21. kafli – Afl sparisjóður

21. Afl sparisjóður

Afl sparisjóður varð til við samruna Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar. Samruninn var samþykktur samkvæmt samrunaáætlun í stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar 13. ágúst 2007 og hinn sama dag var samruninn samþykktur í Sparisjóði Skagafjarðar. Bókhaldslegur samruni þeirra miðaðist við 1. janúar 2008.1 Sameinaður sparisjóður starfaði síðan undir nafni Sparisjóðs Siglufjarðar, þar til nafni hans var breytt í „Afl sparisjóð“ á fundi 18. apríl 2008.2

Sparisjóður Skagafjarðar, sem hét Sparisjóður Hólahrepps þar til síðla árs 2004, gat rakið uppruna sinn til ársins 1907 en Sparisjóður Siglufjarðar aftur til ársins 1873. Afl sparisjóður er þannig það starfandi fjármálafyrirtæki í landinu sem á sér lengsta samfellda sögu. Í árslok 2007, fyrir sameiningu þessara tveggja sparisjóða, voru heildareignir Sparisjóðs Siglufjarðar fjórfaldar á við eignir Sparisjóðs Skagafjarðar og eigið fé um 12 sinnum meira. Sparisjóður Siglufjarðar keypti útibú Glitnis hf. á Siglufirði og tók við rekstri þess 26. júní 2006. Afgreiðsla sparisjóðsins var þá flutt að Aðalgötu 34, þar sem útibú Glitnis hf. hafði verið, og hefur Afl sparisjóður verið þar til húsa.

Í samþykktum sparisjóðsins frá 18. apríl 2008 var starfsemi hans skilgreind sem geymsla og ávöxtun fjár, miðlun á peningum, verðbréfaviðskipti og önnur þjónustustarfsemi. Í þessum samþykktum var ekki vikið sérstaklega að samfélagslegu hlutverki sparisjóðsins en í síðari samþykktum frá 31. maí 2011, sem voru að mestu leyti áþekkar þeim fyrri, var þess getið að sparisjóðurinn ætti að láta gott af sér leiða og standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð á starfssvæði sjóðsins.

Ólafur Jónsson varð sparisjóðstjóri Sparisjóðs Siglufjarðar árið 2001 og hefur síðan verið sparisjóðsstjóri sameinaða sjóðsins. Hjá sparisjóðnum voru 40 stöðugildi í lok árs 2011. Á aðalfundi 31. maí 2011 voru Þórbergur Guðjónsson, Iða Brá Benediktsdóttir, Þórdís Úlfarsdóttir, Ólafur Kristinn Sigmarsson og Finnur Yngvi Kristinsson kosin í stjórn sparisjóðsins.

Sparisjóður Siglufjarðar stóð mjög tæpt um og eftir aldamótin, eiginfjárhlutfall var 1,1% í lok árs 2001 og 4,7% í lok árs 2002. Liður í því að bjarga rekstri sjóðsins var að auka stofnfé hans verulega árið 2001. Þá eignaðist Sparisjóður Mýrasýslu 41,2% stofnfjár í sjóðnum og tveimur árum síðar keypti hann allt sem eftir stóð af stofnfé í Sparisjóði Siglufjarðar sem varð þá dótturfélag Sparisjóðs Mýrasýslu. Skipan stjórnar Sparisjóðs Siglufjarðar bar þessa merki, til að mynda var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu stjórnarformaður Sparisjóðs Siglufjarðar árin 2006 og 2007 og til hausts 2008. Stjórnarformaður Sparisjóðs Mýrasýslu sat einnig í stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar frá 2004 til 2007.

Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjárhafafundar í Sparisjóði Mýrasýslu 3. apríl 2009 tók Nýja Kaupþing banki hf. (síðar Arion banki hf.) við starfsemi og dótturfélögum sparisjóðsins. Arion banki hf. setti Afl sparisjóð í opið söluferli í september 2011 og barst eitt tilboð í hann en ekki var gengið að því. Arion banki hf. fór með 94,5% hlut í sparisjóðnum í lok árs 2011.

Í lok árs 2007, fyrir fall bankanna, námu heildareignir sparisjóðsins 8 milljörðum króna. Hann var einn af minni sparisjóðunum í landinu með um 1,5% af heildareignum sparisjóðanna sem voru þá um 614 milljarðar króna. Í lok árs 2011 námu heildareignir Afls sparisjóðs 14,8 milljörðum króna og var það um 25% af heildareignum sparisjóðanna á þeim tíma.

21.1 Ársreikningar 2001–2011

Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Siglufjarðar og Afls sparisjóðs, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum frá 2001 til 2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram. Á það skal bent að frá og með árinu 2008 var rekstur Sparisjóðs Skagafjarðar orðinn hluti af ársreikningum Afls. Til að einfalda umfjöllun um rekstur og efnahag er nafnið Afl sparisjóður notað yfir allt tímabilið frá 2001 til 2011. Gerð er stuttlega grein fyrir rekstri og efnahag Sparisjóðs Skagafjarðar (áður Hólahrepps) í næsta kafla.

21.1.1 Rekstrarreikningar

Sparisjóður Siglufjarðar var kominn í verulega erfiða stöðu um og eftir aldamótin. Hann tapaði samtals 265 milljónum króna árin 2001 og 2002. Eiginfjárhlutfallið var langt neðan við tilskilið lágmark í lok beggja áranna. Ástæða þessarar bágu stöðu var mikil óvarkárni í útlánum. Aðrir sparisjóðir hlupu undir bagga og í lok árs 2001 lögðu þeir Sparisjóði Siglufjarðar til nýtt stofnfé upp á 60 milljónir króna og ýmsar fleiri ráðstafanir voru gerðar til að rétta fjárhag sjóðsins við. Það dugði þó ekki til og á árinu 2003 keypti Sparisjóður Mýrasýslu allt stofnfé í Sparisjóði Siglufjarðar og lagði honum að auki til 100 milljónir króna í nýju stofnfé.

Næstu fimm ár gekk reksturinn vel og skilaði hagnaði. Fjáreignir áttu minni þátt í þeirri velgengni en hjá mörgum öðrum sparisjóðum á sama tíma. Árið 2008 varð síðan mikið tap sem skýrðist fyrst og fremst af meira en eins milljarðs króna framlagi í afskriftareikning útlána vegna lána í erlendum myntum. Hátt framlag í afskriftareikning útlána dró afkomuna enn niður á við árin 2010 og 2011, einkum árið 2010 þegar framlagið nam um 2,4 milljörðum króna. Ári síðar var tekjufærð eftirgjöf skuldar við Arion banka hf. upp á 2,4 milljarða króna sem skýrði nær algjörlega 2,1 milljarðs króna hagnað sparisjóðsins það ár. Umtalsvert tap hefði orðið á rekstri sjóðsins án þessarar tekjufærslu árið 2011.

Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur sparisjóðsins hækkuðu nær samfellt á árunum 2001–2009. Hreinar vaxtatekjur og hreinar þjónustutekjur áttu þar stærstan hlut að máli en gengishagnaður af fjáreignum skýrði helstu sveiflurnar árin 2005 og 2009.

Fjárfesting í verðbréfum hafði ekki teljandi áhrif á afkomu sparisjóðsins og var gengishagnaður af fjáreignum á árunum 2007–2011 öðruvísi til kominn en hjá öðrum sparisjóðum. Sparisjóðurinn seldi allar stærstu fjáreignir sínar árið 2001 í því skyni að rétta við bága fjárhagsstöðu. Stærsta niðurfærsla sjóðsins á verðbréfaeign á tímabilinu var 4,7 milljónir króna vegna Nessins ehf. á árinu 2010. Sparisjóðurinn hafði hins vegar talsverðar tekjur af gengisbreytingum gjaldmiðla vegna samsetningar efnahagsreiknings síns. Mest voru áhrif gengishagnaðar á afkomu árið 2009 þegar gengismunur var jákvæður um 641 milljón króna.

Arðs- og hlutdeildartekjur voru óverulegar, en stærstu hlutdeildarfélög sparisjóðsins voru Reiknistofa bankanna og Teris. Hann seldi hlut sinn í Sparisjóðabanka Íslands hf. á árinu 2001. Árið 2007 var breytt um reikningsskilaaðferðir hjá sparisjóðnum og eftir það voru engin hlutdeildarfélög í sparisjóðnum.

Þjónustutekjur voru stór hluti rekstrartekna. Sparisjóðurinn hefur allt frá árinu 2000 sinnt umfangsmikilli fjarvinnslu fyrir önnur fjármálafyrirtæki. Þá var gerður samningur við Kaupþing hf. um iðgjaldaskráningu fyrir lífeyrissjóði. Þetta vatt fljótt upp á sig og annaðist sparisjóðurinn síðan alla bakvinnslu fyrir lífeyrissjóðsafurðir bankans og síðan Arion banka hf. Sparisjóðurinn er einnig með önnur fjarvinnsluverkefni en fyrir Arion banka hf.

Aðrar rekstrartekjur voru að mestu óverulegur hluti hreinna rekstrartekna á tímabilinu. Þær uxu þó talsvert árið 2008 og fóru hæst í 46 milljónir króna árið 2010. Þær voru aldrei sundurliðaðar í ársreikningi sjóðsins.

Hreinar vaxtatekjur uxu jafnt og þétt á þessu ellefu ára tímabili. Mest hækkuðu þær árin 2006 og 2007 þegar vaxtamunur sparisjóðsins varð mestur í samanburði við sparisjóðina í heild. Þrátt fyrir að vaxtamunur lækkaði verulega árið 2008 jukust hreinar vaxtatekjur um rúmar 47 milljónir króna. Ytri þættir, svo sem gengisfall krónunnar og aukin verðbólga á árinu 2008, höfðu veruleg áhrif til hækkunar vaxtatekna og vaxtagjalda en stækkun sjóðsins með sameiningu við Sparisjóð Skagafjarðar hafði einnig sitt að segja. Stærstur hluti vaxtatekna kom frá útlánum, eða 84–98%. Vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum og kröfum á lánastofnanir voru hverfandi hluti vaxtatekna og nánast undantekningarlaust minni en 10%.

Vaxtagjöldin voru að stærstum hluta vegna almennra innlána, eða 41–71%. Vaxtagjöld til lánastofnana sveifluðust töluvert og námu mest 45% vaxtagjalda árið 2002. Eftir 2005 voru þau á bilinu 13–32% af vaxtagjöldum. Vaxtagjöld vegna lántöku vógu að jafnaði á bilinu 11–22% eftir að þau komu fyrst í bækur sparisjóðsins árið 2003.

Rekstrargjöld

Rekstrargjöld Sparisjóðs Siglufjarðar breyttust í heildina ekki stórlega á árunum 2001–2007 en samsetning þeirra breyttist hins vegar á þann veg að almennur rekstrarkostnaður fór hækkandi meðan framlag í afskriftareikning útlána lækkaði verulega frá því sem var 2001 og 2002. Árið 2008 hækkuðu rekstrargjöldin stórlega samhliða sameiningu við Sparisjóð Skagafjarðar og framlag í afskriftareikning útlána varð langstærsti kostnaðarliðurinn, eða um tveir þriðju hlutar rekstrargjalda.

Erfiðleikar sparisjóðsins í upphafi þessa tímabils tengdust útlánum svo sem framar greinir. Meðal annars hafði hann lánað mikið til kaupa á hlutabréfum í netfyrirtækjum og DeCode. Þegar hlutabréfaverð tók að falla fljótlega eftir aldamótin urðu þessi lán meira og minna í uppnámi og af þeim sökum voru samtals yfir 400 milljónir króna færðar í afskriftareikning útlána vegna áranna 2001 og 2002. Framlag í afskriftareikninginn var miklu lægra árin þar á eftir og allt til ársins 2008. Þá og næstu tvö til þrjú ár leiddu hræringar á fjármálamarkaði og gengislánadómar til þess að mikið tap varð á útlánasafni sparisjóðsins og nam samanlagt framlag í afskriftareikning útlána á árunum 2008 til 2011 nærri 4,6 milljörðum króna. Það var fjórum og hálfum sinnum meira en bókfært eigið fé sjóðsins í árslok 2007. Í árslok 2007 var niðurfærsluhlutfall útlána sparisjóðsins 2,5% en til samanburðar var hlutfallið 1,6% hjá sparisjóðunum í heild. Í lok árs 2010 var niðurfærsluhlutfallið orðið 24,3% hjá sparisjóðnum en var á sama tíma 21,3% hjá sparisjóðunum í heild.

Almennur rekstrarkostnaður sparisjóðsins hækkaði jafnt og þétt frá 2001 til 2011. Árið 2008 hækkaði rekstrarkostnaðurinn meira en önnur ár enda var það fyrsta rekstrarár eftir sameininguna við Sparisjóð Skagafjarðar. Undir öðrum rekstrargjöldum var tæplega 89 milljóna króna viðskiptavild færð niður að fullu, en hún hafði verið bókfærð árið 2006 þegar sparisjóðurinn keypti útibú Glitnis banka hf. á Siglufirði. Eins og sjá má á mynd 3 var rekstrarkostnaður sparisjóðsins sem hlutfall af meðaleignum hans töluvert hærri en hjá sparisjóðunum í heild fram til 2010 en frá 2010 til 2011 var hlutfallið svipað. Mestur var munurinn árið 2005 þegar rekstrarkostnaður sparisjóðsins var 7,5% af meðaleignum en 3,2% hjá sparisjóðunum í heild. Á það ber að líta að kostnaður vegna fjarvinnslu er meðtalinn í almennum rekstrarkostnaði.

Launakostnaður sparisjóðsins hækkaði nær stöðugt frá 2001 til 2011 en hlutfall launa af almennum rekstarkostnaði á tímabilinu var á bilinu 50–62%. Árið 2004 hækkaði launakostnaður um 53% frá fyrra ári, sem skýrðist einkum af fjölgun stöðugilda. Þá hækkaði launakostnaður á hvert stöðugildi einnig um 21% vegna breytinga á lífeyrisskuldbindingum. Fyrir rannsóknarnefndinni sagði sparisjóðsstjóri að sparisjóðurinn hefði lengst af greitt lægri laun en önnur fjármálafyrirtæki. Starfsmaður hefði borið þennan mismun undir sig á einhverjum tímapunkti og laun starfsmanna hafi í kjölfarið verið hækkuð. Taldi hann það hafa verið árið 2004.3 Laun sparisjóðsstjóra hækkuðu yfirleitt í samræmi við almenna verðþróun, nema árið 2007 þegar þau hækkuðu um 23%. Stöðugildi við sparisjóðinn voru 42 talsins í lok árs 2007 en ári síðar, eftir sameiningu sparisjóðanna, hafði stöðugildum fjölgað um eitt og meðallaunakostnaður á stöðugildi aukist um 26%. Flestir starfsmenn unnu við fjarvinnsluna. Við sparisjóðsstörf voru um 10 manns þegar útibú Glitnis var keypt 2006. Þeim störfum fjölgaði svo við sameininguna við Sparisjóð Skagafjarðar 2008. Í lok tímabilsins voru um það bil 15 starfsmenn við sparisjóðsstörf. Á árinu 2011 var heildarlaunakostnaður 259 milljónir króna og var þá 50% af almennum rekstrarkostnaði sparisjóðsins.

Launakostnaður á hvert stöðugildi hjá sparisjóðnum þróaðist með sambærilegum hætti og almenn launavísitala. Uppsöfnuð hækkun launa hjá sparisjóðnum 2001–2008 var því töluvert lægri en hjá öðrum sparisjóðum. Frá árinu 2009 breyttust heildarlaun annarra sparisjóða með brotthvarfi þeirra stærstu og almennum samdrætti í rekstri fjármálafyrirtækja. Launakostnaður hjá sparisjóðnum þróaðist hins vegar áfram í takt við almenna launaþróun líkt og áður.4

Starfsmenn nutu ekki annarra fríðinda en þeirra almennu fríðinda sem tíðkuðust hjá sparisjóðunum. Ekki voru greiddar árangurstengdar greiðslur eða hvatagreiðslur sem ekki gátu talist til hefðbundinna launagreiðslna á tímabilinu. Þá voru ekki gerðir neinir starfslokasamningar sem fólu í sér réttindi umfram þau sem bundin voru í kjarasamninga.

Á fundi stjórnar 18. maí 2006 var samþykkt að greiða starfsmönnum sem voru með tiltekinn starfsaldur uppbót sem tíðkast hafði hjá sparisjóðunum en ekki hafði verið innt af hendi hjá Sparisjóði Siglufjarðar. Þessar greiðslur námu samtals um 2,5 milljónum króna á árinu 2006.

Kjarnarekstur

Tap var af kjarnarekstri sparisjóðsins frá 2001 til 2005 og aftur frá 2008 til 2011 og má rekja tapið fyrst og fremst til framlags í afskriftareikning útlána. Hagnaður sparisjóðsins árin 2003 til 2005 skýrðist af söluhagnaði af fjáreignum og árið 2009 var hann borinn uppi af gengishagnaði sem einkum átti rætur sínar að rekja til hagstæðra gengisbreytinga á gjaldmiðlum. Vaxta- og þjónustutekjur stóðu undir almennum rekstrarkostnaði öll árin að frátöldu árinu 2001 en þá vantaði rúmar fjórar milljónir króna upp á.

21.1.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Siglufjarðar (Afls) í lok áranna 2001–2011 og þróun þeirra á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikning sparisjóðsins á árunum 2001–2011 á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.

Eignir

Í árslok 2001 námu eignir sparisjóðsins 2,8 milljörðum króna en í árslok 2011 voru þær 14,8 miljarðar króna á verðlagi hvors árs um sig. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sjóðsins í árslok 2001 tæplega fimm milljarðar króna. Þannig hafði sjóðurinn nærri þrefaldast að stærð á þessum ellefu árum. Mynd 5 sýnir hvernig eignir sparisjóðsins í lok áranna 2001–2011 skiptust. Útlán hjá sparisjóðnum voru ekki jafn stór hluti eigna hjá nokkrum öðrum sparisjóði allt umrætt tímabil. Myndin sýnir greinilega hvernig sjóðurinn óx frá 2003 til 2008 en þennan vöxt mátti nær algjörlega rekja til aukningar útlána. Sameiningin við Sparisjóð Skagafjarðar átti sinn þátt í eignavextinum árið 2008.

Vægi útlána af heildareignum á umræddum ellefu árum var 63–93%, og aldrei undir 86% frá 2005. Útlánin hækkuðu á árinu 2008, bæði vegna sameiningarinnar og vegna gengisfalls krónunnar. Árin 2008–2010 voru gengisbundnar skuldbindingar um og yfir helmingur útlána. Útlán námu í lok ársins 2008 um 13 milljörðum króna eða 93% af eignum sparisjóðsins. Frá þeim tíma dró úr vexti útlána vegna hins háa framlags í afskriftareikninginn. Útlánin stóðu nánast í stað frá árslokum 2008 til 2011 og námu 13,5 milljörðum króna við lok árs 2011.

Staða á afskriftareikningi útlána hækkaði umtalsvert á árunum 2008–2011. Hún hafði þó verið mjög há í árslok 2001–2003 en lækkaði mikið næstu ár á eftir því endanlegar afskriftir útlána námu samtals 470 milljónum króna á árunum 2002–2004. Í kjölfar atburðanna á fjármálamarkaði haustið 2008 var staðan á afskriftareikningi útlána hækkuð verulega. Hún nam hæst 24,3% af útlánasafninu í lok árs 2010.

Kröfur á lánastofnanir voru ekki stór hluti eigna sparisjóðsins en hækkuðu um rúmlega helming á árinu 2008 og námu þá 406 milljónum króna og voru að mestu vegna peningamarkaðslána. Kröfur á lánastofnanir námu 273 milljónum króna í árslok 2009 en voru ekki til staðar á árunum 2010 og 2011.

Sjóður og óbundnar innistæður í Seðlabankanum og öðrum fjármálafyrirtækjum hækkuðu frá því sem áður hafði verið á árinu 2007 og námu í lok þess árs tæpum 300 milljónum króna. Þar á meðal var krafa á móðurfélag sparisjóðsins um 100 milljónir króna. Í lok árs 2009 námu sjóður og óbundnar innistæður 1,5 milljörðum króna, en í kjölfar falls bankanna varð töluverð innlánaaukning hjá mörgum sparisjóðum. Afl sparisjóður kom hluta af þeim fjármunum fyrir í öðrum fjármálafyrirtækjum til ávöxtunar.5

Fjáreignir fóru minnkandi hjá sparisjóðnum tímabilinu. Mestar voru þær um 690 milljónir króna árið 2001, eða 24% heildareigna. Eftir 2001 seldi sparisjóðurinn stærstu eignir sínar, þar á meðal hlut í Meiði ehf., og því minnkaði vægi þeirra. Frá árinu 2003 námu fjáreignir einungis um 1–10% af heildareignum sjóðsins og þær voru aldrei meira en 1% af eignum eftir 2007. Eign í hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum jókst nokkuð árið 2007, eða úr 36 milljónum króna í 275 milljónir króna, en að öðru jöfnu skiptust fjáreignir tiltölulega jafnt á milli markaðsskuldabréfa og hlutabréfa, og verðbréfa með breytilegum tekjum.

Eign í hlutdeildarfélögum var óverulegur hluti eigna sjóðsins, því sparisjóðurinn seldi hlut sinn í Sparisjóðabankanum 2001. Eftir voru einungis eignarhlutir í Tölvumiðstöð sparisjóðanna og Reiknistofu bankanna. Frá og með 2007 voru engir hlutir í hlutdeildarfyrirtækjum færðir í reikninga sjóðsins.

Aðrar eignir og fleira samanstóð af rekstrarfjármunum, öðrum eignum, óefnislegum eignum og skattinneign. Þessi liður breyttist helst árið 2006 vegna 88,5 milljóna króna aukningar í óefnislegum eignum, sem var viðskiptavild vegna kaupanna á útibúi Glitnis banka á Siglufirði, og árið 2008 var um að ræða skattinneign upp á 163 milljónir króna vegna tapsins á því ári. Árið 2011 var engin skattinneign færð í bækurnar og því lækkuðu aðrar eignir í 166 milljónir króna og urðu þá ekki nema um 1% heildareigna.

Skuldir

Afl sparisjóður var að mestu fjármagnaður með almennum innlánum og lántöku. Hlutfall innlána af skuldum í lok áranna 2001–2011 sveiflaðist frá 39% upp í 68%. Um lántökur var ekki að ræða fyrr en árið 2003. Á árunum 2006–2008 jukust þær til muna og voru mest 51% af heildarskuldum í árslok 2008, en það var jafnframt eina árið sem innlán voru ekki stærsti fjármögnunarliður sparisjóðsins.

Mikil innlánaukning varð á árinu 2006 þegar innlán jukust um 85%, en á því ári keypti sparisjóðurinn útibú Glitnis banka hf. Hlutfallið milli innlána og útlána var nokkuð sveiflukennt. Lægst var hlutfallið árið 2008, eða 41%, en hæst fór það í 80% árið 2003. Eftir 2008 var hlutfallið ýmist rétt undir eða yfir 60%.

Lántökur voru annar meginþáttur fjármögnunar sparisjóðsins frá árinu 2003. Á árunum 2004 og 2005 nýtti sparisjóðurinn sér fjármögnun frá Íbúðalánasjóði þar sem sparisjóðurinn fékk lánað með veði í undirliggjandi safni fasteignalána. Sparisjóðurinn fjármagnaði erlend útlán sín með lánalínu hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. og öðrum sparisjóðum. Með gengisfalli krónunnar árið 2008 hækkuðu útistandandi skuldir vegna þessara lána mikið og námu 7,1 milljarði króna í lok árs 2008. Þá hafði lántaka tólffaldast frá árslokum 2003. Í mars 2011 gekk stjórn sparisjóðsins frá samkomulagi við Arion banka hf. um eftirgjöf skulda upp á 2,4 milljarða króna, þar með talið á 374 milljóna króna víkjandi láni.

Skuldir við lánastofnanir nærri áttfölduðust á árinu 2009 og námu 1,1 milljarði króna í lok þess árs. Þessi breyting kom til vegna þess að sparisjóðurinn fékk skammtímalán frá Sparisjóði Ólafsfjarðar í stað langtímaláns frá Sparisjóði Mýrasýslu þegar sá síðarnefndi rann saman við Arion banka hf.

Aðrar skuldir voru ekki stór hluti heildarskulda sparisjóðsins og samanstóðu af víkjandi skuldum, reiknuðum skuldbindingum og öðrum skuldum. Mest hækkuðu þær árið 2007 en þar var um að ræða 237 milljóna króna skuld vegna hlutabréfakaupa og árið 2008 vegna 697,5 milljóna króna skuld vegna óuppgerðra framvirkra samninga.

Eigið fé

Eigið fé sparisjóðsins tók miklum breytingum á tímabilinu, einkum á síðari hluta þess. Árin 2001 og 2002 tapaði sjóðurinn miklu og varð varasjóður hans neikvæður í árslok 2002. Stofnfé var því stærstur hluti eigin fjár eftir 2001 eða á bilinu 58% til 97%. Eftir 2003 stækkaði varasjóðurinn jafnt og þétt í samræmi við afkomu sparisjóðsins. Stofnfé var aukið um 100 milljónir króna árin 2003 og 2006, og enn aftur árið 2007 um 516 milljónir króna. Sparisjóður Mýrasýslu átti allt stofnfé sparisjóðsins frá árinu 2003 til ársloka 2007.

Við sameiningu Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar á árinu 2008 varð stofnfé hins sameinaða sparisjóðs 1.022,5 milljónir króna í eigu 131 stofnfjáraðila. Þar af átti Sparisjóður Mýrasýslu 88,6% eignarhlut. Í mars 2009 samþykkti móðurfélagið, Sparisjóður Mýrasýslu, að breyta 500 milljónum króna af kröfum sínum á hendur sparisjóðnum í stofnfé. Tæpum mánuði síðar tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjárhafafundar móðurfélagsins og komst sparisjóðurinn þá í eigu Nýja Kaupþings banka hf., síðar Arion banka hf. Í árslok 2011 var stofnfé sparisjóðsins 1.522,5 milljónir króna og var það í eigu 122 stofnfjáraðila. Þar af átti Arion banki hf. 94,4% eignarhlut.

Mikið tap var á rekstri sparisjóðsins árið 2008, eða 806 milljónir króna, fyrst og fremst vegna rúmlega milljarðs króna framlags í afskriftareikning útlána. Eigið fé hrapaði við það niður í 248 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið varð þá 3% og fór þar með niður fyrir lögbundið 8% lágmark. Til þess að bæta úr því jók móðurfélagið, Sparisjóður Mýrasýslu, þá við stofnfé sparisjóðsins með skuldbreytingu eins og áður sagði og batnaði eiginfjárstaðan til muna við það. Árið 2010 varð 2 milljarða króna tap á rekstri sjóðsins og dró það eigið fé í neikvæða stöðu um 1,3 milljarða króna og eiginfjárhlutfallið varð neikvætt um 12,1%. Árið 2011 fékk sparisjóðurinn niðurfelldar skuldir upp á 2,4 milljarða króna og var niðurfellingin tekjufærð í rekstrarreikningi sparisjóðsins fyrir árið 2011, en við það batnaði eiginfjárstaða hans mjög.

21.1.3 Sparisjóður Skagafjarðar

Sparisjóður Hólahrepps var stofnaður árið 1907 í Skagafirði. Árið 1998 sameinaðist Hólahreppur 10 öðrum hreppum í Skagafirði og til varð Sveitarfélagið Skagafjörður. Þá þótti eðlilegt að breyta nafni sparisjóðsins í Sparisjóð Skagafjarðar og var það gert árið 2004.6 Sparisjóðurinn var lengst af með aðsetur í Hjaltadal en árið 2000 var starfsemin flutt til Sauðárkróks þar sem sjóðurinn fékk inni í húsnæði Kaupfélags Skagfirðinga að Ártorgi 1.

Í árslok 1999 var Sparisjóður Hólahrepps langminnsti sparisjóður landsins, með heildareignir upp á rúmar 20 milljónir króna og sjö milljónir í eigin fé, þar af var stofnfé 240 þúsund. Á árinu 2000 gerði sparisjóðurinn samning um að sinna verkefnum í tengslum við innheimtu og tengda þjónustu fyrir Íbúðalánasjóð. Með samningnum jukust umsvif sparisjóðsins til muna, stofnfé hans var aukið í 22 milljónir króna á næstu tveimur árum og heildareignir voru orðnar nær hálfur milljarður króna í árslok 2002.

Stofnfé sjóðsins hafði verið í dreifðri eign og voru stofnfjáraðilar um 40 talsins 2002 en árið 2003 hófst mikill slagur um stofnfé í sparisjóðnum. Kaupfélag Skagfirðinga sótti þá um og fékk leyfi til þess að fara með virkan eignarhlut í sjóðnum en félög innan samstæðu kaupfélagsins höfðu þá eignast um 40% stofnfjár í sparisjóðnum.

Sparisjóður Skagafjarðar sameinaðist Sparisjóði Siglufjarðar undir nafninu Afl sparisjóður árið 2008. Sameiningin var samþykkt á fundi stofnfjárhafa í Sparisjóði Skagafjarðar 13. ágúst 2007, en bókhaldslegur samruni sparisjóðanna miðaðist við 1. janúar 2008. Sameiningin var ekki síst að tilstuðlan stjórnar Sparisjóðs Mýrasýslu, en hann hafði eignast rúm 5% stofnfjár í Sparisjóði Skagafjarðar árið 2004. Gísli Kjartansson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu varð stjórnarformaður í Sparisjóði Skagafjarðar á aðalfundinum 2005 og árið eftir tók Ólafur Jónsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Siglufjarðar við sæti hans.

Kristján Hjelm var sparisjóðsstjóri frá 2000 til 2004. Vilhjálmur Baldursson tók við af honum og gegndi starfinu í rúmt ár. Þá var Kristján Björn Snorrason ráðinn sparisjóðsstjóri og gegndi hann starfinu þar til sameiningin við Sparisjóð Siglufjarðar var komin í kring.

21.1.3.1 Ársreikningar Sparisjóðs Skagafjarðar (áður Sparisjóðs Hólahrepps) 2001–2007

Í töflu 8 og töflu 9 eru sýndir rekstrar- og efnahagsreikningar Sparisjóðs Skagafjarðar fyrir árin 2001–2007 á verðlagi hvers árs. Hér verður ekki fjallað ítarlega um reikninga sparisjóðsins en þó fylgja fáeinar viðbótarupplýsingar í töflu 10.

Sparisjóður Skagafjarðar greiddi stofnfjáreigendum arð af stofnfé þeirra árin 2002–2004 vegna næstliðins árs. Samtals voru þetta tæpar 4 milljónir króna og í öll skiptin var arðgreiðsluhlutfallið talsvert lægra en reglur Tryggingasjóðs heimiluðu.

Stofnfé Sparisjóðs Skagafjarðar var hækkað í samræmi við verðlagsbreytingar og einnig með svokölluðu sérstöku endurmati árin 2004–2006, samtals um 5,8 milljónir króna

21.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Útlán voru stærsti eignaliður Afls sparisjóðs en á árunum 2005–2011 voru þau að meðaltali 88% af heildareignum sparisjóðsins. Hæst var þetta hlutfall 92% af heildareignum árið 2008 en lækkaði í um 85% árið 2009.7 Útlán sparisjóðsins jukust talsvert árið 2007, eða um rúma 2 milljarða króna, og um rúma 6 milljarða króna á árinu 2008.

Gengisbundin útlán sparisjóðsins fóru ört vaxandi frá árinu 2007 og var vægi þeirra komið yfir 58% af heildarútlánum á þriðja ársfjórðungi 2008. Í lok árs 2011 var vægi gengisbundinna útlána um 37% af heildarútlánum.

Skuldabréfalán voru algengust í sparisjóðnum en frá og með árinu 2008 voru gengistryggð skuldabréf langstærsta tegund útlána. Yfirdráttarlán voru næststærsta tegund útlána hjá Afli sparisjóði á tímabilinu en lítið var um aðrar tegundir útlána.

Í töflu 13 má sjá skiptingu útlána Afls-sparisjóðs eftir lántakendum á árunum 2005–2011. Á árunum 2005–2007 voru útlán til einstaklinga í kringum 47–52% hjá Sparisjóði Siglufjarðar. Í lok árs 2008 hafði hlutfall eintaklinga lækkað í um 48% hjá sameinuðum sparisjóði en útlán til fyrirtækja jukust eftir sameiningu sparisjóðanna. Útlán til landbúnaðar voru heldur meiri hjá Sparisjóði Skagafjarðar en Sparisjóði Siglufjarðar á árunum 2005 til 2007, en Sparisjóður Siglufjarðar var hins vegar með umtalsverð útlán til sjávarútvegs. Nánast engin slík útlán voru hjá Sparisjóði Skagafjarðar. Við sameininguna árið 2008 jöfnuðust því hlutföll útlána til landbúnaðar og sjávarútvegs nokkuð en útlán til sjávarútvegs voru áfram hæst hjá Afli sparisjóði.

Afskriftir voru um 3% af heildarútlánum hjá Sparisjóði Siglufjarðar og Sparisjóði Skagafjarðar á árunum 2005–2007 en í lok árs 2008 hækkaði hlutfallið í tæp 9% hjá sameinuðum sparisjóði. Hæst nam hlutfallið rúmlega 24% á árinu 2010 en á árinu 2011 hafði hlutfallið lækkað í rúm 17%.

21.2.1 Útlánareglur

Fyrir sameiningu í Afl sparisjóð voru Sparisjóður Siglufjarðar og Sparisjóður Skagafjarðar hvor með sínar útlánareglur. Eftir sameininguna giltu útlánareglur Sparisjóðs Siglufjarðar um lánveitingar hjá sparisjóðnum. Ekki þykir ástæða til að rekja hér sérstaklega útlánareglur Sparisjóðs Skagafjarðar sem giltu fyrir sameininguna, en í meginatriðum voru reglur beggja sjóða samhljóða.

Stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar staðfesti á árinu 2002 reglur um lánveitingar sparisjóðsins og tryggingar vegna lánveitinga og ábyrgða. Á sama tíma samþykkti stjórnin starfsreglur stjórnar sparisjóðsins og starfsreglur um hvernig staðið skyldi að mati á útlánum og skuldbindingum Sparisjóðs Siglufjarðar. Í skýrslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Siglufjarðar vegna ársins 2004 var bent á nauðsyn þess að endurnýja reglurnar með hliðsjón af lögum um fjármálafyrirtæki og reglum um stórar áhættuskuldbindingar. Ekki var brugðist við ábendingu innri endurskoðanda fyrr en 8. febrúar 2006 þegar stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar samþykkti uppfærðar útlánareglur, reglur um áhættustýringu og starfsreglur sparisjóðsins um útlánareglur starfsmanna í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra. Útlánareglurnar voru settar með vísan til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, reglna nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar og samþykkta sparisjóðsins.

Samkvæmt útlánareglunum var markmið Sparisjóðs Siglufjarðar að veita góða og faglega þjónustu á samkeppnishæfum kjörum. Við ákvörðun um lánveitingu bar að hafa „þjónustu, öryggi, frumkvæði, hraða og sveigjanleika að leiðarljósi“. Áhættudreifing skyldi vera innan þeirra marka sem kveðið væri á um í reglum Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar og í samræmi við reglur sparisjóðsins um áhættustýringu.

Til að tryggja hagsmuni sparisjóðsins bar að horfa til greiðslugetu, viðskiptasögu og framboðinna trygginga við ákvörðun um útlán til viðskiptamanna. Þá áttu lánveitingar ávallt að taka mið af almennum efnahagslegum skilyrðum og stöðu og horfum í einstökum atvinnugreinum. Til að tryggja þessi markmið bar að afla nauðsynlegra upplýsinga um fjárhag viðskiptamanns og meta greiðslugetu hans. Þegar um lögaðila var að ræða bar að horfa til viðskiptasögu og eiginfjárstöðu og að stjórn og framtíðarhorfur teldust góðar.

Að jafnaði bar að taka fullnægjandi tryggingar fyrir lánveitingum en ákvæði lánareglnanna um tryggingar kváðu aðeins á um að krafa sparisjóðsins til trygginga tæki mið af styrk viðskiptamanns og tímalengdar lánveitingar. Ekki voru nein ákvæði í lánareglunum um lágmarks veðsetningarhlutfall en þó voru ákveðin viðmið sem fylgja bar við tryggingatöku, til dæmis að veðsettar eignir skyldu metnar sem næst markaðsvirði ásamt uppreiknuðum áhvílandi veðskuldum og að fylgst skyldi sérstaklega með verðmæti trygginga á lánstímanum. Þá var tiltekið að gæta þyrfti sérstaklega að tryggingum þegar um væri að ræða stöðutöku, til dæmis í hlutabréfum eða afleiðum, nema í hlut ættu mjög fjárhagslega sterkir lögaðilar.

Stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar hafði eftirlit með lánamálum sparisjóðsins og bar ábyrgð á þeim gagnvart stofnfjáreigendum. Engin lánanefnd var hjá sparisjóðnum en sparisjóðsstjóri skyldi taka ákvörðun um allar lánveitingar nema þegar heildarskuldbinding aðila eða fjárhagslegra tengdra aðila næmi meira en 10% af eigin fé sparisjóðsins.8 Þá hafði sparisjóðsstjóri heimild til að veita lán fyrir allt að 20% af eigin fé sparisjóðsins ef lánið hafði áhættuvægið 0,2, sem voru lán til lánastofnunar eða með ábyrgð hennar, verðbréfafyrirtækja, opinberra fyrirtækja o.þ.h. Heimild sparisjóðsstjóra var án annarra takmarkana en þeirra er komu fram í reglum sparisjóðsins um áhættustýringu ef lán hafði áhættuvægið 0, sem er t.d. gefið lánum til opinberra aðila og lánum með beinni ríkisábyrgð. Samkvæmt starfsreglum Sparisjóðs Siglufjarðar um útlánareglur starfsmanna í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra hafði skrifstofustjóri sjóðsins útlánaheimild upp á 5 milljónir króna ef heildarskuldbinding var undir 10 milljónum króna en útibússtjórar og starfsmenn „í framlínu“9 höfðu heimild til að afgreiða einstök lán fyrir allt að 800 þúsund krónur ef heildarfyrirgreiðsla var innan við 1 milljón króna.

Reglur Sparisjóðs Siglufjarðar um áhættustýringu innihéldu ákveðin viðmið til að takmarka áhættu í útlánum. Meðal annars bar að gæta þess að samanlagðar skuldbindingar til viðskiptamanna í sömu atvinnugrein færu ekki yfir 30% af heildarútlánum sparisjóðsins. Þá mátti heildarfjárhæð stórra áhættuskuldbindinga ekki fara yfir 600% af eigin fé en að öðru leyti var vísað til reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar.

Útlánareglur Sparisjóðs Siglufjarðar voru endurútgefnar og samþykktar af stjórn 28. mars 2008 en innihald þeirra var lítt breytt frá því í febrúar 2006. Samhliða uppfærslunni á lánareglunum voru settar nýjar starfsreglur Sparisjóðs Siglufjarðar um útlánareglur starfsmanna í umboði og á ábyrgð sparisjóðsstjóra, þar sem lánaheimildir starfsmanna voru hækkaðar.

Um leið og útlánareglur Sparisjóðs Siglufjarðar voru uppfærðar í mars 2008, voru gefnar út nýjar reglur um áhættustýringu, en þær höfðu þó að geyma sömu viðmið um útlánaáhættu og fyrri reglur.

21.2.2 Stærstu lántakendur

Útlán voru stærsta eign sparisjóðsins á árunum 2005–2008, og áður Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar. Afskriftir af þeim á árinu 2008 höfðu töluverð áhrif á rekstrarárangur sparisjóðsins. Rannsóknarnefndin valdi úrtak af lántakendum til sérstakrar skoðunar og greiningar. Markmiðið var að varpa ljósi á útlánastefnu sparisjóðsins, starfshætti útlánastarfemi og ástæður afskrifta. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindinga við sparisjóðinn auk þess sem skoðuð voru sérstaklega lán þar sem sparisjóðurinn færði háar afskriftir.10

Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.11 Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar voru þeir lánahópar sem voru með stærstu áhættuskuldbindingarnar á ársfjórðungsskýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2007–2011.

Framlög í afskriftareikning útlána voru stór útgjaldaliður sparisjóðsins á árunum 2008–2011. Auk skoðunar á stórum áhættuskuldbindingum voru í úrtakinu lántakendur sem voru með háa sérgreinda afskrift á árunum 2008–2011, en miklar afskriftir voru hjá sparisjóðnum á árunum 2008–2011. Ekki var talin ástæða til að fara lengra aftur í tímann til athugunar á stórum afskriftaframlögum. Úrtakið náði til 21–26% útlánasafns og 0–45,9% af sérgreindum afskriftaframlögum eftir því til hvaða árs er litið. Ástæða þess að úrtak rannsóknarnefndar nemur ekki hærra hlutfalli af heildarútlánum en raun ber vitni er sú að stór hluti af útlánasafninu samanstóð af einstaklingum með íbúðalán og þótti ekki ástæða til að fjalla um slík einstök lán. Stærsti hluti sérgreindra niðurfærslna hjá sparisjóðnum á tímabilinu var einmitt vegna íbúðalána einstaklinga.

Í úrtakinu voru níu lánahópar og þrír einstaklingar.12 Einstaklingarnir voru allir bændur sem fengu lán í erlendum myntum til að fjárfesta í rekstri sínum og voru lánin tryggð með veði í jörðum þeirra. Á árinu 2008 hækkuðu lán þeirra talsvert, sem leiddi til þess að skuldbindingar þeirra urðu meira en 10% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Ekki var fært sérgreint afskriftaframlag vegna neins af einstaklingunum á árunum 2008 og 2009, en á árunum 2010 og 2011 voru færðar sérgreindar afskriftir vegna skuldbindinga tveggja þeirra þegar tryggingar þóttu ekki nægar til þess að standa undir hærri skuldbindingu í kjölfar gengisfalls.

Af þeim níu lögaðilum sem voru í úrtaki rannsóknarnefndar voru fjögur útgerðarfélög, fasteignafélag, verktakafyrirtæki, nemendagarðar, stjórnmálaflokkur og sjálfseignarstofnun sem sá um rekstur Vesturfaraseturs á Hofsósi. Allir lántakendurnir nema einn störfuðu á starfssvæði sparisjóðsins en allir voru með lán í erlendum myntum sem hækkuðu mikið á árinu 2008. Sum lánanna hækkuðu langt umfram tryggingar og var því þörf á sérgreindum afskriftaframlögum vegna skuldbindinga þeirra. Sum erlend lán voru ekki afskrifuð þrátt fyrir miklar hækkanir. Lánið til stjórnmálaflokksins er eitt þeirra lána sem taldist til löglegra lána í erlendri mynt og hefur ekki verið fært í sérgreindan afskriftareikning vegna þess.

Sparisjóðurinn lánaði mest til sjávarútvegs á tímabilinu 2007–2011. Þau sjávarútvegsfyrirtæki sem voru í úrtaki rannsóknarnefndarinnar fengu öll fyrirgreiðslur frá sparisjóðnum til að fjármagna rekstur sinn, s.s. til að kaupa báta eða aflaheimildir. Til tryggingar þessum lánum var sparisjóðurinn með veð í bátakosti félaganna og fasteignum og var það mat sparisjóðsins við lánveitingarnar að tryggingar væru mjög traustar.

Tveir stærstu skuldarar sparisjóðsins voru sjávarútvegsfyrirtæki sem upphaflega höfðu fengið lán í Glitni banka hf. Þau lán fluttust til sparisjósðins sumarið 2006 þegar hann keypti útibú bankans á Siglufirði. Hjá Sparisjóði Siglufjarðar, og síðar Afli sparisjóði, voru þessi tvö sjávarútvegsfyrirtæki skilgreind sem fjárhagslega tengdir aðilar á skýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar á árunum 2007 og 2008.13 Þá hafði innri endurskoðandi sjóðsins einnig skilgreint félögin sem fjárhagslega tengda aðila í skýrslum sínum á árunum 2006–2008.14 Frá árslokum 2008 og allt fram til ársloka 2011 voru félögin hins vegar ekki tengd saman sem ein áhættuskuldbinding, þótt eignarhald á félögunum væri óbreytt. Tengsl félaganna voru ekki eingöngu eignatengsl heldur var skip annars félagsins lagt að veði til tryggingar skuldbindingum beggja.

Á árinu 2007 voru skuldbindingar félaganna tveggja komnar yfir hið lögbundna 25% hámark af eiginfjárgrunni sparisjóðsins, sbr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Til að lækka skuldbindingar félaganna hjá sparisjóðunum niður fyrir hámarkið gaf Sparisjóður Mýrasýslu út ábyrgðir til handa sparisjóðnum. Skuldbindingar þeirra mynduðu því einnig áhættu hjá Sparisjóði Mýrasýslu sem lækkuð var með ábyrgð frá VBS Fjárfestingarbanka hf. til handa Sparisjóði Mýrasýslu. Sparisjóður Mýrasýslu taldi félögin sem eina skuldbindingu fram til 31. desember 2008 en ekki eftir það.

Í árslok 2008 nam skuldbinding félaganna, að teknu tilliti til ábyrgða Sparisjóðs Mýrasýslu, samtals um 74% af eiginfjárgrunni Afls sparisjóðs en þá hafði hann hætt að skilgreina þau sem tengda aðila. Áhættuskuldbinding annars félagsins var þá 35,3% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Í árslok 2009–2011 var áhættuskuldbinding hvors félags fyrir sig rétt undir lögbundnu 25% hámarki þegar búið var að taka tillit til ábyrgða frá lánastofnunum og sérgreindra afskrifta vegna skuldbindinga þeirra. Fyrir rannsóknarnefndinni kom fram hjá sparisjóðsstjóra að hann taldi að félögin hefðu aldrei átt að vera tengd saman og réttara hefði verið að tengja þau ekki. Annað félagið, sem fór með eignarhald hins, hefði ekki átt ráðandi hlut og því hefði ekki borið að tengja félögin saman. Sparisjóðsstjórinn tók einnig fram að engar athugasemdir hefðu borist frá eftirlitsaðilum um þetta fyrirkomulag.15

Eitt lán í úrtakinu hefur verið endanlega afskrifað. Það var veitt til eignarhaldsfélags um fasteign í Reykjavík. Lánið nam tæpum 200 miljónum króna og leigði félagið út efstu hæð fasteignarinnar. Hún var í útleigu fram í nóvember 2008 en eftir þann tíma söfnuðust upp vanskil. Lánið var tryggt með 1. verðrétti í efstu hæð fasteignarinnar sem og 2. og 3. veðrétti í lóðarhlutum með byggingarrétti á sömu lóð, á eftir 50 milljónum króna frá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Samkvæmt ársreikningum félagsins var það rekið með tapi frá árinu 2007 og fram til ársins 2010.16 Í lok árs 2010 var skuldbinding félagsins við sparisjóðinn 402 milljónir króna en 249 milljónir króna höfðu verið færðar á sérgreindan afskriftareikning. Lánin voru endanlega afskrifuð á árinu 2011 og sparisjóðurinn leysti til sín eignir félagsins. Tap vegna lánveitingarinnar er metið á um 45 milljónir króna samkvæmt upplýsingum sem sparisjóðsstjóri gaf við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni. Að sögn sparisjóðsstjóra var þetta fasteignafélag eina félagið sem sparisjóðurinn lánaði þar sem undirliggjandi veðandlög voru mikil en tekjur félagsins litlar.17

Aðrir lántakendur í úrtaki rannsóknarnefndar fengu einnig lánað til að fjárfesta í rekstri sínum. Almennt var ekki að sjá sérstaka annmarka á lánveitingum til þessara félaga eða að þær hefðu verið með óeðlilegum hætti. Útlán virtust almennt nokkuð vel tryggð þótt lánareglur sparisjóðsins hafi ekki falið í sér takmarkanir eða viðmið um veðsetningarhlutföll. Skoðun á öðrum lánahópum í úrtakinu gaf ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni sagði sparisjóðsstjóri að tap af lánum til einstaklinga hefði mest verið til brottfluttra Siglfirðinga og Skagfirðinga á höfuðborgasvæðinu. Sparisjóðurinn hefði þurft að afskrifa vegna 110% leiðarinnar en á Siglufirði hefði húsnæðisverð til dæmis tvöfaldast þannig að litlar afskriftir hefðu verið af húsnæðislánum á því svæði.

21.2.3 Lán til starfsmanna og stjórnarmanna

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki bar að fara með viðskipti starfsmanna sparisjóðsins eftir þeim reglum sem stjórn setti. Í 19. gr. starfsreglna Sparisjóðs Siglufjarðar frá árinu 2007 sagði að stjórn skyldi að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra setja reglur um viðskipti starfsmanna sparisjóðsins við hann. Þá sagði einnig að starfsmönnum væri óheimilt að gerast umboðsmenn annarra gagnvart sjóðnum. Í 9. gr. útlánareglna Sparisjóðs Siglufjarðar sagði að óheimilt væri að veita stjórnarmönnum sparisjóðsins, sparisjóðsstjóra, innri endurskoðanda eða mökum þeirra lán nema það væri samþykkt af stjórn og bókað væri um lánveitinguna í gerðabók stjórnar, og að það væri á engan hátt frábrugðið því sem gilti um lán til starfsmanna sparisjóðsins. Ekki var þó að finna nein önnur ákvæði um viðskipti starfsmanna sparisjóðsins en fram kom í 19. gr. starfsreglnanna að sparisjóðsstjóri ætti að setja reglur um slík viðskipti. Í uppfærðum útlánareglum sparisjóðsins frá árinu 2008 kom þó fram að sparisjóðsstjóri og skrifstofustjóri skyldu taka ákvarðanir um lán til starfsmanna.

Stjórnum sparisjóða bar að setja sér starfsreglur þar sem meðal annars skyldi fjallað um framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt bar sparisjóðum að skila hálfsárslega til Fjármálaeftirlitsins skýrslu um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila þar sem fram kæmu allar fyrirgreiðslur til þeirra, það er stjórnarmanna, maka þeirra, barna og félaga tengdra þeim, yfir 10 milljónum króna. Í starfsreglum Sparisjóðs Siglufjarðar, sem samþykktar voru 15. febrúar 2007, voru venslaðir aðilar skilgreindir með sama hætti og í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2006,18 um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Í skýrslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Siglufjarðar árið 2007 var gerð athugasemd við að skýrsla sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila 31. desember 2006 hefði verið auð. Bæði skrifstofustjóri sparisjóðsins og einn stjórnarmaður voru með fyrirgreiðslur umfram 10 milljónir króna sem hefði átt að gera grein fyrir á skýrslunni til Fjármálaeftirlitsins.

Rannsóknarnefndin kannaði hvort aðilar venslaðir sparisjóðnum, það er stjórnarmenn í sparisjóðnum, móðurfélagsins Sparisjóðs Mýrasýslu og systurfélagsins Sparisjóðs Ólafsfjarðar, makar þeirra, eða félög í eigu stjórnarmanna,19 hefðu notið óvenjulegrar lánafyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum. Athugunin var framkvæmd með þeim hætti að kennitölur umræddra aðila voru keyrðar saman við lánagrunn sparisjóðsins.20 Alls var 21 venslaður aðili með fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum á tímabilinu 2005–2011. Enginn þeirra var með óvenju háa fyrirgreiðslu en aðeins einn stjórnarmaður var með heildarskuldbindingar yfir 10 milljónum króna í lok árs 2008 og tveir í árslok 2009 og 2010.

Rannsóknarnefndin kannaði einnig útlán til starfsmanna og keyrði kennitölur þeirra saman við lánagrunn sparisjóðsins.21 Heildarskuldbindingar starfsmanna sparisjóðsins námu 58 milljónum í lok árs 2005 og jukust lítillega næstu tvö ár en námu tæpum 70 milljónum króna í árslok 2007. Ári síðar höfðu skuldbindingarnar hækkað mikið vegna gengislækkunar íslensku krónunnar og námu tæpum 114 milljónum í lok árs 2008. Þær hækkuðu enn á árinu 2009 og námu 138 milljónum í lok ársins og 149 milljónum í árslok 2010. Skoðun á lánum til starfsmanna gaf ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

21.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Afl sparisjóður setti sér ekki sérstakar reglur um fjárfestingar en í reglum sparisjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra kom fram að fjárfestingar í fasteignum og önnur meiriháttar eða óvenjuleg fjárfestingaráform skyldi bera upp í stjórn.

Árið 2005 nam samanlögð verðbréfaeign minni sparisjóðanna 157% af samanlögðu eigin fé þeirra en mest nam hún 401% í árslok 2008.22 Í árslok 2011 var hlutfallið 100% af eigin fé. Hlutfall fjáreigna af bókfærðu eigin fé sparisjóðsins var óvenju lágt miðað við aðra sparisjóði, en það var hæst 61% árið 2008. Hlutfall fjáreigna af heildareignum sparisjóðsins var einnig lágt, það varð hæst 5% árið 2007 en á sama tíma var hlutfallið 26% hjá minni sparisjóðunum í heild. Neikvæðum hlutföllum var sleppt úr mynd 10, því fjáreignir sem hlutfall af neikvæðu eigin fé gefa litlar upplýsingar.

Lágt hlutfall fjáreigna í eignasafni Sparisjóðs Siglufjarðar frá 2005 skýrist af áföllum í rekstri hans í kringum aldamótin þegar hann tapaði töluverðum fjármunum á fjárfestingum í hlutabréfum og lánveitingum til slíkra kaupa. Í endurskoðunarskýrslu sparisjóðsins fyrir árið 2001 segir: „Óhagstæð áhrif fjármálamarkaðarins, gengisþróun gjaldeyris, verðhrun á hlutabréfum, áhættustýring og útlánamistök á árinu 2001 hafa haft veruleg neikvæð áhrif á afkomu sparisjóðsins.“23 Þegar nýr sparisjóðsstjóri tók við árið 2001 markaði hann stefnu um að halda verðbréfaeign sparisjóðsins í algeru lágmarki.24 Á árinu 2001 seldi sparisjóðurinn hlutabréf í lánastofnunum fyrir um 84 milljónir króna og á árinu 2002 seldi hann hlut sinn í Kaupþingi banka hf. fyrri 179 milljónir króna. Um þetta sagði í sömu endurskoðunarskýrslu: „Sparisjóðurinn uppfyllti […] ekki ákvæði laga um eiginfjárhlutfall í árslok 2001 en með sölu á eignarhlutum í Kaupþingi hf. þann 18. janúar 2002 styrktist eigið fé sjóðsins verulega og fór yfir lögleg mörk.“25

Sparisjóður Siglufjarðar átti þó áfram hluti í Meiði ehf. (sem síðar varð Exista hf.) og höfðu hækkanir á markaðsvirði þess eignarhlutar mjög jákvæð áhrif á reksturinn á árunum 2003 og 2004. Á árinu 2005 seldi sparisjóðurinn hlutabréf sín í Exista hf. og var innleystur hagnaður vegna þess 122 milljónir króna.26

Frá árinu 2005 voru skuldabréf stærstu eignir Sparisjóðs Siglufjarðar, ef undan er skilið árið 2007 þegar sparisjóðurinn eignaðist hlut í Lónakoti ehf. Á því ári var Lónakot ehf., sem var stór lántaki hjá móðurfélagi sparisjóðsins, Sparisjóði Mýrasýslu, bókfært á rúmar 237 milljónir króna í bókhaldi Sparisjóðs Siglufjarðar. Samkvæmt gögnum frá ríkisskattstjóra var Sparisjóður Siglufjarðar þó ekki eigandi að Lónakoti ehf. heldur móðurfélagið, Sparisjóður Mýrasýslu. Í ársreikningi sparisjóðsins fyrir árið 2008 er Lónakot ekki lengur í bókum sjóðsins og samkvæmt bókhaldsgögnum varð hvorki hagnaður né tap af eign sparisjóðsins í Lónakoti. Fyrir rannsóknarnefndinni kannaðist sparisjóðsstjóri ekki við þessa fjárfestingu þegar hann var spurður út í hana en sendi rannsóknarnefndinni síðar samkomulag um kaupin frá 30. desember 2007 sem var óundirritað af hálfu sparisjóðsins. Samkvæmt samkomulaginu átti sparisjóðurinn að greiða fyrir félagið í mars 2008 en sparisjóðsstjóri fann engar greiðslur vegna þessa í bókhaldi sparisjóðsins og telur að kaupin hafi gengið til baka.27

Sparisjóður Siglufjarðar seldi hlut sinn í Sparisjóðabanka Íslands hf. á árinu 2002 fyrir um 57 milljónir króna. Hugur stóð til þess að selja allan eignarhlutann í bankanum en mælst var til þess af öðrum sparisjóðum að hann héldi áfram einhverjum eignarhlut og úr varð að sparisjóðurinn átti frá því 0,01% hlut.28 Stærstu verðbréfaeignir sparisjóðsins voru í Reiknistofu bankanna og Teris. Þá átti sjóðurinn 31,25% eignarhlut í Rauðku ehf., ferðaþjónustufyrirtæki á Siglufirði, sem metinn var á 10 milljónir króna í bókum sjóðsins.

Langstærstu áhrif verðbréfaeignar sparisjóðsins á afkomu hans á árunum 2005–2011, fyrir utan gjaldeyrismun, voru 127 milljóna króna tekjur á árinu 2005 þegar sparisjóðurinn seldi hlutabréf sín í Exista hf. Fram að því hafði sparisjóðurinn hagnast töluvert á gangvirðishækkunum þessarar eignar. Þannig var gengishagnaður af bréfum í Meiði ehf. (síðar Exista hf.) 73,5 milljónir króna á árinu 2004 og segir í endurskoðunarskýrslu þess árs að góð afkoma sjóðsins það ár skýrist einungis af gengishagnaði hlutabréfa í Meiði ehf. Árið 2006 hagnaðist sparisjóðurinn mest á eign sinni í Kauphöllinni, eða um rúmar 17 milljónir króna. Árið 2011 hagnaðist sparisjóðurinn um 36 milljónir króna á sölu hlutabréfa í Valitor hf. Aðrar verðbréfaeignir höfðu lítil áhrif á afkomu sparisjóðsins.

Á árunum 2005–2011 höfðu tekjur af fjáreignum lítil áhrif á rekstrarniðurstöðu sparisjóðsins enda hafði sjóðurinn selt töluverðar fjáreignir á árunum 2001–2005 og þær voru því lítill hluti af eignasafni hans á síðara tímabilinu. Gjaldeyristekjur ársins 2009 námu 641 milljón króna en rekstrarhagnaður sparisjóðsins sama ár var 17,6 milljónir króna. Þessar tekjur voru til komnar vegna samnings sparisjóðsins við Sparisjóð Mýrasýslu og Arion banka hf. um uppgjör á gjaldmiðlasamningum. Í samningnum var miðað við uppgjör samninga eins og þeir stóðu í október 2008 og leiddi samkomulagið til tekjufærslu sem nam 570 milljónum króna. Gjaldeyristekjurnar vógu á móti virðisrýrnun útlána, sem á sama tíma var 735 milljónir króna. Tekjur sparisjóðsins af fjáreignum á árunum 2001–2007, á verðlagi ársins 2011, voru samtals 506 milljónir króna, en tekjur áranna 2008–2011 af sömu eignum á sama verðlagi námu 1,1 milljarði króna.

21.4 Fjármögnun

Fjármögnun sparisjóðsins á árunum 2005–2011 var einkum í formi innlána og námu 39–68% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé á þessum sama tíma, hæst árið 2006 og lægst árið 2008.29 Lántaka sparisjóðsins var einnig veigamikill fjármögnunarþáttur í starfsemi hans, ásamt skuldum við lánastofnanir.

Bundin innlán voru að meðaltali 55% innlána í sparisjóðnum á tímabilinu, en mest námu þau 68% í ágúst 2010 og minnst 43% í júlí 2006.30 Heimili áttu að meðaltali 62% af innlánum sparisjóðsins, fyrirtæki 17% og fjármálafyrirtæki 15%.31

Skuldir við lánastofnanir voru aðallega fyrirgreiðslur í formi millibankalána og ádráttarlína í erlendum myntum. Sparisjóðurinn var með ádráttarlínu í Sparisjóðabanka Íslands hf. til þess að fjármagna erlendar lánveitingar sínar. Sú fjármögnun nægði ekki til þess að anna eftirspurn eftir erlendum lánum hjá sjóðnum og var þá leitað til móðurfélagsins, Sparisjóðs Mýrasýslu, um erlenda fjármögnun. Árið 2009, þegar Nýi Kaupþing banki hf. hafði eignast Sparisjóð Mýrasýslu, fékk Afl sparisjóður skammtímafjármögnun frá Sparisjóði Ólafsfjarðar í stað langtímafjármögnunar frá Sparisjóði Mýrasýslu og því hækkaði hún um tæpan milljarð meðan lántaka minnkaði.32

Árin 2004 og 2005 lánaði Íbúðalánasjóður sparisjóðnum um 330 milljónir króna en að baki lánasamningnum voru fasteignalán í eigu sparisjóðsins.33 Á árinu 2005 gaf Sparisjóðabanki Íslands hf. út skuldabréf til Íbúðalánasjóðs en að baki skuldabréfinu voru fasteignalán í eigu Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar fyrir samtals um 31 milljón króna. Þessir fjármunir runnu til sparisjóðanna fyrir milligöngu Sparisjóðabankans.

Sparisjóðurinn fjármagnaði erlend útlán sín með lánalínu frá Sparisjóðabanka Íslands hf. en einnig með erlendum lánum frá Sparisjóði Mýrasýslu og síðar í litlum mæli frá Sparisjóði Ólafsfjarðar. Fyrir rannsóknarnefndinni sagði sparisjóðsstjóri að leitað hefði verið eftir erlendri fjármögnun hjá Sparisjóði Mýrasýslu eftir að Afl sparisjóður var kominn að mörkum þess sem hann gat fengið lánað hjá Sparisjóðabankanum.34 Erlend lántaka sparisjóðsins hækkaði mikið á árinu 2008 með gengisfalli íslensku krónunnar.

Á árinu 2008 seldi Afl sparisjóður, ásamt öðrum sparisjóðum, fasteignalán til Klettháls ehf., sem var félag í eigu nokkurra sparisjóða. Klettháls ehf. nýtti fasteignalánin til þess að fá fjármögnun frá Landsbanka Íslands hf. en fjármagnið sem fékkst í þeim viðskiptum rann til sparisjóðanna sem tóku þátt í verkefninu. Á árinu 2009 keyptu sparisjóðirnir fasteignalán sín til baka af Kletthálsi ehf.35

Sparisjóðurinn tók nokkur víkjandi lán sem voru útistandandi frá 2005 til 2011 en í stjórnarfundargerðum sparisjóðsins var ekki fjallað sérstaklega um ástæður lántökunnar. Stuttu eftir að Sparisjóður Mýrasýslu keypti nær allt stofnfé í Afli sparisjóði gaf sá síðarnefndi út 90 milljóna króna víkjandi skuldabréf til Sparisjóðs Mýrasýslu. Það skuldabréf var frá júní 2004 en um tveimur árum síðar, í júní 2006, gaf sparisjóðurinn út annað víkjandi skuldabréf til Sparisjóðs Mýrasýslu sem nam 180 milljónum króna. Á stjórnarfundi Sparisjóðs Mýrasýslu 1. júní 2006 var samþykkt að kaupa útibú Glitnis banka hf. á Siglufirði fyrir 180 milljónir króna og var greitt fyrir útibúið með víkjandi láni frá Glitni banka hf. sem nam sömu fjárhæð.36 Starfsemi Glitnis banka hf. á Siglufirði og Afls sparisjóðs var síðan sameinuð. Víkjandi lánin voru verðtryggð og hækkuðu vegna verðbólgunnar 2008 og 2009. Sparisjóðurinn fékk nýtt víkjandi lán frá Sparisjóði Mýrasýslu 3. apríl 2009 þegar láni upp á 110 milljónir japanskra jena til sparisjóðsins var skuldbreytt í víkjandi lán í íslenskum krónum.

21.5 Eignarhald

Afl sparisjóður varð til við samruna Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar og miðaðist reikningslegur samruni við 1. janúar 2008. Stofnfjáreigendur í Sparisjóði Skagafjarðar voru 116 talsins en Sparisjóður Mýrasýslu var stærsti stofnfjáreigandi í Sparisjóði Siglufjarðar með 99,99% hlut fyrir sameiningu sparisjóðanna. Í lok árs 2008 var 88,6% stofnfjár sameinaðs sparisjóðs Siglufjarðar og Skagafjarðar í eigu Sparisjóðs Mýrasýslu sem færði hann sem dótturfélag. Þegar Nýi Kaupþing banki hf. tók yfir Sparisjóð Mýrasýslu 3. apríl 2009 eignaðist hann dótturfélög hans og átti 94,5% í Afli sparisjóði í árslok 2011.

21.5.1 Sparisjóður Hólahrepps – Sparisjóður Skagafjarðar

Sparisjóður Skagafjarðar hét Sparisjóður Hólahrepps allt til ársins 2004. Nafninu var þá breytt þar sem Hólahreppur hafði nokkrum árum fyrr sameinast tíu öðrum hreppum í Skagafirði þannig að til varð Sveitarfélagið Skagafjörður. Árið 2000 gerði Sparisjóður Hólahrepps samning við Fjárvaka ehf., félag í 100% eigu Kaupfélags Skagfirðinga, um samstarf vegna innheimtu og tengdrar þjónustu fyrir Íbúðalánasjóð sem Fjárvaki ehf. hafði samið um við Íbúðalánasjóð. Samningurinn kvað á um að Sparisjóður Hólahrepps annaðist innheimtu á öllum fasteignaverðbréfum Íbúðalánasjóðs fyrir Fjárvaka ehf. og notaði til þess kerfi Tölvumiðstöðvar sparisjóðanna. Fjárvaki bar alla fjárhagslega ábyrgð vegna verkefnisins og tryggði að sparisjóðurinn bæri ekki fjárhagslegan skaða vegna þess. Samningurinn var til tíu ára.37

Með þessum samningi jukust umsvif sparisjóðsins og grundvöllur skapaðist til að auka stofnfé hans. Á aðalfundi sparisjóðsins 17. nóvember 2000 var samþykkt að auka stofnfé úr einni milljón króna í fimm milljónir króna. Hver stofnfjárhlutur yrði seldur á 25 þúsund krónur og hlutum yrði fjölgað úr 40 í 200. Á stjórnarfundi 19. desember sama ár var samþykkt að auka hlutafé sparisjóðsins um 17 milljónir króna þannig að stofnfé yrði 22 milljónir króna. Nýju hlutirnir voru seldir á árinu 2001.

Kaupfélag Skagfirðinga sótti um heimild til Fjármálaeftirlitsins 28. febrúar 2003 til að fara með virkan eignarhlut í Sparisjóði Hólahrepps og fékk hana 24. mars sama ár.38 Fyrirtæki innan samstæðu kaupfélagsins höfðu eignast 8.750.000 að nafnverði af nýjum stofnfjárbréfum sparisjóðsins og áttu 40% af heildarstofnfé. Þetta voru Fiskiðja Sauðárkróks ehf., Fiskiðjan Skagfirðingur hf., Vörumiðlun ehf. og Element hf. Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar kaupfélagsins höfðu einnig keypt stofnfjárhluti en þeir voru ekki tilgreindir í umsókn um virkan eignarhlut.

Í aðdraganda aðalfundar sparisjóðsins 2003 komu fram tveir framboðslistar til stjórnar og reyndi þá á beitingu atkvæða og ákvörðun atkvæðamagns í fyrsta sinn frá stofnfjáraukningunni 2001. Á öðrum listanum voru sex af tíu frambjóðendum stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar í félögum tengdum Kaupfélagi Skagfirðinga en hinn listann skipuðu fjórir af fimm aðalmönnum í þáverandi stjórn sparisjóðsins og aðrir stofnfjáreigendur. Meirihluti stjórnar sparisjóðsins taldi að takmarka þyrfti atkvæðavægi þeirra sem tengdust kaupfélaginu við 5% atkvæðamagns með hliðsjón af ákvæðum þágildandi 70. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Stjórnin tilkynnti að Fiskiðja Sauðárkróks ehf. yrði skráð fyrir þeim 5% atkvæða sem félli undir samsteypu Kaupfélags Skagfirðinga og aðila í nánum tengslum við hana. Takmörkun atkvæðisréttar einskorðaðist því ekki við þá aðila sem fengið höfðu leyfi til að fara með virkan eignarhlut í sparisjóðnum, heldur náði takmörkunin einnig til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra Kaupfélags Skagfirðinga og tengdra félaga. Þegar halda átti aðalfundinn 28. maí 2003, mótmæltu þeir stofnfjáreigendur sem fengu ekki neytt atkvæðisréttar síns vegna þess að hann var talinn falla undir Fiskiðjuna. Var þá ákveðið að fresta fundinum og leita úrskurðar Fjármálaeftirlitsins um ágreiningsefnið. Sparisjóðurinn óskaði úrlausnar eða úrskurðar Fjármálaeftirlitsins um meðferð atkvæðisréttar fyrir Kaupfélag Skagfirðinga með bréfi 5. júní 2003. Fjármálaeftirlitið svaraði erindinu 10. september sama ár. Í svarinu sagði meðal annars:

Í hnotskurn má því segja að athugunarefnið beinist að því hvort eignarhlutur einstaklinga, sem valist hafa til trúnaðar- og stjórnunarstarfa fyrir samstæðu fyrirtækja, teljist með í virkum eignarhlut fyrirtækjasamstæðunnar. Sérstaða þess máls sem hér er til umfjöllunar er nokkur, ekki síst vegna umfangsmikillar starfsemi [kaupfélagsins] á starfssvæði sparisjóðsins og þess að þrátt fyrir að umræddir einstaklingar tengist samstæðu [kaupfélagsins] eru, vegna rekstrarforms kaupfélagsins, persónulegir og fjárhagslegir hagsmunir þeirra af beitingu atkvæðisréttarins takmarkaðir.
Það er niðurstaða Fjármálaeftirlitsins […] að það hafi ekki á þessu stigi forsendur til að taka ákvörðun um að virkur eignarhlutur í Sparisjóði Hólahrepps nemi stærra hlutfalli af stofnfé en þegar hefur fengist samþykki fyrir.39

Framhaldsaðalfundur sparisjóðsins var síðan haldinn 18. desember 2003 og þar voru framboðin tvö til stjórnar dregin til baka en fundurinn kaus Jón E. Friðriksson, Magnús D. Brandsson, Sigurjón R. Rafnsson, Sverri Magnússon og Valgeir Bjarnason sem aðalmenn í stjórn.40 Jón E. Friðriksson framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Skagfirðings hf. og Sigurjón R. Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, höfðu verið á framboðslista hópsins sem tengdist kaupfélaginu en Sverrir Magnússon og Valgeir Bjarnason á hinum. Magnús Brandsson var á hvorugum listanum en hann var sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Ólafsfjarðar.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins sem haldinn var með fulltrúum frá Fjármálaeftirlitinu 28. apríl 2004 var samþykkt að aðalfundur yrði 26. maí sama ár.41 Aðalfundurinn var haldinn eins og áætlað var og á fundinum voru aðalmenn og varamenn stjórnar frá síðasta aðalfundi endurkjörnir. Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar var rætt um starfslok sparisjóðsstjóra en tveir stjórnarmenn, Sigurjón R. Rafnsson og Jón E. Friðriksson höfðu farið fram á að hann léti af störfum. Valgeir Bjarnason og Sverrir Magnússon létu þá bóka eftirfarandi:

Við undirritaðir stjórnarmenn í Sparisjóði Hólahrepps mótmælum harðlega brotthvarfi Kristjáns Hjelm úr starfi sparisjóðsstjóra og getum ekki fallist á uppsögn hans. Það er ljóst að brotthvarf hans úr starfi sparisjóðsstjóra er þvingað fram með óvægnum bolabrögðum af hálfu Kaupfélags Skagfirðinga og fulltrúum þess í sparisjóðsstjórninni, sem engin rök eru færð fyrir. Kristján Hjelm sparisjóðsstjóri hefur reynst trúr og góður starfsmaður sem hefur unnið samkvæmt hugsjónum og starfsreglum sparisjóðanna og laðað að viðskiptavini. Framtíð Sparisjóðs Hólahrepps er nú stefnt í mikla óvissu og vísum við allri ábyrgð á hendur öðrum stjórnarmönnum vegna þeirra vinnubragða sem þeir nú beita í stjórnun sjóðsins. Engar tillögur eru lagðar fram um framtíðarlausnir fyrir sjálfstæða starfsemi sjóðsins, aðeins virðist ætlunin að hann verði rekinn sem deild í rekstri Kaupfélags Skagfirðinga. Með þessum hætti er gengið þvert á hugsjónir og forsendur sparisjóðanna og því mótmælum við þessari aðför fulltrúa Kaupfélags Skagfirðinga að Sparisjóði Hólahrepps og áskiljum okkur rétt til að verja hagsmuni hans og sjálfstæði með öllum tiltækum ráðum.42

Sigurjón R. Rafnsson lét þá bóka að hann sæti sem einstaklingur í stjórn sparisjóðsins, einungis með hagsmuni Sparisjóðs Hólahrepps í huga. Hann teldi það lykilforsendu fyrir vexti og framgangi sjóðsins að skipta um sparisjóðsstjóra þar sem núverandi sparisjóðsstjóri hefði tekið afstöðu í ágreiningi stofnfjáreigenda. Jón E. Friðriksson tók fram á fundinum að hann sæti í stjórn sparisjóðsins fyrir sitt eigið stofnfé. Ekki var bókað hver afstaða stjórnarformannsins, Magnúsar D. Brandssonar, var í þessu máli. Fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði fyrrum sparisjóðsstjóri að honum hefði verið tjáð að til þess að ná sátt um sparisjóðinn þyrfti hann að fara og hann hefði viljað að sáttir næðust.43

Á fundi sparisjóðsstjórnar 12. október 2004 lagði formaður fram drög að dagskrá fyrir stofnfjáreigendafund sem haldinn yrði í nóvember sama ár. Lagt var til að tekin yrði fyrir stofnfjáraukning, kosning stjórnar, breyting á nafni sjóðsins og önnur mál. Formanni og endurskoðanda var falið að finna aðila til að útbúa útboðslýsingu og undirbúa tæknileg atriði fyrir fundinn. Valgeir Bjarnason og Sverrir Magnússon sátu hjá við þessa ákvörðun. Rætt var um ráðningarsamning við nýjan sparisjóðsstjóra, Vilhjálm Baldursson, en fyrir lá undirritaður ráðningarsamningur og erindisbréf við Vilhjálm með fyrirvara um samþykki stjórnar. Valgeir greiddi atkvæði gegn ráðningunni en Sverrir sat hjá.

Á stjórnarfundi 8. nóvember 2004 lagði stjórnarformaður fram tillögu um að auglýsa stofnfjáreigendafund 24. nóvember 2004. Á honum skyldi taka fyrir breytingu á nafni sjóðsins í Sparisjóð Skagafjarðar og hækkun stofnfjár í 88 milljónir króna, sem og kosningu til stjórnar. Valgeir og Sverrir sátu hjá en aðrir stjórnarmenn samþykktu tillöguna. Fyrir stofnfjáreigendafundinn bárust tveir framboðslistar til stjórnar og beiðni um hlutbundna kosningu. Þessi atriði voru rædd á stjórnarfundi 23. nóvember 2004 en á þeim fundi voru jafnframt teknar fyrir framsalsbeiðnir á stofnfjárbréfum. Meðal þeirra sem þar óskuðu eftir að selja stofnfjárhluti sína voru félög sem höfðu heimild til að fara með virkan eignarhlut í sparisjóðnum. Kaupendur að bréfunum voru einstaklingar, margir með tengsl við kaupfélagið,44 Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóður Ólafsfjarðar. Varamenn tóku sæti Sigurjóns og Jóns Eðvalds undir þessum dagskrárlið, en þeir voru meðal kaupenda, og samþykkti meirihluti stjórnar framsölin. Valgeir og Sverrir sátu hjá og töldu þeir ekki heimilt að samþykkja framsölin þar sem Fjármáleftirlitið hefði ekki afgreitt umsókn um virkan eignarhlut.45

Á stofnfjáreigendafundi sparisjóðsins 24. nóvember 2004 var deilt um það hvort nýir eigendur stofnfjárbréfanna ættu, vegna tengsla sinna við kaupfélagið, að fara sameiginlega með 5% atkvæða á fundinum, í samræmi við ákvæði þágildandi 2. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002.46 Fundarstjóri tók ekki sérstaklega afstöðu til þess hvort þessir aðilar færu sameiginlega með 5% atkvæðamagns og var gengið til kosninga miðað við skrá um stofnfjárhafa sem lá frammi á fundinum. Fundarstjóri gat þess þó að ef sá listi reyndist vera rangur gæti það leitt til þess að ákvarðanir fundarins yrðu taldar ógildar fyrir dómi.

Stjórnarformaður lagði fram tillögu meirihluta stjórnar um stofnfjáraukningu og hvernig yrði staðið að henni. Í fundargerð kemur fram að Valgeir Bjarnason hafi óttast að ekki gætu allir „eldri“ stofnfjáraðilar keypt í stofnfjáraukningunni og væri hún leið til þess að Kaupfélag Skagfirðinga eignaðist sparisjóðinn. Vildi hann að tillögu um aukningu stofnfjár yrði vísað frá og leitað sátta um aukninguna. Gengið var til atkvæða og samþykktu 74% stofnfjáraukninguna.

Stofnfjáreigendafundurinn samþykkti einnig nafnbreytingu sparisjóðsins með 71% atkvæða og var nýja heitið Sparisjóður Skagafjarðar. Fundarstjóri kynnti tillögu um stjórnarkjör en Valgeir Bjarnason taldi það ekki hlutverk fundarins að kjósa nýja stjórn, slíkt ætti að gera á aðalfundi. Fundarstjóri lýsti dagskrárliðinn löglegan og var kjörin ný stjórn en í henni sátu: Sigurjón R. Rafnsson, Jón E. Friðriksson, Sverrir Magnússon, Magnús D. Brandsson og Gísli Kjartansson. Á stjórnarfundi 6. desember 2004 skipti stjórnin með sér verkum og var Magnús D. Brandsson valinn formaður.

Með lögbannsbeiðni til sýslumannsins á Sauðárkróki 8. desember 2004 kröfðust 10 stofnfjáreigendur í sparisjóðnum þess meðal annars að lögbann yrði sett við því að stofnjáraukning færi fram í samræmi við samþykkt stofnfjáreigendafundarins. Sýslumaður hafnaði lögbannsbeiðninni og var henni vísað til Héraðsdóms Norðurlands vestra. Dómurinn lagði fyrir sýslumann með úrskurði þann 27. janúar 2005 að leggja lögbann við stofnfjáraukningunni og kærði stjórn sparisjóðsins úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurðinn í máli nr. 48/2005 22. febrúar 2005.

Á stjórnarfundi 4. febrúar 2005 mættu Páll Gunnar Pálsson og Ragnar Hafliðason fyrir hönd Fjármálaeftirlitsins í kjölfar bréfs frá Fjármálaeftirlitinu um fund með stjórn. Á fundinum lagði Páll Gunnar fram eftirfarandi bókun:

Á liðnum misserum hefur FME ítrekað þurft að taka til athugunar þætti í starfsemi og eignarhaldi Sparisjóðs Hólahrepps (nú Sparisjóður Skagafjarðar), sem m.a. tengjast ósætti meðal stofnfjáreigenda. Fjármálaeftirlitið telur augljóst að rekstri sparisjóðsins sé hætta búin takist ekki að setja niður deilur og málaferli meðal stofnfjáreigenda. Að mati Fjármálaeftirlitsins ber stjórn sparisjóðsins að leita allra leiða í því efni. Að öðrum kosti mun Fjármálaeftirlitið taka til athugunar hvort efni séu til afturköllunar á starfsleyfi sjóðsins.

Nokkrir stofnfjáreigenda höfðuðu mál á hendur sparisjóðnum og aðilum tengdum kaupfélaginu. Dómkröfurnar voru meðal annars að ákvarðanir stjórnar á stjórnarfundi 23. nóvember 2004 um samþykki framsals stofnfjárbréfa fjögurra lögaðila innan samstæðu Kaupfélags Skagfirðinga yrði ógilt og að ákvarðanir stofnfjáreigendafundar sparisjóðsins 24. nóvember 2004 yrðu ógiltar. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 31. maí 2005 var samþykkt samhljóða að fallast á kröfur stefnenda í málinu og að hlíta dómi um þær. Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Norðurlands vestra 9. júní 2005 í samræmi við það.47

Á aðalfundi sparisjóðsins 23. júní 2005 áttu félögin fjögur48 sem höfðu fengið heimild til að fara með virkan eignarhlut enn 8.750.000 krónur af heildarstofnfé sem nam 22 milljónum króna, þar sem ákvörðun um framsöl á stjórnarfundi 23. nóvember hafði verið ógild af stjórnarfundi tæpum mánuði áður. Undir aðalfundinn voru bornar tillögur sem vörðuðu tvö af þeim þremur atriðum sem höfðu verið ógilt. Þannig var samþykkt samhljóða að stofnfé yrði aukið úr 22 milljónum króna í 88 milljónir króna og ný stjórn var kjörin. Í stjórn voru kjörnir Ágúst Guðmundson, Gísli Kjartansson, Sigurjón R. Rafnsson, Valgeir Bjarnason og Þórarinn Magnússon. Á stjórnarfundi 11. júlí sama ár var Gísli Kjartansson valinn formaður stjórnar. Gísli Kjartansson var þá sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu, Sigurjón R. Rafnsson og Ágúst Guðmundsson höfðu verið á lista aðila tengdra Kaupfélaginu sem lagður var fram til stjórnarkjörs árið 2003. Valgeir Bjarnason hafði verið í stjórn áður en hann var á hinum listanum vegna kosninga í stjórn sparisjóðsins árið 2003. Þórarinn Magnússon var á hvorugum listanum.

Fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hólahrepps greindi rannsóknarnefndinni frá þessum breytingum á stofnfjáreigendahópi sparisjóðsins. Fjárvaki ehf., félag í 100% eigu Kaupfélags Skagfirðinga, hafði gert samning við Íbúðalánasjóð árið 2000 um ákveðna þjónustu sem fól í sér aðgang að tölvukerfinu Flexcube og að útvega bankaleyfi. Það tvennt hefði skipt mestu máli í þessum samningi. Dýrt væri að stofna nýtt fjármálafyrirtæki og yfirleitt hagstæðara að taka yfir lítið fjármálafyrirtæki til þess að fá starfsleyfi og aðgang að Reiknistofu bankanna. Í því skyni að efna samninginn við Íbúðalánasjóð hefði Kaupfélag Skagfirðinga viljað eignast að minnsta kosti 25% hlut í Sparisjóði Hólahrepps sem hafði starfsleyfi sem fjármálastofnun og aðgang að Reiknistofu bankanna.49 Í 4. grein samnings um innheimtu og tengda þjónustu fyrir Íbúðalánasjóð var því lýst að samningurinn fæli meðal annars í sér aðgang að kerfum Reiknistofu bankanna eða annarra sambærilegra kerfa sem Fjárvaki ehf. hafði ekki aðgang að.50 Í því skyni var gerður samstarfssamningur við Sparisjóð Hólahrepps.

Tap sparisjóðsins vegna ársins 2005 nam 13,4 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 11,2% í árslok 2005. Árið eftir tapaði sjóðurinn tæpum tveimur milljónum króna en stofnfé var aukið um rúmar 54 milljónir króna á árinu og eiginfjárhlutfall í lok árs 2006 var 10,3%.

Á árinu 2007 var ljóst að sparisjóðurinn stóð höllum fæti og á stjórnarfundi Sparisjóðs Siglufjarðar 20. júlí 2007 upplýsti sparisjóðsstjóri að staða sparisjóðsins væri orðin mjög slæm. Tap á rekstrinum eftir fyrstu sex mánuðina var um 32 milljónir króna fyrir skatta og eiginfjárhlutfallið 6,9%, sem var undir lögbundnu lágmarki.

Stjórnarfundur Sparisjóðs Skagafjarðar samþykkti samruna við Sparisjóð Siglufjarðar á fundi sínum 25. apríl 2007 og samruninn var síðan samþykktur á aðalfundi Sparisjóðs Skagafjarðar 13. ágúst 2007 af handhöfum 78% stofnfjár. Í lok árs 2007 var stofnfé Sparisjóðs Skagafjarðar 108,6 milljónir króna og stofnfjáraðilar 116 talsins, þar af voru 9 lögaðilar.

21.5.2 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Samkvæmt samþykktum Sparisjóðs Siglufjarðar frá 25. febrúar 2003 gat stofnfé sparisjóðsins verið á bilinu 80–160 milljónir króna. Stofnféð skiptist í jafnháa hluti og fylgdi eitt atkvæði hverjum hlut. Einstökum stofnfjáreigendum var óheimilt, fyrir sjálf sín hönd eða annarra, að fara, beint eða óbeint, með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum. Atkvæðisréttur fylgdi ekki þeim stofnfjárbréfum sem sparisjóðurinn átti sjálfur og mátti hann ekki eiga meira en 10% af eigin stofnfé. Sala eða annað framsal stofnfjárbréfa var óheimilt nema með samþykki stjórnar sparisjóðsins, en veðsetning með öllu óheimil. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnfé með áskrift nýrra hluta og höfðu stofnfjáreigendur þá rétt til að skrá sig fyrir auknu stofnfé í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína. Árið 2007 var stofnfé sparisjóðsins 795.599.589 krónur sem greindist í einnar krónu hluti eða það margfeldi af einni krónu sem hver stofnfjáreigandi átti. Á fundi stofnfjáreigenda 25. apríl 2007 var samþykkt að stjórnin fengi heimild til að auka stofnfé sjóðsins í allt að einn milljarð króna vegna fyrirhugaðrar sameiningar við Sparisjóð Skagafjarðar.

Samþykktir fyrir Afl sparisjóð voru samþykktar á aðalfundi 18. apríl 2008. Samkvæmt þeim nam stofnfé sparisjóðsins 1.022.544.909 krónum og skiptist í jafnmarga einnar krónu hluti. Stjórn sparisjóðsins var heimilt að hækka stofnfé hans um allt að 500 milljónir króna eða um jafnmarga einnar krónu hluti. Heimildin gilti til septemberloka 2012. Fundur stofnfjáreigenda gat ákveðið að auka stofnfé með áskrift nýrra stofnfjárhluta, með endurmati á stofnfé samkvæmt 67. gr. laga nr. 161/2002 eða með ráðstöfun hluta hagnaðar samkvæmt 2. tölul. 68. gr. sömu laga. Þá var samþykkt að veðsetning stofnjárhluta yrði heimil að tilskyldu samþykki stjórnar sparisjóðsins. Samþykktum sparisjóðsins var breytt á aðalfundi 31. maí 2010. Samkvæmt nýjum samþykktum var stofnfé sparisjóðsins 1.522.544.909 og skiptist í jafnmarga einnar krónu hluti. Sparisjóður Mýrasýslu hafði aukið stofnfé sitt um rúmar 500 milljónir króna tæpu ári áður. Auk fyrri heimildar til hækkunar á stofnfé var bætt við heimild til að hækka stofnfé sparisjóðsins um allt að 45 milljónir króna án forkaupsréttar Arion banka hf. Ári síðar var samþykktum enn breytt á aðalfundi sparisjóðsins. Felldar voru út takmarkanir um framsal stofnfjárhluta og fært í samþykktir að aðalfundur hefði heimild til að ráðstafa allt að 50% af hagnaði sparisjóðsins vegna þess rekstrarárs sem til umfjöllunar væri á fundinum til hækkunar á nafnverði stofnfjár sjóðsins. Lög um sparisjóði höfðu þá breyst þannig að heimild til arðgreiðslu var hæst 50% af hagnaði ársins. Í samþykktum Afls sparisjóðs frá 2010 og 2011 var áfram kveðið á um það að einstökum stofnfjáraðilum væri aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum.

Í ársbyrjun 2003 voru stofnfjáreigendur í Sparisjóði Siglufjarðar 58 talsins og átti Sparisjóður Mýrasýslu um 40% stofnfjár. Á aðalfundi Sparisjóðs Siglufjarðar 25. febrúar 2003 var samþykkt að taka tilboði Sparisjóðs Mýrasýslu um kaup á nær öllu stofnfé sjóðsins. Sparisjóður Mýrasýslu átti síðan 99,99% stofnfjár í sparisjóðnum fram að sameiningu hans við Sparisjóð Skagafjarðar árið 2007.

Stjórn Sparisjóðs Skagafjarðar samþykkti 17. nóvember 2006 að hefja viðræður um sameiningu sjóðsins við Sparisjóð Siglufjarðar. Tillagan var lögð fram af formanni stjórnar í stað þess að ráðist yrði í frekari stofnfjáraukningar. Stjórn Sparisjóðs Siglufjarðar samþykkti að ganga til sameiningarviðræðna á fundi sínum 15. febrúar 2007. Á stjórnarfundi Sparisjóðs Siglufjarðar 25. apríl 2007 var samruni sparisjóðanna tveggja samþykktur. Sparisjóður Mýrasýslu myndi auka stofnfé í Sparisjóði Siglufjarðar um 515,6 milljónir króna og hlutur Sparisjóðs Siglufjarðar í sameinuðum sjóði yrði 88%. Samruninn var í kjölfarið lagður fyrir aðalfundi sparisjóðanna 13. ágúst 2007 og var hann samþykktur.51 Samruni Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar var samþykktur af Samkeppniseftirlitinu 25. júní 2007 og af Fjármálaeftirlitinu 7. mars 2008.52 Reikningslegur samruni miðaðist við 1. janúar 2008.

Sparisjóður Mýrasýslu átti 99,9% hlut í Sparisjóði Siglufjarðar og var jafnframt stærsti stofnfjárhafinn í Sparisjóði Skagafjarðar við sameiningu, með 5,34% eignarhlut. Í árslok 2007 var stofnfé Sparisjóðs Skagafjarðar tæpar 109 milljónir króna og varasjóðurinn neikvæður um 22 milljónir króna. Þetta eigin fé bættist við eigin fé Sparisjóðs Siglufjarðar við samruna sparisjóðanna. Sameinaður sjóður fékk nafnið Afl sparisjóður í mars 2008 og heildarstofnfé hans var 904 milljónir króna.

Á árinu 2008 var stofnfé Afls sparisjóðs endurmetið um 118 milljónir króna og var stofnfé í árslok því 1.022.545 krónur. Í mars 2009 var óskað eftir því við stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu að sjóðurinn legði fram 500 milljónir króna í nýtt stofnfé í sparisjóðinn og veitti 132 milljóna króna víkjandi lán, sem hann og gerði. Eftir þessa stofnfjáraukningu átti Sparisjóður Mýrasýslu 94,5% stofnfjár í Afli sparisjóði. Í apríl sama ár yfirtók Nýi Kaupþing banki hf. eignir og skuldir Sparisjóðs Mýrasýslu og varð þar með stærsti eigandi Afls sparisjóðs.

Í lok árs 2009 voru stofnfjáreigendur Afls sparisjóðs 130 talsins en fækkaði um átta ári seinna og voru 122 í árslok 2010 og 2011. Á haustmánuðum 2011 voru eignarhlutar Arion banka hf. í Sparisjóði Ólafsfjarðar og Afli sparisjóði settir í söluferli. Eitt tilboð barst í sjóðinn en það uppfyllti ekki skilyrði og var því ekki tekið. Vegna 5% hámarksatkvæðavægis eins eiganda í sparisjóði fer 94,5% eignarhlutur Arion banka hf. með minna en helming þeirra atkvæða sem hægt er að greiða en aðrir eigendur, sem samtals eiga 5,5% stofnfjár, fara saman með meirihluta atkvæða.

Stjórn sparisjóðsins samþykkti 26. september 2008 að hlutafélagsvæða sjóðinn og var ákveðið að óska eftir tilboði í verðmat frá Capacent og aðstoð lögfræðinga hjá Kaupþingi banka hf. við hlutafélagsvæðinguna. Ekki var gripið til frekari aðgerða til að hlutafjárvæða sparisjóðinn og því var ferlinu sjálfhætt í kjölfar falls bankanna. Fyrir rannsóknarnefndinni sagði sparisjóðsstjóri Afls sparisjóðs að þetta hefði verið gert eftir að Sparisjóður Mýrasýslu, móðurfélag sjóðsins, hefði verið kominn í mikil vandræði. Hlutafélagsvæðing sparisjóðsins hefði kannski átt að auðvelda fjárhagslega endurskipulagningu. Þá hefðu verið uppi alls kyns hugmyndir sem ekki urðu að veruleika. Hann minntist þess ekki að hlutafélagsvæðing sparisjóðsins hefði verið ofarlega á verkefnalistanum.53

21.6 Rekstur sparisjóðsins eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008 og niðurfelling skulda hans hjá Arion banka hf.

Fall viðskiptabankanna haustið 2008 hafði sín áhrif á Afl eins og aðra sparisjóði í landinu. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 var tap á rekstri sparisjóðsins 805,6 milljónir króna, eigið fé sparisjóðsins nam 248,2 milljónum króna í árslok og var eiginfjárhlutfallið komið niður í 3,2%.54

Gripið var til aðgerða til að hækka eiginfjárhlutfall sparisjóðsins og 28. mars 2009 samþykkti Sparisjóður Mýrasýslu að leggja fram 500 milljóna króna stofnfé og veita sparisjóðnum að auki víkjandi lán upp á 132 milljónir króna.55 Á stjórnarfundi sparisjóðsins þremur dögum síðar, 31. mars 2009, var samþykkt tillaga um að nýta fyrirliggjandi heimild stjórnar til stofnfjárhækkunar. Sparisjóður Mýrasýslu myndi þá breyta allt að 500 milljónum af kröfum sínum í stofnfé, auk þess að veita nýtt víkjandi lán. Jafnframt yrði öðrum stofnfjárhöfum gert kleift að taka þátt í stofnfjáraukningunni. Eftir breytinguna yrði eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 9,81%.56 Þá þurfti stjórn sparisjóðsins að taka afstöðu til þess hvort óskað yrði eftir 20% eiginfjárframlagi úr ríkissjóði, sbr. 2. gr. laga nr. 125/2008 (neyðarlaga), en reiknað var með að það næmi þá um 210 milljónum króna. Ef tekin yrði ákvörðun um að sækja um slíkt framlag yrði samhliða því leitað eftir víkjandi láni upp á 105 milljónir króna. Við þær aðgerðir yrði eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 12,56%.57 Sparisjóðurinn sótti þó aldrei um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði.

Í fundargerð stjórnar sparisjóðsins kom fram að þessar ráðstafanir væru leið fyrir Sparisjóð Mýrasýslu til að verja kröfur sínar á hendur Afli sparisjóði en útlán hins fyrrnefnda til þess síðarnefnda námu um sex milljörðum króna og því mikilvægt fyrir kröfuhafa Sparisjóðs Mýrasýslu að gripið væri til aðgerða, en einnig væri verið að gæta hagsmuna minni stofnfjáreigenda í Afli sparisjóði. Þar sem Afl sparisjóður var undir lögbundnum eiginfjármörkum var ljóst að ef ekki kæmi til aðgerða af hálfu Sparisjóðs Mýrasýslu hefði Afl sparisjóður engin úrræði til að koma sínum málum í lag, því Sparisjóður Mýrasýslu var eini lánardrottinn sjóðsins og jafnframt stærsti stofnfjáreigandinn. Að öðrum kosti yrði Fjármálaeftirlitið að grípa inn í rekstur Afls sparisjóðs á grundvelli heimilda í lögum nr. 125/2008, flytja innlán frá sparisjóðnum og ráðstafa eignum hans.58

Við stofnfjáraukninguna fór hlutdeild Sparisjóðs Mýrasýslu úr 88,6% í 92,06%.59 Ekkert varð hins vegar af því að öðrum stofnfjáreigendum væri boðin þátttaka í stofnfjáraukningunni eins og samþykkt hafði verið á stjórnarfundi Afls sparisjóðs 31. mars 2009.60

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 3. apríl 2009 tók eftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Mýrasýslu og gerði ráðstafanir í samræmi við kaupsamning sparisjóðsins og Nýja Kaupþings banka hf. frá sama degi. Við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins komst stofnfjáreign Sparisjóðs Mýrasýslu í Afli sparisjóði í eigu Nýja Kaupþings banka hf. og varð sparisjóðurinn þar með dótturfélag bankans.61

Afl var þó áfram rekinn sem sjálfstæður sparisjóður. Þær aðgerðir sem gripið var til í því skyni að koma eiginfjárhlutfalli sparisjóðsins upp fyrir lögbundið lágmark nægðu út árið 2009. Þá var 17,6 milljón króna hagnaður af rekstri sparisjóðsins, eigið fé hans í árslok var 765,8 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 10,5%.62 Árið 2010 reyndist sparisjóðnum hins vegar erfitt, tap á rekstri sjóðsins nam tæpum 2,1 milljarði króna, eigið fé hans varð neikvætt um tæpa 1,3 milljarða króna og eiginfjárhlutfallið varð neikvætt um 12,1%. Í mars 2011 var gengið frá samkomulagi milli Afls og Arion banka um eftirgjöf skulda sparisjóðsins við bankann upp á 2,4 milljarða króna og breytingu á 300 milljóna króna kröfu bankans á hendur sparisjóðnum í nýtt víkjandi lán. Samkomulagið var gert til að bæta eiginfjárhlutfall sparisjóðsins og var gert ráð fyrir að það yrði 10,4% eftir þessar aðgerðir. Þá var gert ráð fyrir að Afl sparisjóður myndi kaupa 99,99% stofnfjár í Sparisjóði Ólafsfjarðar af Arion banka. Samkomulagið var gert með fyrirvara um endanlegt samþykki stjórnar bankans og lögmætra stofnana sparisjóðsins.63 Að sögn sparisjóðsstjóra féll Arion banki frá þessum hugmyndum án þess að gefa á því nokkra sérstaka skýringu.64

Mikill viðsnúningur varð í rekstri sparisjóðsins á árinu 2011, hagnaður af rekstri hans nam þá rúmum 2,1 milljarði króna, eigið fé var 838 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 9,2%. Hinn 22. september 2011 voru stofnfjárhlutir Arion banka í Afli sparisjóði og Sparisjóði Ólafsfjarðar settir í söluferli og var gert ráð fyrir að eignarhlutir bankans yrðu seldir í einu lagi, en ekkert varð af þeirri sölu. Sparisjóður Ólafsfjarðar, sem einnig var dótturfélag Arion banka, var síðan sameinaður bankanum á árinu 2012 og í ársreikningi Arion banka fyrir árið 2012 sagði að unnið væri að því að sameina líka Afl sparisjóð bankanum á næstu mánuðum. Fyrirætlanir bankans hafa mætt andstöðu heimamanna og að sögn sparisjóðsstjóra stendur samstaða annarra stofnfjáreigenda að nokkru leyti í vegi fyrir sameiningu.65 Í 5. gr. samþykkta Afls sparisjóðs sem samþykktar voru á aðalfundi 31. maí 2011 segir um atkvæðisrétt að einstökum stofnfjáreigendum sé aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggjast á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðsins. Hlutdeild Arion banka í stofnfé Afls hefur verið um 95%. Samkvæmt samþykktum hefur hann þó ekki getað farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni en samanlögð hlutdeild annarra stofnfjárhafa er um 5,5%.

Fyrir rannsóknarnefndinni sagði sparisjóðsstjóri að sparisjóðurinn hefði farið að skoða stöðu sína vegna erlendrar lántöku sinnar í kjölfar dóms Hæstaréttar 18. október í máli nr. 464/2012. Lögfræðingar sparisjóðsins töldu að um ólögmæt erlend lán væri að ræða og að sparisjóðurinn ætti kröfu á Arion banka hf. umfram þær skuldir sem felldar voru niður í mars 2011. Samkomulagið sem gert var þá hefði ekki verið „eyrnamerkt“ tilteknum skuldum og engir fyrirvarar gerðir við eftirgjöf skulda. Sparisjóðurinn ætti því möguleika á að fá skuldir sínar felldar niður án þess að til frádráttar kæmi það sem áður hafði verið fellt niður.66 Ákveðið var, í samráði við Arion banka hf., að fá lögfræðiálit um hvort „rammasamningur um lánsheimild“ milli Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðabankans teldist lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengisviðmiðun, ef svo væri hvaða vexti skyldi leggja til grundvallar og hvernig ætti að fara með þegar greidda vexti. Jafnframt hvaða áhrif niðurstaðan gæti haft á eiginfjárframlag og eftirgjöf Arion banka hf. og möguleika á riftun þess samkomulags. Niðurstöður lögfræðiálitsins voru að sennilega væri um að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, vexti skyldi miða við lægstu óverðtryggða vexti Seðlabankans og að fyrirvaralaus móttaka greiðslna í samræmi við innborganir jafngiltu fullnaðarkvittun. Þá væri samkomulag Arion banka og sparisjóðsins bindandi óháð því hvort rammasamningurinn teldist vera íslenskt lán með ólögmæta gengistryggingu.67 Hinn 27. júní 2013 höfðaði sparisjóðurinn mál á hendur Arion banka hf. til viðurkenningar á að tilteknir lánssamningar væru lán í íslenskum krónum og innihéldu ólögmæt ákvæði um gengistryggingu.

21.7 Arður af stofnfjáreign

Afl sparisjóður greiddi móðurfélaginu, Sparisjóði Mýrasýslu, tvisvar sinnum arð á tímabilinu 2001–2011. Það var árin 2005 og 2008 vegna næstliðinna rekstrarára. Í fyrra sinnið nam greiðslan 21 milljón króna og var 15% af stofnfé, en í síðara skiptið voru greiddar 45,2 milljónir króna sem voru 5,7% af stofnfé í lok árs 2007. Þessar arðgreiðslur voru í samræmi við reglur Tryggingasjóðs sparisjóða, en samkvæmt þeim mátti sparisjóðurinn greiða að hámarki 29,4% af stofnfé í fyrra skiptið og 15,6% af stofnfé í síðara skiptið, eða það hlutfall sem jafngilti raunarðsemi hvors rekstrarárs um sig.68 Reglur Tryggingasjóðs giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt og eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.69

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.70 Afl sparisjóður nýtti þessa heimild einungis einu sinni á umræddu tímabili. Árið 2008 var stofnfé sparisjóðsins hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um 118,3 milljónir króna. Framkvæmdin var í samræmi við reglur, enda var endurmatið 14,9% af stofnfé sem var lægra en 16,4% verðbólga ársins.

Í sömu lögum var ennfremur heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.71 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Afl sparisjóður nýtti ekki þessa heimild á tímabilinu 2001–2011.

Í töflu 24 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn er þar hafður undir því ári sem hann var útreiknaður. Hann var hins vegar greiddur út ári síðar. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um greiðslu arðs þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmda. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

21.8 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hefðu verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Afls sparisjóðs og áhrifum þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2011.

21.8.1 Innri endurskoðun

Sparisjóður Siglufjarðar, síðar Afl sparisjóður, starfrækti ekki eigin innri endurskoðunardeild, en Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá rekstri slíkrar deildar í kjölfar þess að sparisjóðurinn gerði samning um innri endurskoðun við KPMG endurskoðun hf. árið 2004.72 Annaðist KPMG innri endurskoðun sparisjóðsins árið 2005. Í nóvember 2006 var Fjármálaeftirlitinu tilkynnt að framvegis sæi innri endurskoðandi Sparisjóðs Mýrasýslu um innri endurskoðun sparisjóðsins. Stóð svo fram að falli Sparisjóðs Mýrasýslu 3. apríl 2009. KPMG endurskoðun hf. annaðist síðan innri endurskoðun sparisjóðsins 2009 og 2010 og Deloitte hf. árið 2011.73

Í niðurstöðum KPMG vegna innri endurskoðunar 2005 kom fram að athugun á innra eftirliti sparisjóðsins hefði almennt komið vel út. Gerð var athugasemd við að sparisjóðurinn hefði ekki upplýsingar um fjárhagsstöðu stærstu viðskiptaaðila sinna og lagt til að kallað yrði eftir ársreikningum viðskiptamanna jafnharðan.74

Helstu niðurstöður innri endurskoðunar vegna ársins 2006 voru að sparisjóðurinn yrði að setja sér öryggisstefnu í samræmi við tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2005. Bent var á mikilvægi þess að fá reglulega upplýsingar um fjárhagsstöðu viðskiptaaðila og því beint til stjórnenda að ganga á eftir því að ársreikningum væri skilað inn, en þau tilmæli höfðu einnig komið fram í skýrslu vegna ársins 2005. Jafnframt var vakin athygli á því, í tengslum við stórar áhættuskuldbindingar, að þrír aðilar færu yfir 25% hámark. Þá hefði skoðun víxla og skuldabréfa leitt í ljós að bæta þyrfti frágang umræddra viðskiptabréfa, en ábending sama efnis hafði einnig verið sett fram í skýrslu vegna ársins 2005.75 Rannsóknarnefndinni bárust ekki skýrslur innri endurkoðenda sparisjóðsins vegna áranna 2008 og 2009.

Í skýrslu innri endurskoðanda Sparisjóðs Mýrasýslu um innri endurskoðun vegna ársins 2007 var mælt með því að skriflegum verklagsreglum yrði komið á hjá sparisjóðnum. Bent var á að verklagsreglur væru hluti af innra skipulagi og tilgangur þeirra væri að tryggja gott vinnulag og innra eftirlit. Einnig var bent á að stjórn þyrfti að setja reglur um viðskipti starfsmanna og var gerð athugasemd við flokkun tengdra aðila. Auðum skýrslum var skilað til Fjármálaeftirlitsins um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila samkvæmt 21. og 22. grein laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, þrátt fyrir að til staðar væru aðilar sem féllu undir skilgreiningar um venslaða aðila. Þá fór einn viðskiptavinur sparisjóðsins yfir leyfileg mörk þágildandi reglna nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbingar hjá fjármálafyrirtækjum, eða 25% af eigin fé sparisjóðsins.76

Bent var á veikleika í útlánaferli í skýrslum innri endurskoðanda fyrir árin 2010 og 2011. Taldi hann að fyrirmæli vantaði um framkvæmd útlána, trygginga og ábyrgða hjá sparisjóðnum sem og starfsreglur fyrir lánanefndir sparisjóðsins. Athugasemdir voru gerðar við fundargerðir lánanefnda, yfirferð gagna með umsóknum, mat á fyrirgreiðslu og gæði lánaákvarðana, frágang lánasamninga og talningar lánaskjala. Gerðar voru athugasemdir við innheimtu þóknana vegna ábyrgða og utanumhald ábyrgða sparisjóðsins og að ekki var fyrir hendi listi yfir venslaða aðila í samræmi við skilgreiningu Fjármálaeftirlitsins á vensluðum aðilum og 27. gr. starfsreglna stjórnar. Meðferð vanskila og innheimtu væri ekki í föstum skorðum og skýr fyrirmæli um afskriftir útlána vantaði.77 Sömuleiðis var bent á veikleika í innra eftirliti með innlánum; að samningar um greiðsluþjónustu væru ekki ávallt undirritaðir; að tölvupóstsamskipti við viðskiptavini væru ekki vistuð á aðgengilegan hátt; og að áreiðanleikakönnun væri ekki alltaf framkvæmd við stofnun nýrra innlánsreikninga.78

Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2011 voru gerðar athugasemdir við áreiðanleika og gæði skýrslna og störf stjórnar sparisjóðsins. Athugasemdir voru gerðar við að fundargerðir væru ekki ávallt samþykktar og undirritaðar af öllum stjórnarmönnum. Í fundargerðum stjórnar væri ekki að finna umfjöllun um áhættustýringu og innra eftirlit, yfirferð innherjalista, lista yfir venslaða og tengda aðila og skýrslu regluvarðar. Reglur sparisjóðsins um útlán og ábyrgðir og starfsreglur stjórnar höfðu ekki verið uppfærðar. Innri endurskoðun taldi að stjórnin ætti að setja sér starfsáætlun til að tryggja að hún tæki til umfjöllunar öll þau málefni sem tilgreind væru í starfsreglum stjórnar, auk þeirra atriða sem fram kæmu í lögum, reglum og leiðbeinandi tilmælum um fjármálafyrirtæki. Þá benti innri endurskoðun á að starfsreglur stjórnar þyrfti að uppfæra og bæri að taka mið af leiðbeiningum Viðskiptaráðs um góða stjórnarhætti, svo og lögum, reglum og leiðbeinandi tilmælum. Í sömu skýrslu voru einnig gerðar athugasemdir við aðgang starfsmanna að upplýsingakerfum sparisjóðsins og taldi innri endurskoðandi að koma þyrfti á eftirlitsferli yfir aðgang starfsmanna og reglulegri yfirferð stjórnenda. Bent var á að engar skriflegar reglur lægju fyrir um varðveislu gagna og taldi innri endurskoðandi að formfesta þyrfti aðgang starfsmann að gögnum sparisjóðsins.79 Einnig voru gerðar athugasemdir vegna bókhaldsafstemmingar og eigin reikninga.

 


 

1 . Tilkynning um staðfestan samruna sparisjóðanna barst fyrirtækjaskrá þó ekki fyrr en 1. júní 2012. Þá var óskað eftir því að Sparisjóður Skagafjarðar yrði afskráður úr fyrirtækjaskrá.

2 . Tilkynning um breytingu á nafni félags til fyrirtækjaskrár, móttekin 23. apríl 2008.

3 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

4 . Um launaþróun sparisjóðanna í heild er fjallað í 8. kafla.

5 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

6 . „Sparisjóður Skagafjarðar“, spar.is, http://www.spar.is/spsk--skagafjordur/sparisjodur-skagafjardar.

7 . Sparisjóður Siglufjarðar og Sparisjóður Skagafjarðar sameinuðust ekki fyrr en á árinu 2008 og má því sjá skiptingu milli sparisjóðanna tveggja á árunum 2005–2007.

8 . Um skilgreiningu á eigin fé vísast til 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

9 . Í reglunum kom þó ekki fram hvaða starfsmenn töldust vera „í framlínu“.

10 . Nánari umfjöllun um aðferðafræði, forsendur og gögn má finna í 8. kafla, um útlán sparisjóðanna.

11 . Reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán, ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðrar fyrirgreiðslur hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laga nr. 161/2002 og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.

12 . Lánahópur samanstendur af tveimur eða fleiri viðskiptamönnum sem eru fjárhagslega tengdir í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

13 . Félögin voru ekki skilgreind sem fjárhagslega tengdir aðilar í skýrslu sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar í árslok 2006.

14 . Í endurskoðunarskýrslunni vegna ársins 2006 kom fram að félögin væru fjárhagslega tengdir aðilar samkvæmt þágildandi reglum nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar.

15 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

16 . Ársreikningi fyrir árið 2011 hefur ekki verið skilað.

17 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

18 . Síðar leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2010 um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, endurskoðun á leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2006.

19 . Miðað var við 20% lágmarks eignarhlut.

20 . Mögulegt er að ekki hafi öll útlán komið fram í útlánagrunni sparisjóðsins og eru upplýsingarnar því settar fram með þeim fyrirvara.

21 . Mögulegt er að ekki hafi öll útlán komið fram í útlánagrunni sparisjóðsins og eru upplýsingarnar því settar fram með þeim fyrirvara.

22 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5, 9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.

23 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Siglufjarðar 2001.

24 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

25 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Siglufjarðar 2001.

26 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Siglufjarðar 2005.

27 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013; tölvuskeyti Ólafs Jónssonar til rannsóknarnefndar 21. maí 2013. Í ársreikningum Sparisjóðs Mýrasýslu var eignarhlutinn bókfærður á 109 milljónir króna. Samtala hlutar Afls sparisjóðs og Sparisjóðs Mýrasýslu var 9,4% af eiginfjárgrunni Sparisjóðs Mýrasýslu í árslok 2007.

28 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013; tölvuskeyti Ólafs Jónssonar til rannsóknarnefndarinnar 21. maí 2013.

29 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

30 . Lausafjáryfirlit Afls-sparisjóðs, greining sem skilað var til Seðlabanka Íslands frá janúar 2005 til desember 2011.

31 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.

32 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

33 . Þetta átti eingöngu við um Sparisjóð Siglufjarðar. Sparisjóður Skagafjarðar nýtti sér ekki þessa fjármögnunarleið.

34 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

35 . Um þetta verkefni er fjallað í 11. kafla.

36 . Tölvuskeyti Kristjáns Óskarssonar, framkvæmdastjóra hjá Glitni banka, til Gísla Kjartanssonar sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Mýrasýslu 18. maí 2006. Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar frá 1. nóvember 2013 sagði sparisjóðsstjóri Afls sparisjóðs að um 90 milljónir af kaupverðinu hefðu verið visðkiptavild, það sem eftir var var mismunur eigna og skulda.

37 . Samningur um samstarf vegna innheimtuverkefnis og tengda þjónustu við Íbúðalánasjóð í tengslum við samning milli Fjárvaka ehf. og Íbúðalánasjóðs, 25. maí 2000.

38 . Í umsókninni tilgreindi Kaupfélag Skagfirðinga á hverju áhugi þess á eignaraðild að Sparisjóði Hólahrepps byggðist. Kaupfélagið hefði rekið stóra innlánsdeild en innlánsdeildir hefðu týnt tölunni á næstliðnum árum. Kaupfélagið horfði frekar til þess að Sparisjóður Hólahrepps tæki við hlutverki innlánsdeildarinnar en að stóru bankarnir sem þá höfðu verið einkavæddir fengju það hlutverk. Það væri einnig skoðun kaupfélagsins að rekstrartækifæri sparisjóðanna á landsbyggðinni hefðu verið að aukast.

39 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Hólahrepps 10. september 2003.

40 . Til vara voru kosnir Birgir Gunnarsson, Páll Sigurðsson, Lárus Dagur Pálsson, Sigurður Þorsteinsson og Sigurður Guðmundsson.

41 . Á fundinum var farið yfir mat Fjármálaeftirlitsins á rekstri sjóðsins og þróun helstu áhættuþátta. Farið var yfir áhættumat og álagspróf Fjármálaeftirlitsins og drög að reglum um viðmið við ákvörðun um hærra eiginfjárhlutfall einstakra lánastofnana. Jafnframt var rætt um ágreining um framtíð sjóðsins og formaður stjórnar fór yfir stöðu mála varðandi drög að samkomulagi um framtíð sparisjóðsins.

42 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Hólahrepps, 25. júní 2004.

43 . Skýrsla Kristjáns Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

44 . Þar á meðal framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Skagfirðings og maki hans, maki kaupfélagsstjórans, aðstoðarkaupfélagsstjórinn og maki hans.

45 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Skagafjarðar, 23. nóvember 2004.

46 . Valgeir Bjarnason lagði fram bókun um þetta og er svo að skilja af fundargerð að hann hafi talið Sparisjóð Mýrasýslu og Sparisjóð Ólafsfjarðar með í hópnum sem fara ætti sameiginlega með 5% atkvæða.

47 . Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 9. júní 2005 í máli nr. E-45/2005.

48 . Kaupfélag Skagfirðinga sótti um heimild til Fjármálaeftirlitsins 28. febrúar 2003 til að fara með virkan eignarhlut í Sparisjóði Hólahrepps vegna félaga innan samstæðu Kaupfélagsins, Fiskiðju Sauðárkróks ehf., Fiskiðjunnar Skagfirðings hf., Vörumiðlunar ehf. og Elements hf.

49 . Skýrsla Kristjáns Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 24. maí 2013.

50 . Samningur um innheimtu og tengda þjónustu milli Íbúðalánasjóðs og Fjárvaka ehf., 28. október 1999.

51 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Siglufjarðar, 13. ágúst 2007.

52 . „Samruni Sparisjóðs Skagafjarðar og Sparisjóðs Siglufjarðar“, fme.is 10. mars 2008, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/366.

53 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

54 . Ársreikningur Afls sparisjóðs 2008.

55 . Ársreikningur Afls sparisjóðs 2008.

56 . Samkvæmt ársreikningi Afls sparisjóðs hækkaði eiginfjárhlutfallið í 9,5%.

57 . Fundargerð stjórnar Afls sparisjóðs, 31. mars 2009.

58 . Fundargerð stjórnar Afls sparisjóðs, 31. mars 2009.

59 . Samkvæmt ársreikningi Afls sparisjóðs fyrir árið 2009 var eignarhlutur Arion banka hf. í lok árs 2009 94,4%. Í athugasemdum Ólafs Jónssonar sparisjóðsstjóra til rannsóknarnefndarinnar 1. nóvember 2013 kom fram að eftir stofnfjáraukninguna hefði hlutur Sparisjóðs Mýrasýslu verið 92,06% en Arion banki hf. hefði svo aukið við hlutinn og eignarhlutdeildin því breyst fram að árslokum.

60 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

61 . Nánari umfjöllun er að finna í 20. kafla, um Sparisjóð Mýrasýslu.

62 . Ársreikningur Afls sparisjóðs 2009.

63 . Ársreikningur Afls sparisjóðs 2010.

64 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

65 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

66 . Skýrsla Ólafs Jónssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 17. maí 2013.

67 . Álitsgerð Helga Sigurðssonar hrl., 31. janúar 2013.

68 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.

69 . Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

70 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

71 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

72 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Siglufjarðar 2005, 6. febrúar 2006.

73 . Í athugasemdum Ólafs Jónssonar sparisjóðsstjóra til rannsóknarnefndarinnar 1. nóvember 2013 benti hann á að innri endurskoðun hefði verið í höndum KPMG endurskoðunar hf. 2009 og 2010.

74 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Siglufjarðar 2005, 6. febrúar 2006.

75 . Skýrsla innri endurskoðunar Sparisjóðs Mýrasýslu um innri endurskoðun Sparisjóðs Siglufjarðar 2006.

76 . Skýrsla KPMG endurskoðunar hf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Siglufjarðar 2007, 12. október 2007.

77 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Afls sparisjóðs 2011, 10. febrúar 2012.

78 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Afls sparisjóðs 2011, 10. febrúar 2012.

79 . Skýrsla Deloitte hf. um innri endurskoðun Afls sparisjóðs 2011, 10. febrúar 2012.