktunum er víða vísað til starfssvæðis sparisjóðsins eða svæðisins án þess að það sé sérstaklega afmarkað eða skilgreint.

3 . „Frá starfi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga“, spar.is 12. maí 2011, http://www.spar.is/spthin-sudur-thingeyinga/frettir/nanar/267/fra-starfi-sparisjods-sudur-thingeyinga.

4 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

5 . Nánar er fjallað um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla.

6 . Útreikningur á vaxtamun er skýrður í 8. kafla um reikningsskil sparisjóðanna.

7 . Staða afskriftareiknings útlána sem hlutfall af heildarútlánum.

8 . Nánar er fjallað um útlán sparisjóðsins í kafla 27.2.

9 . Um launaþróun sparisjóðanna í heild er fjallað í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna. Þar má jafnframt lesa almennt um risnu og fríðindi starfsmanna sparisjóðanna.

10 . Útreikningur á kjarnarekstri er skýrður nánar í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

11 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 30. mars 2006.

12 . Settur fjármálaráðherra setti reglur 18. desember 2008 um framlag til sparisjóða samkvæmt 2. gr. laga nr. 125/2008.

13 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

14 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

15 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði S-Þingeyinga 16. nóvember 2005.

16 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði S-Þingeyinga 16. nóvember 2005.

17 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um athugun hjá Sparisjóði S-Þingeyinga 16. nóvember 2005.

18 . Í lánareglunum var tekið fram að miðað væri við eigið fé eins og það var skilgreint í 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

19 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

20 . Nánari umfjöllun um þetta misræmi má finna í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.

21 . Nánari umfjöllun um aðferðafræði, forsendur og gögn má finna í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.

22 . Sjá nánari umfjöllun í 6. og 9. kafla.

23 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um nánari skilgreiningu á lánahópi vísast til umfjöllunar í 9. kafla.

24 . Sjá 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

25 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

26 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013; skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013. Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar 4. mars 2014 benti Guðmundur á að þetta hefði verið gert að kröfu ytri endurskoðanda til að jafna áhættuna þar sem sparisjóðurinn var kominn yfir mörk hvað áhættuskuldbindingar áhrærði.

27 . Starfsreglur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána, desember 2003.

28 . Byggt á skýrslum Sparisjóðs Suður-Þingeyinga um stórar áhættuskuldbindingar.

29 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2005, 13. desember 2005.

30 . Um sölu á þegar útgefnu hlutafé var að ræða en ekki hlutafjáraukningu með nýju hlutafé. Hins vegar má líta til þess að hlutafé félagsins var skráð 500.000 krónur á árinu 1999. Samkvæmt ársreikningum félagsins nam hlutafé þess 64.481.271 krónu árið 2003, 64.500.000 krónum árið 2004 og 138.500.000 krónum árið 2005 o.áfr. Hins vegar var ekki tilkynnt um hækkun hlutafjár til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra fyrr en 15. desember árið 2010, úr 500.000 krónum í 138.500.000 krónur.

31 . Tölvuskeyti Ara Teitssonar til rannsóknarnefndar Alþingis 3. júlí 2013.

32 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 21. september 2006; „Fyrirtækjaskrá“, rsk.is, http://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/arsreikn/felog.

33 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Suður-Þingeyinga til rannsóknarnefndarinnar 4. apríl 2013.

34 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013.

35 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2006. Í athugasemd frá sparisjóðnum 17. september 2013 var bent á að Ara Teitssyni hafi sérstaklega verið falið af stjórn sparisjóðsins að fylgjast með rekstri fyrirtækjanna vegna stöðu þeirra gagnvart sparisjóðnum og því nauðsynlegt að hann gerði stjórn reglulega grein fyrir stöðu fyrirtækjanna.

36 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 11. júní 2013.

37 . Sama athugasemd var gerð í skýrslum innri endurskoðanda á árunum 2009 og 2010. Ekki var fjallað sérstaklega um stærstu viðskiptamenn sjóðsins í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2011.

38 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2008, 26. mars 2009.

39 . Í 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er hámarkið 25%. Sjá nánari umfjöllun í 6. kafla.

40 . Ábyrgðir á skuldbindingum aðila við fjármálastofnun koma til frádráttar á skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar sbr. 4. gr. þágildandi reglna nr. 531/2003.

41 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2006.

42 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 13. apríl 2007.

43 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 22. apríl 2008.

44 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 3. júní 2008.

45 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2007.

46 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2008, 26. mars 2009. Á skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar í árslok 2008 var ábyrgð vegna lánahópsins 52 milljónir króna. Í tölvuskeyti frá Önnu Dóru Snæbjörnsdóttur sparisjóðsstjóra til rannsóknarnefndarinnar 1. ágúst 2013 kemur fram að sú ábyrgð hafi öll verið veitt af Sparisjóðabankanum.

47 . Samkvæmt skýrslu innri endurskoðunar var framlag í afskriftareikning vegna hópsins 15 milljónir króna í árslok 2008.

48 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 7. október 2008; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 12. nóvember 2008.

49 . Skýrsla Sparisjóðs Suður-Þingeyinga um stórar áhættuskuldbindingar, 31. desember 2008.

50 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 23. ágúst 2013. Í bréfinu kemur fram að á þessum tíma hafi sparisjóðurinn verið í sameiningarviðræðum við Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis auk þess sem uppi voru álitamál um lögmæti eins lánsins sem var í erlendri mynt og hélt Fjármálaeftirlitið því að sér höndum til að bíða niðurstöðu í þeim málum. Samkvæmt bréfinu voru öll lán innan marka í lok árs 2012.

51 . Bréf Sparisjóðs Suður-Þingeyinga til Fjármálaeftirlitsins 8. maí 2009.

52 . Sambærilegt ákvæði er að finna í 7. gr. gildandi reglna nr. 625/2013 um stórar áhættur hjá fjármálafyrirtækjum.

53 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 11. maí 2009.

54 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 23. ágúst 2013.

55 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2010, 29. apríl 2011.

56 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 23. ágúst 2013.

57 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013; skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

58 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013.

59 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Suður-Þingeyinga til rannsóknarnefndarinnar 20. febrúar 2013.

60 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Suður-Þingeyinga til rannsóknarnefndarinnar 27. ágúst 2013.

61 . Sjá nánari umfjöllun framar, þar sem rætt er um lánahóp í ferðaþjónustu.

62 . Skýrslur um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2005–2011.

63 . Miðað var við 20% lágmarks eignarhlut.

64 . Mögulegt er að ekki hafi öll útlán komið fram í útlánagrunni sparisjóðsins og eru upplýsingarnar því settar fram með þeim fyrirvara.

65 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5, 9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.

66 . Ársreikningur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2002. Sjá skýringu nr. 16.

67 . Ársreikningur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2002. Í endurskoðunarskýrslu þess árs gagnrýndi endurskoðandi að söluhagnaður af verðbréfum væri látinn bera uppi hagnað sjóðsins. Gerði hann sérstaklega athugasemd við framlag í afskriftareikning sem hann taldi of hátt og hafði talið það of hátt síðustu tvö ár þar á undan.

68 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 26. apríl 2005.

69 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2. febrúar 2006. Nánar er fjallað um málefni VBS Fjárfestingarbanka hf. í 10. kafla, um fjárfestingar sparisjóðanna.

70 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013.

71 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

72 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013.

73 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 30. janúar 2008.

74 . Gengishagnaður, arðstekjur og hlutdeildartekjur.

75 . Ársreikningur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2011. Sjá skýringu 13.

76 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

77 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

78 . Byggt á lausafjáryfirlitum Sparisjóðs Suður-Þingeyinga.

79 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins, sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.

80 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 11. júní 2013.

81 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 2005–2011; ársreikningar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2005–2011.

82 . Ársreikningar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2001–2011; aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 8. maí 2011.

83 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 29. apríl 2008.

84 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013.

85 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

86 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

87 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013.

88 . Hinir tveir voru Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóður Bolungarvíkur. Samkvæmt tölvuskeyti frá Ara Teitssyni til rannsóknarnefndarinnar 10. ágúst 2013 tók hvorugur þeirra þátt í stofnfjáraukningunni.

89 . Bréf Guðmundar E. Lárussonar til Ragnars Z. Guðjónssonar 27. nóvember 2008. Í bréfinu var vísað til þess að hefðbundnir stofnfjáreigendur væru 252 talsins, allir með jafnan hlut. Hins vegar ættu þrír sparisjóðir stofnfé í sparisjóðnum sem væri arfur frá rekstrarerfiðleikum Sparisjóðs Mývetninga. Var þeim boðið aukið stofnfé til kaupa umfram hámarkið eða í hlutfalli við fyrra stofnfé sitt. Samkvæmt tölvuskeyti Ara Teitssonar til rannsóknarnefndarinnar 9. ágúst 2013 áttu allir stofnfjáreigendur jafnan stofnfjárhlut í sparisjóðnum, upp á 17.714 krónur, í lok árs 2007, nema Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóður Bolungarvíkur. Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Hafnarfjarðar áttu því hvor um sig 17.714 króna stofnfjáreign í sparisjóðnum á þeim tíma en þeir sameinuðust í Byr sparisjóð á síðari hluta árs 2008.

90 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 2005–2011.

91 . Ársreikningur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2008.

92 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Suður-Þingeyinga til rannsóknarnefndarinnar 21. ágúst 2013.

93 . Nánar er fjallað um lög nr. 125/2008 og reglur um eiginfjárframlög til sparisjóða í 13. kafla.

94 . Tölvuskeyti fjármálaráðuneytisins til rannsóknarnefndarinnar 20. ágúst 2013.

95 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013.

96 . Bréf Seðlabanka Íslands til sparisjóða 8. september 2009.

97 . Ákvörðun bankastjóra Seðlabanka Íslands nr. 1028, 1. febrúar 2010. Um bréf Seðlabanka Íslands, kjör hans og skilmála má lesa í 13. kafla.

98 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis 8. febrúar 2010. Frekari umfjöllun um kröfur Fjármálaeftirlitsins er í 13. kafla.

99 . Tölvuskeyti Stefáns Þórs Sigtryggssonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands, til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra 26. maí 2010.

100 . Nánar er fjallað um Eftirlitsstofnun EFTA og ákvarðanir hennar í 13. kafla.

101 . „Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða“, fme.is, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/650.

102 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 24. mars 2010.

103 . Samkomulag um uppgjör reikningslána milli Seðlabanka Íslands og Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 28. desember 2010.

104 . Bréf Seðlabanka Íslands til Rannsóknarnefndar Alþingis 7. febrúar 2013.

105 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013.

106 . Ársreikningur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2012.

107 . Skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 11. júní 2013..

108 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga til Sparisjóðsins í Keflavík 27. ágúst 2007.

109 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 26. september 2007; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 25. október 2007.

110 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 24. ágúst 2011.

111 . Skýrsla Guðmundar E. Lárussonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. apríl 2013; skýrsla Ara Teitssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 10. apríl 2013; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 10. maí 2012.

112 . Tryggingasjóðurinn átti aðkomu að fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis. Sjá nánari umfjöllun í 23. kafla.

113 . Um er að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki sem tók sérstaklega til sparisjóðanna. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 19. júní 2012 sem lög nr. 77/2012 er tóku gildi 29. sama mánaðar.

114 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, 12. júní 2012.

115 . Lögfræðiálit Vífils Harðarsonar, túlkun á lögum, 10. júlí 2012.

116 . Tölvuskeyti Ara Teitssonar til Fjármálaeftirlitsins 7. nóvember 2012.

117 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 30. janúar 2013.

118 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til Ara Teitssonar 15. nóvember 2012.

119 . Tölvuskeyti Ara Teitssonar til Ólafs Orrasonar 27. desember 2012.

120 . Tillaga um formbreytingu vegna rekstrar Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, 17. janúar 2013.

121 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.

122 . Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

123 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

124 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

125 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2006.

126 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2006.

127 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2009.

128 . Skýrsla um innri endurskoðun Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 2011.