31. kafli – Sparisjóðabanki Íslands

31. Sparisjóðabanki Íslands

Lánastofnun sparisjóðanna hf. var stofnuð í september 1986 af 38 sparisjóðum. Lánastofnunin var sett á laggirnar á grundvelli heimildar sem sparisjóðunum á Íslandi var veitt árið 1985 með lögum nr. 87/1985 um sparisjóði, til að stofna sameiginlega lánastofnun sem þjónusta átti sparisjóðakerfið á Íslandi.1 Stofnunin tók til starfa í febrúar 1987 og var Sigurður Hafstein ráðinn framkvæmdastjóri. Lánastofnunin var hlutafélag og starfaði samkvæmt lögum um þau, sbr. 2. mgr. 57. gr. laga nr. 87/1985.

Lánastofnunin skyldi starfa í þágu sameiginlegra hagsmuna sparisjóðanna, auka rekstrarhagkvæmni og styrkja samkeppnishæfi þeirra gagnvart ríkisbönkunum. Lánastofnunin var í raun reikningsbanki sparisjóðanna og var samið við Seðlabanka Íslands um að opna einn viðskiptareikning sem þjónustaði Lánastofnunina og kæmi í stað viðskiptareikninga sem hver sparisjóður fyrir sig átti hjá Seðlabankanum. Lánastofnunin sæi síðan um þjónustu við einstaka sparisjóði.2 Lánastofnunin þjónustaði sparisjóðina á sviði alþjóðaviðskipta, lausafjárstýringar og fjármögnunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Ætlunin með þessari þjónustu var meðal annars að aðstoða sparisjóðina við að jafna út árstíðabundnar sveiflur í rekstri, sem voru með misjöfnum hætti hjá einstökum sjóðum, með einfaldari og hagkvæmari aðgangi að lánsfé.

Lög nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði tóku gildi 1. júlí 1993. Með lögunum voru innleiddar fjölmargar tilskipanir Evrópusambandsins um fjármálaviðskipti auk þess sem lagabálkum um viðskiptabanka og sparisjóði var steypt saman í einn. Í kjölfar gildistöku laganna var Lánastofnun sparisjóðanna hf. breytt í viðskiptabanka undir nafninu Sparisjóðabanki Íslands hf. Sigurður Hafstein varð bankastjóri og gegndi því starfi til ársins 2002 þegar Finnur Sveinbjörnsson tók við. Í byrjun árs 2008 tók Agnar Hansson við af Finni og var bankastjóri þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans með ákvörðun sinni 21. mars 2009.

Fyrst í stað var starfsemi Sparisjóðabanka Íslands hf. ekki mjög frábrugðin þeirri sem verið hafði í Lánastofnun sparisjóðanna hf. Hann fór þó að veita öðrum en sparisjóðum útlán og hljóp til dæmis undir bagga með sparisjóðunum með lán til viðskiptavina þeirra sem voru of stór fyrir þá eina. Upp úr aldamótum fór Sparisjóðabankinn að færa sig fjær því að vera eingöngu þjónustubanki sparisjóðanna. Á hluthafafundi Sparisjóðabankans 30. nóvember 2006 var nafni hans breytt í Icebank hf. sem talið var þjálla vegna fyrirætlana um aukna starfsemi bankans erlendis. Í október 2008 var nafninu síðan aftur breytt í Sparisjóðabanka Íslands hf.

Stjórnarformaður bankaráðs Sparisjóðabankans frá 2001 til 2008 var Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík. Meðstjórnarmenn hans fyrir hönd sparisjóðanna á tímabilinu voru Friðrik Friðriksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla, Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Hallgrímur Jónsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs vélstjóra, Þór Gunnarsson og Jónas Reynisson, sparisjóðsstjórar Sparisjóðs Hafnarfjarðar, Ragnar Z. Guðjónsson og Magnús Ægir Magnússon, sparisjóðsstjórar Byrs sparisjóðs, og Gísli Kjartansson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu. Árið 2007 komu nýir eigendur að Sparisjóðabankanum og í fyrsta skipti sátu í stjórn hans aðilar sem ekki voru sparisjóðsstjórar. Inn kom Grímur Sæmundsen fyrir hönd SM1 ehf. sem átti 9,5% hlut í bankanum og Steinþór Jónsson fyrir hönd Bergsins ehf. sem átti þá einnig 9,5% hlut í bankanum. Steinþór var jafnframt varamaður í stjórn Sparisjóðs Keflavíkur hluta þess tíma sem hann sat í stjórn Sparisjóðabankans.

Umsvif Sparisjóðabanka Íslands hf. jukust samhliða auknum umsvifum sparisjóðanna. Heildareignir bankans nánast fimmfölduðust frá 1997 til 2001, úr 11 milljörðum króna í árslok 1997 í 54 milljarða króna í árslok 2001. Á sama tíma ríflega tvöfölduðust heildareignir allra sparisjóðanna úr 70 milljörðum króna í árslok 1997 í 161 milljarð króna í árslok 2001.

Frá 2001 til 2008 varð töluverð breyting á rekstrarumhverfi Sparisjóðabankans. Með betra aðgengi að fjármagni erlendis gátu meðalstórar íslenskar fjármálastofnanir, eins og stærstu sparisjóðirnir, séð hag sínum betur borgið með því að sækja sjálfar fjármagn erlendis í stað þess að nýta millilið eins og Sparisjóðabankann. Stærstu eigendur bankans, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður, efldu innanhússtarfsemi sína á þeim sviðum sem Sparisjóðabankinn hafði sinnt, og smám saman varð ljós áhugi þeirra á að selja hluti sína í bankanum. Á árinu 2007 komu í fyrsta sinn aðilar í hóp eigenda Sparisjóðabankans sem ekki voru sparisjóðir eða félög á vegum þeirra.

Upp úr aldamótum fór Sparisjóðabankinn að skoða leiðir til þess að aðlagast breyttu samkeppnisumhverfi. Til greina kom að leggja bankann niður en ákveðið var að efla hann á öðrum vettvangi en þeim sem hann hafði starfað á áður. Leita skyldi nýrra viðskiptavina, færa hluta starfseminnar til útlanda, bjóða upp á nýjar vörur og þjónustu og breyta eignarhaldi bankans. Þessi breytta stefna hafði afgerandi áhrif um afkomu og afdrif Sparisjóðabanka Íslands hf.

Efnahagur bankans jókst hratt árið 2007 en dróst snögglega saman aftur árið eftir. Í lok árs 2008 var fjárhagsstaða bankans afleit, tap af rekstri á árinu var 193,7 milljarðar króna, eigið fé neikvætt um 180,1 milljarð króna og eiginfjárhlutfall samkvæmt 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki -106,7%. Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans 21. mars 2009.

31.1 Eignarhald og stefnumótun

Stjórnendur og eigendur Sparisjóðabankans voru vakandi fyrir þeim breytingum sem áttu sér stað í starfsumhverfi bankans og sparisjóðanna upp úr aldamótum. Umræða innan Sambands íslenskra sparisjóða einkenndist af ólíkum skoðunum á því hvernig takast ætti á við nýjar áskoranir. Árið 2001 voru gerðar grundvallarbreytingar á lagaumhverfi sparisjóða á Íslandi með lögum nr. 71/2001 um breytingu á lögum nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði. Í athugasemdum með frumvarpinu kom fram að breytingarnar væru gerðar til þess að veita sparisjóðum heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag, gera stofnfjárbréf sparisjóða að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti og heimila að stofnfjáreigendur kysu alla fimm stjórnarmenn sparisjóðs en áður höfðu sveitarfélög eða héraðsnefndir skipað tvo stjórnarmenn af fimm.3

Þessar breytingar höfðu átt sér nokkurn aðdraganda en einhverjir sparisjóðanna höfðu haft hug á að afla sér eigin fjár með því að gefa út hlutafé til þess að efla starfsemi sína frekar. Var því meðal annars haldið á lofti að hlutafé væri auðseljanlegra en stofnfé. Skiptar skoðanir voru um það hvort væri auðseljanlegra, en ekki verður deilt um að lagasetningin hafði mikil áhrif á sparisjóðina og samstarf þeirra. Sumir höfðu hug á að stækka og hlutafjárvæðast meðan aðrir vildu halda í hefðbundnari og smærri útgáfur sparisjóða. Í framhaldi af því vöknuðu upp spurningar um hlutverk Sparisjóðabankans. KPMG ráðgjöf kynnti skýrslu um úttekt og mat á stöðu bankans á hluthafafundi hans 4. október 2001. Í skýrslunni voru lagðar til fjórar leiðir um framtíðarstarfsemi bankans; leið 1a um óbreyttan rekstur bankans, leið 1b um straumlínulögun og afmörkun á starfseminni og leið 1c um útvíkkun á starfseminni. Í öllum tilvikum var gert ráð fyrir óbreyttu eignarhaldi. Fjórða leiðin, leið 2, gerði ráð fyrir sameiningu við Kaupþing.

Með skýrslunni var lagður grunnur að stefnumótun bankans. Ákveðið var að móta leið sem byggði á leið 1b og leið 1c þar sem stefnan yrði mikið til óbreytt að öðru leyti en því að áhætta af markaðsviðskiptum yrði lágmörkuð. Með það að leiðarljósi seldi bankinn eignarhluti sína í Alþjóða líftryggingarfélaginu hf. og SP-Fjármögnun hf. á árunum 2001 og 2002.

Sigurður Hafstein hafði samhliða bankastjórastöðunni gegnt stöðu framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sparisjóða og framkvæmdastjóra Tryggingasjóðs sparisjóða, auk þess sem hann sinnti fjölda verkefna í stjórnar- og nefndarstörfum í sameiginlegum fyrirtækjum sparisjóða. Með vaxandi umsvifum bankans þótti nauðsynlegt að bankastjóri sinnti því starfi alfarið og eingöngu. Úr varð að í ársbyrjun 2002 lét Sigurður af störfum sem bankastjóri og Finnur Sveinbjörnsson var ráðinn til starfans. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði Finnur svo frá tildrögum þess að hann tók við:

Þegar ég kem þarna inn 2002, þá eru búnar að vera töluvert miklar deilur innan sparisjóðakerfisins, þ.á m. um bankann. […] Efnahagslífið var erfitt eftir aldamótin og afkoma bankans hafði verið slæm. Eins voru ýmis innri mál ekki eins og best var á kosið þannig að partur af sátt sem náðist meðal sparisjóðanna seint á árinu 2001 – gott ef það var ekki á sparisjóðaþingi sem var haustið 2001 – er að það verði ráðinn sérstakur bankastjóri yfir bankanum. Í þessu fólst að tvöfalda hlutverkinu sem Sigurður Hafstein hafði gegnt yrði skipt upp. Það er Guðmundur Hauksson sem hefur samband við mig fyrir hönd sparisjóðanna og úr verður að ég kem til bankans.4

Deilurnar sem Finnur vísar til snerust meðal annars um stöðu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og framtíð sparisjóðakerfisins. Í umsögn Sambands íslenskra sparisjóða um frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki frá nóvember 2002 komu fram áhyggjur af brotthvarfi sparisjóða úr samstarfinu. Mikilvægir þættir í rekstri sparisjóðanna, eins og tölvu- og upplýsingakerfi þeirra og Sparisjóðabankinn, væru samreknir og hyrfu sparisjóðir úr samstarfinu myndi það í flestum tilvikum leiða til kostnaðarhækkunar fyrir þá sem eftir stæðu, sem gæti orðið þeim óviðráðanleg.5

Um svipað leyti voru bankarnir einkavæddir og samkeppnisumhverfi sparisjóðanna og Sparisjóðabankans breyttist. Öflugir bankar veittu sparisjóðunum harða samkeppni sem meðal annars birtist í sókn þeirra inn á fasteignalánamarkaðinn árið 2004. Þá höfðu einhverjir viðskiptabankar hugmyndir um að auka markaðshlutdeild sína á íslenskum bankamarkaði með því að sameinast sparisjóðum.6

Sumir sparisjóðanna sáu hag sínum betur borgið með því að sameinast öðrum sparisjóðum og ber þar hæst sameiningu Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra í Byr sparisjóð árið 2006. Næstu tvö ár bættust Sparisjóður Kópavogs og Sparisjóður Norðlendinga í hópinn. Sparisjóður Hafnarfjarðar og Sparisjóður vélstjóra höfðu lengi verið meðal stærstu sparisjóða. Eftir sameininguna voru Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stærstir. Efnahagur langflestra sparisjóða óx mjög hratt frá 2000 til 2007, sem skýrðist af vexti útlána og gengishækkana á fjáreignum þeirra.

Slíkur vöxtur var mögulegur meðal annars vegna þess að sparisjóðirnir höfðu sífellt betra aðgengi að lánsfé. Frá árinu 2000 höfðu vextir erlendis til að mynda farið lækkandi og fjármálastofnunum buðust leiðir til fjármögnunar sem áður höfðu verið lítið notaðar. Sparisjóður Mýrasýslu, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóður Hafnarfjarðar, Sparisjóður vélstjóra og síðar Byr sparisjóður sóttu sjálfir fjármagn á erlenda lánsfjármarkaði. Sumir þeirra nýttu sér þó áfram lánsfjármagn hjá Sparisjóðabankanum að hluta, en aðrir, þá einkum Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, fjármögnuðu sig nær alfarið sjálfir og áttu lítil viðskipti við Sparisjóðabankann, nema upp að því marki sem þeir leituðu tilboða í fjármögnun og lausafjárstýringu eins og frá öðrum fjármálafyrirtækjum. Minni sparisjóðir skiptu nær eingöngu við Sparisjóðabankann, hvort heldur er varðaði íslenskar krónur eða erlenda mynt.

Breytingum í rekstrarumhverfi Sparisjóðabankans lýsti fyrrum bankastjóri svo fyrir rannsóknarnefndinni:

[Um] og upp úr 2005 var nokkuð ljóst að þetta umhverfi sem bankinn hafði starfað í frá upphafi, þessi mismunandi hlutverk sem um var að ræða, það var að breytast samfara stækkun sparisjóðanna. Bæði fór að vaxa metnaður sparisjóðanna til að sinna sínum málum sjálfir og þær aðstæður sköpuðust að þeir gátu það. Tökum erlenda lánsfjármögnun sem dæmi. Það var algjörlega lokað fyrir sparisjóðina þangað til 2004–2005 þegar allt flæðir í peningum um allan heim. […] Sparisjóðabankinn varð ekki lengur eins nauðsynlegur fyrir þessa stóru eins og áður. Við þær aðstæður er ekkert óeðlilegt að það fari að vakna einhverjar vangaveltur. „Er hann kannski orðinn óþarfur þessi Sparisjóðabanki? Væri nær að loka honum og sparisjóðirnir tækju þá það eigið fé sem þeir ættu bundið í bankanum og nýttu það sjálfir í sína eigin starfsemi?“ Sú þjónusta sem minni sparisjóðirnir þyrftu að fá gætu einhverjir af þessum stóru veitt. Eða eru einhver verðmæti í bankanum sem slíkum sem gera það að verkum að það er þess virði að halda þessari starfsemi áfram? Þessar vangaveltur voru byrjaðar að vakna og þess vegna er farið í stefnumótun árið 2006 með Capacent sem leiðir til þeirrar niðurstöðu bankaráðs að það eigi að halda starfseminni áfram. Síðan er farið að útfæra stefnuna frekar á árinu 2007. Hitt var auðvitað eitthvað sem var komið í umræðuna, að tilvistargrundvöllur hans væri ekki lengur til staðar. […] Afstaða Guðmundar Haukssonar í SPRON og Ragnars Z. Guðjónssonar í Byr réði mestu um þá framtíðarsýn og stefnu sem mótuð var fyrir bankann.7

Í glærum sem sendar voru milli sparisjóðsstjóra og bankastjóra Sparisjóðabankans í lok maí 2006 komu fram fjögur aðalmarkmið stefnumótunarinnar: að sækja fram með vexti erlendis og viðhalda góðri arðsemi, að vera öflugur samstarfsaðili, að vera með skilvirka starfsemi og þróun á nýjum lausnum og mörkuðum, og loks að hafa fámennan en öflugan hóp starfsmanna.8

Markmið með sókn erlendis var fimmföldun á efnahag bankans á fimm árum og að árleg arðsemi eigin fjár yrði 18%. Hreinar vaxtatekjur yrðu helmingur af heildartekjum, þóknanatekjur fjórðungur og gengismunur fjórðungur. Staða bankans yrði styrkt til vaxtar með því að auka eigið fé hans um 12 milljarða króna með nýju eigin fé fram til ársins 2011. Vaxtamunur yrði aukinn úr 1,5% árið 2006 í 1,75% árið 2008 og 2,0% árið 2011 með sterkum samböndum við erlenda lánveitendur og auknum viðskiptum erlendis. Bankinn yrði svo skráður í Kauphöllina árið 2008. Öflugt samstarf fælist í því að veita fyrirtækjum í útrás þjónustu í formi ráðgjafar, lánveitinga og þátttöku í fjárfestingum. Verkefnum átti að fjölga og þau áttu að vera stærri en áður. Erlend sambankalán yrðu aukin með markvissu skipulagi og góðum viðskiptasamböndum. Þá skyldi efla þjónustu við sparisjóðina og önnur fyrirtæki í flóknum afleiðuviðskiptum. Til þess að þróa nýjar lausnir og skapa ný markaðstækifæri var stefnt að því að setja upp að lágmarki eina starfsstöð erlendis eða kaupa fjármálafyrirtæki ekki síðar en 2008. Erlendar starfsstöðvar yrðu þrjár fyrir árslok 2011. Á hluthafafundi Sparisjóðabankans 30. nóvember 2006 var nafni hans breytt í Icebank hf. meðal annars til að gera nafn bankans auðveldara í notkun erlendis. Þá var í stefnumótuninni lögð áhersla á að breikka tekjugrundvöll sparisjóðanna með því að bankinn, sem var að fullu í eigu sparisjóðanna þá, réðist í verkefni sem sparisjóðirnir væru of litlir til þess að fást við sjálfir:

Að finna verkefni sem skila einhverju og væru jafnframt í samræmi við þá áhættu sem Sparisjóðabankinn gæti tekið. Því aftur, og það tengist þessu módeli sem Sparisjóðabankinn var, við auðvitað vissum að allir smærri sparisjóðir myndu aldrei taka þátt í ýmiss konar starfsemi og verkefnum sem bankinn gæti sinnt. […] Ef Sparisjóðabankinn væri að taka þátt í þessu og tækist vel til, þá væru sparisjóðirnir með óbeinum hætti að taka þátt í þessu og fengju að njóta ábatans af því að vera í viðskiptum af þessu tagi. Við höfum nefnt fasteignalánin, við höfum nefnt skuldsettar yfirtökur, við höfum nefnt lánveitingar til stærri aðila og afleiðuviðskipti. Allt þetta sem ég hef verið að nefna eru dæmi um viðskipti sem langflestir sparisjóðirnir, allavega allir þeir minni, höfðu aldrei nokkra möguleika á að taka þátt í.9

Til þess að takast á við verkefnin og markmiðin sem lagt var upp með í stefnumótuninni taldi bankinn mikilvægt að hafa gott fólk innanborðs. Til þess að að svo mætti verða þyrfti að sameina hagsmuni hluthafa og starfsfólks með því að gera starfsfólki kleift að eignast hlut í bankanum. Fram að þeim tíma höfðu eingöngu sparisjóðir eða félög í þeirra eigu átt hlut í bankanum og breyta þurfti samþykktum hans til þess að aðrir gætu eignast hlut. Svo fór að eignarhald var opnað, fyrst fyrir æðstu stjórnendum bankans og nokkrum einkahlutafélögum á síðari hluta árs 2007. Í árslok 2006 hafði bankinn verið alfarið í eigu sparisjóðanna en fjórir stærstu sparisjóðirnir, Byr sparisjóður, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu, fóru þá með samtals 80,91% eignarhlut.

31.1.1 Breytingar á eignarhaldi Sparisjóðabanka Íslands hf.

Áfram var unnið að stefnumótuninni á síðari hluta árs 2006 og í byrjun árs 2007. Bankastjóri talaði fyrir því að opna eignarhaldið og þá sérstaklega að stjórnendum og lykilstarfsmönnum yrði gert kleift að eignast hlut í bankanum.10 Á sama tíma var leitað að vænlegum fyrirtækjum fyrir bankann að kaupa til þess að stækka og eflast.

Í ársbyrjun 2007 var ráðgjafarfyrirtækið Capto Financial Consulting fengið til þess að vinna stefnumótun í útrásarmöguleikum bankans og koma með hugmyndir að mögulegum samstarfsaðilum erlendis. Ráðgjafarfyrirtækið skilaði skýrslu í mars 2007 þar sem fram kom að möguleg útrás Sparisjóðabankans kynni að felast í fyrirtækjaráðgjöf sem tengdi saman tækifæri á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. var talinn vænlegur fjárfestingarkostur sem liður í þeirri útrás.

Við höfðum velt fyrir okkur að fá einhverja aðra aðila en Capto. Ég man að einhvern tímann hittum við Gunnar Svavarsson fulltrúa frá HSBC í London. Það var bara eitthvað svo afkáralegt, hugmyndirnar sem þar voru viðraðar voru af allt annarri stærðargráðu og í engu samræmi við það sem Sparisjóðabankinn gæti tekist á við. Það vó einnig þungt í valinu á Capto að við vissum að Capto hefði verið að vinna fyrir Íbúðalánasjóð í að skipuleggja lausafjárstýringuna og áhættustýringuna. Það varð úr að við Gunnar heimsóttum Capto og ræddum við þá. Það er miklu eðlilegra fyrir tiltölulega lítinn aðila á Íslandi eins og Sparisjóðabankann að leita til ráðgjafarfyrirtækja af hóflegri stærð á Norðurlöndunum. Þau hafa miklu betri tilfinningu fyrir því hvað Ísland er. Margir breskir ráðgjafar átta sig aldrei á þessu. Þeir átta sig ekki á því að þetta er bara 320 þúsund manna þjóðfélag og hugsa í einhverjum öðrum stærðargráðum. Auk þess, vegna starfa sinna hér á landi, þá hafði Capto tilfinningu fyrir því hvað Ísland var. […] Augu okkar voru farin að beinast svolítið að Eystrasaltsríkjunum, að verkefni þar væru kannski af stærðargráðu sem að við myndum ráða við. Eins horfðum við til tiltölulega lítilla fyrirtækja á Norðurlöndunum. Capto kortlagði þessi svæði fyrir okkur, fyrst og fremst til að leita að aðilum til að kaupa.11

Þegar VBS Fjárfestingarbanki hf. og FSP ehf. (áður Fjárfestingarfélag sparisjóðanna ehf.) sameinuðust í mars 2007, átti FSP 50,1% í Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. Behrens þótti ekki falla að starfsemi sameinaðs félags og í framhaldinu hófust viðræður milli Sparisjóðabankans og FSP ehf. um kaup bankans á hlut fjárfestingarfélagsins í Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf.12 Samkvæmt samþykktum Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf. átti stjórn félagsins forkaupsrétt að fölum hlutum í félaginu fyrir félagsins hönd. Að félaginu frágengnu áttu hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Í minnisblaði bankastjóra Sparisjóðabankans til bankaráðs 11. maí 2007 var fyrirtækinu lýst sem íslensku félagi sem hefði tengsl við íslenska aðila í útrás á starfssvæði félagsins. Það hefði verðmæt viðskiptasambönd á Íslandi og erlendis. Bankinn hefði unnið með félaginu í nokkrum verkefnum hér á landi og erlendis og reynslan verið jákvæð. Tækjust ekki samningar um kaup á Behrens tæki við dýrt og tímafrekt ferli við leit og kaup á öðru sambærilegu félagi sem væri ef til vill dýrara. Stærstu hluthafar í félaginu, fyrir utan FSP hf., voru á þessum tíma þeir Aðalsteinn Gunnar Jóhannsson og Sigurður Smári Gylfason. Samkvæmt minnisblaðinu höfðu þeir mikinn áhuga á að Behrens yrði hluti af bankanum og að farið yrði í uppbyggingu á starfsemi á þeim nótum sem fram komu í drögum að útrásarstefnu bankans.

Bankaráð Sparisjóðabankans samþykkti kaup á 50,1% hlut í Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. á fundi 15. maí 2007 og að halda áfram viðræðum við eigendur 49,9% hluta félagsins um yfirtöku Sparisjóðabankans á félaginu. Á sama fundi var skýrt frá heimsókn bankastjóra, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs og bankaráðsmannanna Guðmundar Haukssonar, Ragnars Z. Guðjónssonar og Magnúsar Ægis Magnússonar til Lettlands og Litháen. Ferðin var farin í byrjun maí og voru ræddar tillögur Capto Financial Consulting um útrásarstefnu bankans og hugsanleg kaup á Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. Þá flutti bankastjóri greinargerð um efnahags- og stjórnmálaástandið í Eystrasaltsríkjunum. Að umræðum loknum var ákveðið að fylgja tillögum bankastjóra að útrásarstefnu bankans næstu misserin. Í maí 2007 vann KPMG að skýrslu um yfirtöku á Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. fyrir bankann og kom þar fram að heildarverðmæti félagsins væri á bilinu 500 til 950 milljónir króna.13 Verðhugmynd seljenda fyrir 49,9% hlutinn var hins vegar um 500 milljónir króna sem var nokkru hærra en efri mörk verðmats KPMG. Í minnisblaði bankastjóra til bankaráðs 18. júní 2007 kom fram að munnlegt samkomulag hefði náðst við Aðalstein og Sigurð Smára um „heildarpakka“ sem í fólst meðal annars að greitt yrði fyrir hluti í Behrens með hlutum í bankanum á sama verði og lykilstarfsfólk bankans fengi að kaupa hluti í bankanum við opnun eignarhalds.

Á sama tíma og Sparisjóðabankinn stóð í viðræðum við Behrens Fyrirtækjaráðgjöf hf. og eigendur þess um kaup á félaginu var unnið að því innan bankans hvernig hægt væri að breyta eignarhaldinu og gefa öðrum en sparisjóðum kost á að eignast hlut í bankanum. Í tölvupósti 15. júní 2007 frá Finni Sveinbjörnssyni til Geirmundar Kristinssonar, Ragnars Z. Guðjónssonar og Guðmundar Haukssonar, stjórnarmanna í bankanum, kom fram að þreifingar ættu sér stað á milli bankans og Aðalsteins Gunnars og Sigurðar Smára um kaup bankans á hlutafé þeirra. Með því myndi bankinn eignast Behrens og í kjölfarið yrði félagið sameinað bankanum. Þá væri það ófrávíkjanleg krafa eigenda Behrens Fyrirtækjaráðgjafar ehf. að greitt yrði fyrir kaupin á félaginu með hlutafé í bankanum. Í sama tölvupósti nefndi Finnur þrjá möguleika sem allir myndu meðal annars miða að því að draga úr þeirri samþjöppun eignarhalds sem væri í bankanum. Þá var einnig fjallað um leiðir til Kauphallarskráningar.14

Stærstu eigendur Sparisjóðabankans á þeim tíma, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður, höfðu hug á að selja sinn hlut í bankanum.

Það var ágreiningur á meðal hluthafanna þegar leið á 2007 hver ætti að vera framtíð Sparisjóðabankans. Það tengist hlutafélagavæðingu SPRON og skráningu á hlutabréfamarkað sem og áformum Byrs um að fara svipaða leið. Þessir sparisjóðir voru stærstu eigendurnir í Sparisjóðabankanum og eignarhluturinn var farinn að íþyngja þeim því hann dróst frá eigin fé þeirra. Þeir voru að fara á markað og mikil pressa að sýna góða afkomu. Því komu upp þau sjónarmið að það gæti verið viðkomandi sparisjóðum í hag að selja hlutinn í Sparisjóðabankanum og innleysa hagnað. Hinn kosturinn væri að eignast meiri hlut í bankanum og fá hann inn í samstæðu með viðkomandi sparisjóði. Þetta sneri ekki að mér og starfsfólki bankans heldur var þetta eigendapólitík hjá þessum stóru eigendum.15

Í maí 2007 tók SPRON-Verðbréf hf. málið upp og vildi hafa frumkvæði að því að fá að sjá um söluna á Icebank hf. en talið var að verkefni af þeirri stærðargráðu væri vel til þess fallið að setja fyrirtækið á kortið sem vænlegan samstarfsaðila í slíkum verkefnum í framtíðinni.

Ég man nú ekki nákvæmlega hvenær fyrstu samskipti við Behrens voru en það var einhvern tíma á árunum 2006–2007. Við höfðum kynnst Behrens í lánaverkefnum. Síðan kom stefnumótunarvinnan og í framhaldi af henni hugmyndir um að koma á laggirnar starfsemi erlendis. Síðar bætast við vangaveltur SPRON og Byrs um að annar hvor sparisjóðanna eignist meirihluta í bankanum eða losi sig við sína hluti. Þá fer í gang atburðarás sem endar með eigendabreytingum. […] Aðalsteinn og Sigurður Smári höfðu sett fram þá kröfu að þeir myndu, ef af kaupunum á Behrens yrði, eignast hlut í bankanum. Síðan fá þeir vitneskju um að verið sé að reyna að selja hluti Byrs og SPRON í bankanum og það leiðir þá til þess að síðsumars 2007 ákveða þeir að búa til hóp til þess að gera tilboð í þessa hluti. Þeir bjóða líka að ef stjórnendateymið hefði áhuga á að vera með, þá væru þeir alveg opnir fyrir því. Það er þannig sem það gerist.16

Í júlí og ágúst 2007 unnu SPRON-Verðbréf hf. að undirbúningi tilboðsferlis og verðmats á Icebank hf. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík undirrituðu yfirlýsingu 2. ágúst 2007 þar sem SPRON-Verðbréfum var falið að annast sölu á 65,4% hlut sjóðanna í Icebank hf.17 Átta mögulegir fjárfestar, eða hópar fjárfesta, fengu kynningu á verkefninu og skiluðu þrír þeirra inn óskuldbindandi tilboðum 31. ágúst 2007. Eitt af þremur tilboðum kom frá Gnúpi ehf. sem var tilbúið til að kaupa allan bankann á verði sem var 1,5 sinnum bókfært eigið fé og greiða fyrir með hlutabréfum í FL Group hf. Gnúpur ehf. hafði hug á að kaupa allan bankann og greiða fyrir 24 milljarða króna. Annað tilboð kom frá Straumborg ehf. sem vildi kaupa 70% hlut í bankanum miðað við verð sem væri 1,7 sinnum bókfært eigið fé. Kaupverðið væri því um 19,3 milljarðar króna og heildarverðmæti bankans 27,5 milljarðar. Þriðja tilboðið var frá Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. og fjárfestahópi á þeirra vegum í 53% hlut sem þessir aðilar voru tilbúnir að greiða 16,9 milljarða króna fyrir og verðmæti bankans samkvæmt því 32 milljarðar króna. Í tilboðinu kom ekki fram hverjir væru í þessum fjárfestahópi. Hópurinn sem Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. fór fyrir hafði einnig áhuga á að ræða fjármögnun kaupanna við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóð.18

Bankastjóri Icebank sendi Geirmundi Kristinssyni, Ragnari Z. Guðjónssyni og Guðmundi Haukssyni tölvupóst 7. ágúst 2007 þar sem hann taldi að hræringar á erlendum hluta- og skuldabréfamörkuðum kölluðu á að vandað yrði enn meira til verka en ella við uppstokkun á eignarhaldi bankans. Hann ítrekaði mikilvægi þess að stefna ekki erlendri lánsfjármögnun og erlendum bankasamböndum í hættu og sagðist treysta því að þetta sjónarmið myndi vega þungt við ákvarðanatöku Geirmundar, Ragnars og Guðmundar. Í tölvupóstinum nefndi Finnur jafnframt: „Í tengslum við þetta varpa ég á ný fram þeirri hugmynd sem ég hef nefnt við ykkur í síma að eingöngu BYR og SPRON (og samstæðu-/samrunasparisjóðir þeirra) selji að sinni þannig að fyrst í stað sitji eftir a.m.k. 40% hlutur í eigu annarra sparisjóða og jafnvel að þeir auki eitthvað við sig.“19

Í byrjun september 2007 veltu framkvæmdastjóri hagdeildar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og framkvæmdastjóri SPRON-Verðbréfa hf. því upp hvort Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis ætti jafnvel að kaupa allt hlutafé í Icebank hf. og þróa hann áfram eða selja. Eftir fund 3. september með Guðmundi Haukssyni, forstjóra sparisjóðsins, var farið í viðræður við Behrens hópinn um kaupin. Síðar sama dag voru fyrstu drög að kaupsamningi tilbúin og verðmæti bankans áætlað 32 milljarðar króna eða um það bil tvöfalt virði eigin fjár Icebank hf.20 Í september 2007 var unnið að því að setja saman almennan lánapakka fyrir kaupendahópinn en á sama tíma vann bankastjóri sérstaklega að því að athuga fjármögnun á kaupum stjórnenda bankans að fullu á eignarhlut í honum.

Á hluthafafundi 18. september 2007 var samþykktum Sparisjóðabankans breytt á þann veg að bankinn hefði ekki lengur þann sérstaka tilgang að annast starfsemi í þágu sameiginlegra hagsmuna sparisjóðanna og einstakra sparisjóða. Þá voru ákvæði um að eingöngu sparisjóðum og félögum, sem væru að fullu í eigu sparisjóða, væri heimilt að eiga hluti í bankanum felld út.

Samhliða viðræðum um sölu á hlutabréfum í bankanum stóðu yfir aðrar viðræður um kaup bankans á Behrens Fyrirtækjaráðgjöf hf. Kaupsamningur milli Sparisjóðabankans og allra hluthafa Behrens var undirritaður 17. september 2007 með fyrirvara um samþykki bankaráðs. Í kaupsamningi var verð á útistandandi bréfum, eða 47,91% eignarhlut, um einn milljarður króna. Endanlegt kaupverð var um 1,25 milljarðar króna vegna þess að félagið átti sjálft rúmlega helming af eigin hlutum sem keypt voru á 250 milljónir króna með lánum frá Sparisjóðabankanum.21 Bankaráð Sparisjóðabankans samþykkti þessi kaup 9. október 2007 og taldi bankastjóri „ekki […] unnt að halda því fram að verðið [væri] lágt“ en engu að síður væri um ásættanlegt verð að ræða.22

Í lok september 2007 var komin mynd á kaupendahópinn sem Behrens Fyrirtækjaráðgjöf ehf. setti saman fyrir kaup á eignarhluta Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Byrs sparisjóðs í Sparisjóðabankanum, en endanleg útfærsla á fjármögnun lá ekki fyrir. Kauptilboð voru lögð fram 8. október 2007 en í því var gengi bréfanna í viðskiptunum 28,055 krónur fyrir hverja krónu nafnverðs hlutafjár í bankanum. Samkvæmt tilboðinu skyldi kaupverðið greitt tíu virkum dögum eftir að allir tilboðshafar hefðu samþykkt tilboðið og fyrirvarar í tilboðinu yrðu niður fallnir. Kauptilboðin voru háð fyrirvara um lán frá Byr og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fyrir kaupunum.

Ekki var gengið frá undirritun lánasamninganna við kaupendur fyrr en í byrjun desember og dróst því að ganga frá kaupunum á hlutafé í Sparisjóðabankanum þangað til. Í byrjun desember var jafnframt gengið frá kaupum Sparisjóðabankans á Behrens Fyrirtækjaráðgjöf hf. KPMG hafði hafið vinnu við áreiðanleikakönnun á Behrens í byrjun október 2007 en tölvupóstsamskipti starfsmanna Sparisjóðabankans, KPMG og fulltrúa seljenda gefa til kynna að hún hafi gengið hægt. Hinn 3. desember 2007 sendi Finnur Sveinbjörnsson KPMG tölvupóst og spurði um framvindu verksins en í svarinu kom fram að „þrátt fyrir eftirrekstur vanta[ði] enn gögn“.23 Þótt áreiðanleikakönnun lægi ekki fyrir samþykkti bankastjóri kaupin þennan sama dag. Seljendur voru fimm og fengu félög í eigu Aðalsteins Gunnars og Sigurðar Smára 453 milljónir króna hvort en Friðrik Ingi Friðriksson, Steinþór Jónsson og Sverrir Sverrisson um 31 milljón króna hver. Greiðslan til Aðalsteins og Sigurðar var greidd með hlutafé í Sparisjóðabankanum. Í endurskoðunarskýrslu KPMG fyrir árið 2007 kemur fram að nær allt kaupverðið hafi verið viðskiptavild.24

Um matið á félaginu sagði fyrrum bankastjóri í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Það sem við […] vorum aftur á móti að horfa til var verkefnastaðan og væntingar um frekari verkefni. Að einhverju leyti var þetta, eins og svo margt á þeim tíma, byggt á mjög bjartsýnum spám. Það var allavega þjarkað um verðið fram og til baka og á endanum náðist niðurstaða. Hún hækkaði reyndar á tímabilinu og ég held að öllum þeim sem komu að þessu af bankans hálfu hafi fundist að við værum búin að teygja okkur langt. Það væri allavega komið þannig að kannski hefði maður bara átt að segja: Nei, hingað og ekki lengra, þetta er orðið of hátt. Að sama skapi þá voru einhvern veginn komnar þær aðstæður að best væri að ljúka verkefninu og það verður yfirsterkara […]. Ég held að það sé augljóst, og væntanlega var flestum sem tóku þátt í þessu það ljóst, að ef Behrens viðskiptin myndu ekki ganga eftir, þá myndu hin viðskiptin, kaupin á eignarhlutunum í bankanum, ekki ganga eftir. Þá myndu SPRON og Byr ekki innleysa hagnað af sölunni og þyrftu áfram að draga eignarhlutinn frá eigin fé þannig að gamla staðan myndi koma upp aftur. Þetta er kannski meira eins og tilfinning mín fyrir þeim aðstæðum sem upp voru komnar, frekar en að einhver hafi hringt í mig og sagt að viðskiptin yrðu að ganga í gegn.25

Nýtt bankaráð tók til starfa í kjölfar breytingar á eignarhaldi bankans og 31. desember 2007 lét Finnur Sveinbjörnsson af störfum sem bankastjóri. Agnar Hansson, sem hafði gegnt stöðu forstöðumanns fjárstýringar bankans, varð bankastjóri. Aðalsteinn Gunnar Jóhannsson og Sigurður Smári Gylfason voru ráðnir til Sparisjóðabankans 1. desember 2007, og eftir að nýr bankastjóri tók við varð Sigurður framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og Aðalsteinn framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar. Á hluthafafundi bankans 17. október 2008 var ákveðið að Icebank hf. tæki upp sitt fyrra nafn og varð lögheiti hans Sparisjóðabanki Íslands hf.

31.1.2 Áhrif breytinga á eignarhaldi Sparisjóðabankans á sparisjóði

Við gerð ársreiknings sparisjóðanna fyrir árið 2007 höfðu átta sparisjóðir tekið upp alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og þrír sparisjóðir til viðbótar breytt matsaðferðum fjáreigna sinna án þess að taka upp sömu reikningsskilareglur.26 Með upptöku alþjóðlegra reikningsskilareglna voru skilyrði fyrir því að eign teldist hlutdeildarfélag þrengd og eignarhlutur í Sparisjóðabankanum, sem hafði verið færður með hlutdeildaraðferð hjá öllum sparisjóðum, var færður sem fjáreign á gangvirði.

Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Norðfjarðar og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis breyttu matsaðferðum sínum. Þeir þrír síðastnefndu hættu að færa eignarhlut sinn í Sparisjóðabankanum með hlutdeildaraðferð og færðu hann í veltubók. Allir sparisjóðir nema Sparisjóður Suður-Þingeyinga höfðu því tekið upp matsaðferð á eignarhlut í Sparisjóðabankanum sem krafðist þess að metið yrði hvert gangvirði hans væri. Að meta óskráðar fjáreignir á gangvirði kann að vera snúið en oft er miðað við gengi hluta í síðustu viðskiptum.

Viðskiptin með hlutabréf í Sparisjóðabankanum í lok árs 2007 höfðu því mikið að segja fyrir mat flestra sparisjóða á einni af stærstu fjáreignum þeirra. Kauptilboð í hlutina voru á genginu 28,055 krónur á hlut sem var notað til viðmiðunar við mat á eignarhlutnum í mörgum sparisjóðum í lok árs 2007. Aðeins einn sparisjóður, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, mat bréfin á sölugenginu en meðal flestra sparisjóða var gengið á bilinu 20–23 krónur á hlut. Með því að færa eignina á gangvirði á sama eða svipuðu gengi og í viðskiptunum í október, bókfærðu sparisjóðirnir miklar tekjur af eigninni. Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Höfðhverfinga og Sparisjóður Suður-Þingeyinga voru einu sparisjóðirnir sem mátu bankann undir 20 krónum eða á bilinu 11,9–16,3 krónur á hlut.27

Flestir þessara sparisjóða færðu gengishagnað í bækur sínar, en það er heimilt með því að færa eignir á gangvirði, enda þótt hagnaður af verðbréfum skili sér ekki í raun fyrr en bréfin eru seld. Það voru einungis tveir sparisjóðir sem innleystu hagnað vegna Sparisjóðabankans á árinu 2007, þ.e. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, sem hafði söluhagnað af viðskiptunum sem nam 3,1 milljarði króna og Byr sparisjóður sem hagnaðist um 4,2 milljarða króna á sölunni.28

Hlutabréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis voru skráð í Kauphöllina í október 2007, skömmu eftir að gengið hafði verið frá kauptilboðum í eignarhlut sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum. Útboðslýsing hlutabréfanna gaf til kynna að til viðbótar 12,2 milljarða króna hagnaði fyrstu átta mánuði ársins, en útboðslýsingin var gerð í október 2007, kæmi 3,3 milljarða króna söluhagnaður af sölu eignarhluta í Sparisjóðabankanum. Aðstæður breyttust þó töluvert frá því útboðslýsingin var gerð og hagnaður sparisjóðsins fyrir árið varð 3,3 milljarðar króna samtals, eða nær eingöngu söluhagnaðurinn af bréfunum í Sparisjóðabankanum. Byr sparisjóður bauð út 12,2 milljarða króna nýtt stofnfé í sparisjóðnum í byrjun desember 2007. Heildarverðmæti stofnfjáraukningarinnar var 26,3 milljarðar króna. Í útboðslýsingu frá nóvember 2007 var þess getið að hagnaður sameinaðs sparisjóðs, þ.e. Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Kópavogs, fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2007 hefði numið 5,2 milljörðum króna sem væri umfram áætlanir. Horfur fyrir seinni hluta ársins 2007 væru mjög góðar. Ekki var getið sérstaklega um rekstraráhrif af sölu eignarhluta í Sparisjóðabankanum á síðari hluta ársins í lýsingunni. Hagnaður ársins varð 7,9 milljarðar króna eftir skatt og 9,6 milljarðar króna fyrir skatt. Söluhagnaður af bréfum í Sparisjóðabankanum var því rétt tæplega helmingur hagnaðar fyrir skatt. Báðir þessir sparisjóðir lánuðu fyrir kaupum á hlutabréfum í bankanum og ári síðar töpuðu þeir nær öllum söluhagnaðinum vegna afskriftar af þeim útlánum. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafði afskrifað 4,4 milljarða króna vegna lánanna í lok árs 2008 og Byr sparisjóður 5,2 milljarða króna á sama tíma.29

Sparisjóðurinn í Keflavík, Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis bókfærðu töluverðan gengishagnað af eign sinni í Sparisjóðabankanum á árinu 2007, eða samtals um 6,7 milljarða króna. Sparisjóðurinn í Bolungarvík hafði um 233 milljónir króna í gengishagnað af sömu eign, Sparisjóður Norðfjarðar 130 milljónir króna og Sparisjóður Þórshafnar 132 milljónir króna. Sparisjóður Strandamanna, Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Suður-Þingeyinga höfðu minni tekjur af eignarhlut í Sparisjóðabankanum á árinu 2007 en árið áður. Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóður Vestmannaeyja töpuðu á eigninni á árinu. Tap þess síðarnefnda var ekki mikið en Sparisjóður Mýrasýslu tapaði 400 milljónum króna. Þar hafði mest áhrif gengislækkun á þeim hlut sem sparisjóðurinn keypti síðla árs 2007. Kaupin fóru fram á genginu 28,055 en hluturinn var færður á 23 krónur í árslok 2007.

Á árinu 2008 var mikið tap af rekstri Sparisjóðabankans og hann talinn lítils virði í lok ársins. Niðurfærsla sparisjóðanna á eignarhlutum þeirra í Sparisjóðabankanum nam samtals 14,7 milljörðum króna á árinu. Það var um 24% af heildartapi þeirra vegna fjáreigna á sama tíma. Til viðbótar töpuðu Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis 9,6 milljörðum króna af lánum sem veitt voru til kaupa á hlutabréfum í bankanum, Sparisjóður Mýrasýslu 1,6 milljörðum króna og Sparisjóðurinn í Keflavík 1,5 milljörðum króna.30

31.2 Eignarhlutur Sparisjóðabankans í Exista hf.

Sparisjóðabankinn, auk sjö sparisjóða, var meðal fyrstu eigenda SP-eignarhaldsfélags ehf., sem síðar varð Exista hf. Hlutur Sparisjóðabankans í eignarhaldsfélaginu var 15,9% í byrjun júlí 2001.31 Félagið var stofnað til þess að halda utan um hluti eigenda í Kaupþingi hf. en þeir áttu þó áfram beina eignaraðild að Kaupþingi. Beinn hlutur Sparisjóðabankans í Kaupþingi hf. var 3,91% í maí 2002 en á sama tíma átti SP-eignarhaldsfélag ehf. 8,24% hlut.32 SP-eignarhaldsfélag ehf. tók upp nafnið Meiður ehf. á árinu 2003 en hlutahafafundur félagsins samþykkti að breyta nafninu í Exista ehf. 6. maí 2005. Í lok árs 2005 var eignarhlutur Sparisjóðabankans í Exista ehf. 5,8%, en hann átti 3,5% í Exista hf. ári síðar og 2,5% í árslok 2007.

Tekjur Sparisjóðabankans af hlutnum í Exista ehf. voru 837 milljónir króna, eða 45% af hreinum rekstrartekjum bankans árið 2004 og 2.579 milljónir króna árið 2005 sem voru 68% af hreinum rekstrartekjum þess árs.33 Í árslok 2005 var eign bankans í Exista hf. 42% af eigin fé hans og 3,6% af heildareignum. Hækkandi gengi bréfa í Exista og aukin áhætta sem fylgdi svo stórri stöðu varð tilefni umræðna um stöðu bankans og hvað gera ætti við eignarhlutinn. Hlutabréf í Exista hf. voru skráð í kauphöllina 15. september 2006 og hafði gengi bréfanna þá hækkað mikið frá áramótum. Tekjur bankans af eignarhlut í Exista hf. voru 6,1 milljarður króna árið 2006, bæði vegna gengishækkunar í tengslum við skráningu félagsins í Kauphöll og hagnaðar af sölu hlutabréfa til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. Bankinn hélt áfram að selja hluti í Exista hf. á árinu 2007 en tekjur af bréfunum á því ári voru 663 milljónir króna.34 Í ágúst 2008 hafði bankinn selt alla eign sína í Exista hf. en tap af henni á árinu fram til 18. ágúst 2008 var 3,1 milljarður króna.35 Þótt tapið hefði verið töluvert hafði það minni þýðingu fyrir rekstrarniðurstöðu bankans 2008 en oft áður, vegna mikils taps af útlánum og lánum til viðskiptabankanna sem fjármögnuð voru með endurhverfum viðskiptum og endurlánum þeirra fjármuna til bankanna. Í febrúar 2008 tóku starfsmenn bankans saman hver áhrif Exista hf. á rekstrarniðurstöðu bankans hefðu verið 2004–2007. Tekjur af verðbréfaeigninni voru dregnar frá afkomu og skattgreiðslur leiðréttar vegna þeirra breytinga.

Í umfjöllun um fjárfestingar í köflum um hvern sparisjóð er fjallað um góðar tekjur flestra sparisjóða af eignarhlut í Sparisjóðabankanum 2005 og 2006 vegna góðs gengis bankans á þeim árum. Ljóst er að þann hagnað má að miklu leyti rekja til þessarar einu verðbréfaeignar. Eiginleg starfsemi Sparisjóðabankans sem slík gaf lítið í aðra hönd fyrir sparisjóðina, enda voru þeir stærstu viðskiptavinir bankans á sama tíma og þeir voru einu eigendur hans. Hagnaður sem bankinn hefði skilað til eigenda sinna í gegnum venjulega starfsemi, t.d. með því að auka vaxtamun eða hækka þjónustutekjur, hefði komið beint frá eigendum sjálfum. Þetta breyttist þó frá árinu 2004 þegar útlánastefna bankans fór að breytast.

Á hluthafafundi í október 2001 var kynnt skýrsla KPMG ráðgjafar um úttekt og mat á stöðu bankans. Þar voru eins og áður sagði lagðar til fjórar leiðir fyrir framtíðarstarfsemi bankans. Með skýrslunni var lagður grunnur að stefnumótun bankans en á fundinum í október var ákveðið að fara leiðir sem miðuðu að því að lágmarka áhættu af markaðsviðskiptum. Áhættan af eignarhlut í Exista hf. var langstærsta markaðsáhætta bankans.36 Á fundi bankaráðs 22. nóvember 2002 var áréttað að bankinn hlyti að stefna að því að losa um hlut sinn í Exista hf. (þá Meiði ehf.) við fyrstu hentugleika. Ekkert varð þó af sölu bankans á eignarhlutnum fyrr en árið 2006 og þar vógu þyngst sjónarmið um eiginfjárhlutfall bankans og skerptar áherslur í starfsemi bankans í kjölfar stefnumótunar hans á árinu.

Stór eignarhlutur í Exista hf. tók í við útreikning á eiginfjárhlutfalli samkvæmt 84. og 85. gr. laga um fjármálafyrirtæki, en þar skal draga frá eigin fé fjármálafyrirtækis eignarhluti í öðrum fjármálafyrirtækjum. Innan bankans tókust á sjónarmið þeirra sem vildu halda eignarhlutnum í Exista hf. þar sem hann hafði skilað bankanum töluverðum tekjum, og þeirra sem vildu selja hann til þess að bæta eiginfjárstöðu og losa um fjármuni sem hægt væri að nýta í önnur verkefni. Í byrjun árs 2006 kom annað þessara sjónarmiða skýrt fram í tölvuskeyti Geirmundar Kristinssonar, formanns bankaráðs:

Ég er sammála því að leitað verði skynsamlegra leiða til að tryggja eiginfjárgrundvöll bankans, en vek um leið athygli á því að Exista hluturinn umtalaði sem sagður er vera að sliga bankann hefur verið þess valdandi að bæði bankinn og vafalaust margir sparisjóðir eru að sýna afkomu sem ekki hefur sést áður í sparisjóðakerfinu. Ég efast líka um tilvist sparisjóðakerfisins ef ekki hefði verið farið út í þá fjárfestingu í upphafi, án þessa að tíunda það langt aftur í tímann. En stundum um áramót er hollt að líta um öxl og skoða í huganum það sem á undan er gengið. Einnig er hollt að líta fram á veginn og þá kemur upp í hugann hvað kemur í stað Exista ef hluturinn verður seldur. Ekkert er í spilunum í dag sem segir mér í dag að eitthvað bakslag sé í þeirri fjárfestingu. Aftur á móti hef ég heyrt á nokkrum sparisjóðamönnum að þeir færu að sofa betur ef hluturinn væri innleystur, en ég held frekar að þeir ættu að fá sér eitthvað annað að gera til að ná upp svefni. Í mínum huga væri sá svefn dýrkeyptur með því að selja Exista hlutinn. Með þessum hugleiðingum er ég ekki að gera lítið úr eiginfjárerfiðleikum bankans, þá verður að leysa, heldur fyrst og fremst að hvetja menn til skynsamlegrar ákvarðanatöku.37

Tekjur bankans af eignarhlutnum í Exista hf. á árinu 2005 voru miklar og meginuppistaða hagnaðar á því ári. Gengishækkun sú sem varð á bréfunum á síðari hluta ársins 2006, þegar þau voru skráð í Kauphöllina, hafði ekki komið fram þegar formaður ritaði tölvupóstinn en samt sem áður vógu framkomnar gengishækkanir þungt í eiginfjárútreikningum Sparisjóðabankans. Bankastjóri svaraði tölvuskeytinu frá formanni bankaráðs:

Ekki vil ég gera lítið úr ágóðanum af Exista-hlutnum, hann hefur svo sannarlega komið sér vel fyrir bankann og hluthafana. Staðreyndin er hins vegar sú að verðmæti Exista-hlutarins slagar óþægilega hátt upp í allt eigið fé bankans. Ef ekki hefðu komið til „æfingar“ um áramótin hefði eiginfjárhlutfall bankans farið niður í 7,2–7,3%. Á því verður að taka, það vitum við allir. Þar held ég að sé hyggilegast að fara sambland af þremur leiðum, þ.e. auka hlutafé, gefa út víkjandi bréf og selja eitthvað af Exista-hlutnum (engin ástæða til að selja hann allan).38

Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni var fyrrum bankastjóri spurður hvað hann hefði átt við með „æfingum“. Hann minnti að gerður hefði verið samningur um að selja hluti í Exista hf. frá bankanum með endurkaupaákvæði, þannig að eignatilflutningurinn ætti sér stað fyrir áramót en gengi til baka eftir áramót. Alþekkt hefði verið að fjármálafyrirtæki öfluðu sér ábyrgða fyrir of háum skuldbindingum eða gerðu annars konar samninga sem flyttu áhættu milli fjármálafyrirtækja til þess að uppfylla reglur.39 Í tölvupósti fyrrum bankastjóra til Guðmundar Haukssonar sem þá var í bankaráði sagði:

Eins og þú veist hef ég haft sívaxandi áhyggjur af eiginfjárstöðu bankans, sérstaklega eftir þátttöku hans í hlutafjárhækkun Exista í desember. Með tímabundnum ráðstöfunum með aðstoð Bakkabræðra var málum bjargað fyrir horn yfir áramótin með valréttarsamningi. Slík leið var í raun sú eina sem dugði, því miðað við núverandi stöðu hefur bankinn ekki svigrúm til að gefa út víkjandi B-bréf í nægjanlega miklum mæli (bankann sárvantar eiginfjárþátt A). Þegar á reyndi á síðustu dögum ársins gátu Bakkabræður ekki gert eins langan valréttarsamning og ég vildi. Það þýðir að bankaráð verður að bregðast við strax í stað þess að hafa svigrúm fram í febrúar eins og ég ætlaði mér. Í raun held ég að það sé hvort sem er ekki eftir neinu að bíða því bankaráð hefur um nokkurt skeið verið fylgjandi því að breyta ábyrgðunum í hlutafé og eftir að „stóri samruni“ fór út um þúfur í desember er ljóst að það verður að auka hlutafé bankans enn frekar til að standa undir Exista og/eða efla slagkraft hans.40

Eini samruninn sem tekinn var fyrir á fundum bankaráðs síðla árs 2005 var samruni FSP hf. og Sparisjóðabankans sem ræddur var á haustmánuðum. Í ágúst 2005 gerði bankastjóri grein fyrir fyrirhugaðri hlutafjáraukningu bankans sem myndi fara fram annars vegar með samruna við FSP hf. þannig að helmingur hlutafjár félagsins yrði nýir hlutir í bankanum og hins vegar með því að breyta ábyrgðum sparisjóðanna til bankans í hlutafé.41 Á bankaráðsfundi 19. september 2005 höfðu allir sparisjóðirnir gefið vilyrði fyrir samþykki sínu á sameiningu Sparisjóðabankans og FSP hf., sem og breytingu á ábyrgðum sínum til bankans í hlutafé. Á fundinum voru lögð fram drög að yfirlýsingu bankaráðsmanna og stjórnarmanna í FSP hf. um skiptiverðmæti, stefnumótun og eignarhald á mismunandi félögum. Af samrunanum varð aldrei en á árinu 2006 breyttu sparisjóðirnir ábyrgðum fyrir 610 milljónir króna í hlutafé.42

Í stefnumótun Sparisjóðabankans 2006 voru sett markmið um að hreinar vaxtatekjur yrðu helmingur af heildartekjum, þóknanatekjur fjórðungur og gengismunur fjórðungur. Vegna gengishækkana Exista hf. hafði gengismunur verið töluvert meira en fjórðungur tekna Sparisjóðabankans og til að mæta markmiðinu um dreifingu tekjustofna bankans þurfti annaðhvort að fara í mikla útlánaaukningu eða selja hluta verðbréfaeignarinnar. Hvort tveggja gat þó komið til greina á sama tíma.

Gengi bréfa í Exista hf. hélt áfram að hækka á árinu 2006 og setti starfsemi Sparisjóðabankans sífellt þrengri skorður. Áhrif á eiginfjárgrunn voru töluverð og hlutafjáraukningar bankans dugðu lítið til þess að vega upp á móti þeim. Eins og fyrr segir var hlutafé aukið um 610 milljónir króna á árinu 2006 og nýtt hlutafé á árinu 2005 nam 29 milljónum króna. Exista hf. var skráð á markað 15. september 2006 og sama dag skrifaði bankastjóri Sparisjóðabankans minnisblað til bankaráðs þar sem sagði meðal annars:

1. Verðmæti Existahlutarins
Sparisjóðabankinn á 499,9 milljón hluti í Exista (nafnverð hlutafjár). Í dag er fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands. Þegar þetta er ritað er gengið 22,7 og hefur það því hækkað um rúmlega 5% frá útboðsgenginu 21,5. Miðað við gengið 22,7 er verðmæti Existahlutar bankans 11.348 m.kr. Í hálfsársuppgjöri bankans var bókfært verðmæti hlutarins 6.597 m.kr. Á sama tíma nam bókfært eigið fé bankans 8.104 m.kr. Eignarhluturinn í Exista var því 81% af eigin fé bankans á miðju ári. Það má öllum vera ljóst hversu mikil áhætta er í þessu fólgin og í raun ekki forsvaranlegt annað en að minnka vægi eignarhlutarins fyrst búið er að kauphallarskrá hlutabréfin. Það gefur auga leið að alþjóðleg lánshæfismatsfyrirtæki og erlendir lánveitendur munu ekki telja bankanum það til framdráttar þegar þessir aðilar átta sig á því til fulls að yfirgnæfandi partur af eigin fé bankans er bundinn í einni eign.
2. Hagnaður bankans á árinu 2006
Miðað við uppgjör Sparisjóðabankans fyrstu átta mánuði ársins og ef við gefum okkur að gengi Exista haldist í 21,5 til ársloka, þá má ætla að hagnaður bankans eftir skatta verði hátt í 5,5 ma.kr. fyrir árið í heild (grófir útreikningar). Þetta er auðvitað ævintýraleg útkoma sem breytir þó engu um þá áhættu sem er í því fólgin að binda eigið fé bankans að langmestu leyti í einni eign.
3. Eiginfjáruppbygging bankans
Það er mat mitt og eindregin ráðlegging til bankaráðs að á næstu mánuðum og misserum verði vægi eignarhlutar Sparisjóðabankans í Exista lækkað kerfisbundið þannig að hann standi ekki mikið lengur í um 80% af eigin fé bankans eins og nú er. Samhliða verði farið yfir kosti þess og galla að breyta samsetningu eigin fjár bankans þannig að hlutafé aukist og óráðstafað eigið fé lækki. Þetta má gera með því að greiða út mjög háan arð vegna ársins 2006 en „skikka“ hluthafana samtímis til að kaupa nýtt hlutafé í bankanum. Þegar hefur verið leitað til Sigurðar Jónssonar (endurskoðanda Sparisjóðabankans) um að hann skili minnisblaði um kosti og galla slíkrar ráðstöfunar fyrir bankann og hluthafana.
Ég legg til að bankaráð ákveði að hefja kerfisbundna vinnu sem miði að því að lækka eignarhlut Sparisjóðabankans í Exista í áföngum á næstu misserum, bæði í krónum og sem hlutfall af eigin fé bankans.
Þetta má gera með margvíslegum hætti:
Selja hluti til öflugra kaupenda, innan eða utan sparisjóðakerfisins (a.m.k. 2–3 ma.kr. fyrir áramót).
Selja hluti til alhliða fjárfestingarfélags sem bankinn myndi eignast hlut í (á móti öðrum).
Auka eigið fé bankans um 2–3 ma.kr. með hlutafjárhækkun meðal áhugasamra sparisjóða og meðal stjórnenda bankans og draga þannig úr hlutfallslegu vægi Existahlutarins.
Samhliða þarf að átta sig á áhrifum þessara aðgerða á eiginfjárhlutfall bankans og hvernig þeim fjármunum sem bankinn fengi til ráðstöfunar yrði komið í arðbær verkefni.43

Tillaga bankastjóra Sparisjóðabanka Íslands hf. um að hafin yrði vinna við að minnka eignarhlutinn í Exista hf. í áföngum var tekin fyrir á fundi bankaráðs 19. september 2006. Þar var ákveðið að bankinn myndi beita sér fyrir því að kalla saman „Exista-sparisjóðina“ til að ræða söluna. Þá var ákveðið að fela endurskoðanda að taka saman minnisblað um eiginfjáruppbyggingu bankans.44 Þennan bankaráðsfund sátu meðal annars Geirmundur Kristinsson, formaður bankaráðs og sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, og Friðrik Friðriksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla. Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sat ekki fundinn.

Í kjölfarið fór fram umræða í mörgum stærri sparisjóðum sem áttu hlut í Exista hf. um áhuga Sparisjóðabankans á að selja hlut sinn í félaginu. Í nóvember 2006 greindi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá viðræðum sparisjóða um stofnun hlutdeildarfélags um eignarhlut sparisjóðanna í Exista hf. á stjórnarfundi sparisjóðsins. Sparisjóðabankinn vildi selja bréf í Exista hf. fyrir 1,4 milljarða króna og óskaði sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis eftir heimild stjórnar til þess að kaupa þann hlut.

Þá voru uppi áhyggjur af stórri stöðu í Exista hf. innan sumra sparisjóða. Sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, sem jafnframt var bankaráðsformaður Sparisjóðabankans, var falið að skoða hugsanlega sölu á hluta bréfa sparisjóðsins í Exista hf. á stjórnarfundi sparisjóðsins 25. september 2006. Stuttu síðar fékk sparisjóðsstjórinn heimild til að selja 25% eignar sparisjóðsins í Exista hf.45

Í tölvupósti frá endurskoðanda Sparisjóðabankans til eins bankaráðsmanna, Guðmundar Haukssonar, sem jafnframt var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, var farið yfir drög að fyrirkomulagi um sölu eignarhluta Sparisjóðabankans í Exista hf. Stofnað yrði sérstakt eignarhaldsfélag sem myndi kaupa hlutina af Sparisjóðabankanum og öðrum sparisjóðum sem myndu fá greitt í reiðufé annars vegar og hlutafé í eignarhaldsfélaginu hins vegar. Kaupin yrðu fjármögnuð með lánsfé frá öðrum fjármálastofnunum: „Sé þessi leið farin er slitið á milli þeirra sparisjóða sem eiga í Exista og hinna. Jafnframt kemur inn lánsfé frá aðilum sem eru ekki hluthafar og nýtist lánsféð til lækkunar á frádrætti frá eigin fé hjá núverandi hluthöfum. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að [félagið] fari í einhverjar aðrar fjárfestingar.“46

Stuttu síðar sendi bankastjóri Sparisjóðabankans bankaráðsmönnunum Guðmundi Haukssyni og Geirmundi Kristinssyni eftirfarandi tölvuskeyti:

Ég veit að Guðmundur [Hauksson] er í London, m.a. til að ræða við Bakkabræður um Exista-hluti sparisjóðanna. Það er gott og ég veit að við treystum Guðmundi manna best í okkar hópi til að finna farsæla lausn. Eins hefur hann beðið Sig. Jónsson um að teikna fleiri útfærslur en þær sem hann setti á blað fyrir bankann um daginn.
Ég held að við séum allir þrír samstíga í þeirri afstöðu að það þarf að leiða þetta fljótt til lykta þannig að hægt verði að grípa til annarra ráða fyrir áramót ef allt um þrýtur, eins og selja myndarlega slumpa til lífeyrissjóða eða fjárfestingarfélaga. Það sem knýr mig til að senda ykkur þennan tölvupóst er að við í bankanum höfum verið að vinna markvisst í því undanfarna mánuði að hækka skammtímalánalínur bankans erlendis. Það gengur ágætlega og er til marks um jákvæða afstöðu erlendra banka til Sparisjóðabankans og sparisjóðakerfisins. Við höfum hins vegar verið að reka okkur á það að sumir bankar hafa nefnt að þeir treysti sér ekki til að hækka skammtímalánalínur eða taka þátt í frekari langtímalánveitingum til bankans vegna þess að þá fari skuldbinding þeirra upp í eitthvert viðmiðunarþak af CAD-eigin fé Sparisjóðabankans. Samkvæmt þessu erum við farin að rekast upp í fjármögnunarþak til viðbótar við útlánaþakið sem CAD-eigið féð setur okkur. Þetta eru viðbótarrök fyrir því að létta á Exista-eign bankans.47

Bakkabræður Holding s.a.r.l. átti 59,1% af hlutafé í Exista hf. í árslok 2005. Á sama tíma átti Kaupþing banki hf. 19,2% og sparisjóðir og Sparisjóðabanki Íslands hf. samtals 21,2%. Það gat skipt aðra eigendur Exista hf. miklu hvort verulegur hluti af eign sparisjóðanna og bankans í félaginu yrði seldur á markaði. Að sama skapi skipti það Sparisjóðabanka Íslands hf. miklu að hægt yrði að laga eiginfjárhlutfall hans.

Í minnisblaði bankastjóra til bankaráðs 17. nóvember 2006 sagði meðal annars:

Meðal Exista-sparisjóða hefur myndast góð samstaða um leið sem miðar að því að minnka eiginfjárfrádrátt sem fylgir Exista-hlutunum og bæta lausafjárstöðu þessara aðila. […] Leiðin felst í því að stofnað verður eignarhaldsfélag (hér eftir nefnt SP-Exista til einföldunar). SP-Exista kaupir 25% af Exista-hlutum hvers sparisjóðs. Fyrir hlutina er að hálfu greitt með hlutum í SP-Exista og að hálfu með reiðufé sem SP-Exista tekur að láni í banka. Í þessu felst að eiginfjárfrádráttur vegna Exista-hlutanna minnkar um helming í Exista-sparisjóðunum.
Frá þeirri almennu lausn sem lýst er hér að framan yrðu tvær undantekningar:
Annars vegar er SPRON í þeirri stöðu að þurfa ekki/vilja ekki selja Exista-hluti.
Hins vegar er mikilvægt fyrir fyrirhugaða sókn Sparisjóðabankans að CAD-eigið fé hans aukist að ráði.
Því hefur verið um það rætt að Sparisjóðabankinn fái Exista-hlutina greidda alfarið með reiðufé og að bankinn eignist því ekki hluti í SP-Exista. Á móti kaupi SPRON þá hluti í SP-Exista sem ella hefðu komið í hlut bankans án þess að SPRON leggi Exista-hluti inn í félagið. Fyrir hlutina greiðir SPRON því með reiðufé. […]
Lagt er til að bankaráð samþykki að Sparisjóðabankinn selji 125.064.535 kr. að nafnverði af hlutum í Exista til eignarhaldsfélagsins SP-Exista (nafn hefur ekki verið ákveðið) á skráðu markaðsgengi þegar viðskiptin fara fram. Fyrir hlutina verði greitt með reiðufé, u.þ.b. 2,7 ma.kr. miðað við núverandi markaðsgengi.48

Á fundi bankaráðs Sparisjóðabankans 21. nóvember 2006 var rætt um fyrirhugaða sölu á um 125 milljónum hluta í Exista hf. fyrir um 2.700 milljónir króna og áformum um stofnun eignarhaldsfélags lýst. Í fundargerð bankaráðsins sagði meðal annars:

Nokkrar umræður urðu um málið og komu fram efasemdir hjá RZG [Ragnari Z. Guðjónssyni] um það hvort rétt væri að bankinn stæði utan samstarfs Exista-sparisjóðanna um þetta nýja eignarhaldsfélag þar eð það hefði óbein áhrif á þá sparisjóði sem ekki hafa verið aðilar að samstarfinu um Exista nema í gegnum hluti sína í bankanum. Eins vakti RZG máls á því hvort ekki kynni að vera rétt að bjóða öllum sparisjóðum að verða hluthafar í nýja eignarhaldsfélaginu. Á móti var bent á að það hefði verið vilji bankans að minnka áhættu sína af Exista-hlutunum og með því að selja umrædda hluti fyrir reiðufé og taka ekki þátt í nýja eignarhaldsfélaginu væri bankinn að minnka áhættu sína um fjórðung. Eftir þessa aðgerð ætti hann enn um 375 milljónir hluta í Exista sem eru um 8,2 ma.kr. að markaðsvirði þannig að allir hluthafar í bankanum væru enn berskjaldaðir fyrir töluverðri Exista-áhættu í gegnum bankann, til hagnaðar eða taps. Varðandi þátttöku allra sparisjóða í nýja eignarhaldsfélaginu var á það bent að þetta væri samstarf tiltekinna sparisjóða um tiltekna eign sína og snerti hvorki samstarf þessara sparisjóða á öðrum sviðum né samstarf sparisjóðanna í heild.

Að umræðum loknum var bankastjóra veitt heimild til að selja hluti bankans í Exista hf. Ragnar Z. Guðjónsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

Í nóvember 2006 fengu sparisjóðsstjórar í Reykjavík, Keflavík, Mýrasýslu, Svarfaðardal, Húnaþingi og Ströndum og á Vestfjörðum heimild til að skrifa undir stofnskjöl að Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stofnaði félagið 12. desember 2006 og hinir sparisjóðirnir gerðust hluthafar við fyrstu hlutafjáraukningu félagsins. Sparisjóðabankinn seldi fjárfestingarfélaginu 125 milljón hluti í Exista hf. fyrir 2,8 milljarða króna í desember 2006 og 94 milljónir hluta fyrir 2,6 milljarða í mars 2007. Til stóð að Sparisjóðabankinn seldi meira af bréfum á árinu 2006 en hætt var við það svo að eignarhlutur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Exista hf. yrði ekki svo stór að telja þyrfti Exista hf. inn í samstæðu sparisjóðsins.49 Á sama tíma og Kista – fjárfestingarfélag keypti hluti af Sparisjóðabankanum keypti félagið einnig hluti í Exista af eigendum sínum, sex sparisjóðum. Í júní 2007 keypti fjárfestingarfélagið hluti í Exista hf. af sparisjóðunum en ekki af Sparisjóðabankanum. Í minnisblaði Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 13. júní 2007 til annarra hluthafa í Kistu var gerð tillaga um að Kista héldi áfram kaupum á hlutabréfum í Exista hf. af hluthöfum Kistu. Fram kom í bréfinu að ekki væri vilji hjá Sparisjóðabankanum/Icebank hf. að selja frekari hluti í Exista hf. að svo stöddu.50

Sparisjóðabankinn átti 3,5% hlut í Exista hf. í lok árs 2006 þegar gengi bréfanna var 22,5 krónur á hlut og 2,5% hlut ári síðar þegar gengið var 19,75 krónur. Sparisjóðabankinn seldi um 94 milljónir hluta í mars 2007 á genginu 28 krónur fyrir hvern hlut. Þegar Kista keypti svo hluti af eigendum sínum í júní sama ár var kaupgengið 33,55 krónur. Á fyrstu þremur mánuðum ársins hafði gengið því hækkað um 24% og næstu þrjá mánuði hækkaði það um tæp 20%. Innan Sparisjóðabankans var uppi vilji til þess að halda bréfunum lengur, í von um að virði þeirra myndi hækka enn.51 Það reyndist rétt því í júlí 2007 náði gengi bréfanna hæstu hæðum, rúmum 40 krónum á hlut. Þá tók það að síga og lækkaði hratt á síðustu mánuðum ársins 2007. Frá því kauptilboð í hluti í Sparisjóðabankanum var undirritað í október 2007 þar til gengið var frá lánasamningum í byrjun desember sama ár féll gengið úr 35,8 krónum á hlut í 24 krónur á hlut, eða um 33%. Í lok árs 2007 var gengi bréfanna 19,75 krónur á hlut.

Sigurður Smári Gylfason, sem hafði mikil samskipti við þá aðila sem keyptu hlut í Sparisjóðabankanum haustið 2007, hafði frumkvæði að því að kaupendum yrði bætt sú virðisrýrnun sem orðið hefði á hlutum í bankanum á þessum tíma. Í tölvupósti 22. nóvember 2007 sagði Sigurður að SPRON-Verðbréf myndu kalla tilboðsgjafa til fundar um frágang á kaupunum. Kauptilboðið væri runnið út á tíma en verið væri að leita að staðfestingu þess efnis að málið væri komið í frágangsferli.52 Hann tilkynnti hópnum stuttu síðar að niðurstaða hefði náðst í málinu á fundi með SPRON-Verðbréfum og myndu báðir aðilar reyna að ná niðurstöðunni í gegn hjá sínu liði.53 Viðauki við kaupsamninginn frá því í október 2007 var undirritaður 2. desember 2007. Með viðaukanum var veittur frestur á greiðslu eiginfjárframlags í viðskiptunum og seljendur, Byr sparisjóður og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, skuldbundu sig til að gera samning við Sparisjóðabankann um verðtryggingu hluta í Exista hf.

Gerðir voru samhljóða samningar á milli Sparisjóðabankans og sparisjóðanna tveggja þar sem hvor sparisjóður um sig verðtryggði 84.301.523 hluti í Exista hf., samtals 168.603.046 hluti. Í lok árs 2007 átti Sparisjóðabankinn rúmlega 281 milljón að nafnverði í Exista hf.54 Með samningnum ábyrgðust sparisjóðirnir tveir að gengi hlutabréfa í samningnum yrði að minnsta kosti 31,0 krónur á hlut 30. nóvember 2008. Yrði gengið lægra ætti bankinn kröfu á hendur Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóði fyrir mismuninum. Krafan kæmi til greiðslu 8. desember 2008. Forsenda samningsins var að „samningar um sölu […] á samtals 52,68% hlutafjár í Icebank hf. […] hafi verið réttilega frágengnir, ásamt lánssamningum og veðsamningum og að kaupendur hafi ekki vanefnt samninga sína.“55

Fyrrum starfsmaður í eigin viðskiptum í Sparisjóðabankanum sagði það hafa verið ákveðið í nóvember 2007 að bankinn seldi alla eign sína í Exista hf. Þetta hefði verið samþykkt á fundi eigin viðskipta en andvirðið yrði nýtt til þess að kaupa skuldabréf og aðrar eignir. Í desember sama ár hefði framkvæmdastjóri fjárstýringar bankans komið á fund í deild eigin viðskipta og sagt að ákveðið hefði verið á bankaráðsfundi að selja ekki eignarhlutinn í Exista hf.56 Nýtt bankaráð var kosið á hluthafafundi bankans 14. desember 2007 og komu þá í fyrsta sinn inn í stjórnina aðilar sem ekki voru sparisjóðsstjórar eða með einhverjum hætti fulltrúar sparisjóða. Var þar um að ræða Grím Sæmundsen og Steinþór Jónsson. Á fundi bankaráðs 18. desember 2007 var fjallað um eignarhlutinn í Exista hf. og segir í fundargerð að það hafi verið samstaða um það innan bankaráðsins að líta á eignarhlutann í Exista hf. sem langtímaeign þó hluti hafi verið seldur á árunum 2006 og 2007: „Í tengslum við opnun eignarhalds í bankanum skýrði bankastjóri formanni og varaformanni frá áformum sínum um að leggja til við fjármálanefnd bankans að allur Exista hluturinn yrði færður í veltubók og að tillaga þar að lútandi yrði síðan lögð fyrir bankaráðið og væri það nú gert. Eftir umræður var tillagan samþykkt samhljóða en hvatt til þess að bankaráðið yrði upplýst um fyrirhugaða sölu á verulegum hlut í félaginu.“57 Ekki er að sjá af fundargerðinni að ákveðið hafi verið að hætta við sölu á hlutum í Exista hf. en með þessum tilflutningi milli bóka var ljóst að bankaráð undirbjó sölu á hlutunum eða ætlaði ekki að halda eigninni til langs tíma.

Á árinu 2008 tók gengi hlutabréfa í Exista hf. að síga verulega en gengið lækkaði um 47% fyrstu þrjá mánuði ársins. Sparisjóðabankinn seldi þá hluti sem hann átti í Exista hf. smám saman á árinu 2008 og átti enga hluti um miðjan ágúst 2008. Í mars 2008 voru 86 milljónir hluta að nafnverði í Exista seldir fyrir bréf í Glitni, Straumi, Icelandair og Landic Properties.58 Fyrrum starfsmaður eigin viðskipta bankans sagði áhættuna af bréfum í Landic Properties hafa verið sýnu minni en áhætta af bréfum í Exista hf. þar sem félagið hefði verið mjög skuldsett og gengi bréfa í því ofmetið.59

Bankinn hélt áfram að selja bréf í Exista hf. og seldi um 75 milljónir hluta í nokkrum viðskiptum fram til 13. maí 2008. Tveimur dögum síðar seldi bankinn 95 milljónir hluta og átti þá örfá bréf eftir sem seld voru í júní 2008.60 Í júní 2008 sendi bankaráðsformaður bankastjóra tölvuskeyti og sagði það hafa komið fram á fundi Exista-sparisjóða daginn áður að Sparisjóðabankinn væri að selja hluti í Exista hf. „á þessu smánargengi sem [væri] á félaginu í dag“.61 Þá var gengi bréfanna 8,6 krónur á hlut. Bankastjóri svaraði því að honum væri ekki kunnugt um það hvort bankinn hefði selt en hann þyrfti að skoða alla möguleika til að bæta eiginfjárstöðu sína. Í júlí sama ár námu þau bréf í eigu bankans, sem hann gat selt til þess að bæta eiginfjárstöðu sína og voru ekki tengd VBS Fjárfestingarbanka hf., Exista hf. eða bankanum sjálfum, ekki nema 7,5 milljónum króna og sala á þeim hefði því haft lítil áhrif á eiginfjárhlutfallið.62 Í ágúst 2008 hafði bankinn selt alla eign sína í Exista hf. og tap af henni á árinu fram til 18. ágúst 2008 var 3,1 milljarður króna.63

Undir lok nóvember 2008 kallaði Sparisjóðabankinn eftir því að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður efndu samninginn um verðtryggingu hlutabréfa í Exista hf. og að hvor sparisjóður um sig greiddi Icebank hf. rúmar 434 milljónir króna þar sem gengi bréfanna hefði ekki náð genginu 31,0.64 Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis greiddi það sem krafist var en Byr sparisjóður neitaði að greiða. Í bréfi Byrs sparisjóðs til Sparisjóðabankans 16. desember 2008 kom fram að sparisjóðurinn féllist ekki á að greiðsluskylda hefði fallið á sparisjóðinn og hygðist ekki greiða umkrafða fjárhæð. Forsendan um að kaupendur hefðu ekki vanefnt samninga sína væri brostin þar sem „kaupin [væru] þegar stórlega vanefnd af nokkrum kaupendum auk þess sem vanefndir [væru] fyrirsjáanlegar hjá öðrum“.65

Heildartap bankans á Exista bréfunum á árinu 2008 var því um 2,7 milljarðar króna.

31.3 Útlán og útlánaáhætta

Lengst af var meginstarfsemi Sparisjóðabankans að veita sparisjóðum fyrirgreiðslur, taka þátt í lánveitingum með þeim, taka við lausu fé þeirra og ávaxta og sinna margs konar sameiginlegu þjónustuhlutverki. Með breyttum aðstæðum og opnari fjármálamarkaði á Íslandi hófu stjórnendur Sparisjóðabankans að endurskoða marga þætti í starfseminni. Á aðalfundi vegna ársins 2002 gerði Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri þetta að umfjöllunarefni í ræðu sinni. Nýjar áherslur hefðu verið lagðar í starfseminni en til þess að bankinn gæti sinnt nauðsynlegu þjónustuhlutverki sínu við sparisjóðina yrði hann að hafa ákveðin lágmarksumsvif. Iðulega keppti bankinn við viðskiptabankana um viðskipti frá sparisjóðunum, að minnsta kosti frá stærri sparisjóðunum, en Sparisjóðabankanum væri hins vegar ekki heimilt að keppa við sparisjóðina um viðskipti. Mjög hefði dregið úr eftirspurn sparisjóðanna eftir lánsfé frá Sparisjóðabankanum og til þess að draga úr áhrifum þess á nettókjör bankans hefði verið lögð áhersla á þátttöku í stærri lánveitingum með viðskiptabönkunum og sparisjóðum. Með þessu skapaði bankinn sér tekjur af starfsemi sem keppti ekki við sparisjóðina.66

Frá árinu 2001 stækkaði útlánasafnið töluvert en framlag í afskriftareikning hækkaði ekki jafn hratt. Þannig var niðurfærsluhlutfall bankans 5,3% í árslok 2001 en 1,1% í árslok 2007. Mjög stórt framlag var lagt í afskriftareikning á árinu 2008, eða 63,6 milljarðar króna, og niðurfærsluhlutfall í lok ársins var 63%. Lánveitingar Sparisjóðabankans höfðu breyst frá því um aldamótin, meðal annars vegna þeirra atriða sem getið var hér framar í ræðu bankastjóra, en stefnumótunarvinna sem ráðist var í árið 2006 hafði líka sín áhrif á útlánastefnuna:

Það var m.a. niðurstaðan að seðlabankahlutverk Sparisjóðabankans gagnvart sparisjóðunum yrði áfram til staðar, a.m.k. gagnvart þessum smærri. Líka gagnvart þessum stærri eftir því sem þeir hefðu áhuga á. Nýjungin fólst í þeirri áherslu á að bankinn myndi starfa meira á eigin forsendum, ekki bara að þjóna sparisjóðakerfinu. Auðvitað hafði það verið alla tíð að Sparisjóðabankinn var með eitthvað af eigin viðskiptavinum, ekki bara að þjónusta sparisjóðina. Hann hafði ávallt veitt lán til aðila sem voru ekki viðskiptavinir sparisjóðanna og hefðu trúlega aldrei leitað til þeirra. Þannig var það líka í erlendum viðskiptum, sérstaklega kröfukaupum, þar var Sparisjóðabankinn með viðskiptavini sem voru ekkert tengdir sparisjóðunum. Í þessari stefnumótunarvinnu varð niðurstaðan m.a. sú að Sparisjóðabankinn hefði svigrúm til þess að auka við starfsemi sem ekki tengist sparisjóðunum. Með því að hagnast af starfsemi sem væri ekki tengd sparisjóðakerfinu, þá myndi það auðvitað koma hluthöfunum til góða, annaðhvort í arðgreiðslum eða auknu verðmæti eignarhluta þeirra í bankanum. Niðurstaðan var því að bankinn myndi starfa áfram en […] það skyldi lögð aukin áhersla á verkefni utan sparisjóðakerfisins, sérstaklega af því að á þessum árum var útrásin mál málanna. Þá voru menn líka að horfa til þess að sambönd sem bankinn hafði byggt upp í áranna rás gætu nýst að einhverju leyti í ýmiss konar verkefni sem einstakir sparisjóðir hefðu aldrei möguleika til að sinna, nema þeir stærstu. Þeir myndu þá bara gera það á sínum eigin forsendum. Með þessu móti ætti sparisjóðakerfið einhvern aðila sem gæti verið partur af útrás íslenskra aðila og skapað eigendum sínum verðmæti með þeim hætti. Þannig túlka ég meginniðurstöðurnar þegar litið er til baka.67

Útlán Sparisjóðabankans jukust hratt eftir 2003 án þess þó að vægi þeirra í eignasafni bankans hækkaði að sama skapi þar sem mikill vöxtur var í öðrum liðum efnahagsreikningsins.

Samdráttur varð á efnahagsreikningi Sparisjóðabankans frá 2001 til 2003, sem endurspeglar að hluta til þær aðstæður sem bankastjóri fjallaði um í ræðu sinni á aðalfundi vegna ársins 2002, og getið var hér framar. Eftir 2003 tóku útlán nokkurn kipp og sömuleiðis kröfur á lánastofnanir. Árið 2007 voru aðrar eignir afar miklar vegna eignar bankans í markaðsskuldabréfum, útgefnum af viðskiptabönkunum þremur. Vöxt útlána mátti hins vegar að einhverju leyti rekja til sambankalána sem bankinn tók þátt í og lána til erlendra aðila.

Eins og fram kom í skýrslu okkar vegna ársins 2004 hefur bankinn í auknum mæli leitað fjárfestingartækifæra erlendis. Þetta hefur leitt til þess að hann er þátttakandi í lánveitingum og ábyrgðum til banka meðal annars í Rússlandi, Tyrklandi, Kasakstan, Litháen og Búlgaríu samtals að fjárhæð um 5.200 millj. kr. samanborið við 1.500 millj. kr. á árinu 2004 og hafa því aukist um 3.700 millj. kr. Liðlega helmingur þessara lána er til banka í Rússlandi. Í skýrslu okkar vegna ársins 2004 bentum við á að ætla mætti að fjárfestingar í þessum ríkjum væru almennt áhættumeiri en fjárfestingar í helstu viðskiptaríkjum okkar. Þessi áhætta getur meðal annars falist í endurgreiðsluáhættu, lagalegri áhættu vegna réttarfars sem er okkur framandi og orðsporsáhættu kæmi til þess að eitthvað af þessum fjárfestingum tapaðist. Þrátt fyrir að bankinn standi ekki einn að þessum fjárfestingum teljum við að þeim fylgi að jafnaði meiri áhætta en öðrum fjárfestingum bankans.68

Í stefnumótunarvinnunni 2006 var lögð áhersla á að auka vaxtamun. Á öðrum stöðum í þessari skýrslu hefur vaxtamunur sparisjóðanna verið reiknaður sem mismunur innlána- og útlánavaxta og er aðferðin skýrð í 8. kafla skýrslunnar. Sú aðferð á tæpast við fyrir Sparisjóðabankann þar sem hann var að mjög litlu leyti fjármagnaður af almennum innlánum. Innlán í bankanum voru nær eingöngu stutt innlán frá öðrum fjármálafyrirtækjum. Þá þykir ekki rétt að skoða hreinar vaxtatekjur sem hlutfall af meðalstöðu eigna vegna þess hversu mikla þýðingu Exista hf. hafði í efnahag Sparsjóðabankans á ákveðnu tímabili. Hér verður því leitast við að skoða mun milli vaxtatekna af kröfum á lánastofnanir, útlánum og markaðsskuldabréfum í eigu sparisjóðsins og vaxtagjalda af innlánum, skuldum við lánastofnanir og lántöku bankans. Vaxtaprósentan er reiknuð sem hlutfall af meðalstöðu eigna og skulda.

Tekjur af útlánum, kröfum og skuldabréfum jukust töluvert frá árinu 2005 og gjöld vegna fjármögnunar að sama skapi. Sparisjóðabankinn náði ekki markmiðinu um að auka vaxtamun nema á árinu 2008 en það ár var óvenjulegt fyrir margra hluta sakir, svo sem vegna gengisfalls krónunnar og verðbólguskots. Tekjur af vaxtaberandi eignum voru mun meiri 2007 og 2008 en áður hafði verið og má að miklu leyti rekja það til tekna af kröfum á lánastofnanir. Þó voru vaxtatekjur af útlánum 6,5 milljarðar árið 2007 en höfðu verið 2,1 milljarður króna árið áður. Vaxtatekjur útlána á árinu 2008 voru 6,4 milljarðar króna. Sparisjóðabankinn náði að skapa auknar tekjur af útlánum en vaxtakostnaðurinn af skuldum við lánastofnanir var hærri en tekjurnar og því sáust litlar breytingar á vaxtamuninum.

Mestu áhrif útlána á rekstur Sparisjóðabankans voru þó vegna framlags í afskriftareikning á árinu 2008. Þessar afskriftir höfðu bein og mikil áhrif á virði bankans sem var ein af stærstu fjáreignum sparisjóðanna og að sama skapi á rekstur sparisjóðanna á sama ári. Því valdi rannsóknarnefndin úrtak lántakenda hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. til sérstakrar skoðunar og greiningar til að varpa ljósi á útlánastefnu bankans og ástæður afskrifta. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindingar við bankann auk þess sem skoðuð voru sérstaklega lán þar sem færðar voru háar afskriftir.69

Úrtakið byggðist meðal annars á skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar í ársfjórðungsskýrslum bankans til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálastofnunum var skylt að skila slíkum skýrslum til Fjármálaeftirlitsins á grundvelli reglna nr. 216/2007 en þær áttu að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum skuldbindingum.70 Samkvæmt þessum skýrslum voru 35 lántakar, eða hópar lántaka, með áhættuskuldbindingu yfir einn milljarð króna 31. desember 2008. Af tíu stærstu áhættuskuldbindingum Sparisjóðabanka Íslands hf. á þessum tímapunkti voru þrír bankar og sex sparisjóðir. Þær skuldbindingar eru ekki með í greiningunni sem á eftir fer þar sem stærstur hluti þeirra var vegna skulda viðskiptabankanna við Sparisjóðabankann sem fjármagnaðar voru með endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka og fjallað er um hér aftar, en annað vegna fjármögnunar sparisjóðanna sem greint er frá í 11. kafla skýrslunnar. Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar komu til skoðunar lán sem voru að baki 71% af sérgreindum afskriftum í árslok 2008.

Umfjöllun um útlánasafn Sparisjóðabanka Íslands hf. og helstu einkenni þess eru byggð að mestu á þessu úrtaki. Sparisjóðabankinn lánaði fyrst og fremst til fjárfestinga í fasteignum á Íslandi og erlendis, þróunarverkefnum í byggingariðnaði, kaupa á fyrirtækjum og sambankalána til fjármálastofnana erlendis.71 Fasteignaverkefni voru um 11% af heildarútlánasafni bankans á árinu 2008 og í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathugun hjá bankanum frá 29. desember 2008 var bent á að um samþjöppunaráhættu væri að ræða vegna þessa. Auk þessa lagði Sparisjóðabankinn fram eigið fé í mörgum þeirra fasteignaverkefna sem hann lánaði til. Lán til fasteignaverkefna voru yfirleitt veitt í erlendum myntum og veð tekið í þeim fasteignum sem fjármagna átti. Árið 2008 hafði þetta fyrirkomulag sömu áhrif og víðast annars staðar í bankakerfinu, fasteignir féllu í verði, lánin hækkuðu og greiðslugeta lántaka minnkaði. Þar að auki voru lánin veitt til einkahlutafélaga með litla aðra starfsemi en verkefnið sem lánað var til og aðrar eignir sem hægt var að fullnusta til greiðslu skulda voru litlar sem engar. Eftir fall bankanna voru mörg lánanna í vanskilum og tryggingastaða vegna þeirra ekki góð. Tryggingar voru yfirleitt nægar þegar lánin voru veitt, en á því voru þó nokkrar undantekningar. Mat á tryggingum til fasteignaverkefna voru með ýmsu móti en fjölmörg dæmi voru um að bankinn reiddi sig á upplýsingar sem lántakar öfluðu sjálfir eða voru lagðar fram af milligönguaðilum um verkefnin. Þá skorti upp á að sjálfstætt mat færi fram á tryggingum sem bankinn tók að veði fyrir fasteignaverkefnum, sérstaklega í fasteignaverkefnum á erlendri grundu en þar var bakgrunnur lántaka oft ekki kannaður nægilega, tryggingar litlar og gjarnan á öðrum veðrétti á eftir veðum sem voru það há að ekkert var eftir af verðmæti eignar til tryggingar skuldbindingum bankans. Þá var almennt ekki nægilega fylgst með hagsmunum bankans í þessum erlendu verkefnum. Til að mynda gerðu innra eftirlit og áhættustýring bankans athugasemd í útlánaskýrslu fyrir árið 2008 við lán sem veitt var tveimur einkahlutafélögum til kaupa og endurbóta á fasteignum í Bretlandi. Þar kom fram að hvorki fyndist samþykktarblað né bókun um málið og gerð var alvarleg athugasemd við að frumgögn fyndust ekki hjá fyrirtækjasviði. Gagnanna var aflað í kjölfar athugasemdanna en í ljós kom að við lánveitinguna hafði ekki legið fyrir leyfi til breytinga eða framkvæmda á fasteignunum. Verðmat eignanna kom frá milligönguaðila um verkefnið. Sölumatið var átta milljónir sterlingspunda í júlí 2008, 10 milljónir sterlingspunda í september 2008 og 1,8 milljónir sterlingspunda í febrúar 2009. Vegna þessara lána hafði sparisjóðurinn tekið veð í hlutabréfum einkahlutafélaganna en engin gögn sem rannsóknarnefndinni voru afhent sýna að veð hafi verið tekið í fasteignunum sjálfum. Við lánveitingar til íslenskra félaga í úrtaki rannsóknarnefndarinnar var algengt að engir ársreikningar eða einungis einn ársreikningur lægju fyrir. Yfirleitt sýndi ársreikningur þeirra félaga sem þó skiluðu einum ársreikningi ekki góða stöðu.

Sparisjóðabankinn keypti hlutdeild í sambankalánum sem veitt voru í Austur-Evrópu. Fyrrum bankastjóri sagði að bankinn hefði „treyst mjög á mat þessara aðila sem skipulögðu þessi verkefni“. Það hefðu verið bankar sem Sparisjóðabankinn hafði verið í miklum tengslum við í áranna rás og gjarnan bankar sem lánuðu Sparisjóðabankanum. Innan bankans hefði verið „[treyst] þannig alfarið á mat þeirra“.72

Fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Sparisjóðabankans lýsti starfsemi síns sviðs þannig, að lán bankans á fyrirtækjasviði hefðu talist frekar áhættusöm og hefði það verið á vitorði allra sem vita vildu, starfsmanna, bankaráðs og Fjármálaeftirlitsins. Bankinn hefði ekki boðið upp á nein hefðbundin lán vegna rekstrar, heldur hefði verið um að ræða lán vegna fjárfestinga í fyrirtækjum, þróunarverkefna á fasteignasviði og millibankalán á nýjum (e. emerging) fjármálamörkuðum. Sú markaðsstaðsetning hefði endurspeglast í tiltölulega háu vaxtaálagi, sem hefði oftast legið milli 200–350 punkta á grunnvexti (LIBOR), en í einstaka lánum, millilagslánum (e. mezzanine) hefði álagið verið enn hærra, eða allt að 500–800 punktar (5–8%) og því sjálfgefið að áhættan hefði verið því meiri sem vaxtamunur hefði aukist. Á fyrirtækjasviði í bankastarfsemi væri um að ræða hefðbundin lán til fyrirtækja vegna reksturs þeirra og innri fjárfestinga annars vegar, og svo lán sem tengdust starfsemi fjárfestingarbankastarfsemi hins vegar. Icebank hefði fallið í síðari flokkinn. Hann hefði fjármagnað sig á 30–70 punktum eftir árferði og því getað tekið að sér fjármögnun tryggra aðila sem áttu kost á góðum kjörum í stóru bönkunum með um það bil 70–100 punkta álagi. Þá hefði bankinn verið smár og því hefðu smærri aðilar leitað frekar til hans og sparisjóðanna en stóru bankanna. Annað sérkenni bankans sem fjárfestingarbanka hefði verið að bankinn hefði ekki tekið við innlögnum og því hefði hann ekki getað boðið út lán í íslenskum krónum nema með því að fara út á skuldabréfamarkað. Það hefði verið svo í reynd að í fjárfestingarbankastarfseminni hefði ekki verið nein eftirspurn eftir lánum í íslenskri mynt, heldur hefði það verið evra, svissneskur franki og japanskt jen sem fjárfestar kusu. Þá hefði bankinn tekið þátt í erlendum sambankalánum, sem vestrænir bankar hefðu haft milligöngu um og voru til fjármögnunar banka á vanþróaðri fjármálamörkuðum, einkum í Austur-Evrópu. Þar hefði vaxtamunur einnig verið hár, oft um og yfir 200 punktum. Því hefði það verið segin saga að Icebank hefði ekki getað fjárfest í skuldabréfum vestrænna banka með vaxtamun upp á um það bil 40 punkta hjá litlum og jafnvel neikvæðan vaxtamun hjá stórum erlendum bönkum. Það væru þessi atriði sem hafa þyrfti í huga þegar litið væri til þess um hvað starfsemin snerist. Fjárfestingarbankastarfsemi fæli í sér áhættusamari verkefni gegn hærra álagi. Bankinn hefði ekki getað orðið samkeppnisfær í að lána til þess að gera öruggari viðskiptavina á góðum kjörum.73

Þá kom enn fremur fram í skýrslu framkvæmdastjórans að viðskiptalíkan Sparisjóðabankans hefði verið þannig að hann hefði nær eingöngu verið fjármagnaður með lántöku og að mestu leyti erlendis frá. Til að endurgreiða tiltölulega dýra fjármögnun hefði stefnan verið að fara í áhættusamari verkefni.74 Þessi áhættusækni birtist einnig í því að lán til hlutabréfakaupa, bæði í skráðum og óskráðum félögum, voru algeng hjá bankanum. Oft voru tryggingarnar í formi handveðs í óskráðum hlutabréfum félaga þar sem litlar sem engar aðrar eignir voru fyrir hendi. Þá voru dæmi um að tryggingar hefðu verið teknar í formi hlutafjár í lántakanum sjálfum en ekki bréfum sem keypt voru. Hlutfall óskráðra bréfa sem notuð voru sem handveð fyrir útlánum bankans jukust úr 60% af veðsettum hlutabréfum í lok árs 2006 í 95,4% 30. júní 2008.75 Tap bankans af slíkum lánum var verulegt og má þar til að mynda nefna lán til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum og til kaupa á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík. Félagið AB 171 ehf. fékk 983 milljónir króna lánaðar 30. september 2008 til kaupa á stofnfjárhlutum í Sparisjóðnum í Keflavík og til tryggingar voru hlutirnir sjálfir.76 AB 171 ehf. keypti hluti sem Sparisjóðabankinn hafði leyst til sín í uppgjöri við Suðurnesjamenn ehf. Suðurnesjamenn ehf. gerðu framvirka kaupsamninga á stofnfjárbréfum í Sparisjóðnum í Keflavík í september 2007. Á samningsdegi nam skuldbindingin 2,4 milljörðum króna. Að auki fékk félagið 72 milljóna króna lán í desember 2007 til kaupa á stofnfjárbréfum í sama sparisjóði. Í kjölfar vanefnda var samningnum breytt í útlán og skuldir færðar niður. Bankinn leysti svo til sín bréfin sem lögð höfðu verið að veði. Lán til kaupa á bréfum í Sparisjóðabankanum sjálfum voru veitt í lok árs 2007 til 12 einkahlutafélaga. Lánin námu samtals 2,1 milljarði króna þegar þau voru veitt en til viðbótar lánaði Sparisjóðabankinn sex félögum í eigu stjórnenda bankans fyrir eiginfjárframlagi til kaupanna í mars 2008, samtals um 860 milljónir króna. Öll lánin voru veitt með 1. veðrétti í hlutabréfum í Sparisjóðabankanum en framlag í afskriftareikning vegna þeirra námu tæpum 6 milljörðum í lok árs 2008.

Þegar leið á árið 2008 voru fjölmörg dæmi þess að verðmæti trygginga fyrir lánum væru langt undir verðmæti lána. Virði flestra eigna rýrnaði eftir því sem leið á árið 2008 og eftir fall bankanna um haustið voru margir lántakar nær eignalausir. Þótt Sparisjóðabankinn hafi þá í einhverjum tilvikum kallað eftir frekari veðum, voru skilyrði til veðkalla í sumum lánasamningum uppfyllt löngu fyrir fall bankanna. Því vantaði upp á að veðköll væru gerð tímanlega og af nægri festu. Sparisjóðabankinn lánaði til að mynda félögum í eigu stjórnenda Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. til kaupa á hlutum í fjárfestingarbankanum. Veð voru tekin í keyptu hlutabréfunum og hlutafé einkahlutafélaganna, en að auki veitti fjárfestingarbankinn ábyrgð fyrir 20% lánsfjárhæðarinnar vegna allra félaganna nema eins. Þar voru hlutabréf í Kaupþingi banka hf. lögð fram til tryggingar í stað ábyrgðarinnar. Eftir fall bankanna var leitast við að fá ábyrgðirnar frá Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. greiddar en það gekk ekki eftir. Hlutirnir í Kaupþingi banka hf. og fjárfestingarbankanum höfðu þá misst nær allt verðgildi sitt. Í skýrslu innri endurskoðunar og áhættustýringar Sparisjóðabankans um útlán 2008 kom fram að bankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs töldu að skilyrði til veðkalla vegna fyrirgreiðslna til félaganna hefðu verið til staðar strax í júní 2008.

Stór hluti lána í úrtakinu var í erlendri mynt og í nokkrum tilvikum voru slík lán veitt til aðila sem höfðu ekki tekjur í erlendri mynt eða með gjaldeyrisvarnir til að mæta áhættu vegna erlendra lána. Á árinu 2008 tvöfaldaðist höfuðstóll lánanna og áttu margir lántakendur í greiðsluerfiðleikum vegna þessa, auk tekjumissis eða ástæðna sem tengdust atburðum í íslensku efnahagslífi síðari hluta ársins 2008. Lán til innlendra aðila voru 73% af heildarútlánum bankans en aðeins 25% af lánum voru í íslenskum krónum. Er ljóst að bankinn tapaði miklu vegna afskrifta af lánum í erlendri mynt þar sem tryggingar reyndust ekki fullnægjandi þegar að þeim átti að ganga. Fyrrum bankastjóri sagði í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni að úrræði hans til að ganga á eftir lántökum hefðu verið lítil:

Ég hafði unnið í því bæði árið 2007 og fram eftir ári 2008 að knýja menn í að breyta yfir í krónur, t.d. þessi stóru fasteignaverkefni […]. Þetta var líka dálítið erfitt því þessir lánasamningar voru þannig, kannski 5–7 ára lán, og það var ekkert hægt að gera. Það var ekkert hægt að segja að þetta væri að fara allt til andskotans meðan menn borguðu sína vexti sem voru kannski tvisvar á ári. Þó ég hafi verið bankastjóri gat ég ekkert gert, ég gat ekkert sagt nú verður þú að borga eða nú verður þú að breyta þessu, ég hafði engin úrræði. En auðvitað endaði það náttúrulega og ég held að bankinn hafi endað með að taka þetta allt yfir fyrir rest.77

Fyrrum bankastjóri lýsir því þarna að meðan aðilar borguðu vexti af lánum sínum og brutu ekki skilmála lánanna hafði hann lítil úrræði til að ganga á eftir þeim. Lán sem bundin voru gengi erlendra mynta hækkuðu mjög á árinu en lántakar sem ekki þurftu að greiða nema vexti af lánum sínum fundu ekki eins mikið fyrir þeirri hækkun og ef afborganir hefðu bæst við. Því er hér aðallega um að ræða lán þar sem höfuðstólinn skyldi greiða til baka á lokagjalddaga, eða eingreiðslulán. Slík lán voru tíð hjá bankanum og voru jafnan framlengd á lokagjalddaga án þess að til greiðslu af höfuðstól kæmi, þ.e. fram til þess að bankarnir féllu haustið 2008. Þar bar hæst lánveitingar til Baugs Group hf. og tengdra aðila. Í október 2008 voru skuldbindingar lánahópsins endurfjármagnaðar í einn framvirkan samning, en mesta útlánatap bankans vegna nokkurs lánahóps var vegna skuldbindinga Baugs Group hf. og tengdra aðila. Í árslok 2008 námu skuldbindingar hópsins við Sparisjóðabankann 12,1 milljarði króna en þar af höfðu 8,9 milljarðar króna verið færðir á sérgreindan afskriftareikning á sama tíma.78

Uppi voru ólíkar skoðanir um tengingar aðila í lánahópa innan bankans. Til að mynda voru deildir bankans ekki sammála um hvaða félög væru fjárhagslega tengd Baugi Group hf. Um mitt ár 2008 gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir við samsetningu lánahópsins hjá bankanum. Hefði leiðbeiningum Fjármálaeftirlitsins verið fylgt, hefði skuldbinding hópsins farið yfir þau mörk sem leyfileg voru samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar. Utanumhald um áhættu útlána var með sæmilegu móti en upplýsingar um áhættu ekki nýttar með viðunandi hætti til þess að taka ákvörðun um frekari útlán eða aðgerðir vegna útistandandi lána. Til að mynda kom fram í skýrslu innri endurskoðanda um útlán frá því í nóvember 2007 að nokkur áhætta fylgdi mörgum útlánum sparisjóðsins, t.d. vegna lágs eiginfjárframlags, framandi aðstæðna í fjarlægum löndum og aðstæðna á fasteigna- og verðbréfamörkuðum víða um lönd. Nokkrum dögum eftir að skýrslan kom út var bókað á fundi lánanefndar að bankinn þyrfti að ráðstafa takmörkuðum gæðum á tímum lánsfjárskorts vel, en þrátt fyrir það var lánað áfram til áhættusamra verkefna. Fyrrum bankastjóri sagði áhættutökuna hafa verið mikilvæga, og jafnvel nauðsynlega, fyrir starfsemi bankans:

Sparisjóðabankinn var að ýmsu leyti líkur Askar Capital sem var að glíma við þetta sama, þ.e. að reyna að finna einhver verkefni, verandi ekki mjög stór lánveitandi á íslenska markaðinum í samanburði við stóru bankana og hafandi ekki þessa smásölustarfsemi sem gefur ákveðinn stöðugleika; að reyna að finna viðskiptasyllu, einhvern vettvang til að starfa á sem gefur sæmilega afkomu án þess að áhættan sé óásættanleg. Kannski getur þetta einfaldlega aldrei gengið upp. Kannski verður þetta alltaf þannig að þrýstingurinn á að skila góðri afkomu leiði til þess að það sé tekin meiri áhætta en ella. Ég held að það sé alveg ljóst þegar farið er yfir lánastarfsemi Sparisjóðabankans að hún var áhættusamari en lánastarfsemi flestra sparisjóðanna; flestra, en þó ekki allra, vegna þess að stóru sparisjóðirnir, SPRON og Byr voru líka komnir í áhættusamari verkefni eins og til dæmis fasteignaverkefni innanlands og utan til þess einmitt að reyna að finna einhver útlánaverkefni sem gæfu þokkalega af sér. Kannski var þetta viðskiptamódel Sparisjóðabankans dæmt til að mistakast. Að leggja aukna áherslu á verkefni utan sparisjóðakerfisins, mega ekki hasla sér völl á smásölumarkaði í samkeppni við sparisjóðina og hafa ekki bolmagn til að keppa við stóru viðskiptabankana um bestu viðskiptin, gat væntanlega aldrei skapað arðvænlegan rekstur án þess að áhættutakan væri fullmikil.79

Sú breyting sem varð á útlánastefnu Sparisjóðabankans frá því snemma á fyrsta áratug aldarinnar hafði mikil áhrif á afkomu hans. Auka átti vaxtamuninn með því að fara í áhættumeiri útlán en þó var lagt upp með að bankinn færi ekki í beina samkeppni við eigendur sína. Viðskiptabankastarfsemi kom því ekki til greina. Þá sinntu stóru bankarnir þrír stærstu viðskiptavinum á Íslandi, því í krafti stærðar sinnar gátu þeir aflað lánsfjár á betri kjörum og lánað hærri fjárhæðir en t.d. Sparisjóðabankinn. Það markaðssvæði sem Sparisjóðabankinn ákvað að vinna innan voru sambankalán erlendis, fasteigna- og byggingalán hérlendis og erlendis og lán til verðbréfakaupa, einkum kaupa á óskráðum bréfum. Áhætta útlánasafnsins varð því meiri í von um hærri arðsemi. Þar sem stærstur hluti lánasafns bankans var í erlendri mynt hækkaði virði lánasafns eftir fall bankanna meðan greiðslugeta lántakenda minnkaði og veð rýrnuðu í virði. Í lok árs 2008 varð áhættan til þess að um 63% lánasafnsins voru afskrifuð.

31.4 Kaup á víxlum útgefnum af viðskiptabönkunum og endurhverf viðskipti

Eitt af markmiðum stefnumótunarinnar 2006 var að efla þjónustu við sparisjóðina og önnur fyrirtæki í flóknum afleiðuviðskiptum. Til þess að ná settum markmiðum var meðal annars ráðið nýtt fólk til bankans og má þar til dæmis nefna Agnar Hansson, sem síðar tók við sem bankastjóri í byrjun árs 2008. Agnar hóf störf sem framkvæmdastjóri fjárstýringar bankans 1. mars 2006 og lýsti komu sinni þangað með eftirfarandi hætti fyrir rannsóknarnefndinni:

[É]g tók ekki beint við af neinum. Það hafði átt sér stað stefnumótunarvinna í bankanum. Það lágu fyrir viðamiklar breytingar í starfsemi bankans sem stjórn hafði lagt til sem fólu í sér aukið sjálfstæði frá sparisjóðunum, í framhaldi af því sala á hlutabréfum út fyrir sparisjóðakerfið og að lokum heimsyfirráð eins og hjá mörgum öðrum þátttakendum á íslenskum fjármálamarkaði, þannig að það má segja að ég hafi verið fenginn þarna inn í ljósi þeirrar þekkingar og reynslu sem ég hafði á ýmiss konar afleiðuviðskiptum og öðru þess háttar og það var stefna og vilji bankans að láta til sín taka í auknum mæli akkúrat á þeim vettvangi.80

Sparisjóðabankinn átti í margs konar afleiðuviðskiptum, meðal annars með ýmis afbrigði skuldatrygginga, skiptasamninga og skuldaafleiður utan efnahags. Hluti afleiðuviðskiptanna voru viðskipti með skuldatryggingar á víxla útgefna af viðskiptabönkunum þremur en Sparisjóðabankinn keypti mikið af slíkum bréfum á árunum 2007 og 2008. Kaupin voru fjármögnuð með því að leggja viðkomandi bréf fram sem tryggingu við fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands í dag- og veðlánum.

Samkvæmt óendurskoðuðum ársreikningi Sparisjóðabankans 2008 færði hann skuldabréfa- og afleiðueign sína niður um 103,4 milljarða króna. Þar af var niðurfærsla bankabréfa tæpir 82 milljarðar króna.81

31.4.1 Sparisjóðabanki Íslands hf. verður milligönguaðili fyrir viðskiptabankana með lausafjárfyrirgreiðslur frá Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands veitti fjármálastofnunum sem eftir því óskuðu lausafjárfyrirgreiðslur með veði í verðbréfum. Þau gátu verið til viku í senn, og eru þá gjarnan kölluð veðlán, eða til eins dags, og eru þá kölluð daglán. Ítarlega er fjallað um lán gegn veði hjá Seðlabanka Íslands í kafla 4.5.5 í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði82 en í 6. kafla þessarar skýrslu er fjallað um reglur um viðskipti lánastofnana við Seðlabanka Íslands.

Í byrjun árs 2007 fóru fyrstu merki alþjóðlegrar fjármálakreppu að gera vart við sig. Fasteignamarkaðurinn í Bandaríkjunum var á niðurleið, vanskil að aukast og fasteignaverð að lækka. Millibankavextir hækkuðu og aðgengi að lánsfé versnaði. Í ágúst sama ár lokuðust alþjóðlegir lánamarkaðir að miklu leyti og jókst þá fyrirgreiðsla Seðlabanka Íslands við íslenskar fjármálastofnanir. Í lok september 2008 var umfang viðskipta Sparisjóðabanka Íslands hf. við Seðlabanka Íslands 45 sinnum meira en það hafði verið í árslok 2006. Seðlabankinn breytti reglum um viðskipti við fjármálastofnanir einu sinni á árinu 2007 og þrisvar sinnum á árinu 2008 og miðuðu þær breytingar allar að því að rýmka aðgengi fjármálastofnana að lánsfé hjá bankanum.83

Að verða þjónustuaðili við íslensk fjármálafyrirtæki var eitt þeirra markmiða sem Sparisjóðabankinn hafði sett sér samkvæmt skýrslu fyrrum bankastjóra fyrir rannsóknarnefndinni. Það fólst meðal annars í því að verða milligönguaðili um lausafjármögnun frá Seðlabankanum gegn veði í skuldaskjölum útgefnum af viðskiptabönkunum þremur:

Að sama skapi sagði stjórn bankans 2005–2006, og það er sú lína sem er ríkjandi þegar ég er ráðinn inn, menn segja bara: Við erum með áratuga reynslu í að vera heildsölubanki; það er enginn annar aðili að sinna þessum markaði. Einhverjir eru með sérhæfingu í orkugeira og sjávarútvegi, einhverjir í verslun o.s.frv. en langstærsti einstaki markaður á Íslandi var fjármálamarkaður og fjármálafyrirtæki og það var kjörin sylla fyrir aðila þarna inni til að fókusa á þann markað. Það varð okkar hlutverk og þess vegna byrja síðan öll þessi viðskipti okkar með víxla og skuldabréf bankanna og endurhverf viðskipti niðri í Seðlabanka og við vorum náttúrulega lengi búin að vinna með sparisjóðunum sem samvinnuaðilar í útlánum og við fórum að vinna með bönkunum, kannski aðallega Kaupþingi en að einhverju leyti Íslandsbanka, vinna með þeim og viðskiptamönnum í að búa til afleiðusamninga sem gerðu það að verkum að það var hægt að nota skuldabréf útgefin af ýmsum aðilum og þá náttúrulega langmest bönkunum sjálfum, til þess að efla vonandi skuldabréfamarkaðinn og auka viðskipti o.s.frv.84

Á mynd 4 má sjá fyrirgreiðslur Sparisjóðabankans hjá Seðlabankanum og hvaða veð voru lögð fram fyrir þeim. Á árunum 2005 og 2006 voru veðin einkum ríkisvíxlar og skuldabréf útgefin af Íbúðalánasjóði en 13. febrúar 2007 lagði Sparisjóðabankinn í fyrsta sinn fram verðbréf útgefin af íslensku viðskiptabönkunum til tryggingar veðláni. Stuttu áður hafði Sparisjóðabankinn, í samráði við endurskoðanda bankans, sett upp fyrirkomulag viðskipta um lán til viðskiptabankanna sem yrði fjármagnað með veði í skuldabréfum þeirra banka. Í samskiptum starfsmanns bankans og endurskoðanda 9. febrúar 2007 kom fram að „repo-dæmið“ væri orðið raunhæft vegna þess að Seðlabankinn hefði tilkynnt að hann tæki nú við skuldabréfum í íslenskum krónum sem færu í gegnum Euroclear, sem er erlendur uppgjörs- og vörsluaðili með verðbréf. Því tæki Seðlabankinn nú veð í bréfunum GLB 08 0825, KAU CB 2 og KAU CB 1 fyrir fyrirgreiðslum. Starfsmaðurinn velti fyrir sér hvort fyrir lægi hvaða áhrif veðlánaviðskiptin við Seðlabanka Íslands hefðu á eiginfjárhlutfall bankans, stórar áhættuskuldbindingar og aðra þætti.85

Sparisjóðabanki Íslands keypti víxla af viðskiptabönkunum þremur, Kaupþingi, Glitni og Landsbanka Íslands. Víxlarnir voru lagðir að veði gegn lántöku hjá Seðlabanka Íslands. Samhliða víxlakaupunum gerði Sparisjóðabankinn vaxtaskiptasamninga til að verja vaxtaáhættu samningsaðila. Með vaxtaskiptasamningunum greiddi Sparisjóðabankinn sömu vexti og víxlar viðskiptabankanna báru en viðskiptabankarnir greiddu veðlánavexti Seðlabanka Íslands ásamt álagi sem var þóknun Sparisjóðabankans fyrir milligöngu í viðskiptunum við Seðlabanka Íslands. Einnig átti Sparisjóðabankinn viðskipti við viðskiptabankana þrjá, þar sem Sparisjóðabankinn lét af hendi eigin víxla til greiðslu fyrir bankavíxla sem voru veðhæfir hjá Seðlabanka Íslands.86 Þessi viðskipti endurspeglast vel í þróun á reglulegri víxlaútgáfa Sparisjóðabanka Íslands hf. en hún nam á bilinu 10 til 14 milljörðum króna frá janúar til september 2007. Útistandandi nafnverð víxla stóð hæst sumarið 2008 þegar það fór tvívegis yfir 70 milljarða króna.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls og rekstrarerfiðleika bankanna er fjallað um veðlánaviðskipti viðskiptabankanna þriggja og Sparisjóðabankans. Þar kemur meðal annars fram að um vorið 2008 hafi dregið úr veðlánatöku Landsbankans

frá því sem áður var og að um sumarið hafi hún verið orðin nánast engin. Á sama tíma jókst veðlánataka Sparisjóðabankans í Seðlabankanum gegn veði í bréfum Landsbankans.87

Fyrirgreiðsla Seðlabanka Íslands til Sparisjóðabankans í lok árs 2008 gegn veði í skuldabréfum útgefnum af bönkunum þremur og íbúðabréfum, nam 160 milljörðum króna. Rannsóknarnefndin yfirfór skýrslur áhættustýringar bankans til þess að varpa ljósi á það hvernig mat á þessari áhættu og eftirlit með henni hefði verið. Ekki var að sjá að áhættan kæmi þar fram og þegar það var borið undir bankastjóra hafði hann ekki skýringar á því.88 Forstöðumaður áhættustýringar sagði í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni að þessi atriði hefðu ekki verið á skýrslum áhættustýringar, en á þeim tíma sem viðskiptin byrjuðu hefðu þau verið rædd fram og til baka og minntist hann funda með bankastjóra um málið. Greiningar á viðskiptunum hefðu ekki verið gerðar og ekki hefði verið óskað eftir þeim.89

Bankaráð fjallaði lítið um viðskiptin en þær fundargerðir sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum sýna engar sérstakar bókanir um þau. Í fundargerð bankaráðs 15. janúar 2008 undir liðnum „rekstraráætlun fyrir 2008“ sem nýr bankastjóri, Agnar Hansson, kynnti á fundinum segir:

Vöxtur bankans var meiri en nokkru sinni fyrr, sérstaklega á sviði sérhæfðrar fjárstýringarþjónustu og lengi fram eftir ári leit út fyrir að afkoma bankans yrði sú besta frá upphafi.90

Á aðalfundi bankans 7. mars 2008 var minnst á viðskiptin við yfirferð bankastjóra á ársreikningi fyrir árið 2007. Veltufjáreignir hefðu aukist úr 8,8 milljörðum króna í árslok 2006 í 136 milljarða króna í lok ársins 2007.

Nánast öll þessi aukning stafar af viðskiptum við innlendar fjármálastofnanir, aðrar en sparisjóðina, með skuldabréf sem hæf eru í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann.91

Hreinar vaxtatekjur Sparisjóðabankans jukust mikið frá 2004 til 2008, en auknar vaxtatekjur voru eitt af markmiðum stefnumótunarvinnunnar árið 2006. Hreinar vaxtatekjur voru þó farnar að aukast áður en ráðist var í stefnumótunina. Vaxtatekjur og –gjöld tengd endurhverfu viðskiptunum féllu undir viðskipti við lánastofnanir en munur milli vaxtatekna og vaxtagjalda af þeim flokki breyttist, ef eitthvað var, til hins verra fyrir Sparisjóðabankann á árinu 2008. Vextir af skuldabréfaútgáfum sparisjóðsins féllu undir vaxtagjöld af lántöku, sem hækkaði töluvert frá 2006 til 2008, en vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum í eigu bankans voru miklar árið 2008. Allt eru þetta liðir sem með einum eða öðrum hætti tengjast endurhverfu viðskiptunum, en þó ekki einungis þeim. Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni sagði fyrrum bankastjóri að tekjur af viðskiptum með skuldabréfin og endurhverfu viðskiptunum hefðu verið 3–500 milljónir króna á ári í þau tvö ár sem þau stóðu yfir.92 Vaxtatekjur af útlánum voru aftur mun meiri á árunum 2007 og 2008 en þær höfðu verið áður og voru þær meginástæða hærri vaxtamunar.

Á árinu 2007 voru þóknunartekjur bankans 107 milljónir króna en 271 milljón króna ári seinna. Í fundargerð bankaráðs frá 22. ágúst 2008 þar sem rætt var um uppgjör annars ársfjórðungs 2008 kom fram að þóknunartekjur hefðu hækkað mest vegna aukinna umsvifa á gjaldeyrismarkaði og vaxandi umsvifa fyrirtækjaráðgjafar. Viðskipti með skuldabréf bankanna skiluðu ekki þóknunartekjum en afleiðusamningar í tengslum við þau gerðu það hins vegar. Veðlánaviðskiptin höfðu mikið að segja um stærð efnahagsreiknings Sparisjóðabankans árin 2007 og 2008, þegar hann gjörbreyttist frá því sem áður var.

Umfang endurhverfra viðskipta Sparisjóðabankans við Seðlabankann vakti athygli eftirlitsaðila. Í bréfi 13. nóvember 2007 kom Seðlabanki Íslands því áleiðis til Fjármálaeftirlitsins að í síðasta lausafjárútboði Seðlabankans þar á undan hefði Sparisjóðabankinn tekið 105 milljarða króna að láni að miklu leyti gegn veði í bréfum útgefnum af Glitni hf. og Kaupþingi banka hf. Þeirri spurningu var varpað fram hvort umfang þessara viðskipta Sparisjóðabankans samrýmdist ákvæðum reglna sem bankanum bæri að starfa eftir.93

Með bréfi 15. nóvember 2007 tilkynnti Fjármálaeftirlitið Sparisjóðabankanum að útreikningar þess bentu til að áhættuskuldbindingar Sparisjóðabankans gagnvart Glitni banka sem kæmu ekki til frádráttar frá stórum áhættum sbr. p-lið 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 216/2007 næmu tæpum 4 milljörðum króna eða 35% af eiginfjárgrunni Icebank hf. Gagnvart Kaupþingi banka hf. voru sams konar skuldbindingar rúmir 5 milljarðar króna eða tæplega 48% af eiginfjárgrunni.94 Stórar áhættuskuldbindingar mega hæst nema 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Í svarbréfi Icebank hf. 20. nóvember 2007 staðfestu bankastjóri og forstöðumaður áhættustýringar réttmæti fjárhæða í bréfi Fjármálaeftirlitsins. Í bréfinu segir:

Þau viðskipti og verðbréfaeign sem eftirlitið gerir að umtalsefni eru hluti af víðtækari viðskiptum bankans með skiptasamninga við viðskiptavini sína (e. total return swaps). Þessi viðskipti hófust á öðrum ársfjórðungi 2007 og hafa farið vaxandi. Viðskiptin eru þannig að bankinn kaupir markaðsskuldabréf, fyrst og fremst ríkistryggð skuldabréf og skuldabréf og víxla, útgefin af bönkum. Þessi verðbréf eru sett að veði í lausafjárútboðum í Seðlabanka Íslands. Með framangreindum skiptasamningum taka viðskiptavinir Icebank á sig áhættu vegna verðlækkunar og greiðslufalls af verðbréfunum gegn framlagningu trygginga í samræmi við nánari ákvörðun bankans. Þessi tilflutningur á áhættu er ástæða þess að bankinn hefur ekki talið umrædd verðbréf til áhættuskuldbindinga viðkomandi útgefenda samkvæmt reglum um stórar áhættuskuldbindingar. Viðskiptavinirnir njóta ávöxtunar bréfanna en greiða bankanum á móti seðlabankavextina að viðbættu álagi sem gjarnan er 0,2%. Áhrif þessara skiptasamninga má sjá í efnahagsreikningi bankans að því leyti að veltufjáreignir hafa hækkað og innlán frá Seðlabankanum aukist að sama skapi.
Það skal upplýst að í júnílok var um að ræða 14 samninga af þessu tagi, samtals að fjárhæð um 21,8 milljarðar króna. Um þessar mundir er fjöldi samninganna 86, samtals að fjárhæð 81,7 milljarðar króna. Stærsti einstaki viðskiptavinurinn hefur gert samninga að fjárhæð samtals 20,3 milljarðar króna og stærsti einstaki samningurinn er að fjárhæð 6,2 milljarðar króna.
Með hliðsjón af ofangreindu telur Icebank að hann hafi í engu gengið gegn ákvæðum umræddra reglna um stórar áhættuskuldbindingar.95

Fjármálaeftirlitið óskaði þá eftir sýnishorni af samningunum og var það sent 23. nóvember 2007. Fjármálaeftirlitið aðhafðist ekki frekar í málinu en á skýrslum Sparisjóðabankans um stórar áhættuskuldbindingar á árinu 2007 voru ekki færðar skuldbindingar við viðskiptabankana þrjá og því ekki heldur frádráttur vegna skuldatrygginga. Reglur um stórar áhættuskuldbindingar bera það hins vegar ekki með sér að hægt hefði verið að nýta þessar skuldatryggingar til lækkunar. Í 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar er fjallað um þá liði sem heimilt er að undanskilja frá stórum áhættuskuldbindingum. Í b- og c-liðum greinarinnar er talað um eignalið sem er krafa eða aðrar áhættuskuldbindingar sem rekja megi til eða eru með ábyrgð ríkja, seðlabanka, alþjóðastofnana, fjölþjóða þróunarbanka eða opinberra fyrirtækja og stofnana. Ekki er gert ráð fyrir ábyrgð annars konar fyrirtækja eða að einstaklingar geti lækkað áhættuskuldbindingu. Tekið er fram að skuldatryggingar teljist til ábyrgða. Hins vegar segir í p-lið sömu greinar að heimilt sé að undanskilja kröfur á fjármálafyrirtæki innan Evrópska efnahagssvæðisins með lánstíma eftirstöðva undir einu ári og undanskilja 20% þeirra ef eftirstöðvatíminn er 1–3 ár. Skuldbindingar við Landsbanka Íslands, 2,6 milljarðar króna, voru færðar á skýrslur um stórar áhættuskuldbindingar í mars 2008 en frá júní 2008 voru skuldbindingar við alla viðskiptabankana þrjá færðar á skýrslurnar og tekið tillit til frádráttar í p-lið 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 216/2007.

Fyrrverandi bankastjóri sagði áhættustýringu og stjórnendur bankans hafa verið meðvitaða um áhættuna af endurhverfu viðskiptunum:

Hvað gerist ef Glitnir fer í þrot? […] Þetta tengdist því auðvitað líka hvernig ætti að verðleggja svona viðskipti og hversu áhættusöm þau væru. Við mátum það alltaf svo að endurheimtur myndu verða háar, kannski 80%, og að það hefðu ekki verið mörg áföll banka í heiminum þar sem endurheimturnar væru lægri. Svo auðvitað gerist það á endanum þegar allt hrynur og neyðarlögin eru sett að þá er öllum forsendum breytt þannig að innlán fá forgang. […] Ég held það gefi augaleið að ef markaðsaðilar hefðu áttað sig á að eitthvað svoleiðis gæti gerst, þá hefði öll verðlagning, tryggingataka og krafa um eiginfjárframlag verið allt, allt öðruvísi.96

Eftir að neyðarlögin voru sett var óljóst með virði skuldabréfa útgefinna af bönkunum en talið að endurheimtur yrðu ekki miklar. Seðlabankinn gerði veðkall á Sparisjóðabanka Íslands hf. 20. október 2008 þar sem þess var krafist að bankinn legði fram frekari tryggingar upp á 60 milljarða króna innan tveggja sólarhringa. Veðkallið var gert vegna veðlána gegn veði í bréfum viðskiptabankanna þriggja sem Seðlabankinn mat þá á um 50% af virði þeirra. Þá var fjárhagsstaða Sparisjóðabankans með þeim hætti að hann gat ekki endurgreitt skuldir við Seðlabankann, enda voru þeir sem Sparisjóðabankinn hafði endurlánað veðlánin til komnir í umsjón skilanefnda og ekki von á greiðslum úr búi þeirra í bráð. Tap Sparisjóðabankans af bréfum viðskiptabankanna þriggja var að minnsta kosti 82 milljarðar króna í ársreikningi 2008 eða tæplega helmingur taps ársins, sem nam 195,6 milljörðum króna fyrir skatt.

31.4.2 Skuldatryggingar vegna íslensku viðskiptabankanna

Eins og framar greinir gerði Sparisjóðabankinn samninga um skuldatryggingar í tengslum við kaup á víxlum útgefnum af viðskiptabönkunum þremur. Í skýrslum fyrrum starfsmanna bankans fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að ekki hefði verið gerður mikill greinarmunur milli CDS-samninga (e. credit default swap) og TRS-samninga (e. total return swap) innan bankans og þeir notaðir í svipuðum tilgangi.97 Því verður fjallað um þessar tvær tegundir samninga hér sem skuldatryggingar.98 Fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að upphaf endurhverfra viðskipta með veð í bréfum frá viðskiptabönkunum hefði verið til að fjármagna samninga um skuldatryggingar sem myndast hafði eftirspurn eftir. Þannig hefðu viðskiptavinir komið til bankans fyrir tilstilli Kaupþings til að byrja með og vildu gera samninga um skuldatryggingar. Til að fá fjármögnun hefði bankinn lagt bréfin að veði fyrir fyrirgreiðslu í Seðlabankanum. Þeir vextir sem viðskiptavinurinn greiddi síðan hefðu verið jafnir þeim vöxtum sem bankinn hefði greitt Seðlabankanum að viðbættu álagi til bankans.99

Þessu var svo öfugt farið síðar, þegar skuldatryggingar voru seldar til þess að minnka áhættu tengda viðskiptabönkunum, en Sparisjóðabankinn hafði lánað þeim mikið laust fé sem fjármagnað var með endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Þannig kom fram hjá öðrum fyrrverandi starfsmanni bankans þegar spurt var um tilgang skuldatrygginganna: „[E]ftir því sem við vissum þá bara þurfti að selja þessa díla út því að bankinn var kominn með of stóra stöðu gagnvart Glitni í svona bréfum.“100

Viðskipti með skuldatryggingar hófust á árinu 2007 og urðu nokkuð umfangsmikil. Gerðir voru samningar þar sem undirliggjandi bréf voru bréf útgefin af viðskiptabönkunum þremur eða félögum tengdum þeim, sem og ríkistryggð skuldabréf, skuldabréf útgefin af Exista hf. og Eyri Invest hf. Samkvæmt yfirlitum sem skilanefnd Sparisjóðabankans afhenti rannsóknarnefndinni voru 48 skuldatryggingarsamningar með undirliggjandi bankabréf útistandandi í lok árs 2007 og heildarfjárhæð þeirra 67,7 milljarðar króna. Samningarnir voru þess eðlis að tryggjandinn ábyrgðist greiðslu á undirliggjandi bréfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, meðal annars ef útgefandi stóð ekki í skilum. Samningurinn náði yfirleitt til ákveðins tímabils og er tryggjandinn ekki krafinn um að leggja tryggingafjárhæðina fram til vörslu á meðan samningurinn var í gildi. Tryggði aðilinn bar því mótaðilaáhættu gagnvart þeim sem tryggði samninginn.

Til að koma til móts við mótaðilaáhættuna var tekin trygging fyrir samningunum, en hún var um 2–3% af upphæð skuldabréfanna. Þeir aðilar sem seldu tryggingarnar voru fæstir fjárhagslega í stakk búnir til þess að takast á við áhættu vegna greiðslufalls en þáðu engu að síður þóknanir fyrir að taka hana á sig samkvæmt samningum. Fram kom í skýrslum fyrrum bankastjóra bankans fyrir rannsóknarnefndinni að talið hefði verið að ef bankarnir færu á hausinn yrðu um 80% endurheimtur af skuldabréfum þeirra. Því hafi ekki endilega verið litið svo á að þeir sem tryggðu endurhverfu viðskiptin þyrftu að vera borgunarmenn fyrir andvirði skuldabréfanna, heldur eingöngu fyrir þeim 20% sem ekki fengjust endurheimt frá bönkunum.101 Agnar Hansson, fyrrverandi bankastjóri Sparisjóðabankans, fór yfir það til hvaða aðgerða var gripið gagnvart þeim sem seldu tryggingar á skuldabréf bankanna eftir að Fjármálaeftirlitið hafði tekið yfir vald hluthafafunda þeirra, í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni:

Það var náttúrlega óljóst lengi framan af hvað yrði með þessar skuldir og það skýrðist ekki einu sinni þarna í október en það var náttúrulega líka búið að loka einhverjum af þessum samningum [þá]. […] Það dróst ábyggilega í einhverjar vikur eftir að bönkunum var lokað og í upprunalega upplegginu var hugmyndin sú að öll íslensk skuldabréf færu yfir [í nýju bankana]. Mín megináhersla út af því lá gagnvart samskiptum okkar við Seðlabankann þannig að ég var náttúrlega meira skuldari þar að semja við þá. Síðan var lögfræðisviðið okkar eða aðrir að vinna í þeim sem skulduðu okkur þannig að ég man ekki nákvæmlega hvernig það ferli átti sér stað. […] Þetta tók allt einhvern tíma og ég var aðallega að reyna að halda bankanum á lífi. Það voru náttúrlega allar tryggingar kyrrsettar og svo var gengið fram í einhverri innheimtu og ég held að það hafi einhver félög endað gjaldþrota en ég bara man ekki hvernig það fór í einstaka tilfellum.102

Formaður skilanefndar Sparisjóðabankans upplýsti rannsóknarnefndina um það að einungis þrír samningar um skuldatryggingar bankabréfa við jafnmarga aðila hefðu verið óuppgerðir í lok árs 2008, samtals að nafnverði 32 milljarðar króna og allir með bréf Glitnis banka undirliggjandi. Sparisjóðabankinn hefði gripið til aðgerða gagnvart þessum þremur aðilum sem selt höfðu skuldatryggingar en um var að ræða þrjú einkahlutafélög. Gengið hefði verið að tryggingum á reikningum félaganna, samtals um 434 milljónir króna. Gagnvart einum þessara aðila væri útistandandi dómsmál í héraðsdómi um eftirstöðvar kröfu, en gagnvart öðrum hefði innheimtumál verið fellt niður árið 2012 þegar eignaleysi og ógjaldfærni þess félags lá fyrir. Þá hefði verið gert samkomulag við þriðja félagið og bankinn leyst til sín skuldabréf upp á 140 milljónir króna í Fasteignafélaginu Stoðum hf. og félagið greitt tæpar 37 milljónir króna. Tveimur samningum var lokað stuttu fyrir fall bankanna 2008 og hefur slitastjórnin reynt að rifta þeim. Aðrir samningar um skuldatryggingar hefðu verið gerðir upp á gjalddaga þeirra en á gjalddaga féll skuldatrygging viðkomandi niður og hann fékk greitt fyrir samninginn. Aðrar endurheimtur hafi ekki orðið en þær sem getið er hér á undan.103

Sparisjóðabankinn bauð upp á margs konar afleiðuviðskipti fyrir viðskiptavini sína sem ekki verður sérstaklega fjallað um hér. Hins vegar er rétt að geta þess að fimm sparisjóðir seldu Sparisjóðabanka Íslands skuldatryggingar á fyrirtækjaskuldabréf Baugs Group hf. að 540 milljóna króna nafnverði. Sparisjóður Bolungarvíkur seldi einnig skuldatryggingu á Eyri Invest hf. að 100 milljóna króna nafnverði. Samningarnir með skuldatryggingu á Baug Group hf. voru gerðir 7. ágúst 2007 og var lokadagur þeirra 12. júlí 2009 með sama gjalddaga og skuldabréfið. Lausnarskilyrði samninganna voru þau að útgefandi stæði ekki í skilum með greiðslu vaxta eða höfuðstóls samkvæmt undirliggjandi bréfum, þau yrðu gjaldfelld eða gert yrði fjárnám hjá útgefanda eða móður- eða dótturfélögum hans, fram kæmu óskir um gjaldþrotaskipti á búi einhvers þeirra, eitthvert þeirra leitaði nauðasamninga, eignir þeirra væru auglýstar á nauðungaruppboði eða óskað yrði eftir greiðslustöðvun eða niðurfellingu skulda einhvers þeirra.

Hinn 4. febrúar 2009 óskaði Baugur Group hf. eftir greiðslustöðvun og 11. febrúar féllst héraðsdómur Reykjavíkur á beiðnina. Þar með var lausnarskilyrði komið fram og krafðist Sparisjóðabanki Íslands greiðslu á skuldatryggingu samkvæmt samningunum. Hinn 18. febrúar 2009 sendu Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóðurinn í Keflavík yfirlýsingu um riftun á samningum um skuldatryggingu á grundvelli vanefnda af hálfu Sparisjóðabanka Íslands hf. Bankanum bar að greiða þóknun 12. janúar 2009 en greiðslan hafði ekki verið innt af hendi. Samkvæmt ákvæðum í VI. kafla samningsins taldist það vanefnd af hálfu kaupanda ef hann greiddi ekki umsamda þóknun á gjalddaga.104 Beiðni um riftun var hafnað og var farið fram á það við sparisjóðina að þeir greiddu skuldatryggingarnar.105 Eftir fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Bolungarvíkur á árinu 2010 fékk Sparisjóðabankinn 12 milljónir af skuldinni staðgreiddar, 42 milljónir króna greiddar með langtímaláni og 43 milljónir króna greiddar með víkjandi láni. Kröfu var lýst í þrotabú Byrs sparisjóðs vegna kröfu á hendur Sparisjóði Norðlendinga. Sem greiðslu fyrir kröfu á Sparisjóð Mýrasýslu fékk Sparisjóðabankinn skuldabréf á hendur Arion banka hf. upp á rúmar 247 milljónir króna sem er á gjalddaga í desember 2018. Krafa á hendur Sparisjóðnum í Keflavík, vegna Sparisjóðs Vestfirðinga, fékkst ekki greidd. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Vestmannaeyja fékk Sparisjóðabankinn um 80 milljónir króna staðgreiddar af öllum kröfum sínum á sparisjóðinn, samtals 129 milljónir króna.

Kaup Sparisjóðabankans á víxlum útgefnum af viðskiptabönkunum þremur, sem voru svo nýttir í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann, voru umfangsmikil á árunum 2007 og 2008. Eins og fyrr segir var tap vegna þeirra 82 milljarðar króna á árinu 2008, eða um 32% af eigin fé bankans í árslok 2007 og 42% af tapi fyrir skatta á árinu 2008. Sparisjóðabankinn hafði reynt að meta áhættuna sem fylgdi þessum viðskiptum og mat það svo að ef bankarnir færu á hausinn yrðu endurheimtur af víxlunum á bilinu 80–90%.106 Áhætta af viðskiptunum var metin áður en í þau var ráðist en hún var ekki metin reglulega eða fylgst með henni kerfisbundið.107 Bankinn keypti skuldatryggingar á víxla sem nýttir voru í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann, og tryggðu þær, samkvæmt ákvæðum samninganna, greiðslufallsáhættu af víxlunum. Ekki var þó gert ráð fyrir að seljendur trygginganna gætu endurgreitt alla hina tryggðu víxla, heldur einungis 10–20% af virði þeirra, þ.e. mismuninn á virði víxlanna og þess sem áætlað var að myndi endurheimtast frá bönkunum sjálfum.108 Forsendur þess áhættumats sem þó var til staðar á endurhverfum viðskiptum í Sparisjóðabankanum breyttust með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Sá forgangur sem innistæður fengu með þeim lögum gat minnkað líkur á endurheimtum af skuldabréfum viðskiptabankanna.

Leikreglum er breytt þannig að almennir kröfuhafar eru settir skör lægra en innlánseigendur og svo náttúrulega blasir það bara við að bæði í Bretlandi og á Norðurlöndunum var eignum rænt af bönkunum. Ég held það láti nærri að endurheimtur í bönkunum öllum liggi á bilinu 55–60% núna ef allt er talið með, og ég hugsa að það megi hæglega bæta við 10–15% ofan á þegar teknar eru þær eignir sem þeir áttu í Skandinavíu og Bretlandi. Þannig að það má alveg benda á að endurheimtur krafna af íslensku bönkunum, þrátt fyrir að hér hafi orðið heildarhrun, hefðu hæglega getað legið nálægt 70%. Ég held að okkar viðmið í þessum viðskiptum sem við miðuðum við, var að þeir aðilar sem væru að taka þátt í viðskiptunum væru borgunarmenn fyrir 15% af fjárhæðinni. En það hvarflaði aldrei að neinum að þó einhver gerði skuldatryggingasamning upp á 5 milljarða að hann þyrfti þá að borga 5 milljarða. Menn sáu fram á að í versta hugsanlega tilfelli værum við kannski að tala um 700 milljónir.109

Stjórnendur Sparisjóðabankans fylgdust vel með áhættu af eignarhlutnum í Exista hf. og voru reglulega upplýstir um áhættu af útlánum. Miklar umræður áttu sér stað innan bankans um eignarhlutinn í Exista hf., eins og sjá má af fundargerðum bankaráðs og tölvupóstsamskiptum starfsmanna á milli, og tókust þar á sjónarmið um vænta framtíðarávöxtun og áhættu af verðbréfaeigninni. Þá kom fram í skýrslum fyrrum bankastjóra og fyrrum framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs fyrir rannsóknarnefndinni að áhættan sem tekin var í útlánunum hefði verið meðvituð og í samræmi við stefnu bankans. Áhættan var talin nauðsynleg til að ná settum tekjumarkmiðum og finna sér markað til að starfa á.

Þó að það hafi verið búið að minnka Exista-stöðuna, þá var hún enn til staðar í töluverðum mæli, þannig að það var náttúrlega mikið áfall fyrir bankann þegar Exista hrynur. […] Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á en það er ljóst að það var meiri áhætta í eignasafninu heldur en menn gerðu sér grein fyrir. En […] við í Sparisjóðabankanum gerðum okkur grein fyrir því bankinn yrði í áhættusamari verkefnum en til dæmis sparisjóðirnir sem eru með sín smásöluviðskipti hérna á Íslandi og sem eru alla jafnan tiltölulega traust og góð viðskipti. Það svið stóð Sparisjóðabankanum ekki til boða vegna þess að það var frátekið fyrir sparisjóðina. Stóru fyrirtækin á Íslandi, efnaðir einstaklingar og aðrir traustir aðilar höfðu einfaldlega ekki áhuga á aðila eins og Sparisjóðabankanum og vildu miklu frekar vera í viðskiptum við stóru bankana. Þannig að ef Sparisjóðabankinn átti á annað borð að reyna að hasla sér einhvern völl, þá var óhjákvæmilegt að í slíkri starfsemi yrði meiri áhætta en á þeim sviðum sem ég nefndi og stóðu bankanum ekki til boða. Þannig að ég, og ég held aðrir stjórnendur bankans, gerði mér grein fyrir því að það var meiri áhætta í starfsemi Sparisjóðabankans heldur en til dæmis Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, til að nefna öfgakennt dæmi. En ég held að sama skapi að við höfum talið að áhættan væri minni en raunin varð þegar á reyndi. Ég geri mér svo sem ekki grein fyrir því, af því að ég var ekki lengur í bankanum þegar ósköpin dynja yfir í október 2008, hversu stóran part af fjárhagslegum erfiðleikum bankans undir það síðasta megi rekja til forsendubrestsins sem varð þegar neyðarlögin voru sett og innlánin tekin fram yfir skuldabréfin […] og almennt hversu mikið af erfiðleikum bankans megi rekja til þess að íslenska bankakerfið hrundi og tók með sér fjölmarga aðila í leiðinni. Ég er bara ekki í aðstöðu til að meta það. Það er ljóst að við vissum mætavel að það væri meiri áhætta í starfsemi bankans heldur en starfsemi einstakra sparisjóða, nema hugsanlega þeirra stærstu. Þegar litið er til baka, þá er óhætt að segja að áhættan í eignasafninu hafi verið meiri en við gerðum okkur grein fyrir. Reyndar held ég það að það hafi verið tilfellið að almennt hafi íslenska bankakerfið vanmetið áhættu. Og mér sýnist reyndar á flestu að það hafi líka verið þannig í útlöndum, erlendir bankar voru að vanmeta þá áhættu sem þeir tóku.110

31.5 Fjárhagsleg endurskipulagning

Þegar í kjölfar falls viðskiptabankanna þriggja í október 2008 huguðu eftirlitsaðilar að hugsanlegum afleiðingum þess að Sparisjóðabanki Íslands færi sömu leið. Um þetta var m.a. fjallað í drögum að minnisblaði Seðlabanka Íslands 19. október 2008. Þar sagði að könnun Fjármálaeftirlitsins, en niðurstöður hennar lægju ekki endanlega fyrir, hefði gefið til kynna að eigið fé Sparisjóðabankans væri orðið neikvætt. Þá komu fram áhyggjur af stöðu sparisjóðanna:

Það er mat FME að ef Icebank fer í greiðslustöðvun muni það geta komið illa niður á nokkrum sparisjóðum. Þó þola sparisjóðirnir að missa eignarhluta sinn í Icebank en gjaldfelling lána sparisjóðanna (sem er sennileg) myndi koma sér illa. Líklegt er að erlendir lánardrottnar kalli inn erlend lán til Icebank og þar með hafa afleiðingar fyrir þá sparisjóði sem skulda Icebank erlendan gjaldeyri. Sparisjóðirnir yrðu að útvega sér lánalínur annarsstaðar eða afla lauss fjár eftir þörfum eftir öðrum leiðum.111

Tryggja þyrfti að þeir starfsþættir sem bankinn hafði sinnt í þágu sparisjóðanna og Íbúðalánasjóðs héldust opnir og virkir. Það tæki meðal annars til allrar innlendrar og erlendrar greiðslumiðlunar.

Seðlabanki Íslands gerði veðkall hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. 20. október 2008 vegna fyrirgreiðslu bankans hjá Seðlabankanum með veði í verðbréfum. Krafist var aukinna trygginga að fjárhæð 60 milljarðar króna innan tveggja sólarhringa.112 Í viðtali í morgunfréttum Ríkisútvarpsins daginn eftir efaðist Agnar Hansson bankastjóri Sparisjóðabankans um að bankinn gæti lagt fram frekari tryggingar.113 Sparisjóðabanki Íslands hf. leitaðist því eftir því að semja við Seðlabanka Íslands eða önnur stjórnvöld til þess að leysa úr vandanum.

Seðlabanki Íslands boðaði boðað breytingar á frádragi114 tiltekinna bréfa sem gefin voru út af Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf. og Landsbanka Íslands hf. frá og með 22. október 2008.115 Þar sem Sparisjóðabankinn hafði lagt mikið af bréfum útgefnum af viðskiptabönkunum að veði fyrir fyrirgreiðslu sinni hjá Seðlabankanum var ljóst að breytingin myndi hafa áhrif á tryggingastöðu, og mögulega fjárhagsstöðu, bankans. Tómas Jónsson hæstaréttarlögmaður var skipaður sérfræðingur yfir Sparisjóðabankanum 23. október 2008 til þess að hafa með honum sértækt eftirlit í samræmi við ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Skipun hans var ítrekað framlengd, síðast til 9. apríl 2009. Á skipunartímabilinu gaf Tómas reglulega skýrslur um helstu störf sín í samræmi við ákvæði laganna.116

Fjármálaeftirlitið óskaði eftir árituðu reikningsuppgjöri Sparisjóðabanka Íslands 22. október 2008, en gögn Fjármálaeftirlitsins um efnahagsliði og eiginfjárstöðu bankans, og að teknu tilliti til líklegrar rýrnunar á verðbréfaeign og útlánum bankans, bentu til þess að eigið fé bankans væri uppurið.117 Reikningsuppgjörið barst Fjármálaeftirlitinu 25. október 2008. Tap af rekstri bankans fyrstu níu mánuði ársins nam 11,3 milljörðum króna og var bókfært eigið fé í lok tímabilsins 2,4 milljarðar króna, að teknu tilliti til ýmissa atburða eftir 30. september 2008.118

Á fundi fulltrúa fjármála- og viðskiptaráðuneyta og Fjármálaeftirlitsins 23. október 2008 voru ræddar mögulegar útfærslur á aðkomu ríkisins að eignarhaldi á Sparisjóðabanka Íslands hf. Í tölvuskeyti Böðvars Jónssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra, til Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sama dag kom fram að Fjármálaeftirlitið teldi einsýnt að tap bankans væri meira en fyrirsvarsmenn hans hefðu haldið fram.119 Af samskiptum starfsmanna Seðlabankans má ráða að þeir hafi talið að hluthafar myndu tapa sínu, bankinn verða tekinn yfir og samið við helstu lánardrottna.120

Á vinnufundi vegna aðsteðjandi vanda sparisjóðakerfisins og annarra fjármálafyrirtækja 24. október 2008 var fjallað um meðhöndlun lánveitinga Seðlabanka Íslands.121 Þar kom fram sú hugmynd að leysa vanda fjármálafyrirtækja vegna endurhverfra lána með því að ríkissjóður eða sérstakur sjóður í hans eigu myndi eignast kröfur Seðlabanka Íslands. Með því yrði afskrift lánanna frestað, staða Seðlabankans yrði óbreytt og því ekki þörf fyrir aukið eigið fé handa Seðlabankanum af þeim sökum. Ekki færi fram bein niðurskrift á kröfum á hendur fjármálafyrirtækjunum, heldur yrði fjárhæðin lánuð á hagstæðum kjörum til þeirra fyrirtækja sem uppfylltu reglur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárstöðu. Lánið gæti að hluta til þurft að vera í formi víkjandi láns eða láns með breytirétti í hlutafé. Framtíðarmöguleikar fyrirtækjanna myndu því ráðast af þeirri vogun sem eigendur og stjórnendur þeirra tækju í rekstri, áhrifum á eigið fé og hversu traustur rekstrargrundvöllur þeirra væri, en ekki gjaldfellingu krafnanna.122

Á fundinum var fjallað sérstaklega um stöðu Sparisjóðabanka Íslands hf. og fram kom að skuldastaða hans gagnvart Seðlabankanum væri verri en hjá flestum öðrum fjármálastofnunum, enda hefði viðskiptalíkan hans meðal annars gengið út á endurhverf viðskipti. Útrás hefði verið yfirlýst stefna bankans á sama tíma og dregið var úr þeirri starfsemi sem upphaflega lá til grundvallar starfseminni. Þá sagði í niðurlagi umfjöllunar um bankann:

Verði það niðurstaðan að bankinn verði rekinn áfram mætti væntanlega leysa repóviðskiptin með þeim hætti sem að framan greinir. Beðið er eftir niðurstöðu FME varðandi fjárhagsstöðu bankans. Umfang repó lánanna er mjög mikið í hlutfalli við efnahag og eigið fé bankans. Auk þess þarf bankinn væntanlega á umtalsverðu nýju eiginfjárframlagi að halda. Þetta tvennt mun að öllum líkindum þurrka út eiginfjárhluti núverandi eigenda. Sparisjóðirnir munu í flestum tilvikum þola þann skaða og hann mun ekki hafa áhrif á CAD hlutfall þeirra. […] Þá þarf nýtt fjárframlag til SPB að vera skilyrt með sama hætti og í tilviki SPRON. Erlendir kröfuhafar verða að fallast á að núverandi lán verði ekki gjaldfelld og að lánstími verði lengdur (5 ár?). Lánin verða með markaðskjörum og hugsanlegri einfaldri ábyrgð sjóðsins [sem til stóð að stofna]/ríkisins hluta lánstímans. Ef nýr aðili eignast umtalsverðan hluta félagsins munu væntanlega einnig verða gerðar breytingar á stjórn félagsins.123

Í vinnuskjali um smærri fjármálafyrirtæki frá 27. október 2008 kom fram að eigið fé Sparisjóðabanka Íslands hf. væri verulega neikvætt og bankinn virtist hvorki hafa rekstrargrundvöll til framtíðar né það samfélagslega mikilvægi að verjandi væri að ráðast í kostnaðarsamar björgunaraðgerðir. Kostnaður innlendra aðila við björgunaraðgerðir var metinn á bilinu 80 til 100 milljarðar króna og væru stórir, erlendir kröfuhafar reiðubúnir til að afskrifa hluta krafna sinna. Höfnuðu þeir þátttöku í björgunaraðgerðum, yrði kostnaður ríkisins um 125 milljarðar króna. Yrði bankinn settur í slitameðferð var kostnaður áætlaður 40 milljarðar króna miðað við 100% endurheimtur, en 90 milljarðar króna við 50% endurheimtur.124 Af samskiptum starfsmanna fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra má ráða að á þessum tíma hafi verið talið of kostnaðarsamt fyrir innlendan aðila að bjarga Sparisjóðabankanum og að þreifingar gagnvart erlendum kröfuhöfum hefðu ekki bent til þess að þeir væru tilbúnir til að færa niður kröfur sínar.125

Sparisjóðabankinn óskaði eftir tveggja vikna fresti 28. október 2008 til að leggja fram frekari tryggingar vegna veðkalls Seðlabankans og gaf til kynna að kröfuhafar hefðu hug á að leita viðunandi lausna sem fyrst. Viðræður hefðu staðið yfir milli bankans, fjármálaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabankans um framtíð bankans og þann sama dag hefðu hafist viðræður við fulltrúa erlendra lánveitenda.126 Með stuðningi stjórnvalda samþykkti Seðlabanki Íslands, 29. október 2008, að framlengja frest Sparisjóðabanka Íslands um tvær vikur.127

Efasemdir voru þó uppi um gagnsemi þess að veita slíkan frest, eins og sjá má af tölvupósti Atla Knútssonar, ráðgjafa hjá McKinsey & Company,128 til Þórhalls Arasonar 29. október 2009:

Vardandi 2ja vikna frestinn…erum vid ekki bara ad fresta thvi oumflyjanlega?

1. Ef 2ja vikna fresturinn fra Sedlabankanum hefur ekki tilætlud ahrif, hversu mikid verri gæti stadan verid – og hver yrdi tha skadinn/kostnadaraukningin?

2. Eg skil stoduna thannig ad eftir nidurfærslu FME a eignum Icebank (um ISK 15 milljarda), starfi Icebank nu langt undir loglegu CAD lagmarki – og ad stadan se su sama hja SPRON. Erud thid bunir ad fa afstodu FME gagnvart thessu?

3. Fyrstu skilabod sem vid fengum fra krofuhofum Icebank – um ad their væru ekki tilbunir ad taka a sig „write-down“ – hafi 1) i gær breyst a thann hatt ad their væru tilbunir ad skoda 30% „write-down“, og 2) ad Icebank leggi nu upp i samningavidrædur við krofuhafa um 50% „write-down“. Hofum vid einhverja vitneskju – adra en ord Icebank – um vilja krofuhafa til ad taka thatt i slikum vidrædum?

4. Eins og eg skil reikninga FME og Icebank „business modelid“ ef their lifa (s.s. thjonusta vid sparsjodi), a Icebank nokkurn moguleika a skila nægilegu „operating income“ til ad geta greitt upp i kröfu Sedlabankans vegna repo skuldar? Ef forsendur FME og Sedlabanka eru obreyttar, hvi er verid ad skoda thetta mal frekar?129

Í svari Þórhalls til Atla 30. október 2008 sagði:

Sæll, við þekkjum báðir erfiða stöðu Icebank í dag og reyndar líka spurninguna um það hvort þeir geti búið til viðskiptalíkan til að lifa á í framtíðinni. Þetta með Icebank er eiginlega hugsað sem leið til að draga kröfuhafa að borðinu þannig að þeir geti á sjálfstæðum forsendum komið að endurreisninni ef þeir telja stöðuna lífvænlega. Við byggjum þessa aðgerð á bréfi frá FME þar sem þeir leggja til að bankanum verði veittur þessi frestur.130

Sparisjóðabanki Íslands hf. óskaði eftir því 10. nóvember 2008 að Seðlabankinn framlengdi frest til að leggja fram viðbótartryggingar. Áður hafði Sparisjóðabankinn óskað eftir að gerður yrði kyrrstöðusamningur (e. stand-still agreement) við erlendu kröfuhafana til 10. desember 2008. Yrði fresturinn samþykktur myndi úttekt sem Deloitte hf. hafði verið falið að gera og kynning stjórnenda Sparisjóðabanka Íslands á áformum bankans um endurskipulagningu verða afhentar kröfuhöfum. Fresturinn gæfi kröfuhöfum tækifæri til að leggja mat á tillögur Sparisjóðabanka Íslands hf.131

Á fundi vinnuhóps um vanda smærri fjármálafyrirtækja 11. nóvember 2008 voru málefni Sparisjóðabanka Íslands hf. til umræðu.132 Vinnuhópurinn lagði til við Fjármálaeftirlitið, fjármálaráðuneyti og Seðlabanka Íslands að Sparisjóðabankanum yrði veittur fjögurra vikna frestur til að ljúka samningum við lánardrottna sína um afskriftir skulda. Lausnin væri hagkvæm miðað við gefnar forsendur, auk þess sem hún væri til þess fallin að varðveita erlend bankatengsl Sparisjóðabanka Íslands hf.133 Tillagan var samþykkt og veitti Seðlabankinn Sparisjóðabanka Íslands hf. frest til 10 desember 2009.134

Í tölvupósti til fjármálaráðherra 11. nóvember 2008 óskaði Raiffeisen Zentralbank Österreich AG, einn erlendu lánardrottnanna, eftir samráði við ráðuneyti, Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands, svo gera mætti ráð fyrir nægum tíma til samningaviðræðna, tryggja aðgengi að gögnum og koma á beinum viðræður milli hagsmunaaðila.135 Í tölvupóstum milli aðila í vinnuhópi um vanda smærri fjármálafyrirtækja kom fram að fjármálaráðuneytinu þætti óheppilegt að ríkið kæmi með beinum hætti að samningaborðinu, þó nauðsynlegt væri að fleiri kæmu að því en stjórnendur Sparisjóðabankans, en þeir hefðu ekki fullgilt umboð til viðræðna í ljósi neikvæðrar eiginfjárstöðu bankans.136 Úr varð að Jóhannes Bjarni Björnsson hæstaréttarlögmaður kæmi að viðræðunum sem lögfræðilegur ráðgjafi fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans.137 Var aðkoma hans undir þeim formerkjum að stjórnvöld vildu fylgjast með framvindu viðræðnanna vegna hagsmuna fjármálakerfisins.138

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hf. skilaði skýrslu um úttekt sína á hluta eignasafns Sparisjóðabankans hinn 10. nóvember 2008 og var hún til umfjöllunar á fundi bankaráðs Sparisjóðabanka Íslands hf. 18. nóvember sama ár. Deloitte hf. miðaði við stöðu efnahagsreiknings bankans 30. september 2008 og náði til um þriðjungs eignasafns hans. Virðisrýrnun eignasafnsins var metin 20,7 milljarðar króna til viðbótar 13 milljarða króna niðurfærslu vegna virðisrýrnunar í efnahagsreikningi frá 30. september 2008. Eigið fé bankans var því talið neikvætt um 18,4 milljarða króna.139 Geirmundur Kristinsson, stjórnarformaður bankans, sagði tölurnar koma sér á óvart, því þótt öllum hafi verið ljóst hver staðan væri varðandi skuld bankans við Seðlabankann, hefði hann ekki átt von á að útlánasafn bankans væri jafn slæmt og tölurnar gæfu til kynna. Á fundinum var kynnt upplegg að endurskipulagningu bankans sem sent yrði til allra lánveitenda hans, en þeir voru 41 talsins. Í því væru hugmyndir sem réttlættu áframhaldandi rekstur bankans gagnvart erlendu lánveitendunum þrátt fyrir stöðu mála. Í kjölfarið spannst umræða á fundinum um að hluthafar myndu tapa hlutafé sínu. Taldi stjórnarformaðurinn að ekki væri annað hægt en að staldra við þá framsetningu í kynningunni að sparisjóðirnir væru búnir að tapa hlutafé sínu í bankanum. Það hefði aldrei verið inni í myndinni af hans hálfu. Stjórnendur bankans upplýstu fundinn um að sú væri krafa bæði erlendu lánveitendanna og Seðlabankans og eins konar útgangspunktur viðræðnanna.140

31.5.1 Samningaviðræður við erlenda lánardrottna

Erlendum lánardrottnum Sparisjóðabanka Íslands hf. voru kynntar hugmyndir bankans um endurskipulagningu 25. nóvember 2008. Tillagan fól í sér að kröfuhafar Sparisjóðabankans, það er Seðlabanki Íslands og erlendir lánardrottnar, myndu færa niður kröfur sínar með 55,9% afslætti og afsláttarfjárhæðinni yrði breytt í eigið fé. Eignarhlutur Seðlabankans í Sparisjóðabankanum yrði þá 57% og hlutur erlendu kröfuhafana yrði 43%. Víkjandi lán og eldra hlutafé yrði afskrifað. Ekki var gert ráð fyrir að nýtt hlutafé yrði greitt inn, heldur yrði aðeins um að ræða afskriftir og umbreytingu skulda í hlutafé.141 Stærstu kröfuhafarnir gerðu tillögu um að skipuð yrði stýrinefnd (e. steering committee), sem myndi koma með endanlegar tillögur um endurskipulagningu bankans og var það samþykkt.142 Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi ríkisins og Seðlabankans í því skyni að fylgjast með og koma áfram upplýsingum um stöðu mála.143 Þegar var ljóst að fresturinn sem Seðlabanki Íslands hafði veitt til 10. desember væri ekki nægur til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðabankans. Þá var undirbúin framlenging á kyrrstöðusamkomulagi við erlendu lánardrottnana og óskað eftir framlengingu frá Seðlabankanum144 sem samþykkti að fresta veðkalli til 28. janúar 2009.145

Stýrinefndin fundaði með stjórnendum Sparisjóðabankans 3. desember 2008 og síðar sama dag með Jóhannesi Bjarna Björnssyni. Í minnispunktum Jóhannesar Bjarna frá fundinum kom fram að stýrinefndin teldi ekki hægt að móta tillögur til að kynna fyrir öðrum kröfuhöfum fyrr en afstaða Seðlabankans lægi fyrir, og því væri nauðsynlegt að eiga beinar viðræður við Seðlabankann um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðabankans. Það væri ekki hægt að leggja fram tillögur fyrir aðra kröfuhafa fyrr en ljóst væri að tillagan myndi njóta stuðnings Seðlabankans. Taldi stýrihópurinn að hægt yrði að ná samkomulagi á þeim grundvelli sem Sparisjóðabankinn hefði lagt upp með, en þó með tilteknum breytingum sem fólu í sér að afskriftir yrðu minni, sem og eignarhlutur þeirra í bankanum. Í staðinn væru þeir tilbúnir til að endurskoða kjör á lánum.146

Þegar hefur komið fram að Fjármálaeftirlitið óskaði eftir reikningsuppgjöri Sparisjóðabanka Íslands í október 2008. Samkvæmt því var eiginfjárgrunnur bankans undir lögbundnum mörkum og 3. desember 2008 staðfestu stjórnendur bankans að eigið fé hans væri uppurið. Hinn 15. desember 2008 fór Fjármálaeftirlitið fram á, með vísan til 4. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, að Sparisjóðabankinn gripi til aðgerða til þess að eiginfjárgrunnur bankans uppfyllti lágmarksskilyrði, eigi síðar en 28. janúar 2009. Taldi Fjármálaeftirlitið, á grundvelli skoðunar á samantekt bankans á endurskipulagningu hans frá því í nóvember 2008 og þeim forsendum sem henni lágu til grundvallar, að Sparisjóðabankinn gæti bætt eiginfjárgrunn sinn innan þess frests.147

31.5.2 Tillaga Sparisjóðabanka Íslands hf. að fjárhagslegri endurskipulagningu

Áfram var unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðabanka Íslands hf. og var „endanleg“ tillaga send erlendum kröfuhöfum 23. desember 2008. Hún var útbúin eftir viðræður við stýrinefnd erlendra lánardrottna og fulltrúa Seðlabanka Íslands. Í tillögunni kom fram að hún hefði fengið stuðning Seðlabankans áður en hún var send kröfuhöfunum.148 Tillagan var byggð á óendurskoðuðu 11 mánaða uppgjöri, og vegna veikingar íslensku krónunnar og þróunar eignasafnsins hafði virði þess þá rýrnað um 16,7 milljarða króna til viðbótar þeirri virðisrýrnun sem fram kom í skýrslu Deloitte hf. í nóvember 2008.149

Lagt var upp með að stærsti kröfuhafinn, Seðlabanki Íslands, tæki veðin sem Sparisjóðabankinn hafði lagt fyrir veðlánum upp í kröfur sínar á 50% af nafnvirði. Það sem þá stæði eftir af skuld Sparisjóðabankans við Seðlabankann yrði afskrifað um 44,9%. Hluta skuldar yrði breytt í eigið fé og að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu myndi Seðlabanki Íslands eiga 59,8% hlutafjár í Sparisjóðabanka Íslands hf. Í kynningu á tillögunni kom fram að tillagan hefði verið samþykkt af Seðlabankanum með þeim fyrirvara að aðrir kröfuhafar sem og hluthafar myndu samþykkja hana.150

Erlendum lánardrottnum yrðu boðnir tveir valkostir, annars vegar að 30% heildarfjárhæðar sambankalánanna yrðu greidd með peningagreiðslu. Þeir lánardrottnanna sem veldu þann kost fengju greidd 15% af núvirði hlutdeildar sinnar í sambankalánunum en eftirstöðvar yrðu afskrifaðar. Hinn valkosturinn væri að afskrifuð yrðu 44,9% af 70% heildarfjárhæðar sambankalánanna og lengt yrði í eftirstöðvum lánanna til sjö ára. Hluta allra eftirstöðva skulda eftir afskriftir yrði svo breytt í hlutafé. Í heildina yrðu 4,2 milljörðum króna breytt í hlutafé með þessum hætti og fengju erlendu lánardrottnarnir 39,2% hlutafjár í Sparisjóðabanka Íslands hf. í sinn hlut. Eigendum skuldabréfa yrðu boðnir sömu valkostir og erlendu lánardrottnunum og að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu myndu þeir eiga 1% hlutafjár í Sparisjóðabanka Íslands hf. Víkjandi lán og hlutafé yrði afskrifað að fullu með samþykki kröfuhafa og hluthafa.151

Stjórnendur Sparisjóðabankans kynntu tillögu sína og aðstæður á Íslandi og fyrir erlendum lánardrottnum á fundi í London 7. janúar 2009. Niðurstaða fundarins var að erlendu kröfuhafarnir fælu stýrinefndinni að vinna fullmótaða tillögu sem lögð yrði fram innan skamms. Tillagan fæli í sér hærri endurheimtur erlendu lánardrottnanna, lengri lánstíma en áður hafði verið rætt um, hagstæð vaxtakjör og að erlendu bankarnir skuldbyndu sig til að sýna stuðning í verki með því að standa við bakið á Sparisjóðabankanum í framtíðinni.152

Í fjáraukalögum fyrir árið 2008 var samþykkt heimild fjármálaráðherra til að kaupa af Seðlabanka Íslands þau viðskiptabréf sem bankanum höfðu verið afhent til tryggingar veðlánum bankans og annast uppgjör þeirra krafna eins og hagkvæmast þótti. Samkomulag um yfirtöku ríkissjóðs á hluta veðlána Seðlabanka Íslands var undirritað 12. janúar 2009. Með samkomulaginu framseldi Seðlabanki Íslands til fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, kröfur vegna veðlána sem tryggð voru með verðbréfum útgefnum af föllnu viðskiptabönkunum þremur og verðtryggðum verðbréfum og kröfuréttindum sem Sparisjóðabanki Íslands hf. og fleiri fjármálastofnanir höfðu sett Seðlabankanum að veði. Þar af voru kröfur á hendur Sparisjóðabanka Íslands 141,9 milljarðar króna.153 Yfirteknar kröfur voru síðar færðar aftur yfir til Seðlabanka Íslands í febrúar 2010 en hann hafði þá stofnað sérstök félög til að fara með umsýslu eigna.

Sparisjóðabankinn óskaði á nýjan leik eftir að veðkalli Seðlabankans yrði frestað, að þessu sinni til 22. apríl 2009, í bréfi til fjármálaráðuneytis 19. janúar sama ár.154 Þess var vænst að áætlun um endurskipulagningu sem væri viðunandi fyrir alla hlutaðeigandi lægi fyrir innan þess tíma.155 Sparisjóðabankinn óskaði einnig eftir auknum fresti til að auka við eiginfjárgrunn sinn í bréfi til Fjármálaeftirlitsins 21. janúar 2009.156

Að beiðni fjármálaráðuneytisins tók Jóhannes Bjarni Björnsson hrl. saman minnisblað um stöðu fjárhagslegrar endurskipulagningar Sparisjóðabankans sem var lagt fyrir fund nefndar um endurreisn fjármálakerfisins (e. Coordination Committee) 21. janúar 2009.157 Í minnisblaðinu kom fram að á fundi stjórnar Sparisjóðabankans með erlendum lánardrottnum tveimur vikum áður hefðu lánardrottnar viljað útiloka umbreytingu skulda í hlutafé af þeirra hálfu, en í staðinn boðið lengingu í lánum og afar hagstæð vaxtakjör.158 Í minnisblaðinu kom einnig fram það álit vinnuhópsins að skynsamlegt væri að framlengja frest til 28. febrúar 2009, enda rynni þá út kyrrstöðusamkomulag Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. við lánardrottna sína. Þá væri ráðlegt að leggja mat á stöðu samningaviðræðna vegna bæði Sparisjóðabanka Íslands hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., enda væri að mestu leyti um sama hóp kröfuhafa að ræða í báðum tilvikum. Starfshópurinn lagði til að fresturinn yrði nýttur meðal annars til að kanna hvernig hægt væri á sem hagkvæmastan hátt að flytja starfsemi bankans yfir í annan banka og leita á sama tíma leiða til að hámarka virði eigna. Starfshópurinn taldi ólíklegt að viðskiptalíkan Sparisjóðabankans væri lífvænlegt og endurreisn bankans sem viðskiptabanka væri ekki skynsamlegur kostur fyrir íslenska ríkið, þar sem það hefði þegar neyðst til að taka yfir rekstur viðskiptabankanna þriggja. Áleit starfshópurinn að heppilegast væri að hluti af starfsemi bankans yrði sameinaður öðrum banka og var þá einkum horft til sameiningar sparisjóða.159

Ákveðið var á fundi vegna málefna Sparisjóðabankans og minni fjármálafyrirtækja í fjármálaráðuneytinu 22. janúar 2009 að frestur vegna veðkalls yrði framlengdur til 28. febrúar 2009.160 Fjármálaeftirlitið samþykkti einnig að framlengja frest Sparisjóðabankans til að auka við eiginfjárgrunn sinn til sama dags.161 Sama dag upplýsti Jóhannes Bjarni Björnsson stýrinefndina um að frestur Sparisjóðabankans yrði framlengdur, en jafnframt að ekki yrði um frekari fresti að ræða nema fyrir lægi samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu bankans innan þess tíma.162 Í bréfi Jóhannesar Bjarna Björnssonar fyrir hönd fjármálaráðuneytisins til stýrinefndar 30. janúar 2009 var áréttað að hefðu aðilar ekki komist að samkomulagi fyrir 28. febrúar 2009, myndi fjármálaráðuneytið ekki koma að frekari tilraunum til fjárhagslegrar endurskipulagningar Sparisjóðabanka Íslands hf. Lögð var áhersla á að ekki skyldi gert ráð fyrir að íslenska ríkið legði meira til endurskipulagningarinnar en aðrir kröfuhafar.163

31.5.3 Tillögur erlendra kröfuhafa og viðbrögð stjórnvalda

Stýrinefnd erlendra kröfuhafa og starfshóps um smærri fjármálafyrirtæki héldu fund 5. febrúar 2009. Í fundarpunktum starfshópsins kom fram að stýrinefndinni hefði verið kynnt að kröfur og veðréttindi þeim tengd sem áður höfðu verið á hendi Seðlabankans hefðu verið framseld til fjármálaráðuneytis. Jafnframt hefði Seðlabankanum verið fengið umboð frá ráðuneytinu til að vera í fyrirsvari vegna krafna ríkisins á hendur Sparisjóðabankanum og sjá um samninga þar að lútandi.164

Erlendu kröfuhafarnir töldu erfiðleikum bundið að breyta skuldum í hlutafé og kynntu lausn á málum Sparisjóðabankans sem svipaði til þeirrar sem unnið var að í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., en hún fól í sér lengingu endurgreiðslutíma lána og lækkun vaxta. Lækkun vaxta myndi leiða til þess að núvirðing lánanna skilaði tekjum á rekstrarreikning og bætti eiginfjárstöðu. Ákveðið var að mynda sameiginlegan vinnuhóp, sem samanstæði af tveimur fulltrúum frá stjórnvöldum og tveimur fulltrúum frá erlendu kröfuhöfunum, auk aðila frá Sparisjóðabankanum og endurskoðanda bankans.165 Skyldi vinnuhópurinn fara yfir hugmyndir og tillögur aðila og vinna að sameiginlegri tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðabankans.166

Samhliða framangreindum fundarpunktum sendi Jóhannes Bjarni Björnsson óformlegt stöðumat til starfshóps um smærri fjármálafyrirtæki. Hans mat var að markmið erlendu kröfuhafanna væru annars vegar að forðast eignarhald í Sparisjóðabankanum, með því væri ábyrgð kröfuhafanna takmörkuð ef þörf yrði á frekari framlögum síðar, og auk þess ávinningur ef ríkið yrði eignaraðili, það væri frekari trygging fyrir því að ekki þyrfti að skerða kröfur þeirra í framtíðinni; og hins vegar að takmarka afskriftir með því að bjóða lengingu á lánum í staðinn. Lánalengingarleiðin minnkaði afskriftir en þrýsti á aðkomu íslenska ríkisins sem eiganda bankans. Taldi Jóhannes lánalengingarleið hafa þann ókost að tekjufærslan sem hún leyfði í upphafi þyrfti að gjaldfærast að fullu á lánstímanum. Eigið fé sem ynnist í upphafi myndi því tapast aftur á lánstímanum. Lagði hann áherslu á að ríkið setti sér skýr samningsmarkmið og undirbyggi viðbrögð ef samningar tækjust ekki eða gengju hægt.167

Sameiginlegur vinnuhópur stýrinefndarinnar og stjórnvalda fundaði 17. og 18. febrúar 2009 um leiðir til að leysa fjárhagsstöðu Sparisjóðabankans og skömmu síðar, 27. febrúar 2009, barst fjármálaráðuneytinu bréf frá stýrinefndinni. Þar sagði að þar sem fjármálaráðuneytið hefði eignast kröfur Seðlabankans á hendur bankanum, væri ráðuneytið í kjörstöðu til að endurfjármagna bankann. Hugmyndir lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu fælu í sér að þeir myndu lengja í lánum til tíu ára á hagstæðum kjörum og myndi bankinn við það verða fullfjármagnaður til að minnsta kosti tíu ára. Lánalengingin fæli í sér um það bil 50% niðurfærslu af hálfu kröfuhafanna. Í niðurlagi bréfsins var varað við því að neikvæð niðurstaða í málefnum Sparisjóðabankans gæti haft neikvæð áhrif á aðra sparisjóði.168

Undir lok febrúar 2009 var frestur Sparisjóðabanka Íslands til að auka við eiginfjárgrunn sinn og vegna veðkalls framlengdur til 28. mars 2009.169 Í byrjun mars 2009 voru fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins staddir á Íslandi og áttu fundi með stjórnvöldum og nefnd um endurreisn fjármálakerfisins. Á fundunum var meðal annars rætt um sjálfbærni skulda þjóðarbúsins og endurgreiðslubyrði hagkerfisins. Á fundunum lagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áherslu á að endurskipulagningu bankakerfisins yrði hraðað og að ekki yrði um frekari skuldbindingar ríkissjóðs að ræða vegna fjármálafyrirtækja.170 Þegar var hafin vinna við aðgerðaáætlun, þar sem lagt var mat á stöðu fjármálafyrirtækjanna og lagt til að nokkrum fjármálafyrirtækjum yrði lokað á næstu sólarhringum og innlán viðskiptavina þeirra færð í örugga höfn. Þeirra á meðal var Sparisjóðabanki Íslands hf.171

Í bréfi fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands 12. mars 2009 til stýrinefndarinnar, kom fram að litið væri svo á að tillaga stýrinefndarinnar frá 27. febrúar 2009 væri ekki til þess fallin að Sparisjóðabankinn yrði fullfjármagnaður og lífvænlegur banki. Ítarleg skoðun efnahagsreikningsins og viðskiptalíkans hefði leitt stjórnvöld að þeirri niðurstöðu að Sparisjóðabanki Íslands hf. yrði ekki rekstrarhæfur til lengri tíma án verulegra niðurfærslna skulda. Stjórnvöld væru tilbúin að leggja heldur meira af mörkum en aðrir kröfuhafar með því að taka yfir kröfur á hendur föllnu viðskiptabönkunum sem lagðar höfðu verið til tryggingar endurhverfum lánum frá Seðlabanka Íslands á 50% af nafnvirði. Vænt endurheimtuverðmæti þeirra krafna væri varla meira en 15%. Að auki væru stjórnvöld reiðubúin að afskrifa 55–60% af eftirstöðvum krafna og framlengja endurgreiðslutíma eftirstandandi skulda í 8 ár með 2% vöxtum auk verðtryggingar. Skilyrði stjórnvalda var að erlendu lánardrottnarnir myndu afskrifa kröfur sínar þegar í stað um 60–65% og lána eftirstöðvar til 8 ára með 1% vöxtum. Aðrir kröfuhafar myndu gera það sama. Þá var bent á að gegn tryggum veðum gæti Seðlabanki Íslands aðstoðað banka í lausafjárvanda sem væri með viðunandi eiginfjárstöðu, en Seðlabankanum væri ekki ætlað að viðhalda lausafjárstöðu Sparisjóðabankans til frambúðar. Stýrinefndin fékk frest til 18. mars til að svara því hvort hún teldi tillögu stjórnvalda til þess fallna að mynda ramma fyrir fjárhagslega endurskipulagningu Sparsjóðabanka Íslands hf.

Stjórnvöldum bárust tvö svarbréf frá stýrinefndinni 18. mars 2009. Í fyrra bréfinu kom fram að stýrinefndin hefði átt von á gagntilboði frá stjórnvöldum og í framhaldi þess áframhaldandi viðræðum, því ylli bréf stjórnvalda frá 12. mars vonbrigðum. Liti stýrinefndin svo á að með bréfi sínu hefðu stjórnvöld dregið sig út úr samningaviðræðum og reynt að þvinga erlendu lánardrottnana til að samþykkja skilyrði sín.172 Þó vilji hefði verið á meðal hluta lánardrottnanna til að samþykkja, þá hefði yfirgnæfandi meirihluti þeirra ekki getað samþykkt tillöguna.173

Síðar sama dag barst annað bréf frá stýrinefndinni með frekari skýringum á afstöðu lánardrottnanna. Stýrinefndin væri ósammála því mati stjórnvalda að framlag lánardrottnanna væri lægra en framlag stjórnvalda. Samkvæmt útreikningum lánardrottna væri niðurfærsla Seðlabankans 64% en tafarlaus niðurfærsla lánardrottnanna 65%. Slíkar niðurfærslur væru óhóflegar og ónauðsynlegar, væru jákvæð áhrif lánalenginga á eiginfjárgrunn teknar með í reikninginn. Þar að auki væri farið fram á að lánardrottnarnir veittu niðurgreidda fjármögnun til langs tíma, sem þeir töldu jafngilda enn frekari niðurfærslum sem næmi 40% af eftirstöðvum og væri þá miðað við fullar endurheimtur.174 Fram kom að stýrinefndin hefði verið þeirrar skoðunar frá upphafi að Seðlabankinn ætti að taka ábyrgð á óhóflegu umfangi endurhverfra viðskipta sem leitt hefði til dulbúinnar fjármögnunar bankanna. Þá væri áhyggjuefni að Seðlabanki Íslands væri ekki tilbúinn að tryggja lausafjárstöðu fjármálageirans á Íslandi, sem væri ein forsenda endurskipulagningar Sparisjóðabankans. Eitt megináhyggjuefni lánardrottnanna var að þurfa að sæta eignarnámi, í ljósi aðgerða gegn fyrrum eigendum viðskiptabankanna og þeirra valdheimilda sem stjórnvöldum höfðu verið færðar með lögum nr. 125/2008. Vildu þeir fá fullvissu þess að ekki yrði gripið til sambærilegra aðgerða gagnvart þeim ef þeir samþykktu niðurfærslur, og vísuðu einnig til breytinga á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sem rýrt gætu réttindi þeirra, bæði sem kröfuhafa og sem hugsanlegra eigenda. Fór stýrinefndin fram á að teknar yrðu upp viðræður að nýju og sá lokafrestur sem kynntur hafði verið í bréfi stjórnvalda yrði dreginn til baka.175

Í svarbréfi stjórnvalda til stýrinefndarinnar sama dag kom fram að svo virtist sem pattstaða væri komin upp í samningaviðræðum aðila, meðal annars vegna þeirrar yfirlýstu afstöðu fulltrúa kröfuhafanna í sameiginlega vinnuhópnum að hafna fyrirfram tillögum um að þeir færðu niður kröfur sínar. Slík afstaða væri til þess fallin að gera allar tilraunir til fjárhagslegrar endurskipulagningar bankans ómögulegar. Ef lánardrottnar væru ófáanlegir til að færa niður kröfur sínar, gætu stjórnvöld ekki unað við að banki með svo neikvætt eigið fé væri í rekstri til lengri tíma. Með tillögu sinni hefðu stjórnvöld leitað eftir því hvort erlendir lánardrottnar væru reiðubúnir til að afskrifa kröfur sínar að því marki sem nauðsynlegt væri. Þeim skilningi stýrinefndarinnar var hafnað að stjórnvöld hefðu dregið sig út úr samningaviðræðum eða einhliða reynt að knýja fram vilja sinn. Ítrekað var það sjónarmið stjórnvalda að lánalengingarleiðin uppfyllti ekki Basel II viðmið og væri því ekki álitlegt úrræði til að bæta úr neikvæðri eiginfjárstöðu Sparisjóðabanka Íslands hf.176 Lögðu stjórnvöld til að vinnuhópurinn fundaði daginn eftir og þá gæfist fulltrúum stýrinefndarinnar tækifæri til að kynna tillögur sínar.177

Tillögur stýrinefndar voru bornar undir fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og athugasemdir hans um fyrirliggjandi tillögur lánardrottna voru sendar Seðlabankanum 19. mars 2009. Þar var þeirri hugmynd hreyft að ef til vill væru lándrottnar, af tillögunum að dæma, að óska þess að ríkissjóður tæki á sig þann skell sem óhjákvæmilegur væri í málinu. Það væri ekki í samræmi við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og kynni það að valda frekari vanda síðar meir ef fallist yrði á tillögurnar. Nær væri að lánardrottnar legðu fram viðskipta- áætlanir sem miðuðu að lífvænlegum rekstri án aðkomu stjórnvalda og Seðlabankans og myndu skuldbinda sig til til að styðja fjármálafyrirtækin til frambúðar, eftir atvikum sem nýir hluthafar. Því beindi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þeim varnaðarorðum að íslenska ríkinu að stíga varlega til jarðar í málinu og forðast að fallast á óhagstæðan samning.178
Það var því ljóst að héldu lánardrottnar sig fast við að Seðlabankinn tæki á sig þyngri byrðar en aðrir kröfuhafar, væri ekki svigrúm fyrir frekari viðræður.179

Fyrir símafund stýrinefndar lánardrottna með fulltrúum Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins sem haldinn var 20. mars 2009, sendi stýrinefndin bréf og skilmálaskjal þar sem kynntir voru þeir möguleikar sem stýrinefndin taldi að væru í stöðunni. Stýrinefndin leit svo á að aðeins væri um tvo valkosti að ræða. Fyrri leiðin fæli í sér að 40% krafna yrðu afskrifaðar, 6% yrðu greiddar upp og lengt yrði í eftirstöðvum lána til sjö eða átta ára. Gert yrði samkomulag um að kröfuhafar fengju það bætt ef endurheimtur yrðu hærri en þær afskriftir sem gert væri ráð fyrir. Þá skyldi gefa út breytirétt í hlutafé til lánardrottnanna. Seinni leiðin fól í sér peningagreiðslu sem næmi 35% af heildarlánsfjárhæð og að eftirstöðvar yrðu afskrifaðar. Væri þessi leið farin myndu lánardrottnar samþykkja verulegar afskriftir og þeir myndu ekki blanda sér í framtíðaráform stjórnvalda um Sparisjóðabankann.180

Að loknum símafundinum 20. mars 2009 sendu Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið erlendu kröfuhöfunum bréf þar sem Fjármálaeftirlitið ítrekaði fyrri afstöðu sína um að endurskipulagning sem fæli í sér lánalengingu uppfyllti ekki Basel II viðmiðin. Þá væru stjórnvöld ekki í þeirri aðstöðu að geta tekið á sig ábyrgð vegna greiðslna til erlendu lánardrottnanna. Því væri afstaða stjórnvalda sú að báðar leiðir væru óásættanlegar og myndu leggja óásættanlega þungar byrðar á Ísland.181 Var það mat Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins að ekki væri grundvöllur fyrir frekari samningaviðræðum og ekki væri útlit fyrir að eiginfjárstaða Sparisjóðabanka Íslands hf. myndi lagast þannig að hann uppfyllti kröfur Seðlabanka Íslands um viðskipti við fjármálafyrirtæki.182

Í kjölfar fundar bankaráðs Sparisjóðabanka Íslands hf. með stjórn og forstjóra Fjármálaeftirlitsins 21. mars, og með vísan til þessa bréfs Seðlabanka Íslands, sá bankaráð Sparisjóðabankans sér ekki annað fært en að óska eftir að Fjármálaeftirlitið gripi til þeirra heimilda sem því væru veittar með lögum nr. 161/2002.183

31.5.4 Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitið ákvað að taka yfir vald hluthafafundar Sparisjóðabanka Íslands hf. 21. mars 2009.184 Til stuðnings ákvörðun sinni vísaði eftirlitið til þess að frá lokum októbermánaðar 2008 hefði eiginfjárstaða Sparisjóðabankans verið undir lögbundnum mörkum, en bankanum hefðu ítrekað verið veittir frestir til að koma á raunhæfri endurskipulagningu á fjárhag bankans. Þá vísaði Fjármálaeftirlitið til bréfs sem því barst frá Seðlabanka Íslands sama dag, þar sem vikið var að neikvæðri eiginfjárstöðu og óviðunandi lausafjárstöðu Sparisjóðabanka Íslands hf.

Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðabanka Íslands hf. skyldi Seðlabanki Íslands taka yfir skuldbindingar Sparisjóðabankans vegna innstæðna sparisjóða, en Nýi Kaupþing banki tæki yfir skuldbindingar vegna innstæðna annarra aðila.185 Sem endurgjald fyrir yfirtöku innlánsskuldbindinga myndi Sparisjóðabanki Íslands hf. framselja útlán sín til sparisjóða að fjárhæð um það bil 10,7 milljarðar króna, auk skuldabréfakröfu á hendur Byr sparisjóði að fjárhæð 2,8 milljarðar króna, eða samtals um 13,5 milljarðar króna. Seðlabankinn og Nýi Kaupþing banki skyldu annast uppgjör sín á milli og standa Sparisjóðabankanum skil á mismun milli yfirtekinna skuldbindinga og eigna, ef einhver væri.186 Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðabanka Íslands hf. var breytt sex sinnum í mars og apríl 2009. Verulegur hluti fjárhagslegrar endurskipulagningar minni sparisjóðanna fól í sér formbreytingar og uppgjör á þeim kröfum sem Seðlabankinn fékk með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009. Nánar er fjallað um uppgjör krafnanna í köflum um einstaka sparisjóði og í 13. kafla.

Hinn 27. mars 2009 var Sparisjóðabankanum skipuð skilanefnd sem skyldi fara með öll málefni bankans, þar á meðal hafa umsjón með allri meðferð eigna hans en í maí sama ár var slitastjórn skipuð fyrir bankann. Skilanefndin starfaði til ársloka 2011, þá tók slita-stjórn fyrir öll verkefni hennar og er enn að störfum. Samningar hafa enn ekki tekist við Eignasafn Seðlabanka Íslands en nauðasamningsumleitanir halda áfram. Í lok árs 2011 var gerður samningur við Straum hf. um þjónustu við eignasafn bankans sem er enn í gildi. Öll ákvarðanataka er í höndum slitastjórnar.

 


 

1 . Sbr. XII. kafla laga nr. 87/1985 um sparisjóði.

2 . Sjá 6. gr. laga nr. 36/1986 um Seðlabanka Íslands.

3 . Nánar er fjallað um lagasetninguna í 4. kafla skýrslunnar, um lagaumhverfi sparisjóðanna.

4 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

5 . Umsögn Sambands íslenskra sparisjóða um frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki, þskj. 218., 215. mál á 128. löggjafarþingi 2002–2003, dbnr. 153, bls. 2. Þess má geta að hlutur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sameiginlegum verkefnum sparisjóðanna, svo sem rekstri tölvu- og upplýsingakerfa, var afar stór. Sjá nánari umfjöllun um kostnaðarskiptingu innan vébanda Sambands íslenskra sparisjóða í 5. kafla.

6 . Bréf Sigurðar Hafstein til Guðmundar Haukssonar 31. janúar 2003.

7 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

8 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til sparisjóðsstjóra og framkvæmdastjóra SÍSP 29. maí 2006.

9 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

10 . Fundargerð bankaráðs Sparisjóðabanka Íslands hf., 13. mars 2007.

11 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

12 . Fundargerð bankaráðsfundar Icebank hf., 15. maí 2007.

13 . Í ljósi þess að skráð erlend samanburðarfélög voru metin á 10,3 × EBITDA notaði KPMG margfaldarann 8,2 × EBITDA miðað við 20% seljanleikaáhættu.

14 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Geirmundar Kristinssonar, Ragnars Z. Guðjónssonar og Guðmundar Haukssonar 15. júní 2007.

15 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

16 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

17 . Sparisjóðurinn í Keflavík seldi ekki sinn hlut heldur jók við hann í viðskiptum síðar á árinu. Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni 12. ágúst 2013 sagði fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, Geirmundur Kristinsson: „Þessi umræða var hvort við ættum hugsanlega að selja eða halda áfram en það kemur líka þarna inn í mat á það að ef [Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík] ætluðu að selja að þá myndi hugsanlega lítið fást út úr þessu fyrir okkur. Það var álitið á þeim tíma. Allavega verður niðurstaðan þessi, þannig að menn voru að velta þessu fyrir sér.“

18 . Tölvuskeyti Jóns Gunnars Vilhelmssonar, forstöðumanns í fyrirtækjaráðgjöf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, til Valgeirs M. Baldurssonar, framkvæmdastjóra hagdeildar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, 4. september 2007.

19 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Geirmundar Kristinssonar, Ragnars Z. Guðjónssonar og Guðmundar Haukssonar 7. ágúst 2007.

20 . Tölvuskeyti Valgeirs M. Baldurssonar til Ragnars Z. Guðjónssonar 3. september 2007.

21 . Fundargerð bankaráðs Icebank hf., 9. október 2007.

22 . Fundargerð bankaráðs Icebank hf., 9. október 2007.

23 . Tölvuskeyti Sigurðar Jónssonar til Finns Sveinbjörnssonar 3. desember 2007.

24 . Í greinargerð PricewaterhouseCoopers frá apríl 2011 sem unnin var fyrir slitastjórn Sparisjóðabanka Íslands hf. kemur fram það álit að kaupverðið á Behrens hafi verið 600 milljónum króna of hátt og sú fjárhæð hafi í raun verið ráðningarbónus eða ívilnun til Aðalsteins og Sigurðar Smára.

25 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

26 . Þeirra á meðal er Sparisjóður Vestfirðinga sem hafði sameinast Sparisjóðnum í Keflavík fyrir lok árs 2007.

27 . Sparisjóður Suður-Þingeyinga færði Icebank hf. sem hlutdeildarfélag í lok árs 2007, einn sparisjóða.

28 . Hér er ekki meðtalinn bókfærður gengishagnaður sparisjóðanna tveggja vegna þessarar sömu eignar.

29 . Um niðurfærslu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, Byrs sparisjóðs, Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Mýrasýslu á lánum til kaupa á hlutabréfum í Icebank hf. er fjallað í útlánaköflum hvers sparisjóðs fyrir sig, þ.e. sérstökum undirköflum um útlán í 17. til 20. kafla.

30 . Heildarlánveitingin til Sparisjóðsins í Keflavík nam 2,4 milljörðum króna í lok árs 2008 en þar af höfðu 1,5 milljarðar verið færðir á sérgreindan afskriftareikning. Hinir sparisjóðirnir þrír höfðu fært lánin niður að fullu í lok árs 2008. Í desember 2009 voru 1,7 milljarðar króna endanlega afskrifaðar vegna lánanna hjá Sparisjóðnum í Keflavík og 1,2 milljarðar bakfærðir vegna gengismunar.

31 . Tilkynning til Fyrirtækjaskrár 3. júlí 2001.

32 . Skráningarlýsing Kaupþings banka hf. 16. maí 2002.

33 . Byggt á upplýsingum úr endurskoðunarskýrslum með ársreikningi fyrir þessi tvö ár. Þá kom fram í tölvupósti milli forstöðumanns reikningshalds og framkvæmdastjóra rekstrarsviðs bankans frá 7. desember 2007 að á árinu 2004 hefði Sparisjóðabankinn fengið 57,5 milljónir króna í arð og 287,5 milljónir króna árið eftir.

34 . Í tölvupósti milli forstöðumanns reikningshalds og framkvæmdastjóra rekstrarsviðs bankans frá 7. desember 2007 kom fram að arðstekjur bankans af Exista hf. hefðu numið 374,8 milljónum króna á árinu 2007.

35 . Fundargerð fjármálanefndar Sparisjóðabanka Íslands hf., 19. ágúst 2008.

36 . Skýrsla Magnúsar Kristins Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

37 . Tölvuskeyti Geirmundar Kristinssonar til Finns Sveinbjörnssonar, Sigurðar Jónssonar og Jóhanns T. Sigurðssonar 3. janúar 2006.

38 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Geirmundar Kristinssonar og Sigurðar Jónssonar 3. janúar 2006.

39 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

40 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Guðmundar Haukssonar 12. janúar 2006. Í viðhengi með tölvuskeytinu kom fram að rétt fyrir áramót hefðu Exista-hlutir að verðmæti 1,4 milljarða króna verið seldir tímabundið til Bakkabræðra. Við þetta hefði eiginfjárhlutfall Sparisjóðabankans farið vel yfir 10% sem væri ásættanleg áramótastaða gagnvart erlendum lánardrottnum en ekki nógu traust til að bankinn stæðist álagspróf Fjármálaeftirlitsins.

41 . Fundargerð bankaráðs Sparisjóðabanka Íslands hf., 16. ágúst 2005.

42 . Fram til ársins 2006 höfðu sparisjóðirnir ábyrgst greiðslur til bankans sem námu jafnhárri fjárhæð og hlutafjáreign þeirra á hverjum tíma. Ábyrgðirnar tóku til viðskiptaskuldbindinga bankans gagnvart erlendum lánastofnunum. Bankaráði var á hverjum tíma heimilt að krefja hluthafa um greiðslu ábyrgðanna til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar. Samkvæmt skýringu 43 í ársreikningi Sparisjóðabankans 2005 námu þessar ábyrgðir 610 milljónum króna í árslok 2005. Þær voru felldar niður á árinu 2006 og hlutafé greitt inn í staðinn.

43 . Minnisblað bankastjóra Sparisjóðabanka Íslands hf. til bankaráðs, 15. september 2006.

44 . Fundargerð bankaráðs Sparisjóðabanka Íslands hf., 19. september 2006.

45 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík, 9. október 2006.

46 . Tölvuskeyti Sigurðar Jónssonar til Guðmundar Haukssonar 1. nóvember 2006. Bréfið í heild sinni er birt í 11. kafla undir umfjöllun um Exista hf. og Kistu – fjárfestingarfélag ehf.

47 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Guðmundar Haukssonar og Geirmundar Kristinssonar 2. nóvember 2006.

48 . Minnisblað bankastjóra Sparisjóðabanka Íslands hf. til bankaráðs, 17. nóvember 2006.

49 . Tölvuskeyti Finns Sveinbjörnssonar til Agnars Hanssonar, Gunnars Svavarssonar, Hafdísar Karlsdóttur og Ólafs Ottóssonar 10. nóvember 2006.

50 . Minnisblað Jóns Halls Péturssonar, framkvæmdastjóra SPRON Verðbréfa, 13. júní 2007.

51 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013.

52 . Tölvuskeyti Sigurðar S. Gylfasonar til Steinþórs Jónssonar, Gríms Sæmundsen, Eiríks Tómassonar, Aðalsteins Jóhannssonar, Stefáns Sveinbjörnssonar, Geirmundar Kristinssonar, Gísla Kjartanssonar, Þrastar Leóssonar, Finns Sveinbjörnssonar, Péturs Valdimarssonar, Kjartans Brodda Bragasonar, Kristins Vilbergssonar, Friðriks Friðrikssonar, Ólafs Elíssonar og Ásgeirs Sólbergssonar 22. nóvember 2007.

53 . Tölvuskeyti Sigurðar S. Gylfasonar til Steinþórs Jónssonar, Stefáns Sveinbjörnssonar, Aðalsteins Jóhannssonar, Eiríks Tómassonar, Gríms Sæmundsen, Finns Sveinbjörnssonar, Þrastar Leóssonar, Gísla Kjartanssonar, Geirmundar Kristinssonar, Péturs Valdimarssonar, Kristins Vilbergssonar, Friðriks Friðrikssonar, Kjartans Brodda Bragasonar, Ólafs Elíssonar, Runólfs Ágústssonar og Ásgeirs Sólbergssonar 26. nóvember 2007.

54 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

55 . Samningar um verðtryggingu hlutabréfa frá 2. desember 2007. Í báðum samningum er Icebank rétthafi, en í öðrum samningnum er Byr sparisjóður ábyrgðarveitandi en Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis í hinum.

56 . Skýrsla Más Wolfgangs Mixa fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. janúar 2013.

57 . Fundargerð bankaráðs Icebank hf., 18. desember 2007.

58 . Tölvuskeyti Más W. Mixa til Magnúsar Kristins Jónssonar, yfirmanns áhættustýringar bankans, og Þórólfs Sigurðssonar, starfsmanns eigin viðskipta bankans, 18. mars 2008; tölvuskeyti Sveins Andra Sveinssonar, framkvæmdastjóra fjármála- og upplýsingatæknisviðs bankans, til Elínar Þorsteinsdóttur, fulltrúa í bankanum, 26. mars 2008.

59 . Skýrsla Más Wolfgangs Mixa fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 8. janúar 2013.

60 . Samkvæmt upplýsingum úr verðbréfakerfi Sparisjóðabankans.

61 . Tölvuskeyti Geirmundar Kristinssonar til Agnars Hanssonar 20. júní 2008.

62 . Tölvuskeyti Guðmundar Auðunssonar til Aðalsteins Jóhannssonar 24. júlí 2008.

63 . Fundargerð fjármálanefndar Sparisjóðabanka Íslands hf., 19. ágúst 2008.

64 . Tölvuskeyti Elínar Þorsteinsdóttur til Ragnars Z. Guðjónssonar 26. nóvember 2008; tölvuskeyti Elínar Þorsteinsdóttur til Ólafs Haraldssonar 26. nóvember 2008.

65 . Bréf Byrs sparisjóðs til Sparisjóðabanka Íslands 16. desember 2008.

66 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðabanka Íslands hf., 28. mars 2003.

67 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

68 . Skýrsla um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðabanka Íslands hf. árið 2005, 21. febrúar 2006.

69 . Fylgt er sömu aðferðafræði og í umfjöllun um útlán sparisjóðanna en hún er skýrð nánar í 9. kafla skýrslunnar. Til skoðunar var tímabilið 2005–2008.

70 . Reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán, ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðra fyrirgreiðslu hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laga nr. 161/2002 og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.

71 . Skýrsla Gunnars Svavarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. ágúst 2013.

72 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 30. ágúst 2013.

73 . Skýrsla Gunnars Svavarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. ágúst 2013 og athugasemdir Gunnars til nefndarinnar 19. febrúar 2014.

74 . Skýrsla Gunnars Svavarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. ágúst 2013.

75 . Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um vettvangsathugun hjá Icebank (nú Sparisjóðabanka Íslands hf.) og fyrirhugaðar aðgerðir í framhaldi af henni, 29. desember 2008.

76 . Eignarhald félagsins er um margt óljóst. Þannig var hlutafé þess aukið um 450 milljónir króna 29. september 2008 og Sparisjóðabanki Íslands hf. skráður fyrir allri hækkuninni. Það hlutafé sem fyrir var nam 500 þúsundum króna. Ekki kemur fram í öðrum opinberum gögnum að eigandi hafi verið annar en Sparisjóðabankinn, en í lánasamningum milli Sparisjóðabankans og annarra einkahlutafélaga kemur fram að þau hafi fengið lánað til kaupa á hlutum í AB 171. Skilanefnd Sparisjóðabankans tók yfir framkvæmdastjórn og prókúru félagsins 28. júní 2010 án þess að tilkynnt væri um eigendaskipti að félaginu.

77 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013.

78 . Nokkrir sparisjóðir seldu skuldatryggingar á Baug Group hf. fyrir hluta þessara skuldbindinga en um þær er fjallað hér aftar.

79 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

80 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 29. ágúst 2013.

81 . Samkvæmt sundurliðun sem slitastjórn Sparisjóðabankans afhenti rannsóknarnefndinni.

82 . Sjá skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 1. bindi, bls. 162–166.

83 . Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 1. bindi, bls. 164–165.

84 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013.

85 . Tölvuskeyti starfsmanns Sparisjóðabankans til endurskoðanda Sparisjóðabankans 9. febrúar 2007.

86 . Minnisblað starfsmanns Sparisjóðabankans til Glitnis banka, Memo TRS skipti á víxlum og repóhæfum bréfum, 23. janúar 2008. Í minnisblaðinu var lögð fram tillaga um viðskipti milli Icebank og Glitnis, þannig að bankarnir skiptu á bréfum; Glitnir fengi víxla frá Icebank en Icebank fengi bréf á móti, sem væru hæf til veðlána í Seðlabanka Íslands.

87 . Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 2. bindi, bls. 44.

88 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

89 . Skýrsla Magnúsar Kristins Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

90 . Fundargerð bankaráðs Icebank hf., 15. janúar 2008.

91 . Fundargerð aðalfundar Icebank hf., 7. mars 2008.

92 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013.

93 . Bréf Davíðs Oddssonar og Eiríks Guðnasonar til Fjármálaeftirlitsins 13. nóvember 2007.

94 . Í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum er heimilt samkvæmt p-lið 4. gr. að undanskilja kröfur á fjármálafyrirtæki innan Evrópska efnahagssvæðisins með lánstíma eftirstöðva að hámarki eitt ár. Kröfur með lánstíma eftirstöðva yfir einu ári og allt að þremur árum má undanskilja að 80% hluta, en kröfur með lánstíma eftirstöðva yfir þremur árum eða lengur má undanskilja að 50% hluta.

95 . Bréf Finns Sveinbjörnssonar og Magnúsar Kristins Jónssonar til Fjármálaeftirlitsins 20. nóvember 2007.

96 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

97 . Skýrsla Daða Bjarnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. febrúar 2013; skýrsla Ólafar Pétursdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 20. febrúar 2013.

98 . Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði er fjallað um skuldatryggingar með skýringarmynd í rammagrein 2 á bls. 21 í 2. bindi.

99 . Skýrsla Ólafar Pétursdóttur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 20. febrúar 2013.

100 . Skýrsla Margeirs Vilhjálmssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 20. febrúar 2013.

101 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013; skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

102 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013.

103 . Tölvuskeyti formanns slitastjórnar Sparisjóðabanka Íslands hf. til rannsóknarnefndarinnar 5. desember 2013. Sjá nánar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 2010, 2. bindi, bls. 28. Þar er fjallað um þessi viðskipti í kafla um skuldatryggingar Icebank hf.

104 . Yfirlýsing Sparisjóðs Keflavíkur um riftun á samningi um skuldatryggingu (CDS) frá 7. ágúst 2007, 18. febrúar 2009; skeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur um riftun á samningi um skuldatryggingu (CDS) frá 7. ágúst 2007, 18. febrúar 2009.

105 . Skýrsla Daða Bjarnasonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 26. febrúar 2013.

106 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013.

107 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013; skýrsla Magnúsar Kristins Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 1. október 2012.

108 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013.

109 . Skýrsla Agnars Hanssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 5. desember 2013.

110 . Skýrsla Finns Sveinbjörnssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 2. september 2013.

111 . Drög að minnisblaði fjármálasviðs Seðlabanka Íslands um Sparisjóðabanka Íslands hf., 19. október 2008.

112 . Frestur Sparisjóðabanka Íslands hf. til að leggja fram nýjar tryggingar var fljótlega framlengdur til 29. október sama ár.

113 . Ríkisútvarpið – Rás 1 og 2, morgunfréttir 21. október 2008.

114 . Frádrag (e. haircut) er hlutfall af markaðsvirði tryggingar sem er dregið frá virði hennar þegar tryggingin er metin.

115 . Tölvuskeyti Sparisjóðabankans til Fjármálaeftirlitsins 20. október 2008.

116 . Fjallað er um skipun Fjármálaeftirlitsins á sérfræðingum til að hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum í 6. og 13. kafla.

117 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðabankans 22. október 2008.

118 . Bréf KPMG hf. til Sparisjóðabanka Íslands hf. 25. október 2008.

119 . Tölvuskeyti Böðvars Jónssonar til Árna M. Mathiesen 23. október 2008.

120 . Tölvuskeyti Sturlu Pálssonar til Tryggva Pálssonar 24. október 2008.

121 . Á minnisblaði um fundinn kemur ekki fram hverjir sátu hann en rannsóknarnefndin hefur fengið minnisblaðið afhent bæði frá fjármálaráðuneytinu og Fjármálaeftirlitinu.

122 . Minnisblað frá fjármálaráðuneytinu um lausn á efnahagsreikningum smárra fjármálastofnanna vegna endurhverfra viðskipta, 24. október 2008; punktar í framhaldi af umræðum á vinnufundi vegna aðsteðjandi vanda sparisjóðakerfisins og annarra fjármálafyrirtækja, 24. október 2008; tölvuskeyti Þórhalls Arasonar til Árna M. Mathiesen og Böðvars Jónssonar 25. október 2008.

123 . Punktar í framhaldi af umræðum á vinnufundi vegna aðsteðjandi vanda sparisjóðakerfisins og annarra fjármálafyrirtækja, 24. október 2008.

124 . Vinnuskjal Fjármálaeftirlitsins um smærri fjármálafyrirtæki, 27. október 2008.

125 . Tölvuskeyti Þórhalls Arasonar til Árna M. Mathiesen, Baldurs Guðlaugssonar og Böðvars Jónssonar 27. október 2008.

126 . Bréf Sparisjóðabanka Íslands hf. til Seðlabanka Íslands 28. október 2008.

127 . Fjármálaeftirlitið staðfesti við Seðlabanka Íslands 29. október 2008 að því væri kunnugt um að unnið væri að leiðum til að leysa úr eiginfjárvanda Sparisjóðabankans og að hafinn væri undirbúningur að fjárhagslegri endurskipulagningu bankans með aðkomu erlendra lánardrottna. Sama dag samþykkti fjármálaráðuneytið fyrir sitt leyti að Seðlabankinn framlengdi tímabundið fyrirgreiðslu til Sparisjóðabanka Íslands hf. meðan úr því fengist skorið hvort forsendur reyndust fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu bankans með aðkomu lánardrottna.

128 . Atli Knútsson var ráðgjafi hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company sem veitti stjórnstöð (e. Control Tower) undir forystu Ásmundar Stefánssonar tæknilega aðstoð. Nánar er fjallað um nefndir og viðbúnaðarhópa stjórnvalda í 13. kafla.

129 . Tölvuskeyti Atla Knútssonar til Þórhalls Arasonar 29. október 2008.

130 . Tölvuskeyti Þórhalls Arasonar til Atla Knútssonar 30. október 2008.

131 . Bréf Sparisjóðabanka Íslands hf. til Seðlabanka Íslands 10. nóvember 2008.

132 . Fjallað er um nefndir og starfshópa stjórnvalda í 13. kafla.

133 . Minnisblað vinnuhóps um vanda smærri fjármálafyrirtækja, 12. nóvember 2008.

134 . Tölvuskeyti Sturlu Pálssonar til Guðmundar Jónssonar, Þórhalls Arasonar, Guðmundar Kr. Tómassonar, Kjartans Gunnarssonar, Tryggva Pálssonar, Ragnars Hafliðasonar, Atla Knútssonar, Böðvars Jónssonar og Jóhannesar Bjarna Björnssonar 11. nóvember 2008.

135 . Tölvuskeyti Raiffeisen Zentralbank Österreich AG til fjármálaráðuneytisins 11. nóvember 2008.

136 . Tölvuskeyti Tryggva Pálssonar til Þórhalls Arasonar 13. nóvember 2008.

137 . Sturla Pálsson var einnig viðstaddur hluta funda með kröfuhöfum sem fulltrúi Seðlabanka Íslands.

138 . Tölvuskeyti Atla Knútssonar til Tryggva Pálssonar 12. nóvember 2008; tölvuskeyti Þórhalls Arasonar til Ragnars Hafliðasonar, Jónasar Fr. Jónssonar, Kjartans Gunnarssonar, Tryggva Pálssonar, Jóhannesar Bjarna Björnssonar og Atla Knútssonar 13. nóvember 2008; tölvuskeyti Kjartans Gunnarssonar til Tryggva Pálssonar 13. nóvember 2008; tölvuskeyti Tryggva Pálssonar til Þórhalls Arasonar 13. nóvember 2008; tölvuskeyti Ragnars Hafliðasonar til Þórhalls Arasonar 17. nóvember 2008.

139 . Skýrsla um mat Deloitte hf. á hluta eignasafns Sparisjóðabanka Íslands hf., 10. nóvember 2008; fundargerð bankaráðs Sparisjóðabanka Íslands hf., 18. nóvember 2008.

140 . Fundargerð bankaráðs Sparisjóðabanka Íslands hf., 18. nóvember 2008.

141 . Glærukynning Sparisjóðabanka Íslands hf. fyrir kröfuhafa bankans um fjárhagslega endurskipulagningu hans, nóvember 2008.

142 . Stýrinefndin hafði þó ekki heimildir til að semja beint og allar tillögur hennar þurftu samþykki annarra kröfuhafa. Stýrinefndin var samansett af fulltrúum frá HSH-Nordbank, DZ Bank, Fortis, Raiffeisen Zentralbank Österreich AG og Unikredit.

143 . Fundargerð bankaráðs Sparisjóðabanka Íslands hf. (á ensku), 25. nóvember 2008; tölvuskeyti Jóhannesar Bjarna Björnssonar til Þórhalls Arasonar, Ragnars Hafliðasonar og Jónasar Fr. Jónssonar 26. nóvember 2008.

144 . Tölvuskeyti Aðalsteins Jóhannssonar til Jóhannesar Bjarna Björnssonar 27. nóvember 2008.

145 . Bréf Seðlabanka Íslands til Sparisjóðabanka Íslands hf. 9. desember 2008.

146 . Minnispunktar til vinnuhóps um stöðu minni fjármálafyrirtækja eftir fund erlendra kröfuhafa með stjórnendum Sparisjóðabankans, 3. desember 2008.

147 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðabanka Íslands hf. 15. desember 2008.

148 . Tölvuskeyti Jóhannesar Bjarna Björnssonar til Þórhalls Arasonar, Sigmundar G. Sigurgeirssonar, Tryggva Pálssonar og Kjartans Gunnarssonar 23. desember 2008; skýrsla sérfræðings Fjármálaeftirlitsins með Sparisjóðabanka Íslands hf., 8. janúar 2009.

149 . Tillaga um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðabankans hf. fyrir erlenda kröfuhafa, 23. desember 2008.

150 . Skýrsla sérfræðings Fjármálaeftirlitsins með Sparisjóðabanka Íslands hf., 8. janúar 2009.

151 . Tillaga um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðabankans hf. fyrir erlenda kröfuhafa, 23. desember 2008.

152 . Bréf stýrinefndar til fjármálaráðuneytisins 15. janúar 2009.

153 . Samkomulag um yfirtöku ríkissjóðs á hluta veðlána og daglána Seðlabanka Íslands, 12. janúar 2009.

154 . Fjallað er um framsal krafna Seðlabanka Íslands til fjármálaráðuneytisins í 13. kafla.

155 . Bréf Sparisjóðabanka Íslands hf. til fjármálaráðuneytisins 19. janúar 2009.

156 . Bréf Sparisjóðabanka Íslands hf. til Fjármálaeftirlitsins 21. janúar 2009.

157 . Minnisblaðið var unnið fyrir vinnuhóp um vanda smærri fjármálafyrirtækja.

158 . Minnispunktar um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðabanka Íslands hf. (Restructuring of Icebank – Notes on current status and next steps), janúar 2009; tölvuskeyti Þórhalls Arasonar til Sturlu Pálssonar, Tryggva Pálssonar, Ragnars Hafliðasonar, Kjartans Gunnarssonar, Guðmundar Jónssonar og Jóhannesar Bjarna Björnssonar 19. janúar 2009.

159 . Var þar horft til mögulegrar sameiningar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., Byrs sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík.

160 . Tölvuskeyti Guðmundar Kr. Tómassonar, forstöðumanns greiðslukerfa Seðlabanka Íslands, til Tryggva Pálssonar og Sturlu Pálssonar 22. janúar 2009.

161 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðabanka Íslands hf. 23. janúar 2009.

162 . Tölvuskeyti Jóhannesar Bjarna Björnssonar til Þórhalls Arasonar, Guðmundar Kr. Tómassonar, Sturlu Pálssonar og Tryggva Pálssonar 22. janúar 2009.

163 . Bréf Jóhannesar Bjarna Björnssonar til stýrinefndar 30. janúar 2009.

164 . Minnispunktar Jóhannesar Bjarna Björnssonar eftir fund vinnuhóps um stöðu minni fjármálafyrirtækja með stýrihóp erlendra kröfuhafa um stöðu og horfur í fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðabanka Íslands hf., 5. febrúar 2009.

165 . Ákveðið var að Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands, leiddi þessa vinnu.

166 . Minnispunktar Jóhannesar Bjarna Björnssonar eftir fund vinnuhóps um stöðu minni fjármálafyrirtækja með stýrihóp erlendra kröfuhafa um stöðu og horfur í fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðabanka Íslands hf., 5. febrúar 2009.

167 . Minnisblað Jóhannesar Bjarna Björnssonar um mat á stöðu Sparisjóðabanka Íslands hf. til vinnuhóps um stöðu minni fjármálafyrirtækja, 9. febrúar 2009.

168 . Bréf stýrinefndar erlendra lánardrottna til fjármálaráðuneytisins 27. febrúar 2009.

169 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðabanka Íslands hf. 27. febrúar 2009; bréf Seðlabanka Íslands til Sparisjóðabanka Íslands hf. 26. febrúar 2009.

170 . Fundargerð nefndar um endurreisn fjármálakerfisins (Coordination Committee), 4. mars 2009.

171 . Fall og endurskipulagning minni fjármálafyrirtækja í mars 2009 – Drög að vinnuskjali, 7. mars 2009. Sjá nánari umfjöllun í 13. kafla.

172 . Bréf stýrinefndar erlendra lánardrottna til Steingríms J. Sigfússonar, Indriða H. Þorlákssonar og Sveins Haralds Øygard 18. mars 2009.

173 . Tölvuskeyti Tims Kirby til Indriða H. Þorlákssonar, Jóhannesar Bjarna Björnssonar, Ragnars Hafliðasonar og Steingríms J. Sigfússonar 18. mars 2009.

174 . Bréf stýrinefndar erlendra lánardrottna til Steingríms J. Sigfússonar, Indriða H. Þorlákssonar og Sveins Haralds Øygard 18. mars 2009.

175 . Bréf stýrinefndar til fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands 18. mars 2009.

176 . Umfjöllun um lánalengingarleið og Basel II viðmið er að finna í 13. kafla og 17. kafla.

177 . Bréf Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins til stýrinefndar 18. mars 2009.

178 . Tölvuskeyti fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Seðlabankans 19. mars 2009.

179 . Bráðabirgðaumsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um tillögur kröfuhafa (Preliminary IMF Comments on Creditor Proposals Regarding Insolvent Savings Banks), fylgiskjal með tölvupósti Marks Flanagan til Seðlabanka Íslands 19. mars 2009.

180 . Drög að skilmálaskjali um fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðabankans (Term sheet, outline Terms for restructuring of […] Sparisjóðabanki Íslands), fylgiskjal með bréfi stýrinefndar kröfuhafa Sparisjóðabankans til fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands, 19. mars 2009.

181 . Bréf Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins til stýrinefndar 20. mars 2009.

182 . Tölvuskeyti Sturlu Pálssonar til Ragnars Hafliðasonar og Gunnars Ó. Haraldssonar 21. mars 2009.

183 . Tölvuskeyti Sparisjóðabanka Íslands hf. til Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009.

184 . Umfjöllun um Fjármálaeftirlitið og heimildir þess er að finna í 6. og 13. kafla.

185 . Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 17. apríl 2009 var ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðabanka Íslands hf. breytt á þann hátt að Seðlabanki Íslands tæki yfir skuldbindingar vegna innstæðna sparisjóða og Íbúðalánasjóðs og Nýi Kaupþing banki hf. tæki yfir skuldbindingar vegna Allianz og viðskiptavina þess.

186 . Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 17. apríl var gerð breyting á þeirri ráðstöfun á þann hátt að fjárhæð þeirra útlána sem framselja skyldi væri 10,9 milljarðar króna, en skuldabréf á hendur Byr sparisjóði 1,5 milljarðar króna, samtals 12,4 milljarðar króna og því lækkaði endurgjaldið fyrir yfirtöku innlánsskuldbindinga.