Tveir fyrstu tveir kaflar greinargerðar með frumvarpi til laga nr. 44/1998

Inngangur.

Frumvarp þetta er samið sameiginlega af samráðshópi ríkis og sveitarfélaga, sem félagsmálaráðherra skipaði 15. október 1997, og starfshópi til að undirbúa frumvarp um breytt hlutverk og starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem félagsmálaráðherra skipaði 22. október 1997. Verkefni samráðshópsins var að vinna að útfærslu tillagna um breytingar á félagslega íbúðakerfinu yfir í félagslegt lánakerfi. Markmiðið skyldi vera að auka sveigjanleika félagslega lánakerfisins og færa umsýslu þess í auknum mæli til sveitarfélaga. Jafnframt var samráðshópnum falið að annast viðræður við sveitarfélög um að félagsleg aðstoð húsnæðiskerfisins fari í gegnum húsnæðisnefndir sveitarfélaga og um uppgjör vegna fortíðarvanda í félagslega húsnæðiskerfinu. Samráðshópnum var falið að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna og nefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa frumvarp um breytt hlutverk Húsnæðisstofnunar. Í samráðshópinn voru skipaðir Karl Björnsson bæjarstjóri, Páll R. Magnússon, formaður húsnæðisnefndar Reykjavíkur, Gunnar S. Björnsson, varaformaður húsnæðismálastjórnar, Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, og Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, sem jafnframt var skipaður formaður samráðshópsins. Verkefni starfshópsins var að undirbúa frumvarp um breytt hlutverk og starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins. Skyldi starfshópurinn gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins með hliðsjón af tillögum þriggja nefnda sem skilað höfðu tillögum um breytingar á húsnæðiskerfinu. Starfshópnum var falið að vinna að útfærslu á tillögum um breytt stjórnskipulag stofnunarinnar, sameiningu byggingarsjóðanna og starfsemi þeirra í ljósi breyttra aðstæðna á húsnæðis- og fjármagnsmarkaði. Loks var starfshópnum ætlað að taka til úrvinnslu niðurstöður starfshóps ríkis og sveitarfélaga um breytingar á félagslega íbúðakerfinu. Í starfshópinn voru skipaðir Hákon Hákonarson, formaður húsnæðismálastjórnar, Gunnar S. Björnsson, varaformaður húsnæðismálastjórnar, Páll Gunnar Pálsson, deildarstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, og Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, sem jafnframt var skipaður formaður starfshópsins.

Starfsmaður beggja hópanna var Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Með hópunum störfuðu að frumvarpsgerð þeir Jón Sveinsson hæstaréttarlögmaður og Þórhallur Vilhjálmsson lögfræðingur. Að tilteknum þáttum og útreikningum vann Haraldur Haraldsson hagfræðingur. Einnig komu að útreikningum starfsmenn Þjóðhagsstofnunar.

Hóparnir tveir hafa í sameiningu unnið að gerð frumvarps þessa ásamt fylgifrumvarpi þess. Til grundvallar vinnunni voru lagðar þær skýrslur, álit og gögn sem vísað er til hér á eftir. Meðan á vinnu hópanna stóð var jafnframt haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um útfærslu einstakra hugmynda og ákvæða. Hóparnir tveir eru sammála um efni frumvarpanna og telja þau bæta verulega úr því ástandi á sviði húsnæðismála sem nú ríkir.

Í 2. kafla hér á eftir er lýst meginmarkmiðum þessa frumvarps og helstu frávikum frá gildandi lögum á þessu sviði. Því næst er í 3. kafla fjallað um samanburð á núverandi lánakerfi til byggingar og kaupa á félagslegu íbúðarhúsnæði og nýju kerfi viðbótarlána, er komi í stað þess. Þá er í 4. kafla fjallað um aðdraganda og undirbúning málsins og niðurstöður helstu skýrslna sem um húsnæðismál fjalla í seinni tíð. Í 5. kafla er vikið að þróun löggjafar um húsnæðismál og helstu einkennum hennar. Í 6. kafla er síðan fjallað um stöðu félagslega íbúðakerfisins á árunum 1990–96. Þar á eftir eru athugasemdir við einstakar greinar. Frumvarpinu fylgja töflur og línurit sem vísað er til í texta þess, umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, yfirlit yfir þær greinar laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem halda munu gildi sínu eftir gildistöku laganna og yfirlýsing fjármálaráðherra um samráð við félagsmálaráðherra um ákvarðanir er snerta vaxtabætur og fjárhæð þeirra.

Frumvarpinu fylgir frumvarp til laga um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög. Um skýringar á því frumvarpi vísast til athugasemda með því. Samhliða frumvarpi þessu mun fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna nauðsynlegra breytinga á vaxtabótakerfinu sem leiðir af frumvarpi þessu ef að lögum verður. Þá má hér einnig nefna frumvarp fjármálaráðherra um stimpilgjald sem ætlað er að verða að lögum á þessu þingi.

2. Markmið og helstu breytingar.

2.1. Almennt.

Frumvarp það sem hér er lagt fram um húsnæðismál er annað tveggja frumvarpa er hafa það að markmiði að einfalda og samræma skipulag húsnæðismála til lengri tíma og tryggja rétt þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda við öflun húsnæðis. Frumvarpið leysir til framtíðar af hólmi núgildandi ákvæði laga um Húsnæðisstofnun ríkisins sem snerta málefni Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, svo og atriði er lúta að lánveitingum til íbúðarhúsnæðis og verkefni sveitarfélaga í þeim efnum. Frumvarpið er í fjórum meginþáttum, því er skipt í 12 kafla og alls í 57 greinar. Í frumvarpinu eru átta umfangsmikil bráðabirgðaákvæði, meðal annars vegna lokunar eldra kerfis. Í síðara frumvarpinu (fylgifrumvarpi), um byggingar- og húsnæðisamvinnufélög, er fjallað um búseturétt og samvinnufélög með svipuðum hætti og gert er í núgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þykir eðlilegra að sérlög gildi um þessa starfsemi, enda um frjáls félög að ræða sem byggja á sérstöku formi og fyrirkomulagi án beinna tengsla við Íbúðalánasjóð, nema hvað snertir lánveitingar og eftirlit með þeim. Fylgifrumvarpið er alls í sex köflum og 23 greinum. Samhliða frumvörpum þessum mun fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar sem lagðar eru til breytingar á fyrirkomulagi vaxtabóta og útborgun þeirra.

Nokkur umræða hefur farið fram á síðustu árum um skipulag húsnæðismála hér á landi, einkum félagslega húsnæðiskerfið, svo og um málefni Húsnæðisstofnunar ríkisins. Lögð hefur verið veruleg vinna í endurskoðun á húsnæðislánakerfinu. Í 4. kafla er vitnað til fjögurra nefnda á vegum félagsmálaráðuneytis sem störfuðu frá miðju ári 1995 til febrúarloka 1998, skýrslu vinnuhóps Sambands íslenskra sveitarfélaga um félagslega íbúðakerfið frá febrúar 1997 og skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluendurskoðun á Húsnæðisstofnun ríkisins sem gefin var út í október 1996. Í niðurstöðum allra þessara skýrslna koma fram kröfur um verulegar breytingar á húsnæðislánakerfinu. Þá hafa félagsmálaráðherra borist tíðar kvartanir og ábendingar um breytingar frá fólki sem býr í félagslegum eignaríbúðum.

Fram hafa komið verulegir gallar á félagslega húsnæðiskerfinu. Gildandi lög um félagslega húsnæðiskerfið voru að stofni til samin á þeim tíma er skortur var á íbúðarhæfu húsnæði og framboð fjármagns til byggingar íbúðarhúsnæðis var af skornum skammti. Umhverfið á húsnæðismarkaði og fjármagnsmarkaði er hins vegar gerbreytt og nægt framboð af hvoru tveggja. Þau lög sem lagt er til að horfið verði frá með þessu frumvarpi eru þess vegna barn síns tíma. Þau eru flókin, bjóða upp á lítinn sveigjanleika og taka ekki mið af þeim breytingum sem hafa orðið á íslensku samfélagi undanfarna áratugi. Þá hefur umtalsverð gagnrýni beinst að umfangi og kostnaði þess, innlausn sveitarfélaga á félagslegum íbúðum og endursölu þeirra, fjármögnun kerfisins o.fl. Við samningu frumvarpsins hefur verið reynt að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem hæst hefur borið í þessari umræðu. Stefnt er að því að skapa nýtt og einfaldara kerfi sem þjónar betur tekjulágu fólki og öldruðum, er ódýrara í rekstri og hentar betur sveitarfélögunum. Þá er jafnframt leitast við að gera málskotsrétt einstaklinga vegna ákvarðana húsnæðisnefnda og annarra stjórnvalda gleggri og skilvirkari með því að koma á fót sjálfstæðri úrskurðarnefnd.

Meginmarkmið frumvarpsins eru eftirfarandi:

 1. Að einfalda og samræma meðferð og lánveitingar til húsnæðismála til lengri tíma litið.
 2. Að stofna sjálfstæðan sjóð, Íbúðalánasjóð, sem ætlast er til að verði fjárhagslega sjálfstæður til framtíðar og standi undir lánveitingum sínum og rekstri með eigin tekjum.
 3. Að sameina Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna.
 4. Að loka félagslega eignaríbúðakerfinu í núverandi mynd.
 5. Að félagsleg jöfnun við öflun eigin húsnæðis sé í formi sértækra viðbótarlána og að fjárhagsleg aðstoð til einstaklinga fari í gegnum vaxtabótakerfi.
 6. Að breyta þátttöku, áhrifum og ábyrgð sveitarfélaga og húsnæðisnefnda sveitarfélaga hvað félagslegt húsnæði og lánveitingar varðar.
 7. Að stofna varasjóð, sem verði í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga, og hafi það hlutverk að bæta Íbúðalánasjóði það tjón sem hann kann að verða fyrir vegna tapaðra viðbótarlána.
 8. Að stofna sjálfstæða kærunefnd húsnæðismála.

2.2. Einföldun og samræming.

Afar þýðingarmikið er að einfalda og samræma betur þá húsnæðislöggjöf sem nú gildir, sérstaklega félagslega húsnæðiskerfið, sem er að mörgu leyti ábótavant. Dregið hefur úr eftirspurn eftir félagslegum eignaríbúðum og þær hafa staðið auðar í nokkrum sveitarfélögum. Nauðungarsala félagslegra eignaríbúða hefur aukist á síðari árum. Þá þykir félagslega eignaríbúðakerfið flókið og óskilvirkt og lítt sveigjanlegt. Viðbótarlán til kaupa á eignaríbúðum, sem fela í sér allt að 100% lán, hafa í mjög mörgum tilfellum leitt einstaklinga í fjárhagserfiðleika, sem þeir eiga erfitt með að komast út úr. Eru mörg dæmi þess að kaupendur íbúða hafi ekki ráðið við svo mikla skuldsetningu, misst eignina á uppboð og staðið eftir í skuld við húsnæðislánakerfið og þar af leiðandi ekki átt aðgang að neinni fyrirgreiðslu til öflunar húsnæðis annarri en frá viðkomandi sveitarfélagi. Þessi hópur hefur þannig orðið mun verr settur en áður. Í frumvarpinu er að fenginni reynslu gert ráð fyrir að 10% eigin framlag íbúðarkaupanda sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir aðgangi að lánafyrirgreiðslu til félagslegra eignaríbúða. Eðlilegra er að ætla að fólk sem ekki á neinn sparnað til þess að leggja til við íbúðarkaup fari á leigumarkað, enda er gert ráð fyrir eflingu leigumarkaðarins samhliða þeim breytingum sem hér eru kynntar á húsnæðislánakerfinu. Þannig er rétt að skoða frumvarp þetta með hliðsjón af nýjum lögum um húsaleigubætur er samþykkt voru á Alþingi í lok síðasta árs.

Þótt félagslega íbúðalánakerfið hafi haft verulega þýðingu í að sjá fólki fyrir hagkvæmu og vel byggðu húsnæði hafa vandamálin hin síðari ár verið að koma betur og betur í ljós. Að sumu leyti eru þau staðbundin, þar sem markaðsverð fasteigna hefur fallið á meðan verðlagning félagslegra eignaríbúða lýtur öðrum lögmálum. Við nánari skoðun má hins vegar ljóst vera að veruleg vandamál við núverandi fyrirkomulag félagslegra eignaríbúða eru einnig til staðar á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar þar sem markaðsverð húsnæðis er nálægt byggingarkostnaði. Endursala hefur aukist stórlega í kjölfar verulegrar fjölgunar félagslegra íbúða og einnig virðast eigendaskipti í félagslega íbúðalánakerfinu vera tíðari en áður. Á árinu 1996 var gengið frá endursölu 819 íbúða. Samsvarandi fjöldi árið 1990 var 317 íbúðir. Eigendaskipti virðast tíðari í félagslega kerfinu en á almennum fasteignamarkaði, en miðað við upplýsingar frá félagsíbúðadeild Húsnæðisstofnunar má ætla að um 11% íbúða í kerfinu séu endurseldar árlega. Þá kemur vandinn einnig fram í fjölgun íbúða í félagslega kerfinu, sem þar með eru á ábyrgð húsnæðisnefnda sveitarfélaga. Á vegum Húsnæðisnefndar Reykjavíkur eru t.d. nú um 3.900 íbúðir. Eftirfarandi tafla sýnir fjölgun félagslegra íbúða á vegum húsnæðisnefndar Reykjavíkurborgar frá árinu 1987. Um er að ræða félagslegar eignaríbúðir og félagslegar og almennar kaupleiguíbúðir (gögn um fjölda íbúða í Reykjavík 1994 vantar):

Árið 1987 voru íbúðir á vegum húsnæðisnefndar Reykjavíkurborgar 7,6% af öllum íbúðum í Reykjavík. Þetta hlutfall var orðið 9,2% í árslok 1997.

Jafnframt hefur verið gagnrýnt hversu kostnaðarsamt er að halda uppi rekstri Húsnæðisstofnunar ríkisins og einstakra húsnæðisnefnda. Með því að einfalda og samræma betur opinber afskipti af lánveitingum til húsnæðismála fæst gleggri mynd af réttindum og skyldum manna í þeim efnum. Í stuttu máli má segja að verið sé að bregðast við tvíþættum vanda sem er innbyggður í núverandi kerfi. Annars vegar er verið að leggja af mjög kostnaðarsama yfirbyggingu við niðurgreiðslu lána og færa aðstoðina inn í skattkerfið líkt og tíðkast á almennum markaði. Reyndar hefur vaxtabótakerfið virkað samhliða á hluta af félagslegu lánunum, þannig að í raun hefur niðurgreiðslan komið í gegn um tvö kerfi. Allur kostnaður vegna reksturs kerfisins, sem nú skiptir hundruðum milljóna króna á ári, leggst á eigendur félagslegra íbúða. Hins vegar er verið að bregðast við því að félagslega íbúðalánakerfið hefur ekki tekið mið af almennum íbúðamarkaði, en það fyrirkomulag hefur í mörgum tilfellum valdið togstreitu milli notenda kerfisins og húsnæðisnefnda sveitarfélaga.

Að síðustu er rétt að minna á þá staðreynd að félagslega íbúðalánakerfið stefnir í þrot og að óbreyttu hefði þurft að koma til veruleg hækkun vaxta af félagslegum lánum.

2.3. Stofnun Íbúðalánasjóðs.

Stofnaður er Íbúðalánasjóður, sjálfstæð ríkisstofnun, sem hefur það meginhlutverk að standa undir og fjármagna nýtt húsnæðislánakerfi. Í fyrsta lagi er um að ræða almennar lánveitingar sem grundvallast á núverandi húsbréfakerfi. Í öðru lagi verði tekin upp viðbótarlán, sem húsnæðisnefndir sveitarfélaga hafa milligöngu um að veita, og í þriðja lagi er um að ræða lán til byggingar leiguhúsnæðis. Auk þessara meginlánaflokka hefur Íbúðalánasjóður heimildir til þess að stofna til nýrra lánaflokka. Með stofnun Íbúðalánasjóðs er horft til framtíðar um rekstur og fjármögnun nýs húsnæðislánakerfis, sem ætlað er að standa undir eigin lánveitingum og að þátttaka ríkisins verði fyrst og fremst í formi vaxtabóta að því er snertir kaup og byggingu eigin íbúðarhúsnæðis.

2.4. Sameining sjóða.

Nauðsynlegt er að sameina Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna til þess að mynda einn sterkan sjóð, sem geti verið bakhjarl hins nýja húsnæðislánakerfis. Slíkur sjóður, í því fjármálaumhverfi sem við búum nú við, hefur alla möguleika til þess að leita eftir hagstæðri fjármögnun viðbótarlána með sölu húsnæðisbréfa á innlendum og erlendum markaði. Með sameiningu sjóðanna er enn fremur tekist á við vanda Byggingarsjóðs verkamanna, en töluvert hefur gengið á eigið fé sjóðsins og stefnir í þrot hans ef ekkert verður að gert.

2.5. Lokun eldra kerfis.

Núverandi félagslegt eignaríbúðakerfi er lagt niður og upp tekin viðbótarlán til þeirra sem búa við erfiðar aðstæður. Í því felst að kaupskylda og forkaupsréttur sveitarfélaga líður undir lok og enn fremur núverandi kaupleigukerfi. Í þess stað er lagt til að núverandi leiguíbúðakerfi verði styrkt, sem er í samræmi við nýsamþykkt lög um húsaleigubætur. Til þess að ekki verði röskun á högum þeirra sem búa í félagslegum íbúðum og til þess að koma í veg fyrir óæskileg áhrif, sem kunna að fylgja breytingunni, er gert ráð fyrir nokkuð löngum aðlögunartíma. Búast má við því að kostnaður sveitarfélaganna af rekstri félagslegra eignaríbúða minnki þegar fram líða stundir.

2.6. Viðbótarlán og vaxtabætur.

Tekin verða upp viðbótarlán sem geta numið allt að 25% af kaupverði íbúðar til viðbótar almennu láni. Heildarlánveiting getur því numið allt að 90% af kaupverði íbúðar. Með núverandi vaxtabótakerfi, ásamt þeim breytingum sem gerðar verða á ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt samhliða frumvarpi þessu, er síðan vegið á móti þeim áhrifum sem hækkun vaxta hefur í för með sér. Ein stærsta breytingin á vaxtabótakerfinu verður fólgin í fyrirframgreiðslu bótanna. Þá er það jafnframt nýjung að frá 25. ári lánstímans lækkar 6% tekjuskerðing vaxtabóta um 0,5% á ári hverju en sú breyting léttir verulega greiðslubyrðina í kerfinu án þess að draga úr hraðri eignarmyndun á síðari hluta lánstímans. Er við það miðað að þær komi til útborgunar á þriggja mánaða fresti. Með þessu er stuðlað að því að þeir sem búa við erfiðar aðstæður og eiga ekki kost á lánsfjármagni á almennum markaði, vegna þeirra kjara sem þar eru í boði, geti fjármagnað eigin íbúðakaup. Er við það miðað að þeir sem kost eiga á viðbótarláni verði betur settir en ef þeir hefðu keypt félagslega eignaríbúð samkvæmt því kerfi er nú gildir. Eftir breytinguna er fólki skapaður möguleiki til þess að velja um íbúðir á almennum markaði, en ekki eingöngu íbúðir á vegum húsæðisnefnda sveitarfélaga eins og nú er. Greiðslubyrði er í flestum tilfellum léttari á fyrri hluta lánstímans. Kerfið er gert einfaldara og sveigjanlegra. Með vaxtabótakerfinu næst enn fremur það markmið að laga kerfið betur að sveiflum sem kunna að verða á tekjum fólks.

2.7. Breytt þátttaka, áhrif og ábyrgð sveitarfélaga.

Sveitarfélög hafa áfram það meginhlutverk að kanna þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og eiga frumkvæði, og eftir atvikum, milligöngu um að aðstoða einstaklinga við öflun eigin húsnæðis. Lögð er sérstök áhersla á það hlutverk húsnæðisnefnda að aðstoða aldraða og samtök þeirra við öflun húsnæðis með ýmiss konar ráðgjöf, en reynslan hefur sýnt að þörf er fyrir slíkt. Við það að taka upp viðbótarlán til þeirra sem eru tekjulágir og búa við erfiðar aðstæður, ásamt því að leggja af byggingu og úthlutun félagslegra eignaríbúða, er ljóst að umtalsverðar breytingar munu verða á umfangi þess starfs sem húsnæðisnefndir hafa haft með höndum. Er því aukin áhersla lögð á þau verkefni húsnæðisnefnda að gera áætlanir fyrir sveitarfélagið um þörf á húsnæði. Þá verður það í verkahring húsnæðisnefnda að leggja mat á aðstæður umsækjenda og fjalla um umsóknir þeirra um viðbótarlán. Til þess að mæta kostnaði vegna hugsanlegs taps við veitingu viðbótarlána er gert ráð fyrir því að sveitarfélag greiði framlag í varasjóð og standi þar með undir hugsanlegu tjóni Íbúðalánasjóðs vegna tapaðra útlána. Með þessu er stefnt að því að gera sveitarfélögin ábyrgari og meðvitaðri um framangreint hlutverk sitt, jafnframt að veita sveitarfélögum hverju um sig svigrúm til þess að skipuleggja og móta eigin stefnu í húsnæðismálum.

2.8. Stofnun varasjóðs.

Til þess að standa undir því tjóni, sem Íbúðalánasjóður kann að verða fyrir vegna tapaðra viðbótarlána, greiða sveitarfélög ákveðið hlutfall af viðbótarláni í varasjóð sem þau bera síðan ábyrgð á að standi undir skuldbindingum. Auk þessa er varasjóðnum fengið það hlutverk að fara með mál er snerta lokun eldra kerfis og um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum.

2.9. Kærunefnd húsnæðismála.

Með því að koma á fót kærunefnd húsnæðismála er stefnt að því að gera meðferð mála er upp kunna að koma í samskiptum einstaklinga við Íbúðalánasjóð og húsnæðisnefndir sveitarfélaga einfaldari og skýrari. Með því er jafnframt stefnt að því að félagsmálaráðuneytið geti betur sinnt stefnumótunarhlutverki sínu í húsnæðismálum.

2.10. Helstu breytingar frá gildandi lögum.

Stærsta breytingin sem felst í frumvarpinu lýtur að félaglega íbúðakerfinu. Er sú grundvallarbreyting lögð til að byggingu og kaupum á félagslegum eignaríbúðum verði hætt og í stað þess tekið upp nýtt félagslegt íbúðalánakerfi. Að meginstefnu til eru núgildandi ákvæði til byggingar leiguíbúða óbreytt, en lagt til að ákvæði um kaupleiguíbúðir verði felld brott. Auk þessa sem hér hefur verið rakið eru sett í sjálfstætt frumvarp ákvæði um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög.

Helstu breytingar frumvarpsins má að öðru leyti greina í þrjá þætti. Í fyrsta lagi lúta þær að félagslegri aðstoð við einstaklinga. Í öðru lagi að þátttöku sveitarfélaga í slíkri aðstoð og í þriðja lagi að breytingum sem snerta uppbyggingu og skipulag húsnæðismála.

2.10.1. Félagsleg aðstoð til einstaklinga.

Þær breytingar sem lúta að félagslegri aðstoð til einstaklinga eru einkum með þrennu móti:

 1. Núverandi félagslegu húsnæðiskerfi verður lokað frá og með gildistöku laganna. Við tekur nýtt og breytt kerfi. Eldra kerfi félagslegra íbúða verður þó viðhaldið meðan innlausn íbúða samkvæmt eldra kerfi stendur yfir. Innlausnarreglur eldra kerfis geta því gilt í nokkurn tíma enn. Um frekari úthlutanir félagslegra íbúða verður hins vegar ekki að ræða á grundvelli eldri reglna.
 2. Félagsleg aðstoð (jöfnun) verður annars vegar í formi húsbréfaláns, 65–70% láns, og hins vegar í formi 20–25% viðbótarláns.
 3. Félagsleg jöfnun verður framkvæmd með vaxtabótakerfi. Vaxtabætur verða greiddar út á kaupári.
 4. Einstaklingar geta valið úr öllum íbúðum á markaði, en ekki fyrir fram ákveðnum fjölda íbúða.

2.10.2. Þátttaka sveitarfélaga.

Við það að taka upp viðbótarlán til þeirra sem búa við erfiðar aðstæður verða óhjákvæmilega umtalsverðar breytingar á þátttöku sveitarfélaga í því sambandi. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru fjórþættar:

 1. Kaupskylda sveitarfélaga á núverandi félagslegum eignaríbúðum verður afnumin við endursölu og þeim heimilað að selja félagslegar eignaríbúðir á almennum markaði án annarra skilyrða en að áhvílandi félagsleg lán verði gerð upp.
 2. Sveitarfélögum verður heimilað að breyta félagslegum eignaríbúðum, sem koma til innlausnar, í leiguíbúðir til frambúðar.
 3. Svonefndum framkvæmdarlánveitingum verður hætt.
 4. Sveitarfélögum verður heimilað að stofna félög um rekstur leiguíbúða sinna, þar með talin hlutafélög, jafnvel með þátttöku utanaðkomandi aðila að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, enda ábyrgist sveitarfélag við þær aðstæður allar greiðsluskyldur gagnvart Íbúðalánasjóði vegna lána sem veitt hafa verið úr sjóðnum.
 5. Sveitarfélög greiða í varasjóð framlag sem bætir tjón Íbúðalánasjóðs vegna tapaðra viðbótarlána og kostnað vegna þeirra.

2.10.3. Skipulag húsnæðismála.

Helstu breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á skipulagi húsnæðismála, eru eftirfarandi:

 1. Húsnæðisstofnun ríkisins verður lögð niður. Við tekur sjálfstæð ríkisstofnun, Íbúðalánasjóður, sem hefur á að skipa sérstakri fimm manna stjórn sem félagsmálaráðherra skipar.
 2. Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verða sameinaðir og tekur Íbúðalánasjóður við hlutverki þeirra.
 3. Íbúðalánasjóður hefur það meginhlutverk að veita einstaklingum, sveitarfélögum og félagasamtökum lán til íbúðakaupa samkvæmt nánari reglum.
 4. Stofnaður verður sérstakur varasjóður til að bæta tjón Íbúðalánasjóðs vegna tapaðra viðbótarlána. Vegna eldra kerfis verður hlutverk sjóðsins þó víðtækara fyrst í stað.
 5. Tryggingarsjóður vegna byggingargalla verður lagður niður.
 6. Komið verður á sérstakri kærunefnd húsnæðismála sem skjóta má til ágreiningsmálum er upp kunna að koma og tengjast íbúðalánveitingum og meðferð á íbúðum sveitarfélaga.
 7. Sjálfstæð lög verða sett um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög.
 8. Heimilt verður að stofna frjáls félög um rekstur leiguíbúða að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.