Um rannsóknarnefnd

1. Hvað er rannsóknarnefnd Alþingis sem rannsaka  á aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna?

Rannsóknarnefndin er nefnd sem komið var á fót með þingsályktun Alþingis frá 10. júní 2011. Í henni eiga sæti Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari, formaður nefndarinnar, Tinna Finnbogadóttir hagfræðingur og Bjarni Frímann Karlsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Nefndin er skipuð samkvæmt lögum nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir. Gengið var frá skipun nefndarinnar 26. ágúst 2011. 


2. Hvert er markmið rannsóknarinnar?

Meginhlutverk nefndarinnar er að leita sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots sparisjóðanna á Íslandi. Í þingsályktuninni er nánar afmarkað að hverju rannsókn nefndarinnar skal lúta:

  1. Varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika íslenskra sparisjóða sem leiddu m.a. til gjaldþrots margra þeirra og endurfjármögnunar annarra.
  2.  Meta starfshætti sparisjóðanna á undanförnum árum og varpa ljósi á hverjar séu helstu orsakir mismunandi árangurs rekstrar þeirra. Meðal annars verði fjármögnun og útlánastefna þeirra skoðuð, eignarhald, aukning stofnfjár, greiðslur arðs, kaup og sala stofnfjár og hlutafélagavæðing þeirra, svo og aðrir þættir sem kunna að skipta máli.
  3. Gera úttekt á lagaramma og öðru starfsumhverfi sparisjóðanna og bera saman við starfsumhverfi sambærilegra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum.
  4. Leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna, eftirlit og endurskoðun hjá sparisjóðunum, hverjir kunni að bera ábyrgð á því og hvernig niðurstöðum eftirlitsaðila var fylgt eftir.
  5. Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera sparisjóðum kleift að starfa á þeim samfélagslegu og rekstrarlegu forsendum sem þeir voru stofnaðir á.
  6. Gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.


3. Til hvaða tímabils tekur rannsóknin?

Rannsóknin skal ná það langt aftur í tímann að mati nefndarinnar að varpað verði ljósi á breytingar á lagaumhverfi sparisjóðanna og rekstrarform þeirra. Rannsóknin einskorðast ekki við aðdragandann að falli íslensku bankanna í október 2008 heldur skal hún einnig taka til tímans eftir fall þeirra.


4. Hvaða rannsóknarheimildir hefur nefndin?

Í 7. og 8. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir er mælt fyrir um rannsóknarheimildir nefndarinnar. Þar kemur fram að sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fer fram á. Með gögnum er meðal annars átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga, álit sérfræðinga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar.

Þagnarskylda stendur ekki í vegi fyrir rannsókn nefndarinnar því almennt er skylt að verða við kröfu hennar um að veita upplýsingar þó að þær séu háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstökum reglum um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherrafunda og fundargerðir nefnda Alþingis. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns hlutaðeigandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki. Frá þessu gildir sú undantekning að lögmaður, endurskoðandi eða annar aðstoðarmaður verður þó ekki krafinn upplýsinga sem honum hefur verið trúað fyrir út af rannsókn nefndarinnar nema með leyfi þess sem í hlut á.

Verði ágreiningur um upplýsingaskyldu getur rannsóknarnefndin leitað um hann úrskurðar héraðsdóms á grundvelli XV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Lögregla skal veita nefndinni liðsinni við að framfylgja slíkum dómsúrskurði.

Rannsóknarnefndin getur við rannsókn máls gert athuganir á starfsstöð opinberrar stofnunar, fyrirtækis, samtaka fyrirtækja eða í öðru húsnæði og lagt hald á gögn þegar nefndin telur það nauðsynlegt í þágu rannsóknarinnar.

Rannsóknarnefndinni er heimilt að kalla einstaklinga til fundar við sig til að afla munnlegra upplýsinga í þágu rannsóknarinnar og er viðkomandi þá skylt að mæta. Heimilt er að taka það sem fer fram á slíkum fundum upp á hljóð- eða myndband. Þá getur nefndin óskað þess að héraðsdómari kveðji mann fyrir dóm til að bera vitni um atvik sem máli skipta að mati nefndarinnar. Um kvaðningu og skýrslugjöf og aðra framkvæmd skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála, eftir því sem við á.

Ef maður lætur af ásetningi rannsóknarnefnd í té rangar eða villandi upplýsingar samkvæmt fyrirmælum laga um rannsóknarnefndir er slíkt refsivert samkvæmt 145. og 146. gr. almennra hegningarlaga. Um slík mál fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

Einstaklingi verður þó ekki gerð refsing ef hann skorast undan því að svara spurningu ef ætla má að í svari hans geti falist játning eða bending um að hann hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi honum siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni. Sama á við ef ætla má að svar hefði sömu afleiðingar fyrir einhvern þann sem tengist viðkomandi með þeim hætti sem segir í 1. og 2. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.


5. Er hægt að koma ábendingum til nefndarinnar?

Á heimasíðu rannsóknarnefndarinnar er almenningi gefinn kostur á því að koma á framfæri upplýsingum við nefndina sem varðað geta rannsókn hennar. Ekki er við því að búast að allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir rannsóknina sé að finna í skriflegum gögnum. Því er brýnt að þeir sem búa yfir vitneskju sem þýðingu hefur fyrir rannsóknina komi henni á framfæri við nefndina.

Í 9. gr. laga um rannsóknarnefndir er svo um hnútana búið að það á ekki að koma niður á neinum að veita nefndinni liðsinni með því að koma ábendingum og upplýsingum til hennar. Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að rýra réttindi, segja upp samningi, slíta honum eða láta mann gjalda þess á annan hátt ef hann hefur látið nefndinni í té upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir rannsóknina. 

6. Er hægt að veita upplýsingar gegn því að sæta ekki ákæru?

Ef einstaklingur hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta nefndinni í té upplýsingar eða gögn, sem tengjast opinberri stofnun, fyrirtæki, móður- eða dótturfyrirtæki þess eða fyrirtækjum sem það er í viðskiptum við eða stjórnendum þeirra, og óskar eftir því að hann sæti ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að refsiverðu broti hans sjálfs, er nefndinni heimilt að óska eftir því við ríkissaksóknara að hann ákveði að hlutaðeigandi sæti ekki ákæru. Ef um opinberan starfsmann er að ræða getur nefndin, af sama tilefni, óskað eftir því við hlutaðeigandi forstöðumann eða ráðuneyti að hlutaðeigandi verði ekki látinn sæta viðurlögum vegna brota á starfsskyldum.

Skilyrði slíkrar ákvörðunar eru að upplýsingar eða gögn tengist refsiverðu broti eða broti á opinberum starfsskyldum og talið sé líklegt að þessar upplýsingar eða gögn geti haft verulega þýðingu fyrir rannsókn nefndarinnar eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Ef upplýsingar eða gögn tengjast refsiverðu broti þá er það jafnframt skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar að rökstuddur grunur sé uppi um það að mati ríkissaksóknara að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti.

7. Hvernig gerir rannsóknarnefndin grein fyrir niðurstöðum sínum?

Rannsóknarnefndin skilar forseta Alþingis skriflegri skýrslu með rökstuddum niðurstöðum rannsóknar sinnar. Rannsóknarnefndin getur ákveðið að skila til Alþingis sérstökum skýrslum um einstaka hluta rannsóknarinnar eða áfangaskýrslum og skal haga meðferð þeirra á sama hátt og lokaskýrslu. Stefnt skal að því að endanlegri skýrslu um rannsókn nefndarinnar verði skilað til Alþingis eigi síðar en 1. júní 2012.

Þegar skýrsla rannsóknarnefndar hefur borist sendir forseti Alþingis hana þegar í stað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem tekur ákvörðun um hvort hún skuli strax tekin til efnislegrar meðferðar í nefndinni eða að lokinni umræðu í þinginu. Að lokinni umfjöllun um skýrsluna gefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin þinginu álit sitt um hana og leggur fram tillögur um úrvinnslu og meðferð niðurstaðna hennar.

8. Getur rannsóknarnefndin klárað verkefni sitt á þeim tíma sem henni er ætlaður?

Samkvæmt þingsályktuninni skal stefnt að því að endanlegri skýrslu um rannsókn nefndarinnar verði skilað eigi síðar en 1. júní 2012.
 

9. Hefur rannsóknarnefndin með höndum rannsókn sakamála?

Eins og áður segir er það meginhlutverk rannsóknarnefndarinnar að leita sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots sparisjóðanna á Íslandi. Það er ekki hlutverk nefndarinnar að annast sakamálarannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi, heldur fellur það undir ríkissaksóknara samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Í 5. mgr. 10. gr. laga um rannsóknarnefndir er tekinn af allur vafi um að ekki sé heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum.

10. Hvernig verður upplýsingagjöf hagað á meðan nefndin starfar?

Rannsóknarnefnd ákveður sjálf hvaða upplýsingar eða tilkynningar hún birtir opinberlega um störf sín þar til hún hefur skilað lokaskýrslu sinni. Sama gildir um aðgang að gögnum sem nefndin aflar.