3. kafli – Sparisjóðir – hlutverk og staða á fjármálamarkaði

3. Sparisjóðir – hlutverk og staða á fjármálamarkaði

3.1 Almennt

Fyrsti sparisjóðurinn, Allgemeine Versorgungsanstalt, var stofnaður árið 1778 í Þýskalandi. Fram að þeim tíma hafði venjan verið sú að einungis fólk í sæmilegum efnum ætti í viðskiptum við banka. Lengi vel hafði verið bent á mikilvægi þess að hinir efnaminni í samfélaginu ættu kost á ódýru lánsfé og að þeir gætu lagt fyrir lágar upphæðir og fengið greidda af þeim vexti. Talsmenn þeirrar hugmyndar komu víða að, til dæmis úr embættismannakerfinu, úr stéttarfélögum, frá sveitarstjórnum og kirkjunni. Bentu menn á að aukinn sparnaður yki líkur á að fólk gæti bjargað sér sjálft og þyrfti síður á framfærslustyrkjum að halda. Þá myndi aðgengi láglaunafólks að fjármagni draga úr fátækt, auk þess sem bent var á þá siðferðislegu skyldu að hjálpa þeim sem minna mættu sín. Mikil áhersla var lögð á að sameiginlegur sparnaður fólks yrði nýttur í þeirra þágu. Skömmu eftir að fyrsti sparisjóðurinn hóf starfsemi í Þýskalandi voru stofnaðir sparisjóðir víðsvegar í Sviss. Eftir aldamótin 1800 hófu sparisjóðir starfsemi í Bretlandi og árið 1816 voru þeir orðnir 78 talsins þar í landi.1

Sparisjóðirnir gegndu veigamiklu hlutverki í þróun fjármálaviðskipta á fyrri tíð og gegna enn burðarhlutverki í viðskiptabankaþjónustu í ýmsum héruðum og löndum álfunnar. Flestir Evrópubúar kannast við þessar fjármálastofnanir en engu að síður er ekki hlaupið að því að skilgreina hvað sparisjóður er. Mikill munur er á sparisjóðunum frá einu landi til annars og í sumum löndum er munurinn milli sparisjóða og annarra viðskiptabanka sem þar starfa bitamunur en ekki fjár.

Upphaflega var skýr verkaskipting milli sparisjóða og venjulegra banka þannig að sparisjóðir sinntu annars konar starfsemi en bankar og einnig öðrum hópi viðskiptavina. Sparisjóðir buðu upp á lána- og greiðsluþjónustu fyrir smáa og veðlausa viðskiptavini sem bönkum þótti ekki svara kostnaði að sinna. Þessi aðgreining í starfsemi hvarf fyrir alllöngu. Nú bjóða bankar og sparisjóðir að miklu leyti upp á sömu þjónustu og á sama markaði. Einnig hefur lagaleg umgjörð sparisjóða færst nær því sem þekkist með viðskiptabanka. Þrátt fyrir að hugtök og skilgreiningar geti oft verið á reiki þegar kemur að því að draga fram sérstöðu sparisjóða er þó hægt að draga saman nokkra þætti sem venjulega eru taldir skilja sparisjóði frá viðskiptabönkum:

A.Sparisjóðir hafa fleiri markmið en hámörkun hagnaðar.

B.Sparisjóðir eru svæðisbundnir og skyldugir til að styðja starfssvæði sitt. Sparisjóðir lúta ýmist almennu eignarhaldi, eignarhaldi félagsskapar einstakra manna eða eru sjálfseignarstofnanir.

C.Sparisjóðir starfa saman og mynda net sem stundum felur í sér sameiginlega ábyrgð.

Stór hluti sparisjóða í Evrópu uppfyllir ekki lengur öll þessi skilyrði, sérstaklega ekki hvað varðar eignarhaldið. Sparisjóðir á Ítalíu hafa til að mynda breyst í hlutafélög eða eru komnir í einkaeigu. Í öðrum löndum, eins og Þýskalandi, eru sparisjóðirnir í eigu sveitarfélaga, héraðsstjórna eða annarra opinberra aðila. Víða hefur net sparisjóðanna raknað upp. Þannig má segja að helst séu það einkenni A og B sem geti talist evrópskum sparisjóðum sameiginleg og í því ljósi eru þeir stundum kallaðir tvímarkmiðs-fjármálastofnanir (e. dual bottom line institutions) þar sem þeir starfa ekki aðeins með eitt markmið í huga – hámörkun hagnaðar – eins og bankar.2

Hvað tvímarkmið þýðir þegar á hólminn er komið er öllu erfiðara að henda reiður á. Sparisjóðir eru ekki góðgerðarstofnanir. Þeir verða að láta reksturinn standa undir sér og fá eðlilega ávöxtun eigin fjár líkt og önnur fyrirtæki. Einnig er eðlilegt að gera ráð fyrir að hagnaður geti staðið undir einhverjum vexti og síðan varúðarfærslum. Hins vegar er mjög á reiki hve mikla áherslu sparisjóðirnir eiga að leggja á hagnað miðað við önnur markmið. Hið sama á við um þá spurningu hvaða önnur markmið eigi við. Á að gefa hagnaðinn eftir með því að veita viðskiptavinum, innlánseigendum jafnt sem lánþegum, betri kjör eða einfaldlega nota fjármagnið til þess að styðja við ýmis velferðar- og framfaramál? Að þessu leyti virðist hver sparisjóður fyrir sig hafa töluverðan sveigjanleika til að bera. Á hinn bóginn er á það að líta að þótt hin ýmsu Evrópulönd hafi valið ólíkar leiðir hvað eignarhald sparisjóða varðar á síðari árum, hefur yfirleitt verið reynt að afmarka og skýra félagslegt hlutverk sparisjóðanna, t.d. hve miklu af hagnaði þeirra skuli varið til góðgerðarmála og með hvaða hætti.3

Eðlilegt er að byggja skilgreiningu á því hvað sparisjóður sé, miðað við stöðu mála í Evrópu, á einkennum A og B. Því má á vissan hátt segja að sparisjóður sé svæðisbundin stofnun sem hefur það tvöfalda markmið að hámarka hagnað og auka velferð á starfssvæði sínu. Þessi áhersla á tengsl við tiltekið svæði fellur jafnframt að viðskiptalíkani sparisjóðanna sem felur í sér að þeir hafi staðbundna yfirburði á sviði fjármálaþjónustu í þeim samfélögum sem þeir þjóna, bæði vegna þekkingar og velvilja fólks á starfssvæðinu.

3. 1. 1 Uppruni sparisjóða og viðskiptalíkan

Sparisjóðirnir komu fram undir lok 18. aldar þegar bankar störfuðu nær eingöngu í borgum og þjónustuðu aðallega fyrirtæki og efnameiri einstaklinga, svo sem landeigendur og stóreignamenn. Á þeim tíma var ekki litið á innlánasöfnun eða greiðsluþjónustu til almennings sem meginviðfangsefni bankastofnana enda viðskiptakostnaður vegna slíkrar starfsemi fremur hár. Af þeim sökum höfðu efnaminni einstaklingar og fólk í dreifbýli ekki greiðan aðgang að bankaþjónustu. Það kom þó ekki ýkja mikið að sök í hinu gamla bændaþjóðfélagi þar sem viðskipti voru einföld og staðbundin. Sú breyting varð með iðnbyltingunni að til urðu fjölmennar stéttir fólks með fastar launatekjur. Þær voru hins vegar eignalausar, að minnsta kosti fyrst um sinn, og gátu því ekki lagt fram eignir að veði en þurftu samt sem áður á ýmiss konar fjármálaþjónustu að halda. Þar við bættist að alls kyns smáfyrirtæki spruttu upp í kjölfar iðnvæðingar og hækkandi tekna almennings. Þau þurftu einnig á fjármálafyrirgreiðslu að halda en komu oftar en ekki að lokuðum dyrum hjá bönkunum.

Við þessar aðstæður komu sparisjóðirnir fram á sjónarsviðið og tóku strax að sér leiðandi hlutverk í fjármálaþjónustu við stækkandi millistétt, smáfyrirtæki og fólk í dreifbýli. Til að átta sig á því á hverju sparisjóðirnir byggðu árangur sinn, er nauðsynlegt að skilja eðli fjármálaþjónustu og veðtöku.

Í útlánastarfsemi þarf að glíma við vandamál sem kennd eru við ósamhverfar upplýsingar (e. asymmetric information).4 Útlánastofnanir búa sjaldnast yfir nógu góðum upplýsingum um fyrirætlanir og heiðarleika lántakenda sinna til þess að koma í veg fyrir útlánatöp. Þá geta þær heldur ekki haft stjórn á því hvernig lántakendur fara með það fé sem þeir fá að láni. Í þessu sambandi er stundum talað um að fjármálastofnanir þurfi að glíma við hrakval (e. adverse selection) og freistnivanda (e. moral hazard) þegar lántakendur eru annars vegar. Með hrakvali er átt við vandann sem hlýst af því að verstu skuldunautarnir eru oft þeir sem líklegastir eru til að sækjast eftir láni af mestri hörku og því tilbúnir til að greiða hæstu vextina. Af þeirri ástæðu eru þeir jafnframt líklegastir til að verða fyrir valinu sem lántakendur. Þeir vita sem er að ef gæfan snýst á sveif með þeim hirða þeir ábatann en lánveitandinn situr uppi með tapið ef hlutirnir fara á versta veg. Freistnivandi kemur fram þegar lán hefur verið veitt og skuldunautar freistast til að takast eitthvað á hendur sem talið er óæskilegt frá sjónarhóli lánveitanda og getur minnkað líkurnar á því að lánið verði endurgreitt.

Lánastofnanir reyna að bregðast við þessum vanda með því að safna upplýsingum um lántakendur og iðulega fara þeir fram á að veð sé lagt til tryggingar láni. Veðbundnar eignir draga úr skaðanum sem hrakval og freistnivandi geta valdið, því þannig eru lánardrottnar tryggðir að einhverju leyti. Standi skuldunautur ekki í skilum, getur lánardrottinn leyst veðsetta eign til sín og selt til þess að fá eitthvað upp í kröfu sína. Ef veðið er nægilega traust, skipta ósamhverfar upplýsingar minna máli því áhætta lánardrottna er takmarkaðri. Veðið breytir líka miklu um hegðun skuldunautar þar sem hann á sjálfur eitthvað í húfi, standi hann ekki við sitt.

Af þessum sökum áttu hefðbundnir bankar á nítjándu öld og í byrjun þeirrar tuttugustu erfitt með veita þeim þjónustu sem ekki gátu lagt fram veð. Tilraunir til þess að mæta aukinni áhættu með hærri vöxtum hefðu ugglaust laðað verstu lántakendurna að en ýtt þeim tryggu frá. Þetta umhverfi í árdaga evrópskrar iðnvæðingar var í sjálfu sér mjög áþekkt því sem gerist í þróunarlöndum nútímans þar sem venjulegir bankar treysta sér ekki til þess að stunda veðbundna lánastarfsemi á stórum svæðum. Fjarvera banka kallar iðulega á tvenns konar fjármálastofnanir sem eru ekki háðar veðtöku, lánamangara (e. loan sharks) og heimasprottnar samfélagsstofnanir sem hafa ekki hámörkun hagnaðar að meginmarkmiði. Þeir fyrrnefndu, lánamangarar og okurlánarar, hafa svo haft á sér það orð að mæta freistnivanda hárra vaxta með harkalegum innheimtuaðferðum.

Viðskiptalíkan sparisjóðanna bauð upp á tvíþætta lausn á vandanum sem fylgir ósamhverfum upplýsingum án þess að styðjast við veð. Í fyrsta lagi gátu þeir nýtt staðbundna þekkingu sína til þess að safna traustum upplýsingum um lántakendur. Í litlum og rótgrónum samfélögum þekkjast menn betur og þessi kunningsskapur milli fólks gerir fjármálastofnunum í héraði betur kleift að kljást við hrakvals- og freistnivandamál með skilvirkum hætti, bæði hvað val á lántakendum varðar og eftirlit með þeim. Í öðru lagi geta samfélagsstofnanir vakið sterkari greiðsluvilja hjá fólki en fjarlægar og andlitslausar fjármálastofnanir. Sparisjóðirnir voru í huga fólks á hverjum stað „sparisjóðurinn okkar“ sem varði hagnaði sínum til að styrkja og bæta samfélagið. Það var því meiri álitshnekkir að hlunnfara sparisjóðinn en fjarlægan banka. Þessar tvær stoðir, svæðisbundin þekking og velvild heimafólks, voru – og eru – þær undirstöður sem sparisjóðirnir hvíldu á.

Svipaða sögu er að segja af meginhlutverki innlánastofnana; fjárvörslu og greiðsluþjónustu. Reikningar viðskiptamanna innlánsstofnana mynda greiðslukerfi sem gerir almenningi kleift að nota bankainnistæður sínar sem gjaldmiðil án þess að reiðufé komi við sögu. Viðskiptin fara þá fram sem færslur milli reikninga innan bankans eða sem jöfnunarfærslur við aðra banka. Innlánsstofnanir taka einnig að sér að varðveita og ávaxta fé með tryggum hætti. Fólk treystir þeim fyrir peningum sínum og þiggur vexti fyrir. Jafnframt hafa innlánseigendur greiðan aðgang að fé sínu. Viðskiptabankaþjónusta hefur stundum verið kölluð seljanleikatrygging (e. liquidity insurance) sem felst í því að fólk hefur aðgang að lausafé hvar og hvenær sem þörf krefur og getur jafnvel fengið skammtímalán eða yfirdrætti til þess að bregðast við óvæntum kostnaði. Fyrir þessa þjónustu er almenningur tilbúinn að leggja peninga inn á reikninga með lágum eða jafnvel engum vöxtum.

Á nítjándu öld töldu bankar innlánaviðskipti ekki vera sitt meginhlutverk, nema ef til vill þegar um stórar fjárhæðir var að ræða. Greiðsluþjónusta var bæði dýr og svifasein, og töluvert umstang fylgdi innlánaviðskiptum. Af þeim sökum stóð greiðsluþjónusta almenningi vart til boða og innlánaviðskipti í smáum stíl voru heldur ekki talin hagkvæm og gátu falið í sér töluverða áhættu. Sú seljanleikatrygging, sem almenningur hafði aðgang að, var að leita til veðmangara. Sú þjónusta fól í sér að fólk fór með einhvern fastafjármun, skartgrip, innanstokksmun af heimili eða eitthvað annað sem hægt var að færa til veðmangara er tók hlutinn sem veð og afhenti lausafé í staðinn.

Sparisjóðirnir voru frumkvöðlar í því að veita bæði greiðsluþjónustu og seljanleikatryggingu til almennings. Greiðsluþjónustan var að mestu bundin við starfssvæði sparisjóðanna en það fór saman við þarfir flestra viðskiptavinanna og þannig tókst sparisjóðunum að halda kostnaði við þessa þjónustu í lágmarki. Fyrir sparisjóðina gerði margt smátt eitt stórt þegar um innistæður var að ræða. Ef sú vissa er fyrir hendi að innlagnir og úttektir haldist að mestu leyti í hendur, má gera ráð fyrir að heildarfé á innlánsreikningum sé tiltölulega stöðugt. Flestar greiðslur manna á milli færa aðeins fé á milli reikninga en ekki út úr bankakerfinu sjálfu. Á þessum grundvelli gátu sparisjóðirnir safnað upp vænum sjóði sem hægt var að lána út – og tóku þannig að sér burðarhlutverk í framþróun efnahagslífsins, hver á sínu starfssvæði.

3. 1. 2 Samkeppnisvandi sparisjóða

Sparisjóðirnir voru í raun brautryðjendur í viðskiptabankastarfsemi í mörgum löndum og leiðandi í þeirri grein fram á miðbik tuttugustu aldar. Um aldamótin 1900 fór viðskiptabankalíkan nútímans að taka á sig mynd. Það byggist á því að greiðsluþjónusta stendur öllum til boða fyrir sáralítið verð en á móti fá fjármálastofnanir aðgang að mikilvægum upplýsingum um viðskiptavini sína sem nýtast í annarri fjármálaþjónustu, svo sem um tekjur, útgjöld, skilvísi og svo framvegis. Þær fá einnig tækifæri til að fylgjast með því til hvers lánið er nýtt. Þannig færir greiðsluþjónustan fjármálastofnunum ný tæki til þess að takast á við freistni- og hrakvalsvandamál sem ávallt fylgja útlánum.

Þessi þróun varð smám saman til þess að yfirburðir sparisjóðanna í viðskiptabankaþjónustu hurfu. Ýmsar tækniframfarir gerðu greiðsluþjónustu bæði ódýrari og vélrænni, en að sama skapi minnkaði virði staðbundinna upplýsinga sem sparisjóðirnir bjuggu yfir. Millistéttinni hafði einnig vaxið fiskur um hrygg og hún átti orðið veðhæfar eignir. Með batnandi samgöngum varð til æ stærri sameiginlegur markaður í Evrópu. Smám saman fóru bankar að veita sparisjóðum harðari samkeppni og bjóða sama fólki sömu þjónustu og þeir gerðu.

Heimskreppa og stríð veittu sparisjóðunum þó skjól fyrir samkeppni bankanna og eftir síðari heimsstyrjöld voru sett ströng höft á starfsemi fjármálastofnana í Evrópu. Sparisjóðirnir fengu sinn bás í haftakerfinu og starfsemi þeirra takmörkuð við ákveðna grunnþætti viðskiptabankaþjónustu en á sama tíma voru þeir verndaðir fyrir samkeppni frá bankastofnunum með ýmsum lagaboðum. Í mörgum löndum urðu tengsl sparisjóðanna við hið opinbera eða stjórnmálamenn afar náin og þeir urðu burðarásar í fjármögnun ríkissjóðs og héraðsstjórna, og sáu jafnvel að mestu um fjármögnun ýmiss konar atvinnuþróunarverkefna á vegum opinberra aðila. Í staðinn nutu sparisjóðirnir ýmissa ívilnana, svo sem ríkisábyrgðar.

Upp úr 1980 hófst mikil frelsisvæðing á evrópskum fjármálamörkuðum og jafnframt var unnið að því að brjóta niður viðskiptamúra á milli landa. Á næsta leiti var tölvubyltingin sem leiddi til gríðarlegra framfara í fjármálaþjónustu og hraðbankar og heimabankar tóku við af persónulegri og mannfrekri þjónustu í útibúum. Þessi þróun hefur grafið enn frekar undan sparisjóðum þar sem nálægð við viðskiptavininn skiptir ekki eins miklu máli og áður og greiðsluþjónusta byggist fyrst og fremst á tölvukerfum og tæknilausnum.

Upp úr 1990 var þrengt að sparisjóðum í Evrópu úr tveimur áttum. Annars vegar hafði frelsisvæðingin á fjármálamörkuðum heimsins, ásamt tilurð sameiginlegs innri fjármálamarkaðar í Evrópu, þau áhrif að samkeppnin í grunnstarfsemi sparisjóðanna harðnaði. Hins vegar varð upptaka svo nefndra Basel-reglna um áhættuviðmið í fjármálastarfsemi til þess að auka verulega kostnað smárra viðskiptabankaeininga, eins og margra sparisjóða. Á hinum nýja evrópska fjármálamarkaði varð hagkvæmni stærðar og breiddar ráðandi og litlar staðbundnar stofnanir áttu undir högg að sækja. Margir sparisjóðir brugðust við með því að sameinast og stækka. Þeir færðu út kvíarnar í starfsemi sinni og tóku að bjóða upp á alhliða bankaþjónustu í þeim tilgangi að afla nýrra tekjustofna. Jafnframt tóku margir sparisjóðir að sækja í heildsölufjármögnun og munurinn á fjármögnun banka og sparisjóða fór því minnkandi.5

Sparisjóðir Evrópu brugðust því við vaxandi samkeppni frá venjulegum viðskiptabönkum með því að færa viðskiptalíkan sitt nær þeim hvað samsetningu efnahagsreiknings og tekjustofna varðar.

3. 1. 3 Eignarhald á sparisjóðum

Strax eftir 1980 vaknaði umræða um eignarhald á sparisjóðum í Evrópu sem var á þeim tíma ákaflega óljóst. Það átti raunar einnig við um marga banka álfunnar sem voru annaðhvort í ríkiseigu eða störfuðu undir óbeinni stjórn ráðuneyta. Um leið og hafist var handa við aðskilnað bankarekstrar og stjórnmála eftir 1980, meðal annars með einkavæðingu banka og opnun fjármálamarkaða, sátu sparisjóðir víða eftir í tómarúmi.

Það var einkum þrennt sem rak á eftir breytingum á eignarhaldi sparisjóða. Í fyrsta lagi var nauðsynlegt að fá skýrari og faglegri tengsl á milli framkvæmdastjórnar og stjórnar þannig að stjórnendur sparisjóðanna hefðu skýrt og ákveðið umboð til starfa. Jafnframt þurfti að finna leiðir til að styrkja vald og aðhald eigenda við stjórn sparisjóðsins. Í öðru lagi var sparisjóðunum nauðsynlegt að finna nýjar leiðir til að afla eigin fjár svo þeir gætu vaxið og staðið undir auknum kostnaði vegna nýrra reglna um eiginfjárbindingu (Basel-reglna). Í þriðja lagi var kallað eftir því að samfélagslegt hlutverk sparisjóðanna væri betur skilgreint og að það væri ljóst að arði sparisjóðanna væri raunverulega varið til menningar- og velferðarmála eins og jafnan var kveðið á um í samþykktum sjóðanna.6

Lausnir sem gripið var til, og var hrint í framkvæmd eftir 1990, gengu aðallega í tvær áttir. Ýmist voru sparisjóðirnir gerðir að hlutafélögum eða að eins konar samvinnufélögum með félagalýðræði. Því má segja að boðorðið hafi verið að allri hálfvelgju skyldi eytt.7 Til að skýra hvað þessar leiðir fólu í sér má taka Frakkland og Ítalíu sem dæmi, en bæði löndin höfðu stórt og rótgróið sparisjóðakerfi en fóru afar ólíkar leiðir við að greiða úr eignarhaldsmálum sinna sparisjóða.

Á Ítalíu var sparisjóðunum í raun breytt í hlutafélög með svokölluðum Amato-Carli-lögum árið 1990 sem fólu í sér að stofnaðir voru sérstakir sjóðir eða eignarhaldsfélög (ít. fondazioni), eitt fyrir hvern sparisjóð, sem eignuðust allt eigið fé sparisjóðanna. Þessi eignarhaldsfélög áttu síðan að starfa sem góðgerðarfélög og veita arðinum af sparisjóðunum til menningar- og velferðarmála. Síðan var nýs eigin fjár aflað fyrir sparisjóðinn með hlutafjárútboði og nýir hluthafar laðaðir að. Eignarhaldsfélögunum var í fyrstu ætlað að fara með ráðandi hlut í sparisjóðunum en með Ciampi-lögunum 1998 var þeim gefinn skattalegur hvati til þess að selja sig út úr sparisjóðunum og finna aðra fjárfestingarkosti. Þar að auki var ýtt undir stjórnunarlegan aðskilnað eignarhaldsfélaganna og sparisjóðanna með því að banna sama fólki að sitja í stjórnum beggja. Niðurstaðan varð því sú að ítalskir sparisjóðir urðu í raun ígildi banka. Sumir sparisjóðir sameinuðust bönkum en aðrir starfa sem hlutafélög þar sem sjóðir (ít. fondazioni) fara með ráðandi hlut. Eftir standa því mjög öflug góðgerðarfélög.

Í Frakklandi var farið í öfuga átt og reynt að koma á samvinnulýðræði í sparisjóðakerfinu með ýmsum hætti eftir 1980. Það sem markaði vatnaskil í því ferli voru lög frá 1999 sem gáfu öllum viðskiptavinum sparisjóðanna kost á því að kaupa stofnbréf í sparisjóðunum fyrir allt að því 1.000 evrur og allir stofnfjárhafar höfðu síðan jafnan atkvæðisrétt á aðalfundi. Stofnfjárbréfin skiluðu arðgreiðslum og gáfu rétt á sérstökum tilboðum af ýmsu tagi frá sparisjóðunum. Á fyrstu fjórum árunum eftir samþykkt laganna gerðust um þrjár milljónir Frakka stofnfjárhafar í sparisjóðakerfinu og lögðu fram tæplega 3 milljarða evra sem nýtt stofnfé. Þetta var þó heldur minna en reiknað var með upphaflega. Stjórnendur sparisjóðanna sáu strax tækifæri í því að stofnfjáreign fylgdi aukin tryggð við sparisjóðina. Einnig væru stofnfjárhafarnir líklegir til að afla nýrra stofnfjárhafa meðal ættingja og vina og það gæti einnig orðið til þess að fjölga viðskiptavinum. Aftur á móti hefur gengið hægt að koma á raunverulegu lýðræði stofnfjárhafa samkvæmt reglunni „einn maður, eitt atkvæði“, hvað stjórn sparisjóðanna snertir. Það helgast af áhugaleysi stjórnenda sparisjóðanna og stofnfjárhafanna sem virðast líta á stofnfjárbréfin sem viðskiptatæki fremur en stjórnunartæki. Hvað sem því líður hafa franskir sparisjóðir náð að byggja upp mun betri samvinnu sín á milli á síðari árum eftir að farið var að víkka út eignarhald þeirra og með þeim hætti hafa þeir náð stærðarhagkvæmni í samkeppni við viðskiptabankana.8

Franska og ítalska leiðin hafa báðar náð því markmiði að afla sparisjóðunum nýs eigin fjár, auka sjálfstæði framkvæmdastjórnar og skilgreina velferðarhlutverk sparisjóðanna. Á Ítalíu var það gert með því að breyta sparisjóðunum í hlutafélög og búa síðan til sérstök góðgerðarfélög utan um eigið fé þeirra sem hafa skýran ramma um góðgerðarstarfsemi sína. Í Frakklandi var það gert með útgáfu stofnfjárbréfa og með því að setja skýr lög um að sparisjóðirnir skyldu verja ákveðnum hluta af hagnaði sínum til góðgerðarmála. Sparisjóðirnir setja sér síðan sjálfir reglur um það hvaða velferðarmál þeir vilja styrkja.

Báðar leiðirnar höfðu einnig það markmið að búa til eigendur að sparisjóðunum sem gætu veitt framkvæmdastjórninni stjórnunarlegt aðhald. Það hefur þó aðeins heppnast upp að ákveðnu marki. Á Ítalíu óttuðust margir að eignarhaldsfélögin yrðu að einhvers konar köngulóm í ítölsku viðskiptalífi og því hefur lagasetning frá stofnun þeirra gengið í þá átt að takmarka vald þeirra yfir sparisjóðunum, sem og öðrum fyrirtækjum sem þau kunna að eignast. Það hefur til að mynda verið gert með því að banna stjórnarfólki í eignarhaldsfélögunum að sitja í stjórnum þeirra fyrirtækja sem þau eiga. Vandamálið sem fylgir valdaumboði stjórnar hefur þó ekki horfið heldur aðeins færst til. Á Ítalíu hefur verið deilt um það hverjir skuli stjórna góðgerðarfélögunum, sem jafnframt fara með ráðandi hlut í sparisjóðunum. Í Frakklandi hafa viðskiptavinir ekki öðlast raunverulegt eigendavald yfir sparisjóðunum þrátt fyrir að þeim hafi öllum verið gefinn kostur á því að kaupa stofnfjárbréf og öðlast þannig atkvæðisrétt í stjórn sparisjóðanna. Þótt franska ríkið eigi ekki beinan hlut í sparisjóðunum hefur þeim samt verið stjórnað með svipuðu sniði og ríkisfyrirtækjum í samvinnu við stjórnendur þeirra. Þrátt fyrir að nú sé látið í veðri vaka að sjóðirnir lúti lýðræðislegri stjórn stofnfjárhafa hefur franska ríkið í raun ekki sleppt hendinni af þeim og raunveruleg áhrif stofnfjárhafa á rekstur franskra sparisjóða eru mjög takmörkuð.

Mörg lönd álfunnar hafa fylgt hinu ítalska fordæmi.9 Í Þýskalandi hafa orðið einna minnstar breytingar á sparisjóðakerfinu en það er að öllu leyti í eigu sveitarfélaga og héraðsstjórna. Eignarhaldið á sparisjóðunum hefur þó ekki á neinn hátt verið þeim fjötur um fót og þýskir sparisjóðir standa sterkir andspænis bankakerfinu. Þeir hafa öflugt samstarfsnet og keppa ekki innbyrðis.10

3. 1. 4 Fjármálakreppan og evrópskir sparisjóðir

Þegar til skemmri tíma er litið er líklegt að fjármálakreppan, sem hófst um mitt ár 2007 og enn sér ekki fyrir endann á, muni létta samkeppnisþrýstingi af evrópskum sparisjóðum. Það er ljóst að hugmyndin um sameiginlegan fjármálamarkað í Evrópu hefur orðið fyrir áföllum en þess í stað hafa staðbundnar fjármálastofnanir fengið byr í seglin. Margir sparisjóðir hafa þó orðið fyrir miklum útlánatöpum. Taka má dæmi af hinum þýsku Landesbanken sem voru með ríkisábyrgð á fjármögnun sinni allt til 2005 og nýttu síðustu ár ábyrgðarinnar til umfangsmikillar skuldabréfaútgáfu. Þannig öfluðu þeir mikils fjármagns sem þeir lánuðu vítt og breitt með gríðarlegu tapi, meðal annars til Íslands. Þeir sparisjóðir í þessum löndum sem hafa haldið sig við sitt starfssvæði og forðast ævintýramennsku í öðrum sóknum hafa hins vegar staðið tiltölulega sterkir. Í Þýskalandi hefur kreppan einnig orðið til þess að sparisjóðirnir hafa þétt raðirnar og sterkari sparisjóðir hafa endurfjármagnað hina veikari þar sem þörf hefur verið á.

Erfitt er að sjá hvaða áhrif kreppan muni hafa á sparisjóðina í framtíðinni. Líklegt er að hertar reglugerðir Evrópusambandsins verði smærri sparisjóðum þungar í skauti vegna þess að fastakostnaður við viðskiptabankastarfsemi hækki til muna. Almennt séð verði dýrara að afla innlána og þyngra í vöfum, og krafist verði umfangsmikillar áhættustýringar í útlánastarfsemi. Á hinn bóginn er líklegt að alhliða bankastarfsemi verði einnig sett undir mjög íþyngjandi reglugerðir og jafnvel aðskilin frá viðskiptabankastarfsemi. Það mun draga mjög úr hagkvæmni breiddar í bankastarfsemi og skapa þéttari samkeppnisgrundvöll fyrir hreina viðskiptabankastarfsemi sem sparisjóðirnir hafa verið þekktir fyrir.

3.2 Sparisjóðir á Íslandi á 19. og 20. öld

3. 2. 1 Fyrstu skrefin

Fyrsti sparisjóðurinn á Norðurlöndum var stofnaður í Danmörku árið 1810 en hann bar heitið Spare- og Lånekasse for Grevskabet Holsteinborg. Sparisjóðum fór síðan ört fjölgandi næstu árin þrátt fyrir efnahagserfiðleika í landinu. Hlutverk þeirra var fyrst og fremst að ávaxta sparifé láglaunafólks og bæta almenna velferð. Upp úr 1830 batnaði efnahagsástandið í Danmörku og samkeppni á bankamarkaði jókst samhliða auknum útlánum.11 Í kringum 1840 fóru dönsku sparisjóðirnir að reyna að ávaxta sig sjálfir með útlánum og lánuðu þeir þá aðallega til framkvæmda í landbúnaði með veðum í fasteignum á meðan hefðbundnir viðskiptabankar lánuðu til áhættusamari fjárfestinga.12

Á þessum tíma voru engar hefðbundnar lánastofnanir til á Íslandi, engin sjálfstæð peningaútgáfa og fjármálakerfi landsins var vanþróað. Árið 1836 ákvað danska stjórnin í samráði við embættismenn á Íslandi að leggja bann við seðlanotkun hér á landi og að einvörðungu yrði notast við silfurmynt við greiðslu skatta og annarra gjalda. Helstu rök stjórnarinnar fyrir banninu voru óregla í peningamálum á Íslandi. Þá voru innviðir samfélagsins veikburða, fátækt var landlæg, landið einangrað og stórt hlutfall þjóðarinnar var bændur en annars staðar í Vestur-Evrópu lét borgarastéttin æ meira að sér kveða.13 Viðskipti voru yfirleitt vöruskipti í formi innskrifta í verslunum en peningar voru sjaldséðir. Menn greiddu með ýmsum gjaldgengum vörum, aðallega ull, fiski, smjöri og búpeningi. Jafnvel voru vinnulaun borguð með vörum þar sem vinnufólk til sveita fékk greitt í ull, fatnaði, tólg og sambærilegum vörum en verkafólk í bæjum fékk til að mynda laun greidd inn á viðskiptareikning með úttektarheimild í vörum. Það voru einkum embættismenn og handverksmenn í bæjum sem fengu greidd út laun í peningum.

Um miðja 19. öld tóku stjórnmálamenn að benda á nauðsyn þess að innleiða peninga sem gjaldmiðil. Skortur á verðlagskerfi hafði staðið í vegi fyrir notkun peninga fram undir lok aldarinnar. Árið 1853 sendi Alþingi konungi bænaskrá þar sem óskað var eftir því að stofnaður yrði banki sem myndi bjóða upp á lánastarfsemi, víxilviðskipti og gjaldeyrisviðskipti. Danska stjórnin sá sér ekki hag í því að setja upp útibú danska Þjóðbankans á Íslandi og hafnaði beiðninni en benti Íslendingum á þann möguleika að stofna sparisjóði. Tveimur árum síðar, eða 1855, lagði danski dóms- og Íslandsmálaráðherrann, Carl Frederik Simony, til að stofnaður yrði sparisjóður á Íslandi en ekkert varð úr þeirri hugmynd í það skiptið.14

Þessari hugmynd hafði raunar verið hreyft áður, en orðið „sparisjóður“ kom fyrst fram í grein sem Jón Sigurðsson skrifaði árið 1850 þar sem hann benti á mikilvægi þess að Íslendingar gætu fengið ávöxtun á sparifé sitt. Jón taldi að hægt væri að reka sparisjóði hér á landi að danskri fyrirmynd með það meginhlutverk að veita fólki tækifæri til að ávaxta sparifé sitt, en á þessum tíma geymdu aflögufærir einstaklingar fé sitt vaxtalaust á reikningum hjá kaupmönnum sem þeir versluðu við eða á heimilum sínum. Einnig benti Jón á að torveldur aðgangur að fjármagni hamlaði framförum og uppbyggingu í atvinnulífinu.15 Jón hafði á þessum tíma sett verslunarfrelsi á oddinn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og sá ennfremur að án innlendrar fjármálastofnunar yrði erfitt að koma á fót íslenskri verslunarstétt.

Verslunarfrelsið fékkst loks 1854 og brátt fylgdi fyrsti sparisjóðurinn í kjölfarið. Árið 1858 hóf Sparnaðarsjóður búlausra í Skútustaðahreppi starfsemi, en hann var stofnaður af þingeyskum vinnumönnum. Hugmyndin að baki sjóðnum var að búlausir gætu geymt fé sitt í sjóðnum og fengið greidda rentu fyrir, auk þess sem sjóðnum var ætlað að lána bændum í sveitinni fé til nytsamlegra fyrirtækja. Sparisjóðurinn varð þó ekki langlífur og var lagður af árið 1864 vegna tregðu bænda til að skuldsetja sig og vegna lausafjárskorts.16

Fjórum árum síðar, árið 1868, var Sparisjóður Múlasýslna stofnaður á Seyðisfirði undir forystu hins danska sýslumanns Norðmýlinga, Ole Worm Smith. Á þeim tíma stunduðu Norðmenn síldveiðar fyrir austan land og greiddu landverkafólki laun í peningum og varð það hvati til sparisjóðsstofnunar. Hugmyndir Seyðfirðinga voru sömu ættar og þær sem voru uppi í Skútustaðahreppi áratug fyrr, þ.e. að nýta fjármagnið til uppbyggingar atvinnuvega og framfara á nærsvæði. Sparisjóðnum varð þó ekki langra lífdaga auðið og hætti starfsemi árið 1870.17 Hugmyndin var þó komin á kreik og upp úr 1874 fóru sparisjóðir að skjóta upp kollinum víða um landið.

Árið 1873 var stofnaður sparisjóður í Reykjavík sem stækkaði hratt á fyrstu starfsárum sínum enda fjölgaði íbúum í Reykjavík örar en annars staðar á landinu. Á stofnári sparisjóðsins bjuggu um 2.000 manns í Reykjavík og eftir fyrsta starfsárið voru viðskiptavinir sparisjóðsins 157 talsins en árið 1887 voru þeir orðnir 1.776.18 Árið 1873 var Sparisjóði Siglfirðinga einnig komið á laggirnar en hann er í dag elsti starfandi sparisjóður landsins. Þremur árum síðar var fyrsti sparisjóðurinn á Vestfjörðum stofnaður á Ísafirði. Árið 1879 var Sparisjóður Höfðhverfinga stofnaður og 1884 Sparisjóður Svarfaðardals, síðar nefndur Sparisjóður Svarfdæla. Ári síðar voru stofnaðir tveir sparisjóðir í Eyjafirði, annars vegar Sparisjóður Akureyrar og hins vegar Sparisjóður Arnarneshrepps.19

Af þeim átta sparisjóðum sem starfræktir voru árið 1885 voru fimm við Eyjafjörð. Útbreiðslu sparisjóða á Norðurlandi má rekja til aukinnar þilskipaútgerðar á svæðinu sem hófst upp úr miðri 19. öld. Útgerðin hafði í för með sér að fleira fólk fluttist í sjávarbyggðirnar og sjávarútvegurinn fór að skila mun meiri verðmætum en áður. Um svipað leyti hófst sauðasala til Bretlands þar sem bændur fengu borgað í peningum fyrir afurðir sínar, sem aftur kallaði á innlánastofnanir.20 Þilskipaútgerð var að vísu öflug víða annars staðar á landinu, meðal annars við Faxaflóa og á Vestfjörðum, en sérstaða þilskipaútgerðar við Eyjafjörð fólst í því að skipin voru ekki í eigu fárra fjársterkra aðila (gjarnan kaupmanna), heldur tóku bændur sig saman í samlögum og keyptu sér þilskip. Þannig gátu efnalitlir menn eignast hlut í þilskipi.21 Slík uppbygging í sjávarútvegi byggðist á mörgum smáum lánum til einstaklinga og féll það vel að viðskiptalíkani sparisjóðanna. Einnig má benda á að sparisjóðirnir þar nyrðra spruttu upp úr sama umhverfi og kaupfélögin og Samband íslenskra samvinnufélaga áttu eftir eftir að spretta úr síðar.22

3. 2. 2 Hlutverk og starf fyrstu sparisjóða

Í samþykktum elstu sparisjóðanna er kveðið á um að helsti tilgangur þeirra sé að geyma og ávaxta peninga heimamanna og að greiða fyrir viðskiptum þeirra.23 Sparisjóðirnir ávöxtuðu fé sitt aðallega með kaupum á ríkisskuldabréfum, veðdeildarbréfum eða öðrum skuldabréfum sem álitin voru sambærileg ríkisskuldabréfum. Þá lánuðu þeir fé til einstaklinga gegn tryggum veðum í jörðum, handveðum og húseignum. Einnig tíðkaðist að sparisjóðirnir veittu lán gegn sjálfskuldarábyrgð og þá var þess gjarnan krafist að ábyrgðarmenn væru tveir. Þá veittu sparisjóðirnir víxillán í þeim tilfellum sem ábyrgðarmenn töldust áreiðanlegir en algengt var að lán til fyrirtækja væru í formi víxil- og ábyrgðarlána. Í samþykktum nokkurra sparisjóða var skýrt kveðið á um að stjórnarmenn mættu ekki taka lán hjá sínum sjóði eða ábyrgjast lán frá honum. Þá er iðulega kveðið á um að íbúar í heimabyggð hafi forgang hvað varðar lán úr sparisjóðnum.24

Sparisjóðirnir þóttu varkárir í útlánaveitingum og þess gætt að lánin væru vel tryggð, annaðhvort með veði í fasteignum, jörðum eða með ábyrgð vel stöndugra manna. Dæmi voru um að sparisjóðir gerðu veðköll þegar þeim þótti lánastaða einstakra viðskiptavina orðin tvísýn. Ef ekkert af ofangreindum veðum var fyrir hendi voru jafnvel tekin veð í bústofni. Afskriftir útlána voru sjaldgæfar í bókum sparisjóðanna. Reyndu sparisjóðirnir frekar að semja við viðskiptamenn sína um að greiða skuldir til baka þegar betur áraði, þannig að ekki var gengið beint að skuldurum þó greiðslur bærust ekki á tilsettum tíma. Litlar afskriftir má einnig rekja til þess að stjórnir og gjaldkerar þekktu yfirleitt vel til efnahags og greiðslugetu lántakenda heima í héraði, og því var ekki rennt blint í sjóinn í lánveitingum.25 Þó gátu komið upp aðstæður þar sem beita þurfti hörku í innheimtu, en það gerðist helst þegar illa áraði í samfélaginu og viðskiptamenn vildu fá greitt út það fé sem þeir áttu inni hjá sparisjóðnum. Við slíkar aðstæður kom stundum upp lausafjárvandi hjá sparisjóðunum og höfðu þeir þá ekki aðra leið til þess að fjármagna sig en að innheimta það fé sem þeir áttu útistandandi. Settu nokkrir sparisjóðir inn í samþykktir sínar að þeir sem ættu fé hjá sparisjóðnum skyldu láta hann vita með nokkurra mánaða fyrirvara ef þeir ætluðu sér að fá það greitt út, að því gefnu að upphæðin færi yfir ákveðin mörk.

Þegar kom að innheimtu var lántakendum gefinn frestur til þess að inna greiðslurnar af hendi. Innheimtubréfin voru persónuleg þar sem mismunandi orðalag var notað eftir því hvaða skuldari átti í hlut. Til að mynda var notað mildara orðalag ef skuldarinn var kona. Bréfin voru gjarnan orðuð varfærnislega og meðal annars voru tilgreindar ástæður fyrir innheimtu skuldarinnar og bent á mikilvægi þess að heimamenn stæðu saman um heilbrigðan rekstur á sparisjóðnum. Við erfiðar aðstæður var það ekki látið duga að senda lántakendum innheimtubréf heldur voru send út bréf til þeirra sem ætluðu að taka út fé sitt og þeir hvattir til sparnaðar og gjarnan ýjað að því með kurteislegum hætti að óviturlegt væri að taka út peninga sína.26

Eigið fé sparisjóða var á þessum tíma kallað varasjóður.27 Við stofnun sparisjóðs lögðu einstaklingar fram stofnfé sem myndaði hinn fyrsta varasjóð en þessi stofnfjárframlög voru yfirleitt greidd til baka þegar sparisjóðnum óx fiskur um hrygg. Varasjóðunum var ætlað að bæta það tap sem gæti komið upp í rekstri sparisjóðanna og eftir því sem varasjóðirnir stækkuðu sem hlutfall af starfsfé sparisjóðanna, þeim mun greiðslufærari voru sjóðirnir.28 Lengi vel, eða fram að fyrra stríði, var eiginfjárhlutfall sparisjóðanna í kringum 6%.29 Reksturinn virðist hins vegar hafa gengið dável framan af þriðja áratugnum og eiginfjárhlutfallið var komið upp í rúm 14% árið 1924. Þá kom reyndar babb í bátinn er stærsti sparisjóður landsins, Sparisjóður Árnessýslu, varð gjaldþrota og varasjóður hans þurrkaðist út. Innistæðueigendur í sparisjóðnum þurftu að sæta 25% skerðingu á fé sínu. Við þetta lækkaði samanlagt eigið fé sparisjóðanna um 40% og eiginfjárhlutfallið fór niður í rúm 9%. Landsbankinn tók við þeim rekstri sem sparisjóðurinn hafði haft með höndum.30

Sparisjóðum var ekki heimilt að greiða stofnfjáreigendum sínum arð af stofnfé en þeir máttu greiða þeim fjárhæð sem samsvaraði hámarksávöxtun af innlánum. Þess í stað skyldi hluti hagnaðarins renna til samfélagslegra verkefna. Þau voru af ýmsum toga. Í Hafnarfirði gaf sparisjóðurinn skírnargjafir og studdi skólastarf.31 Þá er athyglisvert samstarf sveitarfélagsins og sparisjóðsins í Hafnarfirði um íbúðalán til efnaminni fjölskyldna sem opinberir sjóðir synjuðu um fyrirgreiðslu, með ábyrgð sveitarfélagsins sem reyndi á í undantekningartilvikum.32 Áþekka sögu er að finna á Suðurnesjum þar sem sparisjóðsstjóri freistaðist til að hlaupa undir bagga með efnaminni einstaklingum sem gátu svo ekki staðið í skilum.33 Þá má einnig sjá af rekstri sparisjóðanna að um hálfgert hugsjónastarf var að ræða þar sem launin voru afar lág. Í Sparisjóði Keflavíkur var gjaldkeranum einum greidd laun fram til ársins 1911, en þá samþykkti aðalfundur að greiða stjórnarformanni þóknun fyrir sín störf.34

3. 2. 3 Samspil banka og sparisjóða í upphafi 20. aldar

Fyrsti banki landsins, Landsbankinn, var stofnaður árið 1886 og þá má heita að íslensk fjármálasaga komist á skrið. Fyrst eftir stofnun starfaði Landsbankinn í samstarfi við sparisjóðina. Bankinn lánaði stærri sparisjóðunum fjármagn til þess að þeir gætu fullnægt eftirspurn eftir lánsfé. Þannig gat bankinn sparað sér kostnað við rekstur útibúa á landsbyggðinni.

Um aldamótin 1900 höfðu um 24 sparisjóðir 30–35% markaðshlutdeild í bæði innlánum og útlánum hérlendis og fjármálakerfið var svæðisbundið. Þetta breyttist svo að segja á einni nóttu árið 1904 þegar erlendur einkabanki, Íslandsbanki, birtist allt í einu á sjónarsviðinu en eftir það fór innlánasöfnun að hefjast fyrir alvöru hjá bönkunum tveimur.35

Íslandsbanki var hlutafélag sem var skráð í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn og nær eingöngu í erlendri eigu. Bankinn flutti með sér gífurlega mikið af dönsku og norsku fjármagni – bæði sem hlutafé og bein lán að utan. Þessu til viðbótar var Íslandsbanki ekki aðeins viðskiptabanki, heldur einnig seðlabanki landsins, þar sem hann fékk einkarétt á seðlaútgáfu á Íslandi í vöggugjöf. Stofnun Íslandsbanka olli byltingu hérlendis þar sem fjármálakerfi með nútímasniði komst loks á laggirnar – þ.e. fjármálakerfi þar sem innlánsstofnanir sinna greiðsluþjónustu og annast fjármálalega milligöngu. Um aldamótin 1900 geymdu landsmenn upp til hópa sparnað sinn á heimilum eða reikningum verslana í innskriftarviðskiptum, eins og tíðkast hafði í aldaraðir. Þar lá féð vaxtalaust eða studdi við rekstur danskra kaupmanna á sama tíma og vanþróað efnahagslíf landsins bráðvantaði lánsfé.

Áhrif Íslandsbanka sjást best á því að um aldamótin 1900 voru 70% sparifjár landsmanna varðveitt á heimilum þeirra í reiðufé en aðeins 30% á bankareikningum. Eftir stofnun bankans árið 1904 féll hlutfall þess sparifjár sem varðveitt var á heimilum hins vegar niður í 30% á aðeins sex árum.36 Fjármálastofnanir höfðu þannig tekið við hlutverki greiðsluþjóna í íslensku efnahagslífi og notkun ávísana og innlánareikninga hófst. Þegar fólk leggur sparifé sitt í banka í stað þess að lúra á því heima er hægt að verja því til framleiðslu og fjárfestingar í formi útlána frá bankanum. Þar með færist fjármálaþjónustan upp á nýtt stig og til kemur svokallaður peningamargfaldari. Með því er átt við það þegar fé er lagt inn í banka og það síðan lánað út, en þeir sem fá féð í hendur leggja það aftur inn í bankann sem ný innlán og svo koll af kolli. Þannig leiðir peningamargfaldarinn til innlánamyndunar og almennrar lausafjársköpunar í hagkerfinu.37 Frá því Íslandsbanki var stofnaður jókst peningamagn í umferð – sem nefnist M3 á táknmáli hagfræðinnar – frá því að vera rúmlega 10% af landsframleiðslu og upp í 30–40% áratug síðar. Peningamagnið, M3, er að mestu leyti innlán í bankakerfinu og áhrif peningamargfaldarans sjást því vel af þeirri staðreynd að heildarinnlán á Íslandi tífölduðust á árunum 1905 til 1917.38 Þar af hafði Íslandsbanki um 50% markaðshlutdeild en að öðru leyti sköpuðu þessi peningamargföldunaráhrif ný innlán fyrir bæði Landsbankann og sparisjóði hérlendis.

Fyrir sparisjóðina voru áhrifin af bankabyltingunni tvíbent. Bankarnir tveir, Landsbanki og Íslandsbanki, einhentu sér í innlánasöfnun og urðu harðir samkeppnisaðilar við sparisjóðina. Fyrstu bankaútibúin urðu reyndar til með yfirtöku sparisjóða. Á stofnári Íslandsbanka árið 1904 runnu Sparisjóður Akureyrar og Sparisjóður Norðuramtsins inn í bankann og urðu að útibúi á Akureyri. Sama ár varð Sparisjóður Seyðisfjarðar að útibúi bankans þar eystra. Þá var Sparisjóður Vestmannaeyja sameinaður útibúi Íslandsbanka árið 1920. Fyrsta útibú Landsbankans var stofnað á Akureyri 1902 en árið 1904 innlimaði bankinn Sparisjóð Ísafjarðar og gerði að útibúi, og Sparisjóður Eskifjarðar fór sömu leið árið 1918. Aukinheldur náðu viðskipti bankanna langt út fyrir þá staði þar sem útibú þeirra voru staðsett. Dæmi voru einnig um að sparisjóðir hafi gegnt einskonar umboðshlutverki fyrir útibú annarra banka. Til að mynda var hægt að fá, greiða og framlengja víxla frá útibúi Landsbankans á Eskifirði í starfsstöð Sparisjóðs Norðfjarðar í Neskaupstað. Mæltist þessi þjónusta vel fyrir hjá útvegsmönnum á staðnum sem gátu fengið fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum sem veitti þá rekstrarlán, ýmist í eigin nafni eða fyrir hönd Landsbankans.39

Þannig fækkaði sparisjóðum á fyrsta áratug tuttugustu aldar og útlánahlutdeild þeirra féll niður í 8% árið 1908. Þrír sparisjóðir voru lagðir endanlega niður á þessum árum, en það voru Sparisjóður Rosmhvalaneshrepps (1890–1892), Sparisjóður Vopnafjarðar (1890–1905) og Sparisjóður Vestur-Barðastrandarsýslu (1892–1918).40

Aukin peningavelta og aukning innlána hafði hins vegar mjög jákvæð áhrif á starfsemi sparisjóða næstu ár á eftir. Árið 1905 voru sparisjóðirnir 21 talsins og 17 árum síðar, árið 1922, voru þeir orðnir 49. Smæð sparisjóðanna gerði það hins vegar að verkum að þeir voru ekki nægjanlega burðugir til þess að verða við auknum kröfum atvinnulífsins um fjármagn, sem kallaði á innkomu annarra fjármálastofnana á starfssvæði sparisjóðanna.41 Ennfremur máttu sparisjóðir lengi vel ekki veita gjaldeyrisþjónustu, sem olli því að stór fyrirtæki, aðallega í útgerð, beindu viðskiptum sínum til bankanna.42 Hins vegar var hagvöxtur hraður á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og þrátt fyrir aukin umsvif bankanna fjölgaði sparisjóðum hratt.

Árið 1922 var sparisjóði að finna í öllum landshlutum. Sparisjóðirnir störfuðu jafnt í sjávarþorpum sem í landbúnaðarhéruðum. Enn sem fyrr voru sparisjóðir flestir á Norðurlandi en fæstir á Austurlandi.43 Tólf sparisjóðir voru stofnaðir á Vestfjörðum upp úr aldamótunum og fjórtán á Suður- og Vesturlandi.

Frá árinu 1875 til ársins 1925 fóru innistæður landsmanna í bönkum og sparisjóðum vaxandi og nam heildarupphæðin 48,8 milljónum króna árið 1925. Þar af voru um 7,7 milljónir hjá sparisjóðunum, eða rétt um 16% af öllum innistæðum í landinu. Í einhverjum tilvikum lækkuðu innistæður á milli ára en sú lækkun var óveruleg þar sem sparisjóðsinnistæðurnar þrefölduðust á hverjum áratug. Árin 1887 og 1904 lækkuðu innistæður í sparisjóðum verulega, sem kom til vegna þess að margir sparisjóðir runnu þá inn í bankana.

Umsvif sparisjóða í upphafi 20. aldar

Allt frá stofnun sparisjóðanna fram til fullveldisársins 1918 voru heildarinnistæður flestra sparisjóða undir 100.000 krónum. Sparisjóður Reykjavíkur var á sínum tíma eini sparisjóðurinn með innistæður yfir 100.000 krónum en hann var sameinaður Landsbankanum árið 1887. Næstu sparisjóðir sem náðu yfir 100.000 króna í innistæðum voru Sparisjóður Ísafjarðar árið 1895 og Sparisjóður Akureyrar árið 1901. Árið 1903 fór Sparisjóður Árnessýslu yfir 100.000 krónur í innistæðum og árið 1911 var hann eini sparisjóðurinn með yfir 300.000 krónur. Árið 1920 fóru innistæður stærsta sparisjóðsins, Sparisjóðs Árnessýslu, yfir 1 milljón króna. Næststærsti sparisjóður landsins á þessum tíma var Sparisjóður Mýrasýslu með rúmlega 750.000 krónur í innistæðum og þar á eftir fylgdi Sparisjóður Sauðárkróks með rúmlega 500.000 krónur.44 Allir þessir sparisjóðir voru í stórum landbúnaðarhéruðum.45 Eins og áður hefur komið fram varð Sparisjóður Árnessýslu gjaldþrota og var tekinn yfir af Landsbankanum árið 1925.

Vegna fjölgunar sparisjóða og vaxandi umsvifa þeirra komu fram kröfur um að sett yrðu sérstök lög um starfsemi þeirra. Árið 1915 var lagt fram frumvarp á Alþingi sem var samþykkt með nokkrum breytingum frá upphaflegri tillögu. Samkvæmt þeim skyldu sparisjóðir hafa það hlutverk að taka við fé einstakra manna, geyma það og ávaxta á sem tryggastan hátt. Einnig var að finna í lögunum ákvæði um hvaða atriði skyldu vera í samþykktum sparisjóða og hvernig stjórn skyldi kosin. Í lögunum voru ákvæði um hve háa vexti stofnendur og ábyrgðarmenn máttu fá af því fé sem þeir lögðu fram. Þá var gengið út frá því að allur hagnaður rynni í varasjóð en þó voru takmarkaðar heimildir í lögunum til að greiða stofnfjáreigendum vexti.46 Einn tilgangur laganna var að tryggja innra eftirlit sparisjóðanna og máttu starfsmenn sparisjóða aldrei vera færri en tveir þar sem bókari og gjaldkeri urðu að vera til staðar. Þrátt fyrir að sparisjóðirnir hefðu ekki lent í neinum stórum áföllum þegar hér var komið sögu hafði hraður vöxtur þeirra gert það að verkum að menn töldu þörf á auknu eftirliti með starfsemi þeirra. Árið 1923 var samþykkt með lögum að skipa eftirlitsmann með bönkum og sparisjóðum. Það embætti var þó fljótlega lagt niður, en nokkurt eftirlit hélst engu að síður með sparisjóðunum af hálfu ríkisvaldsins.

Þrátt fyrir fjölgun og aukin umsvif sparisjóða á Íslandi voru Íslandsbanki og Landsbankinn með yfirburðamarkaðshlutdeild á lánamarkaðnum. Árið 1929 var Landsbankinn með 40% allra útlána í bankakerfinu og Íslandsbanki með um 28% en samanlögð útlán sparisjóðanna námu 7%. Um aldamótin hófu ýmsir fjárfestingarsjóðir starfsemi og lánuðu út fjármagn í sérhæfð verkefni. Veðdeild Landsbankans var stofnuð árið 1900 en henni var ætlað að veita lán til lengri tíma. Hlutdeild veðdeildarinnar í heildarútlánum á Íslandi nam 16% árið 1929 og voru flest útlánin til fasteignakaupa í bæjum og að hluta til bænda. Ræktunarsjóður tók til starfa árið 1901 og lánaði til bænda með veði í jörðum eða með tryggingum frá sveitarfélögum og gerði það leiguliðum kleift að sækja fjármagn í sjóðinn. Lánin voru ætluð til jarðabóta og voru hagstæðustu lán sem bændur gátu fengið á þeim tíma. Hlutdeild sjóðsins nam 3% af heildarútlánum árið 1929. Aðrir sjóðir, eins og Söfnunarsjóður Íslands, Viðlagasjóður, Kirkjujarðasjóður og Fiskveiðasjóður, voru með samtals um 6% allra útlána.47

3.3 Sparisjóðir eftir 1930

3. 3. 1 Vatnaskil með gjaldþroti Íslandsbanka 1930

Við upphaf kreppunnar miklu á fjórða áratugnum urðu vatnaskil í fjármálaþjónustu hérlendis þegar íslenska ríkið tók yfir bankarekstur á Íslandi og fjármagnshöft voru sett. Nýr ríkisbanki, Búnaðarbankinn, var stofnaður í ársbyrjun 1930 en öllu afdrifaríkara varð þó gjaldþrot Íslandsbanka í febrúar sama ár og endurreisn hans nokkrum vikum síðar sem Útvegsbanka Íslands í ríkiseigu. Þannig varð til þriggja banka ríkisbankakerfi, þar sem hver banki um sig hafði þrjá pólitískt skipaða bankastjóra. Árið eftir var svo næsta skref stigið er fjármagnshöftum var komið á til að bregðast við söluerfiðleikum í útflutningi og fjármagnsflótta haustið 1931. Höftin lokuðu íslenska fjármálakerfið inni. Tveimur árum síðar voru sett lög nr. 73/1933 um bann við okri, dráttarvexti o.fl., sem festu hámarksvexti og afnámu þannig vaxtafrelsi í landinu.48

Í þessu nýja ríkisbankakerfi hægði mjög á framförum í fjármagnsviðskiptum í hartnær hálfa öld. Þessu fylgdu bæði tækifæri og erfiðleikar fyrir sparisjóðakerfið. Það varð mun auðveldara fyrir stærri sparisjóði að keppa um einstaklingsviðskipti við stirðbusalega ríkisbanka sem deildu oft út fjármagni á pólitískum forsendum, og veittu takmarkaða einstaklingsþjónustu, einkum í þéttbýli. Að sama skapi voru sparisjóðirnir bundnir, ekki aðeins af höftum, heldur var starfsrammi þeirra mun þrengri en viðskiptabankanna og þeir gátu aðeins með takmörkuðum hætti beitt sér í samkeppni við þá. Á haftatímanum varð því grundvallarbreyting á landfræðilegri dreifingu sparisjóða og þeir lentu í hálfgerðu aukahlutverki víða á landsbyggðinni en komu sér hins vegar upp geysisterkri stöðu á mörgum stærri þéttbýlisstöðum.

3. 3. 2 Eins dauði er annars brauð

Fyrstu áhrifin af vandræðum Íslandsbanka voru jákvæð fyrir sparisjóðina og svo virðist sem stór hluti viðskiptavina Íslandsbanka hafi leitað til sparisjóðanna eftir gjaldþrot bankans. Til að mynda fengu fyrrum viðskiptavinir Íslandsbanka, einkum iðnaðarmenn, áhrifamenn úr Sjálfstæðisflokknum til liðs við sig árið 1932 og stofnuðu nýjan sparisjóð, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis.49 Hins vegar var sífellt hert á höftunum er á leið og stöðugt þrengdi að starfsheimildum fjármálastofnana, til dæmis varðandi vaxtasetningu. Staða sparisjóða á fjórða áratug aldarinnar einkenndist af kyrrstöðu í rekstri. Á kreppuárunum dró úr innlánum hjá flestum sparisjóðum og samhliða minnkaði útlánageta þeirra. Mikillar aðhaldssemi var gætt í útlánum og þurftu viðskiptavinir oft og tíðum að færa sterk rök fyrir lánsþörf sinni.50

Á fimmta tug aldarinnar, eftir heimstyrjöldina, urðu mikil umskipti í efnahagslífi landsmanna og kaupmáttur jókst gríðarlega. Á kreppuárunum skorti sparisjóðina innlán en á fimmta áratugnum snerist dæmið við og nokkrir sparisjóðir lentu í vandræðum með að koma fjármagninu í ávöxtun. Svo mikið var þá af innlánum í sparisjóðunum að ekki var hægt að ávaxta þau nema að hluta til í útlánum. Nokkrir sparisjóðir gripu þá til þess ráðs að leggja innlánin í Landsbankann til ávöxtunar og þegar Landsbankinn setti takmarkanir á upphæð einstakra innlána brugðust sparisjóðir við með því að stofna innlánsbækur í nafni stjórnarmanna.51

Algengt var að sparisjóðir í sjávarplássum legðu fé til uppbyggingar í útgerð og fiskvinnslu. Í Neskaupstað tók sparisjóðurinn þátt í kaupum á tveimur togurum til staðarins, byggingu á dráttarbraut og standsetningu á tveimur frystihúsum.52 Þá átti Sparisjóður Ólafsfjarðar stóran þátt í endurnýjun skipaflotans á svæðinu, auk þess sem farið var út í kostnaðarsama hafnargerð, sem efldi búsetu á svæðinu til lengri tíma. Þá var byggt upp hraðfrystihús sem átti eftir að þjóna íbúum Ólafsfjarðar næstu áratugina.53

Einnig má taka dæmi af Sparisjóði Hafnarfjarðar. Á fyrri hluta fimmta áratugarins jukust lán til húsbygginga, sem kom til vegna fjölgunar íbúa í Hafnarfirði, auk þess sem setuliðið hafði afnot af íbúðarhúsnæði í bænum. Þá lánaði Sparisjóður Hafnarfjarðar fjármagn til uppbyggingar sundlaugar í Hafnarfirði eftir stríðið og árið 1946 fjármagnaði sjóðurinn smíði á elli- og hjúkrunarheimilinu Sólvangi sem lauk árið 1953. Þá kom sparisjóðurinn að hafnarframkvæmdum á svæðinu og veitti lán gegn ábyrgð sveitarfélaga og ríkisins.54

Í landbúnaðarhéruðum landsins gegndu sparisjóðirnir fjölþættu og veigamiklu hlutverki. Eftirspurn eftir lánsfé var mikil eftir stríð og voru lánsbeiðnirnar oft háar. Í Dölunum hafði mæðiveiki í sauðfé til dæmis valdið bændum stórtjóni og þurfti að lokum að fella allt sauðfé í sýslunni. Endurnýja þurfti bústofninn og leggja nýjar girðingar.55

3. 3. 3 Nýjar tegundir sparisjóða sem síðan breytast í banka

Mikil veltiár á fimmta áratugnum urðu til þess að fjármálakerfið fylltist af nýjum innlánum sem var veitt aftur út í hagkerfið eftir pólitískum áherslum. Aðaláherslan var á að fjármagna uppbyggingu í undirstöðuatvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi, en síður að veita fjármagni til verslunar, þjónustu eða iðnaðar í þéttbýlinu. Þetta skapaði ný tækifæri fyrir ýmis hagsmunasamtök að stofna sparisjóði á þéttbýlisstöðum til að þjóna þeim sem ekki höfðu aðgang að bankakerfinu. Þessum sparisjóðum var síðan breytt í banka þar sem starfsheimildir sparisjóða voru mun þrengri en viðskiptabanka. Þessar nýju fjármálastofnanir, hagsmunafélagsbankarnir, gengu á hlut bæði ríkisbanka og sparisjóða.

Verslunarsparisjóðurinn – síðar Verslunarbankinn – er gott dæmi um þessa þróun. Hann var stofnaður 1956, en þá voru starfandi þrír ríkisbankar, þ.e. Búnaðarbankinn, Landsbankinn og Útvegsbankinn. Auk þeirra var Iðnaðarbankinn á markaðnum. Skortur var á lánsfé eftir seinni heimsstyrjöldina og höfðu sjávarútvegur og að nokkru leyti landbúnaður forgang að lánsfé fyrir tilstilli stjórnvalda. Aðgangur verslunarinnar að lánsfé skertist hins vegar jafnt og þétt og því brugðu forkólfar hennar á það ráð að setja á laggirnar sparisjóð sem sinnti versluninni sérstaklega. Mjög erfitt var að stofna banka á þessum árum því ríkið veitti leyfi til bankarekstrar. Auðveldara var að stofna sparisjóð en starfsheimildir þeirra voru þó mun þrengri en bankanna. Verslunarsparisjóðurinn var stofnaður 4. febrúar 1956 af 310 einstaklingum sem lögðu fram 5.000 krónur í stofnfé hver um sig. Fljótlega kviknaði áhugi á að breyta sparisjóðnum í banka og var rekstrinum hagað þannig að umbreytingin í banka yrði sem auðveldust.56 Verslunarsparisjóðnum var síðan breytt í Verslunarbankann árið 1961.

Það var á svipuðum forsendum sem Samvinnusparisjóðurinn var stofnaður árið 1954 og breytt í Samvinnubankann 1963 og Sparisjóður alþýðu var stofnaður 1967 og breytt í Alþýðubankann 1971.

3. 3. 4 Fjöldi og dreifing sparisjóða á árunum eftir seinna stríð

Í lok árs 1962 voru 66 sparisjóðir starfræktir á landinu og höfðu aldrei verið fleiri. Flestir höfðu þeir verið stofnaðir á árunum 1910–1919 en að auki höfðu fjölmargir sparisjóðir sem starfræktir voru til lengri eða skemmri tíma annaðhvort sameinast bönkum eða öðrum sparisjóðum. Örfáir sparisjóðir höfðu verið lagðir af fyrir fullt og allt.57

Af þeim 65 sparisjóðum sem starfræktir voru á Íslandi árið 1961 voru 26 í sveitum.58 Samkvæmt manntali árið 1960 töldust 37 kauptún á landinu öllu á þeim tíma, og í 22 þeirra voru starfandi sparisjóðir.59 Árið 1962 var stofnaður sparisjóður í Hveragerði sem þá var kauptún, og í tveimur kauptúnum voru starfrækt bankaútibú. Af þeim tólf kauptúnum þar sem engin fjármálastofnun var starfrækt áttu íbúar fjögurra greiðan aðgang að fjármálastofnun í öðru byggðarlagi. Átta kauptún voru því án fjármálastofnunar árið 1962 og voru þau öll á Austur- og Suðurlandi.

Um 57% sparisjóða voru á Vestfjörðum eða á Norðurlandi árið 1961, en einungis um 12% á Reykjanesi, Austurlandi og Suðurlandi.60 Um þriðjungur allra sparisjóða á Íslandi starfaði í tveimur sýslum, í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem tíu sparisjóðir störfuðu og í Eyjafjarðarsýslu sem taldi níu sjóði, enda löng hefð fyrir rekstri sparisjóða í Eyjafirði.61

Ef litið er til einstakra sparisjóða árið 1961 var Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis langstærsti sparisjóðurinn á Íslandi með yfir 100 milljónir króna í innistæðum. Helstu þéttbýlissparisjóðirnir fylgdu á eftir, það er Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Hafnarfjarðar og síðan Sparisjóður Akraness. Samvinnusparisjóðurinn var í þriðja sæti en nokkru síðar breyttist hann í Samvinnubankann.

Mikill stærðarmunur var á stærstu og minnstu sparisjóðunum en rúmlega helmingur allra innistæðna og útlána var hjá fimm stærstu sparisjóðunum og var hlutfallið um 70% þegar horft var til tíu stærstu sparisjóðanna62 en þeir höfðu allir aðsetur í sveitarfélögum með fleiri en 800 íbúa. Meirihluti sparisjóða í kaupstöðum var með spariinnlán upp á 10–25 milljónir króna, en meirihluti sparisjóða í kauptúnum og sveitum var með 1–5 milljónir króna í spariinnlán. Um þriðji hver sveitasparisjóður var með undir 1 milljón króna í innlán. Rúmlega annar hver var með undir 5 milljónir króna í spariinnlánum.

3. 3. 5 Útibúasamkeppni eftir 1960

Lengi vel forðuðust ríkisbankarnir þrír að fjölga útibúum og eftirlétu sparisjóðunum að starfa í hinum dreifðari byggðum. Á þessu varð töluverð breyting á viðreisnarárunum þegar bankarnir hófu að útvíkka útibúanetið með opnun starfsstöðva víða um landið. Þessar breyttu áherslur má líklega rekja til festingar vaxta árið 1957 sem varð til þess að bankarnir gátu ekki lengur keppt innbyrðis og við sparisjóðina í vöxtum en beindu kröftunum þess í stað í opnun nýrra útibúa. Það átti eftir að hafa mjög afdrifarík áhrif á þróun bankarekstrar hérlendis.

Árið 1957 var Landsbankanum skipt í tvö svið, seðlabankadeild og viðskiptabankadeild, og um leið fékk seðlabankadeildin beint íhlutunarvald yfir vöxtum banka og sparisjóða. Jafnframt var seðlabankadeildinni skipuð sérstök stjórn af ríkisstjórninni sem átti að ákveða vextina. Við vaxtaákvarðanir sínar virðist sú stjórn hvorki hafa haft að leiðarljósi viðskiptasjónarmið í bankarekstri né þjóðhagsleg markmið um efnahagslegan stöðugleika. Voru raunvextir bæði innlána og útlána yfirleitt neikvæðir svo lengi sem þessi skipan varði.63

Bankar eru milliliðir í fjármálaþjónustu. Þeir taka við innlánum og veita útlán og hagnast svo á vaxtamuninum, þannig að vaxtastigið skiptir ekki höfuðmáli fyrir afkomu þeirra svo lengi sem þeir geta notið vaxtamunar. Með vaxtafestingunni árið 1957 voru vextir banka og sparisjóða færðir niður fyrir markaðsvexti. Lágir vextir auðvelda bankarekstur að sumu leyti. Líkur á greiðslufalli og vanskilum minnka og bankinn þarf ekki að hafa fyrir því að leita uppi viðskiptavini, þeir standa í röðum fyrir utan skrifstofu bankastjóra eða útibússtjóra í von um að fá lán á niðursettum vöxtum. Vandinn er hins vegar sá að sparifjáreigendur sjá brátt takmarkaðan tilgang í því að leggja fjármuni sína inn á þessum lágu innlánavöxtum. Þannig breyta niðursettir vextir eðli bankarekstrar á þann veg að bankarnir taka að einbeita sér að því að safna innlánum, en það verður aðeins gert með því að þétta og efla útibúanetið. Eftir því sem hagsmunafélagabönkunum óx fiskur um hrygg þrengdi sífellt að fjármögnun ríkisbankanna þriggja og þeir sáu sig tilneydda til að fjölga útibúum til að vinna gegn innlánatapi.64

Verðbólga fór úr böndunum eftir 1972 og stóð í tugum prósenta næstu ár á eftir. Stjórn Seðlabankans neitaði að hækka vexti til samræmis við verðbólgu og varð það til þess að raunvextir innlána urðu neikvæðir um 20%. Neikvæðir raunvextir eyða sparifé fólks. Kannski er þó rangt að tala um að spariféð eyðist þar sem verðmætið hverfur ekki heldur færist yfir til lántakenda sem þurfa ekki að greiða nema hluta af lánum sínum til baka – hitt sér verðbólgan um að strika út. Þannig fela 20% neikvæðir raunvextir í sér að fimmtungur sparifjár landsmanna var færður til lántakenda á hverju ári og hlaut þá að ganga fljótt á höfuðstól lánanna. Þessi millifærsla var frá sparifjáreigendum og lífeyrissjóðum til fyrirtækja og heimila, en einnig á milli kynslóða með því að verðmæti voru færð frá þeim eldri sem áttu peninga í banka yfir til þeirra yngri sem skulduðu. Þegar leið á áttunda áratuginn tók bönkunum að blæða út, þar sem innistæður drógust hratt saman að raunvirði. Þetta sést vel á því að peningamagn (M3) sem hlutfall af landsframleiðslu lækkaði úr um 40% árið 1967 niður í um 26% við setningu Ólafslaganna svonefndu árið 1979 er lögfestu verðtrygginguna.65 Samdrátturinn í peningamagni leiddi til þess að raunveruleg útlánageta bankanna dróst verulega saman.66

Ríkisbankarnir þrír voru því undir tvöfaldri pressu er kom fram á áttunda áratuginn vegna minnkandi innlánahlutdeildar og minnkandi innlánastofns. Þeir voru einnig undir pólitískum þrýstingi um að færa út starfssvæði sitt og stofna fleiri útibú á landsbyggðinni, en stofnun útibúa á höfuðborgarsvæðinu var aftur á móti ekki leyfð. Sérstök nefnd á vegum ríkisins sá um leyfisveitingu fyrir stofnun útibúa og var leyfi til að stofna útibú úti á landi auðfengið en þegar Reykjavík átti í hlut var svarið yfirleitt þvert nei fram til 1980.67 Viðskiptabönkunum var því nauðugur einn kostur að bregðast við innlánasamkeppninni með því að opna ný útibú á landsbyggðinni og sóttust þeir þá gjarnan eftir því að yfirtaka sparisjóði eða innlánsdeildir kaupfélaga til þess að skapa sér starfshæfan grundvöll á nýjum stað. Í kjölfarið fækkaði sparisjóðum mjög. Landsbanki Íslands tók Sparisjóð Húsavíkur yfir árið 1963 og Búnaðarbanki Íslands Sparisjóð Húnavatnssýslu sama ár. Árið 1964 hættu fjórir sparisjóðir starfsemi. Landsbankinn yfirtók einn stærsta sparisjóðinn á landsbyggðinni, Sparisjóð Akraness, og Búnaðarbankinn yfirtók Sparisjóð Holta- og Ásahrepps, Sparisjóð Sauðárkróks og Sparisjóð Stykkishólms.

Þessi þróun gekk fremur hratt fyrir sig. Árið 1960 voru afgreiðslustaðir68 sparisjóðanna um þrefalt fleiri en viðskiptabankanna en átta árum síðar voru afgreiðslustaðir viðskiptabankanna orðnir fleiri en sparisjóðanna. Viðskiptabankarnir starfræktu afgreiðslustaði og útibú á a.m.k. 46 stöðum utan höfuðborgarsvæðisins árið 1980 og á a.m.k. 52 stöðum árið 1990.69 Afgreiðslustöðum viðskiptabankanna á landsvísu fjölgaði um 27 á þessum tíu árum en sparisjóðanna eingöngu um 5. Bankarnir komu sér jafnvel upp afgreiðslum á mjög fámennum stöðum eins og Reykhólum, Reykholti í Biskupstungum og Þykkvabæ.

Fyrrverandi bankastjóri lýsti samkeppni á bankamarkaði á sjöunda áratugnum svo:

Samkeppnin fólst fyrst og fremst í að ná í innlán til þess að fjármagna útlánin. Menn gátu ekki beitt verðsamkeppni og fjölbreytni í reikningum því slíkt var ákveðið af Seðlabankanum. Það skilaði bestum árangri að opna útibú sem víðast. Þess vegna voru útibú eftirsóttur kostur. Leyfi fyrir þeim voru hins vegar líka skömmtuð. Í nýjum bankalögum 1986 var að finna ákvæði um að bankar gætu opnað útibú hvar sem þeir vildu og þyrftu ekki leyfi til þess. Mér var sagt að daginn sem lögin tóku gildi hafi um 100 umsóknir um útibú legið óafgreiddar hjá Seðlabankanum. Útibú voru skömmtuð gæði. Við þurftum að fá leyfi hjá ráðherra til að opna og ráðherra þurfti að fá umsögn Seðlabankans sem var íhaldssamur í sínum umsögnum þannig að það fylgdi því mikill pólitískur þrýstingur að opna útibú.70

Tregða Seðlabankans stafaði af klemmunni sem fylgdi því að bankinn hafði það hlutverk að stjórna öllum þáttum bankastarfseminnar á þessum tíma og ef útibúunum fjölgaði of ört gat kostnaðurinn vegna þess aukið þörf viðskiptabankanna fyrir vaxtahækkanir.71 Verslunarbankinn opnaði til dæmis útibú vorið 1963 í Keflavík þar sem fyrir voru öflugir kaupmenn sem bankinn hugðist ná til. Hann náði strax nokkrum viðskiptum til sín í samkeppni við sparisjóðinn á staðnum en brátt bættust við útibú frá Útvegsbankanum og Samvinnubankanum og þrengdist þá kostur allra. Næsta útibú Verslunarbankans var ekki opnað fyrr en 1975 þrátt fyrir ítrekaðar umsóknir. Reglur sem settar voru 1964 gerðu bönkum skylt að sækja um starfsleyfi fyrir útibú hjá viðkomandi ráðherra. Viðskiptaráðherra fór með málefni allra banka nema Búnaðarbanka og Iðnaðarbanka sem heyrðu undir ráðherra þeirra atvinnuvega. Það virðist hafa gert Búnaðarbanka og Iðnaðarbanka auðveldara fyrir að fá samþykktar umsóknir um stofnun útibúa. Ríkisbönkunum gekk betur en einkabönkum að fá leyfi fyrir útibúum. Hins vegar var dýrt að setja upp útibú úti á landi og var það ástæða þess að fullgild bankaútibú urðu fá utan Suðvesturhornsins.72

Þessi harða útibúasamkeppni leiddi til gríðarmikillar offjárfestingar og kostnaðar fyrir íslenska bankakerfið sem enn eimir eftir af. Hins vegar urðu hinar pólitísku reglur við úthlutun nýrra útibúa til þess að verkaskipting banka og sparisjóða breyttist töluvert. Fyrir 1960 höfðu sparisjóðir séð um að þjónusta dreifbýlið en ríkisbankarnir þéttbýlið. Eftir því sem frjálsræði í fjármálaþjónustu jókst næstu tvo áratugi snerist þetta við. Bankarnir höfðu þá dreift sér um allt land en sparisjóðir í þéttbýli höfðu eflst verulega.

3.4 Sparisjóðirnir eftir 1980

3. 4. 1 Blómaskeið sparisjóðanna 1985–1995

Eftir 1980 urðu önnur kaflaskil í íslenskri fjármálasögu með frelsisvæðingu á fjármálamarkaði. Frelsi var aukið á mörgum sviðum, s.s. vaxtafrelsi frá 1985, frelsi í fjármagnsviðskiptum við útlönd frá 1993, upphaf virks hlutabréfamarkaðar og tilkoma nútímalegs millibankamarkaðar með krónur og gjaldeyri frá 1998. Árið 1985 var Ísland með heftasta fjármálageira Vesturlanda og er böndin röknuðu urðu umskiptin svo mikil og hröð að hæglega má tala um byltingu.

Þessi frelsisvæðing náði einnig með beinum hætti til sparisjóðanna. Með lögum nr. 87/1985 voru starfsheimildir sparisjóða rýmkaðar og felld voru úr gildi ákvæði eldri laga sem takmörkuðu starfsemi þeirra í samanburði við viðskiptabanka. Með lögunum var heimilað að verðtryggja stofnfé og stofnfjáraðilum leyft að framselja stofnfé að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Tilkoma laganna leiddi af sér nánara samstarf sparisjóða í landinu og árið 1986 var sett á laggirnar Lánastofnun sparisjóðanna hf. sem var ætlað að auka samstarf sjóðanna og gera þeim kleift að styðja hver annan í erfiðu árferði. Sama ár var stofnaður Tryggingasjóður sparisjóða sem tryggði innistæður viðskiptavina ef sparisjóður lenti í gjaldþroti. Árið 1999 urðu innistæðutryggingar síðan þær sömu hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.73

Tilkoma vaxtafrelsis og eðlilegra viðskiptahátta í bankastarfsemi komu sparisjóðunum ákaflega vel í fyrstu. Höft á fjármálamarkaði höfðu takmarkað mjög mögulegt þjónustuframboð fyrir heimili og einstaklinga og frelsið opnaði því nýjar gáttir fyrir sparisjóðina sem höfðu löngum lagt áherslu á marga og smáa viðskiptavini. Á sama tíma urðu ýmsar tækniframfarir í greiðsluþjónustu sem gerðu sparisjóðunum kleift að bjóða upp á nýja möguleika fyrir viðskiptavini sína. Níundi áratugurinn varð tími mikils vaxtar í fjármálaþjónustu fyrir almenning og þar voru sparisjóðirnir í fararbroddi.

Árið 1989 keypti Landsbankinn rúmlega helmings hlut í Samvinnubankanum og ári síðar eignaðist hann bankann að fullu. Árið 1990 var Íslandsbanki stofnaður þegar ríkið seldi Útvegsbankann þremur bönkum, Alþýðubankanum, Iðnaðarbankanum og Verslunarbankanum, með því skilyrði að þeir sameinuðust í einn banka. Eftir þessar breytingar hafði viðskiptabönkum fækkað úr sjö í þrjá.

Það kom einnig sparisjóðunum til góða að bankarnir þrír áttu allir undir högg að sækja langt fram á tíunda áratuginn. Þeir urðu fyrir miklum áföllum þegar sambland hárra raunvaxta og skerðingar aflaheimilda í þorskveiðum þvingaði fram endurskipulagningu íslensks atvinnulífs undir lok níunda áratugarins. Þar kom hvort tveggja til að helstu fyrirtæki landsins höfðu komist á bragðið með að nýta sér neikvæða raunvexti til mikillar skuldsetningar á áttunda áratugnum, auk þess sem gífurleg offjárfesting hafði átt sér stað í sjávarútvegi í kjölfar útfærslu landhelginnar. Til þess að vinda ofan af þessu þurfti miklar afskriftir af hálfu bankanna þriggja, einkum Landsbankans og Íslandsbanka er áttu flest lán til útgerðar.74

Á tíunda áratugnum voru tekin upp svonefnd Basel-viðmið um áhættuveginn eiginfjárgrunn sem reyndust þungbær fyrir bankana eftir mikil útlánatöp. Þurfti Landsbankinn að fá víkjandi lán frá ríkinu árið 1993 til þess að geta staðist þessar nýju kvaðir. Næstu ár þar á eftir var vöxtur ríkisbankanna tveggja takmarkaður vegna skorts á eigin fé, sem var ekki bætt úr fyrr en með skráningu þeirra í kauphöll og hlutafjárútboði til almennings árið 1998. Við þetta bættist einnig gríðarlegur rekstrarkostnaður vegna mikillar fjölgunar útibúa og almennrar óskilvirkni í rekstri áratugina á undan. Íslandsbanki hinn nýi glímdi við verulegan kostnaðarvanda fyrstu starfsár sín enda hafði bankinn verið myndaður með sameiningu fjögurra banka sem var steypt saman í einn án þess að fækka starfsfólki.

Allt þetta – aukið samstarf milli sparisjóða, frelsi og ný tækifæri samhliða vandræðum í bankakerfinu – skapaði mjög hagstæð vaxtarskilyrði fyrir sparisjóðina. Þeir komu líka flestir vel undan þeirri kreppu sem ríkti í atvinnulífinu árin 1989–1994, þar sem þeir höfðu lánað tiltölulega lítið til fyrirtækja. Einstakir sparisjóðir urðu þó fyrir töluverðum útlánatöpum vegna lána til útgerðar í sinni heimabyggð.

Markaðshlutdeild sparisjóðanna óx verulega á þessu tímabili en jafnframt fækkaði þeim. Árið 1990 voru 34 sparisjóðir starfandi og stór göt komin í landfræðilega dreifingu þeirra. Sem fyrr voru þeir flestir við Eyjafjörð, á Vestfjörðum og í kringum höfuðborgarsvæðið en þeir voru nánast horfnir af Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi vestra og Snæfellsnesi. Í sumum tilvikum stafaði fækkunin af samruna við banka en líka samruna við aðra sparisjóði. Á þessum tíma voru fáir sparisjóðir eftir til sveita en á höfuðborgarsvæðinu voru fjórir sparisjóðir starfandi. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis rak fimm afgreiðslustaði víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og Sparisjóður Hafnarfjarðar, Sparisjóður vélstjóra og Sparisjóður Kópavogs ráku tvær starfsstöðvar hver um sig. Þá rak Sparisjóðurinn í Keflavík útibú í Garði og Njarðvík en það síðarnefnda var opnað árið 1977 og var fyrsta sparisjóðsútibú landsins.75

3. 4. 2 Umsvif sparisjóðanna eftir 1985

Engum blöðum er um það fletta að á Íslandi var ofgnótt fjármálastofnana árið 1990 eftir þriggja áratuga útibúasamkeppni um innlán. Það ár var hlutfall fjármálastarfsemi af heildarvinnuafli hæst á Íslandi af öllum löndum EFTA, að bankalandinu Sviss undanskildu. Kostnaðurinn við rekstur fjármálafyrirtækja endurspeglaðist einnig í því að hér var vaxtamunur hærri en í nágrannalöndunum.76 Með vaxtafrelsi og jákvæðum raunvöxtum höfðu útlánatöp einnig skotið upp kollinum og biðraðir eftir útlánum höfðu styst verulega. Það var keppikefli bankanna á þessum tíma að hagræða í rekstri, fækka starfsfólki og lækka rekstarkostnað. Um leið hlutu bankarnir að taka upp faglegri vinnubrögð við mat á útlánaáhættu þegar neikvæðir raunvextir unnu ekki lengur með lánþegum við endurgreiðslu lána.

Árið 1990 var markaðshlutdeild sparisjóðanna sú sama og Búnaðarbanka Íslands. Stærð og styrk bankastofnana má þó meta út frá fleiri mælistikum en markaðshlutdeild. Á þessum tíma var eigið fé sparisjóðanna 4 milljarðar króna og eigið fé Búnaðarbanka 3 milljarðar króna, Íslandsbanka innan við 4 milljarðar króna og Landsbanka Íslands tæpir 6 milljarðar króna. Sókn sparisjóðanna eftir 1985 sést á hlutdeild þeirra í heildarfjölda bankastarfsmanna og útlánavægi þeirra. Árið 1985 var útlánavægi sparisjóðanna um 10% en hafði hækkað upp í nær 25% árið 1998. Starfsmannavægi þeirra jókst einnig á sama tíma. Árið 1983 fór hlutur sparisjóðanna af mannafla í fjármálakerfinu í fyrsta skipti yfir 10%, yfir 15% í kringum 1990 og 20% árið 2000.

Starfsmannavægi sparisjóðanna fylgdi auknu útlánavægi á árunum 1985 til 1998, sem telja má eðlilegt, en eftir þann tíma hélt starfsmannavægið áfram að aukast þrátt fyrir minna útlánavægi. Sparisjóðirnir héldu síðan áfram að ráða fólk í kappi við bankana þrátt fyrir að útlánavægi þeirra minnkaði hratt næstu ár á eftir. Þess skal getið að bankastarfsmenn urðu nærri 5% af heildarfjölda starfandi á vinnumarkaði þegar mest var árið 2008, eða 3.653 manns, og þar af störfuðu 466 hjá sparisjóðunum samkvæmt tölum Fjármálaeftirlitsins. Aukið starfsmannavægi sparisjóða má sumpart rekja til þess að viðskiptabankarnir drógu sig frá hinum dreifbýlli stöðum. Til að mynda seldi Landsbankinn velflest útibú sín á Vestfjörðum til sparisjóðanna þar árið 2000 til þess að stuðla að hagræðingu. Svo virðist einnig sem sparisjóðirnir hafi þegar leið á tíunda áratuginn reynt að styrkja sig á þeim sviðum sem bankarnir voru þá að reyna að draga sig út af – með því að leggja sífellt meiri mannafla og fjármagn í útibúanet og viðskiptabankastarfsemi.

3. 4. 3 Nýr samkeppnisþrýstingur eftir 1994

Sparisjóðirnir högnuðust verulega á fyrstu stigum frelsisvæðingar á fjármálamarkaði eins og greint er frá hér framar. Hins vegar voru næstu stig þeim ekki eins hagfelld, þegar íslenskur fjármálamarkaður fór að tengjast fjármálamarkaði Evrópu. Íslenskir sparisjóðir voru þar að mörgu leyti í sömu sporum og evrópskir sparisjóðir en eftir að sameiginlegur innri markaður með fjármálaþjónustu var stofnaður þrengdi mjög að þeim. Ísland varð aðili að hinum evrópska fjármálamarkaði með tilkomu EES-samningsins árið 1993 og samhliða var opnað fyrir erlenda fjármagnsflutninga eftir 62 ára hlé.

Fyrstu viðbrögð bankanna þegar fjármagnsviðskipti við útlönd voru gefin frjáls voru að sækja þýska lánsfjármögnun en hjólin tóku að snúast fyrir alvöru eftir 1997 þegar Íslandsbanki fékk sína fyrstu lánshæfiseinkunn, og næsta ár þar á eftir sigldu hinir bankarnir tveir í kjölfarið. Allir bankarnir fengu lánshæfiseinkunnina A3 í upphafi, sem opnaði þeim aðgang að erlendum skuldabréfamörkuðum á mjög góðum kjörum. Á næstu árum sóttu bankarnir gríðarmikið fjármagn á erlenda heildsölumarkaði og endurlánuðu gengistryggt til íslenskra fyrirtækja. Var svo komið árið 2000 að um 50% af fjármögnun íslenskra fyrirtækja voru gengisbundin lán og íslensk innlán voru aðeins um þriðjungur af fjármögnun bankanna þriggja.77 Lánshæfiseinkunn bankanna hélt áfram að hækka og var komin upp í A1 á árinu 2004 (nema hjá Landsbankanum).

Við samþættingu Íslands við evrópskan fjármálamarkað breyttust hvatarnir í bankarekstri. Í gamla haftakerfinu hafði skuldahliðin verið algerlega ríkjandi í starfsemi fjármálastofnana. Hverrar krónu sem lánuð var út þurfti að afla með innlánum og þau voru ekki auðfengin. Þannig skipti sú fjármögnun sem útibúanetið gat skilað höfuðmáli fyrir vöxt og útlán bankans. Á þeim tíma voru útlánatöp ekki vandamál því að neikvæðir raunvextir léttu undir með skuldurum. Með aðgangi að nær ótakmarkaðri erlendri heildsölufjármögnun varð eignahliðin hins vegar ráðandi í bankarekstri. Bankinn ákvað fyrst hve mikið og hverjum hann vildi lána, og síðan var kallað eftir því fjármagni sem þurfti og virtist ávallt vera til reiðu er leitað var eftir því. Þessi áhersla á eignahliðina leiddi til mikils útlánavaxtar og stækkunar efnahagsreikningsins.

Stækkun bankanna, ódýrari fjármögnun og harðari samkeppni leiddi til lækkandi vaxta-munar milli innlána og útlána. Lægri vaxtamunur hlaut að setja þrýsting á tekjusköpun sparisjóðanna. Íslenska fjármálakerfið virtist í auknum mæli snúast um stærðarhagkvæmni þar sem bæði bankarnir og helstu fyrirtæki landsins uxu mjög hröðum skrefum með aukinni skuldsetningu. Á móti kom að bankarnir þrír beittu sér lítið í einstaklingsviðskiptum hérlendis og viðskiptabankastarfsemi var löngum í aukahlutverki. Til að mynda var hin ódýra erlenda heildsölufjármögnun lengst af mjög lítið notuð til einstaklingslána enda voru gengisbundin lán lítill hluti af fjármögnun heimilanna fram til 2006, ef bílalán voru undanskilin. Helsta frávikið frá þessu var sókn bankanna inn á fasteignalánamarkað sem hófst haustið 2004. Margir sparisjóðir höfðu fram að því haft töluverðar tekjur af fasteignalánum á öðrum veðrétti, fyrir aftan lán Íbúðalánasjóðs, sem báru tiltölulega háa vexti. Hins vegar nutu sparisjóðirnir fjármögnunar af hálfu Íbúðalánasjóðs við veitingu fasteignalána á fyrsta veðrétti eftir 2004 og voru því vel samkeppnisfærir við bankana. Í könnunum á þessum tíma voru sparisjóðirnir ávallt með ánægðustu viðskiptavinina og því fór fjarri að flótti væri frá þeim yfir til bankanna.

Fjárfestingarbankastarfsemi skýtur upp kollinum

Áratugurinn 1998–2008 er áratugur fjárfestingarbankastarfsemi hérlendis. Hún skilaði bönkunum þremur miklum hagnaði og setti viðskiptabankastarfsemi þeirra í hálfgert aukahlutverk. Fjárfestingarbankar eiga það sameiginlegt með viðskiptabönkum að sinna fjármálalegri milligöngu. Viðskiptabankar taka við sparifé og finna farvegi fyrir það með útlánum. Sparifjáreigendur leiða ekki sérstaklega hugann að því hver fær fjármuni þeirra lánaða heldur treysta aðeins því loforði bankans að þeir geti ávallt gengið að sparnaði sínum, auk vaxta, þegar þörf krefur. Viðskiptabankar geta gert þetta á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir safna með því að sjá um greiðslukerfi fyrir efnahagslífið. Fjárfestingarbankar sinna hins vegar fjármálalegri milligöngu á markaði með því að leiða saman fjárfesta og frumkvöðla og koma upplýsingum á milli þeirra. Viðskiptabanki hirðir vaxtamun en fjárfestingarbanki innheimtir þóknun fyrir þjónustu sína.

Fjárfestingarbankastarfsemi bankanna þriggja var í raun utan við starfssvið sparisjóðanna. Hún snerti þá ekki með beinum hætti nema að því leyti að margir sparisjóðir voru eigendur að Kaupþingi, og síðar Exista, og nutu því góðs af hækkun hlutabréfa þeirra fjármálafyrirtækja sem voru fyrst og fremst í fjárfestingarbankastarfsemi. Samkeppni bankanna við sparisjóðina var því takmörkuð og að einhverju leyti gátu sparisjóðirnir starfað í skjóli útrásarinnar. Bankarnir höfðu stóra viðskiptavini í sigtinu og hugðu á erlenda landvinninga en íslensk viðskiptabankastarfsemi var afgangsstærð.

Hins vegar virtist fjárfestingarbankalíkanið hafa gríðarlegt aðdráttarafl fyrir ýmsa forystumenn sparisjóðanna og er kom fram yfir 2006 virtist það vera forgangsmál fyrir marga sparisjóði að þreifa sig áfram með fjárfestingarbankastarfsemi og útrásarverkefni af ýmsum toga. Þetta fór saman við hugmyndir um hlutafélagsvæðingu sparisjóða og skráningu þeirra á markað. Á árunum 2003–2008 freistuðu ýmsir af helstu sparisjóðum landsins þess að taka upp viðskiptalíkan íslensku bankanna, sem byggðist á fjárfestingarbankastarfsemi, erlendri heildsölufjármögnun og mjög hröðum vexti efnahagsreiknings.

Eftir 2006 fóru bankarnir að draga sig í hlé á fasteignalánamarkaði þegar teikn voru á lofti um verulega ofhitnun á húsnæðismarkaðinum. Sparisjóðirnir gripu þá tækifærið til þess að auka markaðshlutdeild sína með fulltingi Íbúðalánasjóðs og tóku einnig að lána verktökum sem bankarnir höfðu neitað. Kólnun efnahagslífsins og fasteignamarkaðarins kom því mjög illa við vígreifustu sjóðina sem sumir hverjir voru þegar komnir í alvarleg greiðsluvandræði haustið 2008.

3.5 Sparisjóðir við aldahvörf

Þegar litið er á rekstrarsögu sparisjóðanna frá stofnun þeirra sést að hlutdeild þeirra í íslensku hagkerfi var nokkuð stöðug fram til ársins 2008. Þeir sáu yfirleitt um 10–15% af öllum útlánum og innlánum. Sjóðirnir hafa þó ekki alltaf staðið á sömu markaðssyllu. Framan af sáu þeir fyrst og fremst um fjármálaþjónustu í dreifbýli og fyrir hina tekjulægri í minni þéttbýlisstöðum landsins. Þetta er í takt við hefðbundið hlutverk sparisjóða í Evrópu sem helgaðist af því að bankar sniðgengu dreifbýlinga og tekjulága. Þetta breyttist á Íslandi eftir 1960 þegar baráttan um innlánin hófst fyrir alvöru og ríkisbankarnir þrír stofnuðu ný útibú víða um landið og ruddu sparisjóðunum úr vegi. Sparisjóðirnir fundu sér þá aðra syllu sem fólst í því að veita góða einstaklingsþjónustu í þéttbýli, sem ríkisbankarnir þrír sýndu minni áhuga. Um 1980 var svo komið að sparisjóðir voru heldur atkvæðalitlir í dreifbýli en höfðu hins vegar náð að byggja upp mjög öfluga starfsemi á helstu þéttbýlisstöðum landsins. Þessi góða markaðsstaða í þéttbýli kom sparisjóðunum síðan vel þegar losna tók um böndin á fjármálamarkaði eftir 1980. Þá varð einstaklingsþjónusta mikil vaxtargrein í fjármálaþjónustu hérlendis á sama tíma og kerfisbreytingar í fyrirtækjarekstri ollu miklum útlánatöpum hjá bönkunum. Níundi áratugur tuttugustu aldar var því mikill uppgangstími fyrir sparisjóðina og á þeim tíma tvöfölduðu þeir markaðshlutdeild sína.

Íslenskir sparisjóðir voru því tiltölulega vel staddir þegar Ísland varð hluti af evrópskum fjármagnsmarkaði með samningi um evrópskt efnahagssvæði árið 1993. Þeir voru vel fjármagnaðir og stóðu traustum fótum í viðskiptabankastarfsemi sinni og nutu bæði tryggðar og ánægju viðskiptavina sinna. Sparisjóðirnir hlutu að tapa markaðshlutdeild þegar sókn bankanna hófst fyrir alvöru eftir 1998, en á þeim tíma voru þeir með um 25% hlutdeild innlána og útlána. Hins vegar bendir allt til þess að sjóðirnir hefðu aftur getað farið í fyrra far með 10–15% markaðshlutdeild á fjármálamarkaði og með því að leggja áherslu á að veita góða persónulega þjónustu og að þjóna hinum dreifðu byggðum. Áherslur bankanna á fjárfestingarbankastarfsemi, landvinninga í útlöndum og þjónustu við stóra viðskiptavini hefðu átt að verða til þess að skilja þennan hluta markaðarins eftir fyrir sparisjóðina. Sparisjóðirnir voru einnig fjárhagslega sterkir og með tryggan viðskiptamannahóp.

Tilvistarvandi sparisjóðanna virðist hafa komið að innan.78 Ýmsir innan sparisjóðakerfisins vildu í raun og veru yfirgefa gamla sparisjóðalíkanið og breyta stofnunum sínum í alhliða banka að fyrirmynd bankanna þriggja. Ef til vill var þetta skynsamleg afstaða og í samræmi við þróunina erlendis þar sem sparisjóðir hafa horfið algerlega af sjónarsviðinu í mörgum löndum Evrópu. Það sem rekið hefur þessa þróun áfram ytra er fyrst og fremst hagræðing og samkeppni frá venjulegum bönkum í viðskiptabankaþjónustu.

Eftir mikinn uppgang á níunda og tíunda áratug tuttugustu aldar voru sparisjóðirnir komnir með 25% markaðshlutdeild sem þeir vildu ógjarnan gefa eftir. Um leið og bankarnir náðu vopnum sínum eftir 1998 tók að þrengja að sparisjóðunum vegna minni vaxtamunar og minnkandi markaðshlutdeildar. Til þess að halda tryggð við gamla sparisjóðalíkanið við þær aðstæður hefði þurft mikið aðhald og raunar niðurskurð í kostnaði svo hægt væri að halda viðunandi framlegð í viðskiptabankastarfsemi á sama tíma og vaxtatekjur drógust saman. Þá leið vildu margir stjórnenda sparisjóðanna ekki fara. Þess í stað átti að afla nýrra tekna með auknum útlánum eða fjárfestingarbankastarfsemi.

Færa má rök fyrir því að starfsrými sparisjóða í íslenskri fjármálasögu hafi oltið á þeim ramma sem bönkunum var markaður og á því hvernig þeir beittu sér. Sparisjóðirnir hafa átt tvö sóknarskeið: Hið fyrra á nítjándu öldinni allt fram til stofnunar Íslandsbanka árið 1904 og hið síðara eftir afnám fjármagnshafta árið 1985. Þessi tvö sóknarskeið eiga það sammerkt að þá voru bankar ekki til staðar eða voru verulega heftir og gríðarlegur vöxtur var í einstaklingsviðskiptum. Bæði þessi sóknarskeið enduðu þegar bankar studdir erlendu heildsölufjármagni yfirtóku fjármagnsmarkaðinn. Það gerðist með tilkomu Íslandsbanka árið 1904 og með því að bankarnir þrír komust allir í einkaeigu og fengu hátt lánshæfismat eftir 1998. Framrás bankanna endaði í bæði skiptin hrapallega sem kunnugt er; í fyrra skiptið með gjaldþroti Íslandsbanka 1930 og í síðara skiptið með þriggja banka gjaldþroti 2008.

Í báðum tilvikum var það mjög freistandi fyrir sparisjóðina að hlaupa á eftir bönkunum með miklum vexti og áhættutöku. Í bæði skiptin féllu einhverjir þeirra í freistni, og það hefndi sín illilega. Þetta átti til að mynda við um Sparisjóð Árnessýslu sem fimmfaldaði eignir sínar, einkum með kaupum á víxlum, á árunum 1911–1919, en á því ári voru eignir sjóðsins um 30% af heildareignum allra sparisjóða hérlendis. Sparisjóður Árnessýslu lenti síðan í verulegri fjárþröng árið 1925 og rann inn í Landsbankann eftir nauðasamninga sem fólu í sér 25% tap fyrir innistæðueigendur.79 Í upphafi þessarar aldar varð það hlutskipti helstu sparisjóða landsins að deila örlögum með Sparisjóði Árnessýslu og renna inn í bankana.

Eflaust má deila um hvort útkoman hafi verið góð eða slæm fyrir íslenskt fjármálakerfi til framtíðar. Það er augljóst að mun minni mannafla og fjármuni þarf til að veita sömu þjónustu og áður eftir yfirtöku Arion banka á Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Íslandsbanka á Byr og Landsbankans á Sparisjóðnum í Keflavík. Á sama tíma er erfitt að benda á einhverja hópa sem lokuðust úti án fjármálaþjónustu við hvarf þessara stóru sparisjóða sem allir störfuðu í þéttbýli.

Þörfin fyrir tilvist og þjónustu sparisjóða er ekki sjálfgefin. Hún skapaðist upphaflega vegna þess að bankar sinntu lítt fjármálaþjónustu fyrir dreifbýlinga og tekjulægri einstaklinga. Grunnfjármálaþjónusta er nú orðin opin, tæknivædd og næsta sjálfsögð fyrir allan þorra almennings og verður vart séð að mikill skortur sé á almennri fjármálaþjónustu á Íslandi. Því hefur verið haldið fram að hefðbundin greiðsluþjónusta og efnahagsreikningsfrek útlánastarfsemi sé vart lengur á færi smárra fjármálastofnana sökum aukinnar stærðarhagkvæmni og strangara regluverks. Á hinn bóginn verður einnig að líta til annarra þátta. Óvíst er hvort bankarnir geti eða vilji sinna lánaþörf einstaklinga og smærri fyrirtækja í dreifbýli, þar sem verðmæti fasteigna eða annarra veða sem hægt er að bjóða er minna en annars staðar. Þá kunna sparisjóðirnir að hafa öðru og mikilvægu hlutverki að gegna á starfssvæði sínu umfram það að vera fjármálafyrirtæki.

1 . Karl Erich Born, Bankar og peningar á 20. öld, Reykjavík 1991, bls. 76–78.

2 . Sjá t.d. Reinhard H. Schmidt, „The Political Debate About Savings Banks“, Schmalenbach Business Review, 61. árg. (október 2009), bls. 366–392.

3 . Sjá t.d. Olivier Butzbach, Perspectives 54: Varieties within capitalism? The modernisation of French and Italian savings banks, 1980–2000, Brussel 2007.

4 . Með því er átt við að annar aðilinn í viðskiptum býr yfir meiri upplýsingum en hinn.

5 . Sjá E.P.M. Gardener, P. Molyneux, J. Williams og S. Carbo, „European savings banks: Facing up to the new environment“, International Journal of Bank Marketing, 7. tbl. 15. árg. (1997), bls. 243–254.

6 . Sjá Olivier Butzbach, Perspectives 54: Varieties within capitalism? The modernisation of French and Italian savings banks, 1980–2000, Brussel 2007.

7 . Viðmiðið hér var að frönsku sparisjóðirnir færðust nær því sem kallast „Credit union“ þar sem innlánahafar eru jafnframt eigendur sjóðsins. Sjá Donald J. Smith, Thomas F. Cargill og Robert A. Meyer, „Credit unions: An economic theory of a credit union“, The Journal of Finance, 2. tbl. 36. árg. (1981), bls. 519–528.

8 . Sjá Olivier Butzbach, Perspectives 54: Varieties within capitalism? The modernisation of French and Italian savings banks, 1980–2000, Brussel 2007.

9 . Sjá Perspectives 63: 200 years of savings banks – A strong and lasting business model for responsible, regional retail banking, Brussel 2011.

10 . Beat Balzli, Christoph Pauly og Wolfgang Reuter, „Germany’s latest banking crisis: Will savings banks be the next casualties?“, Der Spiegel Online 27. maí 2009.

11 . „Torben Nielsens tale ved åbningen af Dansk Pengemuseums særudstilling“, 11. febrúar 2010, nationalbanken.dk/DNDK/Presse.nsf/side/Torben_Nielsens_tale_ved_aabningen_af_Dansk_Pengemuseums_saerudstilling!OpenDocument.

12 . Gunnar Karlsson, „Fyrsti sparisjóður á Íslandi?“, Afmælisrit Björns Sigfússonar, Reykjavík 1975, bls. 88.

13 . Ólafur Björnsson, Saga Íslandsbanka hf. og Útvegsbanka Íslands 1904–1980, Reykjavík 1981, bls. 11–12.

14 . Guðmundur Jónsson, „Myndun fjármálakerfis á Íslandi“, Rætur Íslandsbanka: 100 ára fjármálasaga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson, Reykjavík 2004, bls. 11–12.

15 . „Um fjárhag Íslands“, Ný félagsrit 10. árg. (1850), bls. 77.

16 . Gunnar Karlsson, „Fyrsti sparisjóður á Íslandi?“, Afmælisrit Björns Sigfússonar, Reykjavík 1975, bls. 82–98.

17 . Snorri Þorsteinsson, Sparisjóður í 90 ár: Saga Sparisjóðs Mýrasýslu 1913–2003, Borgarnesi 2003.

18 . Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur: Bærinn vaknar, 1870–1940, fyrri hluti, Reykjavík 1991, bls. 86–87.

19 . Friðrik G. Olgeirsson, Sparisjóður í 80 ár: Saga Sparisjóðs Ólafsfjarðar 1914–1994, Ólafsfjörður 1994, bls. 18.

20 . Björn Ingólfsson, Bankinn í sveitinni: Sparisjóður Höfðhverfinga 1879–2004, Akureyri 2005, bls. 24–25.

21 . Jón Þ. Þór, „Árabáta- og skútuöld“, Sjósókn og sjávarfang: Saga sjávarútvegs á Íslandi, Akureyri 2002, bls. 182.

22 . Eysteinn Sigurðsson, Samvinnuhreyfingin á Íslandi, Akureyri 1978, bls. 14, 57, 61–62.

23 . Friðrik G. Olgeirsson, Sparisjóður í 80 ár: Saga Sparisjóðs Ólafsfjarðar 1914–1994, Ólafsfjörður 1994, bls. 35.

24 . Ásgeir Guðmundsson, Sparisjóður Hafnarfjarðar í 100 ár, Hafnarfjörður 2005, bls. 31.

25 . Friðjón Þórðarson, Sparisjóður Dalasýslu: Aldahvörf, Dalabyggð 1995, bls. 27.

26 . Björn Ingólfsson, Bankinn í sveitinni: Sparisjóður Höfðhverfinga 1879–2004, Akureyri 2005, bls. 49–52.

27 . Síðar, eftir að ábyrgðarmannafyrirkomulagið var lagt niður, breyttist þetta þannig að eigið fé samanstóð þaðan í frá af stofnfé og varasjóði.

28 . Snorri Þorsteinsson, Sparisjóður í 90 ár: Saga Sparisjóðs Mýrasýslu 1913–2003, Borgarnesi 2003, bls. 49–50.

29 . Hér er átt við bókfært eigið fé sem hlutfall af heildareignum, ekki svonefnt CAD-hlutfall sem síðar kom til.

30 . Hagskýrslur Íslands 62: Sparisjóðir árin 1911–1925, 1929, bls. 18.

31 . Ásgeir Guðmundsson, Sparisjóður Hafnarfjarðar í 100 ár, Hafnarfjörður 2005, bls. 77.

32 . Ásgeir Guðmundsson, Sparisjóður Hafnarfjarðar í 100 ár, Hafnarfjörður 2005, bls. 98.

33 . Ólafur A. Þorsteinsson, Jón Tómasson og Skafti Friðfinnsson, Sparisjóðurinn í Keflavík 75 ára: Afmælisrit, Keflavík 1982, bls. 89.

34 . Ólafur A. Þorsteinsson, Jón Tómasson og Skafti Friðfinnsson, Sparisjóðurinn í Keflavík 75 ára: Afmælisrit, Keflavík 1982, bls. 74.

35 . Ólafur Björnsson og Gunnar Viðar, Landsbanki Íslands 75 ára, Reykjavík 1961, bls. 14.

36 . Ásgeir Jónsson, „Um framþróun íslenska bankakerfisins“, Jólablað Vísbendingar (2004), bls. 22–26.

37 . Victoria Chick, The evolution of the banking system and the theory of saving, investment and interest, Cheltenham 1996, bls. 193–295.

38 . M3 er skilgreint sem seðlar og mynt í umferð, auk allra bankainnistæðna sem hafa styttri binditíma en 2 ár. Hlutfall M3 á móti landsframleiðslu er oft notað sem mælikvarði á fjármálalega framþróun ríkja, það er hvort bankakerfið sé traust og gegni raunverulegu hlutverki í miðlun fjármagns milli sparifjáreigenda og fyrirtækja.

39 . Smári Geirsson, Sparisjóður í 70 ár: Saga Sparisjóðs Norðfjarðar 1920–1990, Norðfjörður 1992, bls. 31.

40 . Hagskýrslur Íslands 62: Sparisjóðir árin 1911–1925, 1929, bls. 7–8.

41 . Smári Geirsson, Sparisjóður í 70 ár: Saga Sparisjóðs Norðfjarðar 1920–1990, Norðfjörður 1992, bls. 31.

42 . Ásgeir Guðmundsson, Sparisjóður Hafnarfjarðar í 100 ár, Hafnarfjörður 2005, bls. 67.

43 . Hagskýrslur Íslands 62: Sparisjóðir árin 1911–1925, 1929.

44 . Hagskýrslur Íslands 62: Sparisjóðir árin 1911–1925, 1929.

45 . Vífill Karlsson, Transportation improvement and interregional migration, doktorsritgerð við Háskóla Íslands, 2012, bls. 28.

46 . Snorri Þorsteinsson, Sparisjóður í 90 ár: Saga Sparisjóðs Mýrasýslu 1913–2003, Borgarnesi 2003, bls. 24.

47 . Guðmundur Jónsson, „Myndun fjármálakerfis á Íslandi“, Rætur Íslandsbanka: 100 ára fjármálasaga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson, Reykjavík 2004, bls. 37–43.

48 . Bjarni Bragi Jónsson, Verðtrygging lánsfjármagns og vaxtastefna á Íslandi, 1998, bls. 36–38.

49 . Ólafur Björnsson, Saga Íslandsbanka hf. og Útvegsbanka Íslands 1904–1980, Reykjavík 1981, bls. 82–90.

50 . Smári Geirsson, Sparisjóður í 70 ár: Saga Sparisjóðs Norðfjarðar 1920–1990, Norðfjörður 1992, bls. 121.

51 . Sigurður Pétursson, Aldarsaga Sparisjóðs Bolungarvíkur 1908–2008, Ísafjörður 2009, bls. 40.

52 . Smári Geirsson, Sparisjóður í 70 ár: Saga Sparisjóðs Norðfjarðar 1920–1990, Norðfjörður 1992, bls. 123–127.

53 . Friðrik G. Olgeirsson, Sparisjóður í 80 ár: Saga Sparisjóðs Ólafsfjarðar 1914–1994, Ólafsfjörður 1994, bls. 74–75.

54 . Ásgeir Guðmundsson, Sparisjóður Hafnarfjarðar í 100 ár, Hafnarfjörður 2005, bls. 52, 78.

55 . Friðjón Þórðarson, Sparisjóður Dalasýslu: Aldahvörf, Dalabyggð 1995, bls. 40–41.

56 . Höskuldur Ólafsson, „Samkeppnin jók þjónustuna við verslunina“, Rætur Íslandsbanka: 100 ára fjármálasaga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson, Reykjavík 2004, bls. 253–255.

57 . Ólafur S. Valdimarsson, „Sparisjóðirnir 1961“, Fjármálatíðindi 1. tbl. 10. árg. (1963).

58 . Ólafur S. Valdimarsson, „Sparisjóðirnir 1961“, Fjármálatíðindi 1. tbl. 10. árg. (1963).

59 . Kauptún nefndust þéttbýlisstaðir með yfir 300 íbúa, sem ekki höfðu kaupstaðarréttindi.

60 . Ólafur S. Valdimarsson, „Sparisjóðirnir 1961“, Fjármálatíðindi 1. tbl. 10. árg. (1963).

61 . Ólafur S. Valdimarsson, „Sparisjóðirnir 1961“, Fjármálatíðindi 1. tbl. 10. árg. (1963), bls. 44–46.

62 . Ólafur S. Valdimarsson, „Sparisjóðirnir 1961“, Fjármálatíðindi 1. tbl. 10. árg. (1963).

63 . Bjarni Bragi Jónsson, Verðtrygging lánsfjármagns og vaxtastefna á Íslandi, 1998, bls. 36–38.

64 . Jónas H. Haralz, „Hefðir og umbreyting – Landsbanki Íslands 1969–1988“, Tímarit um viðskipti og efnahagsmál (2007), bls. 17–20.

65 . Lög nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl.

66 . Ásgeir Jónsson, Sigurður Jóhannesson og Valdimar Ármann, Nauðsyn eða val? Verðtrygging, vextir og verðbólga, 2012, bls. 27–29.

67 . Jónas H. Haralz, „Hefðir og umbreyting – Landsbanki Íslands 1969–1988“, Tímarit um viðskipti og efnahagsmál (2007), bls. 17–20.

68 . Munurinn á afgreiðslustöðum og útibúum felst í því að hvert útibú getur haft marga afgreiðslustaði eins og sjá má m.a. í skýrslum Fjármálaeftirlitsins og í ársreikningum lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Svo dæmi sé tekið var Kaupþing banki með eitt útibú á Sauðárkróki árið 2004 en þrír afgreiðslustaðir tilheyrðu útibúinu (á Sauðárkróki, í Varmahlíð og á Hofsósi).

69 . Hér er sagt „að minnsta kosti“ því heimildin (Símaskrá) er þannig uppbyggð að fjöldi afgreiðslustaða gæti verið vantalinn ef símanúmer þeirra eru tiltekin undir viðkomandi útibúum.

70 . Valur Valsson, „Úr skömmtun í samkeppni“, Rætur Íslandsbanka: 100 ára fjármálasaga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson, Reykjavík 2004, bls. 222.

71 . Valur Valsson, „Úr skömmtun í samkeppni“, Rætur Íslandsbanka: 100 ára fjármálasaga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson, Reykjavík 2004, bls. 222–223.

72 . Höskuldur Ólafsson, „Samkeppnin jók þjónustuna við verslunina“, Rætur Íslandsbanka: 100 ára fjármálasaga, ritstj. Eggert Þór Bernharðsson, Reykjavík 2004, bls. 266–267.

73 . Magnús S. Magnússon, „Efnahagsþróun á Íslandi 1880–1990“, Íslensk þjóðfélagsþróun 1880–1990, Reykjavík 1993, bls. 170.

74 . Ásgeir Jónsson, Why Iceland?, New York 2009.

75 . „Sparisjóðurinn í Njarðvík flytur í nýtt húsnæði“, Morgunblaðið 3. maí 1985, bls. 14.

76 . Sjá Ólafur Hjálmarsson, „Um vaxtamun banka og sparisjóða“, Af vettvangi 1. tbl. 5. árg. (1992).

77 . Ásgeir Jónsson, Why Iceland?, New York 2009, bls. 35–42.

78 . Sjá nánari umfjöllun í 5. kafla, um samstarf sparisjóðanna.

79 . Hagskýrslur Íslands 62: Sparisjóðir árin 1911–1925, 1929.