9. kafli Eigið fé íslenska fjármálakerfisins

9.1 Inngangur

Í kafla 7.0 var fjallað um skuldahlið íslensku bankanna og í kafla 8.0 var fjallað um útlán þeirra en þau eru uppistaðan í eignasöfnum bankanna. Í þessum kafla er fjallað um þriðja lykilþáttinn í efnahag banka, eigið fé. Umfjöllunin miðar aðallega að því að greina gæði þess eigin fjár sem til staðar var í íslensku bönkunum og varpa ljósi á mögulega veikleika þess. Þannig er hér leitast við að skýra tiltekna fjármálagjörninga og reynt að draga upp heildarmynd af áhrifum þeirra á styrk bankanna.Að miklu leyti tengist umfjöllun þessa kafla umfjöllun um útlánasafn bankanna. Þá telst víkjandi fjármögnun vera þáttur í eiginfjárgrunni banka, svo að umfjöllun þessa kafla kallast á við umfjöllun í köflum 7.0 og 8.0. Fjallað er um veð tekin í eigin hlutabréfum í kafla 11.2 í samhengi við hvernig ytri endurskoðun og reikningsskilum íslensku bankanna var háttað. Umfjöllunin hér skarast að nokkru á við umfjöllun þess kafla um túlkun á reglum um eigið fé en hún er nauðsynleg hér til þess að undirbyggja greiningu kaflans.

Töluleg greining kaflans byggist að mestu á gögnum um útlán og veð móðurfélaga bankanna sem lýst er nánar í kafla 8.0.

9.2 Hlutverk eigin fjár og tilgangur reglna um það

Fjármögnun fyrirtækja skiptist í grundvallaratriðum í tvennt, lánsfé og eigið fé. Í upphafi er eigið féð einfaldlega það sem hluthafar leggja inn í félagið en eftir því sem líður á rekstur fyrirtækisins safnast upp hagnaður, eða tap, sem leggst við eigið féð en arður sem fyrirtækið greiðir eigendum sínum dregst frá. Það sem ávallt helst fast er að eigið fé fyrirtækisins er virði eigna þess umfram virði skulda og skuldbindinga sem það hefur tekið á sig. Eigið fé lýsir þannig hversu mikið eignir félagsins mega rýrna áður en þær verða minna virði en skuldirnar. Eigið fé félags er í raun ákveðinn stuðpúði og vörn fyrir lánveitendur félagsins gagnvart tapi þess. Hversu sterk vörn, og trygging fyrir skilum skulda, eigið fé er veltur hins vegar umfram allt á því hversu hátt eigið féð er sem hlutfall af skuldum. Þess vegna eru skuldahlutföll mikið notuð við greiningu á fyrirtækjum, styrk þeirra og skuldsetningu. Oft er miðað við skuld sem hlutfall af eigin fé og jafnframt skuldir sem hlutfall af heildarfjármögnun (sem er skuldir og eigið fé).

Bankar eru almennt skuldsettari en önnur félög enda er það frumhlutverk þeirra að fá fjármagn að láni frá sparifjáreigendum og lána það áfram til frumkvöðla og annarra sem geta nýtt það í arðbærar fjárfestingar. Lán sem bankar fá eru oft í formi innlána og flest stjórnvöld hafa einhverjar ráðstafanir til þess að tryggja innlán, beint eða óbeint. Þetta skapar hvata til áhættusækni fyrir banka sem nánar er fjallað um í kafla 8.3 og kafla 17.0. Reglur um lágmarks eigið fé fjármálafyrirtækja hafa því þann megintilgang að koma í veg fyrir að of mikil áhætta sé tekin í rekstri fjármálafyrirtækja og treysta stöðugleika fjármálakerfisins. Allt til ársins 1988, þegar Basel nefndin gaf út Basel-I reglurnar voru ekki til neinar samræmdar alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja. Reglurnar voru því mismunandi milli einstakra landa, bæði um lágmarks eiginfjárhlutfall og aðferðafræði við útreikning á eiginfjárhlutfalli. Þetta hafði í för með sér ójafnræði meðal fjármálafyrirtækja einstakra landa og ýtti undir óheilbrigða samkeppni. Markmið Basel-I reglnanna var því meðal annars að jafna samkeppnisaðstöðu fjármálafyrirtækja með samræmdum og stöðluðum reglum og þar með að draga úr hættu á óheilbrigðri samkeppni.

Eigið fé fjármálafyrirtækja hefur eðli máls samkvæmt mikil áhrif á möguleika þeirra til að fjármagna rekstur sinn og þar með möguleika þeirra til að stækka. Samsetning eigin fjár og eiginfjárhlutfall spilar þannig stórt hlutverk í að auka trúverðugleika fjármálafyrirtækja gagnvart fjárfestum þegar þau markaðssetja eigin skuldarviðurkenningar gagnvart innlendum og erlendum fjárfestum. Samsetning eigin fjár og eiginfjárhlutfall hefur einnig áhrif á mat greiningaraðila á verðmæti eignarhluta fjármálafyrirtækja. Það er því ljóst að samsetning eigin fjár og eiginfjárhlutfall er grundvallarstærð í rekstri fjármálafyrirtækja.

9.3 Gildandi reglur og bakgrunnur þeirra

Reglur um lágmarks eigið fé fjármálafyrirtækja hafa bein áhrif á möguleika þeirra til að taka áhættu því að öll útlán og fjárfestingar í fjármálagerningum mynda áhættu sem hækkar áhættugrunn fjármálafyrirtækja og lækkar þar með eiginfjárhlutfall þeirra ef eiginfjárgrunnur er ekki hækkaður samhliða. Fjallað er um eigið fé fjármálafyrirtækja í X. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Lögin eru að grunni til byggð á CAD-tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/49/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/ EB um lánastofnanir. Ákvæði síðastnefndra tilskipana um eigið fé byggjast aftur á viðmiðunum sem samin voru af Basel-nefndinni og kallast Basel-II reglurnar (eða staðlarnir) en þeir fólu í sér nánari útfærslu og umtalsverða viðbót við Basel-I reglurnar frá 1988 sem voru innleiddar hér á landi 1992. Basel-II reglurnar voru innleiddar hér á landi með setningu laga nr. 170/2006, til breytinga á lögum nr. 161/2002, og með reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja.

9.4 Eigið fé og eiginfjárhlutfall

9.4.1 Almennt

Til að skilja reglur um eigið fé og eiginfjárhlutfall þarf að átta sig á tveimur grundvallarhugtökum. Annars vegar er þar um að ræða svokallaðan eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækja og hins vegar áhættugrunn. Eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja er reiknað út frá þessum tveimur stærðum. Eiginfjárhlutfallið er þannig hlutfall eiginfjárgrunns af áhættugrunni.

9.4.2 Eiginfjárgrunnur

9.4.2.1 Samsetning eiginfjárgrunns

Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 skal eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis, eins og hann er skilgreindur í 4. mgr. 84. gr., á hverjum tíma nema að lágmarki 8% af áhættugrunni. Eiginfjárgrunnurinn sem notaður er til að reikna út eiginfjárhlutfallið samanstendur af þremur þáttum; eiginfjárþætti A, eiginfjárþætti B og eiginfjárþætti C, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002:

Eiginfjárhlutfall = Eiginfjárgrunnur deilt með Áhættugrunnur

Eiginfjárþáttur A skal að lágmarki vera 50% af eiginfjárgrunni og samanstendur af innborguðu hlutafé, varasjóðum, yfirverðsreikningi hlutafjár, endurmatsreikningi samkvæmt verðbólgureikningsskilum og óráðstöfuðu eigin fé.

Fjármálaeftirlitið hefur með stoð í 10. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 ákveðið að fjármálafyrirtækjum sé heimilt að gefa út víkjandi skuldabréf sem teljast með eiginfjárþætti A. Slík skuldabréf þurfa að fullnægja ýmsum skilyrðum sem eru skilgreind í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 156/2005 og mega mest nema 33% af eiginfjárþætti A. Síðastnefnt hlutfall mátti lengi vel hæst vera 15% en var hækkað upp í 33% við útgáfu reglna nr. 156/2005, sbr. umfjöllun um víkjandi lán í kafla 7.0.

Eiginfjárþáttur B má samkvæmt 2. tölul. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 hæst nema 50% af eiginfjárþætti A og samanstendur af víkjandi lánum sem fjármálafyrirtæki taka með útgáfu skuldarviðurkenninga þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi styttri en fimm ár, sbr. 6. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Lánið þarf samkvæmt síðastnefndu ákvæði að vera víkjandi í þeim skilningi að við gjaldþrot fjármálafyrirtækis eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fyrirtækinu en endurgreiðslu hlutafjár/stofnfjár. Ákveðnar reglur gilda um að hvaða marki heimilt er að telja slík lán til eiginfjárgrunns, að teknu tilliti til eftirstöðva láns á hverjum tíma.

Eiginfjárþáttur C má samkvæmt 3. tölul. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. Jafnframt má hann hæst nema 4,8% af reiknuðum áhættugrunni vegna markaðsáhættu liða í veltubók samkvæmt 28. gr. laga nr. 161/2002 (virkir eignarhlutir) og gengisáhættu. Eiginfjárþáttur C samanstendur af víkjandi lánum sem eru sambærileg við þau lán sem falla undir eiginfjárþátt B að öðru leyti en því að lánstími má ekki vera styttri en 3 ár.

9.4.2.2 Helstu frádráttarliðir frá eiginfjárgrunni

a) Frádráttur eigin hluta frá eiginfjárþætti A

Frá eiginfjárþætti A dragast eigin hlutabréf (stofnfjárbréf í tilviki sparisjóða), viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir og tap og samþykkt arðsúthlutun. Í ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis í kafla 11.2.12, þar sem fjallað er um reikningsskil bankanna og ytri endurskoðun þeirra, er því lýst að veigamikil rök leiði til þeirrar niðurstöðu að draga hafi borið lán, sem einvörðungu voru tryggð með veði í eigin hlutabréfum, frá eigin fé fjármálafyrirtækis samkvæmt reglu 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Þessi sjónarmið eru jafnframt reifuð í rammagrein um túlkun á því hvað teljist til eigin hlutabréfa.

b) Frádráttur vegna eignarhluta í öðrum fjármálafyrirtækjum og atvinnurekstri

Í 85. gr. laga nr. 161/2002 er kveðið á um lækkun á eiginfjárgrunni vegna eignarhluta sem fjármálafyrirtæki kann að eiga í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði. Frádráttarreglan virkar þannig samkvæmt 1. mgr. 85. gr. að ekki kemur til frádráttar ef fjármálafyrirtæki á minna en 10% af hlutafé annars fjármálafyrirtækis. Eigi viðkomandi félag hins vegar eignarhluti í mörgum fjármálafyrirtækjum, sem eru undir 10% af hlutafé viðkomandi félaga, myndast frádráttur ef samtala bókfærðs virðis slíkra eignarhluta er hærri en 10% af eiginfjárgrunni viðkomandi félags fyrir. Sú fjárhæð sem er umfram þessi mörk dregst þá frá eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Sama regla gildir um víkjandi kröfur sem fjármálafyrirtæki kann að eiga á hendur öðrum fjármálafyrirtækjum. Ákvæðið gildir eingöngu ef önnur fjármálafyrirtæki teljast ekki til hluta af samstæðu viðkomandi félags. Eignarhlutur í dótturfélögum myndi þannig ekki dragast frá eiginfjárgrunni eða víkjandi kröfur á hendur slíku félagi. Fjármálaeftirlitið getur einnig veitt undanþágu frá ofangreindri reglu ef fjárfesting í hlutum í öðru fjármálafyrirtæki er hugsuð sem fjárhagsaðstoð við endurskipulagningu eða til að bjarga viðkomandi félagi.

Samkvæmt 1. til 3. mgr. 28. gr. laga nr. 161/2002 mega fjármálafyrirtæki ekki eiga virka eignarhluti í einstökum fyrirtækjum, sem eru ekki fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði, sem nema hærri fjárhæð en 15% af eiginfjárgrunni. Þrátt fyrir orðalag síðastnefnds ákvæðis er sérstaklega tekið fram að fjármálafyrirtækjum sé heimilt að fara yfir síðastnefnt hlutfall en áhrifin séu þau að sú fjárhæð sem er umfram mörkin sé þá dregin frá eiginfjárgrunni þess. Fari bókfært virði samanlagðra virkra eignarhluta yfir 60% af eiginfjárgrunni dregst sú fjárhæð sem er umfram frá grunninum. Bókfært virði slíkra eignarhluta má aldrei vera hærra en 100% af eiginfjárgrunni.

9.4.3 Áhættugrunnur

Eignir fjármálafyrirtækja eru af ýmsum gerðum og stærðum. Getur þar verið um útlán að ræða, innlánskröfur á önnur fjármálafyrirtæki, eignarhluti í fyrirtækjum, fjármálagerninga af ýmsum stærðum og gerðum, erlendan gjaldeyri, hrávörur, fasteignir o.s.frv. Öllum þessum eignum fylgir einhver áhætta sem reglum um áhættugrunn er ætlað að mæla. Því áhættumeiri sem eignin er, þeim mun meira eigið fé bindur hún hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki og má hlutfall eigin fjár aldrei fara undir 8% af áhættugrunni. Áhættuvogun einstakra eigna er sett fram í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007, eftir því hvort svokölluð staðalaðferð er notuð (e. standardised approach) eða innrimatsaðferð (e. Internal Rating Based approach, skammstafað IRB aðferð). Auk þess er rekstraráhætta til staðar hjá fjármálafyrirtækjum sem er mæld eftir ákveðinni aðferðafræði samkvæmt reglum um eiginfjárgrunn, sbr. IX. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007. Áhættugrunnurinn er þannig samtala af ýmsum áhættuþáttum í rekstri fjármálafyrirtækja, þar með talið útlánaáhættu, hlutabréfaáhættu, vaxtaáhættu, gjaldmiðlaáhættu, rekstraráhættu o.fl.

Túlkun á því hvað telst til "eigin hlutabréfa"

Eins og nánar er lýst í kafla 9.5 var sú framkvæmd við lýði hjá stóru bönkunum þremur að eigin hlutir, sem lánað var fyrir og teknir voru að veði, voru ekki dregnir frá eigin fé. Af þessu tilefni tók rannsóknarnefnd Alþingis sérstaklega til skoðunar réttmæti þessa og þá einkum þegar litið er til þess hversu umræddar lánveitingar til kaupa á eigin hlutabréfum og veðsetning þeirra var orðin umfangsmikil hjá bönkunum, og þar með hversu stór hluti af því eigin fé sem bankarnir studdust við byggðist á hinum veðsettu hlutabréfum. Í ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis í kafla 11.2.12, þar sem fjallað er um reikningsskil bankanna og ytri endurskoðun þeirra, áréttar nefndin að veigamikil rök leiði til þeirrar niðurstöðu að draga hafi borið lán, sem einvörðungu voru tryggð með veði í eigin hlutabréfum, frá eigin fé fjármálafyrirtækis, samkvæmt reglu 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Er þar sérstaklega horft til þess að ef eigin hlutir, sem teknir hafa verið að veði gegn lánum, eru ekki dregnir frá innborguðu hlutafé lítur út fyrir að eigið fé viðkomandi fjármálafyrirtækis sé hærra en það raunverulega er ef á það reynir. Í kafla 11.2.12 er jafnframt gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu nefndarinnar að veigamikil rök leiði til þess að ef þriðji aðili er skráður eigandi að hlutabréfum í fjármálafyrirtæki skuli meðhöndla slíka hluti sem eigin hluti í skilningi 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 ef þriðji maður er eigandi "fyrir reikning félagsins".Við mat á því hvenær telja megi að þriðji maður sé eigandi "fyrir reikning félagsins" verður eðli máls samkvæmt fyrst og fremst að horfa til þess hver ber áhættuna af viðkomandi hlutum. Ef það er félagið sjálft verður að mati nefndarinnar að líta svo á að þriðji maður sé eingöngu skráður fyrir þeim "fyrir reikning félagsins" og því beri að meðhöndla þá sem eigin hluti. Undir eigin hluti myndu að mati nefndarinnar einnig falla tilvik þar sem um málamyndaframsal væri að ræða á eigin hlutum.Annað dæmi er ef þriðji aðili er einhvers konar vörsluaðili fyrir fjármálafyrirtæki á eigin hlutum til að mæta skuldbindingum þess samkvæmt kaupréttarsamningum sem það hefur gefið út. Þegar litið er til þeirra sjónarmiða sem lýst er í kafla 11.2.12 um ástæður og eðli frádráttar eigin hluta frá innborguðu hlutafé telur rannsóknarnefndin að sú regla geti einnig eftir atvikum átt við um lán, sem væri veitt til kaupa á eigin hlutum án þess að nokkrar tryggingar væru settar, hafi lántaki fyrirsjáanlega ekki verið í stakk búinn til þess að endurgreiða lánið með eigin fjármagni eða fyrirsjáanlegum rekstrartekjum.Við slíkar aðstæður hefur útgreiðsla fjármagns átt sér stað í tengslum við viðskipti með eigin hluti án þess að endurgjald fyrir hlutina sé fyrirsjáanlegt.

9.5 Framkvæmd fjármálafyrirtækja á reglum um eigið fé vegna eigin hluta

Við úttekt rannsóknarnefndarinnar kom í ljós að fjármálafyrirtæki túlkuðu það hvað félli undir eigin hlutabréf í skilningi 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 almennt þrengra en nefndin telur að veigamikil rök standi til og lýst var í kafla 9.4.2 hér að framan. Í svörum við fyrirspurnum rannsóknarnefndar Alþingis um frádrátt frá eigin fé kemur til dæmis fram að hjá Glitni, Kaupþingi og Landsbanka voru eigin hlutir sem lánað var fyrir ekki dregnir frá eigin fé. Kaupþing túlkaði þó reglurnar víðar en hinir bankarnir tveir hvað varðar eign í öðrum fjármálafyrirtækjum enda dró bankinn frá eigin fé bæði alla hluti sem bankinn átti í öðrum fjármálafyrirtækjum og víkjandi kröfur á önnur fjármálafyrirtæki. Þá var túlkun bankanna á eigin hlutum mismunandi milli Kaupþings annars vegar og Glitnis og Landsbanka hins vegar varðandi framvirka samninga um eigin bréf. Kaupþing taldi þá hluti sem bankinn átti í eigin hlutabréfum til varnar framvirkum samningum til eigin hluta og dró þá frá eigin fé. Glitnir og Landsbankinn höfðu aftur á móti þann háttinn á að eign í eigin hlutabréfum til varnar framvirkum samningum var í sérstökum félögum, taldist ekki til eignar bankanna og var því ekki dregin frá eigin fé.

Rammagrein 1 fjallar um túlkun á hvað teljist til eigin hluta. Rannsóknarnefnd Alþingis telur rök standa til að við útreikning á frádrætti frá eigin fé fjármálafyrirtækis skipti ekki máli hvert hafi verið form viðskipta með eigin hluti eða formleg eignaskráning, svo lengi sem áhættan liggur hjá fjármálafyrirtækinu sjálfu.

Hér á eftir eru nefnd fimm dæmi til skýringar um tilvik þar sem ætla verður að túlkun á því hvað teljist til eigin hluta við útreikning á eigin fé hefði átt að skipta máli. Dæmin eru nokkuð mismunandi en eiga það öll sameiginlegt að tapsáhætta vegna eigin bréfa lá hjá bönkunum.

Dæmi 1:

Vorið 2001 ráðgerði Kaupþing að selja eigin hluti sem næmu um 7% af útgefnu hlutafé bankans á þeim tíma. Ekki var um að ræða sölu til ytri fjárfesta heldur skyldi Kaupþing sjálft fjármagna hlutaféð og bankinn bera alla áhættu af hlutabréfunum. Lykilfélag í gjörningnum var LB Holding, félag skráð á Ermarsundseyjunni Guernsey og formlega sjálfstætt félag en undir stjórn Landsbankans, eins og fram kemur í kafla 10.0. Í glærukynningu Stefáns H. Stefánssonar, starfsmanns Landsbankans, dags. 27. apríl 2001, er viðskiptunum lýst á eftirfarandi hátt.

Samkvæmt glærukynningunni átti Kaupþing að selja hluti sem næmu á bilinu 5–7% af útgefnu hlutafé bankans til LB Holding. Kaupþing átti sjálft að lána LB Holding fyrir kaupunum. Af glærukynningunni má ráða að Kaupþing átti hins vegar áfram að bera verðáhættu af bréfunum og til þess skyldi gerður 18 mánaða skiptasamningur um að bankinn fengi hagnað eða tap af verðbreytingu bréfanna sem og arðgreiðslur vegna þeirra. Þeir sem að samningunum stóðu töldu að ekki væri gerlegt út frá reikningsskilastöðlum að skiptasamningurinn væri milli Kaupþings og kaupanda bréfanna og því þyrfti milligönguaðila. Þessi sjónarmið eru reifuð í tölvubréfi 29. apríl 2001 frá Sigurjóni G. Geirssyni, starfsmanni Landsbankans, til Stefáns: "Grundvallaratriði er að samningurinn um CFD [skiptasamningurinn] er gerður við aðila sem er annar en kaupandinn á bréfunum, þ.e. er gerður samningur við Landsbankann en kaupandinn bréfanna LB Holding – Ef það væri ekki gert myndi þessi gjörningur falla á alþjóðlegum reikningsskilareglum sem taka á því hvenær "sala" hefur átt sér stað ( þ.e. sem kemur í veg fyrir að hægt sé að parkera eignum út tímabundið – með gervisamningum."Því átti LB Holding að gera skiptasamning við Landsbankann þar sem LB Holding greiddi Landsbankanum ávöxtun af hlutabréfum Kaupþings en fengi greiddan vaxtakostnað vegna bréfanna. Síðan gerði Landsbankinn samsvarandi samning við Kaupþing. Þar með væri öll áhætta vegna hlutanna flutt aftur til Kaupþings. 18 mánuðum síðar skyldi svo Kaupþing (eða einhver annar ótiltekinn aðili) kaupa hlutabréfin til baka og LB Holding endurgreiða skuldina. Í lok glærukynningarinnar er heildaráhrifum gjörningsins lýst á þann hátt að lagalega færist eignarhald bréfanna, atkvæðisréttur og réttur til arðgreiðslna til LB Holding. Bókhaldslega selji Kaupþing 5–7% hlut til LB Holding sem fái arðgreiðslur. Hagræn áhrif samningsins verði hins vegar þau að Kaupþing beri alla fjárhagslega áhættu í gegnum skiptasamninginn. Miðað við drög að samningum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum og tölvubréf sem gekk milli starfsmanna Landsbankans virðast þessir samningar hafa verið gerðir 10. eða 11. maí 2001. Þó virðist aðeins 4,9% hlutur í Kaupþingi hafa verið seldur en tekið var fram í tölvubréfinu að til stæði "að gera samhljóða samninga milli LÍ, Kaupþings og? (nýtt félag eins og LB-Holding), um sölu á 2,1% hlutafjár í Kaupþingi".Leiða má líkur að því að ákveðið hafi verið að skipta 7% sölunni í tvennt þar sem flöggunarreglur krefðust tilkynningar ef eitt félag keypti 5% eða meiri hlut í félaginu. Þess má geta að í júní sama ár gaf Kaupþing út 200 milljónir nýrra hluta, sem nam þá 2,48 milljörðum króna.

Dæmi 2:

Í svari Glitnis banka hf. við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar, sem lýst var í upphafi kafla 9.5, voru þeir eigin hlutir sem viðskiptavinir keyptu með láni frá bankanum ekki dregnir frá eigin fé við útreikning samkvæmt 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Hér á eftir verður gerð grein fyrir máli sem gefur tilefni til að hugað sé að því hvort þar hefði átt að fylgja þeirri túlkun sem rannsóknarnefndin hefur fært rök fyrir um það þegar lán voru veitt sem einvörðungu voru tryggð með veði í eigin hlutabréfum fjármálafyrirtækis. Mál þetta varðar lánveitingu til Stíms ehf. (og síðar fjögurra dótturfélaga þess) til kaupa á hlutabréfum, bæði í bankanum sjálfum og FL Group hf. Um það er nánar fjallað í kafla 12.0. Veð var tekið í hlutabréfum FL Group sem keypt voru en formlega var tekið veð í hlutum í Stím ehf. (og dótturfélögum þess) í stað þess að taka veð beint í hinum keyptu hlutabréfum í Glitni. Engar aðrar tryggingar stóðu hins vegar að baki lánafyrirgreiðslunni. Áhættan af lánafyrirgreiðslunni að því er varðar hlutabréfin í Glitni banka hf. var þannig af eigin hlutum þótt hún hafi að formi til verið tryggð með veði í hlutum í Stími ehf. en af þeim tæpu 25 milljörðum sem Stím keypti hlutabréf fyrir var um þriðjungur notaður til kaupa á hlutabréfum FL Group en tveir þriðju til kaupa á hlutabréfum Glitnis. Þegar kom að áhrifum á eigið fé bankans var aðstaðan því sambærileg og ef um hefði verið að ræða lán beint gegn veði í eigin hlutum.

Dæmi 3:

Í apríl 2007 keypti Kjarrhólmi ehf.37,57% í Tryggingamiðstöðinni hf.FL Group hf.átti þá 45% í Kjarrhólma ehf.,Sund ehf.átti 45% og Imon ehf. og Sólstafir ehf. áttu hvort sín 5%.Í september sama ár keypti FL Group hf. félögin Sund ehf., Imon ehf. og Sólstafi ehf. út úr Kjarrhólma ehf. og náði þar með öllum eignarhlutum félagsins í Tryggingamiðstöðinni hf. Í sama mánuði festi Glitnir banki hf. kaup á 39,8% hlut í tryggingafélaginu sem síðar var seldur til FL Group hf. Eftir því sem leið á haustið jók FL Group jafnt og þétt hlut sinn í Tryggingamiðstöðinni hf. og hafði í lok ársins eignast 99,9% hlut í félaginu.

Kaup Glitnis banka hf. á tæplega 40% hlut í Tryggingamiðstöðinni hf. námu um 20 milljörðum króna og voru hlutirnir keyptir frá nokkrum aðilum. Stærsti aðilinn sem seldi var Kristinn ehf., félag að 99,8% í eigu Guðbjargar M. Matthíasdóttur, í gegnum félögin Fram ehf. og Ísfélag Vestmannaeyja hf. 60% hlutur kaupverðsins var greiddur með reiðufé en 40% með hlutabréfum í Glitni banka hf.Til þess að Kristinn ehf. bæri takmarkaða áhættu af lækkun hlutabréfanna gerðu félagið og Glitnir banki hf. samning um kaup- og sölurétt. Kristinn ehf. hafði rétt til þess að selja helming hlutabréfanna í Glitni banka hf. ári síðar á genginu 32,7 sem nam þá 4,15 milljörðum króna. Á móti átti Glitnir banki hf. rétt til þess að kaupa bréfin á sama verði. Þekkt er að þegar einn aðili fær kauprétt en mótaðilinn fær sölurétt á sama verði jafngildir það framvirkum samningi.Því greiddi Glitnir banki hf. Kristni ehf. í raun með eigin bréfum en gerði á sama tíma samning um að kaupa bréfin til baka. Þessi gerningur var því í raun samsvarandi þeim sem Kaupþing hf., Landsbanki Íslands hf. og LB Holding gerðu árið 2001 og lýst er hér að framan í dæmi 1. Staðan sem upp var komin var sú sama í báðum tilvikum, þ.e. bankinn var skuldbundinn til þess að kaupa eigin bréf til baka. Öll áhættan af bréfunum var þannig hjá bankanum sjálfum og þar með var komin upp staða hliðstæð þeim tilvikum þar sem rannsóknarnefndin hefur fært rök fyrir því að meðhöndla ætti slík bréf sem eigin hlutabréf við frádrátt samkvæmt 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002.

Samkvæmt samningnum var innlausnartímabilið frá 25. september til 27. september 2008. Í september 2008 ábyrgðist bankinn með skaðleysisyfirlýsingu að Kristinn ehf. myndi ekki bera tap af lækkun bréfanna allt til 15. október 2008. Lyktir málsins urðu síðan þær að Kristinn ehf. seldi bréf sín 26. september 2008 til Glitnis banka hf. og fékk fyrir þau tæpa 4 milljarða eftir að verðið hafði verið leiðrétt vegna arðgreiðslna og þóknunar.

Dæmi 4:

Af stóru bönkunum þremur veitti Kaupþing banki hf. hæstu lánin með veði í eigin bréfum eins og fram kemur í kafla 8.5 og í greiningu kafla 9.6. Stór hluti hvatakerfis bankans byggðist á því að starfsmönnum voru veitt lán til hlutabréfakaupa í bankanum sem þeir báru sjálfir takmarkaða áhættu af. Í kafla 10.0 er fjallað um hvatakerfi bankans og áhrif þess. Þar er meðal annars fjallað um breytingu sem gerð var á samningum við starfsmenn bankans árið 2005 en þá féllu starfsmenn frá söluréttarsamningum sem gerðir höfðu verið við þá. Um þetta sagði Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, í bréfi sem hann ritaði og sagt var til vina og vandamanna í janúar 2009: "Vegna hugsanlegra áhrifa söluréttar á útreikninga á eigið fé bankans var óskað eftir því í lok ársins 2005 að starfsmenn felldu niður sölurétt á hlutunum. Á fundi stjórnar bankans í september 2005 var sérstaklega bókað í fundargerð að samhliða því yrði að gera ráðstafanir til að takmarka persónulega ábyrgð starfsmanna. Á þessum tíma var starfsmönnum ekki heimilt að stofna félög utan um fjárfestingar og því var farin sú leið að takmarka persónulega ábyrgð við 10% af höfuðstól skuldarinnar auk þess sem hefðbundin veðköll voru í lánssamningunum að færi verðmæti þeirra niður fyrir tiltekin mörk skyldu hlutirnir seldir og andvirði þeirra nýtt til greiðslu skuldarinnar. Með þessu var talið að starfsmenn væru tryggðir fyrir því að ekki reyndi á persónulega ábyrgð þeirra, þrátt fyrir að þeir féllu frá sölurétti. Ábyrgð starfsmanna bankans var því í upphafi engin og síðan takmörkuð við 10%."

Sölurétti, sem gefnir eru út á eigin hluti skal samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) draga frá eigin fé þar sem þeir endurspegla tapsáhættu sem bankinn ber af eigin hlutabréfum. Skýrt kemur fram að niðurfelling söluréttar hjá Kaupþingi banka hf. var gerð vegna áhrifa á útreikninga á eigin fé bankans þótt starfsmenn hans ættu aðeins að bera tapsáhættu sem næmi 10% mögulegs taps. Bankinn bar því áfram 90% tapsáhættu þrátt fyrir að söluréttur hefði verið felldur niður. Þar sem áhættan af lánafyrirgreiðslunni var á eigin hluti bankans eiga þau sjónarmið, sem áður hefur verið lýst af hálfu rannsóknarnefndarinnar um túlkun á hvað beri að draga frá eigin fé bankans samkvæmt 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, við hér og þá að því marki sem aðrar tryggingar voru ekki settar. Skömmu fyrir fall bankans tók stjórn hans svo ákvörðun um að starfsmenn skyldu ekki bera neina áhættu vegna þessara viðskipta. Tapsáhætta vegna bréfanna var því í reynd öll færð yfir á bankann.

Dæmi 5:

Landsbankinn veitti lykilstarfsmönnum sínum kauprétti að hlutabréfum í bankanum síðustu árin fyrir fall bankans. Um þetta er nánar fjallað í kafla 10.0. Fyrirkomulag kaupréttanna var þó þannig að rétt er að lýsa því stuttlega hér. Til varnar kaupréttarsamningunum keyptu alls 8 aflandsfélög hlutabréf í bankanum en félögin fengu lán fyrir kaupunum. Upphaflega voru lán félaganna fengin í Landsbankanum, ýmist sem bein lán eða í gegnum framvirka samninga um kaup á hlutabréfunum. Síðla árs 2006 var fjármögnun þessara félaga að mestu leyti flutt úr Landsbankanum og um mitt ár 2007 var öll fjármögnun þessara félaga komin til annarra banka. Sex félög voru þá fjármögnuð af Straumi-Burðarási en þau voru Kargile Portfolio Inc., Kimball Associated Inc., Marcus Capital Ltd., Peko Investment Company Ltd., Proteus Global Holding S.A. og LB Holding Ltd. en síðastnefnda félagið var auk þess með framvirkan samning um bréf Landsbankans hjá Glitni. Glitnir fjármagnaði einnig félagið Zimham Corp. og Kaupþing fjármagnaði Empennage Inc. Landsbankinn gerði svo framvirka samninga við kaupréttarfélögin um kaup á bréfunum. Á þann hátt varð hvorki til hagnaður né tap í félögunum þar sem framvirki samningurinn flutti bæði fjármögnunarkostnað og ávöxtun bréfanna til Landsbankans. Þetta þýddi að Landsbankinn bar tapsáhættu af bréfunum og raunar gaf bankinn út sjálfskuldarábyrgð vegna skuldbindinga Zimham Corp. við Glitni og Empennage við Kaupþing sem staðfesti enn frekar áhættu bankans vegna bréfanna. Þeir hlutir sem Landsbankinn átti vegna framvirkra kaupsamninga kaupréttarfélaganna áður en fjármögnun var flutt til hinna bankanna voru dregnir frá eigin fé bankans en að öðru leyti var ekki dregið frá eigin fé vegna kaupréttarfélaganna. Rannsóknarnefndin vísar um túlkun sína á því hvernig beri að haga frádrætti frá eigin fé í tilvikum sem þessu til þess sem rakið er í rammagrein um eigin hluti.

9.6 Mat á áhrifum fjármögnunar bankanna á eigin bréfum

9.6.1 Inngangur

Í kaflanum hér á undan voru rakin nokkur dæmi um gjörninga þar sem bankarnir báru markaðsáhættu vegna eigin hlutabréfa, annaðhvort beint eða vegna útlána til kaupa á bréfunum. Ef slík markaðsáhætta er orðin veruleg innan banka er komin upp sú staða að ef tap verður í rekstri bankans og hlutabréfaverð lækkar í kjölfarið verður afleiðingin aukið tap vegna þessarar markaðsáhættu hlutabréfa bankans. Þannig er geta bankans til þess að takast á við áföll og tap ekki söm og ef hann bæri enga áhættu vegna eigin hlutabréfa. Sér í lagi er mikilvægt að skoða hversu mikið bankinn kann að tapa á eigin hlutabréfum við gjaldþrot vegna þess að það er við gjaldþrot banka sem á eigið fé reynir sem vörn fyrir kröfuhafa. Einnig er þessi stærð mikilvæg við ákvörðun stjórnvalda um hvort taka eigi yfir banka og gera þar með hlutabréf hans lítils eða einskis virði. Mikilvægt er að ekki hljótist mikið beint tap við slíka aðgerð til þess að hægt sé að gera upp kröfur á bankann. Eftir að tilkynnt var um tilboð ríkisins um kaup á 75% hlut í Glitni 29. september 2008 féll verð hlutabréfa í bankanum verulega.Tveimur dögum síðar sendi bankinn út afkomuviðvörun þar sem varað var við því að verðmætarýrnun vegna 71% lækkunar hlutabréfaverðs bankans frá tilkynningu um tilboð ríkisins, ásamt 23% lækkun ICEX-15 vísitölunnar á þriðja fjórðungi ársins 2008, myndi hafa í för með sér auknar afskriftir og neikvæð áhrif á afkomu bankans á seinni helmingi ársins. Í sambandi við þessi áhrif kom fram í skýrslutöku að stjórnendur bankans hefðu gert sér grein fyrir að í hluthafahópi hans hefði verið "of mikið af veikum hluthöfum", ef svo mætti að orði komast, og stjórnendur hefðu enda verið fljótir til þess að senda út afkomuviðvörun vegna þessa. Þau verðmæti sem tapast sem bein afleiðing af hlutabréfafalli bankans og dregst þar með frá eigin fé má á svipaðan hátt kalla "veikt eigið fé" og er það gert hér.

Erfitt er að meta fullkomlega umfang veiks eigin fjár, það er ofangreindrar tapsáhættu banka vegna eigin hlutabréfa, en í kafla 9.6.2 er þess freistað að draga upp mynd af því. Í kafla 9.6.3 er svo stigið skrefinu lengra og lagt mat, á samsvarandi hátt, á það að hvaða marki bankarnir fjármögnuðu hlutafé hver annars.

Eins og fram kom í kafla 9.2 er eigið fé lykilstærð sem fjárfestar horfa til við ákvörðun um að lána viðkomandi banka fé eða ekki. Þá er sér í lagi horft til CAD-hlutfallsins en lögbundið lágmark þess var 8%. Almennt höfðu bankarnir þó nokkuð hærra hlutfall, oft á bilinu 11–15%. Hver króna sem fékkst í nýtt hlutafé veitti bönkunum því möguleika á að stækka efnahag sinn um 7–10 krónur án þess að lækka hlutfallið. Því er ljóst að hærra eigið fé hefur veruleg áhrif á getu banka til vaxtar og ef íslensku bankarnir hefðu í útreikningi sínum á eigin fé túlkað reglur á þann hátt, sem lýst er í rammagrein um skilgreiningu eigin hluta, hefði eiginfjárhlutfall þeirra verið lægra og mögulegur vöxtur verið minni.Til þess að setja möguleg áhrif þessa í samhengi eru settar fram myndir til að meta hlut veiks eigin fjár af eiginfjárgrunni. Í eftirfarandi greiningu og framsetningu felst þó ekki sú fullyrðing að lögum samkvæmt hefði eigið fé bankanna átt að reiknast á þann hátt sem gert er hér.

9.6.2 Mat á veiku eigin fé

Við mat á veiku eigin fé bankanna, það er þeirrar tapsáhættu sem þeir báru vegna eigin hlutabréfa, er tekið tillit til lána með veði í eigin bréfum bankans, framvirkra samninga og annarra þátta eftir atvikum.

Til þess að meta heildartapsáhættu vegna lána með veði í eigin hlutabréfum er þeirri aðferð beitt að skoða saman heildarútlán til hvers viðskiptamanns og heildarupphæð þeirra hlutabréfa í bankanum sjálfum sem viðskiptamaðurinn hefur lagt að veði vegna skuldbindinga sinna við bankann. Sú upphæð sem er lægri er metin sem tapsáhætta bankans vegna eigin bréfa. Ef viðskiptamaður hefði tekið 10 milljóna króna lán hjá bankanum og lagt 20 milljóna króna virði af hlutabréfum bankans að veði teldust því 10 milljónir króna til tapsáhættu bankans vegna eigin hlutabréfa. Eins, ef viðskiptamaður hefði fengið 20 milljóna króna lán hjá bankanum og lagt 10 milljóna króna virði af hlutabréfum bankans að veði, teldust 10 milljónir króna til tapsáhættu bankans vegna eigin hlutabréfa. Í þessari aðferðafræði felast í raun tvær forsendur. Fyrri forsendan er sú að ef veð sem eru tekin í hlutabréfum bankans eru hærri en lán viðskiptamannsins þá standi ekki aðrar tryggingar á bak við lánið og þannig sé lánið allt háð virði hlutabréfanna. Seinni forsendan er sú að ef veð í hlutabréfum eru lægri en útlánið þá hljóti að vera aðrar tryggingar fyrir þeim hluta sem munar á virði veðanna og upphæðar lánsins og því aðeins verðmæti hlutabréfanna tekið sem tapsáhætta bankans vegna eigin bréfa. Æskilegra væri að geta að fullu metið virði annarra trygginga en eins og fram kemur í kafla 8.5 var ekki hægt að gera heildstæða greiningu á tryggingargögnum, bæði vegna skorts á gögnum og vegna flækjustigs. Áhrif þess að ekki er hægt að taka tillit til annarra trygginga sem að baki lánum kunna að vera eru að matið verður hærra en ella. Á móti kemur að ef aðeins eigin hlutabréf bankans liggja að veði fyrir láni til viðskiptamanns og virði hlutabréfanna er orðið lægra en lánið þá er aðeins virði hlutabréfsins talið til matsins þótt virði alls útlánsins kunni að liggja undir. Þá kann útlánaáhætta vegna eigin bréfa að vera til staðar en þessi aðferð nær ekki yfir hana. Erfitt er að fullyrða um heildaráhrif þessara þátta en rétt er að halda til haga mögulegri skekkju sem þetta kann að valda.

Eins og rökstutt er í kafla 8.9 telur rannsóknarnefnd Alþingis að framvirkum samningum um eigin hlutabréf megi að fullu jafna til lána til hlutabréfakaupa. Hér er fé, sem er bundið í fjármögnun eigin bréfa í gegnum framvirka samninga, því metið til tapsáhættu vegna eigin bréfa. Þetta er þó aðeins gert í tilviki Landsbanka og Glitnis þar sem Kaupþing dró eigin hluti til varnar framvirkum samningum frá eigin fé. Hins vegar höfðu bæði Glitnir og Landsbanki sérstök félög sem stofnuð voru utan um hlutabréf til varnar framvirkum samningum og hlutir í þeim félögum voru ekki dregnir frá eigin fé. Aftur skal hér tekið fram að ekki er tekið tillit til þeirra trygginga vegna framvirku samninganna sem kunna að vera til staðar en þær tryggingar myndu draga úr tapsáhættu bankans að því gefnu að tryggingarnar sjálfar væru ekki hlutabréf bankans.

Mynd 1 sýnir mat á veiku eigin fé hjá Glitni, flokkað eftir þeim aðilum sem standa að baki lánunum og veðunum. Auk bréfa sem voru beint að veði eru bréf í eigu Stíms (og síðar dótturfélaga þess), sem nefnd eru í dæmum í kaflanum hér á undan, talin með í útreikningum. Þá er söluréttur Kristins ehf., sem fjallað var um í kafla 9.5, jafnframt talinn með. Hæst fór upphæðin í rúma 60 milljarða vorið 2008 þegar meðal annars Rákungur og Salt Investments fengu lán til kaupa í bankanum sem og félög í eigu lykilstjórnenda Glitnis, svo sem fjallað er um í kafla 10.0.

Mynd 2 sýnir uppbyggingu eiginfjárgrunns Glitnis að teknu tilliti til frádráttarins á mynd 1. Á myndinni skiptist eigið fé bankans hér í fjóra grunnþætti. Neðst er veikt eigið fé samkvæmt matinu og eru þeir þættir sundurgreindir eftir því hvort um er að ræða fjármögnun í gegnum framvirka samninga eða lán með veði í eigin bréfum. Þar ofan á er svo eigið fé samkvæmt uppgjöri að frádregnum frádráttarliðum tilgreindum í uppgjöri (óefnislegar eignir og eignarhlutir í öðrum fjármálastofnunum) og að frádregnu mati á veiku eigin fé. Efst eru svo þeir þættir, aðrir en eigið fé samkvæmt ársreikningi, sem töldust til eiginfjárgrunns, það er víkjandi skuldabréfafjármögnun. Þeirri fjármögnun er hér skipt í tvennt eftir því hvort um var að ræða fjármögnun sem taldist til eiginfjárþáttar A eða B. Lagðir saman nema þessir fjórir þættir eiginfjárgrunni bankans.

Ef CAD-hlutfall er reiknað, leiðrétt með því að draga hið veika eigið fé frá eiginfjárgrunni, fæst sú niðurstaða sem sýnd er á mynd 3. Lægst fór leiðrétt hlutfall í 8,59% í maí 2008 en frá nóvember 2007 sveiflaðist hlutfallið um 9%. Því fór þetta hlutfall þó nokkuð niður fyrir innri markmið bankans, sem voru 11%, en ekki verður séð að hlutfallið hafi farið niður fyrir hið 8% lögbundna lágmark.

Leiðrétt hlutfall hélst fyrir neðan innra markmið bankans frá júlí 2007 og fram að falli bankanna.Vakin skal athygli á því að í mati á veiku eigin fé Glitnis er ekki kjölfestuhlutur FL Group í bankanum en Glitnir var með veruleg útlán til félagsins og tengdra aðila þess, eins og fjallað er um í kafla 8.7. Hlutir FL Group í bankanum í gegnum dótturfélög sín, FL Group Holding Netherlands B.V. og FL GLB Holding B.V., voru að andvirði um 100 milljarða króna í lok ársins 2007 og námu þá um tveimur þriðju hlutum eigin fjár félagsins samkvæmt ársreikningi svo að ljóst er að mikið verðfall hlutabréfa bankans myndi hafa veruleg áhrif á félagið. Þá reiknast hér heldur ekki með 7% hlutur Þáttar International, sem var í eigu Milestone ehf. og BNT hf., en hópar tengdir þeim félögum voru einnig með umtalsverð útlán til bankans. Þessir hlutir voru ekki veðsettir bankanum en segja má að verðmæti þeirra hafi haft veruleg áhrif á greiðslugetu félaganna sem áttu þá, eins og kom raunar skýrt fram þegar FL Group var sett í greiðslustöðvun eftir mikið verðfall hlutabréfa Glitnis. Þannig má líklegt telja að bein útlánaáhætta bankans vegna þessara hlutabréfa hafi verið til staðar en erfitt er að meta umfang þeirrar áhættu vegna flækjustigs.

Mynd 4 sýnir mat á veiku eigin fé Kaupþings. Þar sem Kaupþing dró eign til varnar framvirkum samningum frá eigin fé eru framvirkir samningar ekki taldir með í matinu fyrir bankann. Aftur á móti eru veðsett bréf dótturfélaga Kjalars hf. og Exista hf. hér talin á móti skuldum móðurfélaganna. Exista var stærsti eigandi Kaupþings banka hf. fyrir fall bankans en félagið var, ásamt tengdum aðilum, jafnframt næststærsta áhættuskuldbinding bankans eins og fram kemur í kafla 8.7.Til tryggingar skuldbindingum sínum var félagið að jafnaði með í kringum 10 milljarða af hlutabréfum Kaupþings að veði hjá bankanum þann tíma sem gögnin ná yfir. Kjalar var næststærsti hluthafi Kaupþings banka hf. fyrir fall bankans en félagið var að langstærstu leyti í eigu Ólafs Ólafssonar, eða 94%, ef dregin eru frá eigin bréf félagsins. Eignarhluturinn í Kaupþingi var þó jafnan í dótturfélögum Kjalars hf., fyrst í Eglu hf. en síðar í Kjalari Invest B.V. og Eglu Invest B.V., báðum skráðum í Hollandi. Þegar Kaupþing greiddi upp skuld Kjalars hf. við Citibank vorið 2008, eins og fjallað er um í kafla 8.8, tók bankinn veð í eigin hlutabréfum í eigu Eglu Invest B.V.Við það fjármagnaði bankinn með beinum hætti eigin hlutabréf nærststærsta eiganda síns. Stærstu aðilarnir hér eru Exista og frá vori 2008 einnig Kjalar. Jafnframt eru Gift fjárfestingarfélag, Desulo Trading og Holt Investment Group nokkuð stór en um þau og hlutabréfakaup þeirra í Kaupþingi er einnig fjallað í kafla 12.0. Þá má sjá að lán til starfsmanna og stjórnarformanns Kaupþings voru einnig umtalsverð en margir starfsmenn Kaupþings fengu veruleg lán til kaupa á hlutabréfum bankans, eins og nefnt er í kafla 9.5 og rætt nánar í kafla 10.0. Þegar hæst fór nam veikt eigið fé tæpum 160 milljörðum um mitt ár 2008, samkvæmt þessu mati.

Mynd 5 sýnir uppbyggingu eiginfjárgrunns bankans að teknu tilliti til ofangreinds mats á veiku eigin fé. Myndin er sett fram á sama hátt og í tilviki Glitnis. Mynd 6 sýnir loks CAD-hlutfall bankans leiðrétt með matinu. Sjá má að munurinn á birtu CAD-hlutfalli og hinu leiðrétta vex nokkuð jöfnum skrefum frá miðju ári 2007. Leiðrétta hlutfallið lækkar jafnt og þétt og er um mitt ár 2008 komið niður í 8,13% en fer ekki niður fyrir 8%.

Samkvæmt ársreikningum Kaupþings var bankinn með 11% CAD-hlutfall sem markmið. Kaupþing var kominn undir þetta innra markmið samkvæmt leiðrétta hlutfallinu í júlí 2007, líkt og Glitnir. Í tilviki Landsbankans var umfang veða í eigin bréfum talsvert minna en hjá hinum bönkunum. Hins vegar var stærsti eigandi bankans, Samson eignarhaldsfélag ehf., með lán hjá bankanum, 19 milljarða við lok árs 2006 og 31 í lok árs 2007. Ef frá er talin eign félagsins í bankanum sjálfum og skuldir þess við bankann námu skuldir Samsonar umfram eignir um 19 milljörðum í lok árs 2006 og 29 milljörðum árið 2007. Hér er því litið svo á að umrædd lán hafi verið út á kjölfestu-hlutinn í bankanum þar sem þau voru líkleg til að tapast færi bankinn í þrot. Mynd 7 sýnir matið fyrir Landsbankann. Meðal stórra aðila, annarra en Samsonar, má sjá kaupréttarfélögin sem fjallað var um í kafla 9.5. Hæst fór matið á veiku eigin fé í vel rúma 80 milljarða króna haustið 2007 og helst það um 80 milljarðar fram að falli bankans. Mynd 8 sýnir uppbyggingu eiginfjárgrunns með tilliti til leiðréttingar og mynd 9 sýnir loks leiðrétt CAD-hlutfall með tilliti til matsins. Leiðrétta hlutfallið var komið niður fyrir innra markmið bankans um 10% CAD-hlutfall í mars 2007. Þar að auki má sjá að upp úr miðju ári 2007 fór hið leiðrétta hlutfall niður fyrir hið 8% lögbundna lágmark og sveiflaðist í kringum lágmarkið eftir það.

Samkvæmt matinu er veikt eigið fé bankanna þriggja umtalsvert. Það fer úr rúmum 100 milljörðum króna í lok árs 2006 í rúma 300 milljarða króna um mitt ár 2008 (sjá töflu 1). Um mitt ár 2008 nam því veikt eigið fé rúmlega 25% af samanlögðum eiginfjárgrunnum bankanna þriggja.

Eins og fram kemur í kafla 9.4.2.1 samanstendur eiginfjárgrunnur banka af þáttum sem felast annars vegar í eigin fé skv. ársreikningi að frádreginni viðskiptavild og hins vegar í víkjandi lánum sem uppfylla tiltekin skilyrði.Takmörk eru fyrir því hversu stór hluti af eiginfjárgrunni þessi víkjandi lán mega vera. Þau takmörk þýða því að ef kjarna eigið féð, þ.e. eigið fé skv. ársreikningi að frádreginni viðskiptavild, lækkar mikið þá hefur sú lækkun áhrif á hversu há upphæð víkjandi lána getur talist til eiginfjárgrunns. Í greiningu þessa kafla er ekki lagt mat á þessi áhrif og myndir af leiðréttum CAD-hlutföllum taka aðeins til mats á veiku eigin fé og beinum áhrifum þess ef það væri dregið frá eiginfjárgrunni. Ef einnig hefði verið tekið tillit til afleiddra áhrifa lækkunar kjarna eigin fjár af sömu stærðargráðu og mat á veiku eigin fé á upphæð víkjandi lána í eiginfjárgrunni er hins vegar ljóst að áhrif á CAD-hlutfallið hefðu verið talsvert meiri.

9.6.3 Mat á krossfjármögnun bankanna

Kafli 9.6.2 fjallar um mat á því hversu mikið veikt eigið fé var í bönkunum, það er hversu mikið hver um sig var líklegur til að tapa vegna eigin hlutabréfa við gjaldþrot.

Rök má færa fyrir því að stóru bankarnir þrír hafi verið kerfislega tengdir, það er að ef einn þeirra félli þá væru verulegar líkur á því að hinir myndu lenda í erfiðleikum. Samkvæmt Ragnari Hafliðasyni, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, "var veikleiki í þessu, og hefði eflaust þurft að vera búið að taka á því [...] eða einn af stóru veikleikunum var, að mínu mati, þessi exposure á milli fjármálafyrirtækjanna á eiginfé í gegnum [...] ekki bara í gegnum einhverja eignahluti sem að átti þá að draga frá í eiginfjárútreikningi heldur líka í gegnum lánveitingar sem var miklu umfangsmeira, held ég, heldur en maður vissi af". Til stuðnings þessu má nefna að árið 2008 voru dæmi þess að samstarf væri milli bankanna um að fjármagna eða kaupa bréf hver annars. Í september 2008 gerðu Landsbankinn og Glitnir samkomulag um að skiptast á hlutabréfum, Landsbankinn keypti í Glitni og Glitnir í Landsbankanum. Frá þessu er nánar skýrt í kafla 12.0 en í stuttu máli var um að ræða viðskipti þar sem Glitnir keypti andvirði 3,7 milljarða króna af hlutabréfum Landsbankans í nokkrum viðskiptum um miðjan og seinni hluta september og Landsbankinn keypti á móti 3,7 milljarða virði af hlutabréfum Glitnis. Þá var samkomulag milli Glitnis og Kaupþings um fjármögnun hvors banka á hlutabréfum hins, skv. lánsumsókn vegna lánveitingar Kaupþings til FL Group í maí 2008. Andvirði lánsins skyldi varið til kaupa á hlutabréfum í Glitni en í umsókninni segir: "The € 90m facility stems from a deal Kaupthing and Glitnir made where Glitnir committed to lend against Kaupthing shares and Kaupthing committed to lend against Glitnir shares."

Ef horft er á stóru bankana þrjá sem eina heild, og þá byggt á rökstuðningi um kerfisleg tengsl þeirra, er áhugavert að skoða hversu mikill styrkur þeirra var til þess að takast á við áföll.Til þess að varpa nokkru ljósi á það er hér metið umfang krossfjármögnunar. Með krossfjármögnun er hér átt við hversu mikið bankarnir lánuðu, með veðum í bréfum eða í gegnum framvirka samninga, til kaupa í hinum bönkunum. Sömu grunnaðferðafræði er beitt og í kafla 9.4.2, þ.e. að annars vegar er fjármögnun framvirkra samninga talin með, nema í tilviki Kaupþings sem dró eignir í öðrum bönkum frá eigin fé. Hins vegar eru skoðuð lán sem einn banki veitir með veði í hlutabréfum annars. Samanlagt er þetta metið sem krossfjármögnun.

Mynd 10 sýnir niðurstöðu þessa mats. Fyrir hvern banka er fjármögnun bankans á hlutabréfum hinna sýnd. Sjá má að krossfjármögnun Landsbankans var að jafnaði mest af bönkunum þremur. Ef áfram er litið á bankana sem eina heild og eiginfjárgrunnar þeirra lagðir saman og leiðréttir fyrir beinni eiginfjármögnun og krossfjármögnun má reikna kerfislegt eigið fé en uppbygging þess er sýnd á mynd 11. Mynd 12 sýnir loks CAD-hlutfall kerfisins ef litið væri á bankana þrjá sem einn og fjármögnun eigin fjár, bæði bein og kross, væri dregin frá eigin fé. Samanteknar niðurstöður greiningar kafla 9.6.2 og 9.6.3 má sjá í töflu 1 á næstu síðu.

9.6.4 Fjármögnun á hlutabréfum FL Group hf. og Exista hf.

Stærstu eigendur Glitnis og Kaupþings voru skráð félög á markaði, þ.e. FL Group hf. og Exista hf. í þeirri röð. Í báðum félögum var kjölfestuhluturinn í bönkunum stærsta eignin og uppistaðan í eigin fé félaganna í lok árs 2007. Því var ljóst að færi annar bankinn í þrot stæði viðkomandi eigandi bankans mjög höllum fæti. Þetta kom á daginn þegar tilkynnt var um tilboð ríkisins um kaup á 75% hlutafjár í Glitni en í framhaldinu var FL Group hf., sem á þeim tímapunkti hafði tekið upp nafnið Stoðir hf., sett í greiðslustöðvun. Að sama skapi var Exista hf. í uppnámi eftir að Kaupþing féll. Í kjölfarið voru hlutabréf beggja félaga næsta verðlítil.

FL Group og Exista voru, eins og áður segir, skráð félög á markaði og líkt og með hlutabréf bankanna sjálfra höfðu íslensku bankarnir veitt lán út á hlutabréf félaganna tveggja. Þau veð urðu að engu við fall bankanna og lán sem aðeins voru tryggð með þessum veðum voru töpuð. Því má færa fyrir því sterk rök að veðeiginleikar þessara bréfa hafi, í samhengi við eigið fé íslenska fjármálakerfisins, verið svipaðir eiginleikum bréfanna sjálfra. Lánveitingar bankanna út á þessi bréf hafi því dregið á sama hátt úr styrk eigin fjár kerfisins. Án þess að framkvæma jafn heildstæða greiningu og með bréf bankanna er áhugavert að meta á sambærilegan hátt hversu há lán bankanna voru bundin í þessum bréfum. Sambærileg aðferðafræði fyrir hlutabréf þessara félaga og fyrir hlutabréf bankanna felst í því að taka fyrir hvern lántakanda það sem er lægra af eftirfarandi tvennu; upphæð útlána hans í ákveðnum banka eða verðmæti veða sem bankinn hefur tekið í bréfunum. Þetta var gert miðað við dagsetningu í lok árs 2007 og má sjá niðurstöðurnar í töflu 2.

Niðurstöðurnar draga fram hversu mikið hver banki hefði líklega tapað ef Glitnir eða Kaupþing hefði fallið og dregið stærsta eiganda sinn með sér í fallinu. Ef Kaupþing hefði fallið og Exista hefði farið í þrot hefði bankinn, miðað við þetta mat, tapað um 32 milljörðum á fallinu. Því má segja að geta bankans til að þola áföll hafi verið þessum 32 milljörðum minni. Eins hefðu hinir bankarnir samtals tapað rúmum 12 milljörðum á falli Exista sem afleiðingu af falli Kaupþings. Þetta er fyrir utan bein áhrif hinna bankanna af fjármögnun hlutabréfa Kaupþings. Í tilviki FL Group eru tölurnar þó öllu hærri. Ef Glitnir hefði fallið og FL Group farið í þrot hefði, miðað við þetta mat, Glitnir sjálfur tapað um 42 milljörðum á því. Styrkur bankans til að taka áföllum hefði því verið minni sem því nam. Þessu til viðbótar hefði Landsbankinn tapað um 53 milljörðum og Kaupþing tæpum 10. Þessi skuldsetning á hlutabréfum stærsta eiganda Glitnis var þannig til þess fallin að skapa nokkuð sterk keðjuverkandi áhrif, sér í lagi gagnvart Landsbankanum, ef til falls FL Group kæmi í framhaldi af falli Glitnis.

9.7 Ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis

Lánveitingar bankanna til kaupa á eigin hlutabréfum voru umtalsverðar. Þær voru ýmist framkvæmdar með beinum lánum með veðum í bréfunum eða með framvirkum samningum. Hér að ofan hefur jafnframt verið lýst annars konar dæmum, þar sem tapsáhætta vegna hlutabréfa bankanna lá hjá þeim sjálfum. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að saman hafi þetta valdið því að geta bankanna til þess að þola áföll var minni en birt eiginfjárhlutföll þeirra gáfu til kynna þar sem mögulegt rekstrartap þeirra hefði skilað sér í lækkun hlutabréfaverðs og þar með auknu tapi vegna þeirrar áhættu sem bankarnir báru vegna eigin hlutabréfa. Jafnframt telur nefndin að leiða megi að því líkur að þessi áhætta vegna eigin hlutabréfa hafi valdið því að bankarnir lögðu enn frekara fjármagn í það að styðja við gengi bréfanna eins og rökstutt er í kafla 12.0.

Rannsóknarnefnd Alþingis telur að fjármögnun bankanna á hlutabréfum hvers annars hafi verið það umfangsmikil að með því hafi skapast mikil kerfisleg áhætta sem hafi veikt getu íslenska fjármálakerfisins til að standa af sér þá lausafjárkreppu sem skall á um mitt ár 2007. Þessi kerfislega áhætta magnaðist enn frekar vegna fjármögnunar bankanna á hlutabréfum Exista og FL Group sem ljóst var að myndu falla verulega í verði ef þeir bankar sem félögin áttu kjölfestuhluti í féllu.

Þrátt fyrir þá framkvæmd sem verið hefur á reikningsskilum fjármálafyrirtækja hér á landi er það álit rannsóknarnefndar Alþingis að veigamikil rök leiði til þeirrar niðurstöðu að draga hefði átt lán, sem einvörðungu eru tryggð með veði í eigin hlutabréfum, frá eigin fé fjármálafyrirtækis á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Hið sama gildi um hluti sem voru að formi til skráðir í eigu þriðja aðila en "fyrir reikning" viðkomandi fjármálafyrirtækis. Nánari röksemdir fyrir þessari niðurstöðu koma fram í kafla 11.2. Með tilliti til þessarar niðurstöðu nefndarinnar hefur í þessum kafla verið lýst með dæmum hvaða þýðingu ætla má að framkvæmd í samræmi við túlkun nefndarinnar hefði haft í starfsemi stóru fjármálafyrirtækjanna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans á síðustu árum. Sú þrönga túlkun sem fjármálafyrirtækin beittu í þessu sambandi leiddi til þess að eigið fé þeirra var skráð hærra heldur en ef áðurnefndri túlkun nefndarinnar hefði verið fylgt. Of hátt skráð eigið fé banka eykur getu hans til vaxtar og því má leiða að því líkur að ef fylgt hefði verið þeirri túlkun, sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur hér sett fram, hefði vöxtur bankanna ekki orðið jafnhraður og raun varð.

Rannsóknarnefndin telur, í ljósi þess sem rakið er í þessum kafla, ástæðu til þess að setja fram þá ábendingu að hugað verði að því að setja skýrari reglur um hvaða eigin hlutabréf í fjármálafyrirtæki eigi að koma til frádráttar við útreikning á eigin fé þeirra.